Hjáveituleið Björns Bjarnasonar

Evra-AlvaranCom Af hverju telur forsætisráðherrann að íslenska krónan henti best sem gjaldmiðill? Gengi krónunnar er með lægsta móti. Ofan á geigvænlegar eldsneytishækkanir sem eiga upptök úti í heimi, er krónan að falla frá degi til dags með keðjuverkandi afleiðingum á verðlag. Af hverju hentar hún okkur sem gjaldmiðill? Af hverju?

Menn komast allt of oft upp með það að svara með almennum orðum - án þess að færa rök fyrir máli sínu. En það er ekkert - nákvæmlega ekkert - nú um stundir sem bendir til þess að íslenska krónan sé hentugasti gjaldmiðillinn. Þið leiðréttið mig þá, ef ég fleipra. En ég hef bara ekki séð nein haldbær rök fyrir því að halda í krónuna. Ég hef hins vegar bölvað því í hljóði að Sjálfstæðismenn skuli vera svo flæktir í andstöðu sína við ESB-aðild að umræðan um að taka hér upp Evru hefur strandað á því atriði. Á meðan líður efnahagskerfið fyrir vanmátt íslensku krónunnar.

Leiðin sem Björn Bjarnason hefur vakið máls á á heimasíðu sinni (sjá hér) er hinsvegar athyglisverð. Björn segir: 

 ,,Íslendingar hafa valið þann kost, að tengjast ESB eftir tveimur meginleiðum: með EES-samningnum og Schengen-samkomulaginu. Hvernig væri að láta reyna á það á markvissan hátt, hvort unnt sé að setja þriðju stoðina undir þetta samstarf, það er um evruna? Engin lagarök eru gegn því, að það verði gert. Mun meiri pólitísk sátt yrði um þá leið en aðildarleiðina. Evruleiðin kann auk þess að hafa meiri hljómgrunn í Brussel en aðildarleiðin.''

Snjallt - eitursnjallt. Og þó svo að Björn segi á heimasíðu sinni í gær, að fjölmiðlar hafi snúið út úr orðum hans - þá vona ég að meginhugsunin í tillögu hans hafi skilist rétt. Því þá gætum við verið hér að tala um nokkurskonar hjáveituleið, sem ég leyfi mér að kalla svo.  Hún felur það í sér að hugsanlega verði hægt að taka upp nothæfan gjaldmiðil án þess að láta það standa og falla með rótgrónu ágreiningsmáli sem litlar líkur eru á að leysist í bráð; að hægt verði að fara framhjá ágreiningnum í átt að viðunandi lausn á aðsteðjandi og vaxandi vandamáli - sem er veik staða íslensku krónunnar.

Menn ættu að skoða þetta vel.

 GetLost

PS: Rétt í þessu var ég að lesa viðbrögð Percy Westerlund, sendiherra og yfirmanns fastanefndar Evrópusambandsins við þessari hugmynd (sjá hér). Verst hvað kallinn er neikvæður.


mbl.is Evruhugmynd ekki ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég veit ekki hvenær menn finna rétta lendinguna, en ég hef það á tilfinningunni að það sé ekki öllum treystandi í þessu máli.

Ásdís Sigurðardóttir, 14.7.2008 kl. 16:45

2 Smámynd: Sævar Helgason

Það er allavega ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er í gríðarlegum vanda staddur.

Forystumenn og konur (a) eru  þvers og kruss í málinu varðandi ESB aðildina og upptöku evrunnar. 

Björn Bjarnason kynnir í gær áhuga sinn og væntingar til að renna þriðju stoðinni undir EES samninginn með upptöku evru.

Í dag boðar Geir forsætisráðherra til blaðamannafundar - þar kveður við allt annan tón en hjá hinum forystumanninum. 

Og í gær var forystukonan Þorgerður Katrín menntamálaráðherra við athöfn í nýja tónlistarhúsinu og sendi tóninn þaðan yfir að Svörtuloftum - til Davíðs seðalabankastjóra.

Ertu ekki að leggja í Hornstrandaferð með góðu fólki, Ólína

 Eigið öll góðar stundir á þeim sælureit sem Hornstrandirnar eru.

Sævar Helgason, 14.7.2008 kl. 17:04

3 Smámynd: Haukur Nikulásson

Viðbrögð Percy Westerlund þurfa ekki að koma okkur neitt á óvart. Við erum óskabiti fyrir ESB: Gríðarlegt hafsvæði, mikið landrými, frábær lífskjör (a.m.k. ennþá!) og örfáir kjammar sem þarf að þagga niður í

Haukur Nikulásson, 14.7.2008 kl. 17:46

4 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Er einn af þeim sem stend í því að færa yfir námslánið mitt frá Íslandi í hverjum mánuði. Maður fer næstum að gráta þegar það sýnir sig hvar bæði krónan er einskis virði og hvað bankarnir taka í þjónustugjöld. Þetta skelfir mig!   Ég hef mælst til þess að við tökum upp annað hvort norsku krónuna eða þá dönsku.

Baldur Gautur Baldursson, 14.7.2008 kl. 18:04

5 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Hvaða bull er þetta Haukur Nikulásson! ESB hefur ekkert tilkall til hafsvæðis okkar né lífsgæða, þetta er samstarf sjálstæðra þjóða! Þar inni eru löndin að hjálpast að með stórum sameiginlegum markaði fyrst og fremst, sem við erum nú þegar aðilar að - og því segir samningamaður ESB við nýjar aðildarþjóðir að við munum vera fljót að semja vegna þess að við höfum nú þegar tekið upp 3/4 af regluverki sambandsins.

Þetta endalausa þvaður um að við þurfum að láta frá okkur fiskimiðin á ekki við nein rök að styðjast, og það er alveg hreint óþolandi að fólk reyni að halda þessu framm.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 14.7.2008 kl. 20:05

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er er akkúrat engin patentlausn í stöðunni, eins og er. Þó svo að við ákvæðum að taka upp annan gjaldmiðil á morgun, þá tekur það mikinn tíma, aðlögun, breytingar og þróun til að slíkur gjaldmiðill væri fullvirkur hér.  Að mínu mati er ekki spurningin hér hvort krónan er ónýt eður ei, heldur er feigðarstefna frjálshyggjunnar búin að koma því þannig fyrir að efnahagur landsins og gengi krónunnar stjórnast eingöngu af óheftum innflutningi lánsfjár og fjárhættuspili einkabankanna. Seðlabankinn hefur ekkert um það að segja.  Kelda Davíðs og Geirs er sú að gefa innflutning á fjármagni og spákaupmennsku með gjaldeyri frjálsan. Góðæri síðasta áratugar var allt á lánum.

 Nú er komið að innheimtu og veðin falla í hendur útlendra spekúlanta. Til allrar hamingju tókst einkageiranum ekki alveg að krækja sér í Orku og aðrar auðlindir í pant fyrir sukkið. Það stóð til og verður reynt aftur. Þá er nafnið sjálfstæðis-flokkur orðið öfugmæli, því þá verðum við enn á ný leiguþý erlendra fursta.

Til að auka fjárstreymið inn á sínum tíma og "laða að" fjárfesta, þá hækkaði seðlabankinn stýrivexti og erlendir spekúlantar sturtuðu inn peningum til að ávaxta þá í þessu hagstæða umhverfi. Iðnaður, alþýða og verslun kveinuðu yfir þessu vaxtastigi og það ískraði í heimilisbókhaldi og iðnaði. Davíð var þá ómögulegt annað en að hækka meira eða viðhalda vaxtastiginu, því ef hann hefði orðið við innanbúðarkröfum iðnaðar og alþýðu, þá hefðu spekúlantarnir kippt út þessum 800 milljörðum af skammtímaskuldbindingum og allt hefði farið lóðbeint á hausinn. Seðlabankinn réði því ekki ferðinni, heldur fjárfestar og bankar.

Frjálshyggjan er komin út í horn með þessa rándýru samfélagstilraun sína sem er við að kosta okkur sjálfstæðið. Ef við hefðum haft annan gjaldmiðil, þá hefði þetta grundvallar óraunsæi og vanþekking komið okkur í sama farið. Ef einhver ætlar sér að eignast landið á miðiní hinum stóra heimi, þá tekst honum það. Aðferðin er að dæla inn fjármagni og kippa því svo út. Þetta segjast sanntrúaðir Kínverskir kommar ætla að gera við USA t.d.

Íslenska krónan er góður og gildur gjaldmiðill að mínu mati. Við erum mikið til sjálfbær með orku og getum enn betur og því engin ástæða til að ætla að erlendar sveiflur hafi svo sterk áhrif hér ef vel er haldið á spilunum. Fólk virðist trúa blint á pillur og patentlausnir og þessi gjaldmiðlaskiptahystería er ein pillan. Það er ekkert að krónunni, en mikið að fjármálastjórnun ríkisins, sem markast af spilling og greiðasemi við einkageirann.

Hróplegt dæmi um heimskuna eru orð Geirs um að taka upp Dollar. Dollar er gjaldmiðill, sem byggir mikið til á stríðsvæðingu og nota bandamenn um helming skatttekna í hernað. Dollarinn er við dauðans dyr og er haldið uppi með að míga í skóinn og gefa út meiri pappírsdollara, sem eru ekki skeinibréfsins virði. Federal reserve er ekki seðlabanki í klassískum skilningi, heldur einkafyrirtæki sem gefur út hvern dollar með áhangandi skuld. Ef menn læsu sig til um þessi mál, þá létu þeir ekki svona dellu út úr sér. Það er akkúrat ekkert á bakvið dollarinn annað en skuldsetning í skeini. Evran hefur svo Dollarinn, sem bakland, svo hugmyndir varðandi hana eru jafn mikið út úr kortinu.

Við eigum veð, orku og ríkulegar auðlindir (enn a.m.k.) það er okkar bakland. Það eru okkar veð. Fjármálasukk frjálshyggjupostulanna hér er að ná því að spila því úr höndum okkar. Það læknar enginn kvef með að skipta um kápu. Gjaldmiðilsskiptaumræðan er einmitt á sama plani og slík hugmynd.

Ég er farinn að efast mikið um greind Geirs, sem klifar á skuldleysi ríkissjóðs eins og hann haldi að enginn sjái í gegnum þá blekkingu. Ríkissjóður hefur einfaldlega flutt skuldirnar yfir á sveitarfélögin, sem eru að slygast og selt ríkiseignir, sem ekki verða seldar aftur. Fyrir vikið stendur efnahagur landsins og öryggi valtari fótum en áður, því nú er ekkert til að grípa í úr búrinu ef uppskerubrestur verður. Þessir glæpahundar hafa gersamlega skilið eftir sig sviðna jörð og ætti í raun að setja þetta lið í grjótið fyrir landráð og svik.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.7.2008 kl. 21:20

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

..ef einhver ætlar sér að eignast landið og miðin.. átti að standa.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.7.2008 kl. 21:22

8 Smámynd: Sævar Helgason

Jón Steinar R.- góður pistill hjá þér.

Ef hér væri Evarn  gjaldmiðillinn og Seðalbanki Evrópu bakhjarlinn- hefði þá þessi glórulausa peninga og efnahagsstefna síðustu ára , getað átt sér stað ?

Hefðum við eftir sem áður verið leiksoppar þessara öfgafullu frjálshyggjupótintáta- sem hafa leikið þjóðina svona grátt ???

Sævar Helgason, 14.7.2008 kl. 21:40

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Menn mættu svo hugleiða af hverju þessi gjaldmiðlaskiptaumræða hefur náð þessu flugi, sem hún virðist hafa náð, án nokkurra haldbærra raka. Það er jú allt með vilja gert að taka undir slíkt tal til að finna blóraböggul fyrir klúðri stjórnarflokkanna og seðlabankans. Það er eins og að kenna bílnum um útafkeyrslu í ofsaakstri eða tönnunum um tannpínu. Hjarðeðli landans ríður ekki við einteyming og allir jarma í kór viðð áróðursmaskínuna. Láta aðra um að hugsa og meta hlutina í stað þess að kynna sé málið, beita gagnrýnu hugarfari og komast að eigin niðurstöðu. Við eigum kannski skilið að fá það sem við fáum, miðað við aðhaldsleysið og greindarleysið.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.7.2008 kl. 21:49

10 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ja hérna hér - þú skefur ekki utan af því Jón Steinar. Hrífandi pistill.

Ég held samt að krónan eigi sér ekki viðreisnar von, því miður - ekkert frekar en bíll sem er illa farinn eftir útafkeyrslu.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 14.7.2008 kl. 23:24

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Og hver er þá lausnin að þínu mati Ólína? Krónan er bara nafn á einingu. Er einhver önnur eining tryggari? Eigum við að setja okkur undir helsi þeirra sveiflna, sem kunna að verða í útlendum gjaldmiðli, sem ekki er í takti við efnahagsástand hér? Er ekki betra að við höfum eigin gjaldmiðil til samræmis við ástandið innanlands? 

Og svona til að koma fólki niður á Jörðina, þá eru það einfaldlega óraunsæir draumórar að taka upp gjaldmiðil annars lands eða efnahagsklúbba, sem við erum ekki meðlimir að. Það er bara ómögulegt, punktur. Krónan getur náð sér ef fjármálafyllibytturnar fá ekki að grufla í henni eins og þeir hafa gert. Það er í raun ekkert sem er í boði annað. Olíukreppan er um allan heim og ekki er hægt að kenna krónunni um það.

Allir gjaldmiðlar eru meira og minna í mónúmental niðursveiflu og krónan er ekkert ein um það. Það er alveg eins hægt að segja að Evrópubandalagið ætti að taka upp Íslensku krónuna. Þetta er hystería að ætla að einhverjar svona alfa og Omegalausnir séu til. Óskhyggja í besta falli.

Íslendingar virðast hafa eina sérstöðu í viðskiptasamhengi. Þeir fjárfesta ekki til ávöxtunnar og uppbyggingar heldur nánast einvörðungu í steinsteypukaupæði, firrtri mikilmennsku og munaðarfjárfestingum með neikvæða arðsemi. Allt er þetta á lánum og enginn hefur sniðið sér stakk eftir tekjum. Þar þarf hugarfarsbreytingu. Þessi jakkafatafóstur bankanna eru nytsamir sakleysingjar og leiksoppar stórra banka og fjármálavelda og halda sig vera high rollers á meðan þeir eru bara lopapeysukjánar í búðaleik.  Þeir hafa það gott á meðan á fluginu stendur en enda aftur í torfkofunum, þegar þeirra er ekki lengur þörf.

Gjaldmiðill skal vera ávísun á eignir og innistæða fyrir honum, ekki botlaust ginnungagap fyrir skuldasöfnun. Það er fjöldi smáþjóða með eigin gjaldmiðil. Þeir hafa hinsvegar oftast meira viðskiptavit og raunsæi en við. Vita hvað gjaldmiðill er.

Það eina sem hægt er að gera í stöðunni er að reyna að trappa niður vexti hægt og rólega og leyfa erlendum fjárfestum að draga sig út smátt og smátt þar til eðlilegu skuldajafnvægi er náð.  Á pappírnum er ríkisjóður skuldlaus, en þessi þjóð er engu að síður ein hin skuldugasta í heimi. Þetta eru neysluskuldir umfram efni. Þetta er neikvæð staða hins eiginlega hagkerfis. Mið bítum enn úr nálinni  með það að hafa lifað við óðaverðbólgu og gengisfellingar í áratugi og höfum því enn þetta "no tomorrow" "drekkum í dag og deyjum á morgun" heilkenni. Það tekur einhverjar kynslóðir að öðlast peningavitið aftur.

Jón Steinar Ragnarsson, 15.7.2008 kl. 02:07

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

"Verst hvað kallinn er neikvæður," segir þú í lok greinarinnar um andsvör Percys Westerlund, Ólína, en ættir frekar að orða þína raunverulegu tilfinningu svona: "Verst hvað staðreyndir og aðstæður mála koma illa heim og saman við mína eigin óskhyggju um upptöku evru." – Svo gleymirðu einu algerlega, þegar þú ert að kvarta yfir gengisfellingu krónunnar (sem þó er ennþá miklu sterkari gagnvart dollar en hún var um 2000-2002) – gengisfellingu sem var löngu tímabær fyrir útflutnings- og ferðamannaatvinnuvegina og til að stöðva skelfilegan viðskiptahallann – og það er sú staðreynd, að að liggur fyrir, að við upptölu evru yrði gengi krónunnar fyrst "leiðrétt" enn lengra niður á við til að afstýra spennu í of háu mati gjaldmiðils okkar vegna þróunar og aðlögunar á næstu misserum. Hlustaðu á hagfræðingana sem hafa talað um það, ekkert síður en hina, sem ganga um með evru í augunum. – Með góðum óskum,

Jón Valur Jensson, 15.7.2008 kl. 10:52

13 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Á dauða mínum átti ég von, frekar en að verða sammála nafna mínum Val. Það kom þó að því. Kristinn: Á hvaða sviði yrði þessi samkeppni bankanna? Þjónustugjöldum? Rýmri lánum, til að bæta gráu ofan á svart? Væru þeir ekki komnir, ef það væri fýsilegt? Ég er nokkuð viss um að þeir bíða ekki í röðum til að fæða ómettandi munn neyslufíkla á Íslandi.  Svo er skrítið að draga til samvinnu Benelux landanna í þessu samhengi. Þú hlýtur að sjá að það er alveg út úr kortinu.

Jón Steinar Ragnarsson, 15.7.2008 kl. 11:15

14 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Annars í svona retróspecti, þá hefði það einhverntíma verið möguleiki að koma á norrænu myntbandalagi. Hefðu menn haft þá framsýni að keyra það í gegn á sínum tíma, þá væri máske stabílla hér. Allavega hefði einhver haft vit fyrir vaðmálskotungunum í millaleik hér og smákóngarnir haft aðhald.

Jón Steinar Ragnarsson, 15.7.2008 kl. 11:21

15 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

BRAVÓ JÓN STEINAR!

Baldur Gautur Baldursson, 15.7.2008 kl. 11:50

16 Smámynd: Sævar Helgason

Það er alltaf að verða skýrara .  Við einir og sér getum ekki stýrt okkar efnahags og peningamálum.  Okkur er því miður orðin algjör nauðsyn á að hér sé traustur gjaldmiðill með sterkan seðlabanka sem bakhjarl.  Við erum Evrópuþjóð að ætt og uppruna.  Evran og Seðlabanki Evrópu er málið.

Fyrir 1008 árum síðan vorum við í svipuðum þjóðfélagsumræðum sem lauk á Þingvöllum árið 1000  . Þá var ákveðið að við skyldum kristnir vera- samt mætti blóta á laun. Þessi skipting hefur aldrei farið úr þjóðarsálinni.

T.d heill stjórmálaflokkur og sá valdamesti fram að þessu, Sjálfstæðisflokkurinn, skírir öll sín helst vé að heiðnum sið : Valhöll er musterið og síðan eru það  hóparnir: Vörður,Ægir, Þór,Óðinn, Hvöt...

Og alveg merkilegt ,þar er andstaðan við ESB og evruna mest.  

Sævar Helgason, 15.7.2008 kl. 11:53

17 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sævar: Heldur finnst mér vítt hið sögulega samhengi hjá þér. En góð samsæriskenning á alltaf rétt á sér. Ég á eina góða, sem ekki er eins fjarstæðukennd. Geir og flokksmenn hans ganga erinda glóbalistanna og ætla sér að andæva í myntmálum, þar til North American Union verður að veruleika. Þá verður hin nýja mynt AMERO að okkar mynt og við ein stjarnan í í röndótta fánanum.

Álversvæðingin er einn þáttur í því að gera okkur háð þessum armi, en álverð stýrist algerlega af stríðsvæðingu kanans. Við verðum því í framtíðinni að samþykkja allan stríðsrekstur þeirra ef aðaltekjulind framtíðarinnar veltur á honum.

Svo seinna verður Asíu bandalagið stofanð og Afríkubandalagið og með EU og NAU verður draumur glóbalistanna að veruleika. One world goverment. Eitthvað í anda heimsvaldaútópía 20. aldarinnar, Nasisma og Kommúnisma. Totalitarian hugmyndafræði, sem mun leiða af sér ógn og skelfingu og fæðingarhríðir, sem líklegt er að mannkyn lifi tæpast af.

Krónan hefur annars verið á miklu flugi undanfarinn áratug og hækkað upp úr öllu valdi. Hún þolir að falla og hefur lengi verið of hátt metin, hefur verið miklu lægri og engin haft meint af. Hún er bara að ná eðlilegri stærð og efnahagurinn að ná jafnvægi og raungildi. Hættið svo að kvarta. 

Jón Steinar Ragnarsson, 16.7.2008 kl. 01:56

18 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

..og með sameiningu þeirra, EU og NAU...átti að standa.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.7.2008 kl. 01:58

19 Smámynd: Sævar Helgason

"Krónan hefur annars verið á miklu flugi undanfarinn áratug og hækkað upp úr öllu valdi. Hún þolir að falla og hefur lengi verið of hátt metin, hefur verið miklu lægri og engin haft meint af. Hún er bara að ná eðlilegri stærð og efnahagurinn að ná jafnvægi og raungildi. Hættið svo að kvarta. "

Það var verið að birta um  200 gjaldþrot í gær  - sem er mesti fjöldi gjaldþrota í manna mynnum, að sögn þekkingaraðlia.

Þetta eru einkum fyrirtæki, ýmiskonar   Og að loknum sumarleyfum er búist við holskeflum gjaldþrota bæði einstaklinga og fyrirtækja.

Þetta hefur gríðarleg áhrif á einhverjar tugi þúsunda .  

En eins og þú segir Jón Steinar - efnahagurinn er að ná jafnvægi. En dýrt er það jafnvægi. Og með krónuna áfram í farteskinu, þá verður þetta okkar framtíð með nokkuð reglulegu millibili...

Sævar Helgason, 16.7.2008 kl. 09:40

20 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Eru gjaldþrotin krónunni að kenna eða óráðsíu í rekstri, skuldasöfnun ofl.  Hve mörg voru einstaklingsgjaldþrot og hve mörg fyrirtæki? Hve margir skildu hafa verið með allt sitt bundið í fallandi bréfum? Ekki er aukinn launakostnaður að sliga. Ekki er vöruskiptajöfnuðurinn að sliga því öllu hefur verið hleypt beint út í verðlagið, jafnvel verði á gömlum byrgðum. Ekki virðist vera orðinn mikill samdráttur enn í verslun eða framkvæmdum. Eitthvað er þó að dragast saman á löngu sprungnum húsnæðismarkaði. Hver er ástæða gjaldþrotanna? Ekki krónan. Hér ertu enn að kenna tönnunum um tannpínuna.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.7.2008 kl. 21:07

21 Smámynd: Sævar Helgason

Gjaldþrotin eiga sér margar ástæður , væntanlega, Veigamikil ástæða er gríðarlegur innflutningur á erlendu lánsfé sem illa hefur verið farið með.. Þar spilar veikleiki krónunnar stórthlutverk. Það var og er keyrt á miklum vaxtamun . Krónubréfin eru gott dæmi. Krónan er að verða eða er orðin einskona spilavítismynt. Erlendir fjárfestar spila með krónuna. Það er enn ein atlagan að krónunni í uppsiglingu núna í alþjóðafjármálaheiminum. Ríkisstjórnin er með í undirbúningi eflingu á gjaldeyrissjóðnum m.a vegna þessa, væntanlega. Og svo aftur og aftur... Við erum í snöru með þessa mynt okkar. Ef við værum í ESB og myntbandalaginu væri þessi staða óhugsandi fyrir okkur... enda hefði efnahagsstjórnunin og peningastefna síðustu ára verið með faglegri hætti en raunin er... Það eru flestir að vakna upp við þetta núna... og margir með martröð.

Sævar Helgason, 17.7.2008 kl. 10:16

22 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sævar: Hefur þér dottið í hug að það sé leynt og ljóst verið að þvinga okkur inn í efnahagsbandalagið? Bandalag, sem myndi yfirtaka stjórnsýslu og stjórnarskrá með regluverki sínu (sem er um 10 metra stafli af A4 blöðum) Bandalag, sem myndi gera auðlindir okkar að skiptimynt og ráðskast með nýtingu þeirra.

Getur þú lesið eitthvað slíkt út úr yfirlýsingu Westerlund? Það get ég. Rollurnar sem jarma hæst um evruna, eru einmitt þessir nytsömu sakleysingjar, sem þarf til að selja sjálfstæðið úr höndum okkar. Rollur, sem virðast enga yfirsýn hafa um samhengi slíkrar skuldbindingar. Rollur, sem halda að slíkt sé ráð sem skyndilausn við tímabundnum vanda, en er í raun afsal á sjálfstæði okkar í hendur totalitarian globalisma og  hinna stóru lénsherra. Þrælslund aldrei þrýtur mann. Þar er að taka af nógu..sagði skáldið.

Jón Steinar Ragnarsson, 19.7.2008 kl. 11:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband