Óskasteinar og áhrif þeirra

hrafnshreiður  Í dag langar mig að taka frí frá heilabrotum um stjórnarmyndun og úrslit kosninga og fjalla um eitthvað allt annað. Í dag ætla ég að fjalla um trú á náttúrusteina - og deila með ykkur svari mínu við nýlegri fyrirspurn vísindavefnum: Hvað er vitað um töfrasteina eins og óskasteina og huliðshjálmssteina?

Trú á mátt töfrasteina er ævagömul á Íslandi. Í Grágás, íslenskri lögbók frá því um miðja þrettándu öld, er lagt bann við því að „fara með steina eða magna þá til þess að binda á menn eða fénað“. Til dæmis varðar það fjörbaugsgarð „ef maður trúir á steina til heilindis sér eða fé sínu“ (19). Af þessu má ráða að steinar voru fyrst og fremst notaðir til lækninga og heilla, eins og nafngiftir þeirra gefa ótvírætt til kynna.

Þeir sem áttu óskasteina fengu óskir sínar uppfylltar. Lausnarsteinar auðvelduðu konum fæðingu og íslenskar yfirsetukonur áttu sumar hverjar slíkan stein. Sagt var að með lífsteini mætti lífga dauðvona mann og ef lífsteinn var í húsi var því trúað að það gæti ekki brunnið. Með huliðshjálmsstein undir vinstri handarkrika gat maður ferðast óséður. Fésteinar færðu mönnum fé. Ýmsir steinar voru notaðir til lækninga, til dæmis surtarbrandur sem sagður var góður við kveisu.

Þeir steinar sem koma fyrir í íslenskri þjóðtrú, til dæmis óskasteinar, huliðshjálmssteinar og lausnarsteinar, eru ekki alltaf raunverulegir steinar, heldur töfragripir sem líkjast steinum þegar búið er að verka þá og magna eftir kúnstarinnar reglum. Stundum voru slíkir gripir magnaðir upp af fuglseggjum eða jafnvel sjávarfangi, til dæmis
pétursskipinu.

Ein aðferð til að koma sér upp huliðshjálmssteini var að taka nýorpið hrafnsegg, sjóða það og setja síðan í hreiðrið aftur, þar sem krummi reyndi að klekja því út. Talið var að þegar hann gæfi það upp á bátinn græfi hann eggið í jörðu. Væri það tekið áður en krummi gróf það var huliðshjálmssteinninn sagður vera inni í því. Egg annarra fugla, til dæmis kjóa og músarrindils, gátu gert sama gagn. Í íslenskri galdrabók frá 17. öld birtust eftirfarandi leiðbeiningar um huliðshjálm:

Tak þér eitt hænuegg og lát þar í blóð undan stórutá á vinstra fæti. Síðan kom egginu undir fuglinn og lát hann unga. Síðan tak ungann og brenn á eik, síðan lát í einn línpoka og ber á höfði þér (443).


Í þjóðsögum Jóns Árnasonar eru leiðbeiningar um hvernig maður eigi að leita að töfrasteinum. Það mun best á páskadags- eða hvítasunnumorgunn undir sólaruppkomu. „Þá liggja allir steinar lausir á jörðu“ og er þeirra helst að leita við sjó þar sem eru rauðir sandar.

Óskasteinar og huliðshjálmssteinar koma stundum fyrir í íslenskum galdramálum. Í gamalli skræðu sem fannst í Skálholti um miðbik 17. aldar er galdur þar sem óskasteinn kemur við sögu. Árið 1680 var maður að nafni Jón Eggertsson á Ökrum í Skagafirði ákærður fyrir að fara með huliðshjálm en ekki kemur fram í dómskjölum hvort þar var um stein að ræða. Í Kormákssögu (9. kafla) er getið um lyfstein og lífsteinn er nefndur í Göngu-Hrólfs sögu (3. kafla og 25. kafla).

Að lokum vil ég til gamans vísa hér á skemmtilega frásögn á bloggsíðunni hjá Salvöru Gissurardóttur þar sem hún segir frá afleiðingum þess að magna íslenska náttúrusteina í ógáti. Fyrirsögn hennar er tilvísun í fallegt lag eftir Hildigunni Halldórsdóttur, svohljóðandi:

Fann ég á fjalli fallega steina.
Faldi þá alla, vildi þeim leyna.
Huldi þar í hellisskúta heillasteina,
alla mína unaðslegu óskasteina.

Langt er nú síðan leit ég þá steina.
Lengur ei man ég óskina neina
er þeir skyldu uppfylla um ævidaga.
Ekki frá því skýrir þessi litla saga.

Gersemar mínar græt ég ei lengur,
geti þær fundið telpa' eða drengur,
silfurskæra kristalla með grænu' og gráu,
gullna roðasteina rennda fjólubláu.

 

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir, frekara lesefni og mynd

  • Fornaldarsögur Norðurlanda I-III. Guðni Jónsson og Bjarni Vilhjálmsson sáu um útgáfuna. Forni, Reykjavík 1943-1944.
  • Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Gunnar Karlsson o.fl. sáu um útgáfuna, Reykjavík 1992.
  • Hall, Judy 2003: The Crystal Bible. A definitive guide to crystals. Godsfield Press, Hampshire, UK.
  • Íslendingasögur og þættirI-III. Bragi Halldórsson o.fl. sáu um útgáfuna. Bókaútgáfan Svart á hvítu, Reykjavík 1987.
  • Jón Árnason (safnaði) 1961-1968: Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I-VI. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðustu útgáfuna. Bókaútgáfan Þjóðsaga. Reykjavík. (1. útg. 1862-1864).
  • Matthías Viðar Sæmundsson 1992: Galdrar á Íslandi. Íslensk galdrabók. Vaka Helgafell, Reykjavík, bls. 443.
  • Ólína Þorvarðardóttir 2000: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan, Reykjavík.
  • Steinar. Gagnavefur Kennaraháskóla Íslands:
  • Mynd: Raven & nest. Flickr.com. Höfundur myndar er Kevin. Myndin er birt undir Creative Commons leyfi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Gaman að lesa skrif þín Ólína að vanda, sammála er ég Óskari Þór. Allir steinar geta verið þeir steinar sem maður óskar sér, ef maður ber virðingu fyrir þeim, það eru sömu gildi með mannfólkið svo ég tali nú ekki um náttúruna hún er að sjálfsögðu það magnaðasta sem til er, það er allt í henni krafturinn, galdurinn,steinarnir, fjöllin við þurfum bara að vera opin fyrir þessu þá er þetta allt okkar til að nýta í okkar þágu.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 15.5.2007 kl. 10:34

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Spaklega mælt - bæði tvö.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 15.5.2007 kl. 10:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband