Færsluflokkur: Ljóð

Það seytlar inn í hjarta mitt ...

 throstur Krókusarnir eru farnir að kíkja upp úr snjónum í garðinum hjá mér. Fuglasöngur í trjánum á hverjum morgni - brum á greinum. Það er ekki um að villast, vorið er komið. Það fer hægar yfir hérna fyrir vestan en í höfuðborginni, en maður finnur nálægð þess engu að síður. Hér er blíðviðri dag eftir dag og dimmblátt djúpið ljómar í sólinni sem aldrei fyrr.

Nú eiga við orðin hans Jóhannesar úr Kötlum:

 

Það seytlar inn í hjarta mitt

sem sólskin fagurhvítt,

sem vöggukvæði erlunnar,

so undurfínt og blítt,

sem blæilmur frá víðirunni,

- vorið grænt og hlýtt.

 

Ég breiði út faðminn - heiðbjört tíbrá

hnígur mér í fang.

En báran kyssir unnarstein

og ígulker og þang. -

Nú hlæja loksins augu mín

- nú hægist mér um gang.

 

Því fagurt er það, landið mitt,

og fagur er minn sjór.

Og aftur kemur yndi það

sem einu sinni fór.

Og bráðum verð ég fallegur,

og bráðum verð ég stór.

                        

 

 


Eldarnir þrír sem brunnu

eldur_1055453962  Þessa dagana eru tíðar fréttir af eldsvoðum og slökkvistarfi. Það er svo undarlegt með eldinn, hann á það til að "ganga ljósum logum" í orðsins fyllstu merkingu, eins og farsótt. Stundum er engu líkara en ósýnileg hönd sé að verki sem kveiki nýjan eld jafnóðum og annar slokknar.

Eldurinn er merkilegt fyrirbæri. Hann bæði yljar og eyðir eins og ástríður mannanna, skapsmunir og aðrar tilfinningar. Það er því ekki að furða þó eldurinn hafi orðið skáldum og heimspekingum innblástur á stundum.

Í ljóðinu "Eldarnir þrír" sér Davíð Stefánsson tækifæri lífs síns sem kulnaða elda. Hér kemur ljóðið:

 

Þegar þú gekkst í garðinn fyrst,

brann gneisti í hverju spori.

En nornirnar gátu rúnir rist,

sem rændu mig sól og vori.

Eg hirti hvert sprek, sem við hafið lá,

frá hausti til hvítasunnu ...

Enn þá man eg eldana þrjá,

eldana þrjá, - sem brunnu.

 

Á bak við logana leyndumst við

og létum þá eina tala

um saklausar ástir, svanaklið

og sólmóðu grænna dala.

En oft er, að sumarið seiðir mest,

ef sól er að djúpi runnin,

og þegar við fundum funann bezt,

var fyrsti eldurinn - brunninn.

 

Sá uggur, sem fór um okkur tvö,

var öskunni mest að kenna.

Af loftinu hverfa sólir sjö,

er síðustu sprekin brenna.

En óskalandið var lýst í bann

og lífinu fjötrar spunnir.

Logarnir titruðu, tíminn rann,

unz tveir voru eldar brunnir.

 

Að una sem gestur í annars borg

var aldrei að þínu skapi.

Um loftið, myrkvað af leyndri sorg,

fór leiftur af stjörnuhrapi.

Á hinztu glæður brá fölskva fljótt,

því fram hjá var stundin runnin.

Þjáningin kom eins og þögul nótt

og þriðji eldurinn - brunninn.

 

Í dökkvanum jörðin döggvuð svaf,

og dulið var allt, sem við þráðum.

Milli okkar er hyldjúpt haf,

þó himinn sé yfir báðum.

Í fjarska eru djúpin fagurblá

þó frjósi þau, vötnin grunnu ...

Ennþá man ég eldana þrjá,

eldana þrjá - sem brunnu.

 


Maðurinn er ljósbrigði - mikil og tvenn

Ljosbrigdi-AgustAtlason Í framhaldi af þeirri umræðu um skólamál sem spunnist hefur á síðunni minni síðasta sólarhringinn - með hugleiðingum um fjölgreind og þarfir barna -  langar mig að sýna ykkur ljóð eftir Ólínu Andrésdóttir skáldkonu. Hún komst oft vel að orði um ýmislegt - þessi fjarfrænka mín, og alnafna ömmu minnar, sem augljóslega hugsaði margt og átti sínar heimspekilegu stundir í einrúmi.  Á slíkri stundu hefur þetta ljóð orðið til - það er þrungið  speki:

 

Allir kunna að brosa, þó augun felli tár,

allir reyna að græða sín blæðandi sár,

alltaf birtist gleðin þótt eitthvað sé að,

allir þekkja ástina, undarlegt er það.

Maðurinn er steyptur úr misjöfnum málm,

maðurinn á skylt við hinn blaktandi hálm.

Maðurinn er knörr, sem klýfur ölduföll,

kraftur sem rís hátt eins og gnæfandi fjöll.

Maðurinn er vetur með myrkur og tóm,

maðurinn er sumar með geisla og blóm,

maðurinn er ljósbrigði, mikil og tvenn,

maðurinn er tími og eilífð í senn.

(Ólína Andrésdóttir)


Norðan fjúkið næðir kalt

hestarihöm 

Svolítil hringhenda í tilefni af illviðri og jarðbönnum:

 

Norðan fjúkið næðir kalt

naprir rjúka vindar.

Fanna dúkur felur allt.

Freðnir hjúpast tindar.

 

Hjallabungur, freðið frón

fetar hungur vofan.

Kári þungan kveður tón,

kallar drungann ofan.

 

 

brrrrrrr.................


mbl.is Slæmt veður víða um land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólrisa í snjómuggu

 skutulsfjordur

 Í dag, 25. janúar, er hinn formlegi sólrisudagur okkar Ísfirðinga.     Ekki sjáum við þó til sólar í dag, snjómugga í lofti  og sjálfsagt skýjaður himinn. Síðustu daga höfum við þó séð sólinskin á fjallatoppum, og næst þegar sér til sólar mun hún gægjast yfir fjallsbrún. Þá munu geislar hennar ná alla leið niður á eyri - gylla húsþökin - og verma hjartað

 

Sól, þér helgum sigurlag

og syngjum lof af hjarta.

Þú breytir hríðar dimmu í dag

uns dægrin litum skarta.

Já, þiggðu okkar þakkarbrag

þokkagyðjan bjarta.

 

Þegar vetrar drunginn dvín

og dregur hægt að vori,

Þorri hörfar heim til sín

hrímþungur í spori,

þú feimin yfir fjallsbrún skín

og fyllir brjóstið þori.

 

Með blíðu kyssir klakatár

af klettsins hrjúfa vanga,

græðir viðkvæm svarðar sár

og sefar kulið stranga.

Þú vekur drauma, vonir, þrár

af vetrarsvefninum langa.

 

Sól, þér ómar ísfirsk þökk

upp af mjallar hjúpi

og í fuglsins kvaki klökk

kveðin fjalls af gnúpi:

Sigurbragur - söngva þökk

sungin úr bláu Djúpi.

 

Í dag á Hjörvar, yngsti drengurinn minn, afmæli Smile hann er fjórtán ára.

Á slíkum degi er við hæfi að fara með lofgjörð til sólarinnar. Þessi óður var ortur í tilefni af 70 ára afmæli Sunnukórsins fyrir fjórum árum.

Jónas Tómasson samdi fagurt lag við þennan texta af sama tilefni - en lagið er svo krefjandi fyrir söngraddir að kórinn  hefur aðeins flutt það tvisvar sinnum, svo ég muni.


Skemmtileg áramót - og skaupið bara ágætt

Þetta voru skemmtileg áramót og skaupið bara ágætt. Ég hló að minnsta kosti, ekki síst þegar við bloggararnir fengum á baukinn. Mér fannst það bara smellið.

Annars var svona ýmist hvort þeir sem með mér voru hlógu - mamma er á níræðisaldri, og hún var ekki mjög hrifin. Krakkarnir voru svolítið spyrjandi á svip stöku sinnum. En svona í heildina var þetta bara ágætt. Það lá líka svo vel á öllum, að ég held við hefðum hlegið að hverju sem var.

Að þessu sinni héldum við áramótin hátíðleg á rólegu sveitahóteli í nágrenni höfuðborgarinnar - Völlum í Ölfusi - sem við höfðum alveg út af fyrir okkur. Ekki amalegt það Wizard 

Þarna reka systir mín og mágur hestaleigu og vistvæna ferðaþjónustu ásamt fleirum. Þau buðu okkur að koma og eyða gamlárskvöldinu með þeim í kyrrð og ró - hótelið autt yfir aðal hátíðarnar og nóg gistirými. Við þáðum það með þökkum og sjáum ekki eftir því.

Halldóra og Nonni (Medium) Eins og sjá má höfðu þau hjónin  (Sigurjón og Halldóra) í ýmsu að snúast í eldhúsinu meðan verið var að matbúa kalkúninn Wink

Allir lögðu eitthvað í púkkið í mat og drykk - svo borðuðum við saman dýrindis kalkún og ýmsa eftirrétti, horfðum á fréttaannálinn og skaupið í sameiningu. Fjölskyldufeðurnir skutu upp flugeldum - og voru sýnu áhugasamari við þá iðju en afkomendur þeirra Wink. Eftir miðnætti fór unga fólkið akandi í bæinn til þess að skemmta sér, en elsta og yngsta fólkið sló sig til rólegheita.

Frændsystkin (Medium)  Frændsystkinin gera sig klár fyrir brottför. Fv. bræðurnir Sigurjón Bjarni og Þorvarður Sigurjóns og Halldórusynir, þá Magdalena (Maddý), Pétur og Saga Sigurðar og Ólínubörn.  

Einhvern tíma hefði maður nú vakað (og sofið) lengur um áramót - öðruvísi mér áður brá. En tímarnir breytast og mennirnir með. Það var gott að vakna hress og endurnærður á nýjársdagsmorgun - með fögur fyrirheit og uppbyggilegar áætlanir fyrir nýja árið. Smile

 

Áramót

 

Enn vaggar tíminn

nýfæddu ári

í faðmi sínum

 

við deyjandi glæður

af bálför þess liðna

horfa hvívoðungsaugu

í myrkar sjónir

óræðrar fyrndar

                                       (ÓÞ: Vestanvindur, 2007)


Þrumugleði um jól

jolatra_stor Það var dásamlegt að heyra almættið þruma yfir höfuðborginni á sömu stundu og jólin gengu í garð. Kirkjuklukkurnar voru vart þagnaðar þegar elding lýsti upp himininn og mikilfengleg þruma fylgdi í kjölfarið. Og svo eins og verið væri að steypa hagli úr fötu.´

Við þessa óvæntu jólakveðju komst ég í alveg sérstakt hátíðarskap. Mér varð litið á fjölskylduna mína við veisluborðið - við vorum nýsest þegar þetta dundi yfir - og á einhvern óútskýranlegan hátt fannst mér eins og Drottinn sjálfur hefði sest að borðinu með okkur. Ég get ekki útskýrt það nánar. En hjarta mitt fylltist þakklæti og gleði - mér finnst ég hafa svo óendanlega margt að þakka fyrir.

Þetta var gott aðfangadagskvöld. Það var yndislegt að hafa næstum því alla fjölskylduna hjá sér - og hina innan seilingar sem ekki sátu með okkur til borðs. Vita af öllum ástvinum einhversstaðar í góðu yfirlæti. 

Eftir matinn fórum við mæðgurnar (ég, Saga og Maddý) í miðnæturmessu í Hallgrímskirkju. Það var falleg messa. Sérstaklega var ég glöð yfir því að kirkjugestir skyldu hvattir til þess að taka virkan þátt í söngnum. Það var augljóslega vel þegið, og kirkjan ómaði öll. Hátíðleg og yndisleg stund.

Eftir messu dró ég Sigga svo með mér í göngutúr með hundinn í tunglsljósinu, enda brostin á blíða með stjörnubliki og silfruðum sjávaröldum. Afar falleg jólanótt. 

      Jólanótt

      Norðurljósa litatraf
      liðast hægt um myrkrahvel,
      lýsir himinn, land og haf,
      litkar hjarn og frosinn mel.
      Rauðbleik merlar mánasigð
      á myrkum sæ um þögla nótt.
      Langt í fjarska bjarmar byggð
      - borgarljósin tindra rótt.     

      En yfir raflýst borgarból
      - á bak við heimsins ljósadýrð -
      ber sín helgu boð um jól
      björt en þögul nætursól,
      við skörðum mána skín í kyrrð
      skærum loga úr órafirrð
      er lúnum mönnum lýsti þrem
      langan veg til Betlehem.


Óvænt næðisstund á aðfangadegi

adventukransÓvænt næðisstund á aðfangadegi: Hamborgarahryggurinn soðinn, ísinn tilbúinn, fiskhringurinn og Rice crispies tertan. Búið að leggja á borðið - allir búnir jólabaði, og stóru börnin í jólapakkaleiðangri. Eiginlega er maður bara að bíða eftir jólunum Halo

Og þá - alltíeinu - langaði mig til að blogga. Bara eitthvað pínulítið.

Já, bloggið er orðinn svo snar þáttur í daglegu lífi, að meira að segja á aðfangadag finnst manni maður eiga eitthvað ógert ef ekki er komin inn bara svolítil bloggfærsla.

 Jæja, hér er hún komin - og þá get ég haldið áfram jólastússinu. Ég læt fljóta með svolitla vísu sem varð til hjá mér fyrir nokkrum árum.

  •  Minningin er mild og tær
  • merla stjörnuljósin
  • í barnsins auga blíð og skær
  • blikar jólarósin.

Svo vona ég að allir njóti nú jólanna virkilega vel.

 


"Sýsl" og "basl" í skáldskap

Margra barna mæður eiga ekki að "sýsla" og "basla" við ljóðagerð. Þetta er skoðun Skafta Þ. Halldórssonar bókmenntagagnrýnanda Morgunblaðsins sem birtir ritdóm í blaðinu í dag um ljóðabók mína Vestanvind. Að vísu sviptir Skafti mig einu barni - segir mig vera fjögurra barna móður. Er hann þar að vísa - að því er virðist - í einn af prósum bókarinnar, sem hann augljóslega tekur sem mína persónulegu dagbók, en ekki þá kómísku mannlífsmynd og hugvekju sem tilvitnaðri sögu var ætlað að vera.

Jæja, best ég leiðrétti nú þetta: Ég er FIMM barna móðir eins og fram kemur á bókarkápu. Ég er líka orðin amma. 

Og hvað er nú svona kona að gera upp á dekk í skáldskap? Það á gagnrýnandinn erfitt með að skilja. Að vísu telur hann "margt vel gert" - og eyðir síðan furðu löngu máli í að sýna fram á það með dæmum. En honum finnst samt að ég eigi bara að halda mig við vísnagerð - þar sé ég á heimavelli.  

Og svo tekur hann mig á kné sér til að kenna mér hvernig maður eigi að orða hugsanir í ljóðum. Myndlíkingar á borð við "hafdjúp hugans", "logndýpi drauma" og "grunnsævi vökunnar" kallar hann  "samsetningar" og frasakennda myndsköpun. Þarna hafi ljóðmálið tekið völdin af hugsuninni. Svo rökræðir hann við mig um það hvernig ég hefði átt - eða öllu heldur ekki átt - að yrkja eitt ljóðanna. Það er ljóðið Mæði:

Ástin / er berfætt ganga / um grýttan veg. 

Söknuðurinn / sárfætt hvíld / í skugga gleðinnar.

 "Ég get alveg skilið að ástin geti verið berfætt ganga um grýttan veg og söknuðurinn þá sárfætt hvíld. En að gleðin varpi skugga á söknuðinn finnst mér vera merkingarleysa", segir Skafti.

Hmmm ... það er einmitt það. Gott er nú fyrir ljóðskáld að fá svona kennslustund. Verst að mér skyldi aldrei hafa hugkvæmst þetta þegar ég skrifaði bókmenntagagnrýni fyrir moggann í den, að kenna ljóðskáldunum að yrkja. Reyndar held ég að Skafti hefði mátt hugleiða betur merkingu þessarar líkingar um gleðina og skuggann  - en ef hann meðtekur ekki hvað ég er að fara þarna, þá verður bara að hafa það.

Þessi ritdómur minnir mig óþægilega á þrjátíu ára gamla umræðu sem spratt upp um hinar svokölluðu kerlingabækurá sjöunda áratugnum. En það orð var notað í fúlustu alvöru um verk þeirra skáldkvenna sem þá höfðu kvatt sér hljóðs. Það voru karlrithöfundar - á svipuðu reki og Skafti er núna - sem fundu þessa ágætu einkunn yfir skáldskap kvenna. 

Þetta er trúlega hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem gagnrýnendur láta kynhlutverk og þjóðfélagsstöðu kvenna hafa áhrif á dóma sína. En svona til að lesendur geti áttað sig aðeins betur á þessu dæmi sem Skafti nefnir  "samsetning" ætla ég að birta það tiltekna ljóð hér fyrir neðan. Það heitir Út vil ek (og auðvitað á maður ekkert að vera að  bjóða upp á svona "frasakennda myndsköpun" eða leggja það á gagnrýnendur að botna í svona ljóðum). En ljóðið er svona:

Í hafdjúpum hugans

leitar vitundin landa

um útsæ og innhöf

ferðast hún um þangskóg

í sjávardölum

 

úr logndýpi drauma

sækir hún í strauminn

streitist á móti

brýst um

og byltist

í þungu róti

 

Á grunnsævi vökunnar

spriklar hún að kveldi

- þar lagði dagurinn netin

að morgni

 

þéttriðin net

troðfull að kveldi ...

 

 

PS: Og svo skil ég nú ekki hversvegna mogginn birtir af mér 18 ára gamla mynd - nema ég sé orðin svona herfilega ljót af öllum mínum barneignum, sýsli og basli að það sé ekki mönnum bjóðandi að sýna mig eins og ég er Shocking


Andleysi

  • Orðin get ég góðir menn
  • gjarnan látið flæða
  • þó ég viti ekki enn
  • um hvað ég ætla' að ræða.

Þessa ágætu vísu orti Guðmundur Ingi Kristjánsson fyrir allmörgum árum í orðastað manns nokkurs sem fundarstjóri hafði óvart gefið orðið án þess hann bæði um það. Sá sem fékk þarna orðið kom í pontu og kvaðst ætla að nota tækifærið fyrst honum var úthlutað ræðutíma, þó hann hefði ekki ætlað sér það í upphafi.

Eins fer fyrir mér í dag. Bloggsíðan blasti bara við mér auð og óskrifuð í stjórnborðinu. FootinMouth Ég hef svosem ekki neitt að ræða - er alveg andlaus. Og því hef ég bara ákveðið að blogga ekki neitt að sinni. Leyfi bara þessum orðum að flæða .... stefnulaust ...... hef ekkert að segja ...

Samt er égt búin að fylla hér talsvert rými með orðum.  Errm  Athyglisvert

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband