Allt á öðrum endanum!

Jæja, þá er húsið mitt á Framnesveginum að komast í samt lag aftur eftir sex vikna umsátursástand hers af iðnaðarmönnum: Smiðum, pípurum, málurum og altmúlígmönnum. Þetta hefur auðvitað verið skelfilegt ástand, eftir að í ljós komu vatns og rakaskemmdir sem gera þurfti við. Svo fór af stað einhverskonar keðjuverkun - því þegar eitt er lagað blasir annað við sem gera má "í leiðinni" (þið þekkið þetta kannski).

Fyrstu þrjár vikurnar reyndi ég að búa í húsinu - svo gafst ég upp og fékk inni hjá systur minni elskulegri. Hún lánaði mér íbúðina sína í Hlíðunum sem var blessunarlega mannlaus um tíma. Það kom sér sannarlega vel að geta flúið í skjól undan hamarshöggum og saggalykt.

Daginn eftir að ég var komin í skjólið hjá systur, hringdi dyrabjallan. Á tröppunum stóðu þrír  vörpulegir iðnaðarmenn Undecided  komnir til að gera við baðherbergið.  Mér varð um og ó - en þeir stoppuðu nú stutt við blessaðir.

Meðan á öllu þessu hefur staðið hef ég verið að setja mig inn í allar aðstæður í þinginu - búandi hálfpartinn í ferðatösku. Og nú um helgina náði óreiðan hámarki - því um leið og húsið var að verða tilbúið, tók við hver viðburðurinn á fætur öðrum. Allt hefur það þó verið fagnaðarefni: Pétur sonur minn að útskrifast úr HR, afmæli eiginmannsins og barnabarnsins, stórafmæli hjá góðum vini og ýmislegt annað. Svona er þetta svo oft í lífinu - ef það kemst hreyfing á hlutina á annað borð, þá fer einhvernvegin allt af stað.

En sumsé, nú er ég komin með nýtt hús! Bara frágangsatriðin eftir. Siggi kominn suður og fer nú um húsið vopnaður borvél, hamri og skrúfjárni - bara ansi verklegur. InLove

Ég er auðvitað alsæl í augnablikinu - enda er reikningurinn fyrir herlegheitunum ekki kominn. Wink

 En nú má ég ekki vera að því að hangsa hér - er farin að skúra og gera  hreint.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Ég vona að það fari vel um þig í "nýja" húsinu. Ég hef verið að hraðlesa fram og aftur hér hjá þér, vinnan hefur verið að trufla mig.

Í tilefni af skuggahlið bloggsins langar mig að hvetja þig til að loka ekki á athugasemdir heldur loka bara á viðkomandi dónaprik, það er alveg hörmulega leiðinlegt að lesa hugsanir, skoðanir og viðhorf þingmanna á einstefnu síðum. Ég nenni því ekki.

Gangi þér áfram vel á þinginu, ég hef trú á þér..!

Ragnheiður , 14.6.2009 kl. 14:27

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Segi sama og Ragga, ekki loka á kommentakerfið, maður les ekki svoleiðis síður. Til lukku með íbúðina.

Ásdís Sigurðardóttir, 15.6.2009 kl. 19:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband