Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Styrkur eða mútur?
9.4.2009 | 17:03
"Ertu að segja að Sjálfstæðisflokknum hafi verið mútað - er það það sem þú ert að segja?" sagði Bjarni Benediktsson formaður flokksins reiðilega þegar hann var spurður i sjónvarpsviðræðum um 55 mkr greiðslur frá FL-Group og Landsbankanum síðla árs 2006. Í beinu framhaldi talaði hann um "nýja forystu" Sjálfstæðisflokksin og gerði hvað hann gat að skilgreina sig frá málinu. Með "nýrri forystu" á Bjarni væntanlega við sjálfan sig og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur varaformann flokksins, sem er nú ekki beint nýkjörin í það embætti.
Er nema von þó að orðið "mútur" beri á góma vegna þessa máls? Tímasetningarnar eru a.m.k. afar óheppilegar eins og fram kemur í þessari frétt á visir.is.
Málið er grafalvarlegt.
Í OR/REI málinu munaði einungis hársbreidd að hlutur Orkuveitu Reykjavíkur í Reykjavík Energy Invest yrði seldur í hendur einkaaðilum. Þar með hugvit og verðmætt raforku- og gagnaflutningakerfi sem varð til fyrir fjármuni almennings og í hans þágu. Og hverjir skyldu nú hafa viljað koma þessum verðmætum í einkaeign? Það voru Sjálfstæðismenn í Reykjavík. Hverjir áttu hagsmuna að gæta að komast yfir verðmætið? Það var m.a. FL-Group.
Því skal til haga haldið að Guðlaugur Þór var á þessum tíma stjórnarformaður OR.
Hér má rifja það upp að umrætt haust sameinuðustu tvö fyrirtæki, Reykjavik Energy Invest (REI) og Geysir Green Energy (GGE) og báru eftir það nafn þess fyrrnefnda sem við skammstöfum REI.
REI var 93% í eigu OR en 7% voru í eigu Bjarna Ármannssonar, stjórnarformanns, og Jóns Diðriks Jónssonar, starfsmanns REI.
GGE var 43,1% í eigu FL Group (sem var í eigu Baugs m.a.), 16,1% í eigu Glitnis, 32% í eigu Atorku og 8,8% í eigu annarra, þar með félaga, sem kennd eru við framsóknarmenn undir forystu Finns Ingólfssonar. Ráðgjafi GGE í sameiningarferlinu var Glitnir.
Það kom í hlut Bjarna Ármannssonar, stjórnarformanns REI og Hannesar Smárasonar, stjórnarformanns í GGE og forstjóra FL-Group, að kynna samruna félaganna á fjárfestafundi FL- Group í London þann 4.október 2006.
Þannig voru sumsé eignatengslin á þessum tíma. Sjálfstæðisflokkurinn fór með meirihlutavald í Borgarstjórn Reykjavíkur og hlutaðist til um að koma þessari almenningseign í hendur einkaaðilanna. Því var naumlega forðað.
Sá möguleiki blasir við hverjum sem vill sjá, hvað hér gæti hafa gerst.
Á sama tíma og verið var að taka ákvörðun um að færa gífurleg verðmæti úr almenningseigu í hendur einkaaðila berast 30 mkr frá þeim sem á að hreppa hnossið (FL-Group) inn á bankreikning stjórnmálaaflsins sem ræður afdrifum málsins.
Og nú keppast menn við að þræta fyrir aðkomu sína að málinu. Það er beinlínis vandræðalegt á að hlýða. Geir Haarde - sem eins og allir vita er að vikinn af vettvangi - reynir að bjarga flokknum með því að taka á sig alla ábyrgð. Já, hann heldur því m.a. fram að hvorki Kjartan Gunnarsson fv. framvkæmdstjóri flokksins (og stjórnarmaður í Landsbankanum) né Andri Óttarsson, núverandi framkvæmdastjóri, hafi vitað um þetta. Ja hérna! Hvorugur framkvædastjórinn hafði vitneskju um 50 mkr sem bárust flokknum. Þeir hafa ekki litið oft yfir bókhaldið blessaðir.
Nei, nú duga engin vettlingatök. Þetta mál ber að rannsaka sem sakamál.
Styrkir endurgreiddir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 14.4.2009 kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
Jóhanna bar af
8.4.2009 | 09:46
Jóhanna Sigurðardóttir flutti þá albestu ræðu sem ég hef heyrt hana flytja lengi, í eldhúsdagsumræðunum á Alþingi í gær. Hún stóð upp úr sem málsverjandi íslensks almennings. Gjörsamlega laus við lýðskrum, yfirboð eða upphrópanir flutti hún mál sitt og gerði grein fyrir þeim verkefnum sem unnið er að og fyrir liggja af tilhlýðilegri festu og ábyrgð.
Þau verkefni eru mörg og stór:
- Endurreisn efnahagslífsins,
- endurskipulagning stjórnsýslunnar,
- að verja velferðina og heimilin,
- byggja upp atvinnulífið og
- reisa við banka- og fjármálakerfið.
Þá er ónefnf eitt veigamesta viðreisnarstarfið sem er
- að endurheimta traust okkar á alþjóðavettvangi og ennfremur
- að endurvinna traust almennings á leikreglum samfélagsins og framgöngu þeirra sem þar ráða málum.
Það leynir sér ekki að síðustu vikur hafa verkin verið drifin áfram í stjórnarráði Íslands. Menn þar á bæ segja að forsætisráðherrann hreinlega andi niður um hálsmálið á þeim til að halda þeim að verki. Þar er unnið nánast myrkranna á milli. Enda veitir ekki af.
Annars fannst mér Helga Sigrún Harðardóttir líka standa sig býsna vel í þessum eldhúsdagsumræðum. Þó að ég sé henni fullkomlega ósammála varðandi ýmislegt, þá var einhver sjálfsgagnrýninn og heiðarlegur tónn í málflutningi hennar sem snerti mig vel. Vonandi munu fleiri slá svipaðan tón í störfum sínum á Alþingi eftir kosningar. Það er tími til kominn að nálgast viðfangsefnin þar á bæ með öðru hugarfari en verið hefur síðustu ár. Það er að segja af aukinni einlægni og minni meinbægni.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Brask, spilling og ... ríkisaðstoð?
7.4.2009 | 22:01
Kastljós Sjónvarpsins fjallaði í kvöld um eins milljarðs króna lánveitingu stjórnarformanns Byrs Sparisjóðs til félags sem notaði fjármunina til þess að kaupa stofnhlut stjórnarformannsins í Byr stuttu eftir bankahrun.
Ekki nóg með það. Stjórnarmenn fyrirtækjanna Byrs Sparisjóðs, Exeter og MP-banka virðast hafa höndlað með lánsfé til hlutbréfakaupa sín á milli, þar sem þeir sátu beggja vegna borðsins í samofnum eigna- og hagsmunatengslum.
Til að kóróna allt annað mun Byr Sparisjóður nú hafa óskað eftir ríkisaðstoð í kjölfar "kreppunnar". Ó já, þegar stjórnarformaðurinn hefur fengið það sem hann þurfti og forðað sér á þurrt, þá er farið fram á ríkisaðstoð. Þá má blessaður almenningurinn aðstoða fyrirtækið.
Umræddur stjórnarformaður mun nú hafa látið af störfum - en ekki kom fram hvert framhald málsins verður.
Þetta er líklega bara skólabókardæmi um það hvernig kaupin hafa gengið á eyrinni í íslenskum fjármálaheimi bæði fyrir og eftir hrun.
Horfið á þessa umfjöllun Kastljóssins HÉR - hún er fróðleg.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Aðeins meira um 20% niðurfærsluleið
5.4.2009 | 23:02
Mikið hefur verið skeggrætt um svokallaða 20% niðurfærsluleið sem kynnt var fyrir fáeinum vikum sem einföld lausn á skuldavanda fólksins í landinu. Hugmyndinni var strax tekið af velviljuðum áhuga allra þeirra sem láta sig hag almennings varða. Hún var skoðuð gaumgæfilega m.a. innan Samfylkingarinnar, enda vissulega þess virði að ígrunda vel allar lausnir sem boðnar eru - nógir eru nú erfiðleikar þjóðarinnar.
Seðlabanki Íslands gerði skýrslu um málið, byggða á gagnagrunni sem bankinn hefur yfir að ráða um skuldir og eignir landsmanna. Í skýrslunni er því haldið fram að kostnaður af 20% niðurfærslu allra skulda í landinu myndi lenda á ríkissjóði annarsvegar eða erlendum kröfuhöfum hinsvegar. Af skýrslunni má glöggt ráða að í þessu felist eignatilfærsla frá einstaklingum til fyrirtækja og að heildarkostnaðurinn við þetta muni verða 900 milljarðar króna, þar af 285 milljarðar vegna húsnæðisskulda eingöngu. Sú upphæð er 45% af heildarútgjöldum hins opinbera.
Skuldir ríkissjóðs sem áætlaðar eru 1100 milljarðar króna í lok þessa árs myndu því tvöfaldast við þetta.
Bent er á að flöt niðurfelling húsnæðisskulda myndi hafa ólík áhrif á mismunandi hópa. Þannig myndi aðeins helmingur umræddrar niðurfærslu nýtast þeim sem eru í alvarlegum vandræðum.
Magnús Þór Torfason doktorsnemi við Columbia Business School hefur skrifað mjög áhugaverða grein sem hann nefnir Að þykjast gefa þeim fátæku en gefa í raun þeim ríku sem ég hvet ykkur til þess að lesa. Þá hefur Jón Steinsson, hagfræðingur við Columbia háskóla skrifaði grein þar sem hann bendir á eignatilfærslu frá landsbyggð til höfuðborgar sem hlytist af þessari leið.
Það er athyglisvert að ýmsir Sjálfstæðismenn hafa talað á móti þessari leið. Ég bendi til dæmis á Pétur Blöndal og Elliða Vignisson bæjarstjóra í Eyjum.
Kjarni málsins er þó þessi: Ef hægt væri að sýna fram á að 20% niðurfærsluleið fæli í sér eitthvert réttlæti og raunverulega aðstoð við þá sem sárast þurfa hennar með, þá myndi ég heilshugar styðja hana. Fram á það hefur ekki verið sýnt. Þvert á mót bendir flest til þess að flöt niðurfærsla myndi fela í sér gífurlega eignatilfærslu frá einstaklingum til stórskuldugra fyrirtækja - við værum jafnvel að tala um mestu eignatilfærslu af því tagi sem um getur.
Niðurfærsla lána hjá þeim sem helst þurfa á því að halda er annað mál. Sé tekið mið af greiðslugetu fólks þannig að niðurfærslan nýtist þar sem hennar er helst þörf, þá horfir málið öðruvísi við.
Jöfnuður felst ekki endilega í flötum aðgerðum, heldur að hver og einn fái það sem hann þarfnast.
Eftirmáli við orðarimmu á Sprengisandi:
5.4.2009 | 12:08
Úff! Ég lenti í svakalegri rimmu við Tryggva Þór Herbertsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson á í Sprengisandinum á Bylgjunni í morgun. Ég er enn að jafna mig.
Þarlét ég falla orð um tengsl Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar við fyrirtækið Kögun - sem ég þarf að útskýra betur. Í atgangi umræðunnar tókst mér ekki að gera það sem skyldi, og ég vil síður láta orð mín standa óútskýrð þannig að þau hljómi sem dylgjur.
Það sem ég átti við með tengslum Sigmundar Davíðs er eftirfarandi:
Fyrirtækið Kögun var á sínum tíma í eigu fjölskyldu Sigmundar Davíðs. Faðir hans Gunnlaugur Sigmundsson var framkvæmdastjóri og stór eigandi þess. Þetta fyrirtæki hefur nú verið selt úr eigu fjölskyldunnar og ég skal ekkert um það segja hvernig þeim auðæfum hefur verið varið. Hins vegar var Kögun dæmi um fyrirtæki sem naut góðs af ríkulegum stjórnmálatengslum í formannstíð Steingríms Hermannssonar og síðar Halldórs Ásgrímssonar. Fyrirtækið sat einsamalt að þjónustu við ratsjárstöðvar NATÓ í kringum landið.
Það eru hagsmunatengsl af þessu tagi sem eru undirrót þeirrar tortryggni og úlfúðar sem ríkt hefur í samfélagi okkar í kjölfar fjármálahrunsins. Tengsl af þessu tagi eru undirrót þess einokunar og fákeppniumhverfis sem hefur komið okkur hvað mest í koll.
Af orðum mínum hefði e.t.v. mátt ráða að Sigmundur Davíð ætti hagsmuna að gæta varðandi Kögun í dag. Hann þvertekur fyrir það - ég trúi honum og mér þykir leitt ef ég hef varpað rýrð á hann persónulega. Ég bið hann einfaldlega velvirðingar á því, hafi svo verið.
Annars var atgangurinn í þættinum þvílíkur, að ég hef aldrei lent í öðru eins. Dónaskapur og yfirlæti þeirra félaga hleypti í mig illu blóði strax í upphafi. Þeir efuðust um að ég hefði kynnt mér það mál sem til umræðu var, drógu vitsmuni mína og annarra í efa, þ.á.m. þeirra sem unnu skýrslu fyrir Seðlabankann um kostnað af 20% niðurfærsluleiðinni. Þær niðurstöður voru að þeirra mati öldungis ómarktækar enda unnar af "dularfullum" starfshópi sem vissi ekki hvað hann var að gera. Svona var málflutningurinn.
Af þessu lærði ég heilmikið og mun gæta mín á því að láta ekki svona hrokagikki kippa mér upp úr farinu framvegis.
Eftir situr sú staðreynd að 20% niðurfærsluleiðin fær ekki staðist sem raunveruleg lausn fyrir þá sem verst standa. Hún mun hinsvegar gagnast vel efnuðum stórskuldugum fyrirtækjum eins og skýrsla Seðlabankans sýnir.
-------------
PS: Rétt í þessu fékk ég símtal frá Gunnlaugi Sigmundssyni, föður Sigmundar þar sem hann útskýrir eignarhald sitt í Kögun. Mér er ljúft og skylt að koma hans útskýringu á framfæri:
Fyrirtækið Kögun var stofnað árið 1988 en fór ekki af stað að marki fyrr en rúmu ári síðar. Gunnlaugur var framkvæmdastjóri þess í fyrstu og eignaðist síðar um 20%. Síðar fór eignarhlutdeild hans minnkandi og þegar fyrirtækið var selt í mars 2006 átti hann og fjölskylda hans um 2% í því. Hann segir að Halldór Ásgrímsson hafi aldrei komið nálægt samningum fyrirtækisins vegna þjónustu við ratsjárstöðvarnar.
Því skal haldið til haga að sá samningur var gerður í forsætisráðherratíð Steingríms Hermannssonar, þegar Jón Baldvin Hannibalsson var utanríkisráðherra.
Við þetta er því að bæta að á heimasíðu tímaritsins Heimur.is kemur fram að upphaflega átti ríkið 2/3 hluta fyrirtækisins (Þróunarfélag Íslands) en 1/3 áttu íslensk hugbúnaðarfyrirtæki. Árið 1993 seldi Þróunarfélag Íslands 20% í félaginu - þá var Gunnlaugur Sigmundsson framkvæmdastjóri beggja félaganna, sem vakti gagnrýni og umræður á sínum tíma (sjá Morgunblaðið 15. maí 1998).
Viðskipti og fjármál | Breytt 6.4.2009 kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (85)
Hver ætlar að sjá um fólkið? Endurtekin hugleiðing.
26.3.2009 | 23:27
Nú eru horfnir af sjónarsviðinu brautryðjendurnir sem höfðu hugsjón og baráttuþrek til þess að vinna "Íslandi allt" eins og það var stundum orðað í ungmennafélagsræðum. Eldhugarnir fóru til starfa í stórfyrirtækjum og í "útrásir" erlendis. Samtímis fækkaði þeim stöðugt sem horfðu umhyggjuaugum á landið sitt.
Skeytingarleysið varð að algleymi og svo hrundi bankakerfið - þar með traustið. Þegar ég var lítið barn var mér kennt að setja aurana mína í bauk. Svo fór ég með baukinn í bankann. Honum var treystandi til að geyma þá og ávaxta. Þetta var manni kennt. Það var þá.
Nú er tími landsfeðranna liðinn. Þjóðin þarf ekki áhættufúsa ofurhuga til þess að gefa sér langt nef, raka saman arði til þess að fara með hann úr landi, eða knésetja lítil byggðarlög. Æska landsins þarf ekki meiri neysluhroka eða skeytingarleysi um mannleg gildi, en orðið er. Gamla fólki þarf ekki meiri æskudýrkun eða afskiptaleysi inn í íslenskt þjóðfélag. Arðsemiskrafa og útrásir eru ekki það sem íslenskt samfélag þarf að setja í forgang að þessu sinni, svo þjóðin fái þrifist. Markaðurinn sér um sig - en hver ætlar að sjá um fólkið?
Skáletraða hlutann hér fyrir ofan fann ég á vafri mínu um bloggsíðuna mína. Þetta eru hugleiðingar frá því fyrir tveimur árum. Sannleikshlaðin orð - án þess ég hafi fyllilega gert mér grein fyrir því þegar þau voru skrifuð hversu nöturlega sönn þau voru.
Já - hver ætlar að sjá um fólkið?
Persónuárás í formi fréttar
25.3.2009 | 17:46
Svo virðist sem veiðileyfi hafi verið gefið á Svein Harald Øygard, nýráðinn Seðlabankastjóra. Hannes Hólmsteinn Gissurarson sem lengi hefur látið lítið fyrir sér fara veður nú fram með miklu offorsi gegn Seðlabankastjóranum. Hann frýjar honum vits, telur að hann hafi ekki gáfur til að sinna starfi sínu. Til marks um það nefnir Hannes að Øygard hafi ekki kannast við einhverja skammstöfun.
Það er athyglisvert að bera þennan málflutning Hannesar Hólmsteins saman við þekktar eineltis skilgreiningar. Eitt einkenni eineltis eru uppnefni og sú tilhneiging að svipta þann sem fyrir verður persónuleika sínum og því sem gæðir hann reisn.
Hannes hefur t.d. ekki fyrir því að nafngreina Seðlabankastjórann. "Maður þessi" segir hann og velur honum uppnefni, kallar hann "fjallamann" og snýr út úr starfsheiti hans, talar m.a. um "bráðabirgðaseðlabankastjórann".
Athyglisverðast af öllu finnst mér þó að visir.is skuli birta þessa persónuárás Hannesar Hólmsteins sem einhverskonar frétt þar sem vammir Hannesar og skammir gegn Øygard eru birtar gagnrýnislaust - svo ómálefnalegar sem þær annars eru.
Ég kann ekki við þetta, verð að segja eins og er. Þetta er engin frétt, þetta er bara persónuárás. Skætingur sem á ekkert erindi inn á fréttasíðu.
Sjálf þekki ég ekki Svein Harald Øygard. Ég veit þó að hann var aðstoðarfjármálaráðherra Noregs um tíma, leiddi m.a. endurskoðun skattalöggjafar í Noregi árið 1992 og sat í starfshópi norsku ríkisstjórnarinnar um hugsanleg efnahagsleg áhrif inngöngu Noregs í Evrópusambandið. Í fréttum af ráðningu hans kom fram að hann er með meistarapróf í þjóðhagfræði, tók þátt í vinnu norskra stjórnvalda í banka- og gjaldmiðilskreppunni þar í landi árið 1992. Hann hefur starfað við seðlabanka Noregs, í fjármálaráðuneytinu og á norska- Stórþinginu.
Það er býsna bratt af að frýja þessum manni vits, svo ekki sé meira sagt.
Og það er leitt að sjá fjölmiðla lepja sorann úr lófa Hannesar Hómsteins.
Viðskipti og fjármál | Breytt 26.3.2009 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
Landbúnaðurinn og ESB
22.3.2009 | 23:07
Ég er ein þeirra sem lengi vel óttaðist inngöngu í ESB. Ég taldi að með henni yrði stoðum svipt undan íslenskum landbúnaði. Við myndum missa sjálfstæði okkar Íslendingar, ofurselja okkur miðstýrðu fjölþjóðlegu valdi. Já, ég var beinlínis hrædd við tilhugsunina. Ég ímynda mér að svipaða sögu sé að segja af þeim sem hvað harðast tala gegn ESB aðild. Þeir vita hvað þeir hafa en virðast ekki átta sig á því hvað þeir fá. Á þessu þarf að taka með opinni og upplýstri umræðu. Annars verður það óttinn sem ræður för - og hann er afleitur förunautur.
ESB hefur sett sér ákveðna byggðastefnu þar sem ríkt tillit er tekið til dreifðra byggða með stuðningi við vistvænar framleiðsluaðferðir, ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og vöruþróun. Gengið er út frá sjálfbærri landbúnaðarstefnu og styrkjakerfi sambandsins samþætt byggðastefnu þess. Í þessu felast ýmsir möguleikar fyrir íslenska bændur, hvort sem þeir sinna ferðaþjónustu eða sauðfjárrækt. Það er engin ástæða til að halda að stuðningskerfi ESB sem er aðlagað breytingum, nýsköpun og þróun í samstarfi og samskiptum þjóða í áranna rás sé neitt lakara en íslenska styrkjakerfið í landbúnaði.
Geta má nærri að gengissveiflur og ótryggt rekstrarumhverfi hljóta að reynast íslenskum bændum þung í skauti. Við inngöngu í Evrópusambandið og með upptöku Evrunnar má gera sér vonir um stöðugra efnahagsumhverfi með minni gengissveiflum, lægra vaxtastigi og bættum almennum lífskjörum. Í slíku umhverfi er auðveldara að gera langtímaáætlanir í rekstri - ekki síst búrekstri sem á mikið undir innfluttum aðföngum. Vissulega þyrftu íslenskir bændur að keppa við innflutta matvöru - en á móti kemur að samkeppnisstaða þeirra sem matvælaframleiðenda myndi batna til muna. Markaðir í Evrópu myndu opnast fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir og um leið margvíslegir möguleikar til nýsköpunar og vöruþróunar. Við erum hér að tala um 500 milljón manna tollfrjálsan markað sem Íslendinga fengju fullan og aðgang að.
Grundvallaratriðið er þó að vita eftir hverju er að slægjast. Íslendingar - ekki síst bændur - verða að skilgreina þarfir sínar og væntingar til fjölþjóðlegs samstarfs á borð við ESB. Sækja síðan um aðild, fara í viðræður og gefa loks þjóðinni kost á að taka afstöðu til þess sem í boði er með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er eina færa leiðin. Sem stendur höfum við allt að vinna - en ekkert að óttast.
(Efnislega samhljóða greinar um þetta mál hafa nýlega birst í Mbl og Bændablaðinu)
HB-Grandi ætti að skipta arðinum milli starfsfólksins
16.3.2009 | 23:19
"Löglegt en siðlaust" sagði Vilmundur Gylfason einu sinni. Setningin ómaði í höfði mér þegar ég horfði á þetta viðtal við framkvæmdastjóra HB-Granda í Kastljósi í kvöld. Hann reyndi þar að bera í bætifláka fyrir þá ákvörðun eigenda fyrirtækisins að greiða sjálfum sér 180 mkr í arð frekar en að greiða starfsfólkinu 13.500 kr. umsamda launahækkun sem átti að koma til greiðslu 1. mars. Þetta viðtal bætti ekki málstað HB-Granda.
Afstaða eigendanna - eins og hún var kynnt af talsmanni þeirra í þessu viðtali - er fyrir neðan allar hellur.
Í venjulegu árferði væri það ekkert tiltökumál þó greiddur sé út "hóflegur" arður, eins og það er orðað af framkvæmdastjóranum. En þegar fólk hefur verið beðið um að falla frá umsömdum launahækkunum af tillitssemi við rekstrarstöðu fyrirtækisins þá er þetta undarleg ráðstöfun, svo ekki sé meira sagt. Hún er áreiðanlega ekki í anda þeirra sem stofnuðu fyrirtækin á sínum tíma (annarsvegar HB á Akranesi, hinsvegar Bæjarútgerðina, Ísbjörninn o.fl. í Reykjavík). Raunar held ég að enginn af þeirri kynslóð útgerðarmanna hefði lagt blessun sína yfir það að hýrudraga starfsfólkið til að geta skipt með sér arði.
En nú eru augljóslega aðrir tímar.
Ég skora á eigendur fyrirtækisins að gefa eftir þessar arðgreiðslur - svo "hóflegar" sem þær eru að þeirra eigin sögn - og láta þær renna til starfsmanna. Því þó þetta sé trúlega ekki "brot" á samningunum sem gerðar voru um frestun launahækkana - og þar með ekkert ólöglegt - þá er þetta auðvitað siðlaust. Það sjá allir.
Athyglisverð skrif um "Enron-verðmyndun" í íslenskum sjávarútvegi
12.3.2009 | 10:27
Getur verið að dularfullar "verðhækkanir" fiskveiðiheimilda hafi átt uppruna sinn ofarlega í bankakerfinu og viðskiptabankarnir hafi haft mikla og beina hagsmuni af því að lána útgerðarfyrirtækjum sem allra mest - til að styrkja rýrnandi lausafjárstöðu sína?
Þannig spyr Kristinn Pétursson í athyglisverðri bloggfærslu sem ég hvet ykkur til þess að lesa.
Voru útgerðarmenn hugsanlega blekktir til aukinnar lántöku? Sóttust viðskiptabankarnir eftir veði í aflaheimildum - hugsanlega til að skapa sjálfum viðskiptabönkunum nýtt lausafé? ...
... spyr hann ennfremur.
Það sem Kristinn gerir hér að umtalsefni er það sem hann nefnir "Enron verðmyndun" í sjávarútveginum. Enron hafði áhrif á raforkuverð í USA með skipulögðum raforkuskorti. Kristinn leiðir rök að því að sama hafi átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi með skipulögðum hætti. Verðmyndunin hafi byggt á samráði þar sem framkallaður hafi verið skortur á veiðiheimildum sem aftur hafi verið nýttur til óraunhæfrar verðhækkunar aflaheimilda.
Hann styður mál sitt vel og með athyglisverðum gögnum. Málið - skoðað í þessu ljósi - er sláandi. Svo virðist sem íslenskur sjávarútvegur sé undirlagður sömu meinsemdum og urðu íslensku fjármálakerfi að falli.
Málið þarfnast rannsóknar.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)