Færsluflokkur: Bloggar
Allt á öðrum endanum!
14.6.2009 | 12:23
Jæja, þá er húsið mitt á Framnesveginum að komast í samt lag aftur eftir sex vikna umsátursástand hers af iðnaðarmönnum: Smiðum, pípurum, málurum og altmúlígmönnum. Þetta hefur auðvitað verið skelfilegt ástand, eftir að í ljós komu vatns og rakaskemmdir sem gera þurfti við. Svo fór af stað einhverskonar keðjuverkun - því þegar eitt er lagað blasir annað við sem gera má "í leiðinni" (þið þekkið þetta kannski).
Fyrstu þrjár vikurnar reyndi ég að búa í húsinu - svo gafst ég upp og fékk inni hjá systur minni elskulegri. Hún lánaði mér íbúðina sína í Hlíðunum sem var blessunarlega mannlaus um tíma. Það kom sér sannarlega vel að geta flúið í skjól undan hamarshöggum og saggalykt.
Daginn eftir að ég var komin í skjólið hjá systur, hringdi dyrabjallan. Á tröppunum stóðu þrír vörpulegir iðnaðarmenn komnir til að gera við baðherbergið. Mér varð um og ó - en þeir stoppuðu nú stutt við blessaðir.
Meðan á öllu þessu hefur staðið hef ég verið að setja mig inn í allar aðstæður í þinginu - búandi hálfpartinn í ferðatösku. Og nú um helgina náði óreiðan hámarki - því um leið og húsið var að verða tilbúið, tók við hver viðburðurinn á fætur öðrum. Allt hefur það þó verið fagnaðarefni: Pétur sonur minn að útskrifast úr HR, afmæli eiginmannsins og barnabarnsins, stórafmæli hjá góðum vini og ýmislegt annað. Svona er þetta svo oft í lífinu - ef það kemst hreyfing á hlutina á annað borð, þá fer einhvernvegin allt af stað.
En sumsé, nú er ég komin með nýtt hús! Bara frágangsatriðin eftir. Siggi kominn suður og fer nú um húsið vopnaður borvél, hamri og skrúfjárni - bara ansi verklegur.
Ég er auðvitað alsæl í augnablikinu - enda er reikningurinn fyrir herlegheitunum ekki kominn.
En nú má ég ekki vera að því að hangsa hér - er farin að skúra og gera hreint.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Skuggahlið bloggsins
11.6.2009 | 15:34
Ég heyri það að þú ert nýbyrjuð - sagði fyrrverandi þingmaður við mig í samtali fyrr í dag. Ég var að tjá honum áhyggjur mínar yfir framgangi tiltekins máls sem ég hef með höndum. Ég var að segja honum frá athugasemdum og ummælum sem ég hefði heyrt frá tilteknum aðilum og vildi taka mark á. Honum fannst ég taka þessu allt of alvarlega- og kannski hefur hann nokkuð til síns máls.
Kannski er ég að taka allar athugasemdir sem falla of alvarlega. En ástæðan er sú að ég tek starf mitt alvarlega og lít á það sem skyldu mína að hlusta á fólk og taka tillit til sjónarmiða þess. Um leið finnst mér brýnt að leyna ekki skoðun minni og vera hreinskiptin.
Þetta gerir sjálfri mér erfitt fyrir, því þegar fólk beinir reiði sinni að mér persónulega - reiði sem á þó upptök sín annarsstaðar og verða ekki rakin til mín - þá hefur það samt áhrif á mig. Ég er bara þannig sköpuð - þegar ég skynja vanlíðan og reiði annarra líður mér illa.
Síðust daga hafa komið margar athugasemdir inn á bloggsíðuna mína þar sem fólk tjáir reiði og vanlíðan með ýmsu móti. Birtingarmynd þessa hefur á köflum verið neikvæðari og persónulegri en góðu hófi gegnir.
Ég byrjaði upphaflega að blogga fyrir rælni - en ástæða þess að ég hélt áfram var sú að það gaf mér heilmikið að eiga skoðanaskipti við fólk. Eftir að ég varð þingmaður hafa þessi samskipti breyst. Það er auðséð að fjöldi manns lítur mig ekki sömu augum og áður, og athugasemdirnar bera þess vitni. Alls kyns skætingur, meinbægni og útúrsnúningar eru að verða hér daglegt brauð á kostnað uppbyggilegrar rökræðu. Afraksturinn er m.a. sá að margir góðir bloggvinir hafa horfið á braut og sjást ekki hér lengur. Ég sakna þeirra. Ég sakna ánægjunnar af því að skiptast á orðum við velviljað og áhugasamt fólk.
Ég hugleiði nú alvarlega að loka fyrir allar athugasemdir hér á blogginu - vegna þess hvernig orðræðan hefur þróast í athugasemdakerfinu.
Ég ætla að gefa þessu tvo þrjá daga. En verði ekki breyting á því hvernig fólk tjáir sig hér, þá mun ég loka fyrir skoðanaskiptin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (51)
Svar mitt við áskorunum dagsins
8.6.2009 | 23:42
Í dag hefur rignt inn í póstkerfið mitt fjöldaáskorunum vegna Ice-save samningsins sem var til umræðu á Alþingi í dag. Þetta eru staðlaðar bréfasendingar sem sendar eru með skipulögðum hætti, sumir senda aftur og aftur og fara ekki dult með, því þær sendingar eru merktar áskorun 2, áskorun 3 o.s. frv.
Ég hef brugðist þannig við þessum sendingum að svara þeim með rökstuðningi fyrir afstöðu minni í málinu. Því miður virðist það ekki nægja sumum sem halda áfram að senda mér áskorun sína í sífellu. Þeir leggja augljóslega meira upp úr því að fylla pósthólfið mitt, en að koma sjónarmiðinu á framfæri eða kalla eftir svörum.
Þannig að nú er ég hætt að senda svör. Kemst einfaldlega ekki yfir það að skrifa fleirum, enda er ég búin að missa yfirsýn yfir það hverjir eru að senda í fyrsta, annað eða þriðja sinn.
Svar mitt er á þessa leið:
Ég lít svo á að íslensk stjórnvöld séu nú að róa lífróður fyrir íslenska þjóð, og ég er tilbúin að aðstoða þau við þann róður af öllum mínum kröftum. Eftirköstin af efnahagshruninu verða ekki auðveld - það vissum við. Nú er komið að skuldadögunum. Við eigum enga leið út úr hruninu aðra en að moka, og
það verða allir að hjálpast að við þann mokstur, hvort sem þeir bera ábyrgð á hruninu eða ekki.
Ég er ekki sátt við það að þurfa að taka á mig lífskjaraskerðingu og hækkun lána í framtíðinni vegna þessa ástands, enda ber ég enga ábyrgð á því frekar en þú. En við erum ein þjóð, og við verðum að takst á við þetta sem þjóð. Ekki bara okkar sjálfra vegna heldur barnanna okkar vegna og barnanna þeirra. Það er það minnsta sem við getum gert. Ég trúi því að þær aðgerðir sem nú eru í gangi, miði einmitt að því að bjarga. Þess vegna styð ég þær heilshugar og mun greiða atkvæði með þeim. Ég gæti ekki samvisku minnar vegna setið hjá, og þaðan af síður greitt atkvæði gegn, því ég trúi því að með Ice-save samningnum hafi verið kastað til okkar líflínu sem muni ráða úrslitum um það hvort við eigum okkur viðreisnar von sem þjóð.
Dómstólaleiðin er að mati fjölmargra lögfræðinga ekki fær fyrir okkur - þeir bjartsýnustu segja hana afar áhættusama. Í því ljósi, sé ég enga aðra leið en þá sem nú er verið að fara. Lánið er okkur hagstætt, 5,5% vextir og sjö ára greiðslufrestur í upphafi, meðan verið er að ná eignum Landsbankans upp í
skuldir. Svartsýnustu spár segja að eignirnar muni duga fyrir 75% af láninu, þeir bjartsýnustu tala um 95%.
Með fullri virðingu fyrir skoðunum annarra - þá mun ég í þessu máli hlýða mínni eigin samvisku eins og Þingmannseiðurinn kveður á um að mér beri að gera. Ég mun ekki láta undan þrýstingi frá hvorki stjórn né stjórnarandstöðu, og mun ekki láta æsingslega og óábyrga umræðu villa mér sýn í þessu máli.
Hér er of mikið í húfi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
Landráð - lét hún það heita
5.6.2009 | 16:02
Nú falla þung orð í þinginu - þyngri en efni standa til.
Þingmaðurinn Eygló Harðardóttir sakar ríkisstjórnina um "landráð" og menn tala blygðunarlaust um "lygar", benda með fingri á einstaka þingmenn og þar fram eftir götum.
Eitt er að kalla eftir lýðræðislegri umræðu - sjálfsagt að virða slíkar óskir. En þeir sem hrópa á opna og lýðræðislega umræðu verða líka að vera ábyrgir orða sinna og gæta þeirra.
Þingmenn geta ekki leyft sér hvað sem er í orðavali þegar þeir standa í ræðustóli Alþingis.
"Landráð" eru stórt orð.
Hér má sjá fyrri athugasemd mina við þetta í umræðum þingsins í dag og hér er sú síðari. Hávær framíköll sem heyrast í annarri athugasemdinni koma frá nokkrum stjórnarandstæðingum, einkum Eygló Harðardóttur og Tryggva Þór Herbertssyni.
Stór orð á Alþingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (59)
Erfiður dagur í þinginu
29.5.2009 | 08:36
Gærdagurinn var býsna viðburðaríkur í þinginu. Fram undir kvöld stóðu linnulausar ræður um þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um að þingið samþykkti aðildarumsókn að ESB sem síðan yrði að loknum aðildarviðræðum borin undir þjóðaratkvæði. Fjölmargir voru á mælendaskrá, og komust færri að en vildu. Umræðan heldur áfram á morgun svo málið er ekki fjarri því að vera fullrætt.
Ég komst ekki að með ræðu í dag, en fór upp í einu andsvari (sjá hér).
Um kvöldmat var gert hlé á umræðunni, en að því loknu voru tekin fyrir öllu erfiðari mál. Þar á meðal hækkun á áfengi, tóbaki, olíu og bensín. Um þetta spunnust miklar umræður sem vonlegt er.
Þetta er því miður aðeins byrjunin - því fleira mun á næstunni fylgja í kjölsogið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Fyrirspurn um meðferð aflaheimilda
28.5.2009 | 17:59
Fróðlegt væri að vita hversu mikið magn aflaheimilda hefur verið leigt milli útgerða á liðnum árum. Sömuleiðis hversu mikið af ónýttum aflaheimildum hefur verið fært milli ára og/eða yfirfært í aðrar tegundir. Upplýsingar af þessu tagi varpa ljósi á það hvað um er að ræða þegar talað er um leiguliðakerfi - þær varpa ljósi á það hvort réttlætanlegt er að tala um "kvótabrask".
Þess vegna ég nú lagt fram fyrirspurn í þinginu um þetta efni, og vonast ég til að svör fáist innan skamms.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Hrun eða heilbrigð leiðrétting?
27.5.2009 | 23:14
Útvegsmenn heyja nú hart áróðursstríð gegn breytingum á núverandi kvótakerfi, eins og sjá má á síðum Morgunblaðsins þessa dagana, þar sem hver opnan af annarri er lögð undir málflutning þeirra. Þar er hrópað hrun" yfir sjávarútveginn í landinu verði fyrningarleiðin farin, og gefin 6,5 ár - nákvæmt skal það vera. Þar með muni fiskveiðar leggjast af við Íslands strendur. Þeir tala eins og verið sé að hramsa frá þeim þeirra lögmætu eign" og þjóðnýta" hana eins og það er orðað.
Þannig hafa viðbrögðin við fyrirhugðum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu verið líkari ofsafengnu ofnæmislosti en eðlilegum varnarviðbrögðum. Enda fær fátt staðist í þessum málflutningi útvegsmanna, sé nánar að gætt.
Förum nú yfir nokkur atriði í rólegheitum. Í 1. gr. Fiskveiðistjórnunarlaga segir:
Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar ... Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.
Það er m.ö.o. þjóðin sem á fiskinn í sjónum. Útgerðin hefur nýtingarrétt á þessari auðlind, en vilji löggjafans varðandi eignarhaldið er alveg skýr.
Fiskveiðar munu að sjálfsögðu ekki leggjast af þó að ríkið gefi útgerðinni kost á að afskrifa árlega tiltekið hlutfall aflaheimilda - þó að stofnaður verði auðlindasjóður þaðan sem veiðiheimildum verður ráðstafað til framtíðarnota fyrir útgerðina í landinu.
Innköllun aflaheimilda í áföngum á 20 árum í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta er ekki umbylting" á þessu kerfi og mun ekki leiða hrun" yfir sjávarútveginn. Þvert á móti er hún sanngjörn, hófsöm og löngu tímabær leiðrétting á þessu óréttláta kerfi, sem hefur í sér innbyggða meinsemd og mismunun.
Gleymum ekki úrskurði Mannréttindanefndar SÞ um að núverandi kvótakerfi sé brot á mannréttindum og hindri eðlilega nýliðun.
Gleymum því ekki að í þessu kerfi eru menn tilneyddir að gerast leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna.
Þetta er kerfi þar sem aflaheimildirnar voru upphaflega færðar útgerðunum endurgjaldslaust í hendur, en hafa síðan verið meðhöndlaðar sem hvert annað erfða- og skiptagóss. Ef útgerðarmaður deyr eða ákveður að selja og flytja, situr byggðarlag eftir í sárum. Fiskveiðiheimildirnar horfar úr þorpinu, og lífsafkoma fiskvinnslufólksins þar með. Þetta eru raunveruleg dæmi sem komið hafa upp.
Kvótakerfið er bara eins og hver önnur mannasetning - enda ekki nema um tveggja áratuga gamalt. Þetta kerfi var illa ígrundað í upphafi. Það leiddi af sér alvarlega röskun og atvinnubrest í heilum byggðarlögum. Sá atvinnubrestur risti á sínum tíma mun dýpra en það atvinnuleysi sem nú ógnar almenningi á suðvesturhorninu.
Síðast en ekki síst, felur þetta rangláta kerfi í sér samskonar meinsemd skuldasöfnunar og yfirveðsetningar og þá sem olli efnahagshruninu í haust. Sjávarútvegurinn skuldar 400-500 milljarða króna - verulegur hluti skuldanna liggur hjá erlendum kröfuhöfum. Í talnabálkum sem birtir voru í kveri sem LÍÚ sendi út fyrir síðustu kosningar má sjá að atvinnugreinin mun aldrei geta staðið undir þessum skuldum.
Nærtækt er að álykta sem svo að þarna liggi raunveruleg ástæða þess hversu tíðrætt útgerðarmönnum hefur orðið um hrun" og yfirvofandi gjaldþrot" í greininni. Ástæðan er nefnilega ekki fyrirhuguð fyrningarleið. Ástæðan er geigvænleg offjárfesting á umliðnum árum, þar með ofurskuldsetning, þar með ofurveðsetning. Þetta er hin napra staðreynd.
Ákefðin í umræðunni um fyrningarleið kann hinsvegar að vera ákjósanlegt skálkaskjól til þess að fela óþægilegar staðreyndir um stöðu sjávarútvegsins - stöðu sem útvegsmenn hafa sjálfir komið sér í án íhlutunar stjórnvalda.
Nú loksins, stendur til að leiðrétta hið rangláta kvótakerfi. Það er vel.
Það er hinsvegar sorglegt að íslensk þjóð skuli á erfiðum tímum þurfa að verja eign sína og forræði yfir fiskimiðunum fyrir ásælni útgerðarinnar. Að hún skuli þurfa að verja sig fyrir þeim aðilum sem áratugum saman hafa notið gæðanna af þjóðarauðlindinni og gengið um hana eins og þeir ættu hana, þvert á anda og fyrirmæli laga.
Fyrirhugaðar breytingar á kvótakerfinu eru eitt mesta réttlætismál í íslensku samfélagi um þessar mundir.
------------
Grein um sama efni birtist eftir mig í Mbl í morgun, undir fyrirsögninni Fyrningarleið: Hrun eða heilbrigð leiðrétting.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Farin í hundana
22.5.2009 | 08:21
Nú er ég á leiðinni austur á Úlfljótsvatni með Skutul minn. Björgunarhundasveit Íslands verður þar með æfinganámskeið um helgina eins og oft áður um þetta leyti árs. Ég mun því taka frí frá bloggi og pólitík meðan á þessu stendur og einbeita mér að þjálfun hundsins.
Hann stendur sig annars vel litla skinnið - er vinnusamur, áhugasamur og hlýðinn eins og hann á kyn til. Border-Collie er alveg einstök hundategund, og hann sver sig vel í ættina, blessaður.
Góða helgi öllsömul.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þeim væri nær að koma að borðinu
21.5.2009 | 13:07
Innköllun aflaheimilda í áföngum á 20 árum í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta er ekki umbylting á þessu kerfi og mun ekki leiða hrun yfir sjávarútveginn. Þvert á móti er hún sanngjörn og hófsöm leiðrétting á þessu óréttláta kerfi.
Málið snýst um löngu tímabæra leiðréttingu á ranglátu framsalskerfi fiskveiðiheimilda - kerfi sem hefur í sér innbyggða meinsemd og mismunun. Við erum hér að tala um kerfi sem samkvæmt úrskurði Mannréttindanefndar SÞ brýtur mannréttindi og hindrar eðlilega nýliðun, þar sem menn eru tilneyddir að gerast leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna. Kerfi þar sem aflaheimildirnar voru upphaflega færðar útgerðunum endurgjaldslaust í hendur - og eru nú meðhöndlaðar sem hvert annað erfða- og skiptagóss. Ranglátt kerfi sem felur í sér samskonar meinsemd skuldasöfnunar og yfirveðsetningar og þá sem olli efnahagshruninu í haust.
Þetta frjálsa framsalskerfi fiskveiðiheimilda - kvótakerfið - er eins og hver önnur mannasetning: Það var illa ígrundað í upphafi, og leiddi af sér alvarlega röskun og atvinnubrest í heilum byggðarlögum. Atvinnubrest sem risti mun dýpra en það atvinnuleysi sem nú ógnar almenningi á suðvesturhorninu.
Nú loksins, stendur til að leiðrétta þetta ranglæti. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er algjörlega skýr í þessu efni: Ríkisstjórnin hefur lýst yfir vilja til þess að gera nauðsynlegar, og löngu tímabærar breytingar á kvótakerfinu. Nú er lag - og nú er nauðsyn, því að óbreyttu eigum við það á hættu að fiskveiðiauðlíndir þjóðarinnar verði einfaldlega teknar upp í erlendar skuldir og hverfi þar með úr höndum okkar Íslendinga. Svo vel hefur útgerðinni tekist til - eða hitt þó heldur - við að höndla þá miklu gjöf sem henni var færð á kostnað byggðarlaganna fyrir tæpum aldarfjórðungi.
Og nú er gamli grátkórinn, sem svo var kallaður hér á árum áður, aftur tekinn að hljóma, í háværu harmakveini. Nú hrópa menn um yfirvofandi hrun, tala eins og að hér eigi að umbylta kerfinu á einni nóttu.
Málflutningur þeirra sem harðast hafa talað gegn hinni svokölluðu fyrningarleið er í litlu samræmi við tilefnið og á meira skylt við sérhagsmunagæslu undir yfirskini stjórnmála.
Hagsmunaaðilum í sjávarútvegi væri nær að ganga til samstarfs við íslensku stjórnvöld um nauðsynlegar breytingar á þessu kerfi. Þiggja þá útréttu hönd sem þeim hefur verið rétt, koma að borðinu og vera hluti af þeim sáttum sem þarf að ná við sjálfa þjóðina (ekki bara útgerðina) um þetta mál.
--------------
Utandagskrárumræðuna í heild sinni má sjá hér á vef Alþingis (fyrst er hálftíma umræða um störf þingsins (það má hraðspóla yfir hana) - svo taka sjávarútvegsmálin við ).
Bloggar | Breytt 22.5.2009 kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Hverjir eru þjóðin?
19.5.2009 | 16:53
Nú sit ég hér á skrifstofu minni - er þó eiginlega stödd á þingfundi, því umræðan þar stendur yfir og ég er með kveikt á sjónvarpinu. Ég á þess þó ekki kost að vera í þingsalnum lengur þar sem ég verð að undirbúa ræðu fyrir utandagskrárumræðu á morgun.
Nú geri ég hlé á vinnu minni til að nefna þetta - vegna þess að rétt í þessu var Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, að hneykslast á því að ekki skuli fleiri sitja í þingsalnum að hlusta á umræðurnar sem hófust kl. 13.30. Hann talaði eins og allir væru farnir heim.
Það er eins og hann viti ekki að líkamleg viðvera er ekki skilyrði þess að vera viðstaddur umræðurnar. Þingmenn eru að störfum um allt þinghúsið og á skrifstofum sínum. Allstaðar eru sjónvörp og hátalarakerfi þannig að menn heyra umræðurnar, hvar sem þeir eru staddir. Satt að segja hefði ég haldið að Þór Saari væri farinn að kynnast því sjálfur hversu mikið annríki fylgir þingmennskunni - en hann virðist standa í þeirri trú að mannskapurinn sé farinn heim.
Og úr því ég er farin að hnýta í þetta, þá vil ég nefna annað.
Það stakk mig svolítið við eldhúsdagsumræðuna í gærkvöldi að heyra talsmenn Borgarahreyfingarinnar tala um sjálfa sig sem sérlega fulltrúa þjóðarinnar.
En sjáið nú til: Ég lít ekki svo á að ég sé þjóðkjörin á Alþingi Íslendinga - tilheyri ég þó flokki sem er stærsti stjórnmálaflokkur á Íslandi með um 56 þús atkvæði, eða 30% fylgi. Borgarhreyfinguna kusu ríflega 13 þúsund manns eða 7,2% kjósenda. Vissulega tilheyra þessir kjósendur þjóðinni - það gera líka, og ekki síður, hin 92,8% sem kusu eitthvað annað.
En ... nú er ég búin að semja ræðuna fyrir morgundaginn og ætla að trítla aftur út í þinghús þar sem ég mun sitja þar til þingfundi lýkur.
----
PS: Ekki var ég fyrr sest í mitt sæti en Saari og félagar yfirgáfu salinn undir ræðu fjármálaráðherra og sást ekkert þeirra meir á þeim fundi (sem var reyndar langt kominn, svo þau misstu ekki af miklu). Svolítið fyndið samt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)