Hvað eru Vinstri grænir að hugsa?
15.5.2007 | 11:41
Eru vinstri grænir að reyna að tala sig frá vinstri stjórn? Það hvarflar sterklega að mér eftir að hafa hlýtt á þá Ögmund Jónasson og Steingrím J í umræðuþáttum síðustu sólarhringa, að þeir ætli að nota Framsóknarflokkinn sem ásteytingarstein gegn því að ganga í vinstri stjórn. Að Framsókn verði þeirra tylliástæða fyrir því að reyna að komast í stjórn með íhaldinu.
Auðvitað má svosem segja að mikið beri á milli þessara tveggja flokka í umhverfis- og stóriðjumálum. En halló: Stjórnarmyndun byggist alltaf á málefnasamningum. Það er engu líkara en að Vinstri grænir ætli EKKI að gefa neinn kost á slíkum samningum við Framsókn. Tilboð þeirra um minnihlutastjórn sem varin yrði falli með hlutleysi Framsóknar er á þeim nótum. Eða hvað ætti Framsókn að fá fyrir sinn snúð? Það vantar eitthvað inn í þessa samningatækni - ég meina, flokkurinn er jú í ríkisstjórn nú þegar. Það gefur auga leið að hann þarf að sjá sér einhvern hag í því að ganga út úr því samstarfi.
Ég tek undir með þeim sem hafa haldið því fram að undanförnu að Framsóknarflokkurinn hafi ýmis spil á hendi. Það er augljóslega ekki hægt að mynda vinstristjórn án þátttöku þeirra - og tilhugsunin um Vinstri græna í stjórn með Sjálfstæðisflokknum er ... tja, halda menn að unga fólkið sem kaus Vinstri græna í þessum kosninum hafi gert það til þess að koma þeim í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum? Það efa ég. Ef flokkurinn vill drepa sig - þá fer hanninn í slíka tveggja flokka stjórn. En ég held honum væri heilladrýgra að veðja á vinstrið að þessu sinni. Satt að segja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Óskasteinar og áhrif þeirra
14.5.2007 | 11:36
Í dag langar mig að taka frí frá heilabrotum um stjórnarmyndun og úrslit kosninga og fjalla um eitthvað allt annað. Í dag ætla ég að fjalla um trú á náttúrusteina - og deila með ykkur svari mínu við nýlegri fyrirspurn vísindavefnum: Hvað er vitað um töfrasteina eins og óskasteina og huliðshjálmssteina?
Trú á mátt töfrasteina er ævagömul á Íslandi. Í Grágás, íslenskri lögbók frá því um miðja þrettándu öld, er lagt bann við því að fara með steina eða magna þá til þess að binda á menn eða fénað. Til dæmis varðar það fjörbaugsgarð ef maður trúir á steina til heilindis sér eða fé sínu (19). Af þessu má ráða að steinar voru fyrst og fremst notaðir til lækninga og heilla, eins og nafngiftir þeirra gefa ótvírætt til kynna.
Þeir sem áttu óskasteina fengu óskir sínar uppfylltar. Lausnarsteinar auðvelduðu konum fæðingu og íslenskar yfirsetukonur áttu sumar hverjar slíkan stein. Sagt var að með lífsteini mætti lífga dauðvona mann og ef lífsteinn var í húsi var því trúað að það gæti ekki brunnið. Með huliðshjálmsstein undir vinstri handarkrika gat maður ferðast óséður. Fésteinar færðu mönnum fé. Ýmsir steinar voru notaðir til lækninga, til dæmis surtarbrandur sem sagður var góður við kveisu.
Þeir steinar sem koma fyrir í íslenskri þjóðtrú, til dæmis óskasteinar, huliðshjálmssteinar og lausnarsteinar, eru ekki alltaf raunverulegir steinar, heldur töfragripir sem líkjast steinum þegar búið er að verka þá og magna eftir kúnstarinnar reglum. Stundum voru slíkir gripir magnaðir upp af fuglseggjum eða jafnvel sjávarfangi, til dæmis pétursskipinu.
Ein aðferð til að koma sér upp huliðshjálmssteini var að taka nýorpið hrafnsegg, sjóða það og setja síðan í hreiðrið aftur, þar sem krummi reyndi að klekja því út. Talið var að þegar hann gæfi það upp á bátinn græfi hann eggið í jörðu. Væri það tekið áður en krummi gróf það var huliðshjálmssteinninn sagður vera inni í því. Egg annarra fugla, til dæmis kjóa og músarrindils, gátu gert sama gagn. Í íslenskri galdrabók frá 17. öld birtust eftirfarandi leiðbeiningar um huliðshjálm:
Tak þér eitt hænuegg og lát þar í blóð undan stórutá á vinstra fæti. Síðan kom egginu undir fuglinn og lát hann unga. Síðan tak ungann og brenn á eik, síðan lát í einn línpoka og ber á höfði þér (443).
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar eru leiðbeiningar um hvernig maður eigi að leita að töfrasteinum. Það mun best á páskadags- eða hvítasunnumorgunn undir sólaruppkomu. Þá liggja allir steinar lausir á jörðu og er þeirra helst að leita við sjó þar sem eru rauðir sandar.
Óskasteinar og huliðshjálmssteinar koma stundum fyrir í íslenskum galdramálum. Í gamalli skræðu sem fannst í Skálholti um miðbik 17. aldar er galdur þar sem óskasteinn kemur við sögu. Árið 1680 var maður að nafni Jón Eggertsson á Ökrum í Skagafirði ákærður fyrir að fara með huliðshjálm en ekki kemur fram í dómskjölum hvort þar var um stein að ræða. Í Kormákssögu (9. kafla) er getið um lyfstein og lífsteinn er nefndur í Göngu-Hrólfs sögu (3. kafla og 25. kafla).
Að lokum vil ég til gamans vísa hér á skemmtilega frásögn á bloggsíðunni hjá Salvöru Gissurardóttur þar sem hún segir frá afleiðingum þess að magna íslenska náttúrusteina í ógáti. Fyrirsögn hennar er tilvísun í fallegt lag eftir Hildigunni Halldórsdóttur, svohljóðandi:
Fann ég á fjalli fallega steina.
Faldi þá alla, vildi þeim leyna.
Huldi þar í hellisskúta heillasteina,
alla mína unaðslegu óskasteina.
Langt er nú síðan leit ég þá steina.
Lengur ei man ég óskina neina
er þeir skyldu uppfylla um ævidaga.
Ekki frá því skýrir þessi litla saga.
Gersemar mínar græt ég ei lengur,
geti þær fundið telpa' eða drengur,
silfurskæra kristalla með grænu' og gráu,
gullna roðasteina rennda fjólubláu.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Eru galdrar til? eftir Ólínu Þorvarðardóttur.
- Eru til sérstakir íslenskir steinar? eftir Sigurð Steinþórsson.
- Ég er sagður sestur í helgan stein. Hvar finn ég helga steininn!? eftir Guðrúnu Kvaran.
- Getið þið sagt mér einhverjar þjóðsögur um hrafninn? eftir Önnu Þorbjörgu Ingólfsdóttur.
- Hvaða jurtir voru notaðar til galdraverka og lækninga? eftir Símon Jón Jóhannsson.
- Hverjar eru síðustu heimildir um galdraiðkun á Íslandi? eftir Ólínu Þorvarðardóttur.
Heimildir, frekara lesefni og mynd
- Fornaldarsögur Norðurlanda I-III. Guðni Jónsson og Bjarni Vilhjálmsson sáu um útgáfuna. Forni, Reykjavík 1943-1944.
- Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Gunnar Karlsson o.fl. sáu um útgáfuna, Reykjavík 1992.
- Hall, Judy 2003: The Crystal Bible. A definitive guide to crystals. Godsfield Press, Hampshire, UK.
- Íslendingasögur og þættirI-III. Bragi Halldórsson o.fl. sáu um útgáfuna. Bókaútgáfan Svart á hvítu, Reykjavík 1987.
- Jón Árnason (safnaði) 1961-1968: Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I-VI. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðustu útgáfuna. Bókaútgáfan Þjóðsaga. Reykjavík. (1. útg. 1862-1864).
- Matthías Viðar Sæmundsson 1992: Galdrar á Íslandi. Íslensk galdrabók. Vaka Helgafell, Reykjavík, bls. 443.
- Ólína Þorvarðardóttir 2000: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan, Reykjavík.
- Steinar. Gagnavefur Kennaraháskóla Íslands:
- Mynd: Raven & nest. Flickr.com. Höfundur myndar er Kevin. Myndin er birt undir Creative Commons leyfi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hún lafir á "lyginni einni"
13.5.2007 | 11:55
Í smíðamáli er stundum sagt að eitthvað hangi saman á "lyginni" einni. Það má svo sannarlega segja um ríkisstjórnina eftir þessar kosningar - því samkvæmt kjörfylgi er hún fallin með innan við helming greiddra atkvæða (48%). Hún hangir þó inni á einum þingmanni vegna reiknireglna um jöfnunarþingsæti.
Samkvæmt mínum málskilningi er ofmælt að stjórnin hafi "haldið velli". Hún lafir á "lyginni".
Framsóknarflokkurinn er rjúkandi rúst eftir stjórnarsetuna með Sjálfstæðisflokknum. Ég skil vel þau ummæli Jóns Sigurðssonar í nótt, að eftir þessa útkomu hljóti flokkurinn að endurskoða afstöðu sína til stjórnarþátttöku - ef hann ætlar ekki hreinlega að þurrkast út. Við megum þó ekki gleyma því að Framsóknarflokkurinn er valdasækinn flokkur. Það er því ekki víst að samráðherrar Jóns og þingmenn flokksins leyfi formanninum að skipa flokknum á hliðarlínuna - jafnvel þó það ríði flokknum að fullu að halda þessu stjórnarsamstarfi áfram. En hver veit nema flokkurinn verði svo heppinn að komast inn í annarskonar stjórnarmynstur - það er svosem ekkert útilokað í stöðunni ennþá.
En það er margt skrýtið í kýrhausnum - og leikreglur lýðræðisins koma einkennilega út. Í Norðvesturkjördæmi eru Samfylking og Frjálslyndir með jafnmarga þingmenn - samt er Samfylkingin með 21,2% en Frjálslyndir með 13,6%. Þessir tveir flokkar fengu jafn marga jöfnunarþingmenn á landsvísu, þó Samfylkingin sé með 26,8% en frjálslyndir aðeins með 7,3%.
Sjálfstæðismenn hafa haldið því fram í nótt og morgun að flokkurinn sé að vinna góðan sigur. Þó er þetta er önnur versta kosningaútkoma hans frá því Albert Guðmundsson klauf sig úr Sjálfstæðisflokknum árið 1987. Miðað við síðustu kosningar er flokkurinn þó aðeins að sækja á - en síðustu kosningar voru líka versta útreið flokksins í fjórtán ár - gleymum því ekki.
Jæja, en nú hljóta þreifingar að ganga greitt milli manna í stjórnarmyndun. Í fréttum morgunsins var fullyrt að vinstri flokkarnir væru að ræða óformlega saman. Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindunni.
![]() |
Ríkisstjórnin hélt velli með minnsta mun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Kjördagur - tökum það rólega
12.5.2007 | 12:26
Jæja þá er runninn upp kjördagur - heldur kaldur og hráslagalegur hérna fyrir vestan. Hiti við frostmark. Spurningin er bara hverjum dagurinn verði kaldastur að þessu sinni.
Mér hefur alltaf fundist kjördagur vera hátíðisdagur. Fólk mætir á kjörstað, fer í bæinn að sýna sig og sjá aðra - fær sér kaffisopa einhversstaðar, kíkir á kosningaskrifstofu. Það er sérstök stemning í loftinu. Á þessum degi vill maður fá frið fyrir frambjóðendum og áróðri - það er að baki.
Sumir flokkar halda áfram að hringja "maður á mann" allan kjördaginn. Mér finnst það leiðinlegt. Á þessum degi er baráttan að baki og menn eiga bara að slaka á eftir slaginn. Foringjarnir eru löngu búnir að undirbúa ríkisstjórnarviðræðurnar og tilbúnir með útspil sín, þannig að þeir ættu að geta tekið þennan dag rólega - hvort sem þeir gera það með stuðningsmönnum eða fjölskyldum.
Jamm - það verður því ekki bloggað meira á þessari síðu fyrr en eftir kosningar. En þá áskil ég mér allan rétt til þess að hafa mikla meiningar um stjórnarmyndunarviðræður og annað tengt úrslitum kosninganna
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Orð og efndir?
11.5.2007 | 11:58
Það getur stundum verið lærdómsríkt að skoða söguna. Þegar kjördagur nálgast og menn þurfa að gera upp við sig hvernig þeir verja atkvæði sínu getur t.d. verið gagnlegt að rifja upp orð stjórnmálamanna og efndir.
Í landsfundar-ályktun Sjálfstæðisflokksins vorið 2003 segir til dæmis um Íraksstríðið:
"Sjálfstæðisflokkurinn lýsir yfir eindregnum stuðningi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að skipa Íslandi í hóp þeirra ríkja sem styðja frelsun Íraks".
Þeir stóðu svo sannarlega við það, blessaðir - en voru þeir samstíga þjóðinni?
Tvær vinkonur mínar rifjuðu sömuleiðis upp fyrir mér í morgun annað stefnumál sem hefði e.t.v. staðið flokknum nær að efna. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra lofaði Vestfirðingum malbikuðu Ísafjarðardjúpi fyrir 2000. Þær leiða líkum að því - svona í ljósi framkvæmdahraðans sem verið hefur - að sennilega hafi hann átt við það, að þegar Vestfirðingum hefði fækkað niður í 2000 yrði komið malbik á Djúpið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Söngvakeppni (austur) Evrópskra sjónvarpsstöðva
10.5.2007 | 22:30
Þetta var með ólíkindum. Öll lélegustu lögin komust áfram. Meira að segja Tyrkland - sú rauðgljándi, iðandi hörmung. Það vantaði bara ALBANÍU til þess að kóróna ósköpin.
Og sáuð þið landafræðina í þessu? Balkan og Austur Evrópa!
Nei, þetta er ekki lengur söngvakeppni sem endurspeglar evrópska tónlistarmenningu - ekki fyrir fimm aura. Þetta er að verða hálfgert strip-show með flugeldasýningum og lafmóðu fólki sem heldur sumt ekki einusinni lagi fyrir látum. Við höfum ekkert í þetta að gera - hreint ekki neitt.
Eigum bara að hætta þessu.
En Eiki var góður - rokkaður reynslubolti, flottur á sviðinu og söng eins og hetja. Hann er eins og Burgundi-vínin, batnar með árunum.
![]() |
Ísland komst ekki í úrslit Eurovision |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Flottur framboðsþáttur á Stöð-2 í gær
10.5.2007 | 11:01
Horfði á formannaþáttinn á Stöð-2 í gær. Flottur þáttur og vel skipulagður.
Það var góð hugmynd að taka formennina sérstaklega í beinskeytt viðtal, einn og einn - auk skoðanaskiptanna. Sömuleiðis var vel til fundið að hafa álitsgjafa með í útsendingunni. Maður veit hvernig þetta er á mörgum heimilum eftir svona þætti - þá vill fólk spá og spekúlera, leggja mat á frammistöðu pólitíkusanna. Þá er ekki verra að hafa spekúlanta við sömu iðju á skjánum.
Spyrlar komu vel fyrir - háttvísir í framkomu en beinskeyttir.
Hafi ég saknað einhvers þá var það kannski að ekki skyldi ákveðnum lykilspurningum beint til þeirra allra í yfirheyrslunum. Til dæmis var Ingibjörg Sólrún spurð að því hvort hún gæti hugsað sér setu í ríkisstjórn án þess að vera forsætisráðherra. Hún svaraði því játandi og það svar var meðal þess sem tekið var út í frétt um efnið. En hvers vegna var Geir Haarde ekki spurður þess sama? Ég hefði gjarnan vilja heyra hans svar.
Ég er sammála álitsgjöfum um að Ingibjörg Sólrún bar af í þessum þætti - ekki aðeins máflutningur hennar heldur líka yfirbragð og framkoma. Enn og aftur gerist það að flokksformennirnir á hægri vængnum mæta dökk- eða svartklæddir til leiks, svo lýsist liturinn eftir því sem lengra dregur í hina áttina. Ingibjörg Sólrún bar seinna nafn sitt með réttu þar sem hún sat á ljósri pilsdragt innan um kallana -- það var næstum því táknrænt að sjá.
Þá get ég tekið undir með álitsgjöfum að í viðtölunum hefði e.t.v verið nær að spyrja formennina nánar út í önnur mál en þau sem þeir hafa mest fjallað um; spyrja t.d. Ómar út í efnahagsmál og Evrópusambandsaðild, Guðjón Arnar út í umhverfismál og launamun kynjanna, svo dæmi sé tekið.
Hvað um það - þetta var vel heppnað á heildina litið. Bestu þakkir Stöð-2.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Rífandi gangur - þetta er allt að koma!
9.5.2007 | 22:37
Já, nú er þetta allt að koma.
En það er athyglisvert hvað þessi könnun stangast algjörlega á við nýjustu könnun Capacent-Gallups sem sýndi risa fylgisstökk hjá Framsókn og sveiflur í fylgi annarra flokka. Þar hlýtur eitthvað að hafa farið úrskeiðis í sjálfu úrtakinu - sem getur auðvitað gerst af og til, eins og bent hefur verið á.
En þessi könnun Stöðvar-2 sem birt var síðdegis, og sýnir enn minna fylgi við ríkisstjórnina en áður, hún virðist trúverðug. Úrtakið er helmingi stærra en í Capacent-Gallup könnununum og svarhlutfall hærra. Sé hún borin saman við aðrar kannanir (að síðustuu Capacent-Gallup könnuninni undanskilinni) er nokkuð ljóst að Samfylkingin er að sækja á en Sjálfstæðisflokkurinn að dala. Sameiginlegt fylgi Samfylkingar og Vinstri grænna er nú svipað sameiginlegu fylgi stjórnarflokkanna, samkvæmt þessari könnun.
ERGO: Það er raunverulegur möguleiki að koma á nýrri tveggja flokka ríkisstjórn! Félagshyggju og umhverfisstjórn - sannkallaðri VELFERÐARSTJÓRN með gáfaða og glæsilega konu í forsæti. Ekki amaleg tilhugsun það .
![]() |
Ríkisstjórnin fallin samkvæmt nýrri skoðanakönnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Syndaregtistur ríkisstjórnarinnar - lengra en hugðak
9.5.2007 | 12:40
Ágúst Ólafur Ágústsson birti á bloggsíðu sinni fyrir skömmu syndaregistur ríkisstjórnarinnar á yfirstandandi valdaskeiði hennar. Listinn er langur - á honum eru 40 atriði.
Stundum er sagt að vika sé langur tími í pólitík - kjósendur séu fljótir að gleyma. Nú sannaðist það á sjálfri mér, því satt að segja kom mér á óvart hvað margt af því sem þarna er talið var farið að gleymast.
Minn listi verður rýmisins vegna nokkuð styttri - en hann rúmar tólf mikilvæg atriði.
- Íraksstríðið: Samþykki íslenskra ráðamanna við árásarstríði gegn annarri þjóð, gefið í óþökk eigin þjóðar.
- Vaxandi fátækt - 5000 fátæk börn
- Neyðarástand í geðheilbrigðismálum barna og unglinga - 170 börn á biðlista.
- Biðlistar eftir heilbrigðis- og öldrunarþjónustu - þrjúþúsund manns á biðlistum hjá Landspítalanum, á fimmta hundrað aldraðra bíða þjónustu
- Misskipting tekna - ójöfn skattbyrði
- Verðlag lyfja og matvæla eitt hið hæsta í heimi
- Landbúnaðarkerfi bundið á klafa miðstýringar, tollaverndar og niðurgeriðslna
- Launaleynd og kynbundinn launamunur
- "Innmúraðir" og "innvígðir" koma sér fyrir í kerfinu - einn er kominn í hæstarétt
- Eftirlaunafrumvarpið
- Baugsmálið
- Fjölmiðlafrumvarpið
Já - það fennir seint í þessa slóð. Þá eru ótalin ýmsar neyðarlegar uppákomur og ummæli stjórnarliða sem lýsa viðhorfum þeirra og trúnaði við almenning:
- "Tæknileg mistök" Árna Johnsen
- "Framlag" Ástu Möller til umræðunnar um stjórnarmyndunarumboð forseta Íslands
- "Kannski ekki sætasta stelpan á ballinu heldur bara einhver sem gerir sama gagn"
- "Jafnréttislögin eru barn síns tíma"
- "Þær hefðu kannski orðið óléttar hvort eð er"
- Keyptur sendiherrabústaður sem kostaði jafnmikið og ársrekstur meðal framhaldsskóla
- Lögvernd vændis
- "Ónefndi maðurinn"
- Aðhalds- og eftirlitsleysi gagnvart Byrginu
Bloggar | Breytt 26.3.2009 kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Línurnar skýrast - stjórnin fallin?
8.5.2007 | 15:51
Jæja, þá er ríkisstjórnin fallin samkvæmt Capacent-Gallup. Það hlaut að koma að því.
Um leið og óákveðnum fækkar taka línur að skýrast - væntanlegir kjósendur eru farnir að raða sér á básana og kannanirnar verða marktækari en áður.
Samfylking eykur fylgi sitt um 2% á fáum dögum og hefur þá aukið fylgið um 4% frá þarsíðustu könnun. Hún mælist nú með 18 þingmenn í stað 16 í síðustu könnun. Framsókn og Íslandshreyfingin sækja líka í sig veðrið.
Fylgisaukning Samfylkingarinnar er skiljanleg. Málefnaáherslur flokksins hafa komist vel til skila að undanförnu, frambjóðendur hafa staðið sig vel í umræðuþáttum og blaðaskrifum. Ingibjörg Sólrún hefur sýnt glæsileg tilrif í ræðu og riti. Málflutningur hennar og annarra frambjóðenda er trúverðugur. Allt hefur þetta áhrif.
Sjálfstæðisflokkurinn dalar hratt um þessar mundir - fylgi flokksins minnkar um 3,5% á fáum dögum og þingmönnum fækkar um tvo. Það vekur ekki sérstaka furðu. Annarsvegar vitum við að flokkurinn hefur ævinlega fengið meira í könnunum en kosningum. Hinsvegar hafa frambjóðendur hans ekki verið að koma neitt sérlega vel út fyrir þessar kosningar. Formaður flokksins, sjálfur forsætisráðherrann, hefur verið dauflegur í sjónvarpsumræðum, allt að því áhugalítill. Sjávarútvegsráðherrann hefur hrakist út í tóm vandræði þegar málefni hans eigin heimabyggðar hafa komið til tals. Menntamálaráðherra, varaformaður flokksins, hefur ekki komið vel fyrir í umræðuþáttum, verið ágeng og hávær. Verstur var þó líklega Ástu þáttur Möller nú nýlega - en "framlag" hennar til umræðunnar um stjórnarmyndunarumboð forsetans á sér trúlega engar hliðstæður í íslenskum stjórnmálum.
Jamm, stjórnin gæti verið fallin - guð láti gott á vita. En við spyrjum þó að leikslokum. Kannanir eru ekki kosningar.
![]() |
Fylgi Samfylkingar og Framsóknarflokks eykst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)