Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Eigum við að fara í kröfugöngu?

faninn  Síðustu daga hafa verið líflegar umræður hér á síðunni hjá mér um sjávarútvegsmál og ágalla fiskveiðistjórnunarkerfisins, eins og lesendur geta séð í færslunum hér á undan. Ágallar þessa kerfis verða sífellt augljósari, og atburðirnir á Flateyri einna gleggsta dæmið um það hvernig farið getur á versta veg í þessu kerfi. Skýrsla Hafró er sömuleiðis til vitnis um að kerfið hefur ekki aðeins brugðist byggðunum, heldur líka þorskinum - og þá fer nú að verða áleitin spurning til hvers sé verið að halda þessu til streitu.

Í þeim líflegu umræðum sem hér hafa orðið hefur fæðst sú hugmynd að efna til samstöðu- og kröfugöngu til stuðnings þeim sem hafa orðið fyrir barðinu á þessu kerfi -- göngu þar sem krafist er úrbóta á kvótakerfinu þannig að byggðum landsins og fiskinum í sjónum stafi ekki beinlínis hætta af því.

Í Kárahnjúkamálinu kom samtakamáttur almennings í ljós - það var hinsvegar of seint.

Það er ekki of seint að bjarga byggðum landsins: Láta stjórnmálamenn finna að þjóðin stendur með sjávarbyggðunum og fiskverkafólkinu; að fólki er orðið ljóst að við svo búið má ekki standa lengur. Það þarf að grípa til vitrænna ráðstafana - og það strax!

Því skyldum við þá ekki krefjast úrbóta á kvótakerfinu - og sýna hug okkar í verki með því að ganga saman niður aðalgötur helstu þéttbýlisstaða, og þó víðar væri.

Hvað segið þið lesendur góðir - eruð þið til? 

Nýtt kvótaár hefst þann 1. september - væri það ekki góður dagur til þess að fá sér göngutúr? Spáið í það  Wink


Þjóðarsátt um fiskveiðistjórnun?

fiskveidar  Er hugsanlegt að ná þjóðarsátt um fiskveiðistjórnunarkerfið? Getur verið að menn séu loks tilbúnir að leiðrétta gallana á þessu kerfi? Þora þeir?

Sjávarútvegsráðherra hefur í hátíðarræðu á sjómannadegi talað um nauðsyn þess að ná þverpólitískri samstöðu - nokkurskonar sátt - um breytingar á kvótakerfinu. Það er athyglisverð nálgun, og vonandi góðs viti. Nú reynir hinsvegar á það hvort hlutaðeigandi aðilar - stjórnmálamenn og hagsmunaaðilar - eru raunverulega tilbúnir til þess að vega og meta afleiðingar kvótakerfisins af sanngirni og bæta vankantana af heilindum og réttsýni. En það er einmitt það sem sjávarbyggðir landsins þurfa á að handa núna: Sanngirni og heilindi þeirra sem hafa fjöregg byggðanna í höndum sér.

Ef sátt á að nást um breytingar á kerfinu - sem mér virðist sjávarútvegsráðherra vera að tala fyrir -  verður að vera um raunverulegt samráð að ræða. Það dugir ekki að ganga á fund LÍÚ til að sækja leyfi fyrir því sem gera skal, kalla svo stjórnarandstöðuna til fundar og kynna henni niðurstöðuna og kalla það svo samráð. Það dugir heldur ekki að skella skollaeyrum við tillögum stjórnarandstöðunnar en halda því svo fram eftir á að við þá hafi verið haft samráð. Ef menn ætla í einhverja skollaleiki af því tagi þá verða þeir afhjúpaðir snarlega.

Ég hef grun um að það verði fylgst vel með Einari K Guðfinnssyni og hans framgöngu í þessu máli á næstunni - a.m.k. vona ég að fjölmiðlar og almenningur muni anda niður um hálsmálið á ríkisstjórninni þar til skynsamlegar tillögur liggja fyrir.

Sömuleiðis held ég að það verði fylgst vel með viðbrögðum stjórnarandstöðunnar - því nú reynir á það hvort menn vilja raunverulega leggja gott til mála - eða hvort þeir missa sig í lýðskrum og áróður.

Oft var þörf á ábyrgð og yfirvegun, en nú er nauðsyn. Þetta verður stóra prófið fyrir ríkisstjórnina ... og stjórnarandstöðuflokkana.


Eru augun loks að opnast?

Ég tek heilshugar undir með Einari K. Guðfinnssyni, sjávarútvegsráðherra, að það er tímabært að kalla eftir þverpólitísku samráði um aðgerðir í sjávarútvegsmálum í ljósi svörtu skýrslunnar frá Hafró - hún er þungt áfall fyrir atvinnugreinina í heild sinni.

Raunar hefði ráðherrann mátt taka af skarið fyrr - til dæmis þegar neyðarkallið barst frá almennum borgarfundi á Ísafirði undir yfirskriftinnui "lifi Vestfirðir" nú í vor. Þá var ráðherrann fjarverandi og virtist lítt skeyta um skilaboð fundarins. Sá hinsvegar ástæðu til þess að mæta á óformlegan fund sem boðarður var með "óábyrgum hætti" fyrir á þriðja tug sjálfstæðismanna nokkru síðar - eins og það gæti með einhverjum hætti bætt fyrir eða talist jafngildi þess að hlusta á raddir hins almenna íbúa. En látum það vera liðna tíð.

Auðvitað er löngu tímabært að menn stilli saman krafta þegar vá er fyrir dyrum - hvort sem hún beinist að einum landsfjórðungi, eða heilli atvinnugrein. Pólitísk sérstaða er óviðeigandi þegar grípa þarf til alvarlegra björgunaraðgerða - og ef Einar K. Guðfinnssyni er nú farið að skiljast það, er það vel. Í hans heimabyggð hafa 200 störf horfið frá áramótum, flest í fiskvinnslu. Ef skýrsla Hafró fær staðist er ljóst að sjávarútvegurinn í heild sinni hefur orðið fyrir miklum búsifjum. Raunar er skýrslan harður áfellisdómur yfir þessu fiskveiðistjórnunarkerfi. Og sem betur fer virðist sem ýmsir séu farnir að sjá það - og þora að tala um það. 

Einn þeirra er  fyrrverandi ráðherra sjálfstæðismanna, Matthías Bjarnason, sem nú hefur tjáð sig með afgerandi hætti um hætturnar af þessu kerfi. Ekki aðeins felur það í sér misskiptingu í útgerðinni og varnarleysi byggðanna gagnvart gróðaviðleitni einkaframtaksins, heldur virðist nú ljóst að það ógni þorskstofninum. Sú aðferð að taka ekki við smáfiski og greiða einungis fullt verð fyrir stærsta fiskinn kallar á gegndarlaust brottkast. Það segir sig sjálft að menn hirða ekki smáfiskinn sem lendir í trollum og netum fiskiskipa ef þeir fá ekki greitt fyrir hann. Afleiðingin er sú að menn veiða mun meira en ella væri - henda því sem þeir fá ekki fullgreitt og koma aðeins með stærsta fiskinn að landi.

Afleitt fyrirkomulag - og þessu verður að breyta.

En þorir Einar K. Guðfinnsson að beita sér raunverulegri breytingu á þessu kerfi? Og munu aðrir stjórnmálaflokkar koma til aðstoðar? Því er ósvarað að sinni.


mbl.is Sjávarútvegsráðherra: Stöndum frammi fyrir erfiðum ákvörðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tillögustuldur og hringlandaháttur - svona gera menn ekki.

 Hadditogari  Jæja, nú er bæjarstjórinn í Ísafjarðarbæ kominn í hring - og hringavitleysan orðin meiri en mig hefði grunað að óreyndu.

Fyrir fáum dögum lagði bæjarráð einróma til við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að stofnað yrði almenningshlutafélag um kaup á veiðiheimildum í Ísafjarðarbæ. Ekki alveg af baki dottnir - hugsaði ég - og þar sem ég vissi að bóndi minn var upphafsmaður þessa máls í bæjarráðinu, tók ég í huganum ofan fyrir meirihlutanum að sameinast minnihlutanum um raunhæfa tillögu til úrbóta, og bera nú fram tillögu einum rómi í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem uppi er.

Jæja, svo kom bæjarstjórnarfundurinn, og hvað gerðist? Meirihlutinn lagði tillöguna fram í sínu eigin nafni - ef marka má fréttir. Rauf þar með samstöðuna sem skapast hafði í bæjarráðinu að frumkvæði fulltrúa Í-listans. Þeir hirtu tillöguna, og báru hana svo fram í eigin nafni. Ekki bæjarstjórnin öll - ó, nei: Meirihlutinn einn og sér. Þeir stálu tillögu frá minnihlutanum. "Miklir menn erum við Hrólfur minn .... og fallega pissar Brúnka!"

 Ekki nóg með þetta. Bæjarstjórn samþykkir tillöguna, og felur atvinnumálanefnd að undirbúa málið, þ.e. stofnun almenningshlutafélags um kaup á aflaheimildum.

En nú er Halldór Halldórsson bæjarstjóri er kominn í útvarpið - svosem ekki í fyrsta skipti. Að þessu sinni leggur hann það til, að ef stofnað verður almenningshlutafélag um kvótakaup,  þá skuli menn athuga það vel að NOTA PENINGANA Í EITTHVAÐ ANNAÐ en kaup á aflaheimildum.  !!??!?!?!?!

Nú held ég að Halldór vinur minn þurfi að fara að taka sér frí .... segi ekki meira í bili.

 

 


Hefði mátt bjarga gæsavarpinu við Hálslón?

hverfandihreidur Þessi mynd úr mogganum af umflotnu gæsahreiðri er sorgleg sjón. Hálslón er enn að fyllast. Gæsirnar hafa verpt umhverfis það, á sínum vanalegu varpstöðvum, og nú eru hreiðrin að fara eitt af öðru undir vatn. Einhversstaðar sá ég eða heyrði talað um 500-600 hreiður sem færust af þessum sökum. Fuglafræðingur upplýsti í útvarpinu að hætt væri við að þær gæsir sem fyrir þessu verða færu og kæmu aldrei aftur. Einhverjar reyna þó vonandi aftur, á vænlegri stað.

En nú spyr ég: Var þetta ekki fyrirsjáanlegt? Hugkvæmdist engum að það þyrfti hugsanlega að stugga við gæsunum um varptímann svo þær færðu sig fjær  - eða hefði það verið óvinnandi vegur? Spyr sú sem ekki veit.

Hreindýraveiðimenn hika ekki við að ferðast um þetta svæði á fjórhjólum og fótgangandi. Ég velti fyrir mér hvort náttúru- eða dýraverndunarsamtök í landinu, Umhverfisstofnun eða sveitarfélögin á svæðinu hefðu ekki getað gert einhverjar ráðstafanir -- sett upp loftbyssur, fuglahræður, eða hvað það nú er sem menn gera t.d. til þess að fæla vargfugl, og forða gæsinni þar með frá því að hreiðra sig við vatnsborðið?

Ég veit það ekki - en þessi mynd gleymist ekki í bráð.


2 milljarðar í vasa aðaleiganda Kambs

 

 kambur3 Ég hef fyrir satt að aðaleigandi Kambs á Flateyri, Hinrik Kristjánsson, fái um TVO MILLJARÐA í sinn hlut þegar hann hefur selt allt heila klabbið og greitt skuldir sínar - hvorki meira né minna. Þetta hafa útvegsmenn á svæðinu reiknað út í ljósi þeirra aflaheimilda sem fyrirtækið hefur yfir að ráða (3000 þorskígildistonn sem leggja sig á 7 milljarða) og skuldsetningar fyrirtækisins. Hinrik segist sjálfur hafa orðið að loka fyrirtækinu til þess að komast út úr erfiðri rekstrarstöðu og skuldum - hann þurfi að lenda standandi.

Jæja - tveir milljarðar í aðra hönd ættu nú að hjálpa upp á sakirnar.

Það er bænastund í Flateyrarkirkju í dag í tilefni af fréttum um lokun Kambs. Sorgin og vonleysið sem svífur yfir byggðarlaginu er ólýsanleg.

Ég las athyglisverða frétt á bb.is í dag um framkomu stjórnenda fyrirtækisins við starfsfólk sitt fyrir kosningar - afar sérstakt ef rétt reynist.

 


mbl.is Ráðherrar ræddu um stöðu Vestfjarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru menn nú að vakna?

 Til allrar hamingju virðist bæjarstjórnarmeirihluti Ísafjarðarbæjar vera að ranka úr rotinu í atvinnu- og byggðamálum. Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í fyrra fussuðu þeir og sveiuðu þeirri hugmynd að stofna almenningshlutafélag um kaup aflaheimilda til þess að halda kvótanum í byggð og vernda þar með atvinnu og búsetuskilyrði í byggðarlaginu. Þeir kölluðu hugmyndina "brjálæði" og fóru hamförum gegn frambjóðendum Í-listans sem héldu henni á lofti.

 

Fyrirhuguð lokun útgerðarfyrirtækisins Kambs á Flateyri hefur nú opnað augu manna - og sem betur fer er bæjarráð Ísafjarðar nú samhuga um að grípa til aðgerða, m.a. að stofna almenningshlutafélag um kaup aflaheimilda (sjá grein bæjarráðsmanns um ályktun bæjarráðs frá í gær). Það er vel að augu manna skuli vera að opnast - en reynslan er dýrkeypt, maður lifandi.

Annars var ég að hlusta á Guðjón Arnar í útvarpinu áðan - honum mæltist vel. Ég vona heilshugar að menn beri nú gæfu til þess að taka höndum saman um að bjarga þessu byggðarlagi - hvar í flokki sem þeir standa. Til þess þarf samhug og samvinnu, ekki pólitíska sérstöðu eða sjálfkrýnda "sigurvegara". Til þess þarf menn með VILJA og hæfilega HÓGVÆRÐ til þess að láta gott af sér leiða. Menn sem hugsa um afrakstur verkanna fremur en ímyndað frægðarorð. Hinn sanni sigurvegari er sá sem getur unnið sitt verk í hógværð og sér afrakstur þess verða að veruleika.

Að lokum orð til umhugsunar úr smiðju Lao-Tse í Bókinni um veginn:

Hinn vitri  "heldur sér ekki fram, og það er ágæti hans; hann er laus við sjálfhælni, og þess vegna er hann virtur; hann er laus við sjálfsþótta og ber því af öðrum. Og af því að hann keppir ekki við aðra, getur enginn keppt við hann."  

Um friðsemdina segir Lao-Tse: "Menn komast hjá úlfúð með því að hefja ekki verðleika manna upp til skýjanna ... Þannig drottnar hinn vitri ... hann starfar án strits, og stjórn hans farnast vel."

 

 

 


mbl.is Hugmynd um að almenningshlutafélag kaupi aflaheimildir Kambs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harmagrátur Vinstri-grænna

stjornarmyndun1 Var að lesa sunnudagsmoggann áðan. Vinstrigrænir gráta og barma sér yfir því að hafa ekki komist í ríkisstjórn - brigsla formanni Samfylkingarinnar um tvöfeldni og óheilindi: Segja að hún hafi verið búin að semja við Geir fyrir kosningar og síðan hafi Framsókn verið haldið uppi á  snakki meðan verið var að "klára" dæmið. Nú segjast þeir hafa verið tilbúnir í vinstristjórn - "frá upphafi", eins og Ögmundur orðar það í þessari frétt. Hann segir:

"Minn fyrsti kostur hefði verið sá að  mynduð hefði verið ríkisstjórn VG, Samfylkingar og Framsóknar og ef það hefði ekki tekist, þá hefði verið farsælla fyrir þjóðina að fá sigurvegara kosninganna VG, sem jafnramt er gagnstæður póll við Sjálfstæðisflokkinn, til að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokki."

Einmitt það - stöldrum nú við.

Ég held mig misminni ekki að það hafi einmitt verið Ögmundur Jónasson sem  í þessu  útvarpsviðtali, tveim dögum eftir kosningar, bauð Framsókn upp á það að fara á hliðalínuna og verja með hlutleysi stjórn VG og Samfylkingar. Það var "fyrsti" kosturinn sem Vinstrigrænir orðuðu formlega í fjölmiðlum, og það var enginn annar en Ögmundur Jónasson sem það gerði. Þá hafði félagi hans, Steingrímur J. Sigfússon, farið fram á það við Jón Sigurðsson að hann bæði sig formlega afsökunar á kosningaauglýsingu.  Um þetta bloggaði ég fljótlega eftir kosningar - og veit að ég var ekki sú eina sem undraðist málflutning forsvarsmanna VG fyrstu dagana eftir að úrslit lágu fyrir.

Vinstrigrænum verður tíðrætt um að þeir hafi "farið að leikreglum" varðandi hugsanlega stjórnarmyndun. Þó kemur fram í sömu frétt að sjálfir voru þeir í bullandi þreifingum við Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk bæði fyrir og eftir kosningar. Steingrímur segist sjálfur hafa talað við Ingibjörgu Sólrúnu "hálfum mánuði fyrir kosningar" og blaðamaður kveðst hafa "mjög traustar heimildir" fyrir því að "töluverðar þreifingar hafi átt sér stað milli einstakra flokksmanna í VG og Sjálfstæðisflokki."

Já - stundum er sagt að allt sé leyfilegt í ástum og stríði. Pólitíkin er samband af því hvoru tveggja, má segja, ég tala nú ekki um þegar menn fara að mynda ríkisstjórnir. 

En Ögmundur og Steingrímur:  Það er leiðinlegt að sjá reynda og dugandi stjórmálamenn skæla úr sér augun og snúa staðreyndum við þótt á móti blási. Þið getið sjálfum ykkur um kennt . Hættið þessu væli.

geirogingibjorg


Sigurvegarar - og byggðarlag í sárum

Flateyri Flateyri hefur orðið fyrir reiðarslagi: Um hundrað fjölskyldur standa nú frammi fyrir atvinnuleysi og búseturöskun eftir að útgerðarfyrirtækið Kambur - aðalvinnustaðurinn í plássinu - tók að selja frá sér veiðiheimildir og skip. Hjá fyrirtækinu starfa um 120 manns, þar af 50 sjómenn. Fyrirtækið hefur yfir að ráða um 3000 þorskígildistonnum að andvirði um 7 milljarða króna.


Fari veiðiheimildirnar úr byggðarlaginu þýðir það hrun Flateyrar - það er svo einfalt mál. Þetta eru ein alvarlegustu ótíðindi í atvinnumálum Vestfirðinga frá því að kvótakerfinu var upphaflega komið á.

Á sama tíma blasir við á vefsíðu bb.is mynd af gleiðbrosandi sjávarútvegsráðherra með fyrirsögninni: "Við erum sigurvegarar".  Vestfirðingurinn Einar Kristinn Guðfinnsson er þar að fagna kosningaúrslitum og góðu gengi Sjálfstæðisflokksins. Honum líður eins og sigurvegara. En hvað með sveitunga hans - fólkið á Flateyri? Hvernig ætli því líði núna?

Og hversu margir úr þeim hópi skyldu nú hafa kosið þessa "sigurvegara"? Flokkinn sem ber ábyrgð á óréttlátu kvótakerfi sem er þannig úr garði gert að það kallar hrun yfir heilu byggðarlögin ef og þegar útgerðarmönnum þóknast að selja kvótann í burtu.

Eigandi Kambs heldur á fjöreggi sinnar byggðar - hann hefur verið sannkallaður máttarstólpi. En nú er honum farið að leiðast þófið, hann nennir þessu ekki lengur. Ætlar að selja. Eftir stendur (eða liggur, ættir ég frekar að segja) byggðin hans í sárum.

Sigurvegarar?


Draumaríkisstjórnin?

draumar Hugtakið "draumaríkisstjórn" fær eiginlega nýja merkingu í mínum huga ef svo fer að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking mynda stjórn saman að þessu sinni.

Mig dreymdi nefnilega fyrir þessu í fyrrinótt, held ég - en draumspakir lesendur mega gjarnan spreyta sig á því að ráða þennan draum. Hann var svona:

Mér fannst við Ingibjörg Sólrún vera saman á einhverju ferðalagi um Suðurland og ætluðum að koma við á Geysi. Í draumnum var Geysissvæðið orðið að einhverskonar vatnaparadís þar sem fólk gat lagst í heita potta og látið berast með heitum vatnsstraumum eftir einhverjum stokkum, eða bara legið og slakað á. Við  vorum eitthvað að búa okkur undir það að fara ofan í vatnið en mér fannst það býsna straumhart og heitt, þannig að mér leist ekki alveg á blikuna. Ingibjörg Sólrún var með tvö handklæði, meginlitur þeirra var rauður (litur Samfylkingar) en  í þeim voru líka hvítir og bláir litatónar (litir Sjálfstæðisflokks). Mitt handklæði var appelsínugult með grænum tónum (kannski til vitnis um minn hug til stjórnarmyndunar). Jæja, en Solla skellti sér út heitt vatnið og virtist kunna því ágætlega. Lengri var draumurinn ekki.

Svo sjáum við hvað setur.


mbl.is Ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi stjórnarflokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband