Færsluflokkur: Bloggar

Stjórnarsamstarfið - sjávarútvegsráðherrann - LÍÚ

Hrefna Er Einar Kristinn Guðfinnsson að reyna að ganga í augun á LÍÚ - eiga hvalveiðimenn einhverja hönk upp í bakið á honum? Það er erfitt að átta sig á því hvað maðurinn er að hugsa. Þriðja árið í röð gefur hann út hrefnuveiðikvóta - og setur allt í uppnám.  

Um leið sendir hann fingurinn í átt að þeim sem hafa undanfarin misseri verið að byggja upp hvalaskoðun sem valkost í ferðaþjónustu. Þeir aðilar eru augljóslega ekki jafn beintengdir inn í sjávarútvegsráðuneyti og hvalveiðimennirnir - enda ekki aðilar að LÍÚ, en þau annars ágætu samtök virðast stjórna sjávarútvegsráðuneytinu. 

Hann sendir líka fingurinn í átt að þeim sem hafa á undanförnum árum verið að markaðssetja íslenskar útflutningsvörur - að ekki sé minnst á þá sem hafa unnið ötullega við að skapa okkur ímynd með áherslu á umhverfissjónarmið. Hann setur utanríkisráðherrann í klemmu - já og alla diplómatana sem ötullega vinna að því að skapa okkur Íslendingum sess í samfélagi þjóðanna. 

Hvað er maðurinn að hugsa? 

Svo mikið er víst að þetta bætir ekki orðstír okkar Íslendinga. Hér er verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.

Hafi það verið ætlun sjávarútvegsráðherra að sýna af sér djörfung og dug, þá er honum ekki að takast sérlega vel upp. Þetta er hvorki djörfung né dugur - þetta er bara þrákelkni og fífldirfska. Sjávarútvegsráðherra væri nær að beita kröftum sínum og viðspyrnu gegn óréttlátu kvótakerfi - þar hefur hann ekkert aðhafst. Ekkert.

Svo má spyrja hvað ráðherranum gangi til gagnvart samstarfsaðilum sínum í ríkisstjórn. Auðséð er af yfirlýsingu utanríkisráðherra - formanns Samfylkingarinnar - að þessar nýjustu tiltektir hafa ekki vakið lukku í stjórnarsamstarfinu.

Er Einar Kristinn að ögra samstarfsflokknum? Getur verið að Sjálfstæðismenn séu að guggna í ríkisstjórninni?


mbl.is Alvarleg aðför að hvalaskoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel heppnað "útkall" á Skálavíkurheiði

Patton Í gær tókum við útkallsæfingu á Skálavíkurheiði og Tungudal ofan Bolungavíkur. Þegar ég segi "við" á ég við félagana í Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitar Íslands og Björgunarfélag Ísafjarðar en sveitirnar tvær efndu sameiginlega til þessarar æfingar.

 Við settum á svið leit að fjórum týndum einstaklingum - kærustupari sem hafði átt að koma fótgangandi frá Skálavík en borið af leið, og feðrum þeirra sem höfðu ákveðið að fara til móts við þau á sunnudagsmorgni. Samkvæmt sögunni átti parið að hafa náð símsambandi við foreldra sína á fjallshryggnum milli Skálavíkurheiðar og Tungudals svo ekki var "vitað" hvorumegin skyldi leita þeirra.

Þrjú hundateymi tóku þátt í leitinni. Allt unghundar sem voru að þreyta sína fyrstu þrekraun í "útkalli". Aðgerðastjórn var í höndum félaga úr báðum sveitum. Að þessu sinni var ég í skipulagsteyminu sem stjórnaði æfingunni, enda er minn hundur ekki tilbúinn ennþá í svona stórræði.

Æfingin tókst í alla staði vel - og það var ótrúlega gaman að sjá hundana vinna úr þessu verkefni, þessar elskur. Hundar eru frábært fyrirbæri þegar kemur að leitum. Lyktarskyn þeirra, hraðinn, vinnueinbeitingin. En sumir þeirra voru orðnir ansi þreyttir í lokin.

"Útkallið" barst kl. 13:09. Hálftíma síðar voru hundateymin komin á staðinn. Kl. 14:00 var búið að skipuleggja og skipta leitarsvæðum og hundarnir lagðir af stað. Fyrsti maðurinn fannst kl. 14.30 og sá síðasti laust fyrir kl. hálf fimm. Leitin í heild sinni tók því tvo og hálfan tíma sem þykir góður árangur. Leitarskilyrði voru góð, rigningarsúld en þokkalegur vindur. Hið síðarnefnda skiptir máli þegar hundar eru við leit því þeir taka lykt af fólki með veðri.

Í Vestfjarðadeild BHSÍ á Ísafirði eru alls sjö hundateymi. Hundarnir sem notaðir voru að þessu sinni eru allt ungir hundar sem hafa verið í þjálfun undanfarin tvö ár. Félagar úr unglingadeild Björgunarfélags Ísafjarðar aðstoðuðu í æfingunni. Þeir gengu svæðið eða léku ´"týnda" fólkið, eftir því sem þurfa þótti og stóðu sig í alla staði vel.

BHSI-ISO


Þarfasti þjónninn, félaginn, hljóðfærið ...

computer Það er svo undarlegt að hugsa til þess á hve örskömmum tíma tölvan - þetta litla tæki (núorðið) -  hefur náð að skipa sér sess í lífi manns. Tölvan er orðin miðpunktur alls sem gerist.

Í vinnunni er hún þarfasti þjóninn. Hún er glugginn út í heim. Samskiptatækið við vini og vandamenn. Hljóðfærið sem ég hamra á tregatóna um andvökunætur og gleðisöngva á góðum dögum. Já, þó skömm sé frá að segja þá hefur tölvan (nánast) tekið við af píanóinu og gítarnum sem sálusorgari og gleðigjafi. Í stað þess að slá á strengi er ég farin að hamra á tölvu til þess að tjá hugsanir mínar, ljóðasmíð og fleira. Tölvan er orðin helsti tengiliðurinn við lífið. Hún er "félaginn" - hljóðfærið - síminn! 

Er ekki eitthvað bogið við þetta? Woundering

Svo, til að kóróna skömmina, er hún líka farin að taka sér sess sem hálfgildings persóna. Þessi sem ég er að vinna á núna, er svolítið farin að þreytast. Hún er farin að hiksta og þrjóskast við - vera lengi að sumum hlutum. Og þá finn ég hvernig óþolinmæðin og ergelsið byggist upp gagnvart henni smátt og smátt. Já, ég viðurkenni það bara - ég er farin að TALA við tölvuófétið! Æ, vertu nú ekki að þreyta mig þetta - reyndu nú að moðast í gegnum þetta! Tuldra ég stundum. ÞÚ ætlar þó ekki að fara að frjósa núna!Angry

Svo suma daga er hún eins og hugur manns - lætur allt renna þýðlega í gegn og er bara draumur í dós (í orðsins fyllstu). Þá erum við vinkonur - og ég strýk henni mjúklega í þakklætisskyni þegar ég loka henni. Finn að mér er hlýtt til hennar.

Nú er ég farin að strjúka henni líka áður en ég opna hana - svona til að blíðka hana aðeins áður en við byrjum - það virkar ..... stundum Wink


Harmleikur? Ekki fyrir máfinn!

alft Þessi tárvota frétt um "harmleikinn" í álftahreiðrinu - þar sem svartbakar komust í feitt og átu eggin eftir að hafa hrakið álftina af hreiðrinu - er svolítið yfirdrifin. Þið fyrirgefið.

Altso - segi ég nú bara eins og gamli landlæknirinn: Er fólk ekki að átta sig á því hvernig dýrin lifa og nærast úti í náttúrunni? Harmleikur!? Fyrir hvern? Ekki máfinn sem svo sannarlega fékk þarna góða veislu. Svartbakar éta egg annarra fugla - það gerum við mannfólkið líka. Best að horfast í augu við þetta börnin góð. Svartbakar eru ekki grænmetisætur. Og það sem þarna gerðist er ekki fréttaefni - heldur lífsins gangur. Hafi þetta nú gerst með þessu hætti á annað borð. En eins og kemur fram í athugasemdum fuglafræðinga þá er nú heldur ólíklegt að álft geti ekki varist máfum.

Af þessum atburði er svo dregin sú ályktun að "engir álftarungar muni kost á legg þetta árið". Er nú ekki fullsnemt að segja svona? Það er ekki langt liðið á vor, og mér fínnst ótrúlegt annað en að náttúran hafi einhverskonar varaáætlun í boði fyrir fugla sem verða fyrir svona skakkaföllum nýorpnir. Þó veit ég ekki með stóran fugl eins og álftina. Vona það samt.

 


mbl.is Harmleikur á Bakkatjörn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borg fyrir fólk - ekki bíla

Austurvöllur Frábært að loka Pósthússtrætinu vegna veðurblíðu. Það var einmitt markmiðið okkar borgarfulltrúa Nýs vettvangs á sínum tíma - þegar við lögðum til að göturnar umhverfis Austurvöll yrðu allar gerðar að göngugötum en Austurstrætið (sem þá var göngugata) yrði opnað fyrir bílaumferð. Í Austurstræti er alltaf skuggi - Austurvöllur er hinsvegar sólríkur allan hringinn.

Þetta uppátæki okkar varð til þess að Thorvaldsenstræti og litlu götunni sem ég man ekki hvað heitir en liggur framan við Café París var lokað fyrir bílaumferð. Fljótlega fylltist sú gata af borðum og stólum á góðviðrisdögum, og nú held ég að allir séu sammála um að þetta hafi verið góð tilhögun. Enginn saknar skuggasundsins í Austurstræti sem göngugötu - en allir yrðu miður sín ef göturnar tvær við Austurvöll sem nú eru lokaðar yrðu opnaðar á ný.

Það er frábært að nú skuli Pósthússtrætinu lokað til að veita fótgangandi fólki svigrúm í veðurblíðunni. Mín vegna mætti ganga alla leið og loka Kirkjustrætinu svo völlurinn allur væri bara undirlagður af áhyggjulausum vegfarendum með börnin sín á blíðviðrisdegi.

Og nú langar mig til Reykjavíkur að sleikja sólina FootinMouth


mbl.is Pósthússtræti lokað vegna góðviðris
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þoka og fréttaþurrð

ArnarfjordurAgustAtlason Það er þoka í Skutulsfirðinum núna og stafalogn. Maður finnur samt fyrir sólinni einhversstaðar fyrir ofan - hún vefur birtu sína í þokumistrið, gerir það hlýrra. Kyrrð og værð yfir öllu. Hálfsofandi fuglar líða einn og einn um hafflötinn og skilja eftir sig V-laga rák.

Í morgun átti ég MSN-fund með mínu fólki á Skutli.is, líkt og alla aðra virka morgna. Þetta eru svona fréttafundir þar sem við ræðum atburði líðandi stundar og ákveðum hvað verður sett inn á vefsíðuna þann daginn. Nú brá svo við að það er ekkert í fréttum. Bara þoka.

Jamm, það koma svona dagar. Svo koma ráð. Wink

 Eigið góðan dag í dag.


Fjöldaaftökur yfirvofandi í Afganistan

 Íslandsdeild Amnesty International hefur sent út beiðni til félagsmanna að bregðast við vegna fyrirhugaðrar fjöldaaftöku afgangskra stjórnvalda á 100 ónafngreindum einstaklingum, en Alþjóðasamtökin sendu út skyndiaðgerðabeiðni í síðustu viku.

Hæstiréttur Afganistan staðfesti þann 16 apríl síðastliðinn dauðadóma yfir um 100 ónafngreindum einstaklingum sem dæmdir voru á lægri dómstigum fyrir glæpi á borð við morð, nauðganir, mannrán og vopnuð rán. Amnesty International óttast að fjöldaaftaka á einstaklingunum geti verið gerð hvenær sem er. Svipuð fjöldaaftaka var gerð í október 2007.

Nöfn hinna ákærðu hafa ekki verið gefin upp né hvar fangarnir séu í haldi. Samtökin hafa góðar heimildir fyrir því að réttarhöld yfir að minnsta kosti sumum einstaklingunum hafi alls ekki verið í samræmi við alþjóðleg viðmið um sanngjarna málsmeðferð. Einstaklingarnir fengu til að mynda nauman tíma til að undirbúa málsvörn sína, mikilvæg sönnunargögn fengu ekki að koma fram og vitnum var neitað að bera vitni.

Amnesty International hefur áður lýst yfir áhyggjum sínum yfir vanhæfni dómsyfirvalda í Afganistan til að halda uppi dómskerfi sem uppfyllir alþjóðlegar kröfur á borð við þær sem alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi kveður á um.

Hér er hlekkur á fyrirframskrifað bréf til afganskra stjórnvalda vegna málsins.

Hér er upphaflega skyndiaðgerðabeiðnin með frekari upplýsingum:

http://www.amnesty.org/en/library/asset/ASA11/005/2008/en/bf1ea9ac-1dd5-11dd-a442-edc80cf9d3ed/asa110052008eng.html


Brautargengiskonan útskrifuð

ArnarfjordurAgustAtlason  Í dag útskrifaðist ég af Brautargengisnámskeiði sem Impra - Nýsköpunarmiðstöð Íslands, hefur staðið fyrir hér á Ísafirði í vetur.  Ég fékk meira að segja sérstaka viðurkenningu fyrir "bestu viðskiptaáætlunina" - og vissi vart hvaðan á mig stóð veðrið. Blush Það var óvænt ánægja og heilmikil hvatning.

Ástæða þess að ég skellti mér á þetta námskeið var sú að mig hefur lengi langað til þess að standa fyrir stofnun söguseturs eða -sýningar um Spánverjavígin 1615. Ég sé fyrir mér afþreyingarsafn og sýningu ekki ósvipaða Landnámssetrinu í Borgarnesi ásamt leiðsöguferðum um söguslóð þessara dramatísku atburða þegar héraðshöfðingjar hér vestra - með Ara í Ögri fremstan í flokki - eltu uppi Baskneska hvalveiðimenn, sem hér höfðu lent í skipstrandi, og stráfelldu þá í tveimur aðförum 1615. Þessi atburður á engan sinn líka í Íslandssögunni - og af honum má ýmislegt læra um samfélag 17. aldar, atburða- og atvinnusögu okkar, hugmyndasöguna og margt fleira. Safnið gæti öðrum þræði verið fræðasetur þar sem fræðimenn gætu dvalið til lengri eða skemmri tíma við rannsóknir sínar. Það gæti verið vettvangur menningarviðburða og menningartengsla auk þess að bjóða upp á margvíslega afþreyingu og fróðleik.

Þegar ég, fyrr í vetur, fékk svo undirbúningsstyrk úr sjóðnum Átak til atvinnusköpunar og frá félagsmálaráðuneytinu til að vinna viðskiptaáætlun, þá var að hrökkva eða stökkva.

Þannig að ég fjárfesti einfaldlega í þessu Brautargengisnámskeiði - hugsaði með mér að það gæti verið gaman að skipta aðeins um gír og læra eitthvað nýtt. Brautargengisnámskeiðin eru ætluð konum í frumkvöðlaverkefnum. Og þarna hef ég setið á miðvikudögum, ásamt tíu konum hér úr nágrenninu, og stúderað innstu rök markaðs- og rekstrarfræða, bókhalds- og fjármögnunaráætlanir. Þetta hefur verið mjög skemmtilegt. Leiðbeinendur okkar hafa verið allir af vilja gerðir að aðstoða okkur og kenna - og satt að segja var þetta ný og áhugaverð reynsla fyrir mig. 

Í dag vorum við svo útskrifaðar allar saman - með ræðum, blómum, skírteinum og viðurkenningum. Halo

Með þá hvatningu í veganesti býst ég við að hóa saman hinum væntanlegu samstarfsaðilum. Og hjóla svo í sveitarstjórnirnar hér í kring, þingmenn kjördæmisins og væntanlega fjárfesta og kynna þeim áætlunina.

Nú sjáum við hvað setur. Wink


Jón eða séra Jón: Jakob Frímann eða Markús Örn

Thjodmenningarhus Hvar voru hinir ágengu fréttahaukar þegar Markús Örn Antonsson var ráðinn sem forstöðumaður Þjómenningarhúss, án auglýsingar fyrir skömmu - með 1,1, mkr á mánuði? Enginn fjölmiðill hefur mér vitanlega spurst nánar fyrir um launakjörin - eða fett fingur út í ráðningaraðferðina. Hvað þá að nokkur maður hafi verið kallaður til viðtals. Hvernig skyldi standa á því?

Vísir.is sagði þannig frá ráðningunni að Markús Örn hafi verið ráðinn frá 1. sept. n.k., hann muni leysa af hólmi Guðríði Sigurðardóttur sem hættir störfum að eigin ósk. Síðan er rakinn stuttlega ferill Markúsar. Enginn hneykslunartónn, ekki orð um launakjör.

Mbl.is sagði frá með svipuðum hætti. Enginn hneykslan - allt bara sjálfsagt og eðlilegt. Þar segir að Markús hafi verið "fluttur til í starfi".

Eyjan.is er raunar eini vefmiðillinn sem tekur fram að starfið hafi verið veitt án auglýsingar - en ekki er gert neitt með þá staðreynd að öðru leyti. 

Ég minnist þess ekki að Kastljósið eða Ísland í dag hafi skipt sér neitt af þesu máli - þið leiðréttið mig ef það er misminni hjá mér.

Áleitin fréttamennska? Varðstaða fyrir almenning? Hmmm ...


Messa er ekki tónleikar

Sudureyrarkirkja Aftur þurfti kirkjukór Suðureyrarkirkju á liðstyrk að halda fyrir Hvítasunnumessuna sem jafnframt var fermingarmessa. Og aftur hringdi Lilja vinkona mín og kórsystir til að biðja mig um að hlaupa í skarðið líkt og fyrir ári síðan. Ég gerði það með gleði og var því mætt hin reffilegasta í messu í dag til að syngja með kórnum.

Að þessu sinni  naut ég góðs af því að hafa verið með í fyrra - kunni bara nánast allt, var meira að segja nokkuð klár á messusvörunum hans Bjarna Thorsteinssonar. Við komumst í gegnum "Heilagan" nokkurnveginn skammlaust held ég, og "Guðslambið" var bara bærilegt, takk fyrir. Wink

Það vakti hins vegar athygli mína að kirkjugestir tóku ekki mikinn þátt í söngnum. Mér finnst það synd satt að segja. Sjálf syng ég alltaf með í messum - nema þess sé beinlínis óskað að kirkjugestir geri það ekki. Að vísu fæ ég stundum augnagotur, en mér er alveg sama. Mér bara finnst að fólk eigi að syngja með. Messa er jú messa, ekki tónleikar.

Fjögur falleg ungmenni unnu fermingarheitið sitt hjá séra Agnesi Sigurðardóttur, prófasti sem þjónaði í Suðureyrarkirkju í dag. Það snart mig að þarna var tekið í notkun nýtt og fallegt altarisklæði sem ein af sóknarkonunum hefur saumað með eigin höndum og gefið kirkjunni í minningu móður sinnar - sem sjálf gaf kirkjunni samskonar klæði fyrir 50 árum. Undurfagurt  klæði - sannkölluð kærleiksgjöf.

Sólin lét ekki sjá sig - en samt fallegur dagur. Smile


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband