Skilaboð eða áreiti

Síðustu daga hefur tölvupóstum rignt yfir okkur alþingismenn. Fyrst var það vegna Ice-save samningsins, síðan vegna Evu Joly. Þetta eru fjöldapóstar með stöðluðu orðalagi sem sendir eru jafnvel aftur og aftur frá sama fólki.

Ég hef viljað svara þessum sendingum, vegna þess að ég tel það kurteisi að svara bréfum. Sú góða viðleitni mín er nú þegar orðin stórlöskuð, því þetta er óvinnandi vegur.

Ástæða þess að ég færi þetta í tal núna er sú að mér finnast fjöldasendingar af þessu tagi vera vond þróun. Þær leiða til þess að þeir sem fyrir þeim verða gefast upp á samskiptum við sendendur. 

Þar með rofna tengslin milli þingmannsins og kjósandans. Samskiptin hætta að vera gagnkvæm - þau verða einhliða. Í stað samræðu kemur áreiti. Það er slæmt.

Fjöldasendingar þar sem fólk notast við skilaboð sem einhver annar hefur samið, og sendir í þúsundavís á tiltekinn hóp viðtakenda, þjóna sáralitlum tilgangi. Vægi skilaboðanna aukast ekkert við það þó sama bréfið berist þúsund sinnum. Það verður bara að hvimleiðu áreiti. Því miður.

Mun þægilegra væri fyrir alla aðila ef þeir sem standa fyrir fjöldasendingum af þessu tagi myndu einfaldlega opna bloggsíðu þar sem safnað væri undirskriftum við tiltekinn málstað. Síðan væri þeim málstað komið á framfæri við alþingismenn og önnur stjórnvöld í eitt skipti. Það væri eitthvað sem hefði raunverulega vigt.

Þetta er mín skoðun ... að fenginni reynslu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Ég tel þetta vera skilaboð frekar en áreiti. Viisulega getur þú ekki svarað öllum svona póstum enda myndi það bara tefja fyrir þínum störfum. Þú hinsvegar tekur þann pólinn að Blogga hér og tala þar með til vinnuveitanda þinna. ´Mér finnst það flott að þingmenn skuli tala svona við kjósendur sína því það þarf að minka gjána sem enn er á milli þjóðar og þings.

Offari, 22.6.2009 kl. 21:40

2 Smámynd: Dúa

Myndir þú þá svara og túlka það sem skilaboð ef þúsund manns sendu þér póst með sömu kröfum eða tillögum svo lengi sem hver og einn byggi til sinn eigin texta?

Ég hefði haldið að fjöldasendingar sýndu að fjöldanum væri mikið niðri fyrir.

Leiðinlegt að sjá að þú teljir kjósendur vera að áreita þig og aðra þingmenn.

Dúa, 22.6.2009 kl. 23:53

3 identicon

Ég sé að í þínum síðustu greinarskilum, Óliína, segir þú að fólk eigi að búa til einhverja undirskriftalista áður en málum er komið á framfæri við stjórnmálamenn.

Ég er nú svo sveitó að ég tala bara beint við stjórnmálamenn enda hef ég átt nokkra ágætis vini úr þeim hópi.

Mér finnst samt alveg spurning fyrir þig Ólína ef að þetta blogg er að ræna þig orku, að gefa því bara smá hvíld. Það er enginn að ætlast til þess að þú hangir á blogginu, ef ég væri á þingi þá myndi ég ekki nenna því nema í litlum mæli og þá með bullandi ritskoðun.

Það er bara með þig eins og margar konur Ólína, reynir að vera skemmtileg og líbó en það bara dugir ekkert alltaf, vera bara svolítið nastí stundum.

Að endingu get ég sagt þér að þú og Ólafur Arnarsson runnuð alveg á rassinn með þetta Evu Joly dæmi í Kastljósinu og kemur það mér ekki á óvart að þú hafir fengið að finna fyrir því enda með réttu, þvílíkt bull í ykkur fullorðnu fólki.

Sjálfur myndi ég ekki nenna að senda hvorugu ykkar póst til að rífast í ykkur, blogga frekar um ykkur. Ekki gleima því Ólína að viðbrögðin eru hörð í þessu máli af því að þið eigið að láta Evu joly í friði, ekki vera að bulla um Íslenska stjórnsýsluhætti og réttar boðleiðir þegar að þetta er eina manneskjan sem við treystum og Íslensk stjórnsýsla er rotin in að beini.

Hún hefur ekkert gert af sér enn sem komið er, annað en að vera kannski ekki alveg nógu næs og háttvís. 

En skammarlegustu skrif sem ég hef séð í langan tíma hafa verið frá þeim Ólafi og Sigurði G. og nú síðast Jóni Laxdal. Þetta er aðför og af þeirri tegund sem ekki er hægt að svara af opinberum aðilum eins og Dómsmálaráðherra eða ríkissaksóknara, því það myndi skapa vanhæfi.

Eftir því eru þessir fuglar að fiska. 

Settu bara ritskoðun á þetta, samþykkja komment áður en þau birtast og hætta að lesa gluggapóstinn. Ekki móðgast þótt ég sé nastí Ólína, er það við alla og þarf að halda mér í æfingu.

bestu kveðjur.

sandkassi (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 00:54

4 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ólína, þú ert í þeirri fúlu stöðu að styðja það að setja á okkur íslensku aumingjana efnahagslegt gjaldþrot sem ekki verður litið upp úr næstu 15 árin eða svo.

Það er því eðlilegt að þeir sem sjái hversu gífurlega alvarlegt það er að samþykkja þennan klafa skuli senda þér póst, jafnvel staðlaðan, í þúsundavís.

Fullveldisafsalið sem felst í þessum undirlægjusamningi er meiri en nægileg ástæða til að rísa upp gegn þeim ræfildómi sem þessi samningur kveður á um og er í raun aðferðin sem nota á til að ræna okkur sjálfstæði og selja okkur í ESB.

Trúðu mér, ég er að reyna hemja stóru orðin!

Haukur Nikulásson, 23.6.2009 kl. 08:29

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ólína, manni er vandi á höndum að segja skoðun sína hjá þér því þú ert dálítið hörundssár.

En veistu, ég verð að segja að mér finnst þetta vera tuð um ekkert.

Ef fólki liggur eitthvað á hjarta, hvort sem það er í fjöldapósti eða einka, þá finnst mér að kjörnir fulltrúar okkar á Alþingi eigi að taka því fagnandi eða í besta falli láta sig hafa það.

Sem betur fer eru breyttir tímar.  Fólk vill tala bein samskipti við Alþingismenn og mér finnst það réttur þess.

Að tala um áreiti finnst mér móðgandi.

Baráttukveðjur,

Moi

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.6.2009 kl. 10:00

6 Smámynd: Gunnlaugur I.

Tek undir með Hauki Nikulássyni hér að ofan, reyndar Jennýju líka.

Ég þarf líka að taka sérstaklega mikið á til þess að hemja stóru orðin, sem frú Ólína þolir alls ekki að heyra !

Gunnlaugur I., 23.6.2009 kl. 10:36

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Jæja gott fólk. Það er mikill misskilningur ef þið haldið að þessar hugleiðingar mínar hafi eitthvað með hörundssæri að gera. Ég er hreint ekkert sár yfir neinu í þessu sambandi. Bara að hugsa upphátt í mínum venjulega brussugangi.

Ég er hér að miðla ykkur reynslu minni af því sem ég upplifi dag frá degi. Af því mér finnst margt af því athyglisvert.

Þessir fjöldapóstar eru eitt af því sem ég velti fyrir mér. Ég vil að sjálfsögðu tala við fólk - þess vegna er ég að fjalla um fjöldapóstana, því þeir leiða ekki til samræðu. Vonandi móðga ég engan með þessum vangaveltum - það er ekki meiningin.

Eigið góðan dag öllsömul.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 23.6.2009 kl. 11:15

8 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Jenný mín - smá aukaskilaboð til þín: Þú ert ein af mínum uppáhaldsbloggurum. Ég kannast ekki við að hafa nokkru sinni amast við athugasemdum frá þér.

Og aðeins meira varðandi Evu Joly - þá er það nú fjarri mér að veitast að þeirri ágætu konu, enda styð ég hana heilshugar í hennar störfum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 23.6.2009 kl. 11:35

9 Smámynd: Haraldur Hansson

Fjöldapósturinn er e.t.v. merki um að æ fleiri gera sér grein fyrir hvað IceSave gæti þýtt fyrir okkur; allt að 30 ára fátækt.

Smá talnaleikfimi:

Mat á eignum Landsbankans sem kunngert var í gær sýnir að þær hafa rýrnað um 95 milljarða. Þær hafa rýrnað um 792 milljónir á dag frá 20. febrúar.

Vextirnir af IceSave láninu, óskiptum höfuðstól, eru 100 milljónir á dag.

Þorskkvótinn verður 150 þús tonn. Verð á þorski sem landað er í Bretlandi var í gær um 338 kr/kg að meðaltali. Verðmæti alls þorskafla í heilt ár er því um 50 milljarðar.
Það þýðir að 3/4 þorskafla Íslendinga fer í að greiða vexti af IceSave láninu.

Og áfram með þorsk. Skuldaviðurkenningin upp á 650 milljarða jafngildir öllum þorskafla á Íslandsmiðum í 13 ár. (ég veit að eignir koma á móti, en er að benda á stærðina).

Það þarf ekki snilling til að sjá að þetta getur aldrei gengið nema með óbærilegum fórnum. Þessar fórnir eru þegar byrjaðar að birtast, t.d. í niðurskurði og kostnaðarauka í heilbrigðiskerfinu. Þegar fólk horfir fram á skuldaklafa sem dæmt getur þjóðina alla til fátæktar í 2-3 áratugi er ekki furða að þingmenn fái fjöldapóst.

Til að bæta gráu ofan á svart er líklegt að þeir sem "kjósa með fótunum" og yfirgefa landið næstu 7 árin verði ungt fólk á vinnumarkaði, sem gerir byrðarnar enn þyngri fyrir þá sem eftir sitja. Á komandi vikum munu fleiri og fleiri gera sér grein fyrir hversu hrikalegt dæmi þetta er. Þá er viðbúið að ólgan magnist.

Haraldur Hansson, 23.6.2009 kl. 11:37

10 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það er líka önnur hlið á þessu máli og hún er sú að ákveðin öfl í þjóðfélaginu sem ekki eru sömu skoðunar og núverandi ríksstjórn, stunda nú skipulagt áreyti við almenning.

Þar á ég við fullyrðingar um IceSave samninginn. Það er fullt að fólki í samfélaginu sem trúir þessum gífuryrðum um þjóðargjaldþrot og allt þar fram eftir götunum, og þar á meðal margir sem hér hafa lagt orð í belg.

Ólína - Við sem vitum betur verðum víst bara að þola þetta fjas og fullyrðingar og bíða eftir að ósköpin gangi yfir. Sannleikurinn kemur í ljós eins og alltaf.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 23.6.2009 kl. 17:43

11 Smámynd: Einar Þór Strand

Ólína tvær spurningar.

Hvers vegna fórstu í framboð ef fólk má ekki hafa skoðun á því sem er að gerast og reynir að koma henni á framfæri við þig?

Eða er málið að þú viljir bara heyra í fólki sem er sammála þér?

Hólmfríður það má líka segja að ákveðin öfl í þjóðfélaginu gylli IceSave samningin og segi að þetta reddist hjá okkur þó svo að það sé eingin vissa fyrir því, þannig að er ekki jafnt á komið?

Einar Þór Strand, 23.6.2009 kl. 18:50

12 identicon

Það er enginn áróður í gangi um Icesave samninginn. Hann er aftur á móti ákaflega illa unninn og stjórnvöld hafa sýnt ákaflega slæma framgöngu í málinu.

Ríkisstjórnin kýs að horfa ekki á lögfræðiáliti allra helstu lögfræðisérfræðinga landsins, nú síðast Sigurðar Líndal. Í siðmenntuðum ríkjum er eytt réttaróvissu fyrir dómstólum. En ef að tilgangurinn með samningum er af annarlegum toga eins og að kaupa sér gott veður hjá Evrópusambandinu, þá eru samningarnir sjálfir orðnir aukaatriði.

Á meðan það er ekki unnið með háskólasamfélaginu eins og lagadeild HÍ í málinu, þá nást ekki samningar. Samfylkingin og Vinstri Grænir eru því búnir að lýsa sig bullandi vanhæfa til að lenda samningum. Enda er "hidden agenda" á ferðinni, en ekki eðlileg samningatækni.

5.5% vextir eru óþekkjanlegir í viðskiptum sem þessum, það eitt gengur ekki. Gjaldfellingarákvæðin eru glæpsamleg þrátt fyrir tilraunir stjórnarinnar til að láta skína í annað á áróðursvefnum island.is.

Annað eins bull hef ég sjaldan lesið eins og "skýringar" á ákvæðum samningsins. Hér eru stjórnmálamenn að sýna almenningi og þingheimi framkomu sem ekki er boðleg. Þær upplýsingar sem við höfum um þennan samning í dag hafa fengist fram með óhefðbundnum aðferðum þar sem að stjórnin ætlaði aldrei að gera gögnin opinber.

Síðan er látið í veðri vaka að óháð erlent matsfyrirtæki hafi metið 95% út úr eignasafninu upp í skuldir sem annars falla á ríkissjóð. Síðan kemur í ljós að það er í raun einungis mat skilanefndarinnar. Talsmaður  nefndarinnar sagði í gær (sem allir vita) að ekkert er að marka slíkt mat en samt hefur stjórnin hamrað á þessu svokallaða sjálfstæða mati til að selja þennan samning í þinginu.

Nú kallar Helgi Hjörvar eftir sjálfstæðu mati á þessu "sjálfstæða mati" samfylkingarinnar, þvílýkur farsi. Stjórnmálamenn - apeshit.

Látið í veðri vaka að þetta sé takmörkuð ríkisábyrgð, hún er í raun 100%.

Miðað við bestu sviðsmyndina í málinu, að einungis lendi um 120 milljarðar á ríkinu sem er fast, þá eiga 300 milljarða vextir af láninu ekki forgang í eignasafn landsbankans. Þetta fylgdi heldur ekki söluherferðinni á þessum samningi.

Allt þetta er til háborinnar skammar fyrir stjórnina, Samfylkinguna sem ætti náttúrulega ekki að vera í ríkisstjórn til að byrja með eftir að hafa bara margfalt fallið á prófinu.

sandkassi (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 19:26

13 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Það er víst óhætt að segja að Gunnar Waage veit hvað áróður er og hvernig hann er settur fram!?

Engin unnin lögfræðiálit hafa komið fram um samkomulagið, heldur hafa lögspekingar eins og nefndur lögöldungur Siguðrur Líndal, verið að tjá skoðanir sínar. Hann og ónefndur dómari vilja að kveðið verði upp úr með þetta fyrir dómi, en hvaða dómi eða dómstóli það á að gerast, fylgir ekki sögunni svo ég viti.Samningsviðurkenning Íslendinga liggur hins vegar fyrir frá því í byrjun des. sl. og við það situr nema eitthvað í alvörunni nýtt komi til.Bent hefur verið á, að dæmið muni í raun snúast við ef alþingi hafnar samningnum, þá þurfi Tjallarnir og Niðurlendingarnir e.t.v. að sækja og svara spurningunni hvar það væri hægt. Hins vegar get ég ekki séð að ákvörðun alþingis falli úr gildi um að semja þótt samkomulaginu verði hafnað nú, eða hvað heldur þú Ólína?

Annars veit maður heldur ekki hvaða afleiðingar það hefði ef svo fer, stjórnin félli að mati t.d. Gunnars Helga prófessors, en hvað svo, er stjórnarkreppa það sem þjóðin þarf nú á að halda ofan í kaupið?

Höfnun gæti haft í för með sér meiri og verri afleiðingar en þeir sem það predika hafa hugsað til enda hygg ég.

Magnús Geir Guðmundsson, 24.6.2009 kl. 01:05

14 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

Ég lít nú þannig á að textinn í fjöldapósti sé ekki endilega aðalatiðið þó auðvitað verði að koma fram um hvað málið snýst. Hitt, að fólk sé sammála málefninu kannske í hundraða- eða þúsundatali og tilbúið til að senda póst vegna þess, er það sem mestu skiptir í mínum huga. Og þá er um að gera að koma sér upp póstþjóni sem getur flokkað póstinn fyrir mann.

Kveðja.

Guðl. Gauti Jónsson, 24.6.2009 kl. 01:21

15 identicon

ja sjáðu til Magnús Geir, þegar menn fara með rétt mál, þá hljómar það kannski eins og áróður fyrir sumum.

Ég kann nú ekki við þetta orðalag hjá þér;

"nefndur lögöldungur Siguðrur Líndal"

"ónefndur dómari"Áttu við Magnús Thoroddsen eða Jón Steinar Gunnlaugsson?

"Engin unnin lögfræðiálit" Ó, þú átt við í kápu, nei.

Björg Thorarensen, Stefán Már Stefánsson - er það þín skoðun að þetta fólk hafi gefið út sitt álit á málinu að illa ígrunduðu máli?  

sandkassi (IP-tala skráð) 24.6.2009 kl. 01:27

16 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

MT er ekki dómari í dag, GW man kannski sem og fleiri hvernig fór fyrir honum!?

Mér er nú alveg sama hvernig öðrum líkar mitt orðalag, ég fell nefnilega aldrei í þann fúla pytt að mæla niðrandi eða neikvætt persónulega við mann og annan líkt og sumir. Hér hefur engin undantekning verið gerð á því. Svo lifir spurningin, sem ekkert af þessu örugglega ágæta og lögspaka fólki hefur svarað eða getað varað, hver ætti þessi dómstóll að vera, skipaður af hverjum og hvar, sem ætti að kveða upp úr með gildi þessa samkomulags til eða frá!?

Magnús Geir Guðmundsson, 24.6.2009 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband