Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Eva Joly og vanhæfi ríkissaksóknara
10.6.2009 | 21:23
Það er einhver undarlegur seinagangur í þessu máli. Vanhæfi ríkissaksóknara hefur legið fyrir lengi. Hann hefur sjálfur lýst sig vanhæfan. Gerði það fyrir mörgum mánuðum. Og hvað er þá málið?? Af hverju í ósköpunum er ekki búið að skipa nýjan mann?
Hér er um að ræða mikilvægustu efnahagsbrotarannsókn sem gerð hefur verið - ekki aðeins á Íslandi heldur trúlega í allri Evrópu. Þessi rannsókn varðar sögulegt hrun og er, eins og Eva Joly bendir réttilega á, margfalt stærri og mikilvægari en nokkuð sem hún sjálf hefur komið að til þessa. Lærdómarnir sem dregnir verða af þessari rannsókn - verði hægt að draga þá á annað borð - munu verða færðir í kennslubækur heimsins.
Það er með ólíkindum að ekki skuli hafa verið settur brýnn forgangur á að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem augljósar voru fyrir rannsókn málsins - til dæmis vanhæfi ríkissaksóknarans sem hefur lengi legið fyrir og mikið var fjallað um í október síðastliðnum þegar ég setti m.a. inn þessa bloggfærslu hér.
Hitt finnst mér umhugsunarefni - hafi ég tekið rétt eftir - að Eva Joly skuli frekar mæta í sjónvarpsviðtal til að koma athugasemdum sínum á framfæri heldur en að tala við þar til bær yfirvöld. Er hún fyrst að benda á þessa vankanta núna? Sé það tilfellið - af hverju dró hún það svona lengi? Hvers vegna sneri hún sér ekki beint til dómsmálaráðuneytisins?
![]() |
Björn verður ríkissaksóknari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Nú reynir á styrk þingsins
9.6.2009 | 16:41
Sú fáránlega staða kom upp á fundum efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar í morgun að fulltrúar fjármálaeftirlitsins þóttust ekki geta veitt nefndunum umbeðnar upplýsingar um verðmat á eignum við uppgjör gömlu og nýju bankanna. Og til að réttlæta þögnina var vísað í 5. gr. upplýsingalaga en það er einmitt sú grein sem kveður á um rétt almennings til þess að fá upplýsingar.
Það er aumt ef Alþingi Íslendinga - sjálfur löggjafinn - getur ekki fengið upplýsingar út úr stjórnkerfinu til þess að grundvalla löggjafastörf sín á.
Alþingi Íslendingar þarf að sjálfsögðu að taka sínar ákvarðanir á grundvelli bestu fáanlegu upplýsinga hverju sinni. Það gefur auga leið.
Nú reynir á stöðu löggjafans gagnvart framkvæmdavaldinu sem mörgum finnst að séu að vaxa löggjafarvaldinu yfir höfuð.
Hér er tekist á um grundvallaratriði og hér má þingið ekki fara halloka.
Nú reynir á styrk Alþingis.
![]() |
Tveimur þingnefndum meinað um upplýsingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Svar mitt við áskorunum dagsins
8.6.2009 | 23:42
Í dag hefur rignt inn í póstkerfið mitt fjöldaáskorunum vegna Ice-save samningsins sem var til umræðu á Alþingi í dag. Þetta eru staðlaðar bréfasendingar sem sendar eru með skipulögðum hætti, sumir senda aftur og aftur og fara ekki dult með, því þær sendingar eru merktar áskorun 2, áskorun 3 o.s. frv.
Ég hef brugðist þannig við þessum sendingum að svara þeim með rökstuðningi fyrir afstöðu minni í málinu. Því miður virðist það ekki nægja sumum sem halda áfram að senda mér áskorun sína í sífellu. Þeir leggja augljóslega meira upp úr því að fylla pósthólfið mitt, en að koma sjónarmiðinu á framfæri eða kalla eftir svörum.
Þannig að nú er ég hætt að senda svör. Kemst einfaldlega ekki yfir það að skrifa fleirum, enda er ég búin að missa yfirsýn yfir það hverjir eru að senda í fyrsta, annað eða þriðja sinn.
Svar mitt er á þessa leið:
Ég lít svo á að íslensk stjórnvöld séu nú að róa lífróður fyrir íslenska þjóð, og ég er tilbúin að aðstoða þau við þann róður af öllum mínum kröftum. Eftirköstin af efnahagshruninu verða ekki auðveld - það vissum við. Nú er komið að skuldadögunum. Við eigum enga leið út úr hruninu aðra en að moka, og
það verða allir að hjálpast að við þann mokstur, hvort sem þeir bera ábyrgð á hruninu eða ekki.
Ég er ekki sátt við það að þurfa að taka á mig lífskjaraskerðingu og hækkun lána í framtíðinni vegna þessa ástands, enda ber ég enga ábyrgð á því frekar en þú. En við erum ein þjóð, og við verðum að takst á við þetta sem þjóð. Ekki bara okkar sjálfra vegna heldur barnanna okkar vegna og barnanna þeirra. Það er það minnsta sem við getum gert. Ég trúi því að þær aðgerðir sem nú eru í gangi, miði einmitt að því að bjarga. Þess vegna styð ég þær heilshugar og mun greiða atkvæði með þeim. Ég gæti ekki samvisku minnar vegna setið hjá, og þaðan af síður greitt atkvæði gegn, því ég trúi því að með Ice-save samningnum hafi verið kastað til okkar líflínu sem muni ráða úrslitum um það hvort við eigum okkur viðreisnar von sem þjóð.
Dómstólaleiðin er að mati fjölmargra lögfræðinga ekki fær fyrir okkur - þeir bjartsýnustu segja hana afar áhættusama. Í því ljósi, sé ég enga aðra leið en þá sem nú er verið að fara. Lánið er okkur hagstætt, 5,5% vextir og sjö ára greiðslufrestur í upphafi, meðan verið er að ná eignum Landsbankans upp í
skuldir. Svartsýnustu spár segja að eignirnar muni duga fyrir 75% af láninu, þeir bjartsýnustu tala um 95%.
Með fullri virðingu fyrir skoðunum annarra - þá mun ég í þessu máli hlýða mínni eigin samvisku eins og Þingmannseiðurinn kveður á um að mér beri að gera. Ég mun ekki láta undan þrýstingi frá hvorki stjórn né stjórnarandstöðu, og mun ekki láta æsingslega og óábyrga umræðu villa mér sýn í þessu máli.
Hér er of mikið í húfi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
Réttmæt ábending
7.6.2009 | 21:05
Það er rétt hjá Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, að nú verða allir að standa saman ef takast á að rétta við ríkishallann og endurreisa efnahagslífið.
Eftir allt lýðskrumið sem vaðið hefur uppi í umræðunni að undanförnu er kærkomin tilbreyting að heyra forystumann atvinnurekenda og fyrrum alþingismann Sjálfstæðisflokksins tala af stillingu og skynsemi um stöðu mála og lýsa vilja til að leggja hönd á plóg. Þetta er hin ábyrga afstaða og sú nálgun sem þörf er á um þessar mundir. Flokkssystkini Vilhjálms á Alþingi mættu af honum læra í þessu efni.
Það hefst ekkert með sundurlyndi og hrópum - samstaða og stilling er eina leiðin til þess að ná tökum á ástandinu.
![]() |
„Allir þurfa að standa saman“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umskiptingar umræðunnar
7.6.2009 | 11:09
Umræðan um Ice-save samningin er orðin gjörsamlega galin. Aðrar eins yfirlýsingar og sést hafa hér á blogginu í fyrirsögnum, færslum og athugasemdum, eiga sér ekki fordæmi (ekki einu sinni í Lúkasar-málinu víðfræga).
Stjórnarandstæðingar virðast hafa náð þeim merka árangri í þessu máli að trylla almenning úr hræðslu. Ábyrgur málflutningur eða hitt þó heldur. Í því ljósi er athyglisvert að rifja upp málflutning eins þeirra, Bjarna Benediktssonar, fyrir fáeinum mánuðum síðan, þegar hann talaði fyrir samkomulagi af þessu tagi í þinginu, eins og bent hefur verið á (hér). Það er ekki að sjá að hér tali einn og sami maðurinn.
Nú er látið í veðri vaka að stjórnvöld hafi skrifað undir samning sem muni koma þjóðinni á vonarvöl. Kjörin sem okkur bjóðist í þessum samningi séu afleit, og við munum aldrei geta risið undir þessu. Allt er þetta rangt.
Í samningnum felst að við getum hvenær sem er fengið að greiða þetta lán upp - og það getum við ef okkur býðst annað hagstæðara lán. Auk þess gefst okkur greiðslufrestur fyrstu sjö árin - og það munar um minna í þeim þrengingum sem þjóðin gengur í gegnum nú.
Enginn samningur er undirritaður fyrir hönd þjóðarinnar nema með fyrirvara um samþykki Alþingis.
Það er því mikil rangfærsla að láta eins og hér sé verið að skuldbinda þjóðina án samráðs við þingið. Þetta mál verður að sjálfsögðu til umfjöllunar og endanlegrar staðfestingar þar. Stóð aldrei annað til.
Hins vegar er jafn ljóst að það er hlutverk stjórnvalda að framkvæma stjórnarathafnir og gera samninga í umboði kjósenda. Þau stjórnvöld sem nú sitja hafa fullt umboð til þess sem þau eru að gera. Þau voru til þess kosin. Það er svo Alþingi sem hefur síðasta orðið - í þessu máli sem öðrum.
Hér er farið að landslögum. Hér er unnið í þágu lands og þjóðar.
Óhemjuskapur og ótímabært upphlaup
6.6.2009 | 19:01
Stjórnarandstaðan varð sér til skammar á Alþingi í gær með ótímabæru upphlaupi og ásökunum um landráð. Tilefnið var samkomulag það sem íslensk stjórnvöld hafa nú náð í Ice-save deilunni. Samkomulag sem er liður í því að endurheimta traust Íslands í alþjóðlegum viðskiptum. Samkomulag sem felur í sér lán frá Hollendingum og Bretum til 15 ára með 7 ára greiðslufresti. Lán sem góðar líkur eru á að muni að langmestu leyti greiðast með eignum Landsbankans (75-95%). Samkomulag sem felur í sér að Ísland getur hvenær sem er fengið að greiða upp þetta lán ef svo ólíklega skyldi vilja til að okkur byðist betra lán annarsstaðar á hagstæðari kjörum.
Þetta er besta niðurstaðan sem orðið gat af málinu. Fyrir lá fyrr í vetur að samkomulag af þessu tagi væri forsenda þess að við Íslendingar gætum átt lána von hjá nágrannalönd okkar. Eins og menn muna vafalaust stefndi í að 27 Evrópuþjóðir myndu loka á alla lánafyrirgreiðslu til okkar að öðrum kosti.
Þannig er þetta samkomulag forsenda þess að efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga og að við getum notið lánafyrirgreiðslu nágranna og vinaþjóða til að efla gjaldeyrisforðann.
Fyrstu áhrif þessa samkomulags eru þegar að koma í ljós. Bretar hafa ákveðið að aflétta frystingu á eignum Landsbankans þar í landi 15. júní n.k.
Þetta eru m.ö.o. góðar fréttir miðað við allar aðstæður.
![]() |
50 milljarðar á reikningi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Landráð - lét hún það heita
5.6.2009 | 16:02
Nú falla þung orð í þinginu - þyngri en efni standa til.
Þingmaðurinn Eygló Harðardóttir sakar ríkisstjórnina um "landráð" og menn tala blygðunarlaust um "lygar", benda með fingri á einstaka þingmenn og þar fram eftir götum.
Eitt er að kalla eftir lýðræðislegri umræðu - sjálfsagt að virða slíkar óskir. En þeir sem hrópa á opna og lýðræðislega umræðu verða líka að vera ábyrgir orða sinna og gæta þeirra.
Þingmenn geta ekki leyft sér hvað sem er í orðavali þegar þeir standa í ræðustóli Alþingis.
"Landráð" eru stórt orð.
Hér má sjá fyrri athugasemd mina við þetta í umræðum þingsins í dag og hér er sú síðari. Hávær framíköll sem heyrast í annarri athugasemdinni koma frá nokkrum stjórnarandstæðingum, einkum Eygló Harðardóttur og Tryggva Þór Herbertssyni.
![]() |
Stór orð á Alþingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (59)
Þó fyrr hefði verið
3.6.2009 | 20:10
Jæja, loksins sá efnahagsbrotadeildin ástæðu til að fara ofan í saumana hjá fyrrum forstjóra FL-Group. Þó fyrr hefði verið.
Maður hefur velt því fyrir sér undanfarna mánuði hvers vegna ekki var gerð húsleit hjá forkólfum útrásarinnar strax í fyrstu vikunni eftir hrun.
Hvers vegna stjórnarformennirnir og forstjórar umdeildustu útrásarfyrirtækjanna hafa allir fengið svo ríflegt svigrúm?
Hvers vegna þeir sem tengdust bönkunum fengu sumir hverjir að athafna sig á vettvangi - eða því sem næst - sitjandi sem fastast í stjórnunarstöðum og skilanefndum vikum og mánuðum saman.
Já - þeir fengu ríflegt svigrúm. Og mér er stórlega til efs að nokkuð handbært muni finnast í fórum þeirra, hvorki í bókhaldi né á bankareikningum, nú, eftir allt sem á undan er gengið.
En ... ég vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér.
![]() |
Efnahagsbrotadeild með húsleitir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fátt er svo með öllu illt ...
30.5.2009 | 12:57
Þær hækkanir sem nú verða á áfengi, tóbaki, bensíni o. fl. eru fáum gleðiefni. Langtímaáhrif þeirra munu þó verða mun jákvæðari en látið er í veðri vaka þessa dagana. Fullyrt hefur verið að með þessu hækki skuldir heimilanna um 8 milljarða. Þá er einungis horft á lítið brot af heildarmyndinni. Ef breytingin færi beint út í verðlagið gæti hún vissulega haft þessi áhrif, en þá gleyma menn því að hækkunin leggst á höfuðstól lána sem greiðast munu löngum tíma, einhverjum áratugum.
Á hinn bóginn mun þessi breyting skila ríkissjóði um 17 milljörðum í ríkiskassann út árið 2012.
Hér er verið að bregðast við halla ríkissjóðs. Aðgerðin er liður í því að styrkja gengið, lækka verðbólgu og vexti þar með - sem aftur mun leiða til batnandi stöðu heimilanna langt umfram áhrifin af 0,5% hækkun vísitölunnar sem sumir reikna.
Þau skref sem nú hafa verið stigin sýna að stjórnvöld stefna að því að ná tökum á ríkisfjármálum og lækka halla ríkissjóðs. Minni halli leiðir til sterkara gengis. Það dregur úr skuldabyrði þeirra sem eru með erlend lán. Ef erlend erlend húsnæðislán eru um 300 milljarðar mun 4% styrking krónunnar lækka skuldir heimilanna um 12 milljarða. Sterkara gengi dregur einnig úr verðbólgu. Sterkara gengi og lægri verðbólga til framtíðar styrkir einnig kaupmátt launa.
Því má skjóta hér inn að á mánudaginn lýsti forsætisráðherra því yfir að framundan væru erfiðustu aðhaldsaðgerðir sem hún hefði nokkurn tíma staðið frammi fyrir á sínum pólitíska ferli. Frá því að forsætisráðherra gaf þessa yfirlýsingu hefur gengið styrkst um ríflega 4%. Ekki er ólíklegt að aukinn trúverðugleiki efnahagsstefnunnar eigi þar hlut að máli. Jákvæð tilsvör sendinefndar AGS þegar hún fór af landi brott um daginn, hafa varla skaðað heldur.
En aftur að áhrifum skattahækkunarinnar: Þrátt fyrir neikvæð skammtímaáhrif hennar á verðtrygginguna munu sterkari ríkisfjármál og áræðni í efnahagsstjórnunni vinna það tap upp mjög fljótt. Þannig munu langtímaáhrifin verða efnahagslífinu til góðs.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Bensínhækkun og ESB
29.5.2009 | 14:33
Mér var bent á það í athugasemd hér á blogginu, að tiltekin bensínstöð hafi verið búin að hækka verð á bensíni kl. 23 í gærkvöldi - hálftíma áður en lögin um hækkun á olíu og bensíni voru samþykkt á Alþingi.
Þetta er ósvífni - svo ekki sé meira sagt.
Hvað um það: Í dag heldur ESB umræðan áfram í þinginu. Málflutningurinn í morgun var málefnalegur og yfirvegaður. Því miður hefur orðið nokkur breyting á yfirbragði umræðunnar nú eftir hádegið - en við því er ekkert að segja. Menn hafa málfrelsi.
Ég tók til máls fyrr í dag og ræddi málið út frá lýðræðishugtakinu. Þeir sem áhuga hafa geta skoðað innlegg mitt hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)