Færsluflokkur: Bloggar

Umskipti á Alþingi

thingsalur Ég er ekki viss um að fólk átti sig almennt á þeirri miklu endurnýjun sem orðin er á Alþingi Íslendinga. Þessir átta sem fluttu jómfrúarræður sínar í eldhúsdagsumræðunum í kvöld eru aðeins um þriðjungur nýrra þingmanna. 

Aldrei nokkurn tíma hafa fleiri nýir þingmenn  (27) tekið sæti á Alþingi Íslendinga.  Ekki einu sinni á fyrsta fundi endurreists Alþingis árið 1845, því þá voru þeir 25.

Ef með eru taldir þeir þingmenn sem komu nýir inn fyrir tveimur árum, þá hafa 42 þingmenn af 63 setið skemur en 2 ár.  Það eru ansi mikil umskipti.

Jóhanna flutti stefnuræðu sína í kvöld af einurð og alvöru. Hún gerði grein fyrir stöðu mála, því sem gert hefur verið og því sem framundan er. Var að venju laus við skrúðmælgi. Hógvær - trúverðug.

Steingrímur J. var mælskur og rökfastur eins og oftast.  Hann talaði fyrir endurreisn efnahagslífsins, endurskipulagningu í sjávarútvegi og atvinnulífi, og stakk vel upp í þá talsmenn kvótaeigenda sem talað hafa um fyrningarleiðina sem "þjóðnýtingu". Hann spurði: Hvernig er hægt að þjóðnýta það sem þjóðin á nú þegar - eða hver á eiginlega fiskimiðin? 

Bjarni Benediktsson var ekki hógvær. Hann hafði þarna gullið tækifæri til að gangast við ábyrgð síns flokks íá efnahagshruninu. Það hefði hann getað gert í fáum setningum - gerði það ekki. Hann horfði heldur ekki til framtíðar, virtist fastur í einhverju karpi. Talaði óljóst í Evrópumálum. Bauð sjálfur engar lausnir.

Sigmundur Davíð talaði með tilþrifum - mest um það hvað Framsókn hefði fengið litlu ráðið í fyrri ríkisstjórn (sem þeir voru ekki hluti af, en vörðu falli með svokölluðu "hlutleysi" sem þeir virtust þó aldrei skilja hvað þýddi). Hann var kaldhæðinn í tali, en ekki alveg málefnalegur að sama skapi.  Framsókn lagði sínar áherslur í dóm kjósenda. Kjósendur kváðu upp sinn dóm. Það þýðir lítið að deila við þann dómara.

Ræðurnar í kvöld voru sumsé misgóðar. Sumar voru vel fluttar, en rýrar að innihaldi - minntu meira á málfundaæfingar hjá Morfís þar sem meira er lagt upp úr fasi og fyndni en alvarlegri rökræðu. Öðrum mæltist betur, og sumir fluttu framúrskarandi ræður, þar á meðal voru nokkrar jómfrúarræður (mér fannst góður tónn í máli Margrétar Tryggvadóttur, Ólafar Nordal, Ásmundar Einars, Sigmundar Ernis o.fl.). 

Hvað um það. Nú er alvaran að byrja: Fyrir þessu sumarþini liggja eitthvað um hundrað þingmál frá tíu ráðuneytum.  Og svo ég nefni nú bara nokkur mál sem hafa verið heit í umræðunni að undanförnu, þá eru þarna m.a. frumvörp um

  • þjóðaratkvæðagreiðslur, 
  • stjórnlagaþing,
  • persónukjör,
  • hlutafélag til að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja
  • að fallið sé frá kröfum um ábyrgðamenn á lánum námsmanna
  • frjálsar handfæraveiðar
  • breytingu á búvörulögum
  • breytingar á ýmsum hegðunar- og hæfnisreglum í ljósi fjármálaáfallsins
  •  breytingar á lögum um hlutafélög til að auka gagnsæi varðandi eignarhald, auka jafnrétti kynja í stjórnum og meðal framkvæmdastjóra

Auk þess eru ýmis merk mál til umfjöllunar og afgreiðslu - ég nefni bara þingsályktunartillög um að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Á morgun er hefðbundinn þingfundur - á dagskrá er óundirbúinn fyrirspurnartími og frumvarp um hlutafélag um endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja með meiru.


mbl.is Átta jómfrúrræður í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komin með skrifstofu

Fyrsti vinnudagurinn á skrifstofunni. Þessari líka fínu skrifstofu þaðan sem ég sé út á Austurstrætið, skuggamegin að vísu, en fyrir vikið laus við kæfandi sólarhita yfir sumartímann.

Ég hef verið að flokka skjöl og koma þeim í möppur; fylla út allskyns upplýsingar um sjálfa mig til birtingar á vef Alþingis - fjármál mín, ættir og fyrri störf með meiru. 

Svo hef ég haldið áfram að lesa allt námsefnið sem sett var á okkur í gær. Það er ekkert smáræði, og mun taka tímann sinn.

Við erum hér saman nokkrir nýir þingmann á 2. hæð Austurstrætis 14. Við höfum sameiginlegan ritara, hana Ólafíu sem er kölluð Ollý eins og ég. Hún hefur verið að aðstoða mig í dag við ýmislegt - að komast inn í tölvukerfið, finna eyðublöð til útfyllingar, útvega ritföng o.þ.h.

Mjamm ... þingsetningin er á morgun. Hefst í Dómkirkjunni kll 13.30.


Ennþá veðurteppt ... skapið þyngist

Ég er enn þá veðurteppt á Ísafirði - vindinn ætlar seint að lægja.

En þessi færsla er helguð blogg-ósið einum sem lengi hefur farið í taugarnar á mér. Það er hvernig fólk misnotar skilaboðadálkinn sem opnaður hefur verið fyrir bloggvini í stjórnkerfinu.

orðsendingar Í fyrstu var gaman að kíkja á þessa skilaboðaskjóðu, því þangað komu kveðjur og orðsendingar frá öðrum bloggvinum sem ætlaðar voru manni persónulega, eða þröngum hópi bloggvina. Svo fór að bera á því að menn sendu inn tilkynningar um bloggfærslur sínar, ef þeim lá mikið á hjarta. Gott og vel, þá hópuðust bloggvinirnir inn á síðuna hjá viðkomandi. Þetta sumsé svínvirkaði. Og fleiri gengu á lagið. Svo varð þetta of mikið. Nú rignir daglega inn hvimleiðum skilaboðum frá fólki sem er að vekja athygli á eigin bloggfærslum - og hinar orðsendingarnar, þessar persónulegu, drukkna í öllu saman.

Skilaboðaskjóðan er ekkert skemmtileg lengur. Hún er bara smáauglýsingadálkur fyrir athyglisækna bloggara, þar sem hver keppist við að ota sínum tota.

Mjamm .... það verður sjálfsagt ekkert flogið í dag. Whistling

 


Þjóðarvilji - þingvilji

ESBÞessi könnun tekur af öll tvímæli um það að aðildarumsókn í ESB er ekki bara eitthvert gæluverkefni og draumsýn Samfylkingarfólks heldur vilji yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Auðvitað hafa stjórnmálamenn skynjað þetta, hvort sem þeir eru sjálfir hlynntir eða andvígir sjálfri aðildinni. Þess vegna er ástæða til að vona að VG muni samþykkja það að farið verði í þessar viðræður - þau finna vilja fólksins. Og þar sem meira er - þau virðast ætla að virða þann vilja.

Formenn íhaldsflokkanna í stjórnarandstöðu, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, hafa farið mikinn að undanförnu með hneykslunarhrópum yfir þeim möguleika sem orðaður hefur verið að þingið fái að ákveða hvort farið verði í aðildarviðræður. Þeir Bjarni og Sigmundur Davíð hafa fussað og sveiað og báðir sagt það fjarri þeim að ætla að "hjálpa" Samfylkingunni að fara í aðildarviðræður. Já, þeir tala eins og forystumenn Samfylkingarinnar en ekki fulltrúar þjóðarinnar verði sendir til þessar viðræðna - sem er auðvitað fráleitt. Þeir tala af fyrilitningu til þingsins - virðast telja það veikleikamerki að fela þjóðþinginu aðra eins ákvörðun.

En þegar þingmenn taka til starfa vinna þeir drengskaparheit um að hlýða samvisku sinni. Nú vitum við að ýmsir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru fylgjandi aðildarviðræðum.  Þá liggur fyrir flokkssamþykkt Framsóknarflokksins um aðildarviðræður. Hvernig ætla þá formenn þessara flokka að múlbinda þingmenn sinna flokka gegn málinu? Halda þeir að það sé rétta svarið við kalli tímans um ný stjórnmál og aukið lýðræði? Halda þeir að það skori hjá almenningi - þessum almenningi sem hefur kosið þingið til starfa fyrir sig (ekki fyrir flokkana).

Já - það verður fróðlegt að sjá hvað gerist ef svo fer að ákvörðun um aðildarumsókn verði vísað til þingsins. Þá mun væntanlega koma í ljós hversu mikils stjórnarandstaðan metur sjálft Alþingi Íslendinga og raunverulegan vilja þess.


mbl.is 61,2% vilja aðildarviðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstöðu er þörf

Stundum er talað um það að sama hugmyndin skjóti rótum á mörgum stöðum samtímis. Mér varð ósjálfrátt hugsað til þessarar kenningar þegar ég las meðfylgjandi frétt um afstöðu ASÍ til þess sem gera þarf fyrir heimilin í landinu. Eitt af því sem samtökin leggja áherslu á er að ráðnir verði "a.m.k. 50 fjármálaráðgjafar strax til að aðstoða fólk í greiðsluvanda". Síðast í gær sett ég inn þessa bloggfærslu, en þar var ég m.a. að hvetja til þess að gert yrði stórátak í því að veita almenningi fjármálaráðgjöf. Ekki er vanþörf á.

Þar fyrir utan þarf að koma upplýsingum mun betur á framfæri en verið hefur um þau úrræði sem fólki standa til boða í greiðsluvanda. Fjölmiðlar bera þar ríka ábyrgð - sömuleiðis stjórnvöld og fjármálastofnanir.

Vandi skuldsettra heimila eykst dag frá degi. Annars vegar er brýn þörf á björgunaraðgerðum vegna bráðavanda - hinsvegar er aðkallandi að grípa til almennra aðgerða sem létt geta byrðunum af fólki. Þessi úrlausnarefni geta ekki beðið.

Verkalýðshreyfingin hefur nú komið fram með tillögur sem stjórnvöld hljóta að hlusta eftir. Í þeim vanda sem við er að eiga verða allir að hjálpast að. Vinnumarkaðurinn, félagasamtök, menntastofnanir, fjölmiðlarnir og stjórnkerfið.

Þjóðin á heimtingu á því að við núverandi aðstæður leggi menn léttvæg ágreiningsefni til hliðar og sameinist um mikilvægustu aðgerðir og ... hlusti eftir raunhæfum tillögum og góðum ráðum.

 


mbl.is ASÍ vill bráðaaðgerðir á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hveitibrauðsdagar þingmanna

5mai09Við erum brosmildar og vonglaðar á myndinni þessar fimm þingkonur sem röltum yfir Austurvöllinn í vorblíðunni til þess að taka kaffisopa saman á Café Paris eftir fundalotu dagsins.

Eins og alþjóð veit eru stjórnarmyndunarviðræður nú langt komnar. Okkur þingmönnum hefur gefist kostur á því að koma að málefnavinnunni sem hefur gengið hratt fyrir sig í starfshópunum síðustu daga. Ég fór í sjávarútvegsmálin - þóttist vita að í þeim málaflokki yrði lítið framboð á konum, svo ég skellti mér. Cool 

Nú fara hveitibrauðsdagar nýkjörinna þingmanna í hönd. Þetta eru dagarnir sem allt er nýtt og spennandi, allir brosmildir, vingjarnlegir og vongóðir. Skemmtilegir dagar. Vor í lofti - brum á trjám.

Sjálft þingið hefur að vísu ekki verið kallað saman, en engu að síður hefur verið í ýmsu að snúast og margt að setja sig inn í.  

Á náttborðinu mínu liggur til dæmis lítið kver: Þingsköp Alþingis - óbrigðult svefnmeðal. Ég mæli með því. Wink

-----------

Á myndinni eru frá vinstri: Ólína, Sigríður Ingibjörg, Katrín Júl, Þórunn Sveinbjörns og Oddný Harðar - allt Samfylkingarkonur. Myndina tók glaðbeittur ungur maður sem átti leið hjá.


Fyrsti þingflokksfundurinn

althingi2 Sól skein í heiði og það var bjart yfir miðbænum þegar ég arkaði yfir Austurvöllinn að Alþingishúsinu á minn fyrsta þingflokksfund. Í anddyri nýju viðbyggingarinnar mættu mér brosandi starfsmenn sem buðu nýja þingmanninn velkominn. Fyrir innan biðu fjölmiðlarnir og enn innar þingflokksherbergið.

Þetta var góður fundur og yfir honum svolítill hátíðarbragur. Allir 20 þingmenn flokksins voru mættir ásamt áheyrnarfulltrúum og starfsliði . Nýir þingmenn tæplega helmingur, eða níu talsins. Kossar, faðmlög og hlýjar kveðjur í upphafi fundar. Svo var sest á rökstóla um aðalmálefni dagsins: Stjórnarmyndunarviðræðurnar og málefnastöðuna.

Já. nú eru sannkölluð kaflaskipti í mínu lífi. Svosem ekki í fyrsta sinn.

En á þessum tímamótum finn ég til þakklætis í garð þeirra fjölmörgu sem stutt hafa flokkinn og okkur frambjóðendur Samfylkingarinnar á öllum vígstöðvum fyrir þessar kosningar. Fjölmarga hef ég hitt á ferðum mínum um kjördæmið sem hafa miðlað mér af reynslu og sinni og lífsafstöðu. Það hefur verið lærdómsríkt og gefandi að hitta kjósendur að máli, hlusta eftir röddum þeirra og skiptast á skoðunum.


Ég er jafnframt þakklát mótframbjóðendum mínum úr öðrum flokkum fyrir skemmtilega framboðsfundi og umræður um það sem betur má fara og hæst ber á hverjum stað. Yfirleitt hafa þessi skoðanaskipti verið málefnaleg og upplýsandi fyrir alla aðila.


Nú tekur við nýtt tímabil - erfitt tímabil. Óhjákvæmilega finnur nýkjörinn þingmaður frá Vestfjörðum til ríkrar ábyrgðar og um leið umhyggju gagvart heimaslóðum þar sem mjög ríður á úrbótum í samgöngu- og raforkumálum. Hvort tveggja getur ráðið úrslitum um atvinnuuppbyggingu Vestfjarða og almenn búsetuskilyrði. Sjálf vil ég auk þess gera það sem í mínu valdi stendur til þess að fjölga menntunarkostum heima í héraði, ekki síst á háskólastigi.

Forsenda þess að eitthvað miðið í úrbótum fyrir einstaka landshluta er þó að ná tökum á efnahagslífi þjóðarinnar og verja jafnframt velferðina eftir fremsta megni. Það er forgangsverkefni og um leið frumskilyrði þess að nauðsynleg atvinnu uppbygging geti átt sér stað. Sókn um inngöngu í ESB er mikilvægur þáttur í að þetta takist. Síðast en ekki síst þarf að endurreisa ábyrgð og traust í samfélaginu, ekki síst á stjórnmálasviðinu og innan stjórnsýslunnar sjálfrar.

Jebb ... þetta verður ekki auðvelt fyrir nýja ríkisstjórn, en við sjáum hvað setur. Wink


Nýr dagur í íslenskum stjórnmálum

blóm Nýr dagur er risinn með gjörbreyttu landslagi í íslenskum stjórnmálum. Nú er ljóst að 27 nýir þingmenn munu taka sæti á Alþingi. Að baki er spennandi kosninganótt og væntanlega hefur verið mikil rússibanareið í tilfinningalífi þeirra jöfnunarþingmanna sem ýmist voru inni eða úti fram undir morgun.

Í Norðvesturkjördæmi var mikil spenna fram eftir nóttu, því litlu munaði að Samfylkingin næði inn sínum þriðja manni. Það fór ekki svo, því miður.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið verðskuldaða refsingu. Flokkurinn tapar 12% á landsvísu sem er mesta tap hans frá stofnun árið 1929.

Hástökkvarar kosninganna eru VG og Borgarahreyfingin. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þeim síðarnefndu farnast nú þegar þeir eru  komnir með fjóra fulltrúa á þing og þurfa að fara að taka afstöðu til fjölmargra mála sem hvergi hafa komið fram í stefnu þeirra.

Samfylkingin getur vel við unað. Hún er stærsti stjórnmálaflokkur landsins með skýrt umboð til stjórnarmyndunar. Evrópusinnar geta líka vel við unað, því það er ljóst af kosningaúrslitum að sá málstaður hefur sótt á í þessum kosningum.

Nú liggur beint við að formenn Samfylkingar og VG hefji stjórnarmyndunarviðræður. Persónulega vona ég að þeir nái góðri lendingu í Evrópumálinu og að farsællega takist til við myndun stjórnar þessara tveggja flokka.

Já, nú eru eru sögulegir tímar í íslenskum stjórnmálum. Aldrei fyrr hefur þjóðin kosið félagshyggjustjórn með hreinan meirihluta tveggja flokka. Aldrei hafa fleiri konur verið kjörnar á þing og aldrei hefur meiri nýliðun átt sér þar stað.

Ég hlakka til að takast á við verkefnin sem bíða um leið og ég finn til ríkrar ábyrgðar gagnvart því nýja hlutverki að gegna þingmennsku. Og svo ég haldi áfram með þema gærdagsins:

Dagsins lifna djásnin góð
draumar sanna gildið sitt:
Víst ég heiti vorri þjóð
að vinna fyrir landið mitt.

 


Dagsins lifna djásnin enn ...

Arnarfjordur3.AgustAtlasonDagsins lifna djásnin enn,
af draumi vaknar spurnin hljóð:
Verð ég til þess valin senn
að vinna fyrir land og þjóð?

Þessi vísa braust fram í höfuðið á mér rétt eftir að ég vaknaði í morgun. Í dag ráðast leikar varðandi það hverjir fá umboð til þess að vinna fyrir þjóðina að loknum kosningum.

Íslendingar eiga skýran valkost. Hann er sá að leiða jafnaðarstefnuna til öndvegis undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur formanns Samfylkingarinnar, og hafna þar með harðneskju frjálshyggjunnar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir um árabil.

Samfylkingin er sá stjórnmálaflokkur sem öðrum flokkum fremur horfir til framtíðar og þeirra tækifæra sem vænta má í samstarfi og samfélagi við aðrar þjóðir. Hún er eini flokkurinn um þessar mundir sem býður upp á stefnu og framtíðarsýn í peningamálum.

Stefnu sinni í Evrópumálum deilir flokkurinn með stærstu samtökum atvinnulífsins, bæði launafólks og atvinnurekenda, eins fram hefur komið í umsögnum  með nýbirtri Evrópuskýrslu. 

Allt frá efnahagshruninu hefur Samfylkingin unnið að því að byggja brú fyrir heimilin í landinu til að yfirstíga erfiðleikana sem hrunið olli. Aðgerðirnar eru bæði almennar og sértækar. Megináhersla hefur verið lögð á það að leysa vanda skuldsettustu heimilanna og koma hjólum atvinnulífsins í gang á ný með þrennt fyrir augum:

1) Að hraða endurreisn fjármálakerfisins og skapa skilyrði fyrir enn hraðari lækkun vaxta og endurvinna traust á íslenskt atvinnu- og efnahagslíf með skýrri framtíðarsýn í peningamálum. Fyrirtækin verða að fá upplýsingar um það hvert stefnir í gjaldeyris- og vaxtamálum því það eru lykilþættirnir í starfsumhverfi þeirra.

2) Að ráðast strax í arðbærar atvinnuskapandi aðgerðir á vegum hins opinbera til að fjölga störfum.

3) Að styðja við þau nýsköpunarfyrirtæki sem eru sprotarnir að stórfyrirtækjum framtíðarinnar.

Samfylkingin hefur svikalaust einhent sér í erfið og aðkallandi verkefni eftir efnahagshrunið. En hún lætur ekki þar við sitja. Íslenskir jafnaðarmenn bjóða líka upp á skýra framtíðarsýn.

Já, kjósendur standa frammi fyrir sögulegu tækifæri í dag. Það tækifæri mega íslenskir jafnaðarmenn ekki láta renna sér úr greipum. 

 

---------

PS: Myndina hér fyrir ofan tók sá frábæri myndasmiður Ágúst Atlason í Arnarfirði á dögunum.


Eigna- og hagsmunatengsl í íslenskum stjórnmálum

Nýlega voru settar reglur um fjármál alþingismanna, líkt og tíðkast víða erlendis. Enginn vafi er á því að reglur af þessu tagi eru til mikilla bóta og til þess fallnar að efla traust og gegnsæi stjórnarathafna. Það er þinginu og þeim sem stýrðu vinnunni til sóma að þetta skyldi til lykta leitt í ágætri sátt. Samkvæmt reglunum ber alþingismönnum að gefa upp tilteknar eignir og gjafir. Þeim ber ekki að upplýsa um eignatengsl maka eða skuldir, en hugsanlega verður slíkum ákvæðum bætt við síðar. Satt að segja vona ég að svo verði.

Fjölskyldutengsl stjórnmálamanna við félög og fyrirtæki, sem hugsanlega þurfa síðar að leita ásjár stjórnvalda, geta verið allt eins hamlandi fyrir heilbrigða stjórnsýslu og ef um væri að ræða persónuleg eignatengsl. Sömuleiðis getur skuldastaða stjórnmálamanna í vissum tilvikum valdið efasemdum um hæfi þeirra.

Nokkrir stjórnmálamenn hafa að svo komnu birt upplýsingar um eignir og skuldir, og er það vel. Aðrir hafa hikað. Þeim kann að finnast full nærgöngult að opna fjárreiður sínar almenningi. Bæði sjónarmið eru skiljanleg. Enn aðrir hafa heitið því að gefa upp eigna- og skuldastöðu og “taka allt upp á borðið” án þess að af því hafi orðið. Þess hefur líka orðið vart að menn bregðist reiðir við umræðu um hagsmunatengsl þeirra. En reiði og vanefndir eru þó sennilega röngustu viðbrögð sem hugsast geta í því andrúmslofti tortryggni sem nú ríkir í samfélaginu. Sé allt með felldu ætti enginn skaði að hljótast af því að gera grein fyrir tengslum og eignastöðu. Þvert á móti er það eini raunhæfi mótleikurinn við vantrausti og kviksögum.

Hvað er athugavert við eigna- og hagsmunatengsl stjórnmálamanna?

Nú er gott eitt um það að segja að athafnamenn og fyrirtækjaeigendur sitji á Alþingi. Fjölskyldutengsl inn í athafna- og viðskiptalíf eru að sjálfsögðu enginn glæpur. En þegar kemur að því að taka stjórnvaldsákvarðanir sem hafa afgerandi áhrif á afkomu og afdrif þessara sömu fyrirtækja, þá vandast málið. Hvernig bregst þá til dæmis ráðherrann við sem hugsanlega er tengdasonur, maki, systir eða sonur?

Það er ekki nóg að viðkomandi sé heiðarlegur í hjarta og sinni. Hæfi hans til ákvörðunar þyrfti að vera hafið yfir allan vafa.

Íslenskt samfélag er svo lítið að tengsl stjórnmálamanna við fyrirtæki, fjármálastofnanir og hagsmunasamtök eru raunveruleg ógn við heilbrigða stjórnsýslu og stjórnmál. Sú meinsemd hefur nú þegar grafið undan trausti almennings á stjórnmálum og fjármálakerfi.

Við þessu er fátt annað að gera en að kjörnir fulltrúar upplýsi um hvaðeina sem valdið getur vanhæfi þeirra á síðari stigum. Leiðbeinandi reglur setja mönnum engar skorður í því efni að upplýsa um fleira en reglurnar segja til um. Þær setja einfaldlega lágmarkið.

----------

PS: Samhljóða grein eftir mig var birt í Fréttablaðinu fyrr í vikunni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband