Afneitun og ósvífni

Því miður virðist ljóst að þeir sem stjórnuðu íslensku fjármálakerfi fyrir hrun -- hverjir enn eru sumir við stjórnvölinn og/eða virkir í opinberri umræðu -- hafa lítið lært.

Hugmyndir stjórnenda Straums-Burðaráss um bónusgreiðslur í samræmi við endurheimtur á eignum bankans á næstu fimm árum, er eitt talandi dæmi. Þar er um að ræða greiðslur frá 2,7 milljörðum og upp í tæpa 10 milljarða, eða 222 milljónir á hvern starfsmann bankans, sem "áætlun" hefur verið gerð um. Ummæli forstjórans þess efnis að "um væri að ræða áætlun um árangurstengd laun" sem "utanaðkomandi lögfræðingar" hefðu sagt "í fullu samræmi við það sem gengur og gerist" bæta ekki úr skák.

Sú tíð þegar stjórnendur fjármálafyrirtækja fengu föst laun fyrir það eitt að draga andann, og svo bónusgreiðslur fyrir að vinna vinnuna sína - sú tíð á að heyra sögunni til. Að einhverjum skuli raunverulega koma til hugar að fara fram á "árangurstengd laun" við það að "hámarka verðmæti" þrotabús eftir fjármálahrun,  það er blaut tuska í andlit allra þeirra sem nú hafa tekið á sig lífskjaraskerðingu og búsifjar fyrir tilverknað þessarar hugmyndafræði. Leiðari Moggans tekur ágætlega á þessu máli í dag.

Annað dæmi er forherðing Kjartans Gunnarssonar, fv. stjórnarformanns gamla Landsbankans - sem ótvírætt hlýtur að teljast gerandi í bankahruninu en lætur það þó ekki hindra sig í að veitast að fjármálaráðherra og ríkisstjórninni í þeim björgunaraðgerðum sem nú standa yfir. Jón Baldvin Hannibalsson tók Kjartan í nefið í snarpri Morgunblaðsgrein í gær, sem ég hvet alla til þess að lesa (m.a. hér).

Hversu langt getur sjálfsafneitun og forherðing eiginlega náð?

Að fyrrverandi stjórnarformaður gamla Landsbankans -- og fv. framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins sem innleiddi hér hugmyndafræði hinnar skefjalausu einkavinavæðingar sem olli ógæfu okkar -- skuli veitast að þeim sem nú standa í björgunaraðgerðum á vettvangi -- það er eiginlega meiri ósvífni en maður hefði að óreyndu gert sér í hugarlund.

Gleymum ekki á hvaða vettvangi við erum, íslensk þjóð. Við erum stödd í þrotabúi  Sjálfstæðisflokksins og frjálshyggjuhugmyndafræði hans. Átökin í íslenskum stjórnmálum næstu misserin munu m.a. snúast um það hvernig gert verður upp við fortíðina, og þá hugmyndafræði sem leiddi okkur í núverandi stöðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Góður pistill hjá þér Ólína.

En hann er líka góður pistillinn hjá honum Þorvaldi Gylfasyni í Fréttablaðinu þ. 20.8.09 (í dag)  Það hlýtur að vera alveg óhjákvæmilegt að stjórnmálaflokkarnir sem hafa verið ríkjandi hér á landi síðan um sl. aldamót 2000  verði rannsakaðir - þ.e ráðandi öfl þeirra .

Það sýnist liggja alveg ljóst fyrir að það algjöra stjórnleysi gagnvart viðskiptalífinu - er grundvallað hjá stjórnmálaöflunum.  Gríðarleg ábyrgð liggur þar.   Viðskiptaáð hælist um yfir því að > 90% af ýtrustu frjálsræðisóskum þeirra náðu fram að ganga.

Sinnuleysi með eftirliti bætist þar við til aukins stjórnleysis.  

Greiðslur viðskiptamanna í flokksjóði og til einstakra stjórnmálamanna er mikilvægt rannsóknarefni...hjá lögaðilum...dómsvaldi.

Þjóðin sem á að borga fyrir allan skaðan - jafnvel næstu áratugin með hörmulegum afleiðingum- hýtur að krefjast þess að þau stjórnmálöfl (einstaklingar) sæti ýtarlegri rannsókn og dómstólar fjalli um mál þeirra....

Þessu fólki var treyst fyrir fjöreggi heillar þjóðar og verk þeirra hafa leitt til algjörs hruns ....

Það er ekki bara Sjálfstæðisflokkur einn sem er ábyrgur- þeir sem hann tók með sér hverju sinni- eru einnig ábyrgir ....

Þetta finnst mér.

Sævar Helgason, 20.8.2009 kl. 13:14

2 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Hafðu þökk Ólína fyrir þennan ágæta pistil.

Er Kjartan Gunnarsson ekki alin upp af þekktum okurlánara?

Halldór Kristjánsson, fyrrum bankastjórnandi og samstarfsmaður Kjartans, sonur Kristjáns á Kumbaravogi - sem hefur sætt mikilli gagnrýni og nú rannsókn vegna voðaverka gagnvart skjólstæðingum sínum þar!

Eru þeir föðurbetrungar ?

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 20.8.2009 kl. 13:21

3 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Að undanskyldu því að þér er fyrirmunað að sjá hlut Samfylkingarinnar í hruninu þá er þessi pistill sá besti frá þér lengi. Valdatíð Kjartans og félaga er vonandi liðin í Sjálfstæðisflokknum.

Ef hann ætlar að láta taka sig alvarlega í framtíðinni þá verður hann að hverfa aftur fyrir 1991, og taka upp þau gildi sem gerðu flokkinn að því sem fólk kaus eins og t.d. stétt með stétt.

Ingólfur H Þorleifsson, 20.8.2009 kl. 15:19

4 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Ingólfur, ég er ekki viss um að valdatími Kjartans og félaga Daviðs sé liðinn í flokki sjálfstæðismanna. Heyrðis ekki betur á Bjarna Ben á þingi að hrunið væri ekki vegna stjórnarhátta fyrri ríkisstjórna. Það verður langt í það að forystan þar á bæ viðurkennir staðreyndir. Sjórnmálamenn eiga sinn feita þriðjung í því sem gerðist.

Hinsvegar má alveg hnýta í Samfylkinguna fyrir lélegt stöðumat þegar Ingibjörg fór í samstarf við Geir eftir kosningarnar 2007. Samfylkingin lét teyma sig á eyrunum til þessa samstarfs með glýju í augunum. 2007 glýjuna sem við öll vorum kannski slegin af. Það var samt slöpp pólitík að kafa ekki dýpra í málin við þau tímamót.

Spurningin sem ég mun fylgja eftir að fá svarað er hvenær Ingibjörg vissi að í óefni stefndi (líklega febrúar 2008) og hvers vegna hún hélt félögum sínum fyrir utan þá umræðu (sem ég trúi að hún hafi gert).

Gísli Ingvarsson, 20.8.2009 kl. 22:55

5 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Góður pistill hjá þér Ólina eins og vant er. Þeir sem eru sárir vita líka að þarna er farið með rétt mál, sem alls ekki má þó tala um, að þeirra mati.

Það er með ólíkindum á enn sé verið að stagast á þætti Samfylkingarinnar í hruninu. Heilt hagkerfi morknar ekki á fáeinum mánuðum. Aðdragandi þess hruns er svo miklu miklu lengri og teigir sig áratugi aftur í tímann. Spillingin var ekki minni fyrir nokkrum áratugum, það voru bara aðrar aðstæður og ekki eins opinn leikvöllur. En viljinn var til staðar og uppskipting landsins eftir atvinnuháttum er áratugagömul. Framsókn dreifbýli og Íhald þéttbýli.

Forherðingin er líka áratuga gömul og það var borin slík virðing fyrir þessum sem stýrðu þjóðarskútunni að það jaðraði við Guðlast að gagnrýna eitt eða neitt.

Það er ekki fyrr en Ólafur Ragnar og Vilmundur heitinn Gylfason fóru að spyrja erfiðra spurninga í fjölmiðlum, að smávegis var blakað við einstaka manni.

Almenningur var bara svo grandalaus að margir töldu að verið væri að gera úlfalda úr mýflugu.

Og forherðingin er slík enn í dag að menn skirrast ekki við að segja hluti sem þeir vita mætavel að eru ekki réttir. Það hafa bara svo margir komist upp með slíkt svo óralengi að svona hegðun er enn talin geta gengið.

Þetta heitir víst afneitun og er síst betra en hvað annað. Það verða því að vera mjög sterkir einstaklingar sem ganga í hreinsunar störfin og sem betur fer eru þeir til og eru komir til valda.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 21.8.2009 kl. 02:27

6 Smámynd: Árelíus Örn Þórðarson

Sæl Ólína.

Hvers vegna  vinnið þið ekki í því,þið sem stjórnið landinu að koma þeim öllum frá sem áður stjórnuðu fjármála fyrirtækjum í landinu?

Ísland er tæknilega gjaldþrota þjóð og ríkið á tæknilega allt?  Þetta er svartur veruleiki?

Öll stjórnsýslan er trausti rúin og taka verður til strax með meiri hraða ef ekki á illa að fara.  Það er nóg af fólki utan girðingar til að byggja upp landið.  Þjóðin vill ekki það fólk sem kom okkur á hausinn til starfa til að byggja landið upp.  Þjóðin vill ekkert vita af því fólki nema helst á bak við lás og slá enda bendir allt til að flest það hefur unnið til saka og komið þjóð okkar á vonarvöl.

Nú skora ég á þig ágæta alþingiskona að halda áfram þinni ágætu baráttu ásamt þínum meðferðar fólki og koma nýju fólki að til að byggja landið upp.

Við þjóðin viljum ekki vita af því fólki sem kom þjóðinni á hausinn nema á bak við lás og slá.

baráttu kveðja.

Árelíus Þórðarson.

Árelíus Örn Þórðarson, 21.8.2009 kl. 02:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband