Færsluflokkur: Ljóð
Fyrsta ljóðabókin mín ...
4.10.2007 | 14:57
... er að fara í prentsmiðjuna. Kápan tilbúin og búið að senda hana í Bókatíðindin. He-hemm - það verður sumsé ekki aftur snúið úr þessu ég er komin út úr skápnum með ljóðin mín.
"Og þó fyrr hefði verið" hnussaði vinkona mín elskulega þegar ég sagði henni hálf feimin hvað stæði til. En ég verð að viðurkenna að fyrir mig er þetta svolítið skrýtið. Nú þegar á hólminn er komið finnst mér hálfpartinn eins og ég hafi opnað dyr sem hingað til hafa verið lokaðar. Hleypt fólki (væntanlegum lesendum) innfyrir hliðin. Ég ímynda mér að þetta sé ekki ósvipað því að standa hálfnakin á almannafæri.
Hvað um það - teningunum er kastað. Ég hlakka til að sjá gripinn þegar hann kemur úr prentsmiðjunni.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
Birtubrigði og borgarlíf
27.7.2007 | 00:13
Þá er sumardaginn tekið að stytta á ný. Það er svolítið sérstök tilfinning þegar aftur fer að húma á kvöldin og götuljósin kvikna. Sjálf fæ ég alltaf einhvern fiðring þegar skyggja tekur - þá víkur náttúrubarnið innra með mér smám saman fyrir borgarbarninu.
Mér finnst haustið vera tími borgarlífs - á sama hátt og vorið og sumarið laða mann til fundar við náttúruna. Sé ég ekki stödd í borginni þegar húma tekur á kvöldin verður mér yfirleitt hugsað til hennar um það leyti. Og þó að haustið sé ekki beint á næsta leiti, þá hafa birtubrigðin kallað fram hjá mér hughrif í þessa átt. Sonnettan hér fyrir neðan er ort í þeim anda.
Borg
Dökk ert þú borg í dvala hljóðra nátta,
dimmblár þinn himinn við spegilsvarta voga.
Á myrkum barmi ljósadjásn þín loga,
lýsandi veita sýn til margra átta.
Ætíð er svefn þinn ofinn þungum niði,
þó erillinn hjaðni kynlega þig dreymir.
Eirðarlaust líf um æðar þínar streymir.
Ung ertu og vökul, borg, í næturkliði.
Ungt rennur líka barna þinna blóð.
Brennandi óskum skuggar þínir svala.
Sorgir, þrár og söknuð kæfa gleðilæti.
Kynslóðir fara og koma þína slóð,
kall þeirra greindum ef þögnin mætti tala,
vonbrigði og sigra er geyma steinlögð stræti.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Æ, þessi klukkleikur!
19.7.2007 | 14:07
Ég hef ekkert vitað hvað er að gerast í þessum klukkleik sem hefur gengið á netinu síðustu daga. Fólk hefur komið inn á síðuna hjá mér og klukkað mig. Ég hef bara sagt KLUKK á móti, hin ánægðasta
En það er víst ekki leikurinn. Maður á semsagt að lista upp 8-10 staðreyndir um sjálfan sig og klukka svo jafnmarga á netinu - held ég. Jæja - best að vera ekki félagsskítur. Hér koma nokkrar staðreyndir um mig:
1) Ég er kona á góðum aldri
2) ... orðin amma - og á sætasta ömmustrák í heimi
3) Ég er fædd í meyjarmerkinu - rísandi ljón með tungl í krabba - það skýrir margt
4) ... og einmitt vegna þess að ég er "meyja" hef ég verið að dunda mér við það undanfarna daga að raða öllum bloggvinum mínum upp í stafrófsröð á síðunni minni ...
5) ... og þess vegna vil ég EKKI fá upplýsingar um að þetta sé hægt að gera með einu handtaki
6) Ég er útivistarkona og elska gönguferðir
7) Ég elska fjölskylduna mína og held ég myndi verja líf barnanna minna með mínu eigin lífi ef með þyrfti
8) Mér leiðast úrtölur ...
9) ... þoli ekki slugs og hangs
10) Ég er draumspök og svolítið göldrótt
Og svo þetta sé nú tekið saman í stuttu máli:
- Ég kostum búin ýmsum er:
- Áköf, kurteis, gjafmild, þver.
- Engan löst þó af mér ber,
- enda flókinn karakter
Ljóð | Breytt s.d. kl. 15:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Glóey varpar gullnu trafi
10.7.2007 | 11:37
Og sumardýrðin heldur áfram - á svona degi er ekki hægt að blogga, bara yrkja: Hér kemur ein "afhenda" í tilefni veðurblíðunnar. Hún fjallar að vísu um vorið, þó komið sé fram í júlí, en gerir sama gagn:
Vorið klæðir vog og sund með vindum þýðum
bliknuð vakna blóm í hlíðum.
Ungar kvika, iðar líf í ársal blóma
laust úr vetrar leiðum dróma.
Glóey varpar gullnu trafi glitra vogar
allt í sólareldi logar.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Brunninn kórbúningur
2.7.2007 | 22:51
Ég er í svolítið vondu máli. Ég þarf nefnilega að útskýra fyrir upphaflegum eiganda kórbúningsins sem ég hef haft að láni undanfarin ár, hvernig mér tókst að brenna tvö hnefastór göt á treyjuna, eitt á framhlið og annað á bakhlið. Sé henni haldið uppi má horfa í gegnum götin bæði, eins og hleypt hafi verið af haglabyssu í gegnum búninginn.
Þetta gerðist í hinni merku tónleikaferð Sunnukórsins til Eystrasaltslanda, sem sagt hefur verið frá hér á síðunni fyrir skemmstu.
Málið er hið vandræðalegasta, enda ýmsar kenningar uppi um það hvað raunverulega gerðist. Hvort ég hafi verið að reykja eða fikta með eld inni á hótelherbergi . Jafnvel að Sigurður bóndi minn hafi verið svo heitur í atlotum að ég hafi hreinlega fuðrað upp þarna rétt ofan lífis Sú kenning varð raunar tilefni ofurlítillar stöku sem sett var fram á góðri stundu og er svona:
- Með aldri funann finna menn
- fölskvast í sér,
- en Siggi kátur kann vel enn
- að kveikja í mér.
Jæja, svo skemmtilega vildi þetta þó ekki til. Tildrög óhappsins yrði of langt mál að rekja hér í smáatriðum en við sögu koma: Standlampi, logandi heit pera af einhverri ónefnanlegri tegund (skaðræðisgripur sem hitnar eins og skot), og Siggi minn blessaður sem í sakleysi sínu kveikti ljósið .... og fann svo brunalykt.
En nú þarf ég semsagt að manna mig upp í að hringja í hinn upprunalega eiganda og útskýra málið.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 23:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Gleðilegt sumar - og óbeislaða fegurð!
19.4.2007 | 18:09
Gleðilegt sumar - allir bloggvinir og lesendur þessarar síðu!
Harpa er gengin í garð. Það var dásamlegt að finna návist hennar þegar ég vaknaði í morgun með sumar í sinni. Sól á lofti, fuglasöngur, brum á tjrám. Ég meira að segja vatt mér í vorverkin í garðinum, tók ofan af blómabeðum, rakaði saman rusli og dáðist að krókusunum sem eru farnir að stinga upp kollinum hér og hvar.
Í gær, síðast vetrardag, var ég á hagyrðingakvöldi á Borg í Grímsnesi, og þar var glatt á hjalla, farið með margar vísur og ort á staðnum. Því miðu missti ég af annarri óborganlegri skemmtun sem átti sér stað á sama tíma vestur á Ísafirði - en það var fegurðarsamkeppnin "Óbeisluð fegurð".
Hugmyndin að þessari "fegurðarsamkeppni" er aldeilis hreint frábær. Hún storkar viðteknum staðalímyndum um fegurð kvenna og karla og er þess vegna kærkomið uppbrot og ádeila um leið. Þátttakendur voru á ýmsum aldri af báðum kynjum og flestir yfir kjörþyngd. Dregið var um fegursta þátttakandann og hlutskörpust varð falleg kona um sextugt. Þá var kosið um ýmsa titla, sælkera kvöldsins, fegurstu áruna og fleira (sjá frétt )
Aðstandendur keppninnar báðu mig að setja saman vísur af þessu tilefni - sem ég gerði - og þær munu hafa verið fluttar í gærkvöldi. Læt þær fljóta hér með að gamni:
- Bundin er í hismi og hjóm
- horuð leggja megurð,
- en ávallt hlýtur æðstan dóm
- hin óbeislaða fegurð.
- Mörgum er hún huggun harms
- og hefur læknað sjúka.
- Þegar millum bols og barms
- bifast holdið mjúka.
- Já sannleikurinn sjaldan flýr
- - soltin lúsin bítur
- og æðsta fegurð alltaf býr
- í auga þess er lítur.
- Ýmsir kostir sinna sjá,
- en síst ég þarf að minna á
- að fegurð sanna finna má
- svo fremi hún komi innan frá.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)