Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Orkuverðmæti á brunaútsölu

Það er fróðlegt að bera saman kauptilboð Magma Energy á þriðjungshlut í HS Orku við eldri samninga fyrirtækisins við önnur orkufyrirtæki. Magma hefur gert tvo samninga í Oregon og Nevada í Bandaríkjunum sem eru aðeins til tíu ára (í stað 65 ára skv. tilboðinu í HS Orku) ) með möguleika á tíu ára framlengingu (í stað 65 ára framlengingar hjá HS Orku). Fyrstu tíu árin þarf að greiða auðlindagjald sem nemur 1,75 prósenti af heildartekjum af raforkusölu og eftir tíu ár 3,5 prósentum (sjá hér). 

Fréttablaðið greinir frá því í dag að Magma ætli að fjármagna 70% kaupverðsins með kúluláni frá Orkuveitunni til sjö ára með 1,5 % vöxtum og veði í bréfunum sjálfum. Angry 

Mér finnst þetta ekki koma til greina. Ef rökin fyrir því að semja við Magma Energy eru þau að okkur vanti erlent fjármagn - þá er degin ljósara að þau rök halda ekki í þessu tilviki. Hér er ekkert erlent fjármagn sem neinu nemur. Hér er einfaldlega stórfyrirtæki að reyna að ná undir sig verðmætum nýtingarrétti auðlindar á brunaútsölu - og nýtir sér í því skyni erfiða stöðu sveitarfélags og þjóðar í kreppu.

Hætt er við að fleira af þessu tagi geti átt sér stað í þeim efnahagsaðstæðum sem við búum við núna. Við Íslendingar verðum að halda fast og vel utan um auðlindir okkar og láta ekki glepjast í tímabundnum fjárþrengingum til þess að selja ómetanleg verðmæti frá okkur, síst með afarkostum.

Ég vona að fjármálaráðherra takist með einhverjum ráðum að stöðva það sem þarna er að eiga sér stað.


Þreyttir þingmenn takast á um Icesave

Það var kominn hálfgerður svefngalsi í þingheim seint í gærkvöldi þegar Icesave umræðan hafði staðið allan liðlangan daginn. Trúlega mun umræðan halda áfram framyfir helgi, enda augljóst að fólki liggur margt á hjarta.

Í gærkvöld hitnaði vel í kolum um tíma. Ég átti m.a. í snarpri orðræðu við nokkra þingmenn stjórnarandstöðuna eftir mína ræðu seint í gærkvöld. Í máli mínu minnti ég á meinsemdir þær sem herjað hafa  og munu áfram herja á íslenskt samfélag, nema menn læri af reynslunni og hafni þeirri skefjalausu frjálshyggju sem riðið  hefur yfir þjóðina eins og holskefla. Þetta sveið sjálfstæðismönnum og aðrir stjórnarandstæðingar blönduðu sér líka í umræðuna.

Umræðurnar getur fólk séð á þessari slóð hér.

 


Afneitun og ósvífni

Því miður virðist ljóst að þeir sem stjórnuðu íslensku fjármálakerfi fyrir hrun -- hverjir enn eru sumir við stjórnvölinn og/eða virkir í opinberri umræðu -- hafa lítið lært.

Hugmyndir stjórnenda Straums-Burðaráss um bónusgreiðslur í samræmi við endurheimtur á eignum bankans á næstu fimm árum, er eitt talandi dæmi. Þar er um að ræða greiðslur frá 2,7 milljörðum og upp í tæpa 10 milljarða, eða 222 milljónir á hvern starfsmann bankans, sem "áætlun" hefur verið gerð um. Ummæli forstjórans þess efnis að "um væri að ræða áætlun um árangurstengd laun" sem "utanaðkomandi lögfræðingar" hefðu sagt "í fullu samræmi við það sem gengur og gerist" bæta ekki úr skák.

Sú tíð þegar stjórnendur fjármálafyrirtækja fengu föst laun fyrir það eitt að draga andann, og svo bónusgreiðslur fyrir að vinna vinnuna sína - sú tíð á að heyra sögunni til. Að einhverjum skuli raunverulega koma til hugar að fara fram á "árangurstengd laun" við það að "hámarka verðmæti" þrotabús eftir fjármálahrun,  það er blaut tuska í andlit allra þeirra sem nú hafa tekið á sig lífskjaraskerðingu og búsifjar fyrir tilverknað þessarar hugmyndafræði. Leiðari Moggans tekur ágætlega á þessu máli í dag.

Annað dæmi er forherðing Kjartans Gunnarssonar, fv. stjórnarformanns gamla Landsbankans - sem ótvírætt hlýtur að teljast gerandi í bankahruninu en lætur það þó ekki hindra sig í að veitast að fjármálaráðherra og ríkisstjórninni í þeim björgunaraðgerðum sem nú standa yfir. Jón Baldvin Hannibalsson tók Kjartan í nefið í snarpri Morgunblaðsgrein í gær, sem ég hvet alla til þess að lesa (m.a. hér).

Hversu langt getur sjálfsafneitun og forherðing eiginlega náð?

Að fyrrverandi stjórnarformaður gamla Landsbankans -- og fv. framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins sem innleiddi hér hugmyndafræði hinnar skefjalausu einkavinavæðingar sem olli ógæfu okkar -- skuli veitast að þeim sem nú standa í björgunaraðgerðum á vettvangi -- það er eiginlega meiri ósvífni en maður hefði að óreyndu gert sér í hugarlund.

Gleymum ekki á hvaða vettvangi við erum, íslensk þjóð. Við erum stödd í þrotabúi  Sjálfstæðisflokksins og frjálshyggjuhugmyndafræði hans. Átökin í íslenskum stjórnmálum næstu misserin munu m.a. snúast um það hvernig gert verður upp við fortíðina, og þá hugmyndafræði sem leiddi okkur í núverandi stöðu.


Klækjastjórnmál og ráðaleysi - slæmur kokteill

Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur hefur vakið athygli á því að ef Icesave samningurinn verður felldur í þinginu þá sé skollin á alvarleg stjórnarkreppa í landinu. Þar með sé ljóst að forysta landsins geti í raun og veru ekki komið sér saman um það hvernig bregðast skuli við brýnasta lífshagsmunamáli þjóðarinnar eins og hann orðar það svo réttilega.

Á sama tíma hefur Guðbjartur Hannesson formaður fjárlaganefndar látið í ljósi efasemdir um að þingmönnum í  fjárlaganefnd sé raunverulega alvara í málinu, enda hefur nefndin nú haft það til meðferðar í 8 vikur án þess að lyktir hafi ráðist. 

Já, það er þyngra en tárum taki að fylgjast með atburðarásinni í þinginu þessa dagana.

Og ekki er bætir fjölmiðlaumfjöllunin úr skák þar sem sérfræðingarnir eru eltir hver af öðrum í misvísandi fullyrðingum um túlkun og afleiðingar alls þessa fyrir land og þjóð. Sjálfstæð vinnubrögð fyrirfinnast varla, bara brugðist við yfirlýsingum þess sem hæst hefur hverju sinni.

Undir öllu þessu situr þjóðin, ráðvillt, agndofa og veit vart sitt rjúkandi ráð.

Klækjastjórnmál í bland við ráðaleysi - það er ekki kokteillinn sem þjóðin þarf á að halda um þessar mundir. Angry

Við verðum að afgreiða þetta mál frá okkur eins og manneskjur.

Það er núna sem reynir á þingið, hvort það yfirleitt stendur undir nafni sem þjóðþing.

Það er núna sem reynir á ríkisstjórnina hvort hún er yfirleitt til staðar.

Og það er núna sem reynir á fjölmiðlana - hvort þeir rísa undir nafni sem "fjórða valdið".

------------------ 

PS: Ég mun hiklaust fjarlægja allar athugasemdir sem fela í sér ókurteisi , meiðandi ummæli, uppnefni eða órökstuddar ásakanir í garð nafngreindra manna eða fylgjenda tiltekinnna stjórnmálaflokka. 

Ef ykkur leikur forvitni á að vita mína nálgun og afstöðu til þessa máls, þá getið þið kynnt ykkur það  hér, hér, hér, hér og hér . Ég mun ekki svara spurningum að þessu sinni um efnisatriði sem hafa komið fram í mínum skrifum áður.


Orð Evu Joly

EvaJolyÉg er undrandi á þeim orðum Hrannars B. Arnarsonar, aðstoðarmanns forsætisráðherra, að Eva Joly eigi að halda sig við sín ráðgjafastörf fyrir sérstakan saksóknara en láta öðrum eftir efnahagsmálin. Þessi orð mætti allt eins heimfæra upp á Hrannar sjálfan - þ.e. að hann ætti að láta pólitíkusunum eftir að vinna sitt starf og sinna sjálfur þeim viðfangsefnum sem honum er trúað fyrir.

En við búum nú einu sinni í lýðfrjálsu landi þar sem málfrelsi ríkir. Fyrir það má þakka, að fleiri skuli almennt taka til máls um þjóðfélagsmál, en þeir einir sem til þess eru kjörnir eða ráðnir.

Eva Joly er kona með mikla yfirsýn og reynslu. Hún er vissulega stjórnmálamaður - nýkjörin sem þingmaður á Evrópuþinginu - og virðist eiga ýmislegt ósagt við ýmsa þar innan dyra, eins og grein hennar ber með sér. En skrif hennar eru umhugsunarefni, því "glöggt er gests augað" eins og þar stendur.

Ég tel mikils um vert að kynnst sjónarmiðum Evu Joly til bankahrunsins og stöðu okkar á alþjóðavettvangi.  Ég verð að viðurkenna að ég er þungt hugsi yfir ákveðnum atriðum sem fram koma í grein hennar.

En hvort sem ég er sammála mati hennar á stöðunni eða ekki - og þó mér hafi áður fundist hún mætti bera sig öðruvísi að við að koma inn í umræðuna - þá er eitt alveg ljóst: Þessi kona stendur með okkur Íslendingum og vill vekja athygli á málstað okkar. Það gerir hún af einurð og ekki síður af hlýhug í garð þeirrar "grandvöru og elskulegu þjóðar" sem hún segir okkur vera.

Mér þótti vænt um að finna hugarþel hennar í okkar garð, og ég er sannfærð um að orð hennar eru betur sögð en ósögð.

-----------

 PS: Loks langar mig að benda á ágæta greiningu Marðar Árnasonar á skrifum Joly.


mbl.is Hrannar sendir Joly tóninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki erindi til almennings?

"Nýja Kaupþing og skilanefnd Kaupþings telja að upplýsingar um viðskiptavini Kaupþings eigi ekki erindi til almennings og sé brot á þeirri vernd sem bankaleynd á að veita viðskiptamönnum. Mikilvægt er að traust og trúnaður ríki milli fjármálastofnana og viðskiptavina" segir í yfirlýsingu þessara sömu aðila til fjölmiðla.

Það er einmitt það "vernd" til viðskiptamanna, "traust og trúnaður" Angry

Það vantar eitt inn í þessa jöfnu - það vantar traust og trúnað almennings gagnvart umræddum fjármálastofnunum.

Þær upplýsingar sem nú hafa verið lögbannaðar varða ekki eingöngu "viðskiptavini Kaupþings" heldur viðskiptaaðferðir bankans og þær eiga fullt erindi til almennings, að mínu viti.


mbl.is Kaupþing fékk lögbann á RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóð í öngum

Þjóðin er í öng. 

Bjarni BenHvernig skyldi þeim vera innanbrjósts á þessari stundu formönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, flokkanna sem bera höfuðábyrgð á því hvernig komið er, en láta eins og þeim komi afleiðingarnar ekki við? Ætla ekki að samþykkja Icesave samninginn "í núverandi mynd" eins og Bjarni Benediktsson orðaði það.

Sigmundur DavíðVikum og mánuðum saman hafa þeir þvælst fyrir Ice-save samkomulaginu með öllum tiltækum ráðum og haldið málinu í gíslingu. Já, þeir hafa hagað sér eins og slökkviliðsstjórinn sem hefur verið rekinn en getur ekki unnt slökkviliðinu að vinna sitt verk, heldur skrúfar fyrir vatnið á brunahönunum, til þess að sýna fram á að hann hefði getað unnið verkið einhvernveginn öðruvísi. Á meðan brennur húsið.

Óliku er saman að jafna framgöngu þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar sem lagt hafa nótt við dag að bjarga því sem bjargað verður af því að þeim er annt um þjóðina (ekki bara flokkinn, eins og hinum tveimur). Þau hafa mátt róa á móti andófi og áróðursskrumi stjórnarandstöðunnar af ábyrgð og festu. Þau hafa jafnvel mátt kljást við ístöðuleysi ákveðinna stjórnarliða sem líftóran hefur verið hrædd úr.

stjornAldrei hafa þau þó gripið til sterkra orða eða lýðskrums. Þau svara hverri spurningu af háttvísi og alvöru. Aldrei hafa þau hlaupið í persónulegt orðaskak. Nei, þau hafa staðið eins og stólpar upp úr þessu umróti öllu, haldið stillingu sinni og yfirvegun eins og sannkallaðir leiðtogar. Það fróma orð myndi mér þó aldrei til hugar koma um þá félaga Bjarna Ben og Sigmund Davíð.

En nú er ljóst - sem við máttum vita - að Íslendingar hafa enga stöðu gagnvart öðrum þjóðum í augnablikinu. Við erum einfaldlega álitin ójafnaðarmenn í augum umheimsins: Þjóð sem ekki vill standa við skuldbindingar sínar; þjóð sem ekki er treystandi; þjóð sem ól af sér kynslóð fjárglæframanna, hannaði fyrir þá vettvang til að athafna sig á, þar sem þeir gátu látið greipar sópa um fjármálakerfið og  narrað saklausan almenning til þess að leggja fé inn á reikninga, m.a. Icesave reikningana í Bretlandi og Hollandi.

GeirHaarde (Small)Geir Haarde þáverandi forsætisráðherra lýsti þvi yfir í haust að allir innistæðueigendur myndu fá greiddar innistæður sínar í íslenskum bönkum. Sú yfirlýsing var bindandi fyrir íslensk stjórnvöld. Halda menn virkilega að þau orð hafi aðeins getað gilt um suma en ekki aðra? Annað hvort eiga innistæðueigendur rétt á endurgreiðslum úr íslenskum bönkum eða ekki. Svo einfalt er það og skiptir engu hvort um er að ræða Íslendinga, Breta eða Hollendinga. 

Málið snýst ekkert um það að "borga skuldir óreiðumanna" heldur að standa við alþjóðlegar og siðlegar skuldbindingar gagnvart innistæðueigendum í íslenskum bönkum.

Á meðan við ekki göngum frá Icesave samkomulaginu, fáum við enga aðstoð. Það erum við Íslendingar sem erum álitin óreiðumenn í augum umheimsins. Það vill enginn við okkur tala á meðan við sýnum engin merki þess að bæta ráð okkar.


mbl.is Stjórnvöld halda í vonina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ónákvæmni eða "hyldýpismisskilningur"

Nýjasta útspilið í Ice-save umræðunni er fullyrðing lögmannsins Ragnars Hall um að Íslendingar hafi undirgengist að greiða "lögmannskostnað" fyrir Breta upp á tvo milljarða króna sem íslenska ríkið muni ábyrgjast samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar (sjá t.d. hér). Vísaði lögmaðurinn í sérstakan "uppgjörssamning" sem hann kvaðst að vísu ekki geta "lýst því nákvæmlega" í hverju fælist, en þar inni væru kröfur sem hann "hefði aldrei órað fyrir því að hægt væri að setja fram".

Þessi málfutningur lögmannsins varð fyrr í dag tilefni umræðna í þingsal, sem við mátti búast (sjá hér).

Í máli formanns fjárlaganefndar kom fram að skjalið sem hér um ræðir nefnist "Settlement Agreement" og er dagsett 5. júní 2009. Það er fyrsta skjalið í möppunni stóru með Ice-save skjölunum á þingloftinu. 

Ég hafði upp á skjalinu og fann ákvæðið sem lögmaðurinn gerði að umtalsefni "án þess þó að geta lýst því nákvæmlega".  Ákvæðið er í lið 3.1 og hljóðar svo:

 FSCS [Financial Services Compensation Scheme Limited] may submit (on behalf of TIF [Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta] one Disbursement Request for £ 10.000.000 (ten million pounds) in respect of the costs incurred or to be incurred by FSCS in the handling and payment of compensation to depositors with the UK Branc and in dealing with related matters including, without limitation, recoveries and any disputes which may result.

Þetta ákvæði skil ég sem svo að Íslendingar fallist á að standa straum af tilfallandi kostnaði við umsýslu og afgreiðslu á endurgreiðslum til innistæðueigenda Ice-save reikninganna.

Í fljótu bragði virðist þetta því vera ofur eðlilegt ákvæði um að Íslendingar muni sjálfir standa straum af umstanginu við að endurgreiða viðskiptavinum Ice-save. 

Nú hefur fjármálaráðherra staðfest þennan skilning - væntanlega að höfðu samráði við færustu lögfræðinga. Búast má við að ýmsum létti við það. 

Um leið hlýtur ónákvæmni hæstaréttarlögmannsins að vekja umhugsun. Því miður er þetta ekki í fyrsta sinn sem Ragnar Hall gerist sekur um ónákvæmni sem skipt getur sköpum í málum sem hann hefur komið að (sbr. hér).


mbl.is Ekki minnst á lögfræðikostnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margur heldur mig sig

Enn eina ferðina tókst þingmanni Borgarahreyfingarinnar að fanga athygli fjölmiðla um stund, með yfirlýsingum um einelti, kúgun og ofbeldi á hinu háa Alþingi. Vandlætingartónninn leyndi sér ekki - en í honum var þó holur hljómur að þessu sinni. 

Þetta er sami þingmaður og fyrir fáum dögum var tilbúinn að selja sannfæringu sína gagnvart ESB til þess að ná fram frestun á Ice-save, málinu.

Þessi þingmaður - og fleiri í hennar flokki - hafa verið ósparir á hneykslunarorð og brigslyrði um aðra þingmenn og þeirra meintu hvatir í hverju málinu af öðru. Hneykslun og vandlæting hafa verið nánast einu viðbrögðin hvenær sem mál hefur komið til umræðu í þinginu.

Þið fyrirgefið, gott fólk - en ég gef ekki mikið fyrir svona málflutning. Og nú vil ég fara að heyra einhverjar tillögur frá þessu fólki um það hvað megi betur fara - hvernig það megi betur fara. Það væri bara svo kærkomin tilbreyting frá þessum falska vandlætingarsöng að heyra eins og eina málefnalega tillögu, bara eitthvað sem túlka mætti sem málefnalegt innlegg.

Þeir sem eru tilbúnir að selja sannfæringu sína ættu ekki að vanda um fyrir öðrum.

 


Og ....?

Hver er þá niðurstaða ráðherrans?

Allt það sem Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra segir í þessu viðtali gæti ég sagt ... það vantar bara botninn í þessi spakmæli öll sömul. 

Hver er skoðun Ögmundar?

 


mbl.is Ögmundur: Hugsum um þjóðarhag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband