Var eitt mannslíf ekki nóg?

Reynisfjara Hvað er eiginlega að Mýrdælingum? Hvers vegna er ekki komið aðvörunarskilti og björgunarhringur í Reynisfjöru? Maður hélt eftir banaslysið í fyrra að ÞÁ yrði eitthvað gert? Það er nú oft þannig að mannslíf kalla á aðgerðir - enda finnst manni að annars sé þeim fórnað til einskis.

Var þetta ekki nógu dýrt mannslíf, eða hvað? Hversu mörg þurfa þau að verða? Nú skall hurð nærri hælum áður en ár er liði frá banaslysinu í Reynisfjöru - og enn benda menn hver á annan. Þetta er til skammar.

Og menn spyrja hver eigi að BORGA eitt skilti. Er ekkert kvenfélag á staðnum sem getur safnað fyrir svona skilti? Hvað með björgunarsveitina - ef hreppurinn hefur ekki ráð á þessu - nú eða lögregluembættið. Hvar er nú Björgúlfur Thor eða Jóhannes í Bónus? Varla myndi það ríða þeim að fullu að skaffa þarna eitt skilti úr því heimamenn og stjórnvöld landsins eru ekki bógar til þess.

Ég á bara ekki orð yfir þessu aðgerða- og ráðaleysi. Þetta er öllum hlutaðeigandi til háborinnar skammar - sérstaklega þó heimamönnum sjálfum. Angry

Nú skora ég á Landsbjörgu að taka til sinna ráða og láta þessa ósvinnu ekki líðast lengur. Það hlýtur að vera hægt að fá einhvern til að "borga" eitt bévítans skilti og einn eða tvo björgunarhringi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Þó mér finnist stundum eins og fólk ani út í hættuna án þess að hugsa þá er það ekki afsökun fyrir því að vara ekki við hættunni.  Við ættum kannski að safna fyrir skilti.

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 24.7.2008 kl. 14:14

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Ég heyrðí útvarpsviðtal við björgunarsveitarmann (held ég) í morgun sem fannst að svona skilti myndi nú lítið hafa að segja, hann tók sem dæmi öll umferðarslysin þrátt fyrir umferðarskilti. Ég er ekki sammála honum, það var t.d. ekki fyrr en þetta banaslys varð þarna að ég vissi að þessi fjara getur verið hættuleg. Skilti þarna getur skipt sköpum! Fjara er ekki það sama og vegur.

Guðríður Haraldsdóttir, 24.7.2008 kl. 15:04

3 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ætli þeim finnist ekki undir niðri að þetta hafi verið bara klaufaskapur?  Hver sem ástæðan er þá er það ekki nógu gott að láta ekki verða að þessu og ótrúlegt ábyrgðarleysi.  Eitt mannslíf er einu mannslífi of mikið.  Þörf áminning hjá þér Ólína.

Svanur Sigurbjörnsson, 24.7.2008 kl. 15:40

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Fyrir fáum árum var ég þarna með syni mínum á unglingalandsmóti UMFÍ sem haldið var í Vík. Við vorum að leika okkur að því að hlaupa undan öldunni - að vísu ekki á sama stað, heldur Víkurmegin við drangana. Engu að síður - þetta var auðvitað stórhættulegur leikur, sem við gerðum okkur enga grein fyrir þá. Það fer hrollur um mig við tilhugsunina.

Hvernig eiga ferðamenn að vita hvaða hættur steðja að, ef þeim er ekki sagt frá því? Hún lítur ekki út fyrir að vera sérlega hættuleg aldan þarna - þó brimið sé þungt, þá hvarflar ekki að manni að alda geti skollið 10 m lengra en aldan sem kom á undan. En það er einmitt það sem gerist í tilvikum sem þessum þegar fólk er hrifið á haf út.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 24.7.2008 kl. 16:55

5 identicon

Það hafa verið sett upp aðvörunarskilti af minna tilefni á Íslandi, t.d. við allar brekkur sem eru með meiri hæðarmismun en 10°. Á Mýrdalssandi eru aðvaranir um að það gæti brostið á Kötlugos, og hvað á þá að gera. Það gos gæti komið eftir 50 eða jafnvel 100 ár, en það brimar stöðugt við suðurströnd landsins, og stundum við hana alla. En það er auðvitað miklu meira gaman að hlaupa í sandfjöru með útfyrinu og láta svo aðfallið ná sér og taka sig út með næstu öldu, eða er það ekki? Það er þessu sveitarfélagi, sem annars er mjög fallega staðsett, til háborinnar skammar að hafa ekki fyrir löngu komið upp aðvörunarskiltum. Þær gætu svo eftir á reynt að fá kostnaðinn greiddan úr einhverjum sameiginlegum sjóði ef sveitarsjóður er á slíkri heljarþröm eins og maður gæti haldið að hann væri. SKILTIÐ UPP STRAX Á MORGUN!!

Geir A. Guðsteinsson (IP-tala skráð) 25.7.2008 kl. 00:08

6 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ég gat ekki skilið landeigandann betru en að þetta andskotans ferðafólk og ferðaþjónustubransinn væri bara að troðast á hans landi (fjara er ekki eignarland ) og gætu bara borgað brúsann (sem er eflaust allt í lagi) en hann klikkti út með því að hann fengi ekkert fyrir sinn snúð að eiga þessa fjöru.... er kominn Kerfélagsfílingur í varginn ?

Óskar Þorkelsson, 25.7.2008 kl. 00:14

7 identicon

Það er víða pottur brotinn í aðvörunum til ferðamanna á okkar landi. Mér skilst að það vanti tilfinnanlega líka aðvörunar skilti um Ísbirni, sérstaklega á Ströndum.

Og hvað með alla útlendingana sem hlekkist á, á vega kerfinu okkar. Er ekki tími til kominn að setja upp skilti sem benda öllum á að vega kerfið uppfyllir alls ekki Evrópustaðla, en allir notendur eiga samt að uppfylla þá.    

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 25.7.2008 kl. 02:33

8 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Úrbætur í svona málum verða fátæklegar á meðan ekki er litið á ferðaþjónustuna sem alvöru atvinnugrein. Öll stefna og ákvarðanir eru handahófskenndar og enginn ber ábyrgð, enginn vill borga. Þetta breytist ekki fyrr en málefni ferðaþjónustunnar verða tekin upp úr skúffunni í skrifborði Iðnaðarráðherra (áður Samgönguráðherra) og gert hærra undir höfði.

Það gengur ekki til lengdar að ætla sér bara að græða á ferðamönnum en leggja ekkert til á móti.

Lára Hanna Einarsdóttir, 25.7.2008 kl. 10:16

9 Smámynd: Einar Þór Strand

Ólína ein spurning, hefðir þú farið eftir einhverju skilti í Víkurfjöru, eða yfirleitt lesið það? (vill heiðarlegt svar)

Svo er annað ef ég set upp skilti og bjarghring á staðnum, síðan er skiltið skemmt og bjarghringunum stolið, og það verður slys er ég þá ábyrgur fyrir að búnaðurinn var ekki í lagi?

Ef svarið er já, sem það sennilega er, þá er ég ekki viss um að ég vilji standa fyrir þessum björgum.

Það er nefinlega ótrúlegt að fólk geri sér ekki grein fyrir hættum sem eru í fjörum eins og þarna við suðurströndina þetta er ekki bara þarna heldur öll suðurströndin og margir aðrir staðir á landinu læt nægja að nefna Djúpalóssand á Snæfellsnesi, og ef við eigum að skiltavæða alla þessa staði þá er það ekki lítið verkefni.

Einar Þór Strand, 25.7.2008 kl. 12:54

10 identicon

Mér finst þetta stórmerkileg lesning – jú eitt mannslíf er yfirdrifið nóg og ..  jú auðvitað væri allt í lagi að koma skilti fyrir þarna og vara við hættunni – en ..hvað margir taka mark á þvi ???? og ...  hmm hvað á að gera við  björgunarhring ?  hugsanlega gæti hann gert eitthvað ef aðstæður væru alveg hárréttar .. en ...ja.. ég bara spyr  – hvað mörg ykkar með þessar sterku skoðanir hafa komið í þessa fjöru ? Ég er vel kunnug í Mýrdalnum og fer oft á ári í Reynisfjöru . Það hefur aukist seinni árin að fólk hagar sér áberandi ábyrgðarlaust þarna og mér finst í raun merkilegt að ekki hafi orðið fleirri slys þarna. Það er alveg svakalegt að horfa á þegar foreldrar koma með börnin sín  – sem ég hefði haldið að einmitt foreldranir beri ábyrgð á en ekki bændunir í Reynishverfi – þau fá lausan taumin til að ‘’leika við sjóinn ! ‘’ Við hjónin höfum oft sopið hveljur þegar við horfum á það sem við óttumst að verði að stórslysi .. en sem betur fer höfum við hingað til altaf haft rangt fyrir okkur. Hvað mundi gerast ef barn tæki út ? væri ábyrgðin hjá landeigendum í Reynishverfi ? Fréttamyndinar í gær voru teknar við stuðlaberg Reynisfjalls. Fyrir þá sem ekki þekkja þá er Dyrhólaey við hin enda fjörunar. Þar er líka ægifagurt og magnað landslag, fallegur gamall viti og ferðamenn streyma þangað yfir sumarið. Síðast þegar ég kom þar við gladdist ég við að sjá að þar var komið skilti á nokkrum tungumálum þar sem fólk var varað við að fara of nálægt brúninni þar sem hætta væri á hruni og búið að girða af með gulu bandi ca 2 metra frá brún ‘’gott J ‘’ hugsaði ég ‘’þá fer fólk ekki að hrynja hér niður, það væri leiðinleg tilhugsun ‘’ þar sem þú horfir niður við syðsta enda eyjarinnar er þverhnípi og beljandi Atlandshafið – oft finnur maður titringin af öldunum sem skella á eyjunni. Ég rölti út á tánna og þegar ég kom til baka – hvað haldið þið að ég hafi séð !! ca 10 manna hópur var stigin yfir línuna og stóð á bjargbrúninni í innan við lestrarfjarlægð frá þessu skilti sem varaði við hættunni.... mér varð orðs vant – velti fyrir mér hvort ég ætti að fara og lesa fyrir þau eða leyfa þeim einfaldlega að taka ábyrgðina á eigin lífi sem auðvitað er eðlilegast.. Samskonar varnarlínur eru t.d. við Gullfoss og hafa verið lengi – þær varna ekki að fólk dettur þar ofaní .. einfaldlega af því fólk sem ekki er vant að umgangast náttúru Íslands tekur ekki mark á hættunum og enn síður þeim sem vara við því ( tala nú ekki um ef það eru einhverjir bændur sem ekkert vita í sinn haus ) . Ég er alveg sammála Ólafi bónda að ferðaskrifstofunar ættu að vera ábyrgðarfyllri í sambandi við að vara við hættum landsins, það er stöðugt rennerí af rútum í Reynishverfinu og gríðalegur fjöldi fólks sem staldrar við þarna í hverju ári. Ég held að bændur í Mýrdal – eins og bændur annarstaðar hafi bara alveg nóg með að sinna sinni vinnu þó þeir séu ekki í sjálfboðaliðsvinnu fyrir ferðaskrifstofur landsins svo ekki falli blettur á þeirra góða orð – ég hugsa að ekkert þeirra sem skrifar hér að ofan væri til í að vera að hlaupa úr sinni vinnu í tíma og ótíma til að leiðbeina ferðamönnum – biðja þá t.d. að fara varlega í Hallgrímskirkjuturni þvi það gæti hugsanlega hrapað út. Ef það ætti að vera maður í fullu starfi við að gæta fjörunar þyrfti væntanlega að rukka inn. Ég meina, allir þurfa sitt lifibrauð. Væri þá ekki farið að fárast yfir því ?

Guðrún Halla (IP-tala skráð) 25.7.2008 kl. 13:12

11 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Guðrún Halla segir allt sem ég hef verið að hugsa varðandi þetta umræðuefni og þekki ég þó ekki hætishót til í þessum landshluta.

Sigrún Jónsdóttir, 25.7.2008 kl. 13:41

12 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég hef komið margoft í Reynisfjöru, Dyrhólaey og flesta ferðamannastaði á Suðurlandi - bæði á eigin vegum og sem leiðsögumaður erlendra ferðamanna. Mér hefur oft blöskrað hvernig fólk hagar sér, klifrar í stuðlabergi og klettum og tekur áhættuna af að hlaupa út í ytri hellinn í Reynisfjöru þótt það sé að flæða að og engin trygging fyrir því að það komist til baka. Margoft hef ég bent fólki á hætturnar þótt það sé ekki á mínum vegum. Sumir fara eftir því, aðrir ekki þó að ég leggi mikla áherslu á orð mín.

Leiðsögumenn vara sitt fólk ALLTAF við hættum þar sem þær eru en þar með er ekkert víst að fólk hlýði því. Ég hef séð ferðamenn lesa skilti og brjóta svo strax þau bönn eða haga sér þvert á það sem stóð á skiltinu. Það er alltaf stór hópur fólks sem ekki fer eftir leiðbeiningum og brýtur öll boð og bönn. Við því er ekkert að gera og þegar fólk gerir slíkt er það á þess eigin ábyrgð, engra annarra.

Enginn ætlast til þess að landeigendur eða bændur í Mýrdal beri ábyrgð á ferðamönnum sem fara þar um eða kosti og sjái um skilti til að vara fólk við hættunum. Í hádegisfréttum útvarps í dag var beðist afsökunar á að hafa ranglega sagt ferðamálastjóra hafa sagt eitthvað í þá áttina. Hún gerði það ekki.

Vandamálið er að þrátt fyrir gríðarlega fjölgun erlendra ferðamanna og mikla tekjuaukningu ríkisins af þeim hefur ferðamálum sem slíkum lítið verið sinnt af yfirvöldum og litlu fé veitt til uppbyggingar og viðhalds ferðamannastaða um allt land. Yfirleitt hafa heimamenn séð um slíkt af fórnfýsi og stundum meira af vilja en mætti.

Yfirvöld þurfa að fara að líta á ferðaþjónustu sem alvöru atvinnugrein og sinna henni sem slíkri.

Lára Hanna Einarsdóttir, 25.7.2008 kl. 14:48

13 Smámynd: Óskar Þorkelsson

tek undir með Láru, ég hef nokkrum sinnum farið þarna með hópa og það er stundum einn sem ekki lætur sér segjast eitt eða neitt.. en ég segi líka við alla mína hópa að ísland er ekki skipulagður skemmtigarður og að fólk er almennt hér á eigin ábyrgð.. ef þeim langar til þess að stinga sér til sunds í Reynisfjöru er fátt sem við getum gert til þess að koma í veg fyrir það.. ef þeim langar til þess að stinga hendinni í sjóðandi hver.. hver á þá að stoppa það ?

Óskar Þorkelsson, 25.7.2008 kl. 16:28

14 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég þakka þessi innlegg og athugasemdir.

Einar Þór Strand spyr mig - og biður um "heiðarlegt" svar - hvort ég  myndi fara eftir viðvörunarskilti þarna í fjörunni. Svar mitt er hikstalaust: Já. Það hefði ég gert - og síst af öllu hefði ég farið að hlaupa á eftir öldunni með 12 ára barni ef mér hefði verið hættan ljós.

Fólk er ekki fætt með þá vitneskju að öll suðurströnd landsins sé stórhættuleg. Það er hroki í okkur Íslendingum að fussa alltaf og sveia í vanþóknun ef erlendir ferðamenn sem ekki þekkja hættur landsins fara sér að voða, hvort sem það er í illviðrum, brimi eða í hamrabeltum.

Ei veldur sá er varar - segir máltækið. Sá sem varar við hættunni þarf ekki að bera ábyrgð á því hvort viðvörun hans er hlýtt - það segi sig sjálft.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 25.7.2008 kl. 16:59

15 identicon

Þú ert allaf jafn dómhörð og hreint og beint dónaleg Ólína. Missti reyndar allt álit á þér þegar þú skrifaðir í fyrra um banaslysið í fjörunni og líktir því við slys í Hollandi þar sem allir stóðu og aðhöfðust ekkert þótt að ljóst væri að fjölmargir lögðu sig í hættu við björgun í slysinu í Reynisfjöru í fyrra. Þær upplýsingar sem ég hef eru að það sé búið að kanna hvað kostar að koma upp skilti og kostnaðurinn sé 700 þús. Vandamálið er hver á að borga? Landeigendur fá engar tekjur af umferð um fjöruna og því í ósköpunum ættu þeir að leggja í þennan kostnað. Sveitasjóðurinn er ekki dygur og skil vel að það sé frekar reynt að nýta tekjurnar í nauðsynlega þjónustu við íbúana heldur en að setja upp skilti sem tryggir ekki að það verði aldrei aftur slys þarna. En að sjálfsögðu ætti að vera skilti þarna og Ferðamálaráð ætti að sjá sóma sinn í því að koma því upp án tafar. Vildi reyndar gjarnan sjá þarna minnisvarða um konuna sem lést í fyrra og tel það vera mun áhrifaríkara en skilti eingöngu.

Dagrún (IP-tala skráð) 25.7.2008 kl. 21:29

16 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Dómhörkuna bið ég lesendur sjálfa að dæma. En þegar enginn vill setja upp aðvörun á stað sem er stórhættulegur - þá er ljóst að enginn ætlar heldur að leggja sitt til forvarna þarna.

Dagrún, þitt álit á mér skiptir mig engu. 700 þús krónur eru enginn peningur fyrir eitt sveitarfélag - hvert meðal kvenfélag fer létt með að safna 700 þús krónu á einni helgi.

Þið ættuð bara að skammast ykkar Mýrdælingar fyrir aðgerðaleysið í þessu  máli.  Og hafið þið það!

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 26.7.2008 kl. 00:11

17 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Vissulega þurfa að vera viðvaranir sumstaðar. En ekki er hægt að vara við öllu. Það verður að gera ráð fyrir að flestir búi yfir nægjanlegri greind til að ekki þurfi  að segja því; að kaffið sé heitt; að bjarndýr séu hættuleg; að hættulegt sé að labba yfir á rauðu; að labbi það fram af bjargbrún hrapi það vísast til bana og ef það haldi að brimaldan, fyrir opnu hafi á sendinni strönd, sé leiktæki þá vaði það reyk!

Axel Jóhann Hallgrímsson, 26.7.2008 kl. 12:45

18 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Ég er alltof löt við bloggrúnta eða bloggskrif um þessar mundir því miður.

Knús til þín.

Marta B Helgadóttir, 28.7.2008 kl. 16:45

19 Smámynd: Einar Þór Strand

Ólina ég er hissa á að þú hafir ekki séð hættuna skiltislaust því hún liggur í augum uppi.

Einar Þór Strand, 31.7.2008 kl. 20:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband