Færsluflokkur: Bloggar
Hvernig úthafsrækja verður að þorski
2.7.2009 | 23:36
Framkvæmdastjóri LÍÚ sakar mig um þekkingarskort þegar ég held því fram að braskað sé með úthafsrækju þannig að hún geti orðið að þorski.
Málið hefur verið til umræðu á Morgunvaktinni á Rás-2 tvo undanfarna morgna, þar sem ég og Friðrik J. Arngrímsson höfum verið viðmælendur sitt hvorn daginn. Framkvæmdastjóri útvegsmanna reyndi að snúa sig út úr gagnrýni á braskið í kvótakerfinu með því að veitast að þeim sem bera hana á borð, gera lítið úr þekkingu þeirra, saka þá um annarleg sjónarmið o.s.frv. Hann um það.
Nú ætla ég að útskýra hvernig úthafsrækja getur orðið að þorski.
Útgerðir hafa leyfi til þess að leigja til sín og frá sér kvóta. Þær geta einnig geymt kvóta og fært hann milli tegunda í vissum mæli. Í þessu tilviki snýst málið um að leigja til sín ódýra tegund og skapa sér þannig rétt til þess að leigja frá sér aðra dýrari tegund og hagnast á mismuninum.
Fisktegundirnar eru nefnilega misverðmætar þegar þær koma upp úr sjónum. Þorskur er t.d. helmingi þyngri á metum en rækja, og því er tonn af rækju ríflega hálft þorskígildistonn (stuðullinn er reyndar 0,57 en við skulum miða við 0,50 til að einfalda dæmið hér á eftir).
Útgerðir geta leigt frá sér allt að helming þess kvóta sem þær hafa til ráðstöfunar. Þorskurinn er verðmætastur og því borgar sig að leigja sem mest út af honum.
Nú er útgerð með 100 tonn af þorski til ráðstöfunar. Hún hefur veitt 75 tonn og ákveður að leigja frá sér 25 tonn. Vegna helmingsreglunnar þarf hún að sýna fram á að hún eigi 50 þorskígildistonn umfram það sem veitt hefur verið - þ.e. helmingi meira en það sem ætlunin er að leigja út. Þessi 50 þosrskígildistonn gætu t.d. verið 100 tonn af einhverri tegund sem er metin hálfgildi þorsks.
Við skulum segja að það sé úthafsrækja. Útgerðarmaðurinn leigir því til sín 100 tonn af úthafsrækju.
Nú man ég ekki leiguverðið á úthafsrækju, en 2-3 kr/kg eru nærri lagi. Úgerðin borgar því allt að 300 þús fyrir þessi 100 tonn. Þau gera útgerðinni kleift að leigja frá sér 25 tonn af þorski fyrir 200 kr/kg. Það gerir 4 milljónir króna í innkomu. Hagnaðurinn í þessu upphugsaða dæmi er þá 3,7 mkr, sem er auðvitað ekki nákvæm tala, en gefur þó nokkuð góða hugmynd.
Það er því vel skiljanlegt að menn vilji frekar nota úthafsrækjukvótann með þessum hætti heldur en að veiða hann - þetta borgar sig fyrir útgerðina.
Þannig kallar kerfið sjálft á braskið!
Annað form á kvótabraski eru tegundatilfærslurnar, þegar ein tegund er veidd í nafni annarrar, af því að útgerðin hefur heimild til þess að færa tegundir á milli upp að vissu marki. Slíkar tilfærslur geta því leitt til umframveiða í ákveðnum tegundum, eins og t.d. á ufsa.
Þriðja form brasksins er svo geymslurétturinn sem felst í því að menn geta geymt allt að 30% óveidds kvóta milli ára (nokkuð sem Einar K. Guðfinnsson fv. sjávarútvegsráðherra jók úr 20% í tæpan þriðjung um síðustu áramót). Þetta er sögð skýringin á því að kvóti fæst ekki leigður eins og sakir standa því að útgerðirnar "halda að sér höndum" eins og það heitir. Grunur hefur vaknað um að það sé vísvitandi gert til að skapa þrýsting á stjórnvöld vegna fyrirhugaðrar fyrningarleiðar. En það er önnur umræða.
Niðurstaðan: Kerfið er farið að vinna gegn tilgangi sínum, þ.e, verndun og hagkvæmri nýtingu fiskistofna.
Kerfinu verður að breyta.
Bloggar | Breytt 3.7.2009 kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Kvótabrask og fiskveiðistjórnun
1.7.2009 | 11:49
Síðustu daga hafa verið að koma fram athyglisverðar upplýsingar um meðferð aflaheimilda í fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Svör sem ég hef fengið við fyrirspurn minni til sjávarútvegsráðherra um þetta mál benda eindregið til þess að verið sé að flytja umtalsvert magn kvóta milli tegunda og ára.
Nýleg skýrsla tveggja laganema á Bifröst, þeirra Þórðar Más Jónssonar og Finnboga Vikars, hefur leitt hið sama í ljós, eins og fram hefur komið í Kastljósi sjónvarpsins undanfarin kvöld. Skýrsla þeirra félaganna er afar vel unnin og í alla staði athyglisverð. Hún leiðir meðal annars í ljós hvernig vannýttir nytjastofnar hafa verið notaðir sem skiptimynt í braski, til útleigu á kvóta, til veðsetninga og til að skapa veiðirétt í öðrum dýrari tegundum. Þessar tilfærslur ganga í berhögg við yfirlýstan tilgang fiskveiðistjórnunarlaganna sem er "verndun og hagkvæmni" í nýtingu fiskistofnanna við Ísland.
Málið var til umræðu á Morgunvaktinni á Rás-2 í morgun þar sem ég spjallaði við þau Láru Ómars og Frey Eyjólfs. Þessi hluti umræðunnar er rétt framan við miðju.
http://thordurmar.blog.is/blog/thordurmar/entry/905606/
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þakkarverð samábyrgð
25.6.2009 | 16:42
Það er svo sannarlega ástæða til að óska þjóðinni til hamingju með Stöðugleikasáttmálann.
Þetta samkomulag við aðila vinnumarkaðarins er í raun og veru forsendan fyrir því að áform um endurreisn efnahagslífsins nái fram að ganga, eins og forsætisráðherra hefur bent á.
Allir þeir sem komið hafa að sáttmálagerðinni hafa sýnt ábyrgð og sanngirni í þessum samningaviðræðum. Slíkt hugarfar er aldrei mikilvægara en þegar þrengir að í lífi þjóðarinnar. Og einmitt þess vegna er ástæða til þess að þakka fyrir þann samningsvilja og samábyrgð sem allir hlutaðeigandi hafa sýnt við gerð Stöðugleikasáttmálans.
Til hamingju með sáttmálann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fundaferð Samfylkingarinnar
25.6.2009 | 01:27
Þessa dagana eru þingmenn Samfylkingarinnar á fundum með fólki úti í kjördæmunum að ræða þau mál sem hæst ber í þinginu, Ice-save, ríkisfjármálin, efnahagsráðstafanirnar, ESB, sjávarútvegsmálin og fleira sem brennur á fólki.
Í kvöld var ég á ágætum fundi í Grundarfirði ásamt Jónínu Rós Guðmundsdóttur, samflokkskonu minni og þingmanni í NA-kjördæmi og Davíð Sveinssyni bæjarfulltrúa.
Við Jónína Rós ókum saman vestur í sumarblíðunni nú síðdegis og nutum fegurðar Borgarfjarðar og Snæfellsness á leiðinni. Áttum svo ágætan fund með heimamönnum í kvöld þar sem margt var skrafað um landsins gagn og nauðsynjar.
Í gær var vel sóttur og skemmtilegur fundur á Ísafirði með mér, Kristjáni Möller samgönguráðherra og Sigurði Péturssyni, bæjarfulltrúa. Á morgun verð ég á Akranesi ásamt Guðbjarti Hannessyni þingmanni.
Þetta eru afar gagnlegir fundir, ekki síst fyrir okkur þingmennina.
Það er nauðsynlegt að komast út úr þinginu af og til og hitta fólk. Tala við kjósendur, og ekki síst að hlusta (mun skemmtilegra heldur en að taka við fjöldapóstum svo dæmi sé tekið ).
En nú er ég orðin sybbin, enda komið fram yfir miðnætti. Góða nótt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jónsmessunótt
23.6.2009 | 23:45
Nú fer Jónsmessunóttin í hönd - sú dulmagnaða nótt sem þjóðtrúin telur öðrum nóttum máttugri í mörgum skilningi. Þá nótt glitra óskasteinar í tjörnum, jarðargróður er þrunginn vaxtarmagni og lækningarmætti, döggin hreinsunarmætti. Því velta menn sér naktir í Jónsmessudögg enn þann dag í dag. Grasa- og galdrakonur fara á kreik og tína jurtir sínar sem aldrei eru máttugri en þessa nótt. Álfar sjást á ferli og kynjaverur sveima á heiðum og í holtum.
Annars er Jónsmessan kirkjuleg hátíð - og eins og flestar hátíðir kirkjunnar (t.d. jólin) þá var henni ætlað að leysa af heiðna sólstöðuhátíð þ.e. sumarsólstöðurnar sem eru tveim dögum fyrr. En sumarsólstöðurnar eru hinn náttúrulegi hápunktur sumarsins.
Það er dásamlegt að vera utandyra ef veður er gott um sumarsólstöður, t.d. á Jónsmessunótt og skynja kraftinn úr jörðinni - tína þá grös í poka og finna fallega steina. Vera einn með sjálfum sér.
Hér fyrir vestan hafa verið rigningarskúrir í dag. Jörðin er hrein og rök. Full af krafti. Það er svartalogn á firðinum og nýtt tungl á himni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Skilaboð eða áreiti
22.6.2009 | 18:54
Síðustu daga hefur tölvupóstum rignt yfir okkur alþingismenn. Fyrst var það vegna Ice-save samningsins, síðan vegna Evu Joly. Þetta eru fjöldapóstar með stöðluðu orðalagi sem sendir eru jafnvel aftur og aftur frá sama fólki.
Ég hef viljað svara þessum sendingum, vegna þess að ég tel það kurteisi að svara bréfum. Sú góða viðleitni mín er nú þegar orðin stórlöskuð, því þetta er óvinnandi vegur.
Ástæða þess að ég færi þetta í tal núna er sú að mér finnast fjöldasendingar af þessu tagi vera vond þróun. Þær leiða til þess að þeir sem fyrir þeim verða gefast upp á samskiptum við sendendur.
Þar með rofna tengslin milli þingmannsins og kjósandans. Samskiptin hætta að vera gagnkvæm - þau verða einhliða. Í stað samræðu kemur áreiti. Það er slæmt.
Fjöldasendingar þar sem fólk notast við skilaboð sem einhver annar hefur samið, og sendir í þúsundavís á tiltekinn hóp viðtakenda, þjóna sáralitlum tilgangi. Vægi skilaboðanna aukast ekkert við það þó sama bréfið berist þúsund sinnum. Það verður bara að hvimleiðu áreiti. Því miður.
Mun þægilegra væri fyrir alla aðila ef þeir sem standa fyrir fjöldasendingum af þessu tagi myndu einfaldlega opna bloggsíðu þar sem safnað væri undirskriftum við tiltekinn málstað. Síðan væri þeim málstað komið á framfæri við alþingismenn og önnur stjórnvöld í eitt skipti. Það væri eitthvað sem hefði raunverulega vigt.
Þetta er mín skoðun ... að fenginni reynslu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Dottað undir stýri
21.6.2009 | 21:55
Komin heim frá Gufuskálum af helgaræfingu með Björgunarhundasveitinni. Kúguppgefin.
Ég var svoooo lúin þegar ég ók heim núna seinnipartinn að ég dottaði undir stýri í Eyja- og Miklaholtshreppnum. Um hábjartan dag.
Það var áreiðanlega engill sem hnippti í mig í tæka tíð áður en bíllinn fór út af - en hann var kominn yfir á rangan vegarhelming þegar ég áttaði mig.
Úff! Þarna munaði sannarlega mjóu.
Lifandi fegin að ekki fór verr, sá ég mitt óvænna, lagði bílnum í vegkanti og lagði mig í tíu mínútur. Fór svo út úr honum og fékk mér frískt loft áður en ég hélt ferð minni áfram.
En námskeiðið var í alla staði frábært. Skutull minn stóð sig mjög vel. Á þessu námskeiði náði hann því risastóra skrefi í þjálfuninni að koma til mín þegar hann hefur fundið mann og gelta á mig áður en hann vísar mér til þess týnda. Í síðasta rennslinu "fann" hann þrjá og vísaði mér á þá alla.
Annars stóðu allir hundarnir sig frábærlega og þetta var mjög skemmtilegt námskeið við rætur Snæfellsjökuls.
Á morgun er það svo þingið - þá skipti ég aftur um gír.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Óvirðing við þjóðþingið
17.6.2009 | 10:27
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sýndi forseta Alþingis mikla óvirðingu í þinginu í gær, þegar hann kvaddi sér hljóðs undir liðnum "fundarstjórn forseta" og setti síðan á ræðu um allt annað mál án nokkurra tengsla við fundarnstjórn forseta. Þegar hann síðan dró upp Fréttablaðið og fór að lesa upp úr því var forseta þingsins nóg boðið - enda gera þingsköp ráð fyrir því að óskað sé leyfis forseta áður en lesið er upp úr blöðum eða bókum í ræðustóli. Þegar þarna var komið sögu tók forseti Alþingis til sinna ráða, en Sigmundur Davíð þráaðist við og ætlaði ekki úr stólnum.
Framkoma nokkurra framsóknarmanna - ekki síst formannsins - hefur farið stigversnandi í þinginu undanfarna daga. Þau finna sér hvert tilefni til þess að stíga í pontu, atyrða þaðan aðra viðstadda með leiðinlegu orðavali. Þau hrópa fram í fyrir ræðumönnum, benda með fingri - berja jafnvel í pontuna og hækka röddina. Raunar hafa framíköll almennt aukist mikið undanfarið - og þá er ég ekki að tala um beinskeyttar athugasemdir sem fljúga glitrandi um salinn. Nei, ég er að tala um leiðinlegt húmorslaust þref sem heldur áfram eftir að menn eru komnir í sæti sitt. Agaleysi. Ókurteisi.
Það er sorglegt þegar virðingarleysið fyrir þjóðþinginu er komið inn í sjálfan þingsalinn.
Sigmundur Davíð og co. eru á góðri leið með að breyta Alþingi Íslendinga í skrípaleikhús. Og það er hugraun fyrir okkur hin sem sitjum á þessu sama þjóðþingi að horfa á þetta gerast.
Forsætisnefnd Alþingis verður að taka á þessu máli.
Óásættanleg framkoma forsetans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Strandveiðar á 17. júní?
16.6.2009 | 17:03
Í morgun var strandveiðifrumvarpið svokallaða tekið út úr sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og ef heppnin er með tekst kannski (vonandi) að afgreiða það úr þinginu í kvöld.
Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu, m.a. við loka umfjöllun þess í nefndinni í morgun. Síðustu breytingarnar bar ég upp við nefndina í morgun. Samþykkt var að ákvæðið um 800 kg af þorski auk meðafla í hverri veiðiferð skyldi hljlóða upp á 800 kg af fiski í kvótabundnum tegundum. Þá var tímaákvæði frumvarpsins breytt úr 12 klst í 14 klst sem hver veiðiferð má taka.
Ýmsar aðrar smálegar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu sem ég hygg að séu allar til bóta, enda hafa fjölmargir umsagnaraðilar komið á fund nefndarinnar og verið inntir álits.
Það væri óskandi ef takast mætti að afgreiða frumvarpið svo breytt úr þinginu í dag. Ef ekki, þá verður það tekið fyrir á fimmtudag.
Það er a.m.k. nokkuð ljóst að menn geta farið að gera sig klára svona hvað úr hverju.
Mottó dagsins: Þeir fiska sem róa
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Strandveiðarnar tóku daginn
15.6.2009 | 23:24
Það var þaulseta í þinginu í dag. Eftir óundirbúinn fyrirspurnartíma sem tók 40 mínútur, og svo drjúga (en óverðskuldaða) törn um fundarstjórn forseta, kom loks röðin að aðalmáli dagsins: Sjálfu Strandveiðifrumvarpinu.
Margir hafa beðið í óþreyju eftir lyktum þess máls - þær eru raunar ekki ráðnar til fulls, en verða það vonandi á morgun.
En sumsé: Ég sem starfandi formaður Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þingsins mælti fyrir nefndaráliti meirihluta nefndarinnar. Því virðulega hlutverki fylgir sú skylda að vakta umræðuna frá upphafi til enda, veita andsvör (t.d. hér, hér, hér og hér ) og taka þátt í málflutningnum.
Að lokinn þessari törn - sem tók lungann úr deginum - kom það í minn hlut að mæla fyrir meirihlutaáliti um nýgerðan búvörusamning. Ég var snögg að því - en gerði það svikalaust, enda var mér það bæði ljúft og skylt. Sauðfjár- og kúabændur að þessu sinni sýnt samningsvilja og samábyrgð í þessari samningsgerð sem er þeim til sóma og öðrum til eftirbreytni á erfiðum tímum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)