Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Hvað eru Vinstri grænir að hugsa?
15.5.2007 | 11:41
Eru vinstri grænir að reyna að tala sig frá vinstri stjórn? Það hvarflar sterklega að mér eftir að hafa hlýtt á þá Ögmund Jónasson og Steingrím J í umræðuþáttum síðustu sólarhringa, að þeir ætli að nota Framsóknarflokkinn sem ásteytingarstein gegn því að ganga í vinstri stjórn. Að Framsókn verði þeirra tylliástæða fyrir því að reyna að komast í stjórn með íhaldinu.
Auðvitað má svosem segja að mikið beri á milli þessara tveggja flokka í umhverfis- og stóriðjumálum. En halló: Stjórnarmyndun byggist alltaf á málefnasamningum. Það er engu líkara en að Vinstri grænir ætli EKKI að gefa neinn kost á slíkum samningum við Framsókn. Tilboð þeirra um minnihlutastjórn sem varin yrði falli með hlutleysi Framsóknar er á þeim nótum. Eða hvað ætti Framsókn að fá fyrir sinn snúð? Það vantar eitthvað inn í þessa samningatækni - ég meina, flokkurinn er jú í ríkisstjórn nú þegar. Það gefur auga leið að hann þarf að sjá sér einhvern hag í því að ganga út úr því samstarfi.
Ég tek undir með þeim sem hafa haldið því fram að undanförnu að Framsóknarflokkurinn hafi ýmis spil á hendi. Það er augljóslega ekki hægt að mynda vinstristjórn án þátttöku þeirra - og tilhugsunin um Vinstri græna í stjórn með Sjálfstæðisflokknum er ... tja, halda menn að unga fólkið sem kaus Vinstri græna í þessum kosninum hafi gert það til þess að koma þeim í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum? Það efa ég. Ef flokkurinn vill drepa sig - þá fer hanninn í slíka tveggja flokka stjórn. En ég held honum væri heilladrýgra að veðja á vinstrið að þessu sinni. Satt að segja.
Orð og efndir?
11.5.2007 | 11:58
Það getur stundum verið lærdómsríkt að skoða söguna. Þegar kjördagur nálgast og menn þurfa að gera upp við sig hvernig þeir verja atkvæði sínu getur t.d. verið gagnlegt að rifja upp orð stjórnmálamanna og efndir.
Í landsfundar-ályktun Sjálfstæðisflokksins vorið 2003 segir til dæmis um Íraksstríðið:
"Sjálfstæðisflokkurinn lýsir yfir eindregnum stuðningi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að skipa Íslandi í hóp þeirra ríkja sem styðja frelsun Íraks".
Þeir stóðu svo sannarlega við það, blessaðir - en voru þeir samstíga þjóðinni?
Tvær vinkonur mínar rifjuðu sömuleiðis upp fyrir mér í morgun annað stefnumál sem hefði e.t.v. staðið flokknum nær að efna. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra lofaði Vestfirðingum malbikuðu Ísafjarðardjúpi fyrir 2000. Þær leiða líkum að því - svona í ljósi framkvæmdahraðans sem verið hefur - að sennilega hafi hann átt við það, að þegar Vestfirðingum hefði fækkað niður í 2000 yrði komið malbik á Djúpið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Flottur framboðsþáttur á Stöð-2 í gær
10.5.2007 | 11:01
Horfði á formannaþáttinn á Stöð-2 í gær. Flottur þáttur og vel skipulagður.
Það var góð hugmynd að taka formennina sérstaklega í beinskeytt viðtal, einn og einn - auk skoðanaskiptanna. Sömuleiðis var vel til fundið að hafa álitsgjafa með í útsendingunni. Maður veit hvernig þetta er á mörgum heimilum eftir svona þætti - þá vill fólk spá og spekúlera, leggja mat á frammistöðu pólitíkusanna. Þá er ekki verra að hafa spekúlanta við sömu iðju á skjánum.
Spyrlar komu vel fyrir - háttvísir í framkomu en beinskeyttir.
Hafi ég saknað einhvers þá var það kannski að ekki skyldi ákveðnum lykilspurningum beint til þeirra allra í yfirheyrslunum. Til dæmis var Ingibjörg Sólrún spurð að því hvort hún gæti hugsað sér setu í ríkisstjórn án þess að vera forsætisráðherra. Hún svaraði því játandi og það svar var meðal þess sem tekið var út í frétt um efnið. En hvers vegna var Geir Haarde ekki spurður þess sama? Ég hefði gjarnan vilja heyra hans svar.
Ég er sammála álitsgjöfum um að Ingibjörg Sólrún bar af í þessum þætti - ekki aðeins máflutningur hennar heldur líka yfirbragð og framkoma. Enn og aftur gerist það að flokksformennirnir á hægri vængnum mæta dökk- eða svartklæddir til leiks, svo lýsist liturinn eftir því sem lengra dregur í hina áttina. Ingibjörg Sólrún bar seinna nafn sitt með réttu þar sem hún sat á ljósri pilsdragt innan um kallana -- það var næstum því táknrænt að sjá.
Þá get ég tekið undir með álitsgjöfum að í viðtölunum hefði e.t.v verið nær að spyrja formennina nánar út í önnur mál en þau sem þeir hafa mest fjallað um; spyrja t.d. Ómar út í efnahagsmál og Evrópusambandsaðild, Guðjón Arnar út í umhverfismál og launamun kynjanna, svo dæmi sé tekið.
Hvað um það - þetta var vel heppnað á heildina litið. Bestu þakkir Stöð-2.
Rífandi gangur - þetta er allt að koma!
9.5.2007 | 22:37
Já, nú er þetta allt að koma.
En það er athyglisvert hvað þessi könnun stangast algjörlega á við nýjustu könnun Capacent-Gallups sem sýndi risa fylgisstökk hjá Framsókn og sveiflur í fylgi annarra flokka. Þar hlýtur eitthvað að hafa farið úrskeiðis í sjálfu úrtakinu - sem getur auðvitað gerst af og til, eins og bent hefur verið á.
En þessi könnun Stöðvar-2 sem birt var síðdegis, og sýnir enn minna fylgi við ríkisstjórnina en áður, hún virðist trúverðug. Úrtakið er helmingi stærra en í Capacent-Gallup könnununum og svarhlutfall hærra. Sé hún borin saman við aðrar kannanir (að síðustuu Capacent-Gallup könnuninni undanskilinni) er nokkuð ljóst að Samfylkingin er að sækja á en Sjálfstæðisflokkurinn að dala. Sameiginlegt fylgi Samfylkingar og Vinstri grænna er nú svipað sameiginlegu fylgi stjórnarflokkanna, samkvæmt þessari könnun.
ERGO: Það er raunverulegur möguleiki að koma á nýrri tveggja flokka ríkisstjórn! Félagshyggju og umhverfisstjórn - sannkallaðri VELFERÐARSTJÓRN með gáfaða og glæsilega konu í forsæti. Ekki amaleg tilhugsun það .
![]() |
Ríkisstjórnin fallin samkvæmt nýrri skoðanakönnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Syndaregtistur ríkisstjórnarinnar - lengra en hugðak
9.5.2007 | 12:40
Ágúst Ólafur Ágústsson birti á bloggsíðu sinni fyrir skömmu syndaregistur ríkisstjórnarinnar á yfirstandandi valdaskeiði hennar. Listinn er langur - á honum eru 40 atriði.
Stundum er sagt að vika sé langur tími í pólitík - kjósendur séu fljótir að gleyma. Nú sannaðist það á sjálfri mér, því satt að segja kom mér á óvart hvað margt af því sem þarna er talið var farið að gleymast.
Minn listi verður rýmisins vegna nokkuð styttri - en hann rúmar tólf mikilvæg atriði.
- Íraksstríðið: Samþykki íslenskra ráðamanna við árásarstríði gegn annarri þjóð, gefið í óþökk eigin þjóðar.
- Vaxandi fátækt - 5000 fátæk börn
- Neyðarástand í geðheilbrigðismálum barna og unglinga - 170 börn á biðlista.
- Biðlistar eftir heilbrigðis- og öldrunarþjónustu - þrjúþúsund manns á biðlistum hjá Landspítalanum, á fimmta hundrað aldraðra bíða þjónustu
- Misskipting tekna - ójöfn skattbyrði
- Verðlag lyfja og matvæla eitt hið hæsta í heimi
- Landbúnaðarkerfi bundið á klafa miðstýringar, tollaverndar og niðurgeriðslna
- Launaleynd og kynbundinn launamunur
- "Innmúraðir" og "innvígðir" koma sér fyrir í kerfinu - einn er kominn í hæstarétt
- Eftirlaunafrumvarpið
- Baugsmálið
- Fjölmiðlafrumvarpið
Já - það fennir seint í þessa slóð. Þá eru ótalin ýmsar neyðarlegar uppákomur og ummæli stjórnarliða sem lýsa viðhorfum þeirra og trúnaði við almenning:
- "Tæknileg mistök" Árna Johnsen
- "Framlag" Ástu Möller til umræðunnar um stjórnarmyndunarumboð forseta Íslands
- "Kannski ekki sætasta stelpan á ballinu heldur bara einhver sem gerir sama gagn"
- "Jafnréttislögin eru barn síns tíma"
- "Þær hefðu kannski orðið óléttar hvort eð er"
- Keyptur sendiherrabústaður sem kostaði jafnmikið og ársrekstur meðal framhaldsskóla
- Lögvernd vændis
- "Ónefndi maðurinn"
- Aðhalds- og eftirlitsleysi gagnvart Byrginu
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.3.2009 kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Línurnar skýrast - stjórnin fallin?
8.5.2007 | 15:51
Jæja, þá er ríkisstjórnin fallin samkvæmt Capacent-Gallup. Það hlaut að koma að því.
Um leið og óákveðnum fækkar taka línur að skýrast - væntanlegir kjósendur eru farnir að raða sér á básana og kannanirnar verða marktækari en áður.
Samfylking eykur fylgi sitt um 2% á fáum dögum og hefur þá aukið fylgið um 4% frá þarsíðustu könnun. Hún mælist nú með 18 þingmenn í stað 16 í síðustu könnun. Framsókn og Íslandshreyfingin sækja líka í sig veðrið.
Fylgisaukning Samfylkingarinnar er skiljanleg. Málefnaáherslur flokksins hafa komist vel til skila að undanförnu, frambjóðendur hafa staðið sig vel í umræðuþáttum og blaðaskrifum. Ingibjörg Sólrún hefur sýnt glæsileg tilrif í ræðu og riti. Málflutningur hennar og annarra frambjóðenda er trúverðugur. Allt hefur þetta áhrif.
Sjálfstæðisflokkurinn dalar hratt um þessar mundir - fylgi flokksins minnkar um 3,5% á fáum dögum og þingmönnum fækkar um tvo. Það vekur ekki sérstaka furðu. Annarsvegar vitum við að flokkurinn hefur ævinlega fengið meira í könnunum en kosningum. Hinsvegar hafa frambjóðendur hans ekki verið að koma neitt sérlega vel út fyrir þessar kosningar. Formaður flokksins, sjálfur forsætisráðherrann, hefur verið dauflegur í sjónvarpsumræðum, allt að því áhugalítill. Sjávarútvegsráðherrann hefur hrakist út í tóm vandræði þegar málefni hans eigin heimabyggðar hafa komið til tals. Menntamálaráðherra, varaformaður flokksins, hefur ekki komið vel fyrir í umræðuþáttum, verið ágeng og hávær. Verstur var þó líklega Ástu þáttur Möller nú nýlega - en "framlag" hennar til umræðunnar um stjórnarmyndunarumboð forsetans á sér trúlega engar hliðstæður í íslenskum stjórnmálum.
Jamm, stjórnin gæti verið fallin - guð láti gott á vita. En við spyrjum þó að leikslokum. Kannanir eru ekki kosningar.
![]() |
Fylgi Samfylkingar og Framsóknarflokks eykst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
62% svara könnun - er það marktækt?
8.5.2007 | 11:46
Hvað er að marka skoðanakönnun þar sem 38% spurðra gefa ekki upp afstöðu, eins og í síðustu könnun Capacent-Gallups um fylgi stjórnmálaflokkanna?
Í frétt á mbl.is kemur fram að "nettósvarhlutfall" þessarar könnunar var 62%.
Ekki nóg með það - þegar spurningarnar eru skoðaðar kemur eftirfarandi í ljós. Spurt var þriggja spurninga: Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa? Þeir sem voru óákveðnir voru spurðir: En hvaða flokkur eða listi yrði líklegast fyrir valinu? Þeir sem enn voru óákveðnir voru spurðir: Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna? Bíðum við, af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn - einn allra flokka - nefndur í spurningunni? Af hverju ekki Samfylkingin, Vinstri grænir eða Framsóknarflokkurinn?
Svo er þessu snarað upp sem ótvíræðri vísbendingu um fylgi Sjálfstæðisflokksins. Það útaf fyrir sig er skoðanamyndandi - könnun sem er svona úr garði gerð er líka skoðanamyndandi.
Fyrir vikið er ekkert að marka fylgistölur Sjálfstæðisflokksins í þessum könnunum - og ég held að Sjálfstæðismenn viti það manna best. Fjölmiðlar ættu líka að vita betur.
![]() |
Samfylking og Sjálfstæðisflokkur bæta við sig fylgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Klíkufundir í stað opinnar umræðu - taktleysi!
3.5.2007 | 12:55
Fram kom á fréttavef bb.is í gær að Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði hefði kynnt skýrslu Vestfjarðanefndarinnar um útbætur í atvinnumálum á fundi með Sjálfstæðismönnum daginn áður. Flokksbróðir hans státar sig af þessari kynningu bæjarstjórans á bloggsíðu sinni í dag.
Einmitt það. Fyrsta opinbera kynningin sem fram fer á inntaki skýrslunnar fer ekki fram á opnum borgarafundi - ekki á sameiginlegum fundi allra stjórnmálaflokka. Ónei. Fyrsta formlega kynningin þar sem aðstandendur skýrslunnar gefa kost á fyrirspurnum og svörum - hún fer fram á lokuðum fundi Sjálfstæðismanna á Ísafirði. Er hægt að hugsa sér neyðarlegra taktleysi?
Dagana á undan var furðurlegur farsi í gangi á fréttavef bb.is, þar sem mikið virtist í húfi að koma fólki í skilning um að Vestfjarðanefndin hafi EKKI verið skipuð vegna ákalls til stjórnvalda sem barst frá baráttufundinum Lifi Vestfirðir þann 11. mars. Ó, nei. Ákvörðunin hafi legið fyrir ÁÐUR en sá fundur var haldinn - hún hafi bara ekki verið kynnt fyrr en EFTIR fundinn. Hmmm .... Og ég sem hafði fundið hlýjuna verma hjartað við fréttina af skipun nefndarinnar - var svo barnaleg að halda að forsætisráðherra hefði heyrt neyðarkallið að vestan og vildi bregðast við. Sýna okkur að hér í landinu væru stjórnvöld sem væru þrátt fyrir allt að hlusta.
Það var sem sagt minn misskilningur - og nú hafa verið tekin af öll tvímæli um það.
Þetta er auðvitað ástæða þess að þingmenn sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum, Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra og Einar Oddur Kristjánsson, sáu hvorugur ástæðu til að mæta á baráttufundinn með vestfirskum borgurum, sendu ekki fulltrúar fyrir sig og boðuðu ekki forföll. Hinsvegar gat sjávarútvegsráðherrann mætt á 30 manna klíkufund sem haldinn var að frumkvæði nokkurra sjálfstæðismanna í "krónni" sem svo er kölluð. Þangað mætti ráðherrann til þess að bera boðin inn að ríkisstjórnarborðinu - eins og einn fundarmannanna bloggaði svo eftirminnilega um.
Í sama anda er kynning Vestfjarðanefndarinnar á skýrslunni. Þeir eru ekki að tala við fólkið í landinu - það er ástæðulaust. Þeir tala bara við Sjálfstæðismenn.
Menn sem þannig hugsa þekkja ekki erindi sitt í stjórnmálum. Firring þeirra er algjör.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Hverjir veiktust? Hvað er að gerast við Kárahnjúka?
2.5.2007 | 23:39
Manni er spurn - hvað er eiginlega á seyði við Kárahnjúka? Fyrst les maður fréttir af 180 manns sem sagt var að hefðu veikst vegna mengunar og ills aðbúnaðar. Þvínæst fréttist að gögn um sjúklinga hefðu komist í hendur Impregilo án vitneskju trúnaðarlæknisins og í hans óþökk. Þá leggur landlæknir land undir fót, fer austur til að kanna hvað sé að gerast og bíðum við: Það er gefin út "sameiginleg yfirlýsing" landlæknis og Impregilo um að "fáir tugir" manna hafi veikst vegna mengunar og upphaflegar upplýsingar hafi verið "ofmat" á fjölda þeirra sem veiktust. Trúnaðarlæknirinn er kominn í "fyrirfram ákveðið frí" eins og það er orðað - og síðan ekki söguna meir.
Nei, nú tek ég heilshugar undir með leiðarhöfundi Morgunblaðsins í dag. Þetta gengur ekki. Almenningur á heimtingu á að fá að vita hvað sé satt og hvað logið í þessu máli. Sagði trúnaðarlæknirinn ósatt þegar hann talaði um 180 veika einstaklinga? Sé svo, ber að upplýsa það en ekki hylma yfir. Almenningur og fjölmiðlar verða að geta treyst því sem kemur frá fagaðilum - ég tala nú ekki um þegar viðkomandi heyrir beint undir opinbert embætti eins og landlæknisembættið.
Sömuleiðis er brýnt að upplýsa það hvernig umrædd sjúkragögn komust í hendur fyrirtækisins án vitneskju læknisins. Hvers konar vinnubrögð voru viðhöfð þar? Og af hverju gerir landlæknir ekki frekari athugasemdir við þau vinnubrögð?
Svo virðist sem báðir aðilar - landlæknir og Impregilo - viti upp á sig skömm í þessu máli. Þessvegna hafi þeir soðið saman eina samhljóða útgáfu af því sem gerðist til þess að tóna málið niður og breiða yfir misfellur þess.
Þetta er ekki nógu gott: Nú þarf almenningur að fá að vita hið sanna í málinu. Hvorki opinber embætti né einkafyrirtæki eiga að komast upp með að þagga niður mál sem komið er inn í opinbera umræðu með þeim hætti sem hér um ræðir. Ég sem almennur blaðalesandi vil ekki láta ljúga að mér - ég vil taka afstöðu til manna og málefna á réttum forsendum.
Fjölmiðlar mega ekki láta hér við sitja - þeir eiga að komast að hinu sanna í málinu. Nú reynir á hvort þeir láta bjóða sér þöggun máls sem kemur illa við hagsmunaaðila.
1. maí - mörg eru vígin að verja
1.5.2007 | 09:55
Á baráttudegi verkalýðsins leitar hugurinn óneitanlega til þess sem áunnist hefur í réttindabaráttu verkafólks og almennum lífskjörum í landinu. Margt hefur áunnist - en mörg eru enn vígin að verja.
Okkur er sagt að lífskjör hafi batnað. Talað er um kaupmáttaraukningu og hagvöxt þjóðin hafi aldrei haft það betra að meðaltali. Segja má að maður sem stendur með annan fótinn í sjóðandi vatni en hinn í ís, hafi það að meðaltali gott. Sama má segja um velferð þjóðarinnar um þessar mundir, að kalin sé hún á öðrum fæti en brennd á hinum.
Undanfarin ár hafa einkennst af mikill þenslu og ójafnvægi í íslensku efnahagslífi: Misskiptingu fjármagns, vaxandi fátækt og þyngri vaxtabyrði með versnandi hag fjölskyldufólks, einstæðra mæðra og aldraðra. Grafið hefur verið undan réttindum verkafólks með undirboðum á vinnumarkaði, einkum við stóriðjuframkvæmdir. Svo langt er gengið að menn eiga það ekki lengur víst að vinna við mannsæmandi skilyrði, eins og fréttir frá Káranhnjúkum sanna. Þar hafa hundruð verkamanna veikst vegna óviðunandi vinnuaðstæðna og mengunar - á því herrans ári 2007 í samfélagi sem kennir sig við velferð!Lífskjör hverra hafa batnað?
Á sama tíma og þanþol hagkerfisins hefur verið spennt til hins ýtrasta með stóriðjuframkvæmdum, skattalækkunum hátekjufólks og breytingum á lánakerfinu hefur vaxta- og skuldabyrði almennings aukist. Fátækt hefur einnig aukist, einkum meðal eldra fólks og einstæðra foreldra. En olíufurstarnir fara sínu fram í skjóli missmíða á löggjöfinni og ekki væsir um lánastofnanir eða stóreignamenn sem þurfa hvorki að axla ábyrgð né bera byrðar með öðrum. Stjórnvöld hafa gert þeim lífið bærilegra en nokkru sinni fyrr. Hagtölur sýna að hópurinn sem notið hefur kaupmáttaraukningar undanfarinna ára er sá tíundihluti þjóðarinnar telst hátekjufólk kaupmáttur hátekjuhópsins hefur aukist um 118%. Hinu er þagað yfir, að meðaltal árlegrar kaupmáttaraukningar hefur ekki verið lægra á neinu öðru kjörtímabili, nema í stjórnartíð Davíðs Oddssonar 1991-2000.
Borgimannlegar eru yfirlýsingar stjórnvalda um að atvinna sé nú með mesta móti. Er einhver undrandi yfir því á miðju þensluskeiði með stóriðjuframkvæmdir í fullum gangi þó atvinnustig mælist þokkalegt? En hvað þegar þeim lýkur? Þjóðhagsspá segir atvinnuleysi aukast umtalsvert á þessu ári og næsta, þegar þensluáhrifin hjaðna. Við lok ársins verður það komið yfir 2%, á því næsta yfir 3% og stefnir hærra. Seðlabankinn spáir 5% atvinnuleysi.
Við Íslendingar höfum lægsta hlutfall þeirra sem njóta framhalds- og háskólamenntunar á Norðurlöndum. Ísland er í 23. sæti af 30 OECD ríkjum þegar kemur að menntun. Hvað segir það okkur um möguleika íslenskrar æsku til lífsgæða og athafna í hnattvæddum heimi framtíðarinnar ég tala nú ekki um þegar kreppir að á vinnumarkaði?Í kaupmáttarumræðunni hefur lítið farið fyrir þeirri staðreynd að fjöldi fátækra barna hefur þrefaldast í tíð núverandi stjórnarherra (úr 2,1% árið 2000 í 6,6% árið 2004). Fjöldi fátækra barna einsstæðra foreldra hefur nánast tvöfaldast (úr 10,5% í 18%) á sama tíma: Það lætur nærri að vera fimmta hvert barn.
Barn foreldra sem hafa ekki efni á að greiða fyrir íþróttir þess, tómstundastarf eða tannlæknaþjónustu er fátækt barn. Börn sem hreyfa sig minna en önnur born, heldur fitna, hafa verri tannheilsu og heilsufar almennt, geta ekki klæðst eins og hin börnin - það eru fátæk börn sem eiga á hættu félagslega einangrun. Ekkert barn á það skilið að vera dæmt frá þeim lífsgæðum að vera jafnoki annarra og fullgildur meðlimur í hópi síst á Íslandi nú á dögum.
Meðan það glymur í eyrum okkar að lífskjör séu að batna fjölgar stöðugt þeim fjölskyldum sem leita framfærsluaðstoðar. Séu opinberar tölur lesnar ofan í kjölinn sést að fátækt er meiri á Íslandi en í nokkru hinna Norðurlandanna um þessar mundir. Fátækt er tvöfalt meiri á Íslandi en í Noregi, svo dæmi sé tekið. Hvergi á öllum Norðurlöndum hefur fátækt aldraðra aukist jafn hratt og hér. Hún var 13,6% árið 1998, er nú nálægt 30% . Í þessu landi velmegunar og kaupmáttar lifir um þriðjungur ellilífeyrisþega undir viðurkenndum fátæktarmörkum og einnig þriðjungur einstæðra foreldra ( 31% ). Það er þrisvar til fjórum sinnum hærra hlutfall en á öðrum Norðurlöndum.Okkur er sagt að lífskjör séu að batna. Samt lengjast biðlistarnir eftir hjúkrunarrýmum og heilbrigðisþjónustu. Neyðarástand hefur skapast á BUGL sökum biðtíma eftir geðheilbrigðisúrræðum við börn og unglinga. Það er sama hvert litið er í velferðarþjónustunni, allsstaðar eru biðlistar. Var það þetta sem verkalýðshetjurnar sáu fyrir sér í upphafi vegferðar? Að það væru hinar vinnandi stéttir sem stæðu undir velmegun hinna án þess að hljóta fullan skerf af sameiginlegum gæðum?
Nei, að sjálfsögðu ekki. En þessar leikreglur eru ekki settar á vettvangi verkalýðsbaráttunnar. Þær eru settar við ríkisstjórnarborðið og á hinu háa alþingi. Réttindabarátta verkafólks er því ekki eingöngu háð með stéttabaráttu eða við samningaborð í kjaradeilum. Hún á sér líka stað í kjörklefanum.
Sé eitthvað til í því sem stjórnarherrarnir segja um batnandi lífskjör - þá er ekki seinna vænna að dreifa meðaltalinu betur. Skipta gæðum gnægtarborðsins og setja sanngjarnar leikreglur. Til þess var verkalýðshreyfingin stofnuð - til þess var barist.
Leiðarljós jafnaðarmanna um heim allan er draumurinn um samfélag þar sem hver maður gefur eftir getu og þiggur eftir þörfum. Á þeirri hugsjón hafa systraþjóðir okkar á Norðurlöndum byggt sín velferðarkerfi - og það er vígið sem íslensk verkalýðshreyfing þarf að verja.
Enn er verk að vinna!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.5.2007 kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)