Faðirvorið milt og hlýtt með skuldunautum á beit

bænÉg man hvað Faðirvorið var mér mikil ráðgáta þegar ég var barn. Þegar mamma sagði "nú skulum við fara með faðirvorið" hugsaði ég ósjálfrátt um ilmandi vor kennt við föðurinn á himnum. Og í þessu milda vori reikuðu skuldunautin, skjöldótt og sælleg um iðagræn tún himnaríkis þar sem þau slöfruðu í sig safaríkt góðgresi. Umhverfis sveimuðu englarnir og dreifðu molum hins daglega brauðs niður af hvítum skýjahnoðrum, svona eins og þegar börnin gefa öndunum á tjörninni.

Já, merkingarfræðin var ekki beint að sliga barnshugann - enda má segja að sýn mín á inntakið hafi verið einhverskonar "innri skilningur" - sannur á sinn hátt.

Enn eru börn að læra Faðirvorið án þess að botna upp eða niður í merkingu þess. Þau fara bara með þuluna sína. Sjálf hef ég stundum hugsað mér að uppfæra bænina, til þess að fara skiljanlega með hana þegar kemur að því að setjast á rúmstokkinn með barnabörnunum og signa þau fyrir nóttina. Hef ég þá hugsað mér hana á þessa leið:

Faðir minn og móðir,
þú sem ert mér æðri,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki.
Verði  þinn vilji
svo á jörðu sem á himni.

Veit þú mér fæði, klæði og skjól.
Fyrirgef mér syndir mínar
og ég mun sjálf fyrirgefa öðrum.

Leiddu mig um réttan veg
og frelsa mig frá öllu illu,
því að þitt er ríkið
mátturinn og dýrðin
að eilífu.

Svo myndi ég að sjálfsögðu segja amen á eftir efninu. Halo

Þar með svifi barnið inn í svefninn á dúnléttum skýhnoðra eigin hugsana með ömmukoss á kinn. 

En ... amma sæti sennilega eftir um stund og um hana færi svolítill efafiðringur: Til hvers er maður að breyta bænum? Er rétt að svipta lítið barn hlýju og mildu faðirvori bernskunnar með skjöldóttum skuldunautum á beit?

 Woundering

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Takk

Kristín Helga (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 14:56

2 identicon

Góð

Guðrún Vestfirðingurg (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 15:08

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þetta Faðir- og móðirvor er kúlt en hér er Faðirvorið á færeysku:

Faðir vár, tú sum ert i himlunum! Heilagt verði navn títt; komi ríki rítt; verði vilji tín sum i himli so á jörð; gev okkum í dag okkara dagliga breyð; og fyrigev okkum skuldir okkara, so sum vit fyrigefa skuldarum okkura; og leið okkum ikki í freistingar; men frels okkum frá tí illa. Amen.

Þorsteinn Briem, 6.12.2008 kl. 15:30

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Skemmtileg pæling

Ásdís Sigurðardóttir, 6.12.2008 kl. 16:47

5 identicon

 "Eigi leið þú ost í frysti"  sagði sonur minn í örvæntingarfullri tilraun til að setja merkingu í þennan texta.

Ibba Sig. (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 18:00

6 identicon

Sæl Ólína.

Ekki get ég sagt með sanni að ég hafi neinn sérstakan áhuga á Faðirvorinu.  Las samt þína útgáfu og fannst hún til bóta.

Ein spurning vaknaði við lesturin. Í upphafi síðasta erindis standa þessi orð:  "Leiddu mig ekki í freistni"

Og ég spyr: Eru einhverjar líkur á að "algóður" drottinn, leiði einhvern í freistni, bara svona að gamni sínu? 

Er drottinn þrjótur sem leiðir fólk í freistni?

Ef drottinn er jafn góður og margir halda, þá tel ég ekki líklegt að hann vísi fólki á freistingarnar, heldur þvert á móti.

Er möguleiki að skrattinn hafi laumað þessu inn í faðirvorið?

"Eigi leið þú oss í freistni" ætti kanski frekar að vera, "Lát oss eigi leiðast í freistni"

Hefur þú ekki hugleitt þetta Ólína?

Með kveðju,

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 00:58

7 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þetta með SKULDUNAUTIN er alveg frábært og mikið er ég hrædd um að ýmsar útgafur af þessari torskildu bæn hafi svifið um barnshugana í gegn um tíðina. Einu sinni heyrði  ég útgáfuna svona.. eigi leið þú oss í FRYSTI..

Þín útgáfa er falleg og skiljanleg 

Hólmfríður Bjarnadóttir, 7.12.2008 kl. 02:06

8 identicon

Ólína ...... virkilega vel gert hjá þér og með góðri viðbót frá Kára Lárussyni, þá er komið nýtt "faðir vor", ekki spurning! Mun þjálla og hlýlegra/fallegra en það sem var.

Katrín (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 04:22

9 identicon

Dásamleg útgáfa af faðirvorinu :)

Annars er ég með tilgátu, varðandi af hverju maður breytir bænum. Það er nú bara þannig að sú staðreynd að flest kristið fólk fer með faðirvorið bara svona af vana...og það vantar alla persónu í það. Mér finnst að bænir eigi að koma frá hjartanu, ekki úr einhverju stöðluðu móti.

Þess vegna myndi ég breyta faðirvorinu, eftir hjartanu. Eða bara búa alveg til nýjar bænir...:P

Þín útgáfa er gullfalleg og þú þarft ekkert að efast um hana :) - Auk þess, ef ég væri Guð, þá myndi ég ekki alltaf nenna að hlusta á sömu stöðluðu bænina... :)

Dagný ... (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 11:44

10 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Ía Jóhannsdóttir, 7.12.2008 kl. 13:10

11 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég þakka góðar móttökur - og líka ábendingu Kára.

En ég tek undir með Katrínu og Dagnýju. Það ætti hver og einn að hafa sitt eigið Faðirvor sem hefði eina merkingu sagða með mismunandi orðum. Hlýtur að vera skemmtilegra fyrir alla - ekki síst Guð sem hlustar.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.12.2008 kl. 17:32

12 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

...gef oss í dag vort daglegt brauð....með smjöri og osti...bætti systir mín við,- henni fannst þurrt brauð nokkuð snautlegt,- enda matkona mikil ;)

Nautin hafa flækst fyrir hvurju minna þriggja barna....

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 7.12.2008 kl. 22:13

13 identicon

Já, fallegt faðir vorið þitt.

Ég verð líka að taka undir með Kára. Það stenst engan veginn að frelsarinn leiði okkur í freistni - og þessi hluti farðirvorsins hefur lengi stungið mig svolítið af þeim sökum. Einhvern veginn hef ég alltaf skrifað þetta atriði á þýðingavillu þó ég hafi ekki hugmynd um hvort svo er í raun.

Ég þekki nú eina góða konu sem les alltaf faðirvorið á þennan hátt: "eigi leiðir þú oss í freistni heldur frelsar oss frá illu", og ég verð að segja að mér hefur alltaf þótt það rökréttara. Það er samt fullyrðing en ekki bæn svo mér þykir Kára útgáfa betri.

En skemmtilegt þetta með vorið og skuldunautin - ég sá þetta nákvæmlega eins sem barn

Erla Rún (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 23:07

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

"And lead us not into temptatation. Interpretations of the penultimate petition of the prayer — not to be led by God into peirasmos — vary considerably. The range of meanings of the Greek word peirasmos is illustrated in The New Testament Greek Lexicon. In different contexts it can mean temptation, testing, trial, experiment.

Traditionally it has been translated "temptation" and, in spite of the statement in James 1:12-15 that God tests/tempts nobody, some see the petition in the Lord's Prayer as implying that God leads people to sin. There are generally two arguments for interpreting the word as meaning here a "test of character". First, it may be an eschatological appeal against unfavourable Last Judgment, though nowhere in literature of the time, not even in the New Testament, is the term peirasmos connected to such an event.

The other argument is that it acts as a plea against hard tests described elsewhere in scripture, such as those of Job. It can also be read as: "LORD, do not let us be led (by ourselves, by others, by Satan) into temptations". Since it follows shortly after a plea for daily bread (i.e. material sustenance), it can be seen as referring to not being caught up in the material pleasures given."

http://en.wikipedia.org/wiki/The_Lord%27s_Prayer#.22And_lead_us_not_into_temptation.22

Þorsteinn Briem, 8.12.2008 kl. 01:16

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

"And lead us not into temptation", átti þetta nú að vera.

Þorsteinn Briem, 8.12.2008 kl. 01:25

16 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Vitið þið - ég hef verið að hugsa um þessa athugasemd Kára og spá þessar orðskýringar sem Steini Briem hefur sett hér inn - og niðurstaðan er sú að ég ætla að breyta þessum orðum um freistnina í "Leið þú mig um réttan veg".

Þarna gæti svosem líka staðið: Lát mig ekki leiðast í freistni - eða álíka, en í ljósi þessara orðskýringanna sem Steini vísar til er líklega ekki rétt að tala um freistni yfirleitt.

Þarna er ég þá komin með nýtt Faðirvor - og það með ykkar aðstoð. Bestu þakkir fyrir það.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.12.2008 kl. 10:44

17 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það var nú lítið. Sjálfsagt að hafa allt sem skiljanlegast og enda þótt misskilningurinn geti verið skemmtilegur er nóg eftir í heiminum til að misskilja. Fimm ára sem 105 ára.

Þorsteinn Briem, 8.12.2008 kl. 11:17

18 identicon

Sæl Ólína.

"Leiddu mig um réttan veg"

Þetta er vel og smekklega orðað,  -eins og þín var von og vísa.

Kveðja,

Kári Lár.

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband