Minning um Blíðu

blidahvolpurein05 (Medium) Blíða var eftirminnilegur hundur. Fáir hundar voru ljúfari eða skemmtilegri ef því var að skipta - og fáir hundar voru sjálfstæðari og fyrirferðarmeiri þegar sá gállinn var á henni. Eins og allir eftirminnilegir persónuleikar gerði hún kröfur til eigenda sinna, lét vita af sér, en var eins og hugur manns þess á milli. Hún var ekki allra. En við náðum vel saman, ég og hún.

Blíða var þjálfuð sem ollyogblida07 (Medium)björgunarhundur í tvö ár. Hún tók C-próf í vetrarleit vorið 2007, þá eins og hálfs árs gömul. Henni gekk vel í leitarþjálfuninni framan af, en svo kom í ljóst að hún var ekki nógu sterk fyrir þessa þjálfun. Hún fór að veikjast ítrekað á æfingum og sýna ýmis merki þess að ráða ekki við verkefnið. Síðastliðið sumar lauk hún ferli sínum sjálf með eftirminnilegum hætti þegar hún beinlínis fór í "verkfall" á miðju námskeiði og var ekki æfð meira eftir það. Embarassed P1000530 (Medium)

Ég fékk mér annan hund til að þjálfa - hvolpinn Skutul sem nú er ársgamall. Blíða aðstoðaði mig við uppeldið á honum og gerði það vel. Hún kenndi honum að hlýða manninum og var honum framan af sem besta móðir. En svo óx hann henni yfir höfuð, og samkomulagið versnaði.

Loks varð ég að láta hana frá mér - það gekk ekki að hafa tvo ráðríka hunda á heimilinu, þar af annan í vandasamri þjálfun sem krafðist allrar minnar athygli.

Hún fékk gott heimili norður í Skagafirði hjá fólki sem hafði átt bróður hennar en misst hann fyrir bíl. Þau tóku Blíðu að sér, og í fyrstu gekk allt vel. En það var annar hundur á heimilinu og þeim samdi aldrei. Hún varð taugaveikluð og óörugg um stöðu sína, gelti meira en góðu hófi gegndi, og þetta gekk einfaldlega ekki upp. Þegar hún svo sýndi sig í því að urra að barnabarninu í fjölskyldunni, var ákveðið að láta hana fara. Ég skil þá ákvörðun, og úr því ég gat ekki tekið við henni aftur var betra að láta hana sofna en vita af henni á flakki milli eigenda.

Nú hvílir hún við hlið bróður síns norður í Skagafirði.

Já, Blíða var eftirminnilegur hundur. Á góðum stundum

Bilferd (Medium)

 

var hún mikill félagi og engan hund hef ég séð fegurri á hlaupum en hana. Þannig geymi ég mynd hennar í huga mér, og sé hana nú í anda hlaupa tignarlegri en nokkru sinni fyrr um gresjurnar á hinum eilífu veiðilendum.

Blessuð sé minning Blíðu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Aumingja Blíða...samúðarkveðja Ólína mín.

Ragnheiður , 12.7.2009 kl. 23:47

2 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Hlýjar kveðjur Ólína,  þetta skil ég vel.

Gutti okkar (írskur setter) var 15 ára, þegar við nauðug urðum að leysa hann frá líkamlegum þjáningum.  Það voru erfið spor. 

Hundlaust líf er lífstíll sem mig langar ekki að stunda lengi, svo vonandi verður gerð bragarbót á því fljótlega.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 12.7.2009 kl. 23:51

3 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

Í minni bók ertu algjör ofurkona að stunda þessa erfiðu þjálfun með Skutli og áður með Blíðu. Ég þekki reyndar aðra konu sem stundar (stundaði?) þetta líka. Ég öfunda þig bara talsvert af þessum krafti. Varstu ekki í hrossunum líka?

En ég er líka í hundunum og á m.a. border collie tík. Við höfum verið dálítið í tómstundaþjálfun svo sem framhaldsnámsskeiðum í hlýðni, sporarakningu, smalanámsskeiði og hundfimi. Þetta er yndislegt hobby bæði fyrir mann og hund. Ég hef líka þurft að láta svæfa hund. Það tók á.

Gangi ykkur allt í haginn.

Guðl. Gauti Jónsson, 13.7.2009 kl. 01:42

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Æ... samhryggist innilega! 

Lára Hanna Einarsdóttir, 13.7.2009 kl. 02:11

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég verð nú bara sorgmæddur að lesa svona. En orðstír deyr aldregi!

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.7.2009 kl. 10:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband