62% svara könnun - er það marktækt?

Hvað er að marka skoðanakönnun þar sem 38% spurðra gefa ekki upp afstöðu, eins og í síðustu könnun Capacent-Gallups um fylgi stjórnmálaflokkanna? 

Í frétt á mbl.is kemur fram að "nettósvarhlutfall" þessarar könnunar var 62%. 

Ekki nóg með það - þegar spurningarnar eru skoðaðar kemur eftirfarandi í ljós. Spurt var þriggja spurninga: „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?“ Þeir sem voru óákveðnir voru spurðir: „En hvaða flokkur eða listi yrði líklegast fyrir valinu?“ Þeir sem enn voru óákveðnir voru spurðir: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?“ Bíðum við, af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn - einn allra flokka - nefndur í spurningunni? Af hverju ekki Samfylkingin, Vinstri grænir eða Framsóknarflokkurinn?

Svo er þessu snarað upp sem ótvíræðri vísbendingu um fylgi Sjálfstæðisflokksins. Það útaf fyrir sig er skoðanamyndandi - könnun sem er svona úr garði gerð er líka skoðanamyndandi.

Fyrir vikið er ekkert að marka fylgistölur Sjálfstæðisflokksins í þessum könnunum - og ég held að Sjálfstæðismenn viti það manna best. Fjölmiðlar ættu líka að vita betur.


mbl.is Samfylking og Sjálfstæðisflokkur bæta við sig fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þóra Kristín Þórsdóttir

Almennt séð eru niðurstöðurnar marktækar jafnvel þó að svarhlutfallið sé aðeins 62%, að þeim gefnu forsendum að það sé ekki kerfisbundin skekkja í því hverjir svara ekki. Þar sem það er sjaldnast vitað, þá er gert ráð fyrir því að engin kerfisbundin skekkja sé í svöruninni- a.m.k. ekki nógu stór til að hafa teljandi áhrif. Í símakönnunum á Íslandi þá er svarhlutfallið yfirleitt á þessu reiki, 62-70 %. 

Hvað varðar seinustu spurninguna, þá er hugmyndin ekki sú að hampa Sjálfstæðisflokknum sérstaklega, heldur er markmiðið að meta hvert óákveðna fylgið sé að fara. Óákveðna fylgið er mest allt vinstra megin, yfirleitt. Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er eini hægri flokkurinn, þá er hann notaður í spurninguna til að meta hve hátt hlutfall óákveðna fylgisins muni kjósa D og þar með er hægt að áætla hvernig afgangurinn af óákveðna fylginu dreifist á vinstri flokkana. Þetta er s.s. aðferðarfræðilegt atriði, ekki auglýsing fyrir D. Ef óákveðna fylgið er mestmegnis vinstrisinnað þá virkar þetta ekki heldur sem auglýsing.

Hvað varðar framsetningu Moggans á fréttinni... tja... það er alltaf sama sagan þar:) 

Þóra Kristín Þórsdóttir, 8.5.2007 kl. 13:17

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæl Þóra Kristín - takk fyrir athugasemdina.

Ég velti þó fyrir mér öllum þeim fyrirvörum sem þú nefnir - hvort þeir séu ekki einfaldlega of margir eftir sem áður. Þú segir að óákveðna fylgið sé aðallega vinstra megin - gott og vel, það hefur sjálfsagt verið mælt einhverntíma? En hvað á að skilgreina sem "vinstrið" núorðið? Ekki er Frjálslyndi flokkurinn þeim megin - og hvað með  Íslandshreyfinguna? Nei, ég segi nú svona.

Reynslan sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn fær yfirleitt meira í könnunum en kosningum. Það finnst mér næg ástæða til þess að vera ekki að ota Sjálfstæðisflokknum að óákveðnum svarendum. Þar með er einum stjórnmálaflokki gefið óeðlilegt forskot og vægi. Sá sem svarar fær á tilfinninguna að annarsvegar sé Sjálfstæðisflokkurinn valkostur, hinsvegar allir hinir flokkarnir til samans. Það er ekki hlutlaus framsetning.

Túlkun á niðurstöðum sem þannig eru fengnar getur heldur ekki orðið hlutlaus þar sem fyrirvararnir - smáa letrið - hverfur í skuggann.

Með kveðju.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.5.2007 kl. 14:05

3 Smámynd: Katrín

Já eða Frjálslyndir??? 

Katrín, 8.5.2007 kl. 14:06

4 identicon

Thad er e.t.v. ekki óvideigandi ad spurja hvort ad vidkomandi ætli sér ad kjósa Sjálfstædisflokkinn eda einhvern annan flokk, thar sem ad Sjálfstædisflokkurinn er jú stærsti og valdamesti flokkur landsins og hefur verid í ríkisstjórn sídustu ár. Hins vegar vona ég bara ad thessar skodanakannanir séu martækar, a.m.k. líst mér vel á thróun theirra sídustu daga....

Maddý (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 15:54

5 Smámynd: Þóra Kristín Þórsdóttir

Sæl Ólína!

Varðandi fyrirvarana, þá er jú ekki hægt að meta þessa tilteknu könnun án allra viðeigandi gagna. T.d. hvenær könnunin er framkvæmd ( að degi eða kvöldi til), hæfni spyrla osfrv osfrv getur allt haft áhrif.

Hvað varðar spurninguna með Sjálfstæðisflokkinn, þá má benda á að sú aðferðafræði var búin til á aðeins ólíkum tíma - þegar Sjálfstæðisflokkurinn var eini hægri flokkurinn. Ætli rökin með því að halda þessu áfram séu ekki eitthvað á þeim nótum sem Maddý bendir á, að Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur. Ef það óákveðna fylgið hefur ekki mikið breyst síðan þessi aðferðafræði var búin til (og ég veit það ekki) þá hef ég engar áhyggjur af spurningunni. Má líka ekki gleyma því að það er bara brot sem er svo óákveðinn að hann fær þriðju spurninguna (og svo er það bara einhver hluti af þeim sem er raunverulega óákveðinn, sumir velja frekar að vera óákveðnir en að neita að svara).

Ef við segjum að svarhlutfall í könnun sé  62% þá þarf það ekki að þýða að 38% hafi ekki svarað í símann, heldur eru inni í þeirri tölu einnig þeir sem neituðu alfarið að taka þátt í könnuninni. Flokkurinn "neitar að svara" sem gefinn er upp er því yfirleitt þeir sem neita að svara tiltekinni spurningu. Ég veit þó ekki hvernig þetta var reiknað í þessu tilfelli en geri ráð fyrir að farið hafi verið að hefðum.

Þóra Kristín Þórsdóttir, 8.5.2007 kl. 16:27

6 identicon

Ég hef tekið eftir vissri hysteríu á vinstri vængnum gagnvart þessari spurningu til óákveðinna kjósenda hvort þeir séu líklegri til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn umfram aðra flokka.

Það má nota þessa spurningu til þess að vega niður fylgi Sjálfstæðisflokksins til að fá áræðanlegri spá um útkomu Sjálfstæðisflokksins í kosningum, enda hefur hann verið eini hreini hægriflokkurinn á Íslandi þó vissulega megi færa fyrir því rök að það hafi breyst (þó það sé síður en svo augljóst eða sjálfgefið). Það væri gert þannig með því að aðlaga útkomu könnunarinnar með því að áætla hvernig óákveðið fylgi komi til með að dreifast á kjördag.

Það er líka hægt að nota þessa spurningu til að auka fylgi Sjálfstæðisflokksins í könnunum með því að reyna að færa sem flesta óákveðna yfir í Sjálfstæðis hólfið.

Fyrri nálgunin er aðferðafræðilega verjanleg á þeim forsendum að hún auki spágildi könnunarinnar (þ.e. að sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærri en hann er í könnunum er einmitt ástæðan fyrir því að spyrja óákveðna kjósendur sérstaklega að þessu). Það er erfitt að verja seinni nálgunina enda væri hún klár tölfræðileg manipúlasjón til að gefa skekkta mynd af stöðunni enda dregur slík meðferð mjög úr spágildi.

Mér skilst að Félagsvísindastofnun hafi notað þessa aðferð í gegnum tíðina og núna virðist Capacent hafa tileinkað sér hana líka. Mér er hinsvegar mjög til efs að þessi batterí séu að markvisst og meðvitað að skekkja niðurstöður sínar enda byggir trúverðugleiki þeirra a.m.k. að hluta til á því hve nærri niðurstöðum kosninga mælingar þeirra eru.

Kolbeinn Stefánsson (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 16:42

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæl öllsömul.

Það hvarflar ekki að mér að menn séu vísvitandi að reyna að skekkja útkomu skoðanakannana. Vil bara að það komi skýrt fram. En það er full ástæða til þess að velta aðferðafræðinni fyrir sér og hvaða áhrif hún kunni að hafa á niðurstöðuna.

 Annars er núna komin ný könnun þar sem óvissuhólfið er minna en í þessari - það virðist vera á kostnað Sjálfstæðisflokksins (eins og mig hefur lengi grunað). Vonandi er meira að marka þá könnun - og allar leiðir upp á við fyrir okkur jafnaðarmenn

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.5.2007 kl. 19:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband