Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Þjóðarvilji - þingvilji

ESBÞessi könnun tekur af öll tvímæli um það að aðildarumsókn í ESB er ekki bara eitthvert gæluverkefni og draumsýn Samfylkingarfólks heldur vilji yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Auðvitað hafa stjórnmálamenn skynjað þetta, hvort sem þeir eru sjálfir hlynntir eða andvígir sjálfri aðildinni. Þess vegna er ástæða til að vona að VG muni samþykkja það að farið verði í þessar viðræður - þau finna vilja fólksins. Og þar sem meira er - þau virðast ætla að virða þann vilja.

Formenn íhaldsflokkanna í stjórnarandstöðu, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, hafa farið mikinn að undanförnu með hneykslunarhrópum yfir þeim möguleika sem orðaður hefur verið að þingið fái að ákveða hvort farið verði í aðildarviðræður. Þeir Bjarni og Sigmundur Davíð hafa fussað og sveiað og báðir sagt það fjarri þeim að ætla að "hjálpa" Samfylkingunni að fara í aðildarviðræður. Já, þeir tala eins og forystumenn Samfylkingarinnar en ekki fulltrúar þjóðarinnar verði sendir til þessar viðræðna - sem er auðvitað fráleitt. Þeir tala af fyrilitningu til þingsins - virðast telja það veikleikamerki að fela þjóðþinginu aðra eins ákvörðun.

En þegar þingmenn taka til starfa vinna þeir drengskaparheit um að hlýða samvisku sinni. Nú vitum við að ýmsir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru fylgjandi aðildarviðræðum.  Þá liggur fyrir flokkssamþykkt Framsóknarflokksins um aðildarviðræður. Hvernig ætla þá formenn þessara flokka að múlbinda þingmenn sinna flokka gegn málinu? Halda þeir að það sé rétta svarið við kalli tímans um ný stjórnmál og aukið lýðræði? Halda þeir að það skori hjá almenningi - þessum almenningi sem hefur kosið þingið til starfa fyrir sig (ekki fyrir flokkana).

Já - það verður fróðlegt að sjá hvað gerist ef svo fer að ákvörðun um aðildarumsókn verði vísað til þingsins. Þá mun væntanlega koma í ljós hversu mikils stjórnarandstaðan metur sjálft Alþingi Íslendinga og raunverulegan vilja þess.


mbl.is 61,2% vilja aðildarviðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlar hafa brugðist

Mér finnst fjölmiðlar hafa brugðist í því að upplýsa fólk og útskýra fyrir því þau úrræði sem skuldurum bjóðast sem aðstoð í greiðsluvanda. Það er furðulegt að fjölmiðlar skuli eyða meira púðri í að ýta undir þá falsvon hjá örvingluðu fólki að það geti bara hætt að borga skuldir sínar - að greiðsluverkfall sé valkostur - heldur en að greina frá þeirri aðstoð sem fólki stendur til boða.

Greiðsluverkfall gagnast engum nema kannski innheimtulögfræðingunum, eins og Gylfi Magnússon bendir á. Það gæti hinsvegar leitt af sér annað hrun. Hver er bættari með því?

Nú þegar stendur fólki til boða margvísleg aðstoð í greiðsluvanda, eins og sjá má á listanum hér neðar. Margt mætti auðvitað gera betur og meira af. Til dæmis mætti stórauka frá því sem nú er ráðgjöf til fólks í skuldavanda. Er ekki landið fullt af atvinnulausum bankastarfsmönnum sem  ráða mætti til þeirra starfa að hlusta á fólk í greiðsluvanda, setja sig inn í stöðu þess og aðstoða það við að ráða fram úr honum? Ég veit að það er verið að vinna að heilmikilli ráðgjöf nú þegar - en  slíka ráðgjöf tel ég að mætti margfalda að umfangi. (Þetta er nú svona vinsamleg ábending).

Já, svo mætti auðvitað laga löggjöfina þannig að lántakandinn sitji ekki einn uppi (ásamt ábyrgðarmönnum úr hópi fjölskyldu eða vina) með alla áhættu og ábyrgð af því að hafa þegið lán - heldur beri lánveitendur líka einhvern hluta ábyrgðarinnar og áhættunnar.

Margt fleira mætti auðvitað betur fara. En lítum nánar á þau úrræði sem í boði eru nú þegar:

  1. Skuldajöfnun verðtryggðra lána sem þýða 10-20% lægri greiðslubyrði en ella.
  2. Frysting og í framhaldi skuldajöfnun gengisbundinna lána sem þýðir 40-50% lægri greiðslubyrði.
  3. 66% hækkun vaxtabóta.
  4. Útgreiðsla séreignasparnaðar sem nemur 1 mkr á einstakling og 2 mkr á hjón.
  5. Greiðsluvandaúrræði Íbúðalánasjóðs hafa verið stórefld og samið við aðrar fjármálastofnanir um að sömu úrræði gildi þar einnig, þ.e: a)Skuldbreytingalán og lánalengingar um 30 ár í stað 15 áður. b)Heimild til að greiða bara vexti og verðbætur af vöxtum og frysta höfuðstól í allt að 3 ár. c) Heimild til að frysta afborganir í allt að 3 ár.  d) Ýmsar mildari innheimtuaðgerðir.
  6. Greiðsluaðlögun samningskrafna - skuldir aðlagaðar greiðslugetu, jafnvel felldar niður ef þarf.
  7. Lögum breytt um ábyrgðarmenn þannig að ekki má lengur ganga að húseign ábyrgðarmanns.
  8. Ekki má lengur skuldfæra barnabætur upp í skattaskuldir
  9. Ekki má lengur skuldfæra hvers konar inneignir hjá ríkinu upp í afborganir Íbúðalánasjóðs.
  10. Frestun nauðungaruppboða fram í ágúst, sé þess óskað.
  11. Aðfararfrestur lengdur úr 15 dögum í 40.
  12. Aukinn stuðningur aðstoðarmanns og leiðbeiningaskylda vegna gjaldþrota.
  13. Greiðsluaðlögun fasteignaveðlána.
  14. Heimild til Íbúðalánasjóðs til að leigja fyrri eigendum húsnæði sem sjóðurinn eignast á uppboðum.

Nú er mér ljóst að þessi úrræði eru engin töfralausn sem leysir hvers manns vanda. En þau létta álagið mjög og skapa skuldaranum svigrúm til þess að láta enda ná saman og komast af í kreppunni, þar til eðlilegri forsendur skapast í efnahagslífinu.

Fjölmiðlum væri nær að kynna þessi úrræði betur en gert hefur verið heldur en að ýta undir að örvinglað fólk hætti að borga. Þeim væri nær að skýra fyrir fólki hvaða lög gilda í landinu um afleiðingar slíkra aðgerða, heldur en að elta hasarinn og skemmta skrattanum.

Nóg er nú samt í  okkar hrjáða landi. Angry


mbl.is Varar við örþrifaráðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttafölsun um útstrikanir

Undanfarna daga hafa fjölmiðlar tuggið það hver upp eftir öðrum að Ólína Þorvarðardóttir hafi verið sá frambjóðandi sem fékk flestar útstrikanir á kjörseðlum í NV-kjördæmi. Ríkisútvarpið hefur flutt um þetta tvær fréttirMorgunblaðið sömuleiðis, að ekki sé talað um svæðisfjölmiðlana sem flestir gerðu nokkuð með þetta.  Látið var að því liggja að "talsvert" hafi verið um yfirstrikanir í kjördæminu, og hef ég verið krafin svara í framhaldi af þessu, t.d. í Morgunblaðinu s.l. mánudag.

Nú er komið í ljós að þessi frétt var allan tímann röng. Yfirstrikanir á kjörseðlum í NV- kjördæmi voru  í fyrsta lagi fremur fáar miðað við önnur kjördæmi. 

Samkvæmt Morgunblaðinu í gær skiptust þær sem hér segir:

248 strikuðu út nafn Einars Kristins Guðfinnssonar, Sjálfstæðisflokki (6,5%)
181 strikuðu út nafn Ólínu Þorvarðardóttur, Samfylkingu (4,3%)
158 strikuðu út nafn Jóna Bjarnasonar, VG (3,9%)
157 strikuðu út nafn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, VG (3,9%)

En vitleysan er ekki öll eins. Samkvæmt Fréttablaðinu í dag er allt annað uppi á tengingnum - og skiptingin svona:

248 strikuðu út Einar K. Guðfinnsson
160 strikuðu út Ásbjörn Óttarsson
159 strikuðu út Lilju Rafney Magnúsdóttur

Nú er mér spurn: Hvað veldur því mikla misræmi sem í gær og dag er orðið á tölunum frá yfirkjörstjórninni?

Hvernig má það vera að í fjóra heila daga gangi röng frétt eins og logi um akur í fjölmiðlum? Sjálf þóttist ég vita að upphaflega fréttin væri röng, þar sem ég hafði verið í sambandi við þann fulltrúa Samfylkingarinnar sem var viðstaddur talninguna. Ég reyndi að segja blaðamanni Morgunblaðsins strax á Sunnudagsmorgun að hans upplýsingar stönguðust á við mínar. Blaðamaðurinn vitnaði þá í formann yfirkjörstjórnar NV-kjördæmis og fullyrti að þaðan væru þessar upplýsingar komnar. Þetta væri óyggjandi. Aðrir fjölmiðlar hafa einnig vitnað til formanns yfirkjörstjórnar NV-kjördæmis.

Þarna er augljóslega eitthvað bogið við upplýsingagjöfina. Hvað veldur því? Sú spurning er afar áleitin.

Satt að segja veit ég veit ekki hvort er verra , tilhugsunin um að það hafi verið trúnaðarmaður almennings í yfirkjörstjórn sem brást eða fjölmiðlarnir.

Svo mikið er víst að málið þarfnast skýringa. Og ég mun kalla eftir þeim.

----------

PS: Og vitleysan heldur áfram - í hádegisfréttum RÚV var verið að þylja upp enn eina talnarununa, og nú er Einar Kristinn kominn með 183 útstrikanir en ég 140 Shocking 


Nýr dagur í íslenskum stjórnmálum

blóm Nýr dagur er risinn með gjörbreyttu landslagi í íslenskum stjórnmálum. Nú er ljóst að 27 nýir þingmenn munu taka sæti á Alþingi. Að baki er spennandi kosninganótt og væntanlega hefur verið mikil rússibanareið í tilfinningalífi þeirra jöfnunarþingmanna sem ýmist voru inni eða úti fram undir morgun.

Í Norðvesturkjördæmi var mikil spenna fram eftir nóttu, því litlu munaði að Samfylkingin næði inn sínum þriðja manni. Það fór ekki svo, því miður.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið verðskuldaða refsingu. Flokkurinn tapar 12% á landsvísu sem er mesta tap hans frá stofnun árið 1929.

Hástökkvarar kosninganna eru VG og Borgarahreyfingin. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þeim síðarnefndu farnast nú þegar þeir eru  komnir með fjóra fulltrúa á þing og þurfa að fara að taka afstöðu til fjölmargra mála sem hvergi hafa komið fram í stefnu þeirra.

Samfylkingin getur vel við unað. Hún er stærsti stjórnmálaflokkur landsins með skýrt umboð til stjórnarmyndunar. Evrópusinnar geta líka vel við unað, því það er ljóst af kosningaúrslitum að sá málstaður hefur sótt á í þessum kosningum.

Nú liggur beint við að formenn Samfylkingar og VG hefji stjórnarmyndunarviðræður. Persónulega vona ég að þeir nái góðri lendingu í Evrópumálinu og að farsællega takist til við myndun stjórnar þessara tveggja flokka.

Já, nú eru eru sögulegir tímar í íslenskum stjórnmálum. Aldrei fyrr hefur þjóðin kosið félagshyggjustjórn með hreinan meirihluta tveggja flokka. Aldrei hafa fleiri konur verið kjörnar á þing og aldrei hefur meiri nýliðun átt sér þar stað.

Ég hlakka til að takast á við verkefnin sem bíða um leið og ég finn til ríkrar ábyrgðar gagnvart því nýja hlutverki að gegna þingmennsku. Og svo ég haldi áfram með þema gærdagsins:

Dagsins lifna djásnin góð
draumar sanna gildið sitt:
Víst ég heiti vorri þjóð
að vinna fyrir landið mitt.

 


Frjálshyggjumenn undir fölsku flaggi

 Hópur sem nefnir sig Félag ungs fólks í sjávarútvegi hefur sent hefur frá sér ályktunina "Fyrning aflaheimilda er aðför að 32.000 fjölskyldum". Glöggir menn hafa veitt því athygli hvað þessi ályktun er keimlík blaðagrein bæjarstjóranna þriggja sem ég hef áður gert að umtalsefni hér. Tilgangur ályktunarinnar er augljóslega sá að hræða fólk frá því að kjósa Samfylkingu og Vinstri græn með hræðsluáróðri og heimsendaspám nái tillögur þessara flokka fram að ganga um leiðréttingu á óréttlæti kvótakerfisins. Ekki í fyrsta sinn sem gripið er til slíkra aðferða rétt fyrir kosningar.

Grunsemdir um að ætt og uppruna ályktunarinnar megi rekja til Sjálfstæðisflokksins fá byr undir báða vængi þegar farið er inn á heimasíðu félagsins http://www.fufs.is/ . Þá kemur nefnilega í ljós að stjórnin er skipuð tveimur stjórnarmönnum og einum fyrrverandi stjórnarmanni Frjálshyggjufélagsins http://www.frjalshyggja.is/ 

Einar H. Björnsson bloggari hefur veitt þessu athygli. Hann veltir fyrir sér í þessari bloggfærslu hvaða hagsmuna sumir stjórnarmanna FUFS hafi að gæta í sjávarútvegi. Þar er um að ræða:

  • Friðbjörn Orra Ketilsson, eiganda Vefmiðlunar ehf, og einn helsti talsmann frjálshyggjufélagsins; 
  • Gísla Frey Valdórsson, eigandi Viðskiptablaðsins, talsmann frjálshyggjufélagsins og kosningastjóra í prófkjörum Birgis Ármannssonar;  og
  • Fannar Hjálmarsson, framkvæmdastjóra kjördæmisráðs og kosningastjóra Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi. Það var Fannar sem var að svara fyrir auglýsingar Sjálfstæðismanna í garð Steingríms J. Sigfússonar sem VG hefur kært í NV-kjördæmi. Shocking

Jóhanna vill opna fjármál flokka og frambjóðenda til 1999

Fréttir dagsins af háum styrkjum til einstakra prófkjörsframbjóðenda flokkanna hér um árið sýna gildi þess að settar séu reglur um þessa hluti. Samfylkingin hefur sett sér strangar reglur um auglýsingar og hámarks kostnað í sínum prófkjörum eins og t.d. fyrir nýafstaðið prófkjör.

Vegna þeirra reglna gat ég t.d. ekki eytt neinu í mína prófkjörsbaráttu. Hefði ég þó í hégómakasti vel getað hugsað mér að sjá nokkur plaköt af sjálfri mér, vel sminkaðri á nýrri dragt, utan á húsum og strætisvögnum. Það var bara ekki í boði - engir peningar til, hvorki hjá mér né mótframbjóðendum. Og ég er auðvitað fegin því  - sjálfrar mín vegna og pyngju minnar. Sjálfsagt væru sumir þeirra prófkjörsframbjóðenda sem nú hafa orðið uppvísir að því að taka við stórum fjárstyrkjum fegnastir því að hafa reglur til að miða við, og þar af leiðandi minna svigrúm til að eyða peningum í glansmyndir og dýrar auglýsingar.

 johannadv_835281.jpgEn í tilefni af þessu öllu saman hefur Jóhanna Sigurðardóttir nú ritað formönnum allra stjórnmálaflokka bréf og beðið þá að skipa fyrir 1. maí fulltrúa í nefnd til að endurskoða lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Markmiðið er að tryggja að Ríkisendurskoðun verði falið að gera úttekt á fjárreiðum þeirra stjórnmálaflokka sem átt hafa fulltrúa á Alþingi, vegna áranna 1999 til 2006. Ríkisendurskoðun skili síðan niðurstöðum um heildarfjárreiður flokkanna, bæði landsflokkanna, kjördæmisráðanna, einstakra félaga og frambjóðenda þeirra vegna prófkjara á sama tímabili.

Gott framtak hjá Jóhönnu. Það er mikilvægt að fá þetta allt upp á borðið. Ekki síst er mikilvægt að kjósendur fái sambærilegar upplýsingar fyrir alla flokka og frambjóðendur þeirra.

Og ef þetta kallar á nýja löggjöf, þá treysti ég henni vel til þess að stýra þeirri vinnu.

 


Sannleikann fram í dagsljósið

gu_laugur_or_or_arsongudfinna3illugibjorn_ingi 

Nú er ekki seinna vænna að þeir stjórnmálamenn sem hér um ræðir upplýsi helgihjorvarstrax hversu háar fjárhæðir þeir þáðu í styrki frá FL-Group og Baugi. Hér er talað um allt að 2 mkr styrki til ákveðinna einstaklinga. Af hverju eru  þeir ekki nafngreindir? Þess í stað eru taldir upp þrír Sjálfstæðismenn, tveir Samfylkingarmenn og einn Framsóknarmaður, og allir lagðir að jöfnu.

steinunnvaldisÉg skora á Helga Hjörvar og Steinunni Valdísi að upplýsa nú þegar hversu háa styrki þau þáðu frá þessum fyrirtækjum í prófkjörsbaráttu sinni. 

Þá verður heldur ekki undan því vikist að upplýst verði nú þegar, hvaða "stjórnmálamenn, jafnvel ráðherrar í ríkisstjórn Íslands" það eru sem fengið hafa "óeðlilega fyrirgreiðslu hjá gömlu viðskiptabönkunum fyrir bankahrunið í haust" eins og fullyrt hefur verið í fréttum Stöðvar 2. Þar segir að í sumum tilvikum hafi verið um að ræða "tugmilljóna króna lán til þess að kaupa hlutabréf, meðal annars í bönkunum sjálfum, án þess að lögð væru fram nein veð".

Þetta verður að upplýsa - fyrir kosningar. Ef fréttastofa Stöðvar 2 er með þessar upplýsingar er það skylda hennar að gefa þær. Ef ekki þá er hún ómerkingur.

Eins og einhver sagði: Allt upp á borðið! Angry

 


mbl.is Háir styrkir frá Baugi og FL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greinin sem ekki fékkst birt í Bændablaðinu

kyr2 Fyrir um mánuði síðan sendi ég Bændablaðinu grein um ESB og íslenskan landbúnað. Greinin fékkst ekki birt. Var því borið við að Mbl hefði birt eftir mig grein um sama mál nokkru síðar. En sumsé, hér kemur:

Greinin sem ekki fékkst birt í Bændablaðinu

 Svonefndur Píningsdómur sem lögtekinn var á Alþingi 1490 setti skorður við verslun Íslendinga og samskiptum þeirra við útlendinga. Áður höfðu Englendingar haft leyfi til þess að versla við landsmenn og stunda hér fiskveiðar gegn því að greiða tolla og skatta. Þetta lagðist illa í stórbændur landsins og útvegsmenn sem kærðu sig ekki um samkeppni um vinnuafl og verslun. Afleiðing Píningsdóms varð fjögurra alda fátækt og einangrun landsins.

Nú, tæpum 520 árum síðar stöndum við Íslendingar frammi fyrir því hvort við viljum eiga opið markaðs- og viðskiptasamband við nágrannaríki okkar í Evrópu. Líkt og í aðdraganda Píningsdóms árið 1490 kemur harðasta andstaðan gegn því frá íslenskum bændum og útvegsmönnum.

Á nýafstöðnu Búnaðarþingi var samþykkt eindregin andstaða við aðildarumsókn Íslands að ESB. Enginn rökstuðningur fylgdi ályktuninni til fjölmiðla. Í viðtali sem flutt var í Spegli Ríkisútvarpsins við hagfræðing bændasamtakanna mátti þó greina ótta við matvælainnflutning og afnám tolla.

Sjálf er ég ein þeirra sem lengi vel óttuðust inngöngu í ESB - taldi m.a. að með henni yrði stoðum svipt undan íslenskum landbúnaði. Við myndum missa sjálfstæði okkar Íslendingar, ofurselja okkur miðstýrðu fjölþjóðlegu valdi. Já, ég var beinlínis hrædd við tilhugsunina. Ég held að svipað eigi við um bændur. Þeir vita hvað þeir hafa en ekki hvað þeir fá. Á þessu þarf að taka með opinni og upplýstri umræðu.  Annars verður það óttinn sem ræður för - og hann er afleitur förunautur.

Ég er þeirrar skoðunar að íslenskir bændur hafi margt að vinna við inngöngu í ESB. Sambandið hefur sett sér ákveðna byggðastefnu þar sem ríkt tillit er tekið til dreifðra byggða með stuðningi við vistvænar framleiðsluaðferðir, ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og vöruþróun. Styrkjakerfi ESB er samþætt byggðastefnu þess og þar er gengið út frá sjálfbærri landbúnaðarstefnu. Í þessu felast ýmsir möguleikar fyrir íslenska bændur, hvort sem þeir sinna ferðaþjónustu eða sauðfjárrækt. Sem stendur er íslenskur landbúnaður njörvaður niður í miðstýrt framleiðslustjórnunarkerfi sem er að uppistöðu nær hálfrar aldar gamalt. Fullyrt hefur verið að stuðningskerfi ESB sé mun heilbrigðara en niðurgreiðslukerfið íslenska - enda aðlagað breytingum, nýsköpun og þróun í samstarfi og samskiptum þjóða í áranna rás. Þetta þurfa íslenskir bændur að kynna sér vel því þarna geta falist ýmis tækifæri fyrir þá sem sem vilja svara kalli tímans um vistvænar framleiðsluaðferðir byggðar á sérstöðu og gæðum afurða. Í því efni eiga Íslendingar mikla möguleika.

Ætla má að gengissveiflur og ótryggt rekstrarumhverfi séu bændum þung í skauti ekki síður en öðrum atvinnuvegum. Við inngöngu í Evrópusambandið og með upptöku evru má gera sér vonir um stöðugra efnahagsumhverfi með minni gengissveiflum, lægra vaxtastigi og bættum almennum lífskjörum.  Í slíku umhverfi er auðveldara að gera langtímaáætlanir í rekstri - ekki síst búrekstri sem á mikið undir innfluttum aðföngum. Vissulega þyrftu íslenskir bændur að keppa við innflutta matvöru - en á móti kemur að samkeppnisstaða þeirra sem matvælaframleiðenda myndi batna til muna. Markaðir í Evrópu myndu opnast fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir og um leið margvíslegir möguleikar til nýsköpunar og vöruþróunar. Við erum hér að tala um 500 milljón manna markað sem Íslendingar fengju fullan og tollfrjálsan aðgang að.

Hér er til mikils að vinna. Grundvallaratriðið er þó að vita að hverju skuli stefnt. Íslendingar - ekki síst bændur - verða að skilgreina þarfir sínar og væntingar til fjölþjóðlegs samstarfs á borð við ESB og setja sér marknið. Síðan á að sækja um aðild; fara í viðræður og gefa loks þjóðinni kost á að taka afstöðu til þess sem í boði er með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sem stendur höfum við allt að vinna - en ekkert að óttast.

 


Hreindýrskálfur og hús við Vatnsstíg

hreindyrskalfur_1__large_ Tvær fréttir vöktu athygli mína í sjónvarpinu í kvöld. Annars vegar þessi frétt um bréf Umhverfisstofnunar þar sem hreindýrskálfi er hótað lífláti ef fólkið sem bjargaði lífi hans á sínum tíma og tók hann til sín sækir ekki um leyfi til umhverfisráðuneytisins fyrir því að hafa hann.

Í fréttinni er haft eftir starfsmanni stofnunarinnar að "alls ekki hafi verið ætlunina að valda sárindum með bréfinu þótt skrifað hafi verið að dýrið skyldi aflífað yrði ekki sótt um leyfi fyrir því".

Það er einmitt það. Ég legg til að starfsmenn umhverfisstofnunar fari í svolitla naflaskoðun núna og velti fyrir sér þeim markmiðum stofnunarinnar sem lúta að dýravernd.

VatnsstígurSvo er það þessi frétt um hústökuna á Vatnsstíg þar sem maður horfði á lögregluna eyðileggja hús til þess að "bjarga því" úr klóm hústökufólks. Reyndar hafði hústökufólkið dyttað að húsinu og ætlað að hefja þar einhverja uppbyggilega starfsemi á meðan það væri ónotað - en það mátti alls ekki.  Eignarrétturinn þið skiljið.

Að vísu hafði húsið staðið autt í á annað ár, og verið notað af útigangsfólki án þess að nokkur kallaði til lögreglu. En sumsé - þegar komið var ungt fólk með málningardósir og heita súpu í potti, þá var tilefni til aðgerða. Og þær létu sko ekki á sér standa. Með keðjusögum og kylfum var hluti hússins bútaður í sundur til þess að sýna hústökuliðinu alvöru málsins.

Já, eignarrétturinn .... hann lætur sko ekki að sér hæða.  

Eins og fram kemur í fréttinni þá er eignarrétturinn svo heilagur, að jafnvel ónýt hús sem bíða þess að víkja fyrir nýjum, má ekki nota í uppbyggilegum tilgangi. Frekar skulu þau fá að drabbast niður sem dópgreni. Enda er hið síðarnefnda mun líklegra til þess að flýta fyrir niðurrifinu heldur en ef eitthvað uppbyggilegt á sér stað innandyra. Það er nefnilega þekkt hertækni húsa- og lóðabraskara að kaupa gömul hús á verðmætum lóðum til þess að rífa þau og byggja ný. Í sumum tilvikum er beinlínis ýtt undir það að útigangsfólk taki sér bólfestu í húsnæðinu svo betur gangi að fá samþykki fyrir niðurrifi.

Í ýmsum borgum hafa borgaryfirvöld gripið til þess ráðs að setja búsetuskyldu á hús í námunda við miðborgir, til þess að hindra atburðarás af þessu tagi. Reykjavíkurborg hefur ærna ástæðu til að hugleiða þann möguleika, því þetta er ekki eina húsið sem er að grotna niður í miðborginni.

En sumsé - tvær fréttir um það hvað lífið getur stundum verið öfugsnúið.


mbl.is Hóta að aflífa hreindýrskálf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisendurskoðun gefur ekki út siðferðisvottorð til stjórnmálamanna

Ætlast Guðlaugur Þór til þess að Ríkisendurskoðun gefi honum siðferðisvottorð í REI málinu? Það er ekki hlutverk Ríkisendurskoðunar að túlka athafnir manna sem sitja við pólitíska kjötkatla.

Ríkisendurskoðun er sjálfstæð stofnun sem starfar á vegum Alþingis. Hún endurskoðar ríkisreikning og reikninga opinberra stofnana.

Hvað ætti Ríkisendurskoðun að geta lagt til málanna varðandi risastyrk FL-Group til Sjálfstæðisflokksins í stjórnarformannstíð Guðlaugs Þórs hjá OR?

Svar: Ekki neitt. Nákvæmlega ekkert.

Mér er til efs að stofnunin taki það í mál að fara að gefa út vottorð í siðferðilegu álitamáli sem þessu. Máli sem snýst ekki um reikningshald Orkuveitur Reykjavíkur, heldur himinháa peningagreiðslu frá FL-Group til Sjálfstæðisflokksins á sama tíma og samningar stóðu yfir um eignatilfærslu á gífurlegum almenningsverðmætum frá OR í hendur einkaaðila. Já, einkaaðilans sem greiddi risastyrkinn inn á reikning Sjálfstæðisflokksins sem fór með málið á þessum tíma og hafði sinn fulltrúa sem stjórnarformann í OR. Angry


mbl.is Óskar úttektar á störfum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband