Færsluflokkur: Bloggar

Skilanefndir í lagalegu tómarúmi

Upplýsingafulltrúi Landsbankans ber þá frétt til baka  (hér) að skilanefnd bankans hafi samið við Magnús Kristinsson útgerðarmann um afskriftir á tugmilljarða skuldum, eins og fram kom í  DV og fleiri fjölmiðlum í dag (hér). Eitthvað er þó óljóst með það hvað teljist persónulegar skuldir Magnúsar og hvað sé vegna fyrirtækja í hans eigu, svo sennilega eru ekki öll kurl komin til grafar.

Hvað svo sem hæft er í fullyrðingum um skuldaafskriftir fyrir tugi milljarða, þá er ljóst að margt mætti betur fara í varðandi skilanefndir gömlu bankanna. Skilanefndirnar svífa um í lagalegu tómarúmi eins og bent hefur verið á.  Svo virðist sem þessar nefndir séu einhverskonar kunningjaklúbbar sem taki ríflegar þóknanir fyrir sín störf í þágu kröfuhafanna.

Hið lagalega tómarúm sem nefndirnar geta athafnað sig í, verður að fylla með skýrum lagaákvæðum og starfsreglum fyrir þær að vinna eftir. Það er ekki hægt að bjóða samfélaginu upp á að gamlir viðskiptafélagar, skólabræður(systur) og/eða samstarfsmenn séu að víla og díla um verðmæti og skuldir í nafni skilanefndanna .... það bara gengur ekki.

Og sjaldan er ein báran stök. Whistling

Stjórnendur Straums láta sér til hugar koma að biðja um 10,8 milljarða króna í bónusa á næstu fimm árum fyrir þá vinnu að reyna að hámarka virði eigna bankans sem nú er í höndum Fjármálaeftirlitsins eins og menn vita (hér).

Siðvæðing hins íslenska fjármálakerfis á ennþá óralangt í land.

I rest my case.


mbl.is Gamli Landsbankinn afskrifar skuldir Magnúsar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ópólitísk helgi - og C-próf á hundinn!

snaefellsjokull Það var svoooo gott að komast burt úr bænum um helgina. Varpa frá sér áhyggjum af afdrifum lands og þjóðar og halda á vit jökulsins: Arka um lyngi  vaxnar hlíðarnar, krökkar af berjum  -  æfa hundinn - hitta félagana - reyna á sig í brekkunum - leggjast milli þúfna í sólskininu og úða í sig aðalbláberjunum.

Koma svo þreytt heim að kvöldi - horfa á sólina setjast í hafið öðrumegin , tunglið rísa á hálfbláum himninum hinumegin og jökulinn loga.

Dásamlegt!

Jamm, ég brá mér á æfingu  upp á Gufuskála með Björgunarhundasveitinni og tók C-próf á hundinn í víðavangsleit. Joyful Ó, já - gekk bara vel.

skutull.sumar08

Og nú er hann á leiðinni norður á Ísafjörð með björgunarsveitarbílnum þessi ræfill - Skutull minn - eftir langa og erfiða helgi í lífi unghunds. Þar bíða hans góðar móttökur, lærleggur af lambi o.fl. notalegt. Húsmóðir hans kemur svo þegar búið er að bjarga þjóðarhag í þinginu. Wink

Nú þegar hundurinn hefur tekið bæði byrjendaprófin í víðavangs- og vetrarleit tekur alvaran við. Það þýðir víst að maður þurfi að fara að komast sér í almennilegt form. Blush

Við sjáum nú til með það.

 

 


Gufuskálar!

Þó að mikil spenna ríki nú í Ice-save málinu og óljóst sé um afdrifin, þá er ég á leið vestur á Gufuskála að æfa hundinn og ætla að vera þar um helgina, enda get ég lítið gagn gert annað en að hugsa hlýtt til fjárlaganefndar.

Ætla að reyna að halda mér vakandi að þessu sinni, á báðum leiðum. Wink

Eigið góða helgi öllsömul.


Barnavernd á erfiðum tímum

barnavernd Þegar þrengir að efnahag þjóðarinnar er ástæða til þess að huga betur en nokkru sinni að velferð barna. Opinberar tölur sýna mikla fjölgun barnaverndarmála á fyrstu mánuðum þessa árs, einkanlega í Reykjavík þar sem tilkynningar til barnaverndarstofu borgarinnar voru 40% fleiri en á sama tíma árið áður. Vera kann að þessi aukning beri vott um vaxandi vitund almennings um barnaverndarmál. Engu að síður er full ástæða til að taka þetta alvarlega sem vísbendingu um versnandi hag barna og fjölskyldna þeirra.

Börn eru saklaus og varnarlaus. Þau eru framtíð þjóðarinnar og að þeim verðum við að hlúa, ekki síst þegar illa árar.

Ég tók málið upp við félags- og tryggingamálaráðherra í fyrirspurnartíma í þinginu í morgun. Umræðuna í heild sinni má sjá hér

 -----------

PS: Meðfylgjandi mynd tók ég af vef mbl.is - hún var þar merkt Ásdísi.


Hughrif af Grænlandi

Hér koma nokkrar myndir sem ég tók í ferð minni til Grænlands. Þar varð ég fyrir sterkum hughrifum af ýmsu sem fyrir augu bar og gæti skrifað langt mál um það allt  - ef ég væri ekki svona illa haldin af sjóriðu eftir siglinguna með herskipi hennar hátignar, sem nefnt er eftir Einari Mikjálssyni landkönnuði.  Nánari frásögn bíður betri tíma, en myndir segja meira en mörg orð.

Hér sjáið þið hvernig sólin sest á bak við Grænlensku fjöllin - sem eru helmingi hærri en þau Íslensku, firðirnir margfalt lengri og dýpri ...

P1000896
Húsin standa á nöktum klöppum víðast hvar - þessi mynd er tekin í Arzuk
P1000929
Kjöt af Moskusuxa (sauðnauti) er herramannsmatur - en ekki veit ég hvað þeir ætla sér með þessar lappir sem raðað var svo snyrtilega upp við húsvegg einn í Arzuk
P1000936
Mánaberg heitir þetta fagra fjall sem blasir við úr Grönnedal og víðar. Á tindi þess má finna fagra steina sem bera í sér mánaljósið og heita eftir því mánasteinar
P1000918
Veiðimenn í Arzuk
P1000933
Og hér sjáið þið Íslandsdeils Vestnorræna ráðsins ásamt íslensku fyrirlesurunum - góður hópur ;)
P1000912 

Lítill fugl í vanda

mariuerla170606_9 Maríuerlan í garðinum mínum komst í hann krappan í morgun. Þegar mér varð litið út um eldhúsgluggann sá ég hvar hún var komin inn fyrir öryggisnetið í trampólíninu í næsta garði. Þarna flögraði hún ráðvillt um fyrir innan netið og lengi vel leit út fyrir að hún fyndi enga leið úr prísundinni. 

Ég fylgdist með henni góða stund og furðaði mig á hátterni hennar, því í rauninni átti hún greiða leið í frelsið.

Hvað eftir annað tókst henni - þó með erfiðismunum væri - að fljúga upp á bandið sem hélt netinu uppi. Þaðan hefði hún auðveldlega getað flogið út í garðinn. En ... nei, hún var svo örvingluð orðin að aftur og aftur hoppaði hún niður röngu megin við netið, föst í sínu sjálfskipaða fangelsi, og þar upphófst sama baksið á ný.

Ég var að því komin að hlaupa út til að blanda mér í þetta þegar hún skyndilega rambaði fram á litla rifu á netinu niðri við dýnuna. Og án þess að hún eiginlega stjórnaði því sjálf, þá stóð hún allt í einu í þessu litla gati, og viti menn ... hún hoppað út í grasið, frjáls úr prísundinni.

Ekki veit ég hvernig á því stóð, en þar sem ég virti fyrir mér atganginn innan við netið, varð mér hugsað til stöðu okkar Íslendinga í samfélagi þjóðanna þessa dagana.

Og nú læt ég lesendum eftir að leggja út af sögunni.


"Jarmur fogla" og fénaðar - vel heppnuð útkallsæfing

normal_IMG_0067Bærilega tókst útkallsæfingin með björgunarhundunum í nótt - en ég verð að játa að ég er svolítið syfjuð eftir þetta allt saman, enda var ekki nokkur svefnfriður í sjálfri sumarnóttinni fyrir jarmi "fogla" og fénaðar. Hafði ég þó hugsað mér gott til glóðarinnar að sofa undir beru lofti í "næturkyrrðinni".

Ævintýrið hófst eiginlega strax í gærkvöld, þegar við komum að Hæl í Flókadal og fengum þar höfðinglegar móttökur hjá heimilisfólkinu sem bar í okkur góðan mat og heitt kaffi.

Sex úr hópnum höfðu það hlutverk að vera "týnd". Við vorum vakin klukkan þrjú í nótt og ekið með okkur  sem leið lá niður í Stafholtstungur þar sem við áttum að fela okkur á mismunandi stöðum. Leitarteymin fimm voru svo kölluð út um klukkutíma síðar.

Ég fann mér góðan felustað í klettaskorningi, skreið ofan í svefnpokann, breiddi yfir mig feluábreiðuna og hugðist, eins og fyrr segir, sofa til  morguns í lognblíðri sumarnóttinni. En ... það var bara ekki nokkur svefnfriður fyrir blessaðri náttúrunni. Woundering 

Ekkert sker meir í eyrun og hjartað en móðurlaust lamb sem grætur út í næturkyrrðina. Og ef einhver heldur að fuglar himinsins sofi um sumarnætur, þá er það misskilningur. Þeir eru nefnilega á stanslausri vakt yfir ungum sínum. Þeim er meinilla við útiliggjandi björgunarsveitarmenn, og láta það óspart í ljósi með miklum viðvörunarhljóðum og hvellu gjalli við minnstu hreyfingu. 

En ég lét nú samt fara vel um mig, og hlustaði á þessa nætursymfóníu.  Heyrði hundgá í fjarska og fjarlæg fjarskipti - enda hljóðbært í logninu. Virti fyrir mér tvo svartbaka elta smáfugl út undir sjóndeildarhring. Ekki sá ég hvernig sá eltingarleikur endaði - en víst er að hann hefur endað illa fyrir einhvern og vel fyrir einhvern annan. Þannig er blessuð náttúran í allri sinni tign.

Ég var sú fyrsta sem fannst af þeim sem týndir voru. Það voru þeir félagarnir Krummi og Gunnar Gray sem fundu mig klukkan sjö í morgun. 

Æfingin stóð í sex tíma. Á eftir var haldin höfðingleg grillveisla á Hæl, og að henni lokinni voru unghundarnir æfðir. 

Skutull minn stóð sig vel, og nú vonast ég til að geta tekið C-prófið á hann í víðavangsleit í ágúst  - að því gefnu að allt gangi að óskum hér eftir sem hingað til. 

lfljtsvatnma2009002-vi


Söguleg stund

Já - við erum á leið í aðildarviðræður. Þetta er stór dagur.

Alþingi Íslendinga hefur ákveðið að kjörnir fulltrúar fólksins, setji af stað lýðræðislega málsmeðferð í einu veigamesta hagsmunamáli þjóðarinnar á síðari tímum.

Alþingi sjálft hefur ákveðið að beita þingræðinu til þess að tryggja lýðræðið - svo þjóðin geti átt síðasta orðið um lyktir þessa mikilvæga hagsmunamáls í þjóðaratkvæðagreiðslu.

 Þetta er sögulegt tækifæri fyrir Alþingi Íslendinga til þess að sýna í verki ómetanlegt fordæmi um framkvæmd sjálfs lýðræðisins.

Ég trúi því að aðild Íslendinga að ESB yrði heillaspor fyrir þjóðina. Við Íslendingar verðum að stíga markviss skref í átt til stöðugra efnahagslífs og bættra lífskjara  á Ísland. Innganga í Evrópusambandið gæti ennfremur verið liður í því  að styrkja stjórnsýslu okkar, bæta viðskiptaumhverfi, efla byggðaþróun, sjálfbærari og vistvænni framleiðsluhætti og skapa fjölbreyttari menntunarkosti og atvinnumöguleika fyrir ungt fólk

Þetta er sú framtíðarsýn sem við jafnaðarmenn höfum hafa fram að færa.

Hversu raunhæf vonin er verður aðeins leitt  í ljós með aðildarumsókn og síðan þeim samningsdrögum sem af henni leiðir. Sú vinna er eftir og afrakstur hennar er í raun eina  haldbæra vísbendingin sem  við getum fengið um þá möguleika sem innganga í ESB getur falið í sér fyrir okkur sem þjóð.

Það er verkefnið sem bíður okkar nú.


mbl.is Samþykkt að senda inn umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hér er ESB um ESB frá ESB til ESB

ESB Evrópusambandsumræðan er allsráðandi í þinginu í dag - spenna í lofti. Sjálf ætlaði ég ekki að tjá mig mikið í þessum hluta umræðunnar, en þó fór svo að lokum að ég blandaði mér í hana.

Sjá hér.

Enn er ekki ljóst hvort tekst að ljúka umræðunni og greiða atkvæði í dag eða kvöld - það skýrist á næstu klukkustundum.

Mikill hluti dagsins hefur farið í írafárið sem reis í morgun vegna skýrslu nokkurrar sem enn mun ekki vera orðin að fullkominni skýrslu, heldur vinnuplagg á þessu stigi. Hún var unnin fyrir "stjórnvöld og hagsmunasamtök bænda"  í því skyni að máta íslenskan landbúnað við "finnsku leiðina" svokölluðu ef kæmi til Evrópusambandsaðildar. Nú hefur þetta gagn verið gert opinbert og í fljótu bragði verður ekki séð að þar séu nein hernaðarleyndarmál, nema ef vera skyldu útreikningar á stöðu landbúnaðarins. Birting þeirra útreikninga gæti hugsanlega komið sér illa fyrir hagsmuni Íslendinga í sjálfum samningaviðræðunum - sem mun vera skýringin á því hvers vegna skýrslan hefur ekki verið birt enn. En hvað um það - nú er þetta plagg uppi á borðum - og þá getur umræðan vonandi haldið áfram.


Minning um Blíðu

blidahvolpurein05 (Medium) Blíða var eftirminnilegur hundur. Fáir hundar voru ljúfari eða skemmtilegri ef því var að skipta - og fáir hundar voru sjálfstæðari og fyrirferðarmeiri þegar sá gállinn var á henni. Eins og allir eftirminnilegir persónuleikar gerði hún kröfur til eigenda sinna, lét vita af sér, en var eins og hugur manns þess á milli. Hún var ekki allra. En við náðum vel saman, ég og hún.

Blíða var þjálfuð sem ollyogblida07 (Medium)björgunarhundur í tvö ár. Hún tók C-próf í vetrarleit vorið 2007, þá eins og hálfs árs gömul. Henni gekk vel í leitarþjálfuninni framan af, en svo kom í ljóst að hún var ekki nógu sterk fyrir þessa þjálfun. Hún fór að veikjast ítrekað á æfingum og sýna ýmis merki þess að ráða ekki við verkefnið. Síðastliðið sumar lauk hún ferli sínum sjálf með eftirminnilegum hætti þegar hún beinlínis fór í "verkfall" á miðju námskeiði og var ekki æfð meira eftir það. Embarassed P1000530 (Medium)

Ég fékk mér annan hund til að þjálfa - hvolpinn Skutul sem nú er ársgamall. Blíða aðstoðaði mig við uppeldið á honum og gerði það vel. Hún kenndi honum að hlýða manninum og var honum framan af sem besta móðir. En svo óx hann henni yfir höfuð, og samkomulagið versnaði.

Loks varð ég að láta hana frá mér - það gekk ekki að hafa tvo ráðríka hunda á heimilinu, þar af annan í vandasamri þjálfun sem krafðist allrar minnar athygli.

Hún fékk gott heimili norður í Skagafirði hjá fólki sem hafði átt bróður hennar en misst hann fyrir bíl. Þau tóku Blíðu að sér, og í fyrstu gekk allt vel. En það var annar hundur á heimilinu og þeim samdi aldrei. Hún varð taugaveikluð og óörugg um stöðu sína, gelti meira en góðu hófi gegndi, og þetta gekk einfaldlega ekki upp. Þegar hún svo sýndi sig í því að urra að barnabarninu í fjölskyldunni, var ákveðið að láta hana fara. Ég skil þá ákvörðun, og úr því ég gat ekki tekið við henni aftur var betra að láta hana sofna en vita af henni á flakki milli eigenda.

Nú hvílir hún við hlið bróður síns norður í Skagafirði.

Já, Blíða var eftirminnilegur hundur. Á góðum stundum

Bilferd (Medium)

 

var hún mikill félagi og engan hund hef ég séð fegurri á hlaupum en hana. Þannig geymi ég mynd hennar í huga mér, og sé hana nú í anda hlaupa tignarlegri en nokkru sinni fyrr um gresjurnar á hinum eilífu veiðilendum.

Blessuð sé minning Blíðu.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband