Færsluflokkur: Evrópumál
Söguleg stund
16.7.2009 | 15:21
Já - við erum á leið í aðildarviðræður. Þetta er stór dagur.
Alþingi Íslendinga hefur ákveðið að kjörnir fulltrúar fólksins, setji af stað lýðræðislega málsmeðferð í einu veigamesta hagsmunamáli þjóðarinnar á síðari tímum.
Alþingi sjálft hefur ákveðið að beita þingræðinu til þess að tryggja lýðræðið - svo þjóðin geti átt síðasta orðið um lyktir þessa mikilvæga hagsmunamáls í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þetta er sögulegt tækifæri fyrir Alþingi Íslendinga til þess að sýna í verki ómetanlegt fordæmi um framkvæmd sjálfs lýðræðisins.
Ég trúi því að aðild Íslendinga að ESB yrði heillaspor fyrir þjóðina. Við Íslendingar verðum að stíga markviss skref í átt til stöðugra efnahagslífs og bættra lífskjara á Ísland. Innganga í Evrópusambandið gæti ennfremur verið liður í því að styrkja stjórnsýslu okkar, bæta viðskiptaumhverfi, efla byggðaþróun, sjálfbærari og vistvænni framleiðsluhætti og skapa fjölbreyttari menntunarkosti og atvinnumöguleika fyrir ungt fólk
Þetta er sú framtíðarsýn sem við jafnaðarmenn höfum hafa fram að færa.
Hversu raunhæf vonin er verður aðeins leitt í ljós með aðildarumsókn og síðan þeim samningsdrögum sem af henni leiðir. Sú vinna er eftir og afrakstur hennar er í raun eina haldbæra vísbendingin sem við getum fengið um þá möguleika sem innganga í ESB getur falið í sér fyrir okkur sem þjóð.
Það er verkefnið sem bíður okkar nú.
Samþykkt að senda inn umsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hér er ESB um ESB frá ESB til ESB
15.7.2009 | 17:14
Evrópusambandsumræðan er allsráðandi í þinginu í dag - spenna í lofti. Sjálf ætlaði ég ekki að tjá mig mikið í þessum hluta umræðunnar, en þó fór svo að lokum að ég blandaði mér í hana.
Enn er ekki ljóst hvort tekst að ljúka umræðunni og greiða atkvæði í dag eða kvöld - það skýrist á næstu klukkustundum.
Mikill hluti dagsins hefur farið í írafárið sem reis í morgun vegna skýrslu nokkurrar sem enn mun ekki vera orðin að fullkominni skýrslu, heldur vinnuplagg á þessu stigi. Hún var unnin fyrir "stjórnvöld og hagsmunasamtök bænda" í því skyni að máta íslenskan landbúnað við "finnsku leiðina" svokölluðu ef kæmi til Evrópusambandsaðildar. Nú hefur þetta gagn verið gert opinbert og í fljótu bragði verður ekki séð að þar séu nein hernaðarleyndarmál, nema ef vera skyldu útreikningar á stöðu landbúnaðarins. Birting þeirra útreikninga gæti hugsanlega komið sér illa fyrir hagsmuni Íslendinga í sjálfum samningaviðræðunum - sem mun vera skýringin á því hvers vegna skýrslan hefur ekki verið birt enn. En hvað um það - nú er þetta plagg uppi á borðum - og þá getur umræðan vonandi haldið áfram.
Eva Joly og vanhæfi ríkissaksóknara
10.6.2009 | 21:23
Það er einhver undarlegur seinagangur í þessu máli. Vanhæfi ríkissaksóknara hefur legið fyrir lengi. Hann hefur sjálfur lýst sig vanhæfan. Gerði það fyrir mörgum mánuðum. Og hvað er þá málið?? Af hverju í ósköpunum er ekki búið að skipa nýjan mann?
Hér er um að ræða mikilvægustu efnahagsbrotarannsókn sem gerð hefur verið - ekki aðeins á Íslandi heldur trúlega í allri Evrópu. Þessi rannsókn varðar sögulegt hrun og er, eins og Eva Joly bendir réttilega á, margfalt stærri og mikilvægari en nokkuð sem hún sjálf hefur komið að til þessa. Lærdómarnir sem dregnir verða af þessari rannsókn - verði hægt að draga þá á annað borð - munu verða færðir í kennslubækur heimsins.
Það er með ólíkindum að ekki skuli hafa verið settur brýnn forgangur á að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem augljósar voru fyrir rannsókn málsins - til dæmis vanhæfi ríkissaksóknarans sem hefur lengi legið fyrir og mikið var fjallað um í október síðastliðnum þegar ég setti m.a. inn þessa bloggfærslu hér.
Hitt finnst mér umhugsunarefni - hafi ég tekið rétt eftir - að Eva Joly skuli frekar mæta í sjónvarpsviðtal til að koma athugasemdum sínum á framfæri heldur en að tala við þar til bær yfirvöld. Er hún fyrst að benda á þessa vankanta núna? Sé það tilfellið - af hverju dró hún það svona lengi? Hvers vegna sneri hún sér ekki beint til dómsmálaráðuneytisins?
Björn verður ríkissaksóknari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Erfiður dagur í þinginu
29.5.2009 | 08:36
Gærdagurinn var býsna viðburðaríkur í þinginu. Fram undir kvöld stóðu linnulausar ræður um þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um að þingið samþykkti aðildarumsókn að ESB sem síðan yrði að loknum aðildarviðræðum borin undir þjóðaratkvæði. Fjölmargir voru á mælendaskrá, og komust færri að en vildu. Umræðan heldur áfram á morgun svo málið er ekki fjarri því að vera fullrætt.
Ég komst ekki að með ræðu í dag, en fór upp í einu andsvari (sjá hér).
Um kvöldmat var gert hlé á umræðunni, en að því loknu voru tekin fyrir öllu erfiðari mál. Þar á meðal hækkun á áfengi, tóbaki, olíu og bensín. Um þetta spunnust miklar umræður sem vonlegt er.
Þetta er því miður aðeins byrjunin - því fleira mun á næstunni fylgja í kjölsogið.
Enga sérmeðhöndlun, takk
29.4.2009 | 11:24
Ég fyrirverð mig hálfpartinn fyrir það að íslenskir fréttamenn skuli hafa spurt Olli Rehn hvort Íslendingar myndu fá sérmeðhöndlun hjá Evrópusambandinu, eins og það væru væntingar íslenskra stjórnvalda. Ég átta mig heldur ekki á því hvers vegna alið hefur verið á þessari umræðu um sérmeðhöndlun fyrir okkur umfram það sem aðrar þjóðir hafa fengið.
Í mínum huga snýst málið um allt annað.
Málið snýst um það hvernig Ísland getur fallið inn í regluverk, stefnumótun og áætlanir ESB. Ég er þá t.d. að tala um byggðaáætlunina, landbúnaðarstefnuna, sjávarútvegsstefnuna og umhverfisstefnuna. Hvaða þýðingu það hefur fyrir okkur, lífskjör okkar, efnahagsástand, atvinnu- og viðskiptaumhverfi að ganga inn í þessar áætlanir.
Við Íslendingar höfum góða von um að geta náð fram því sem nágrannar okkar (t.d. Finnar og Svíar) hafa fengið út úr slíkum viðræðum. Í því er fólginn hinn hugsanlegi ávinningur fyrir okkur - en ekki hinu að koma eins og beiningamaður að dyrum ESB og biðja um "sérmeðhöndlun".
Í þessum viðræðum þarf að skilgreina vel samningsmarkmið okkar Íslendinga gagnvart landbúnaði, sjávarútvegi og auðlindum. Að loknum aðildarviðræðum kemur það svo í ljós hvernig dæmið lítur út, og þá fyrst veit þjóðin til fulls hvað er í húfi og um hvað hún er að kjósa.
Málið er ekki flóknara.
Hér er svo ágæt vefsíða www.evropa.is - þar er núna uppi grein eftir Jón Baldvin Hannibalsson sem sem er vel þess virði að lesa.
Þarf ekki einhug um umsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvað er málið?
28.4.2009 | 09:13
Það er einkennilegt að fylgjast með sterkum yfirlýsingum einstakra þingmanna VG undanfarinn sólarhring meðan formenn flokkanna eru að reyna að mynda ríkisstjórn. Það er eins og stjórnmarmyndunarviðræðurnar séu á tveimur vígstöðvum - við samningsborð forystumanna flokkanna og í fjölmiðlum.
VG samþykkti á landsfundi sínum ekki alls fyrir löngu að aðildarumsókn að ESB skyldi útkljáð í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er einmitt það sem Samfylkingin hefur lagt til. VG hefur lagt áherslu á það að stór og þýðingarmikil mál verði útkljáð með þjóðaratkvæði.
Hvað er málið?
Þjóðin var rétt í þessu að færa ráðamönnum þau skilaboð upp úr kjörkössunum að a) hún vildi félagshyggjustjórn. og b) að hún vildi aðildarumsókn að ESB.
Þetta eru skýr skilaboð. Það er skylda þessara tveggja flokka að svara þessu kalli.
Enn ósætti um ESB-málið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Formannafundur Sjónvarpsins: Framtíðarsýn andspænis dylgjum og úrræðaleysi ... Saari grípur fyrir eyrun
24.4.2009 | 23:31
Þá er formannafundurinn nýafstaðinn á RÚV og komið að því að meta frammistöðu manna.
Sigmundur Davíð, formaður Framsóknarflokksins, dylgjaði stórum um leyndarskjöl og meintar yfirhylmingar sem svo kom í ljós að fær ekki staðist. Sigmundur Davíð lét í það skína að hann hefði upplýsingar upp úr skýrslu sem hvorki fjármálaráðherra né forsætisráðherra hafa aðgang að. Það þýðir að eini maðurinn sem er með yfirhylmingar er þá líklega hann sjálfur, því hann vildi hvorki upplýsa hvernig hann hefði komist yfir umræddar upplýsingar, né heldur vildi hann gera nánari grein fyrir þeim. Hélt sig þess í stað við stóryrði og hálfkveðnar vísur og var hvorki trúverðugur né traustvekjandi.
Það hvarflaði að mér að Ástþór hefði hitt naglann á höfuðið þegar hann talaði um þá sem stjórna Framsóknarflokknum bak við tjöldin.
Bjarni Ben var úrræðalaus og virtist stressaður - jafnvel reiður á köflum. Hann bauð kjósendum engar lausnir á þeim vanda sem við er að eiga. Samkvæmt honum má ekki hækka skatta, samt á að fara í flatan niðurskurð - þó ekki á öllum sviðum. Og samhliða þessu ætlaði hann að skapa 20 þúsund störf sem hann gat þó ekki tilgreint nánar. Eins og Sigmundur Davíð hljóp hann í hræðsluáróður og yfirboð inn á milli.
Þór Saari var bestur þegar hann greip fyrir eyrun. Annars bauð hann ekki upp á neinar lausnir frekar en ofannefndir. Hann sagði þó ýmislegt skynsamlegt um menn og málefni. Það háir Borgarahreyfingunni að hún hefur skýrari sýn á vandann en lausnina, veit hvað hún vill gagnrýna en bendir á fátt til bóta. Fyrir vikið verður málflutningur þeirra árásargjarn og hneykslunarkenndur sem verður yfirborðslegt til lengdar.
Guðjón Arnar er alltaf skynsamur - maður að mínu skapi, þó okkur greini á um margt. Hans flokkur stendur mjög höllum fæti núna og óvíst að Guðjón Arnar komist inn á þing. Það væri þó að mínu viti mikill skaði ef hann félli út. Hann talar ævinlega hreint út eins og Vestfirðingum er tamt.
Steingrímur Joð var góður. Hann lenti í vandræðum varðandi ESB umræðuna og álverið á Bakka en leysti það þolanlega. Hann hefði mátt fá meira næði á köflum til að svara ýmsu sem til hans var beint.
Nú er ég auðvitað ekki hlutlaus varðandi Jóhönnu. Ég var mjög sátt við hennar framöngu í þættinum. Hún svaraði hispurslaust öllu sem um var spurt. Útskýrði vel og nákvæmlega hugmyndir Samfylkingarinnar um þau verk sem vinna þarf. Þar kom glöggt fram sá vilji að verja velferðina eftir því sem kostur er í erfiðu árferði.
Upp úr stóð að Samfylkingin er eini flokkurinn með skýra stefnu og framtíðarsýn. Nú ríður á að við fáum skýlaust umboð til að tryggja vinnu og velferð með ábyrgri efnahagsstjórn. Við erum sammála stærstu samtökum launafólks og atvinnurekenda um að hefja eigi samningaviðræður við ESB strax í vor á grundvelli skýrra markmiða og gefa þjóðinni kost á að eiga síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fyrst að undangenginni aðildarumsókn. Þá fyrst veit þjóðin hvaða kostir eru í boði með aðild, og þá kosti getur hún kosið um í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ég hef bjargfasta trú á því að við jafnaðarmenn munum ná þjóðinni út úr erfiðleikunum Til þess þurfum við umboð og styrk. Ekkert nema atkvæði greitt Samfyklingunni getur tryggt okkur þann styrk sem þarf til að gera þessa leið að veruleika.
Evrópumál | Breytt 25.4.2009 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sjálfstæðisflokkur í panik
20.4.2009 | 23:01
Ætlaði virkilega einhver að gleypa við þeirri barbabrellu Sjálfstæðisflokksins að við Íslendingar ættum að taka upp evru með milligöngu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins?
Sú hugmynd að taka upp evru með stuðningi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er algerlega óraunhæf enda varpað fram undir lok kosningabaráttunnar til þess eins að breiða yfir innbyrðis klofning Sjálfstæðisflokksins og andstöðu hans við áherslur stærstu samtaka launafólks og atvinnurekenda sem vilja hefja samningaviðræður um aðild að ESB og upptöku evru strax eftir kosningar.
Í frétt sem birtist í Financial Times 7. apríl var þessari leið í raun hafnað af Evrópusambandinu sem óraunhæfri. Sama hefur evrópski seðlabankinn gert. Auk þess hafa sérfræðingar í alþjóðamálum bent á að það sé ekki hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hlutast til um samningaviðræður fullvalda ríkis og yfirþjóðlegs valds.
Sjálfstæðisflokkurinn er í einhverri panik þessa dagana. Það kemur bara ekkert af viti frá honum.
AGS getur ekki haft milligöngu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 23.4.2009 kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Landbúnaðurinn og ESB
22.3.2009 | 23:07
Ég er ein þeirra sem lengi vel óttaðist inngöngu í ESB. Ég taldi að með henni yrði stoðum svipt undan íslenskum landbúnaði. Við myndum missa sjálfstæði okkar Íslendingar, ofurselja okkur miðstýrðu fjölþjóðlegu valdi. Já, ég var beinlínis hrædd við tilhugsunina. Ég ímynda mér að svipaða sögu sé að segja af þeim sem hvað harðast tala gegn ESB aðild. Þeir vita hvað þeir hafa en virðast ekki átta sig á því hvað þeir fá. Á þessu þarf að taka með opinni og upplýstri umræðu. Annars verður það óttinn sem ræður för - og hann er afleitur förunautur.
ESB hefur sett sér ákveðna byggðastefnu þar sem ríkt tillit er tekið til dreifðra byggða með stuðningi við vistvænar framleiðsluaðferðir, ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og vöruþróun. Gengið er út frá sjálfbærri landbúnaðarstefnu og styrkjakerfi sambandsins samþætt byggðastefnu þess. Í þessu felast ýmsir möguleikar fyrir íslenska bændur, hvort sem þeir sinna ferðaþjónustu eða sauðfjárrækt. Það er engin ástæða til að halda að stuðningskerfi ESB sem er aðlagað breytingum, nýsköpun og þróun í samstarfi og samskiptum þjóða í áranna rás sé neitt lakara en íslenska styrkjakerfið í landbúnaði.
Geta má nærri að gengissveiflur og ótryggt rekstrarumhverfi hljóta að reynast íslenskum bændum þung í skauti. Við inngöngu í Evrópusambandið og með upptöku Evrunnar má gera sér vonir um stöðugra efnahagsumhverfi með minni gengissveiflum, lægra vaxtastigi og bættum almennum lífskjörum. Í slíku umhverfi er auðveldara að gera langtímaáætlanir í rekstri - ekki síst búrekstri sem á mikið undir innfluttum aðföngum. Vissulega þyrftu íslenskir bændur að keppa við innflutta matvöru - en á móti kemur að samkeppnisstaða þeirra sem matvælaframleiðenda myndi batna til muna. Markaðir í Evrópu myndu opnast fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir og um leið margvíslegir möguleikar til nýsköpunar og vöruþróunar. Við erum hér að tala um 500 milljón manna tollfrjálsan markað sem Íslendinga fengju fullan og aðgang að.
Grundvallaratriðið er þó að vita eftir hverju er að slægjast. Íslendingar - ekki síst bændur - verða að skilgreina þarfir sínar og væntingar til fjölþjóðlegs samstarfs á borð við ESB. Sækja síðan um aðild, fara í viðræður og gefa loks þjóðinni kost á að taka afstöðu til þess sem í boði er með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er eina færa leiðin. Sem stendur höfum við allt að vinna - en ekkert að óttast.
(Efnislega samhljóða greinar um þetta mál hafa nýlega birst í Mbl og Bændablaðinu)
Söguleg tímamót og hlutverk jafnaðarmanna
23.2.2009 | 17:08
Samfylkingin stendur nú á sögulegum tímamótum sem stjórnmálaflokkur. Hún stendur annars vegar frammi fyrir því að innleiða löngu tímabærar lýðræðisumbætur (t.d. stjórnlagaþing) og siðbót í íslensku samfélagi. Hins vegar á hún þess kost að tryggja raunverulegum jafnaðarsjónarmiðum framgang við stjórnarákvarðanir á erfiðum tímum.
Flokkurinn stendur með öðrum orðum frammi fyrir því að endurreisa íslenskt samfélag á grundvelli jafnaðarstefnunnar. Það er ekki lítið hlutverk.
Aldrei fyrr hefur verið jafn rík þörf fyrir heiðarleika, ábyrgð og hugrekki í íslenskum stjórnmálum. Aldrei fyrr hefur verið jafn rík ástæða til þess að endurheimta þau verðmæti sem við þó eigum Íslendingar - andleg og veraldleg. Og aldrei fyrr hefur verið jafn rík ástæða til þess að endurheimta þá sjálfsvirðingu sem gerir okkur kleift að vera þjóð meðal þjóða, í bandalagi og samstarfi við vinaþjóðir þangað sem við getum sótt bæði tilstyrk og fyrirmynd.
Það er núna sem reynir á hvort íslenskir jafnaðarmenn rísa undir nafni.