Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Var þá ekkert jákvætt?

Í upphafi þessarar fréttar segir að ýmislegt hafi eftirlitsnefnd ÖSE þótt "með ágætum" í framkvæmd síðustu Alþingiskosninga. Síðan les maður áfram og les um ágallana sem ræddir eru í skýrslunni. Vissulega þurfum við að horfa til þess sem betur má fara. Rétt er það,  en .... það kemur hvergi fram í þessari frétt hvað  það var sem var með svo miklum "ágætum".

Af hverju ekki? Angry

Satt að segja finnst mér þetta lýsa umræðunni í samfélaginu betur en flest annað - hér er  allt sogað niður í hyldýpi neikvæðninnar.  

Ég vil fá að vita hvað var jákvætt í þessari  ÖSE skýrslu. Fyrst þar var eitthvað jákvætt, þá vil ég sem almennur íslenskur lesandi fá að sjá það! 

I rest my case.

 


mbl.is Atkvæðavægi átalið af eftirlitsnefnd ÖSE
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ónákvæmni eða "hyldýpismisskilningur"

Nýjasta útspilið í Ice-save umræðunni er fullyrðing lögmannsins Ragnars Hall um að Íslendingar hafi undirgengist að greiða "lögmannskostnað" fyrir Breta upp á tvo milljarða króna sem íslenska ríkið muni ábyrgjast samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar (sjá t.d. hér). Vísaði lögmaðurinn í sérstakan "uppgjörssamning" sem hann kvaðst að vísu ekki geta "lýst því nákvæmlega" í hverju fælist, en þar inni væru kröfur sem hann "hefði aldrei órað fyrir því að hægt væri að setja fram".

Þessi málfutningur lögmannsins varð fyrr í dag tilefni umræðna í þingsal, sem við mátti búast (sjá hér).

Í máli formanns fjárlaganefndar kom fram að skjalið sem hér um ræðir nefnist "Settlement Agreement" og er dagsett 5. júní 2009. Það er fyrsta skjalið í möppunni stóru með Ice-save skjölunum á þingloftinu. 

Ég hafði upp á skjalinu og fann ákvæðið sem lögmaðurinn gerði að umtalsefni "án þess þó að geta lýst því nákvæmlega".  Ákvæðið er í lið 3.1 og hljóðar svo:

 FSCS [Financial Services Compensation Scheme Limited] may submit (on behalf of TIF [Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta] one Disbursement Request for £ 10.000.000 (ten million pounds) in respect of the costs incurred or to be incurred by FSCS in the handling and payment of compensation to depositors with the UK Branc and in dealing with related matters including, without limitation, recoveries and any disputes which may result.

Þetta ákvæði skil ég sem svo að Íslendingar fallist á að standa straum af tilfallandi kostnaði við umsýslu og afgreiðslu á endurgreiðslum til innistæðueigenda Ice-save reikninganna.

Í fljótu bragði virðist þetta því vera ofur eðlilegt ákvæði um að Íslendingar muni sjálfir standa straum af umstanginu við að endurgreiða viðskiptavinum Ice-save. 

Nú hefur fjármálaráðherra staðfest þennan skilning - væntanlega að höfðu samráði við færustu lögfræðinga. Búast má við að ýmsum létti við það. 

Um leið hlýtur ónákvæmni hæstaréttarlögmannsins að vekja umhugsun. Því miður er þetta ekki í fyrsta sinn sem Ragnar Hall gerist sekur um ónákvæmni sem skipt getur sköpum í málum sem hann hefur komið að (sbr. hér).


mbl.is Ekki minnst á lögfræðikostnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þinghlé skapar svigrúm fyrir Icesave-málið

Ice-save samningurinn er eitt þyngsta mál sem komið hefur til kasta Alþingis í lýðveldissögunni.  Nú ríður á að vinna málið af þeirri vandvirkni sem það verðskuldar, og ná því upp úr farvegi áróðurs og æsingakenndrar umræðu.

Sú ákvörðun að fresta nú þinghaldi um eina viku og gefa fjárlaganefnd þar með svigrúm til þess að vinna Ice-save málið sem best úr garði nefndarinnar, verður vonandi til þess að ná málinu upp úr skotgröfunum og yfir í farveg ábyrgari umræðu en verið hefur.

 Við Birgir Ármannsson ræddum þetta og fleira tengt Ice-save og störfum þingsins á Morgunvaktinni í morgun (hlusta hér).

 


mbl.is Rýnir í gögn vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kennitöluflakk

Það er vissulega umhugsunarefni að nýju bankarnir skuli þegjandi og hljóðalaust leggja blessun sína yfir kennitöluflakk stórskuldugra sjávarútvegsfyrirtækja eins og fréttir hafa verið um að undanförnu. Fyrr í vor var greint frá kennitölubreytingum sjávarútvegsfyrirtækis á Snæfellsnesi, nú um helgina var sagt frá kennitölubreytingum stórskuldugs sjávarútvegsfyrirtækis á Vestfjörðum. Fram kom að breytingin var gerð með vitund og samþykki Nýja Landsbankans og Íslandsbanka. Gjörningurinn þýðir að eignir og rekstur eru flutt yfir á nýja kennitölu - skuldirnar verða eftir á þeirri gömlu.

 Þetta eru ekki vinnubrögðin sem þjóðin vænti af nýju bönkunum, þori ég að fullyrða. Því beindi ég þeirri fyrirspurn til viðskiptaráðherra í fyrirspurnartíma í morgun hvort stjórnvöld hafi sett stjórnum nýju bankanna reglur eða stefnu að vinna eftir varðandi kennitöluskipti skuldugra fyrirtækja. Í máli viðskiptaráðherra kom fram að svo er ekki - það er miður, enda augljóst að þess gerist nú full þörf. Nýju bankarnir eru nú reknir á ábyrgð hins opinbera sem skipar þeim stjórnir, og því ættu að vera hæg heimatökin að móta siðareglur eða önnur ásættanleg viðmið í þessu efni.

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20090713T152015&horfa=1


mbl.is Engar reglur um kennitöluflakk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig úthafsrækja verður að þorski

sjomadur Framkvæmdastjóri LÍÚ sakar mig um þekkingarskort þegar ég held því fram að braskað sé með úthafsrækju þannig að hún geti orðið að þorski.

Málið hefur verið til umræðu á Morgunvaktinni á Rás-2 tvo undanfarna morgna, þar sem ég og Friðrik J. Arngrímsson höfum verið viðmælendur sitt hvorn daginn. Framkvæmdastjóri útvegsmanna reyndi að snúa sig út úr  gagnrýni á braskið í kvótakerfinu með því að veitast að þeim sem bera hana á borð, gera lítið úr þekkingu þeirra, saka þá um annarleg sjónarmið o.s.frv. Hann um það.

Nú ætla ég að útskýra hvernig úthafsrækja getur orðið að þorski.

Útgerðir hafa leyfi til þess að leigja til sín og frá sér kvóta. Þær geta einnig geymt kvóta og fært hann milli tegunda í vissum mæli. Í þessu tilviki snýst málið um að leigja til sín ódýra tegund og skapa sér þannig rétt til þess að leigja frá sér aðra dýrari tegund og hagnast á mismuninum.

Fisktegundirnar eru nefnilega misverðmætar þegar þær koma upp úr sjónum. Þorskur er t.d. helmingi þyngri á metum en rækja, og því er tonn af rækju ríflega hálft þorskígildistonn (stuðullinn er reyndar 0,57 en við skulum miða við 0,50 til að einfalda dæmið hér á eftir).

Útgerðir geta leigt frá sér allt að helming þess kvóta sem þær hafa til ráðstöfunar. Þorskurinn er verðmætastur og því borgar sig að leigja sem mest út af honum.

Nú er útgerð með 100 tonn af þorski til ráðstöfunar. Hún hefur veitt 75 tonn og ákveður að leigja frá sér 25 tonn. Vegna helmingsreglunnar þarf hún að sýna fram á að hún eigi 50 þorskígildistonn umfram það sem veitt hefur verið - þ.e. helmingi meira en það sem ætlunin er að leigja út. Þessi 50 þosrskígildistonn gætu t.d. verið 100 tonn af einhverri tegund sem er metin hálfgildi þorsks.

Við skulum segja að það sé úthafsrækja. Útgerðarmaðurinn leigir því til sín 100 tonn af úthafsrækju.

Nú man ég ekki leiguverðið á úthafsrækju, en 2-3 kr/kg eru nærri lagi. Úgerðin borgar því allt að 300 þús fyrir þessi 100 tonn. Þau gera útgerðinni kleift að leigja frá sér 25 tonn af þorski fyrir 200 kr/kg. Það gerir 4 milljónir króna í innkomu. Hagnaðurinn í þessu upphugsaða dæmi er þá 3,7 mkr, sem er auðvitað ekki nákvæm tala, en gefur þó nokkuð góða hugmynd.

Það er því vel skiljanlegt að menn vilji frekar nota úthafsrækjukvótann með þessum hætti heldur en að veiða hann - þetta borgar sig fyrir útgerðina.

Þannig kallar kerfið sjálft á braskið!

Annað form á kvótabraski eru tegundatilfærslurnar, þegar ein tegund er veidd í nafni annarrar, af því að útgerðin hefur heimild til þess að færa tegundir á milli upp að vissu marki. Slíkar tilfærslur geta því leitt til umframveiða í ákveðnum tegundum, eins og t.d. á ufsa.

Þriðja form brasksins er svo geymslurétturinn sem felst í því að menn geta geymt allt að 30% óveidds kvóta milli ára (nokkuð sem Einar K. Guðfinnsson  fv. sjávarútvegsráðherra jók úr 20% í tæpan þriðjung um síðustu áramót). Þetta er sögð skýringin á því að kvóti fæst ekki leigður eins og sakir standa því að útgerðirnar "halda að sér höndum" eins og það heitir. Grunur hefur vaknað um að það sé vísvitandi gert til að skapa þrýsting á stjórnvöld vegna fyrirhugaðrar fyrningarleiðar. En það er önnur umræða.

Niðurstaðan: Kerfið er farið að vinna gegn tilgangi sínum, þ.e, verndun og hagkvæmri nýtingu fiskistofna.

Kerfinu verður að breyta.


Kvótabrask og fiskveiðistjórnun

Síðustu daga hafa verið að koma fram athyglisverðar upplýsingar um meðferð aflaheimilda í fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Svör sem ég hef fengið við fyrirspurn minni til sjávarútvegsráðherra um þetta mál benda eindregið til þess að verið sé að flytja umtalsvert magn kvóta milli tegunda og ára.

Nýleg skýrsla tveggja laganema á Bifröst, þeirra Þórðar Más Jónssonar og Finnboga Vikars, hefur leitt hið sama í ljós, eins og fram hefur komið í Kastljósi sjónvarpsins undanfarin kvöld. Skýrsla þeirra félaganna er afar vel unnin og í alla staði athyglisverð. Hún leiðir meðal annars í ljós hvernig vannýttir nytjastofnar hafa verið notaðir sem skiptimynt í braski, til útleigu á kvóta, til veðsetninga og til að skapa veiðirétt í öðrum dýrari tegundum. Þessar tilfærslur ganga í berhögg við yfirlýstan tilgang fiskveiðistjórnunarlaganna sem er "verndun og hagkvæmni" í nýtingu fiskistofnanna við Ísland.

Málið var til umræðu á  Morgunvaktinni á Rás-2 í morgun þar sem ég spjallaði við þau Láru Ómars og Frey Eyjólfs. Þessi hluti umræðunnar er rétt framan við miðju.

http://thordurmar.blog.is/blog/thordurmar/entry/905606/


Landráð - lét hún það heita

Nú falla þung orð í þinginu - þyngri en efni standa til.

Þingmaðurinn Eygló Harðardóttir sakar ríkisstjórnina um "landráð" og menn tala blygðunarlaust um "lygar", benda með fingri á einstaka þingmenn og þar fram eftir götum.

Eitt er að kalla eftir lýðræðislegri umræðu - sjálfsagt að virða slíkar óskir. En þeir sem hrópa á opna og lýðræðislega umræðu verða líka að vera ábyrgir orða sinna og gæta þeirra. 

Þingmenn geta ekki leyft sér hvað sem er í orðavali þegar þeir standa í ræðustóli Alþingis.

"Landráð" eru stórt orð.

Hér má sjá fyrri athugasemd mina við þetta í umræðum þingsins í dag og hér er sú síðari. Hávær framíköll sem heyrast í annarri athugasemdinni koma frá nokkrum stjórnarandstæðingum, einkum Eygló Harðardóttur og Tryggva Þór Herbertssyni.

 


mbl.is Stór orð á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hitti ég Dalai Lama

dalai_lama1 Mér brá heldur betur í brún þegar ég heyrði í útvarpinu um helgina að enginn alþingismaður hefði "séð ástæðu" til þess að þekkjast boð um að eiga fund með Dalai Lama. Var helst að skilja á fréttinni að okkur hefði öllum verið sent bréf með boði um að hitta trúarleiðtogann að máli.

Og ég sem hafði öfundað þá þingmenn sem sitja í forsætisnefnd og utanríkisnefnd Alþingis af því að fá að hitta Dalai Lama - átti ég þess svo kost eftir alltsaman?

Nei - að sjálfsögðu ekki. Hvorki mér né neinum öðrum óbreyttum alþingismanni var gefinn kostur á að hitta höfðingjann í eigin persónu. Njet. Yfirlýsingar aðstandenda heimsóknarinnar þar að lútandi voru einfaldlega rangar. Við fengum ekkert bréf. Því miður. Ég hefði þegið slíkt boð.

Hvað skipuleggjendum heimsóknarinnar gekk til með því að koma því inn hjá fjölmiðlum að alþingismenn væru að sniðganga Dalai Lama, veit ég ekki. Hvað fjölmiðlum gekk til með því að éta þetta upp bara sísvona - án þess að hringja í svosem eins og einn, til að vita hverju þetta sætti - veit ég ekki heldur.

Hitt veit ég, að trúarleiðtoganum hefur verið sýndur margvíslegur sómi á ferð sinni hér, og aðstandendur heimsóknarinnar geta verið hæstánægðir með þær viðtökur sem hann hefur fengið af hálfu Alþingis, kirkjunnar manna og almennings. 

Enda er Kínverjum ekki skemmt, eins og best sést á því að þeir hafa kallað sendiherra sinn heim frá Íslandi.

Það segir sína sögu.


mbl.is Dalai Lama í Alþingishúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afnám bindisskyldunnar, herbergjaskipan o.fl.

Umtalsverð umræða hefur að undanförnu orðið um klæðaburð þingmanna og herbergjaskipan í þinghúsinu. Um leið hefur borið á hneykslun meðal almennings yfir því að þetta skuli yfirleitt vera umræðuefni - löggjafarsamkundan ætti að hafa annað og þarfara að sýsla en pexa um þessa hluti.

Ég er sammála því, enda hefur þetta mál ekki verið til umræðu í þingsölum, svo það sé alveg skýrt. Bæði þessi mál hafa komið upp sem hvert annað úrlausnarefni fyrir skrifstofu og forsætisnefnd þingsins, og þau væru hreint ekki í umræðunni nema vegna þess hve fjölmiðlar og bloggarar sýna þeim mikinn áhuga. Sem er umhugsunarefni.

Herbergjaskipan í þinghúsinu er praktíst mál sem á ekkert erindi í fjölmiðla. Ákvörðun um klæðaburð þingmanna skiptir engu máli, nema hvað það er auðvitað sjálfsögð krafa að þeir sýni þessu elsta þjóðþingi veraldar tilhlýðilega virðingu með því að vera snyrtilega klæddir. 

Þar með hef ég lagt mitt lóð á vogarskál þessarar fánýtu umræðu ... og get þá snúið mér að öðrum og merkari viðfangsefnum. Wink


Umskipti á Alþingi

thingsalur Ég er ekki viss um að fólk átti sig almennt á þeirri miklu endurnýjun sem orðin er á Alþingi Íslendinga. Þessir átta sem fluttu jómfrúarræður sínar í eldhúsdagsumræðunum í kvöld eru aðeins um þriðjungur nýrra þingmanna. 

Aldrei nokkurn tíma hafa fleiri nýir þingmenn  (27) tekið sæti á Alþingi Íslendinga.  Ekki einu sinni á fyrsta fundi endurreists Alþingis árið 1845, því þá voru þeir 25.

Ef með eru taldir þeir þingmenn sem komu nýir inn fyrir tveimur árum, þá hafa 42 þingmenn af 63 setið skemur en 2 ár.  Það eru ansi mikil umskipti.

Jóhanna flutti stefnuræðu sína í kvöld af einurð og alvöru. Hún gerði grein fyrir stöðu mála, því sem gert hefur verið og því sem framundan er. Var að venju laus við skrúðmælgi. Hógvær - trúverðug.

Steingrímur J. var mælskur og rökfastur eins og oftast.  Hann talaði fyrir endurreisn efnahagslífsins, endurskipulagningu í sjávarútvegi og atvinnulífi, og stakk vel upp í þá talsmenn kvótaeigenda sem talað hafa um fyrningarleiðina sem "þjóðnýtingu". Hann spurði: Hvernig er hægt að þjóðnýta það sem þjóðin á nú þegar - eða hver á eiginlega fiskimiðin? 

Bjarni Benediktsson var ekki hógvær. Hann hafði þarna gullið tækifæri til að gangast við ábyrgð síns flokks íá efnahagshruninu. Það hefði hann getað gert í fáum setningum - gerði það ekki. Hann horfði heldur ekki til framtíðar, virtist fastur í einhverju karpi. Talaði óljóst í Evrópumálum. Bauð sjálfur engar lausnir.

Sigmundur Davíð talaði með tilþrifum - mest um það hvað Framsókn hefði fengið litlu ráðið í fyrri ríkisstjórn (sem þeir voru ekki hluti af, en vörðu falli með svokölluðu "hlutleysi" sem þeir virtust þó aldrei skilja hvað þýddi). Hann var kaldhæðinn í tali, en ekki alveg málefnalegur að sama skapi.  Framsókn lagði sínar áherslur í dóm kjósenda. Kjósendur kváðu upp sinn dóm. Það þýðir lítið að deila við þann dómara.

Ræðurnar í kvöld voru sumsé misgóðar. Sumar voru vel fluttar, en rýrar að innihaldi - minntu meira á málfundaæfingar hjá Morfís þar sem meira er lagt upp úr fasi og fyndni en alvarlegri rökræðu. Öðrum mæltist betur, og sumir fluttu framúrskarandi ræður, þar á meðal voru nokkrar jómfrúarræður (mér fannst góður tónn í máli Margrétar Tryggvadóttur, Ólafar Nordal, Ásmundar Einars, Sigmundar Ernis o.fl.). 

Hvað um það. Nú er alvaran að byrja: Fyrir þessu sumarþini liggja eitthvað um hundrað þingmál frá tíu ráðuneytum.  Og svo ég nefni nú bara nokkur mál sem hafa verið heit í umræðunni að undanförnu, þá eru þarna m.a. frumvörp um

  • þjóðaratkvæðagreiðslur, 
  • stjórnlagaþing,
  • persónukjör,
  • hlutafélag til að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja
  • að fallið sé frá kröfum um ábyrgðamenn á lánum námsmanna
  • frjálsar handfæraveiðar
  • breytingu á búvörulögum
  • breytingar á ýmsum hegðunar- og hæfnisreglum í ljósi fjármálaáfallsins
  •  breytingar á lögum um hlutafélög til að auka gagnsæi varðandi eignarhald, auka jafnrétti kynja í stjórnum og meðal framkvæmdastjóra

Auk þess eru ýmis merk mál til umfjöllunar og afgreiðslu - ég nefni bara þingsályktunartillög um að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Á morgun er hefðbundinn þingfundur - á dagskrá er óundirbúinn fyrirspurnartími og frumvarp um hlutafélag um endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja með meiru.


mbl.is Átta jómfrúrræður í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband