Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sjávarplássin lifna við

Smábátar Loksins sér maður aftur líf færast yfir bryggjurnar hér fyrir vestan. Bátarnir komu inn í gær eftir fyrsta strandveiðidaginn. Þeir voru kampakátir karlarnir þar sem þeir stumruðu yfir körunum fullum af spriklandi fiski.

Hjá einum var drukkið "strandveiðikaffi" til að halda upp á þessi tímamót.

Já, loksins eftir langa mæðu eru menn aftur frjálsir að því að sigla bátum sínum út á miðin og taka þar á handfærin allt að 800 kg á dag, án þess að kaupa eða leigja til þess sérstakan kvóta.

Loksins skynjar maður eitthvað sem líkist "eðlilegu" ástandi - einhverskonar frelsi eða opnun. Fram til þessa hefur mönnum verið meinaður aðgangur að fiskimiðunum við strendurnar, nema þeir gerðust leiguliðar hjá kvótaeigendunum - eða keyptu sér kvóta dýru verði. Undanfarið hefur lítill sem enginn kvóti verið fáanlegur, svo það hefur ekki verið um marga möguleika að ræða.

Já, nú eru sannarlega tímót. Og ég er glöð yfir því að hafa getað veitt þessu máli lið inni í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þaðan sem frumvarpið var afgreitt fyrir skömmu.

Loks er aftur líf í höfnum,
landa bátar afla úr sjó.
Mergð er nú af mávi og hröfnum
mikil yfir fsikislóg.

Vonandi eru strandveiðarnar komnar til að vera.


mbl.is 22 tonn af þorski á fyrsta degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þakkarverð samábyrgð

solstafir Það er svo sannarlega ástæða til að óska þjóðinni til hamingju með Stöðugleikasáttmálann.

Þetta samkomulag við aðila vinnumarkaðarins er í raun og veru forsendan fyrir því að áform um endurreisn efnahagslífsins nái fram að ganga, eins og forsætisráðherra hefur bent á.

Allir þeir sem komið hafa að sáttmálagerðinni hafa sýnt ábyrgð og sanngirni í þessum samningaviðræðum. Slíkt hugarfar er aldrei mikilvægara en þegar þrengir að í lífi þjóðarinnar. Og einmitt þess vegna er ástæða til þess að þakka fyrir þann samningsvilja og samábyrgð sem allir hlutaðeigandi hafa sýnt við gerð Stöðugleikasáttmálans.


mbl.is Til hamingju með sáttmálann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundaferð Samfylkingarinnar

Þessa dagana eru þingmenn Samfylkingarinnar á fundum með fólki úti í kjördæmunum að ræða þau mál sem hæst ber í þinginu, Ice-save, ríkisfjármálin, efnahagsráðstafanirnar, ESB, sjávarútvegsmálin og fleira sem brennur á fólki.

Í  kvöld var ég á ágætum fundi í Grundarfirði ásamt Jónínu Rós Guðmundsdóttur, samflokkskonu minni  og þingmanni í NA-kjördæmi og Davíð Sveinssyni bæjarfulltrúa. 

Við Jónína Rós ókum saman vestur í sumarblíðunni nú síðdegis og nutum fegurðar Borgarfjarðar og Snæfellsness á leiðinni. Áttum svo ágætan fund með heimamönnum í kvöld þar sem margt var skrafað um landsins gagn og nauðsynjar.

Í gær var vel sóttur og skemmtilegur fundur á Ísafirði með mér, Kristjáni Möller samgönguráðherra og Sigurði Péturssyni, bæjarfulltrúa.  Á morgun verð ég á Akranesi ásamt Guðbjarti Hannessyni þingmanni.

Þetta eru afar gagnlegir fundir, ekki síst fyrir okkur þingmennina.

Það er nauðsynlegt að komast út úr þinginu af og til og hitta fólk. Tala við kjósendur, og ekki síst að hlusta (mun skemmtilegra heldur en að taka við fjöldapóstum svo dæmi sé tekið Wink).

En nú er ég orðin sybbin, enda komið fram yfir miðnætti. Góða nótt.Sleeping

 


Skilaboð eða áreiti

Síðustu daga hefur tölvupóstum rignt yfir okkur alþingismenn. Fyrst var það vegna Ice-save samningsins, síðan vegna Evu Joly. Þetta eru fjöldapóstar með stöðluðu orðalagi sem sendir eru jafnvel aftur og aftur frá sama fólki.

Ég hef viljað svara þessum sendingum, vegna þess að ég tel það kurteisi að svara bréfum. Sú góða viðleitni mín er nú þegar orðin stórlöskuð, því þetta er óvinnandi vegur.

Ástæða þess að ég færi þetta í tal núna er sú að mér finnast fjöldasendingar af þessu tagi vera vond þróun. Þær leiða til þess að þeir sem fyrir þeim verða gefast upp á samskiptum við sendendur. 

Þar með rofna tengslin milli þingmannsins og kjósandans. Samskiptin hætta að vera gagnkvæm - þau verða einhliða. Í stað samræðu kemur áreiti. Það er slæmt.

Fjöldasendingar þar sem fólk notast við skilaboð sem einhver annar hefur samið, og sendir í þúsundavís á tiltekinn hóp viðtakenda, þjóna sáralitlum tilgangi. Vægi skilaboðanna aukast ekkert við það þó sama bréfið berist þúsund sinnum. Það verður bara að hvimleiðu áreiti. Því miður.

Mun þægilegra væri fyrir alla aðila ef þeir sem standa fyrir fjöldasendingum af þessu tagi myndu einfaldlega opna bloggsíðu þar sem safnað væri undirskriftum við tiltekinn málstað. Síðan væri þeim málstað komið á framfæri við alþingismenn og önnur stjórnvöld í eitt skipti. Það væri eitthvað sem hefði raunverulega vigt.

Þetta er mín skoðun ... að fenginni reynslu.

 


Óvirðing við þjóðþingið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sýndi forseta Alþingis mikla óvirðingu í þinginu í gær, þegar hann kvaddi sér hljóðs undir liðnum "fundarstjórn forseta" og setti síðan á ræðu um allt annað mál án nokkurra tengsla við fundarnstjórn forseta. Þegar hann síðan dró upp Fréttablaðið og fór að lesa upp úr því var forseta þingsins nóg boðið - enda gera  þingsköp ráð fyrir því að óskað sé leyfis forseta áður en lesið er upp úr blöðum eða bókum í ræðustóli. Þegar þarna var komið sögu tók forseti Alþingis til sinna ráða, en Sigmundur Davíð þráaðist við og ætlaði ekki úr stólnum.

Framkoma nokkurra framsóknarmanna - ekki síst formannsins - hefur farið stigversnandi í þinginu undanfarna daga. Þau finna sér hvert tilefni til þess að stíga í pontu, atyrða þaðan aðra viðstadda með leiðinlegu orðavali. Þau hrópa fram í fyrir ræðumönnum, benda með fingri - berja jafnvel í pontuna og hækka röddina. Raunar hafa framíköll almennt aukist mikið undanfarið - og þá er ég ekki að tala um beinskeyttar athugasemdir sem fljúga glitrandi um salinn. Nei, ég er að tala um leiðinlegt húmorslaust þref sem heldur áfram eftir að menn eru komnir í sæti sitt. Agaleysi. Ókurteisi.

 Það er sorglegt þegar virðingarleysið fyrir þjóðþinginu er komið inn í sjálfan þingsalinn.

Sigmundur Davíð og co. eru á góðri leið með að breyta Alþingi Íslendinga í skrípaleikhús. Og það er hugraun fyrir okkur hin sem sitjum á þessu sama þjóðþingi að horfa á þetta gerast.

Forsætisnefnd Alþingis verður að taka á þessu máli.


mbl.is Óásættanleg framkoma forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrenn Grímuverðlaun fékk dóttirin: Þeir fiska sem róa!

Humanimal09Það gladdi mitt meyra móðurhjarta að sjá þrenn Grímu-verðlaun renna til sýningarinnar Húmanimal í kvöld - ég tala nú ekki um þegar Saga dóttir mín tók við einni styttunni sem danshöfundur. Heart Hún tók við þeim verðlaunum í fullri hógværð ásamt Möggu vinkonu sinni, sem líka fékk verðlaun sem dansari ársins. Báðar tóku skýrt fram (og það með réttu) að hópurinn allur ætti þessar styttur sem þær héldu á.

Já, þær voru sannarlega bæði þakklátar og örlátar á þessari sigurstundu - vildu ekki eiga neitt einar - hugsuðu til félaga sinna - deildu gleðinni og heiðrinum með fleirum. Fallegar og rétt þenkjandi ungar konur. Sannkallaðir listamenn.

Annars var ég að verða úrkula vonar um að ég kæmist á afhendingarathöfnina í tæka tíð. Strandveiðifrumvarpið sem ég hef haft framsögu um sem starfandi formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar kom svo seint inn til þriðju umræðu í þinginu að sjálft við lá að ég missti af Grímu-athöfninni. Loks þegar málið var komið á dagskrá og menn voru stignir í pontu til að þenja sig yfir því, var klukkan að verða sjö. 

Í brjósti mér toguðust á ólíkar tilfinningar: Löngunin til að fara eina ferðina enn í umræðurnar og reka nokkrar rangfærslur ofan í mótherjana - hinsagasvegar löngun móðurinnar til að samgleðjast dóttur sinni sem var að fá fjölda tilnefninga fyrir listrænt framlag, og var hugsanlega að fara að taka við verðlaunum (sem kom á daginn).

Eins og oft áður varð móðurhvötin pólitíkinni sterkari. Ég ákvað því að blanda mér ekki frekar í umræðuna - taldi mig hafa sagt í gær allt sem segja þurfti um málið - lét taka mig út af mælendaskrá og ... stakk af! Blush Og viti menn: Þingheimur komst af án mín þessar mínútur sem eftir lifðu fundarins. Það hefði dóttir mín svosem gert líka á þessari gleðistundu, en ég hefði ekki viljað missa af því að vera viðstödd. 

Það er af Strandveiðifrumvarpinu að segja að umræðunni lauk í kvöld, en frumvarpið með áorðnum breytingum kemur til atkvæðagreiðslu á fimmtudagsmorgun. Því er ljóst að strandveiðarnar munu ekki hefjast á þjóðhátíðardaginn, úr því sem komið er.

Mottó dagsins er enn sem fyrr: Þeir fiska sem róa!


mbl.is Utan gátta fékk flest verðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strandveiðar á 17. júní?

Í morgun var strandveiðifrumvarpið svokallaða tekið út úr sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og ef heppnin er með tekst kannski (vonandi) að afgreiða það úr þinginu í kvöld.

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu, m.a. við loka umfjöllun þess í nefndinni í morgun.  Síðustu breytingarnar bar ég upp við nefndina í morgun. Samþykkt var að ákvæðið um 800 kg af þorski auk meðafla í hverri veiðiferð skyldi hljlóða upp á 800 kg af fiski í kvótabundnum tegundum. Þá var tímaákvæði frumvarpsins breytt úr 12 klst í 14 klst sem hver veiðiferð má taka.

Ýmsar aðrar smálegar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu sem ég hygg að séu allar til bóta, enda hafa fjölmargir umsagnaraðilar komið á fund nefndarinnar og verið inntir álits.

Það væri óskandi ef takast mætti að afgreiða frumvarpið svo breytt úr þinginu í dag. Ef ekki, þá verður það tekið fyrir á fimmtudag.

Það er a.m.k. nokkuð ljóst að menn geta farið að gera sig klára svona hvað úr hverju.

Mottó dagsins: Þeir fiska sem róa Wink


Strandveiðarnar tóku daginn

StykkisholmurÞað var þaulseta í þinginu í dag. Eftir óundirbúinn fyrirspurnartíma sem tók 40 mínútur, og svo drjúga (en óverðskuldaða) törn um fundarstjórn forseta, kom loks röðin að aðalmáli dagsins: Sjálfu Strandveiðifrumvarpinu.

Margir hafa beðið í óþreyju eftir lyktum þess máls - þær eru raunar ekki ráðnar til fulls, en verða það vonandi á morgun.

En sumsé: Ég sem starfandi formaður Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þingsins mælti fyrir nefndaráliti meirihluta nefndarinnar. Því virðulega hlutverki fylgir sú skylda að vakta umræðuna frá upphafi til enda, veita andsvör (t.d. hér, hér, hér og hér ) og taka þátt í málflutningnum.

Að lokinn þessari törn - sem tók lungann úr deginum - kom það í minn hlut að mæla fyrir meirihlutaáliti um nýgerðan búvörusamning. Ég var snögg að því - en gerði það svikalaust, enda var mér það bæði ljúft og skylt. Sauðfjár- og kúabændur að þessu sinni sýnt samningsvilja og samábyrgð í þessari samningsgerð sem er þeim til sóma og öðrum til eftirbreytni á erfiðum tímum.


Valtýr er vanhæfur - ekki óhæfur

 Umræðan um vanhæfi Valtýs Sigurðssonar ríkissaksóknara er að sjálfsögðu enginn áfellisdómur yfir honum sem einstaklingi. Vanhæfi snýst ekki um það hvernig menn eru innréttaðir eða hvað þeir kunna, heldur hitt hver tengsl þeirra eru úti í samfélaginu gagnvart málum sem koma inn á borð til ákvörðunar, dómsuppkvaðningar eða saksóknar. 

Við Íslendingar erum allt of uppteknir af því að afsagnir manna eða tilfærslur í starfi - hvort sem um er að ræða stjórnmálamenn eða embættismenn - sé einhverskonar persónulegt tap fyrir þá sjálfa. Auðvitað getur það haft óhagræði í för með sér að skipta skyndilega um starf, eða breyta stefnu á einhvern hátt. En afsögn er einfaldlega til vitnis um að menn viðurkenna aðstæður, skynja ábyrgð sína í þeim aðstæðum og taka henni.

Valtýr hefur fyrir löngu lýst sig vanhæfan varðandi rannsóknina á bankahruninu. Skiljanlega. En einmitt þess vegna verður hann að standa fjarri sem ríkissaksóknari á meðan sú rannsókn stendur yfir. Það er ekki nóg að hann standi einungis utan við þá tilteknu rannsókn. Meðan hann er við störf sem ríkissaksóknari má segja að allir hans starfsmenn séu vanhæfir til þess að koma að rannsókn málsins.

Annars var komið inn á þetta í Kastljósinu í gærkvöld þar sem við skiptumst á skoðunum hjá Sigmari, ég og Ólafur Arnarson. Þar var líka rætt um Ice-save málið (sjá hér).


mbl.is Valtýr vill ráða Evu Joly
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuggahlið bloggsins

Ég heyri það að þú ert nýbyrjuð - sagði fyrrverandi þingmaður við mig í samtali fyrr í dag. Ég var að tjá honum áhyggjur mínar yfir framgangi tiltekins máls sem ég hef með höndum. Ég var að segja honum frá athugasemdum og ummælum sem ég hefði heyrt frá tilteknum aðilum og vildi taka mark á. Honum fannst ég taka þessu allt of alvarlega- og kannski hefur hann nokkuð til síns máls. 

Kannski er ég að taka allar athugasemdir sem falla of alvarlega. En ástæðan er sú að ég tek starf mitt alvarlega og lít á það sem skyldu mína að hlusta á fólk og taka tillit til sjónarmiða þess. Um leið finnst mér brýnt að leyna ekki skoðun minni og vera hreinskiptin.

Þetta gerir sjálfri mér erfitt fyrir, því þegar fólk beinir reiði sinni að mér persónulega - reiði sem á þó upptök sín annarsstaðar og verða ekki rakin til mín - þá hefur það  samt áhrif á mig.  Ég er bara þannig sköpuð -  þegar ég skynja vanlíðan og reiði annarra líður mér illa.

Síðust daga hafa komið margar athugasemdir inn á bloggsíðuna mína þar sem fólk tjáir reiði og vanlíðan með ýmsu móti. Birtingarmynd þessa hefur á köflum verið neikvæðari og persónulegri en góðu hófi gegnir.

Ég byrjaði upphaflega að blogga fyrir rælni - en ástæða þess að ég hélt áfram var sú að það gaf mér heilmikið að eiga skoðanaskipti við fólk. Eftir að ég varð þingmaður hafa þessi samskipti breyst. Það er auðséð að fjöldi manns lítur mig ekki sömu augum og áður, og athugasemdirnar bera þess vitni. Alls kyns skætingur, meinbægni og útúrsnúningar eru að verða hér daglegt brauð á kostnað uppbyggilegrar rökræðu. Afraksturinn er m.a. sá að margir góðir bloggvinir hafa horfið á braut og sjást ekki hér lengur. Ég sakna þeirra. Ég sakna ánægjunnar af því að skiptast á orðum við velviljað og áhugasamt fólk.

Ég hugleiði nú alvarlega að loka fyrir allar athugasemdir hér á blogginu - vegna þess hvernig orðræðan hefur þróast í athugasemdakerfinu.

Ég ætla að gefa þessu tvo þrjá daga. En verði ekki breyting á því hvernig fólk tjáir sig hér, þá mun ég loka fyrir skoðanaskiptin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband