Færsluflokkur: Evrópumál
Gott!
17.1.2009 | 09:16
Gott hjá íslenska utanríkisráðuneytinu að afþakka bara með kurt og pí komu ísraelska menntamálaráðherrans eins og á stendur. Þeir óskuðu ekki einu sinni eftir að fá að koma heldur tilkynntu komu sína. Það sýnir nú kannski hugarþelið hjá þessari hernaðarþjóð sem lætur sprengjum rigna yfir saklausa borgarar til þess að uppræta fámennan hóp uppreisnarmanna sem sumir vilja kalla hryðjuverkamenn.
Sæju menn það gerast í New York til dæmis að Manhattan yrði sprengd í loft upp fyrir það að hryðjuverkamaður eða skæruliði (misjafnt hvernig menn vilja skilgreina þessa Hamas liða) hefði komið sér þar fyrir? Varla.
Ísraelar verða að fá að finna andúð siðaðra þjóða á framferði þeirra. Það er það minnsta sem við getum gert.
Fyrr í vikunni sendi Amnesty International út form að áskorunarbréfi til forseta Ísraels vegna mannfallsins og aðstæðnanna á Gaza. Bréfið má einnig finna á heimasíðu samtakanna (hér). Ég vona að sem flestir finni sig knúna til að prenta það út, undirrita og senda.
Heimsókn Ísraela til Íslands afþökkuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá
12.1.2009 | 14:36
Jón Kristjánsson fv. ráðherra skrifar merka grein í Fréttablaðið í dag (bls. 15) um þann möguleika að þjóðin kjósi sér sjálfstætt stjórnlagaþing sem leysi Alþingi tímabundið af hólmi á meðan samin er ný stjórnarskrá - nýtt upphaf fyrir íslenska þjóð að endurreisa lýðveldi sitt. Hugmyndir þær sem Jón Kristjánsson kynnir eru eiginlega nánari útfærsla á innleggi Njarðar P. Njarðvík um stofnun nýs lýðveldis á Íslandi, þó þær séu til orðnar af öðru tilefni.
Útfærslan felur það í sér að þjóðin sjálf sé "stjórnarskrárgjafinn með raunverulegum hætti" í stað þess að hnýta breytingar á stjórnarskránni við almennar alþingiskosningar og dægurdeilur þeim tengdar eins og venjan hefur verið. Jón bendir réttilega á að hingað til hefur frumkvæði að breytingum á stjórnarskrá aðeins getað komið frá alþingismönnum þó að stjórnvöld fari með vald í umboði þjóðarinnar.
Undirtónninn í allri umræðu þessa dagana er einmitt sá að þessu þurfi að breyta. Sú hugmynd sem þarna er reifuð - að kosið verði sérstakt stjórnlagaþing sem haldið yrði í heyranda hljóði og tillögur þess að nýrri stjórnarskrá síðan lagðar fyrir dóm þjóðarinnar í allsherjaratkvæðagreiðslu - virðist geta verið fær leið og þjóðinni þóknanleg.
En ég gríp hér niður í grein Jóns:
,,Með þessari skipan eru stjórnarskrárbreytingar fjarlægðar frá stjórnmálaátökum dagsins sem verka truflandi á þessa vinnu. Hugmyndin er að alþingismenn sitji ekki stjórnlagaþing til þess að þjóðin velkist ekki í vafa um þennan aðskilnað. Með því koma þjóðkjörnir fulltrúar á stjórnlagaþingi einir að málinu og ákveða nýtt upphaf að fenginni reynslu af því stjórnskipulagi sem hefur ríkt hér lítið breytt í rétt 105 ár frá heimastjórn 1904.''
Og hann heldur áfram nokkru síðar:
,,Stjórnlagaþing mundi hafa mikil verkefni og nauðsyn ber til að það spegli sem flest sjónarmið í samfélaginu. Sem dæmi um verkefnin má nefna ákvæði um ríkisstjórn og Alþingi og tengsl þeirra aðila, forseta Íslands, dómstóla, auðlindir og umhverfi . Til viðbótar má svo nefna það ákvæði sem mikið hefur verið til umræðu nú þessa dagana sem er um framsal ríkisvalds eða fullveldis. Ennfremur eru sjónarmið um almenn mannréttindi ætíð breytingum háð. Þá er brýn þörf á að setja ákvæði um aukið valfrelsi kjósenda um fulltrúa á framboðslistum og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu."
Þetta eru athyglisverðar hugmyndir og vel þess virði að þær séu skoðaðar vandlega í samhengi umræðunnar.
----------------------------
Fánamyndin hér ofar er fengin hjá Álfheiði Ólafsdóttur myndlistarkonu
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (40)
Skömm og sómi ... í sama fréttatíma!
4.1.2009 | 16:02
Ég er heilshugar fegin (já, og stolt af því) að Ingibjörg Sólrún skuli nú hafa tekið af skarið og fordæmt innrás Ísraelshers á varnarlausa borgara á Gaza. Þess meira undrandi (já, og hneyksluð) er ég á því að menntamálaráðherra skyldi í útvarpsfréttum í morgun tjá sig um ástandið á Gaza eins og hún væri þess umkomin að tala um utanríkismál fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.
Hvað gekk Þorgerði Katrínu til? Er hún að storka utanríkisráðherra? Er hún að storka stjórnarsamstarfinu? Það var nú ekki eins og menntamálaráðherrann hefði mikið eða viturlegt um málið að segja - það sem hún sagði var bara hugsunarlaus upptugga af ummælum Bush frá í gær. Þarna finnst mér Þorgerður Katrín hafa gengið of langt - hún varð sér einfaldlega til skammar.
Hvenær hefði það gerst að utanríkisráðherra færi í útvarpsviðtal til þess að svara fyrir pólitíska afstöðu ríkisstjórnarinnar í menntamálum? Það er orðið þreytandi að sjá þennan tiltekna ráðherra hlaupa til hvenær sem færi gefst í viðtöl. Nú síðast vegna þess að það náðist ekki strax í forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann - til þess að segja svo ... eiginlega ekki neitt af viti.
Þeir vita það þá hinir ráðherrarnir í ríkisstjórninni - næst þegar ekki næst samband við menntamálaráðherrann í eina eða tvær klukkustundir - að þá er þeirra tækifæri til þess að tala um menntamál í útvarpið. Sérstaklega ef þeir vilja tjá skoðanir sem eru á skjön við afstöðu fagráðherrans.
Er hægt að vinna með fólki sem hagar sér svona?
Fordæmir innrás á Gasa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)