Guðni ljóstrar upp leyndarmáli

gudni_agustsson Guðni er að "kjafta" frá. Í fréttatímum gærdagsins var sagt frá því hvað forseti Íslands hefði "ætlað" að gera við fjölmiðlafrumvarpið hér um árið "ef" það hefði .... o.s.frv. Heimildamaðurinn er Guðni Ágústsson, núverandi formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi ráðherra. Guðni átti nefnilega "leynifund" með forsetanum um þetta leyti og varð þess þá áskynja hvernig forseta vorum var innanbrjósts. Guðni lýsir þessum fundi, ummælum forseta og yfirbragði. Guðni er nefnilega að gefa út bók - eins gott að hafa eitthvað bitastætt fram að færa þegar maður stendur í bóksölu.

Ég vona að ég sé ekki ein um það að finnast þetta óviðeigandi: Að upplýsa alþjóð um það sem fram fer á óformlegum tveggja manna fundi - trúnaðarfundi - leynifundi. Mér finnst að Guðni hafi þarna stigið yfir ósýnileg siðferðismörk. Og það sem verra er - hann hlýtur að vita að hann er einn til frásagnar. Forsetinn getur ekki tjáð sig um þetta mál - embættis síns og virðingar vegna. Það sér hver heilvita maður. Forsetinn hlýtur að telja sig bundinn af hinum óskráðu lögum um þagmælsku þegar tveir talast við og engum öðrum vitnum verður við komið.

En Guðni rýfur trúnaðinn - hann þarf að selja bók.

Þetta er ekki ósvipað þeim hvimleiða sið sem mörg dæmi eru um erlendis og því miður nokkur hérlendis - að hlaupa í blöðin með lýsingar á einkasamskiptum þegar fólk er skilið að skiptum. Segja "söguna alla" eins og það er stundum orðað. Þetta er alltaf ójafn leikur - og oft ljótur.

Í raun skiptir ekki svo miklu hvort um er að ræða einkamál eða stjórnmálaleg samskipti. Tveggja manna tal er alltaf tveggja manna tal. Menn eiga ekki að vitna í slík samskipti.

Trúað gæti ég líka að stjórnmálamenn þjóðarinnar hugsi sig um tvisvar áður en þeir eiga trúnaðarfundi með formanni framsóknarflokksins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Guðmundsson

Verst að vera fyrstur að koma með athugasemd en ef satt skal segja er ég alveg bit yfir "Kjaftagleði" formannsins og er heint og beint hneykslaður á ummælum hans sem er ekkert annað en trúnaðarbrestur í besta falli....hver vill starfa lengur með manni sem svona hagar sér????

Gísli Guðmundsson, 25.11.2007 kl. 13:51

2 Smámynd: Auðun Gíslason

Mér þykir þetta nú óþarfa "upphlaup" hjá þér.  Þessi mál í kringum "fjölmiðlafrumvarpið" eru best komin á dagsljósinu.  Þetta hugarfóstur Davíðs  og sagan öll í kringum það þarf að koma fram einsog hún fór fram.  Án þessa þáttar, sem þú ert að gera mál útaf, hefði vantað mikið uppá.  Forsetaembættinu er enginn greiði gerður með því loka augunum fyrir því hvernig Sjálfstæðismenn hafa barið á því. Gott hjá Guðna!

Auðun Gíslason, 25.11.2007 kl. 14:06

3 Smámynd: Magnús Paul Korntop

sammála síðustu 2 ræðumönnum.Gott hjá Guðna.

Magnús Paul Korntop, 25.11.2007 kl. 15:46

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Eitt mesta böl þessarar þjóðar er auðmýktin í garð pólitískra valdsmanna.

Tveggja manna tal! Þetta er spjall tveggja kjörinna fulltrúa þjóðarinnar og báðir kosnir lýðræðislegri kosningu. Þessir menn eru ekki helgir. Þeir eru vinnumenn fólksins í landinu og fólkið sem kaus þá ætlaðist ekki til þess að verk þeirra væru þeirrar gerðar að þola ekki dagsljós.

Frumvarp til laga um fjölmiðla var prófsefni Alþingis í nokkrum skilningi. Flestir fulltrúar þessarar æðstu stofnunar lýðræðis kolféllu á þessu prófi. Alþingi sjálft hlaut þá niðurlægingu sem ekki hefur enn verið afmáð úr hug þjóðarsálarinnar.

Ég fæ ekki séð að pólitískir fulltrúar okkar í viðkvæmum ábyrgðarstöðum hafi til þess unnið undanförnu að við sýnum þeim sérstaka auðmýkt.

Og ef við snúum þessari umræðu til embættanna sjálfra án þess að persónugera þau, þá er það mitt álit að það sé embættismannanna að vernda virðingu þeirra.

Á því hefur orðið mikill misbrestur. 

Árni Gunnarsson, 25.11.2007 kl. 15:52

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

"Auðmýkt"? Hver er að sýna auðmýkt, Árni? Tveggja manna tal er tveggja manna tal. Guðni er ekki að upplýsa neitt þarna sem hefur þýðingu fyrir þjóðina. Hreint ekki. Hann er bara að rjúfa trúnað - segja frá einkafundi. Okkur varðar ekkert um það hvað hann sjálfur heldur að forsetinn hafi ætlað að gera - eða hvað forsetinn var að hugsa um að gera á þessum tíma. Það sem okkur varðar um er það sem gerðist. Og ef okkur varðar um það hvað forsetinn var að hugsa, þá væri eðlilegast að spyrja hann sjálfan.

Þetta er EKKI GOTT hjá Guðna. Hreint ekki.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 25.11.2007 kl. 16:24

6 Smámynd: Auðun Gíslason

Auðvitað er þetta rétt hjá þér!  Þjóðinni kemur ekkert við hvað embættismenn eru að gera í vinnunni eða hvort þeir gera yfirleitt nokkurn skapaðan hlut...

Auðun Gíslason, 25.11.2007 kl. 17:21

7 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Guðni einfaldlega rýrir sitt eigið traust með því að segja frá einkafundi sínum með forseta. Hver vill þurfa að treysta á hann eða eiga við hann "tveggja manna tal" héreftir?

Marta B Helgadóttir, 25.11.2007 kl. 17:23

8 identicon

Nú er ég ánægður með Guðna, þetta eru menn í opinberu starfi og það sem þeir ræða sem kemur þjóðinni við á ekki að vera neitt leyndarmál. Stjórnmálamenn segja sjaldan satt og snúa út úr og fela það sem gerist bak við tjöldin, af hverju má almenningur ekki vita hvað er í gangi? Er það ekki réttur okkar að vita hvað mennirnir sem við kusum í embættin eru að plotta? Trúnaðarsamtal myndi ég ekki kalla þetta, þarna eru tveir embættismenn að sinna opinberu starfi sínu og ég sé enga ástæðu til þess að það eigi að fela það sem fór þeirra á milli. Ef þeir væri ekki í þessum störfum hefði þetta samtal aldrei farið fram.

Yngvi Þór Geirsson (IP-tala skráð) 25.11.2007 kl. 19:17

9 Smámynd: Auðun Gíslason

Hver segir að þetta hafi verið trúnaðarsamtalEr tveggja manna tal alltaf trúnaðarsamtal?  Minnist Guðni einhversstaðar á að þetta hafi verið trúnaðarsamtal eða hefur Ólafur tjáð sig?  Vitið þið eitthvað sem við vitum ekki?

Auðun Gíslason, 25.11.2007 kl. 20:22

10 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Guðni segir að hann hafi átt þetta samtal við forsetan,sem vel má vera rétt(við vitum það ekki)hann segir einnig að forsetin hafi ekki beðið sig sérstaklega  að geyma þetta með sjálfum sér,og þess vegna telji hann(Guðni)alt í lagi að birta þetta. Oftar en ekki, þegar tveir menn ræðast við, um einhver málefni sem þeim eru hugleikin, kemur tali þeirra þar, sem sem getur orkað tvímælis að því sé hampað við þriðja aðila.Við hljótum að vega og meta það með sjálfum okkur ,hvað við eigum að ganga langt í því að segja frá því sem fram fer í tveggja manna tali,sérstaklega þegar það þjónar engum tilgangi. Nema auðvitað að auka söluhorfur bókar.

Ari Guðmar Hallgrímsson, 25.11.2007 kl. 20:40

11 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Ég er innilega sammála þér, Ólína. Þetta

Ragnhildur Sverrisdóttir, 26.11.2007 kl. 00:14

12 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Þetta hefur ekkert með "opna stjórnsýslu" að gera eða nokkuð annað. Þetta er ekkert annað en hreinn og klár trúnaðarbrestur, sem hefur enga þýðingu. Er Guðni að segja frá einhverju sem máli skiptir? Hreint ekki, hann er bara að slá sig til riddara. Og er ekki maður að meiri.

Ragnhildur Sverrisdóttir, 26.11.2007 kl. 00:16

13 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sammála Ólínu, Mörtu, Hallgerði og Ragnhildi.

Sigurður Þórðarson, 26.11.2007 kl. 00:39

14 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Ég stend með Guðna. Ég veit hann hefði aldrei sagt frá þessu einkasamtali nema fyrir þær sakir að Ólafur Ragnar forseti vor hefði fyrst gefið 100% samþykki áður. Auðvitað er það þannig, og málið dautt !

Níels A. Ársælsson., 26.11.2007 kl. 00:40

15 identicon

HVER SAGÐI? HVER ÞAGÐI? HVER TIL HVERS LAGÐI? Og öllu gamni sleppt,þá langar mig að leggja aðeins eitt inn í umræðuna og það er.

Það sem skiftir þjóðina máli, að í öllu sem henni viðkemur eiga að vera HEILINDI.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 04:53

16 Smámynd: Ásta Steingerður Geirsdóttir

Guðni Ág. hefði nú mátt opna  fyrir hreinskilni sína fyrr. Það er ekki traustvekjandi þegar menn í hans stöðu þurfa að senda frá sér bók til að geta tjáð sig um það sem miður hefur farið. Það hefði verið nær að menn eins og Guðni (það er nefnilega margur Guðninn) hefðu verið sjálfum sér samkvæmir og risið upp þegar mesta sukkið  var hjá þeim Halldóri og Davíð. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar flokksmenn þora ekki að tjá sig og kjósa veg meðvirkninnar heldur. Það er heldur ekki lýðræðislegt að hefta fólk í klafa innan flokkanna og þurfa að hlýta því sem forystumenn þeirra segja og gera þó það sé þeim þvert um geð. Mér finnst Guðni auglýsa sig sem miður traustan :( og ekki hafa verið samkvæmur sjálfum sér.

Ásta Steingerður Geirsdóttir, 26.11.2007 kl. 08:57

17 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta er að mínu mati, ótrúlega hallærisleg leið til að selja bók.  Svona stjórnmálamenn vil ég ekki hafa í vinnu fyrir þjóðina.  Gott að hann er ekki ráðherra lengur.  Hvað telur hann sig græða á þessu, annað en peninga?? 

Ásdís Sigurðardóttir, 26.11.2007 kl. 10:27

18 Smámynd: Árni Gunnarsson

Í framhaldi af athugasemd minni hér á undan vil ég taka fram að ég er þó að nokkru samþykkur þeirri ályktun Ástu Steingerðar að Guðni hefði betur tjáð sig um þetta fyrr. Eða öllu heldur neitað að taka þátt í svona fíflagangi sem öllum er til ævarandi skammar sem að honum stóðu.

Þessi atburðarás sem Davíð Oddsson stýrði og hélt öllu þingliði ríkisstjórnar jafnframt í heljargreipum eigin vænisýki er auðvitað blettur á lýðræði þessarar þjóðar. Svona líkt og brjálsemin í Baugsmálinu og olíumálið þar í samanburði.

En ég bendi á grein Guðmundar Andra Thorssonar í dag í Fréttablaðinu þar sem hann ræðir um þessa "uppljóstrun" Guðna Ágústssonar. 

Árni Gunnarsson, 26.11.2007 kl. 11:25

19 Smámynd: Ár & síð

Af hverju ganga allir út frá því að Guðni segi satt? Er reynsla okkar af þessum pólitísku forkólfum þess eðlis að við getum gengið út frá því sem vísu? Öðru eins hafa menn nú logið.

Ár & síð, 26.11.2007 kl. 13:13

20 Smámynd: Sævar Helgason

Var að lesa "ritdóm " Össurar - Þetta er þykk og mikil bók 500 bls.  Og ekki skortir athyglina og umræðuna um innihaldið.

Ég held,eins og kom fram hér framar, að þetta samtal forsetans og Guðna hafi fengið samþykki til opinberunnar- talið væri  brýnt að stjórnmálalífið og þjóðin fengi þessa vitneskju. Hvað annað ?

Sævar Helgason, 26.11.2007 kl. 19:01

21 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Sammála Ólínu - og var reyndar búinn að tjá mig um það á mínu bloggi í gær - eftir að hafa flett bókinni og horft á Guðna ásamt "handritshöfundinum, leikstjóranum og umboðsmanninum" Sigmundi Erni í Silfri Egils.

Tel Guðna rjúfa trúnað  - það eru engar persónulegar heimsóknir ráðherra til Bessastaða við þær aðstæður sem uppi voru.  

Mér finnst nú heldur ekki stórmannlegt af honum að stinga Halldór svona fjarstaddan - - og hver trúir því að Guðni hafi verið saklaus eins og barn af verstu verkum ríkisstjórnar þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssona - - Guðni bakkaði þá upp öll þessi ár - - án opins ágreinings.   Setti annan pistil á Vísis-bloggið líka í þessum dúr - - þar sem ég efast um tilraun Guðna til að koma sér á framfæri sem pólitíkus - - þar sem hann varð einkum þekktur vegna velheppnaðrar eftirhermu Jóhannesar Kristjánssonar -  - og þess að tala eins og út úr kú (undir fjósveggnum).

Benedikt Sigurðarson, 26.11.2007 kl. 20:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband