Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Kynjahlutföllin og landsbyggðin
14.2.2009 | 15:42
Þegar Samfylkingin var stofnuð árið 2000 voru kynjahlutföll jöfn í hópi þingmanna. Ég man ekki betur en að Samfylkingin hafi verið eini flokkurinn sem þá gat státað af jöfnu kynjahlutfalli í þingliði sínu. Nú, áratug síðar, hefur sigið á verri veg. Einungis þriðjungur þingmanna flokksins nú eru konur - þær eru sex, karlarnir tólf.
Það er þó ekki bara kynjamunurinn einn og sér sem veldur áhyggjum - heldur hitt hvernig og hvar hann kemur helst niður. Það vill nefnilega þannig til að í landsbyggðakjördæmunum þremur er engin kona í hópi þingmanna Samfylkingarinnar.
Nú hefur stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar skorað á kjördæmisráð flokksins um land allt að tryggja jafnræði kynja í forystusætum framboðslistanna fyrir þessar alþingiskosningar. Í því sambandi er minnt á jafnréttismarkið sem ítrekað hafa verið sett á landsfundum flokksins.
Hugmyndin um fléttulista þar sem konum og körlum er raðað á víxl, jafnvel þó að atkvæðamagn segi til um annað hefur mætt ákveðinni mótspyrnu hjá þeim sem telja slíkt stríða gegn lýðræðislegu vali. Og vissulega er það skiljanlegt sjónarmið. Þeir sem tala fyrir fléttulistum benda hinsvegar á að enginn framboðslisti geti talist boðlegur nema þar sé að finna bæði karla og konur í jöfnum hlutföllum.
Sjálf hallast ég að því að finna leið sem tekur tillit til beggja sjónarmiða. Þá á ég við fléttulista þar sem sett er atkvæðalágmark. Þannig ætti kona t.d. ekki möguleika á að fara í annað sæti á eftir karlmanni nema hún hafi a.m.k. 2/3 hluta þess atkvæðamagns sem tryggði honum efra sætið. Með því móti væri jafnréttissjónarmiðum fylgt, en þó tekið tillit til atkvæðamagns. Engin(n) sem hlyti þannig sæti á fléttulista þyrfti að sitja undir því að vera þar einungis vegna kynferðis.
Þetta er nú svona til umhugsunar.
Eitthvað þarf að gera til þess að tryggja jafnari kynjahlutföll á listum flokksins án þess að það komi niður á lýðræðislegu vali.
Gleymum því ekki að baráttan fyrir jafnrétti og kvenfrelsi er órjúfanlegur hluti jafnaðarstefnunnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Við þurfum nýja leiðarstjörnu
12.2.2009 | 12:50
Síðustu daga höfum við orði vitni að ómálefnalegum illdeilum og rifrildi þingmanna um fánýta hluti í sölum Alþingis þar sem meiru virðist skipta að koma höggi á pólitíska andstæðinga en bjarga landinu. Þær uppákomur eru sorglegt dæmi um það hversu lítið menn hafa lært af atburðum undangenginna mánaða, þrátt fyrir allt.
Hafi einhverntíma verið ástæða til þess að veita okkar litlu þjóð lausn frá hryllingi gærdagsins með nýrri leiðarstjörnu - þá er það nú.
Við, sem stöndum að áskoruninni um stjórnlagaþing á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is höfum af því vissar áhyggjur að bakslag sé komið í áform stjórnvalda um að verða við þessu ákalli. Í erindisbréfi því sem ráðgjafahópur ríkisstjórnarinnar fékk fyrir nokkrum dögum er lítil áhersla á stjórnlagaþing. Sömuleiðis hafa heyrst úrtöluraddir innan úr flokkunum - þar á meðal ríkisstjórnarflokkunum.
Þeir sem styðja kröfuna um stjórnlagaþing en hafa beðið átekta með að rita nafn sitt á undirskriftalistann ættu ekki að bíða lengur.
Stefnt er að því að afhenda undirskriftirnar 6. eða 7. mars og þá skiptir máli að þær séu sannfærandi margar. Stjórnvöld verða að skilja að þjóðinni sé alvara. Krafan um boðun stjórnlagaþings er brýnni nú en nokkru sinni.
-----------------------
PS: Þessa fallegu mynd fann ég á síðunni www.glymur.blog.is og tók mér það bessaleyfi að birta hana hér.
Hver rekur þessa leyniþjónustu?
11.2.2009 | 11:22
Hvernig vissi Birgir Ármannsson stjórnarandstöðuþingmaður af bréfi Alþjóða gjaldeyrissjóðsins til forsætisráðherra áður en það hafði komið fyrir augu ráðherrans?
Hann var svo handviss um tilvist bréfsins að hann þaut í ræðustól á Alþingi til þess að heimta upplýsingar um innihald þess. Ég sá ekki betur en Einar K. Guðfinnsson væri þarna líka - jafn viss og félagi hans Birgir - báðir fimbulfambandi um leynimakk og pukur.
Forsætisráðherra kom af fjöllum og hafði ekki séð neitt bréf og ég efast ekki eitt augnablik um að ráðherrann sagði það satt.
Hver rekur þessa leyniþjónustu sem nær svo djúpt inn í stjórnsýsluna, að handbendin vita meira en ráðamenn sjálfir?
Hvað er að gerast í íslenska stjórnkerfinu? Ég fæ hroll.
![]() |
Birgir aflétti leynd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)
Fæst orð bera minnsta ábyrgð ... en ég stend nú samt með Dorrit
10.2.2009 | 18:46
Gamla máltækið að fæst orð beri minnsta ábyrgð hefur sannað gildi sitt á Bessastöðum undanfarna sólarhringa. Það er slæmt þegar forseti landsins er borinn fyrir óábyrgum ummælum á alþjóðavísu, hvort sem þau eru tekin úr samhengi eður ei. Nú held ég það sé ráð fyrir forsetaembættið að draga aðeins úr fjölmiðlasamskiptum á þessum viðkvæmu tímum, enda ljóst að fjölmiðlar, jafnt innlendir sem erlendir eru með blóðbragð á tungu yfir öllu sem sagt er þessa dagana.
Ég gat þó ekki að mér gert að skella upp úr við frásagnir af viðureign þeirra forsetahjóna frammi fyrir erlendum blaðamanni sem sagt var frá í gær. Alveg sá ég þau í anda: Ólaf ábyrgan og virðulegan að reyna að ræða alvarlega stöðu lands og þjóðar; Dorrit óþreyjufulla og trúlega hundleiða á þessum formlegheitum að reyna að komast inn í umræðurnar. Hún fór að leika við hundinn. Hann rökræddi við blaðamanninn (grunlaus um þann úlfaþyt sem á eftir fylgdi). Pex og hjónametingur.
En, gott fólk? Hversu mörg miðaldra hjón geta ekki séð sjálf sig í svipuðum sporum, þó við aðrar aðstæður sé?
Dorrit er góð fyrir það að vilja brjótast út úr formlegheitum. Ég stend með henni í því að segja það sem henni býr í brjósti. Um leið get ég vel skilið Ólaf Ragnar að vilja halda aðeins aftur af henni. Hún er jú forsetafrú. Þau hafa bæði nokkuð til síns máls.
En þessi uppákoma milli þeirra hjóna sýnir okkur umfram allt að þau eru manneskjur af holdi og blóði eins og við hin - fólk með taugar og tilfinningar. Það vill stundum gleymast.
![]() |
Viðtalið tekið úr samhengi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Einsdæmið með Davíð - eftirlaun hans og bréfaskriftir
9.2.2009 | 12:18
Ef einhver stendur fjárhagslega vel að vígi að yfirgefa starfsvettvang sinn nú á þessum krepputímum þá ætti það að vera Davíð Oddsson.
Skjátlist mér ekki mun hann njóta a.m.k. fjórfaldra eftirlauna þegar starfstíma hans lýkur. Þið leiðréttið mig endilega ef þetta er rangt - en svo virðist sem Davíð eigi rétt á óskertum eftirlaunum sem 1)Seðlabankastjóri, 2) forsætisráðherra, 3) alþingismaður, og 4)borgarstjóri í Reykjavík. Það held ég hljóti að vera einsdæmi að einn maður eigi svo ríkan eftirlaunarétt - að minnsta kosti hlýtur það að vera fádæmi.
Það er raunalegt að sjá Seðlabankastjórana Davíð Oddsson og Eirík Guðnason streitast við að sitja sem fastast þrátt fyrir beiðni forsætisráðherra um að þeir víki úr stóli Seðlabankastjóra og semji um starfslok. Fleiri eru augljóslega sömu skoðunar, því Lars Christensen, yfirmaður greiningardeildar Danske Bank, segir þvermóðsku Davíðs Oddssonar vera beinlínis "neyðarlega" (sjá hér).
Bréf Davíðs til Jóhönnu Sigurðardóttur er sömuleiðis sérkennileg smíði. Þar sakar hann forsætisráðherra um pólitíska valdníðslu sem eigi sér engin fordæmi um gjörvallan hinn "vestræna heim" ef ég man orðalagið rétt. Hefur Jóhanna þó ekki annað af sér brotið en að gera Seðlabankastjórunum heiðarlega grein fyrir vilja ríkisstjórnarinnar.
Og gleyminn er Davíð.
Sjálfur hefur hann áður skrifað bréf sem forsætisráðherra, eins og fram kemur í greinargóðri samantekt á bloggi Friðriks Þórs Guðmundssonar þar sem rifjuð eru upp bréfaskrif Davíðs frá fyrri tíð, þ.e.:
- Bréf til Sverris Hermannssonar fv. Landsbankastjóra vegna vaxtaákvörðunar ... og ...
- Bréf til biskups Íslands vegna smásöguskrifa sr. Arnar Bárðar Jónssonar þáverandi fræðslufulltrúa Þjóðkirkjunnar.
Í bréfinu til Sverris sem m.a. er rifjað upp í Fréttablaðinu í dag, sagði Davíð m.a. ...
... ef þið lagið ekki þvæluna, sem þið gerðuð í síðasta vaxtaóðagoti, er það endanlegt dæmi þess að þið vitið ekki hvað þið eruð að gera og þá mun ég sjá til þess fyrr en nokkurn grunar að menn komi að bankanum sem viti hvað þeir eru að gera. Ég vil fá svar frá þér annað en skæting í fjölmiðlum strax því ég mun ekki sitja lengur kyrr ...
Einsdæmi??
![]() |
Lýsir miklum vonbrigðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (43)
Verkin sem vinna þarf
8.2.2009 | 13:18
Það var líf og fjör í umræðunum á Sprengisandinum hjá Sigurjóni M. Egilssyni í morgun. Þar sátum við á rökstólum, ég, Helga Sigrún Harðardóttir alþingismaður og Þórlindur Kjartansson formaður SUS og ræddum landsins gagn og nauðsynjar - nánar til tekið: Stjórnmálaástandið og horfurnar sem eru mál málanna þessa dagana (hlusta hér).
Annars var ég að kynna mér verkefnaskrá nýju ríkisstjórnarinnar. Þar er margt sem vekur von um góðan ásetning um brýnar aðgerðir í þágu heimila og atvinnulífs, til endurreisnar bankakerfisins, á sviði endurbóta í stjórnsýslu og aðgerðum í þágu aukins lýðræðis og opins og heiðarlegs samfélags, eins og þar stendur.
Athygli mína vakti fyrirheit um nýjar siðareglur í stjórnarráðinu, afnám eftirlaunalaganna um alþingis og ráðherra, endurskoðun laga um ráðherraábyrgð og ekki síst breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins og stjórnlagaþing.
Fyrirheitið um endurreisn efnahagslífsins og endurskipulagningu stjórnsýslunnar veltur vitanlega á fleiri aðilum en ríkisstjórninni. Það veltur á þingheimi í heild sinni - og þjóðinni sjálfri.
Nú ríður á að sátt náist um að vinna hratt og vel að björgun þjóðarbúsins með þáttöku þjóðarinnar sjálfrar.
PS: Sjá líka viðtal mitt við Gísla Tryggvason á ÍNN
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.2.2009 kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Kastljósið í kvöld - ÍNN á mánudagskvöld.
31.1.2009 | 00:10
Í kvöld mætti ég þeim Þorbjörgu Helgu Vigfússdóttur og Ómari R Valdimarssyni í Kastljósi vikunnar. Við tókumst á um atburði líðandi viku, stjórnarmyndunarviðræðurnar og horfurnar framundan. Það glóði svolítið á okkur Þorbjörgu Helgu sá ég þegar ég kíkti á þáttinn á netinu. Hún er ung og glæsileg kona með ákveðnar skoðanir og mjög ákveðna framkomu - en auðvitað vorum við ekki sammála um margt frekar en við mátti búast.
Þeir sem áhuga hafa geta horft á þetta spjall okkar HÉR.
Fyrr um daginn gerði ég hálftíma þátt á ÍNN sem verður víst ekki sendur út fyrr en á mánudagskvöld kl. 21.30. En sá þáttur fjallar um stjórnarskrárbreytingar og stjórnlagaþing. Ég fékk til liðs við mig Gísla Tryggvason, talsmann neytenda. Hann er lögfræðingur að mennt og hefur látið sig þessi mál varða ekki síst á bloggsíðu sinni (sjá hér).
Þið fylgist vonandi með þessu þegar þar að kemur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.2.2009 kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Á leið í framboð?
30.1.2009 | 16:23
Ég hef lesið það á netinu - haft eftir DV - að ég sé á leið í framboð fyrir nýtt stjórnmálaafl. Þegar nánar er rýnt í þessar fréttir sem m.a. hafa birst á bb.is og visir.is má sjá að þetta eru getgátur sem hver hefur eftir öðrum. Ég sé ekki betur en fréttin sé sú mest lesna á bb.is þennan sólarhringinn.
Það er einmitt.
Enginn þessara ágætu fjölmiðla hafa séð ástæðu til að spyrja mig sjálfa um þetta mál. Er ég þó skilmerkilega skráð í símaskrá með bæði heimsíma og gsm númer.
Því er til að svara að ég stend ásamt fleirum að þverpólitískri undirskriftarsöfnun og áskorun á stjórnvöld á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is ásamt fleiri góðum Íslendingum. Sá hópur er ekki stjórnmálaafl og er ótengdur öllum hagsmunaöflum og stjórnmálaframboðum.
Ég er því ekki á leið í þingframboð fyrir nýtt stjórnmálaafl sem stofnað kann að verða um þessa einu kröfu: Nýtt lýðveldi.
Ég sé heldur enga þörf á slíku stjórnmálaafli um þessar mundir þar sem svo virðist sem sú ríkisstjórn sem er í burðarliðnum hafi tekið þetta mál upp á sína arma.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Krafan um nýtt lýðveldi er ennþá brýn!
28.1.2009 | 11:34
Ég verð þess vör, nú þegar stjórnarmyndunarviðræður eru hafnar, að það er eins og spennufall hafi orðið meðal almennings. Samfélagið heldur niðri í sér andanum og bíður þess sem verða vill. Ég sé þetta m.a. á því að nú hefur hægt á hraða undirskriftanna á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is
Ekki veit ég hvort fólk heldur að krafan um boðun stjórnlagaþings og nýja stjórnarskrá standi og falli með nýrri ríkisstjórn. Sannleikurinn er sá að svo er ekki. Áskorun okkar á alþingi og forseta að boða til stjórnlagaþings er jafn brýn eftir sem áður - án tillits til þess hvaða stjórnarmynstur verður ofan á. Hinsvegar virðist sem óskin um utanþingsstjórn sé ósk gærdagsins, ef svo fer sem horfir að ný ríkisstjórn verði mynduð í dag. Gott og vel, þá leggjum við þann lið áskorunarinnar til hliðar verði það niðurstaðan.
En krafan um Nýtt lýðveldi er enn brýnni en nokkru sinni - og betur má ef duga skal við að koma þeirri kröfu almennilega til skila. Hér er vefsíðan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Stjórnmálaástandið og horfurnar við stjórnarmyndun
27.1.2009 | 10:25
Stjórnmálaástandið, stjórnarmyndunarviðræðurnar og horfurnar framundan voru til umræðu á Morgunvaktinni í morgun þar sem við Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur sátum á rökstólum. Þið sem áhuga hafið getið hlustað hér.
Þó svo að útlit sé fyrir að Samfylking og VG hafi nú þegar komið sér saman um myndun minnihlutastjórnar með hlutleysi Framsóknarflokks - og það séu því umtalsverðar líkur á slíkri ríkisstjórn - er margt sem mælir frekar með þjóðstjórn eða utanþingsstjórn eins og sakir standa. Það eitt að kosningar eru framundan eykur flækjustigið sem við þurfum síst á að halda. Þegar ráðherrar standa annarsvegar í kosningabaráttu, hinsvegar frammi fyrir erfiðum ákvörðunum, þá er hætta á að ákvarðanirnar líði fyrir annarskonar hagsmuni.
Þjóðstjórn neyðir hinsvegar alla að stjórnarborðinu og þar með til samábyrgðar á þeim ákvörðunum sem teknar verða. Það gæti verið kostur í stöðunni.
Helst er ég þó á því að það eigi að mynda stjórn með fólki utan alþingis sem er ekki sjálft á kafi í kosningabaráttu um leið og það er að stjórna landinu.
Það er mín skoðun - við sjáum hvað setur.
En það eru komnar 6007 undirskriftir við kröfuna um nýtt lýðveldi
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)