Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Allan afla á markað

Gunnar Örn Örlygsson, stjórnarmaður í SFÚ flutti einnig tölu. Í hans máli kom fram að fiskvinnslur SFÚ greiða þriðjungi hærra verð fyrir hráefni til vinnslu en fiskvinnslur LÍÚ. 

Það er furðulegt hversu lítill hljómgrunnur hefur verið meðal ráðamanna í gegnum tíðina við þau sjónarmið að aðskilja veiðar og vinnslu og setja "allan fisk á markað" (eða a.m.k. aukinn hluta). Hægt er að sýna fram á það með gildum rökum  að aðgerðir í þá átt myndu stuðla að eðlilegri verðmyndun, heilbrigðari samkeppnisskilyrðum, aukinni atvinnu og ekki síst -- sem skýrsla KPMG leiðir í ljós -- auknum tekjum hins opinbera.

Það er auðvitað undarlegt að sjá hvernig þeir sem mest hafa viðrað sig upp við markaðsöflin gegnum tíðina hafa staðið fastast gegn þessu í reynd. Í ljós kemur að hinir meintu markaðspostular þessa lands eru ekki að berjast fyrir heilbrigðum markaðsskilyrðum heldur fákeppni og sérhagsmunum stórfyrirtækja og samsteypa. Merkin sýna verkin. 

Í því sambandi var fróðlegt að hlusta á Jóhannes I Kolbeinsson framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar lýsa okkar bágborna, íslenska samkeppnisumhverfi - slöku eftirliti, veikburða Samkeppnisstofnun, slöppu lagaumhverfi. Ofan á allt bætist að hans sögn að helstu hagsmunasamtök atvinnulífsins SAA hafa lagst á sveif með stórfyrirtækjum að slaka á framkvæmd samkeppnislaga.  

Já, það hefur lengi skort á heildarsýn í þessum efnum í okkar litla samfélagi þar sem sterk öfl takast á um mikla hagsmuni, og svífast einskis. Umhverfið í útgerð og fiskvinnslu er ekki hvað síst dæmi um það.

Ég hef lengi talað fyrir aðskilnaði veiða og vinnslu sem og því að allur afli (eða a.m.k. vaxandi hluti) fari á markað, og lagt fram tillögur þar að lútandi.

Í ljósi þess hvernig aðrir þingmenn tjáðu sig í pallborði fundarins, er þess vonandi að vænta að skilningur á þessu sjónarmiði sé eitthvað að glæðast, og að við munum sjá þess merki í tillöguflutningi á Alþingi innan tíðar.


Hvert rennur fiskveiðiauðlind okkar?

fiskveiðar 20 milljarða skuldabréf með veði í íslenskum sjávarútvegi er nú komið í eigu Seðlabankans í Lúxemborg.

Þetta er ein birtingarmynd þess sem við er að eiga í þessari atvinnugrein sem á síðustu tveimur áratugum eða svo hefur byggst upp á framsalskerfi fiskveiðiheimilda - kerfi sem er í eðli sínu óréttlátt og hefur haft í för með sér alvarlega atvinnu- og byggðaröskun víða. Kerfi þar sem verslað er með fiskveiðiauðlind þjóðarinnar eins og hvert annað skiptagóss.

Sjávarútvegsráðherra benti á það í útvarpinu í morgun að samkvæmt lögum mætti ekki veðsetja aflaheimildir "með beinum hætti". Auðveldlega má þó færa rök fyrir því að veðsetning "í íslenskum sjávarútvegi" þýði að kvótinn hafi þá verið veðsetturmeð óbeinum hætti. 

Hvaða þýðingu hefur það í reynd ef íslensk sjávarútvegsfyrirtæki komast í hendur erlendra fyrirtækja? Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að arðurinn af nýtingu fiskveiðiheimildanna við landið komi í íslenska þjóðarbúið? Nákvæmlega enga. Angry

Satt að segja held ég að þarna glitti rétt í toppinn á ísjakanum. Það er alvarleg og aðsteðjandi hætta á ferðinni þarna.

Eitt helsta stefnumál Samfylkingarinnar er að leiðrétta kvótakerfið og koma fiskveiðiauðlindinni í hendur þjóðarinnar á ný. Það verk má ekki dragast. Ef eitthvað er þyrfti að flýta því enn frekar en áformað er.


Vettvangur dagsins: AGS, hagsmunatengslin, stjórnmálaástandið og gagnavinnsla Jóns Jósefs

Staða stjórnmálanna, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, uppgjörið við hrunið, hagsmunatengsl viðskiptalífsins, ritstjóraskiptin á Morgunblaðinu - þetta var til umræðu á "vettvangi dagsins" í Silfri Egils í dag. Þar skiptumst við á skoðunum, Árni Snævarr, Agnes Bragadóttir, Andri Geir Arinbjarnarson og ég. 

Áhugasamir geta horft og hlustað hér. 

Á eftir var fjallað um sættir þær sem náðst hafa milli milli ríkisskattstjóraembættisins og Jóns Jósefs Bjarnasonar eftir stórundarlega uppákomu sem varð vegna upplýsingaöflunar þess síðarnefnda um þau flóknu og fjölþættu viðskiptatengsl sem til staðar eru í samfélagi okkar. Nú hafa náðst friðsamlegar málalyktir - ríkisskattstjóri hefur meira að segja beðið Jón Jósef afsökunar á upplýsingum sem fram komu í fréttatilkynningu um það þegar lokað var á aðgang Jóns að gögnunum (sbr. eldra blogg mitt um það mál).

Niðurstaða málsins er báðum málsaðilum til sóma. Þennan hluta þáttarins má sjá og heyra hér.

 


Nýja Ísland - kemur þú?

world_trade_center_epa Þegar tvítyrni  heimsviðskiptahallarinnar í New York hrundi til grunna þann 11. september 2001 gaus upp  kæfandi mökkur sem varð fjölda manns að fjörtjóni. Björgunarsveitir höfðu sumar hverjar orðið of skjótar á vettvang,  með þeim skelfilegu afleiðingum að fjöldi slökkviliðs- og björgunarmanna lét lífið þegar byggingarnar jöfnuðust við jörðu. Dágóður tími leið áður en rofaði til og menn gátu metið afleiðingar þess sem gerst hafði.

Við hrun íslensku bankanna í október 2008 þyrlaðist líka upp þykkur mökkur. Almenningur hafði enga grein gert sér fyrir því  hve hættulega háir turnar höfðu verið reistir á íslenskum fjármálamarkaði fram að því. En óbærilegur mökkurinn sem fylgdi hruninu segir sína sögu um skefjalausa viðskiptahætti, ábyrgðarleysi og hóflausa græðgi. Og sú saga varðar ekki einungis fjármálafíflin sem steyptu okkur því sem næst í glötun. Nei, hún fjallar líka um öll hin fíflin, sem eltu skinið af glópagullinu eins og vanvita börn. Fjölmiðlana sem góndu hrifnir upp í fjármálaspekúlantana, flöttu myndirnar af þeim á forsíður tímaritanna, kusu þá viðskiptasnillinga og frumkvöðla ársins á meðan þeir frömdu samsæri sitt gegn þjóðinni. Stjórnmálamenn okkar - jafnvel forsetinn - fylgdu þeim eins og skugginn í erlendar viðskipta- og kynningarferðir, studdu við „íslensku útrásina" og fluttu um hana loðmullulegar lofræður við glasaglaum og ljósleiftur á blaðamannafundum. Almenningur horfði á í aðdáun og hrifningu.

Þjóðarskömmin

Nú situr óbragðið eftir - skömmin.  Það er þjóðarskömm. Við finnum öll til hennar ... öll, nema kannski þeir sem enn neita að horfast í augu við ábyrgð sína á því sem gerðist. Það gæti til dæmis átt við um þá þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem flestir sátu hjá við afgreiðslu þingsins á ríkisábyrgð vegna Icesave samninganna. Flokkurinn sem ber höfuð ábyrgð á hugmyndafræði Hrunadansins, flokkurinn sem innleiddi þá taumlausu frjálshyggju sem dansað var eftir, hann „sat hjá" þegar tekist var á við afleiðingarnar. Skilaði auðu. Það var átakanlegt að sjá.

Verður Ísland nokkurn tíma samt aftur?  Vonandi ekki.  Sannleikurinn er sá, að það Ísland sem við kvöddum í október 2008 var ekki gott í gegn. Þó að allt liti vel út á yfirborðinu, hagtölur sýndu almenna velmegun, landið mældist meðal tíu efnuðustu þjóða heims (jafnvel ein hamingjusamasta þjóð í heimi) og ríkissjóður væri orðinn nokkurn veginn skuldlaus, þá voru innviðirnir ekki í lagi.

Fjármálakerfið var ofþanið,  neyslan óhófleg, skuldasöfnunin úr böndum - ekki síst í undirstöðuatvinnuvegi okkar, sjávarútveginum. En verst var þó að siðferðisþrek þjóðarinnar hafði látið undan síga. Um það vitna upplýsingar sem nú eru að koma í ljós um umfang skattsvika og svarta atvinnustarfsemi, hagsmunagæslu og krosseignatengsl í viðskiptalífinu, getuleysi eftirlitsstofnana og gáleysi stjórnvalda.

Já, stjórnvöld brugðust hlutverki sínu. Þau gleymdu sér við hrævareldana og uggðu ekki að sér. Í stað þess að safna í kornhlöðurnar til mögru áranna var slegið slöku við aðdrættina. Á góðæristímanum 1993-2007 var farið í skattalækkanir sem komu sér vel fyrir þá tekjuháu á meðan hlutfallslegar byrðar jukust á þá tekjulágu. Hinu mikilvæga jöfnunarhlutverki skattkerfisins var raskað og tekjulindin rýrð. Lætur nærri að ef skattalækkanir áranna 2003-2007 yrðu framreiknaðar á núvirði, hefðu þær náð langt með að greiða niður halla ríkissjóðs á þessu ári. En því er nú ekki að heilsa. Kornhlöðurnar eru galtómar, og fátt um aðföng.

Í hverju felast átökin?

Af þeirri óvægnu umræðu sem verið hefur í samfélaginu undanfarna mánuði mætti stundum ætla að þau stjórnvöld sem nú sitja hafi hætt sér of snemma inn á björgunarvettvanginn. Að minnsta kosti er enginn hörgull á fúkyrðum og úrtölum þeirra sem telja sig geta verið áhorfendur að björgunarstarfinu og hvorki þora né vilja leggja því lið. En endurreisn samfélags getur ekki orðið nema með þátttöku allra. Þá á ég annars vegar við atvinnuvegina, stéttarfélögin, stjórnvöld og almenning - hins vegar þá sem ráðandi eru í opinberri umræðu, þ.e. fjölmiðlana, fræðasamfélagið og stjórnmálamenn.

Okkar bíður mikið starf. Meinsemdir þær sem ollu bankahruninu eru margar hverjar enn til staðar í íslensku samfélagi, og það mun sjálfsagt taka ár og áratugi að vinna á þeim bug. Við sjáum þær

  • í ósanngjörnu kvótakerfi;
  • í þvermóðsku fjármálastofnana við að veita stjórnvöldum upplýsingar vegna rannsóknar á hruninu;
  • á fáránlegum kröfum stjórnenda fjármálafyrirtækja um svimandi háar bónus greiðslur;
  • í afskriftum hárra skulda gagnvart útvöldum á meðan fjölskyldur eru að bugast og menn að brotna undan skuldabyrði;
  • í upplýsingum um umfang skattsvika og misnotkun opinberra bóta.
  • Síðast en ekki síst sjáum við meinsemdirnar í afneitun og afstöðuleysi þeirra sem stærsta ábyrgð bera á hruninu og hugmyndastefnu þess.

Nei, gleymum ekki á hvaða vettvangi við erum, íslensk þjóð. Við erum stödd í þrotabúi  þeirrar skefjalausu frjálshyggju sem reið hér húsum. Og meinsemdirnar sem ollu hruninu eru flestar enn til staðar.

Átökin í íslenskum stjórnmálum næstu misserin munu m.a. snúast um það hvernig gert verður upp við fortíðina, og þá hugmyndafræði sem leiddi okkur í núverandi stöðu. Þau munu snúast um það

  • hvaða aðferðum verði beitt við uppgjörið vegna bankahrunsins;
  • hvaða aðferðum verði beitt við endurreisn efnahagskerfisins og hvort takast megi að verja grunnþætti velferðarkerfisins, mikilvæga almannahagsmuni, auðlindir o.s. frv.;
  • hvort gerðar verða nauðsynlegar leiðréttingar á óréttlátu kvótakerfi;
  • hvort leikreglur viðskiptalífsins verða endurhannaðar;
  • hvort komið verður hér á nauðsynlegum lýðræðisumbótum;
  • hvort siðbót muni eiga sér stað í íslenskum stjórnmálum og viðskiptalífi;
  • já, hvort spilin verða stokkuð upp og hvernig gefið verður upp á nýtt.

Átök komandi missera í íslenskum stjórnmálum munu snúast um það hvort eitthvert uppgjör muni eiga sér stað yfirleitt.

Gleymum því ekki að það eru sterk öfl að verki í íslensku samfélagi sem vilja ekkert við ábyrgð sína kannast, og vilja því ekkert endurmat og engin skuldaskil.

----------------------

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu í dag.


Hvað gengur ríkisskattstjóra til?

RikisskattstjoriÉg verð að viðurkenna að framganga ríkisskattstjóra gagnvart forráðamanni IT ráðgjafar og hugbúnaðarþjónustunnar ehf. vekur mér ugg í brjósti. Að ríkisskattstjóri skulu á opinberum vettvangi viðra "grunsemdir" sem hann hefur um "upplýsingastuld" gagnvart nafngreindum einstaklingi, er umhugsunarefni. Sérstaklega í ljósi þess að tengslanetið sem Jón Jósef Bjarnason er að vinna hefur að geyma upplýsingar sem tvímælalaust hljóta að koma almenningi við og vera til mikils gagns fyrir þá sem rannsaka hagsmuna- og krosseignatengslin á íslenskum fjármálamarkaði.

Ekki hefur neitt komið fram í fjölmiðlum sem bendir til þess að þarna sé verið að miðla upplýsingum sem eigi að fara leynt að lögum. Þvert á móti.

Hvaða tilgangi þjónar það þá þegar ríkisskattstjóri í sérstakri fréttatilkynningu vekur athygli á óskyldum atriðum sem einungis eru til þess fallin að rýra traust á þeim sem um er rætt? Ég er ekki undrandi þó að nefndur Jóns Jósef telji vegið að mannorði sínu, eins og fram kom í hádegisfréttum. Ég fæ ekki séð hvað það kemur málinu við þó að  IT ráðgjafar og hugbúnaðarþjónustan hafi ekki skilað ársreikningi til embættis ríkisskattstjóra. 

Vill ekki ríkisskattstjóri upplýsa okkur Íslendinga um alla þá sem ekki hafa skilað embættinu ársreikningi undanfarin þrjú ár?

Fram hefur  komið að Jón Jósef greiddi fyrir aðgang að þeim upplýsingum sem hann notast við. Hann gerði skýra grein fyrir því hvað hann hygðist fyrir og í hvaða tilgangi. Þær upplýsingar sem út úr gagnavinnslunni koma eiga ríkt erindi við jafnt almenning sem stjórnmálamenn - að ég tali nú ekki um þá sem rannsaka eiga hrunið. Hafi Persónuvernd eitthvað við þessa gagnavinnslu að athuga hlýtur hún að gera sínar athugasemdir. Hefur hún gert það? Það er ekki eins og þetta mál hafi farið leynt.

Nei, þessar tiltektir ríkisskattstjóra skjóta skökku við - og vekja áleitnar spurningar. Hvaða hagsmuna er verið að gæta með þessu?

 ------------------------

PS: Ég efast ekki um að ríkisskattstjóri fer að lögum í embættisverkum sínum - en það hefði hann líka gert þó umræddar "grunsemdir" hefðu ekki verið viðraðar opinberlega.


mbl.is Grunaður um upplýsingastuld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að tengja lán við launavísitölu?

Það hljómar skynsamlega að tengja verðtryggingu lána við vísitölu launa fremur en neyslu, eins og Joseph Stiglitz bendir á. Hugmynd Stiglitz á vissan samhljóm í hugmynd Þórólfs Matthíassonar hagfræðings um afkomutengingu lána, þó hugmynd Þórólfs  miðist fremur við greiðslugetu fólks en verðlagsforsendur lánanna.  Báðir hagfræðingarnir eru hinsvegar að leita réttlátra leiða til þess að leysa almennan og yfirþyrmandi greiðsluvanda. Í því samhengi vilja báðir líta til afkomu fólks. 

Vitanlega er það alveg rétt hjá Stiglitz að verðtryggingin eins og hún hefur verið praktíseruð á Íslandi er óréttlát. Hann hefur líkt henni við lyf sem gefið er við höfuðverk en drepur í reynd sjúklinginn (og þar með höfuðverkinn). Að miða afborganir lána við síhækkandi neysluvísitölu sem þróast öðruvísi en launavísitala, felur í sér verulega hættu fyrir lántakandann. Þetta hlýtur að vera hægt að leiðrétta. 

Þó er ein hlið á þessu máli sem þarf að hugleiða, og það er svarti vinnumarkaðurinn. Hann hlýtur að skekkja myndina, hvort sem við erum að tala um að afkomutengja afborganir eða miða verðtryggingu við launavísitölu.

Er hægt að finna "rétta" launavísitölu í landi þar sem svartur vinnumarkaður þrífst undir (og jafnvel ofan á) yfirborðinu?

Þó ég spyrji svona - er ég samt höll undir þessar hugmyndir að breyta við miði lánanna þannig að afborganir þeirra og verðþróun fylgi fremur afkomu fólks en annarri verðlagsþróun. En til að slík breyting feli í sér eitthvert réttlæti, þurfa forsendur að vera réttar. Málið er því ekki einfalt.


Stiglitz mælir gegn almennum afskriftum

stiglitz Það var athyglisvert að hlusta á hagfræðiprófessorinn og Nóbels- verðlaunahafann Joseph Stiglitz í Silfrinu í gær. Þessi hagfræðingur er maður að mínu skapi. Sérstaklega þótti mér athyglisvert það sem hann sagði um afskriftir skulda - þegar hann benti á að almennar afskriftir skulda fela ekki í sér neitt réttlæti, þar sem þeir eru þá lagðir að jöfnu, auðmaðurinn og stórfyrirtækið sem voru í ofurskuldsetningunni annarsvegar, og hinsvegar Jóninn og Gunnan sem tóku íbúðalánið.

 

Ég hef áður bloggað um þetta mál á sömu nótum og Stiglitz talaði  Silfrinu í gær. Flest bendir til þess að flöt niðurfærsla lána - almenn aðgerð - myndi fela í sér gífurlega eignatilfærslu frá einstaklingum til stórskuldugra fyrirtækja. Við værum jafnvel að tala um mestu eignatilfærslu af því tagi sem um getur.

Niðurfærsla lána hjá þeim sem helst þurfa á því að halda er annað mál. Sé tekið mið af greiðslugetu fólks þannig að niðurfærslan nýtist þar sem hennar er helst þörf, þá horfir málið öðruvísi við. Sú hugmynd sem Þórólfur Matthíasson hagfræðingur hefur sett fram um afkomutengingu lána, er í þeim anda, og ég tel að þá leið beri að skoða vel, eins og ég bloggaði um fyrir stuttu. Afkomutengin lána hefur þann kost að vera almenn aðgerð sem þó tekur tillit til greiðslugetu og afkomu skuldarans.

Jöfnuður felst ekki endilega í því að allir fái "eins" - heldur að hver og einn fái það sem hann þarfnast.


Hver er þá staða Icesave málsins?

Hver er þá staðan í Icesave málinu eftir að Alþingi samþykkti ríkisábyrgðina með fyrirvörum? Staðan er sú að samningur sá sem undirritaður var í vor, er óbreyttur, og verður það nema Bretar og Hollendingar sætti sig ekki við fyrirvarana sem settir hafa verið.

Það sem hefur gerst í meðförum þingsins er hins vegar þetta:

Alþingi hefur samþykkt ríkisábyrgðina á Icesave samningnum með skilyrðum. Þingið hefur með öðrum orðum kveðið upp úr um það hvaða skilning beri að leggja í ríkisábyrgðina á grundvelli samningsins. Skilningur og þar með skilmálar þingsins eru m.a. þessir:

  • Að greiðslur vegna samningsins fari ekki fram úr greiðsluþoli þjóðarinnar og haldist í hendur við landsframleiðslu. Þannig verði tekið tillit til erfiðra og fordæmalausra aðstæðna eftir bankahrunið á Íslandi
  • Að ekki verið gengið að náttúruauðlindum Íslendinga.
  • Að Íslendingar geti látið reyna á málstað sinn fyrir dómtólum.
  • Að ríkisábyrgðin falli niður 2024.
  • Að Alþingi geti ákveðið hvenær sem er að fram fari endurskoðun á lánasamningunum við Breta og Hollendinga. Alþingi hefur eftirlit með framkvæmdinni og fjármálaráðherra ber að veita þinginu árlegt yfirlit um hana.

Þetta eru veigamiklir fyrirvarar sem settir eru af þingsins hálfu fyrir ríkisábyrgðinni. Þeir eru til mikilla bóta þar sem þeir eru í reynd lagalegt, efnahagslegt og pólitískt öryggisnet fyrir okkur. Auk þeirrar verndar sem fyrirvararnir veita, telur lánshæfismatsfyrirtækið Moody’s að þeir muni styðja við sjálfbærni ríkisfjármála hér á landi og jafnvel hafa jákvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Þá er ekki talið ólíklegt að  fleiri ríki muni fylgja fordæmi Íslendinga og setja þak á skuldagreiðslur, eins og  bent hefur verið á.

Minn skilningur er sá að fyrirvararnir við ríkisábyrgðinni breyti ekki samningnum sjálfum og feli því heldur ekki í sér gagntilboð til Breta og Hollendinga. Um þetta geta menn þó deilt, og úr því fæst ekki skorið fyrr en í ljós kemur hvort Bretar og Hollendingar sætta sig við fyrirvarana.

Það hlýtur að ráðast á allra næstu dögum.

Annað sem hefur gerst í meðförum þingsins á þessu máli er ekki minna um vert. Það er aukið sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu. Það sjálfstæði birtist ekki hvað síst í efnistökum þessa veigamikla máls í nefndum þingsins. Sú breiða samstaða sem náðist um fyrirvarana í fjárlaganefnd er m.a. til vitnis um þetta. Má segja að þar hafi sannast máltækið "fátt er svo með öllu illt að eigi boði nokkuð gott" - því þrátt fyrir allt hefur þetta erfiða og fordæmalausa mál leitt til betri vinnubragða á Alþingi Íslendinga.  

En nú spyrjum við að leikslokum.

 

 


Magma Energy, erlent fjármagn, eignarhald ríkisins, almannahagsmunir

Bjarnarflag Ég hef ekkert á móti erlendu fjármagni eða skynsamlegri einkavæðingu. En þegar erlend fyrirtæki gera sig líkleg til þess að sölsa undir sig nýtingarrétt íslenskra auðlinda á kjörum sem varla geta talist annað en afarkostir - þá vil ég spyrna við fótum.

Þegar erlent stórfyrirtæki býðst til að kaupa hlut í HS-Orku  gegn því að Orkuveitan veiti 70% kúlulán (þ.e. afborganalaust lán sem greiðist í lok lánstíma) til sjö ára, á 1,5% vöxtum með veði í bréfunum sjálfum - þá fæ ég ekki séð að erlent fjármagn sé að streyma inn í landið.

Þegar erlent stórfyrirtæki sem hefur fengið 10 ára samning við erlend orkufyrirtæki (sjá hér) með framlengingar ákvæði til annarra 10 ára (samtals 20 ár), vill gera 65 ára samning  við okkur með framlengingarákvæði um önnur 65 ár - alls 130 ár - þá líst mér ekki á blikuna.

 Þegar svona er staðið að tilboðsgerð í nýtingarrétt íslenskra auðlinda, þá finn ég brunalykt og fer að hugsa um útsölur, eins og ég hef bloggað um áður.

 Vissulega verðum við að laða erlenda fjárfesta til landsins - en það er ekki hægt að falbjóða náttúruauðlindir landsins fyrir lítið sem ekkert, jafnvel þó hart sé í ári.

Samkeppni og einkavæðing geta verið góðra gjalda verðar - en þá verða líka að vera eðlileg samkeppnisskilyrði til staðar. Slík skilyrði eru ekki til staðar á Íslandi eins og sakir standa.

Þó ekki væri nema vegna þessa, finnst mér réttlætanlegt að ríkið grípi inn í fyrirhugaða sölu á hlut HS-Orku til Magma Energy, og reyni að ganga inn í tilboðið. Satt að segja held ég það sé ráðlegt eins og sakir standa. En þá sé ég fyrir mér tímabundna ráðstöfun, en ekki varanlegt eignarhald - því ég held að ríkið ætti þá að leitast við að selja hlutinn á ný, á betri kostum en þarna bjóðast.

Ef þessi samningur fer óbreyttur í gegn, er gefið fordæmi fyrir fleiri viðlíka samninga, án þess að nokkur trygging sé fyrir því að arðurinn af auðlindum okkar muni renna inn í þjóðarbúið. Ég held það sé hættulegt íslenskum almannahagsmunum.

Auðlindirnar eru helsta von okkar Íslendinga núna - við megum ekki glutra þeim úr höndum okkar í eftirhruns-örvæntingu. Þetta mál er þörf áminning um þá hættu sem við gætum staðið frammi fyrir ef erlend auðfyrirtæki taka að ásælast auðlindir okkar fyrir lítið verð.

 

 


Afkomutenging lána fremur en almennar afskriftir

Þórólfur Matthíasson Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor setur fram athyglisverða hugmynd í grein sem hann ritar í Morgunblaðið í dag. Þar leggur hann til að afborganir húsnæðislána verði tengdar afkomu lántakans.

Þórólfur telur að þessi leið sé í reynd hagstæðari en lánalengingar enda sé ógerningur að fjármagna skuldaniðurfellingar sem einhverju máli skipta.

Mér líst vel á þessa hugmynd og hef stundum rætt þennan möguleika við óformleg tækifæri. A.m.k. tel ég það fyrirhafnarinnar virði að skoða þetta í fullri alvöru.

Bæði lántaki og lánveitandi geta haf ávinning af þessu fyrirkomulagi. Lánþeginn verður fyrir minni skerðingu ráðstöfunartekna ef tekjur hans lækka - lánveitandinn græðir á minni afföllum vegna greiðsluþrots lántakans. Verulega gæti dregið úr greiðslubyrði mjög skuldsettra heimila sem aftur gæti leyst bráðan vanda margra þeirra. Þannig myndi áhætta lántakans minnka án þess að áhætta lánveitanda sé aukin að nokkur marki, eins og Þórólfur bendir á.

Fyrir afkomutengingu lána eru ýmis fordæmi erlendis frá, en líka hérlendis. Til dæmis eru afborganir námslána bundnar við tekjur. Annað fordæmi höfum við í ríkisábyrgð Icesave samninganna sem á að binda við tekjuþróun.

Ég hef auk þess lengi haft þá skoðun að það skorti gagnkvæmni í íslenska lánasamninga. Þá á ég við það að áhættan er - og hefur alltaf verið - öll skuldarans megin. Lánasamningar eru þó ekkert frábrugðnir öðrum viðskiptum, og því ekki nema eðlilegt að lánveitendur taki á sig einhverja áhættu og/eða skuldbindingar til þess að virða breyttar forsendur. 

Sigurður G. Guðjónsson hrl, kom inn á þetta í spjalli við þá Guðmund Ólafsson hagfræðing og Sigurjón M Egilsson á Sprengisandi Bylgjunnar í morgun, sem fróðlegt var að hlusta á (hér).  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband