Ekki hitti ég Dalai Lama

dalai_lama1 Mér brá heldur betur í brún þegar ég heyrði í útvarpinu um helgina að enginn alþingismaður hefði "séð ástæðu" til þess að þekkjast boð um að eiga fund með Dalai Lama. Var helst að skilja á fréttinni að okkur hefði öllum verið sent bréf með boði um að hitta trúarleiðtogann að máli.

Og ég sem hafði öfundað þá þingmenn sem sitja í forsætisnefnd og utanríkisnefnd Alþingis af því að fá að hitta Dalai Lama - átti ég þess svo kost eftir alltsaman?

Nei - að sjálfsögðu ekki. Hvorki mér né neinum öðrum óbreyttum alþingismanni var gefinn kostur á að hitta höfðingjann í eigin persónu. Njet. Yfirlýsingar aðstandenda heimsóknarinnar þar að lútandi voru einfaldlega rangar. Við fengum ekkert bréf. Því miður. Ég hefði þegið slíkt boð.

Hvað skipuleggjendum heimsóknarinnar gekk til með því að koma því inn hjá fjölmiðlum að alþingismenn væru að sniðganga Dalai Lama, veit ég ekki. Hvað fjölmiðlum gekk til með því að éta þetta upp bara sísvona - án þess að hringja í svosem eins og einn, til að vita hverju þetta sætti - veit ég ekki heldur.

Hitt veit ég, að trúarleiðtoganum hefur verið sýndur margvíslegur sómi á ferð sinni hér, og aðstandendur heimsóknarinnar geta verið hæstánægðir með þær viðtökur sem hann hefur fengið af hálfu Alþingis, kirkjunnar manna og almennings. 

Enda er Kínverjum ekki skemmt, eins og best sést á því að þeir hafa kallað sendiherra sinn heim frá Íslandi.

Það segir sína sögu.


mbl.is Dalai Lama í Alþingishúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Sæl á ný!

Eitthvað virðist það líka málum blandið hvernig kinverjar brugðust við,tvennum sögum fer allavega af því hvort sendiherran hafi verið kallaður heim!

En þessi heimsókn auðvitað mjög merk og verður minnst m.a. fyrir góðu friðarstundina í Hallgrímskirkju í gær!

Magnús Geir Guðmundsson, 2.6.2009 kl. 23:23

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Dalai Lama myndi örugglega sjálfur segja að hann væri ekki merkilegri en sveitarstjórinn í Grímsey.

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.6.2009 kl. 00:15

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Hér er mjög athyglisvert innleg í umræðuna um móttöku Dalai Lama - hverjir fengu að hitta hann og hverjir ekki.

Lára Hanna Einarsdóttir, 3.6.2009 kl. 00:16

4 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Ég skil ekki hvað er unnið með því að bera það út að þingmenn hafi ekki viljað hitta Dalai Lama eins og þú bendir á. Honum hefur verið sýnd mikil virðing og er það gott, enda alþjóðlega þekktur trúarleiðtogi. Hann er NB ekki viðurkenndur sem þjóðarleiðtogi og því engin ástæða fyrir ríkisstjórn eða forseta að taka á móti honum sem slíkum. Slíkt hefði verið mistök. Hins vegar var sjálfsagt af Alþingi að sýna honum virðingu og hjá ráðherrum og þingmönnum að hitta hann persónulega, enda gerðu það margir. Mér finnst almennt hafa verið vel staðið að heimsókninni, mikill munur frá því þegar mótmælendur voru handteknir við heimsókn Kínaforseta.

Guðmundur Auðunsson, 3.6.2009 kl. 11:44

5 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Mér fannst hinn mikli fjölmiðlasirkus um það forsætisráðherra hefði svarað einhverju bréfi til ráðuneytisins afar sérkennilegur. 

Jón Halldór Guðmundsson, 3.6.2009 kl. 13:08

6 Smámynd: Hörður Valdimarsson

Er það ekki bara glæsilegt að fá kínverska ambassadorinn kallaðan heim.......

Hörður Valdimarsson, 3.6.2009 kl. 15:55

7 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

"Er þessi munkur eitthvað merkilegri en sveitarstjórinn í Grímsey? Ekki þykir mér það"

"Þessi munkur" er af svipuðu kaliberi og t.d Ghandi og verður sá seint talinn lítt merkilegur eða boðskapur hans.

Georg P Sveinbjörnsson, 3.6.2009 kl. 20:13

8 identicon

Gaurinn er ekkert merkilegur... komið nú og segið mér hvaða rosalega afrekalista hann er með á bakvið sig.

Hver sem er getur vafið sig í teppi eða kufl, kallað sig Lama eða páfa og talað á algerlega óstaðfestum nótum um eitt og annað ótrúverðugt efni út í bláinn, brosað í allar áttir og snúið sér í hring.

DoctorE (IP-tala skráð) 3.6.2009 kl. 20:36

9 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Þar verð ég að vera ósammála kæri Doctor aldrei þessu vant, fólk með slíka útgeislum og einlægan friðar og kærleiksboðskap er ómetanlegt fyrir mannkynið og hann hefur góð áhrif á gríðarlega margra um allan heim. Afstaða hans til trúboðs er til fyrirmyndar, en eins og hjá Ásatrúarfélaginu t.d er slíkt framferði réttilega ekki vel séð og sterklega mælt gegn slíkri óhæfu. Hins vegar mætti hann alveg gagnrýna misnotkun trúarbragða á skýran og skorinorðan hátt sem og heilaþvottinn og ógeðfelda innrætinguna sem er purkunarlaus um allan heim, telur kannski ekki vænlegt að rugga þeim bát.

Georg P Sveinbjörnsson, 4.6.2009 kl. 23:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband