Færsluflokkur: Bloggar

Eru 700 þúsund ofurlaun?

OlafurFMagnussonOmarOskarsson Einhvernveginn hefur það aldrei hvarflað að mér að starf framkvæmdastjóra miðborgarmála hafi verið búið til handa Jakobi Frímanni Magnússyni.  Ég trúi borgarstjóra mæta vel þegar hann sver slíkar ásakanir af sér. Hann segist hafa leitað til ýmissa áður en kom að ráðningu Jakobs, þ.á.m . Kristínar Einarsdóttur, fyrrum miðborgarstjóra. Þessu trúi ég líka vel. Það breytir því ekki, að það átti að auglýsa stöðuna svo hæfir einstaklingar gætu gefið kost á sér til starfans.

Því get ég vel skilið að fjölmiðlar skuli spyrja gagnrýnið um ástæður þess að staðan var ekki auglýst. Þeim ber að gera það. En ég get ekki tekið andköf yfir því þó að verkefnisstjóri í krefjandi, tímabundnu starfi fái sjöhundruð þúsund krónur á mánuði.  Það eru bara engin ofurlaun - jafnvel þó að margur hafi minna. Og satt að segja finnst mér sem fjölmiðlarnir hafi farið aðeins fram úr sér þarna. Ég veit vel að þetta eru engin verkamannalaun. En hvað ætli fréttamaður á sjónvarpinu hafi í mánaðarlaun þegar saman eru komin föst laun, vaktaálagið og óunna yfirvinnan (sem var umtalsverð þegar ég var og hét sem fréttamaður á sjónvarpinu)? Ætli fréttamaðurinn sem spurði borgastjóra spjörunum úr á föstudagskvöldið sé með mikið lægri laun en Jakob Frímann? Hverju skyldi muna þar?

Vitanlega er engin ástæða til þess að hlífa þeim sem fara með völdin við knýjandi spurningum um leikreglur lýðræðisins og stjórnsýslu almennt. Hitt væri kærkomið ef þeir sem ganga fram sem varðmenn almennings (og þá á ég að sjálfsögðu við fjölmiðla) gætu gert það af kurteisi og tilhlýðlegri mannvirðingu. Á það hefur skort gagnvart Ólafi F. Magnússyni.

Ég get ekki fellt mig við að fréttamenn sýni viðmælendum sínum yfirgang. Síst af öllu þegar um er að ræða virkilega góða og öfluga fréttamenn sem ég sjálf hef dálæti á.

Eitt er að krefja svara og spyrja ákveðið -  framígrip og háðsglósur yfir borðið eru annað mál. Þegar tilfinningar fréttamanna eru farnar að sjást á þeim í viðtölum við ráðamenn - af ekki stærra tilefni en einni mannaráðningu - þá er tímabært fyrir þá hina sömu fréttamenn að staldra aðeins við og hugsa sinn gang.

Ég segi nú svona.


mbl.is Miðborgarstjóra R-listans var boðið starfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veldur hver á heldur

RadhusRvikur Ég get skilið að starfsfólk á skrifstofu borgarstjóra vilji fá vinnufrið. Ég skil vel að þeim lítist vel á að fá Jakob Frímann til samstarfs við sig. Ég skil að Ólafur F. Magnússon skuli vera orðinn þreyttur nú þegar. En ... veldur hver á heldur.

Starfshættir og ákvarðanataka hins nýja meirihluta hefur verið svo gagnrýniverð að ekki verður hjá því komist að um það sé fjallað. Það er ekki við neinn annan að sakast en borgarstjóra sjálfan og hinn nýja meirihluta í borgarstjórn. Þannig er það bara.

Það eru réttir og eðlilegir stjórnsýsluhættir að auglýsa opinber störf. Gefa hæfu fólki kost á að bjóða fram starfskrafta sína og leggja síðan eina mælistiku á alla, meta þá á faglegum, óhlutdrægum forsendum. Þetta er grundvallaratriði - má jafnvel kalla mannréttindamál. 

Af hverju var starf miðborgarstjóra ekki auglýst? Sé Jakob Frímann svo hæfur sem borgarstjóri fullyrðir - og ég dreg ekki í efa - þá ætti hann að standast fyllilega samanburð við aðra umsækjendur. Jakobi Frímanni er sjálfum enginn greiði gerður með þessu.

Rökin fyrir því að ráða hann einungis til eins árs, og það í skyndi, hljóma ekki sannverðug. Í mínum eyrum eru þau hreinn fyrirsláttur. Borgarstjóri vildi fá Jakob til liðs við sig og hann vildi hindra að aðrir - t.d. aðrir umsækjendur - stæðu í vegi fyrir því. Þess vegna beitir hann heimildum sem hann hefur til tímabundinnar ráðningar. Ekkert ólöglegt við það - bara spurning um hvað sé siðlegt í stöðunni. Og hvað sé líklegra til þess að skapa vinnufrið - þennan vinnufrið sem borgastjóri hefur verið að tala um að undanförnu.


mbl.is Full eining meðal starfsmanna á skrifstofu borgarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleymt er þá gleypt er

Stundum er talað um að minni kjósenda sé gloppótt - og vika langur tími í pólitík. Að minnsta kosti hættir okkur oft til þess að gleyma jafnóðum því sem vel er gert en sjá svo ofsjónum yfir einhverju sem enn vantar. 

Að undanförnu hefur Stöð-2 farið mikinn gegn Ingibjörgu Sólrúnu utanríkisráðherra vegna kosningaloforðs sem hún gaf fyrir síðustu kosningar. Svo mjög liggur fréttamönnum á að sjá þetta eina kosningaloforð efnt - nú þegar innan við fjórðungur er liðinn af kjörtímabilinu - að þeir telja niður dagana til þinghlés. Líkt og ekkert annað loforð hafi verið gefið fyrir síðustu kosningar - enginn annar stjórnmálamaður hafi opnað munninn - og ekkert hafi verið gert í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Það er því tímabært að rifja upp það sem gert hefur verið á þessu eina ári sem liðið er frá kosningum - líkt og Ágúst Ólafur gerir á sinni bloggsíðu.  Listinn lítur nokkurnveginn svona út:

1. Lífeyrisgreiðslur almannatrygginga hafa hækkað um 7,4% á þessu ári eða um 9.400 krónur til þeirra sem aðeins fá óskertar greiðslur úr almannatryggingum.

2. Þessu til viðbótar verður öllum öldruðum, sem ekki njóta a.m.k. 25.000 króna greiðslu úr lífeyrissjóði nú þegar, tryggð sérstök kjarabót sem jafngildir 25.000 króna greiðslu úr lífeyrissjóði á mánuði.


3. Skerðing bóta vegna tekna maka var að fullu afnumin 1. apríl. Alls munu um 5.800 lífeyrisþegar uppskera hærri bætur við þessa breytingu, þ.e. um 3.900 öryrkjar og um 1.900 ellilífeyrisþegar.

4. Búið er að setja 90.000 króna frítekjumark á fjármagnstekjur á ári til að draga úr of- og vangreiðslum tekjutengdra bóta. Um 90% ellilífeyrisþega og um 95% örorkulífeyrisþega hafa fjármagnstekjur undir þessum mörkum.

5. Vasapeningar til tekjulausra vistmanna hafa hækkað um tæplega 30%.

6. Skerðingarhlutfall ellilífeyris hefur verið lækkað úr 30% í 25%

7. Þá mun frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega 67–70 ára verða hækkað í 100.000 krónur á mánuði frá 1. júlí . Þetta þýðir að ellilífeyrisþegar geta aflað sér tekna af atvinnu upp að 1.200.000 krónum á ári án þess að það hafi áhrif til skerðingar á lífeyrisgreiðslur þeirra í stað 327.000 króna áður.

8. Tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga hefur verið að fullu afnumin.

9. Hinn 1. júlí mun einnig verður sett 300.000 króna frítekjumark á lífeyrisgreiðslur örorkulífeyrisþega.


10. Hinn 1. júlí mun aldurstengd örorkuuppbót einnig hækka. Þannig mun einstaklingur sem metinn var til örorku 24 ára gamall fá 100% uppbót eftir breytinguna í stað 85% nú. Alls munu um 12.000 örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar njóta hækkunarinnar.

11. Um næstu áramót verður afnumin hin ósanngjarna skerðing lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignarsparnaðar. 

12. Um áramótin tóku gildi ný lög sem fela í sér mikilvægar breytingar á greiðslum til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Greiðslurnar nema 80% af meðaltali heildarlauna foreldra yfir tiltekið viðmiðunartímabil, en þetta fyrirkomulag er sambærilegt greiðslum í fæðingarorlofi. Talið er að foreldrar um 200 barna muni nú nýta sér þessar greiðslur árlega eftir breytingu en voru á síðasta ári færri en 10.

13. Þá hefur verið ákveðið að hækka skattleysismörkin um 20.000 krónur á kjörtímabilinu fyrir utan verðlagshækkanir .

14. Komugjöld á heilsugæslu fyrir börn hafa verið afnumin.

15. Skerðingarmörk barnabóta verða hækkuð um 50%.

16. Hámark húsaleigubóta verður hækkað um 50%.

17. Eignaskerðingarmörk vaxtabóta verða hækkuð um 35%.

18. Stimpilgjöld afnumin fyrir fyrstu kaupendur.

19.  Ný jafnréttislög hafa verið sett.

20.  Fyrsta aðgerðaráætlun fyrir börn samþykkt - Unga Ísland samþykkt.

 

Þetta er allnokkuð á ekki lengri tíma - verð ég að segja. Dágott.


Fréttamennska eða áróður?

isg Fyrst fannst mér svolítið smart hjá fréttastofu Stöðvar-2, að minna Ingibjörgu Sólrúnu á ummæli sín um eftirlaunareglu þingmanna. Gott hjá þeim, hugsaði ég. Nú hljóta þeir að ganga á röðina. Taka þá, hvern ráðherrann á fætur öðrum og spyrja áleitið um kosningaloforðin.

En þeir gengu ekki á röðina. Þeir hafa bara þrástagast á þessum einu ummælum Ingibjargar Sólrúnar fyrir síðustu kosningar - og talið niður: 30 dagar til þinghlés, 20 dagar .... o.s. frv. Dag eftir dag eftir dag. Það mætti halda að tíminn væri að renna út. Eins og mennirnir viti ekki af því að kjörtímabil spannar fjögur ár en ekki eitt.

Hvað er að gerast með fréttstofu Stöðvar-2? Lítur hún ekki á sig sem fréttamiðil lengur? Hefur hún gleymt hlutverki sínu, að segja fréttir?

Fjölmiðlar eiga vissulega að veita stjórnvöldum aðhald. Það gera þeir með upplýstri óhlutdrægri umræðu, með því að varpa ljósi á mál og láta menn standa skil á gjörðum sínum.  Að krefja stjórnmálamenn skil á kosningaloforðum getur að sjálfsögðu flokkast sem slíkt aðhald. En þegar einn stjórnmálamaður af 63 er tekinn fyrir - og eitt loforð af líklega nokkur hundruð loforðum sem gefin eru fyrir kosningar - og það áður en fjórðungur er liðinn af kjörtímabilinu. Dag eftir dag - fréttatíma eftir fréttatíma. Sama klifunin. Hvað er það?

Það er að minnsta kosti ekki fréttamennska. Angry


Gott var nú að fá þetta á hreint

arnarfjordur2 Ríkissjóður mun ekki greiða kostnað við umhverfismat vegna mögulegrar olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum segir Össur Skarphéðinsson. Gott var nú að fá þetta á hreint. Nauðsynlegt.

En hvað með lagaumhverfið að öðru leyti ? Mun einhver ráðherra á ögurstundu sitja dapur frammi fyrir fréttamönnum og segja að málið sé ekki í hans höndum, ekki í hans valdi, ekki á hans forræði?

Hvað lærðu menn af Helguvíkurmálinu?

Þarf ekki að breyta þessum lögum sem veita misvitrum sveitarstjórnum endanlegt vald til þess að hafa varanleg skemmdaráhrif á umhverfið.


mbl.is Borga ekki umhverfismat fyrir olíuhreinsunarstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt skref

Vonandi halda menn áfram að feta sig hina vandrötuðu slóð til aukins jafnvægis í efnahagslífi þjóðarinnar, samstíga og samábyrgir, eins og þessi fundur fulltrúa ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins gefur vonir um.

Samráð af þessu tagi er hin ábyrga leið - og hún er mun farsælli en upphlaup og yfirlýsingagleði um að stjórnvöld verði að fara að "grípa í taumana" og "gera eitthvað". Það er þetta "eitthvað" sem getur verið svo torráðið stundum - sérstaklega þegar mikið liggur við.

Nú ríður á að allir hlutaðeigandi hjálpist að og leggi gott til mála: Aðilar vinnumarkaðarins, ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan. Þjóðin horfir til þessara aðila einmitt núna.

Einmitt núna er horft til þeirra allra.


mbl.is Ætla að vinna á verðbólgunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

... og hann hélst þurr

skardskirkja  Þegar ég í gærmorgun og horfði á rigningarsletturnar á rúðunni - þá stödd austur í Fellsmúla í Landsveit og framundan ferming þeirra frænda, Hjörvars míns og Vésteins hennar Halldóru systur - bað ég himnaföðurinn í hógværu hljóði um að gefa okkur svolitla uppstyttu rétt á meðan sjálf athöfnin stæði yfir - svo kirkjugestir kæmust nú þurrum fótum til og frá kirkju.

Hann hlustaði á mig blessaður - því rétt fyrir kl. 14.00 birti yfir Heklunni með P1000402 (Medium) (2)uppstyttu í Landsveit.

Fermingin fór vel fram - eins og minnar systur var von og vísa. Skarðskirkjan vel setin og fermingardrengirnir prúðmannlegir í fasi, fóru hátt og skýrt með kærleiksboðorð, litlu biblíuna og fyrstu fjögur boðorðin. Tóku í hönd hvers manns sem heilsaði þeim og báru sig vel.

Á eftir nutum við samvista við fjölskyldu, vini og vandamenn í Laugalandsskóla og enn hélst hann þurr. Halo

Ég er mínum himnaföður þakklát fyrir uppstyttuna ... og þennan góðan dag. Þakklát systur minni fyrir fermingarathöfnina, fjölskyldu minni og vinum fyrir að vera með okkur á þessum hátíðisdegi.

 

P1000399 (Medium)P1000401 (Medium)P1000404 (Medium)P1000415 (Medium)P1000410 (Medium)

 

  

 

 

 

 


Sumum er ekkert heilagt

Aðeins einu sinni eða tvisvar hefur að mér hvarflað að loka þessari bloggsíðu og hætta hér á moggabloggi en slíkar hviður hafa yfirleitt staðið stutt og jafnað sig. Nú hvarflar þetta að mér aftur - ástæðan er athugasemd sem ég hef ákveðið að eyða.

Í gleði minni yfir væntanlegri fermingu yngsta sonarins sagði ég frá því á síðunni hér í gær hvað til stæði og að ég myndi líklega ekki blogga fyrr en eftir helgi. Ekki bjóst ég við neinum athugasemdum svo sem - en það hefði verið gaman að sjá eins og eina hamingjuósk.

Hvað um það, eina athugasemdin sem kom við þessa færslu var svo sannarlega ekki hamingjuósk - í besta falli aulafyndni, en um leið lítilsvirðing við  fermingarbarnið og fjölskylduna. Lítilsvirðing við trú okkar og þá lífspeki sem við höfum valið að lifa eftir, þ.e. að vera meðlimur í hinni íslensku þjóðkirkju sem kristið fólk. 

Sumum er ekkert heilagt. Ekki einu sinni tilfinningar saklauss fermingarbarns sem bíður með tilhlökkun síns hátíðisdags.

 


Fermingarundirbúningur

P1000216 (Small) Þessa dagana snýst allt um fermingu yngsta sonarins sem verður á sunnudag, austur í Landsveit. Nánar tiltekið í Skarðskirkju. Þar ætlar hún Halldóra systir mín að ferma þá saman systrasynina Hjörvar (minn) og Véstein (hennar), rétt eins og hún skírði þá báða í sömu kirkju fyrir tæpum fjórtán árum.

Messan í Skarðskirkju verður helguð þeim frændum því þeir verða einu fermingarbörnin í kirkjunni þann daginn. Við vonumst því til að sjá sem flest ættmenni og vini við fermingarathöfnina sjálfa.P1000209 (Small)

Veislan verður svo haldin í Laugalandi í Holtum i beinu framhaldi af messunni - svo það má segja að þetta sé allt í leiðinni fyrir þá sem á annað borð gera sér ferð austur til að vera með okkur.

 

 

 Jebb ... þannig að nú er fjölskyldan komin á Framnesveginn þar við erum svona að búa okkur undir herlegheitin. Ljósmyndataka í fyrramálið - svo verður farið austur að setja saman kransatertur, leggja á borð og gera klárt fyrir gestina á Sunnudag.

 P1000210 (Small)  Það verður því lítið bloggað fyrr en eftir helgi - ef að líkum lætur.

 


Hvar eru útgerðarmenn í umræðunni um olíuhreinsistöð?

 ArnarfjordurAgustAtlason Siglingaleiðirnar umhverfis Ísland eru hættulegustu siglingarleiðir í heimi. Olíuflutningar um þetta svæði eru því sérlega áhættumiklir vegna hættu á mengunarslysum. Þetta kom fram í Kompásþætti s.l. þriðjudagskvöld (sjá HÉR).

 Út af Vestfjörðum eru gjöfulustu fiskimið landsins. Og þó að sjávarútvegur og fiskvinnsla 580-arnarfjordur1á Vestfjörðum sé vart svipur hjá sjón þeirri sem áður var - þá sækja aðrar útgerðir á þessi mið. Íslenskur sjávarútvegur á nánast allt sitt undir því að þessum fiskimiðum verði ekki spillt, eins og ég hef ég bloggað um áður (sjá  HÉR).

Hér er mikið í húfi - sjávarútvegur er ein meginstoð okkar efnahagslífs. Þess vegna furða ég mig á því að íslenskir útgerðarmenn skuli ekkert hafa blandað sér í þessa umræðu um olíuhreinsistöð á Íslandi. Ekki þarf lengi að skoða myndband af olíuslysi Exxon Valdez við strendur Alaska fyrir nokkrum árum til að skilja hættuna sem Íslendingum sem fiskveiðiþjóð stafar af olíuhreinsistöð hér við land (smellið HÉR).

ExxonValdez Enginn á meira undir afdrifum þessa máls, en einmitt þeir sem lifa af fiskveiðum, fiskvinnslu og fiskútflutningi. Eitt mengunarslys við landið er nóg til þess að gjöreyðileggja möguleika okkar Íslendinga til þess að selja fisk á erlendum mörkuðum.

Nú hefur nýr bæjarstjórnarmeirihluti í Bolungarvík lýst yfir stuðningi við stóriðjuáform á Vestfjörðum og þar með olíuhreinsistöð. Ekki tala þeir í umboði meirihluta bæjarbúa, svo mikið þykist ég vita. En þeir hafa meirihluta eins manns í bæjarstjórninni, og beita nú þeim meirihluta í einu umdeildasta máli sem komið hefur upp þar um slóðir. Það er auðséð á öllu að Bolungarvík er ekki lengur sá útgerðarstaður sem áður var, og nú er þeim Bolvíkingum  - sumum hverjum að minnsta kosti - slétt sama um fiskimiðin við landið.

 Já, Bleik er svo sannarlega brugðið.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband