Hefði mátt bjarga gæsavarpinu við Hálslón?

hverfandihreidur Þessi mynd úr mogganum af umflotnu gæsahreiðri er sorgleg sjón. Hálslón er enn að fyllast. Gæsirnar hafa verpt umhverfis það, á sínum vanalegu varpstöðvum, og nú eru hreiðrin að fara eitt af öðru undir vatn. Einhversstaðar sá ég eða heyrði talað um 500-600 hreiður sem færust af þessum sökum. Fuglafræðingur upplýsti í útvarpinu að hætt væri við að þær gæsir sem fyrir þessu verða færu og kæmu aldrei aftur. Einhverjar reyna þó vonandi aftur, á vænlegri stað.

En nú spyr ég: Var þetta ekki fyrirsjáanlegt? Hugkvæmdist engum að það þyrfti hugsanlega að stugga við gæsunum um varptímann svo þær færðu sig fjær  - eða hefði það verið óvinnandi vegur? Spyr sú sem ekki veit.

Hreindýraveiðimenn hika ekki við að ferðast um þetta svæði á fjórhjólum og fótgangandi. Ég velti fyrir mér hvort náttúru- eða dýraverndunarsamtök í landinu, Umhverfisstofnun eða sveitarfélögin á svæðinu hefðu ekki getað gert einhverjar ráðstafanir -- sett upp loftbyssur, fuglahræður, eða hvað það nú er sem menn gera t.d. til þess að fæla vargfugl, og forða gæsinni þar með frá því að hreiðra sig við vatnsborðið?

Ég veit það ekki - en þessi mynd gleymist ekki í bráð.


Kirkjukórskonan ... enginn veit sína ævina

 

kórsöngurEnginn veit sína ævina ... segir máltækið, og sannast á mér þessa daga.

Haldið ekki að ég sé komin í kirkjukór - að vísu bara sem íhlaupamanneskja þessa vikuna, svona rétt til þess að bjarga málum í fermingarmessunni sem framundan er í Suðureyrarkirkju á Hvítasunnudag. En það er sama - aldrei hélt ég að ég ætti eftir að taka mér stöðu í kirkjukór Suðureyrar í Súgandafirði. En þau voru í svolitlum vandræðum vegna mannfæðar - aðeins ein kona í altinni - og kórinn verður ekki nema svona 8-10 manns, svo ég sagði auðvitað já við erindinu. Og nú er eins gott að standa sig.

Það kom auðvitað í ljós á fyrstu æfingu að ég þekkti ekki nema helming sálmanna - og hef ekki sungið altröddina við nema einn. Ekki bætti úr skák að nóturnar eru með allt öðrum textum en þeim sem sungnir verða, þannig að ég er þessa dagana í hörðu textanámi til þess að geta fylgt nótunum í messunni (án þess að þurfa samtímis að finna texta neðar á blaðinu - en það er ekkert grín skal ég segja ykkur). Svo eru messusvörin - og þetta er svo metnaðarfullt fólk að það ætlar að sjálfsögðu að radda þau líka! Jamm ... ég hef nóg að gera í þessu fram að helgi.

Annars hefur sönglíf mitt verið óvenju fjörugt að undanförnu. Ég söng með á tónleikum Sunnukórsins á Ísafirði fyrir viku og svo með kvennakórnum Vestfirsku valkyrjunum á laugardaginn. Í síðara tilvikinu sungum við nokkur lög á samtónleikum með Árnesingakórnum sem haldnir voru í Ísafjarðarkirkju. Um kvöldið var samfagnaður þessara tveggja kóra yfir borðhaldi með miklum söng og skemmtilegheitum. Frábær kvöldstund - og skemmtilegt fólk þessi Árnesingakór.

Framundan er svo tveggja vikna tónleikaferð með Sunnukórnum til Svíþjóðar, Finnlands og Eistlands um miðjan júní. Munum m.a. syngja í hellakirkjunni í Helsinki. Það er mikið tilhlökkunarefni.

En næst á dagskrá er það semsagt fermingarmessan á Suðureyri á Hvítasunnudag. Er búin að læra Hvítasunnusálminn (Skín á himni skír og fagur...). Næst er það "Legg þú á djúpið ..." og röddunin við "Heilagur, heilagur" í messusvörunum. Úff!


2 milljarðar í vasa aðaleiganda Kambs

 

 kambur3 Ég hef fyrir satt að aðaleigandi Kambs á Flateyri, Hinrik Kristjánsson, fái um TVO MILLJARÐA í sinn hlut þegar hann hefur selt allt heila klabbið og greitt skuldir sínar - hvorki meira né minna. Þetta hafa útvegsmenn á svæðinu reiknað út í ljósi þeirra aflaheimilda sem fyrirtækið hefur yfir að ráða (3000 þorskígildistonn sem leggja sig á 7 milljarða) og skuldsetningar fyrirtækisins. Hinrik segist sjálfur hafa orðið að loka fyrirtækinu til þess að komast út úr erfiðri rekstrarstöðu og skuldum - hann þurfi að lenda standandi.

Jæja - tveir milljarðar í aðra hönd ættu nú að hjálpa upp á sakirnar.

Það er bænastund í Flateyrarkirkju í dag í tilefni af fréttum um lokun Kambs. Sorgin og vonleysið sem svífur yfir byggðarlaginu er ólýsanleg.

Ég las athyglisverða frétt á bb.is í dag um framkomu stjórnenda fyrirtækisins við starfsfólk sitt fyrir kosningar - afar sérstakt ef rétt reynist.

 


mbl.is Ráðherrar ræddu um stöðu Vestfjarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru menn nú að vakna?

 Til allrar hamingju virðist bæjarstjórnarmeirihluti Ísafjarðarbæjar vera að ranka úr rotinu í atvinnu- og byggðamálum. Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í fyrra fussuðu þeir og sveiuðu þeirri hugmynd að stofna almenningshlutafélag um kaup aflaheimilda til þess að halda kvótanum í byggð og vernda þar með atvinnu og búsetuskilyrði í byggðarlaginu. Þeir kölluðu hugmyndina "brjálæði" og fóru hamförum gegn frambjóðendum Í-listans sem héldu henni á lofti.

 

Fyrirhuguð lokun útgerðarfyrirtækisins Kambs á Flateyri hefur nú opnað augu manna - og sem betur fer er bæjarráð Ísafjarðar nú samhuga um að grípa til aðgerða, m.a. að stofna almenningshlutafélag um kaup aflaheimilda (sjá grein bæjarráðsmanns um ályktun bæjarráðs frá í gær). Það er vel að augu manna skuli vera að opnast - en reynslan er dýrkeypt, maður lifandi.

Annars var ég að hlusta á Guðjón Arnar í útvarpinu áðan - honum mæltist vel. Ég vona heilshugar að menn beri nú gæfu til þess að taka höndum saman um að bjarga þessu byggðarlagi - hvar í flokki sem þeir standa. Til þess þarf samhug og samvinnu, ekki pólitíska sérstöðu eða sjálfkrýnda "sigurvegara". Til þess þarf menn með VILJA og hæfilega HÓGVÆRÐ til þess að láta gott af sér leiða. Menn sem hugsa um afrakstur verkanna fremur en ímyndað frægðarorð. Hinn sanni sigurvegari er sá sem getur unnið sitt verk í hógværð og sér afrakstur þess verða að veruleika.

Að lokum orð til umhugsunar úr smiðju Lao-Tse í Bókinni um veginn:

Hinn vitri  "heldur sér ekki fram, og það er ágæti hans; hann er laus við sjálfhælni, og þess vegna er hann virtur; hann er laus við sjálfsþótta og ber því af öðrum. Og af því að hann keppir ekki við aðra, getur enginn keppt við hann."  

Um friðsemdina segir Lao-Tse: "Menn komast hjá úlfúð með því að hefja ekki verðleika manna upp til skýjanna ... Þannig drottnar hinn vitri ... hann starfar án strits, og stjórn hans farnast vel."

 

 

 


mbl.is Hugmynd um að almenningshlutafélag kaupi aflaheimildir Kambs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ber einhver ábyrgð?

 reynisfjara Fyrir fáum árum drukknuðu tvær 9 ára gamlar stúlkur í stöðuvatni í Hollandi að fjölda manns ásjáandi. Allir biðu eftir því að einhver bjargaði þeim - en enginn gerði það. Þetta er hættan sem fylgir því þegar margir bera ábyrgð en engum einum er falin hún beinlínis.

Í þessari sorglegu frétt af slysinu í Reynisfjöru sjáum við hvernig "ábyrgir" aðilar vísa hver á annan. Öllum virðist hættan ljós, en enginn gerir neitt sjálfur, til þess að fyrirbyggja slys af þessu tagi. Þess vegna eru engin skilti í fjörunni, enginn björgunarhringur, og auðvitað engin vakt heldur.

Úr því sem komið er þjónar engum tilgangi að finna sökudólg - þeir eru sjálfsagt allir og enginn, eins og í tilviki hollensku stúlknanna. En það er leiðinlegt að enginn skuli taka það upp hjá sjálfum sér -óbeðinn - að fyrirbyggja eða vara við slysum á stöðum þar sem hættan er þó öllum ljós sem til þekkja. Bara svona af velvild og umhyggju fyrir ferðafólki. Er til svo mikils ætlast af þeim sem vilja hafa hag af umferð ferðamanna á fallegum stöðum að þeir geri sitt til þess að trygga öryggi þeirra? Við vitum að víða má ekki mikið út af bera til þess að skelfileg slys geti orðið. 

Sveitarfélög, slysavarnarfélagið, ferðamálasamtökin, eða bara lögreglan í viðkomandi umdæmi - öllum þessum aðilum er í lófa lagið að koma upp merkingum. Viðvörun um að bjargbrún sé laus í sér, aldan geti verið banvæn, göngustígurinn sleipur.  Er svo dýrt að setja upp nokkur skilti, eða setja björgunarhring í fjöruna sem hægt væri að grípa til í tilviki sem þessu? Getur maður ekki beðið "ábyrga" aðila að reyna að fyrirbyggja svona atvik - jafnvel óbeðnir? Jafnvel þótt einhver annar ætti kannski (líka eða enn frekar )að gera það?

Fyrir fáum árum gekk ég frá Hornvík yfir í Hvannadal.  Leiðin er eiginlega ófæra um snarbratta fjallshlíð þar sem mörghundruð metrar eru niður fyrir björg og niður í sjó. Hann er ekki fyrir lofthrædda. Á kafla verður maður að fara á kaðli fyrir klettasnös, og fóta sig svo eftir einstigi, skref fyrir skref. Í þessari ferð fór næstum illa fyrir einum úr hópnum - honum skrikaði fótur og annar fótur hans rann fram af einstiginu. Ferðafélagi minn hafði ekkert að styðjast við annað en sinn eigin styrk að komast upp á hinn fótinn og rétta úr sér. Það voru erfið augnablik meðan þess var beðið. Hefði hann misst fótfestuna, hefði hann runnið viðstöðulaust niður fyrir björg og ekki þurft um sár að binda.

Allt fór vel, og útsýnið frá Hvannadal var stórkostlegt, enda blíðskaparveður og sólskin. Eftir á að hyggja var þetta þó ekki þess virði - því þarna skall hurð nærri hælum. Þarna var tekin áhætta sem er ekki ásættanleg. Sjálf vissi ég ekki hvað ég var að fara út í, og þó ég sé óhrædd og fótviss, þá skynjaði ég á þessu augnabliki hættuna.

Ég furða mig enn á því að ekki skuli fyrir löngu vera komið upp skilti sem varar ferðamenn við þessari leið. Ástæðan er sjálfsagt sú að enginn telur sér skylt að merkja þetta. En þeir sem hafa tekjur af því að stefna ferðamönnum inn í óbyggðirnar - selja aðgang að óbyggðunum - ættu að sjá sóma sinn í því að koma upp þokkalegum merkingum og hafa eftirlit með þeim sem ferðast þar fótgangandi. Jafnvel þó þeim beri ekki lagaskylda til þess.

Hvernig eiga útlendingar að vita um hætturnar á þekktum ferðamannaslóðum? Þeir þekkja ekki landið, eða íslenska veðráttu. Hvernig á þá að gruna að vegur sem sagður er torfær sé í raun lífshættulegur? Þegar útlendingur kaupir ferð undir leiðsögn telur hann sig öruggan. Hann gefur sér að honum verði ekki teflt í hættu. Þegar honum er sagt til vegar reiknar hann með því að vegurinn sé fær og að veður muni haldast til kvölds.

Það er ekki hægt að ætlast til þess að erlent ferðafólk hafi vit fyrir sér í náttúru Íslands. Við verðum að hafa vit fyrir þeim sem koma hingað ókunnugir - þannig er það bara.

Það eru margir ábyrgir - eiginlega allir.

 


mbl.is Brimaldan sogaði konuna á haf út og ógnaði samferðamönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harmagrátur Vinstri-grænna

stjornarmyndun1 Var að lesa sunnudagsmoggann áðan. Vinstrigrænir gráta og barma sér yfir því að hafa ekki komist í ríkisstjórn - brigsla formanni Samfylkingarinnar um tvöfeldni og óheilindi: Segja að hún hafi verið búin að semja við Geir fyrir kosningar og síðan hafi Framsókn verið haldið uppi á  snakki meðan verið var að "klára" dæmið. Nú segjast þeir hafa verið tilbúnir í vinstristjórn - "frá upphafi", eins og Ögmundur orðar það í þessari frétt. Hann segir:

"Minn fyrsti kostur hefði verið sá að  mynduð hefði verið ríkisstjórn VG, Samfylkingar og Framsóknar og ef það hefði ekki tekist, þá hefði verið farsælla fyrir þjóðina að fá sigurvegara kosninganna VG, sem jafnramt er gagnstæður póll við Sjálfstæðisflokkinn, til að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokki."

Einmitt það - stöldrum nú við.

Ég held mig misminni ekki að það hafi einmitt verið Ögmundur Jónasson sem  í þessu  útvarpsviðtali, tveim dögum eftir kosningar, bauð Framsókn upp á það að fara á hliðalínuna og verja með hlutleysi stjórn VG og Samfylkingar. Það var "fyrsti" kosturinn sem Vinstrigrænir orðuðu formlega í fjölmiðlum, og það var enginn annar en Ögmundur Jónasson sem það gerði. Þá hafði félagi hans, Steingrímur J. Sigfússon, farið fram á það við Jón Sigurðsson að hann bæði sig formlega afsökunar á kosningaauglýsingu.  Um þetta bloggaði ég fljótlega eftir kosningar - og veit að ég var ekki sú eina sem undraðist málflutning forsvarsmanna VG fyrstu dagana eftir að úrslit lágu fyrir.

Vinstrigrænum verður tíðrætt um að þeir hafi "farið að leikreglum" varðandi hugsanlega stjórnarmyndun. Þó kemur fram í sömu frétt að sjálfir voru þeir í bullandi þreifingum við Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk bæði fyrir og eftir kosningar. Steingrímur segist sjálfur hafa talað við Ingibjörgu Sólrúnu "hálfum mánuði fyrir kosningar" og blaðamaður kveðst hafa "mjög traustar heimildir" fyrir því að "töluverðar þreifingar hafi átt sér stað milli einstakra flokksmanna í VG og Sjálfstæðisflokki."

Já - stundum er sagt að allt sé leyfilegt í ástum og stríði. Pólitíkin er samband af því hvoru tveggja, má segja, ég tala nú ekki um þegar menn fara að mynda ríkisstjórnir. 

En Ögmundur og Steingrímur:  Það er leiðinlegt að sjá reynda og dugandi stjórmálamenn skæla úr sér augun og snúa staðreyndum við þótt á móti blási. Þið getið sjálfum ykkur um kennt . Hættið þessu væli.

geirogingibjorg


Sigurvegarar - og byggðarlag í sárum

Flateyri Flateyri hefur orðið fyrir reiðarslagi: Um hundrað fjölskyldur standa nú frammi fyrir atvinnuleysi og búseturöskun eftir að útgerðarfyrirtækið Kambur - aðalvinnustaðurinn í plássinu - tók að selja frá sér veiðiheimildir og skip. Hjá fyrirtækinu starfa um 120 manns, þar af 50 sjómenn. Fyrirtækið hefur yfir að ráða um 3000 þorskígildistonnum að andvirði um 7 milljarða króna.


Fari veiðiheimildirnar úr byggðarlaginu þýðir það hrun Flateyrar - það er svo einfalt mál. Þetta eru ein alvarlegustu ótíðindi í atvinnumálum Vestfirðinga frá því að kvótakerfinu var upphaflega komið á.

Á sama tíma blasir við á vefsíðu bb.is mynd af gleiðbrosandi sjávarútvegsráðherra með fyrirsögninni: "Við erum sigurvegarar".  Vestfirðingurinn Einar Kristinn Guðfinnsson er þar að fagna kosningaúrslitum og góðu gengi Sjálfstæðisflokksins. Honum líður eins og sigurvegara. En hvað með sveitunga hans - fólkið á Flateyri? Hvernig ætli því líði núna?

Og hversu margir úr þeim hópi skyldu nú hafa kosið þessa "sigurvegara"? Flokkinn sem ber ábyrgð á óréttlátu kvótakerfi sem er þannig úr garði gert að það kallar hrun yfir heilu byggðarlögin ef og þegar útgerðarmönnum þóknast að selja kvótann í burtu.

Eigandi Kambs heldur á fjöreggi sinnar byggðar - hann hefur verið sannkallaður máttarstólpi. En nú er honum farið að leiðast þófið, hann nennir þessu ekki lengur. Ætlar að selja. Eftir stendur (eða liggur, ættir ég frekar að segja) byggðin hans í sárum.

Sigurvegarar?


Draumaríkisstjórnin?

draumar Hugtakið "draumaríkisstjórn" fær eiginlega nýja merkingu í mínum huga ef svo fer að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking mynda stjórn saman að þessu sinni.

Mig dreymdi nefnilega fyrir þessu í fyrrinótt, held ég - en draumspakir lesendur mega gjarnan spreyta sig á því að ráða þennan draum. Hann var svona:

Mér fannst við Ingibjörg Sólrún vera saman á einhverju ferðalagi um Suðurland og ætluðum að koma við á Geysi. Í draumnum var Geysissvæðið orðið að einhverskonar vatnaparadís þar sem fólk gat lagst í heita potta og látið berast með heitum vatnsstraumum eftir einhverjum stokkum, eða bara legið og slakað á. Við  vorum eitthvað að búa okkur undir það að fara ofan í vatnið en mér fannst það býsna straumhart og heitt, þannig að mér leist ekki alveg á blikuna. Ingibjörg Sólrún var með tvö handklæði, meginlitur þeirra var rauður (litur Samfylkingar) en  í þeim voru líka hvítir og bláir litatónar (litir Sjálfstæðisflokks). Mitt handklæði var appelsínugult með grænum tónum (kannski til vitnis um minn hug til stjórnarmyndunar). Jæja, en Solla skellti sér út heitt vatnið og virtist kunna því ágætlega. Lengri var draumurinn ekki.

Svo sjáum við hvað setur.


mbl.is Ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi stjórnarflokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lauslætisdrós á blogginu

Mér líður eins og mér hafi verið skipt í tvennt. Ég er ekki að tala um pólitíkina núna - heldur er ég að tala um þá staðreynd að ég er komin með nýja bloggsíðu - slóðin er www.blog.visir.is/olina Mér líður hálf undarlega með þetta og veit ekki af hverju ég lét tilleiðast að færa mig yfir á vísir.is. Langaði samt að prófa - en tími svo ekki að fara af mbl.is. Hér er ég auðvitað komin með ákveðinn lesendahóp og fjölda bloggvina. Það bætir úr skák að ég fékk að flytja með mér yfir allt hafurtaskið af þessari síðu hér og er nú búin að hlaða því hinumegin.

En mér finnst þetta samt svolítið skrítið - einhverskonar lauslæti eiginlega - að vera með tvær bloggsíður.

Ég ætla samt að sjá til. Mig langar að halda þessari síðu eitthvað lengur, a.m.k. meðan ég er að átta mig á því hvort mér gengur betur með bloggið hér eða þar. Það verður svo metið í ljósi reynslunnar hvorumegin ég hafna á endanum.

Ég bið dygga lesendur að halda tryggð sinni við mig þrátt fyrir ístöðuleysið Undecided

 

 


Persónuleg meinbægni við stjórnarmyndun?

Ég heyrði Stefaníu Óskarsdóttur, stjórnmálafræðing, segja í útvarpinu í kvöld að stjórn með Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu myndi líkast til stranda á tregðu tiltekinna þungavigtarmanna í Sjálfstæðisflokknum til að veita Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur framgang í stjórnmálum. Svo var vísað til þess að "ákveðnir" Sjálfstæðismenn teldu sig ekki geta "treyst" forystumönnum Samfylkingarinnar. Engin rök eða dæmi voru tilfærð með þessum vangaveltum - heldur fengu dylgjurnar bara að vaka á öldum ljósvakans, án þess að spyrillinn gerði svo mikið sem tilraun til þess að knýja á um frekari rökstuðning eða dæmi.

Ég er aldeilis gáttuð á því að annað eins skuli borið á borð í opinberum fjölmiðli af fræðimanni. Jafnvel þó einhver hafi gerst svo ósmekklegur að halda einhverju þvílíku fram við manneskjuna - svona eins og menn gera stundum sín á milli, án ábyrgðar yfir kaffibolla eða ölkrús - að bera þetta á borð sem gild rök í sambandi við myndun ríkisstjórnar og tjá sig um það sem fræðimaður í fjölmiðli, það er ekki alveg í lagi. 

Þegar ríkisstjórn er mynduð hljóta málefnin að vera það sem máli skiptir. Maður ætlast til þess af þeim sem starfa í stjórnmálum að þeir skynji ábyrgð sína gagnvart landi og þjóð - ég tala nú ekki um þegar kemur að því að mynda ríkisstjórn - að þeir leggi persónulegt argaþras til hliðar og láti hagsmuna þjóðarinnar ráða gjörðum sínum en ekki misgöfugar hvatir.   

Ekki svo að skilja að Samfylking/Sjálfstæðisflokkur séu óskaríkisstjórnin mín. Hreint ekki. En að meinbægni tiltekinna Sjálfstæðismanna og eineltistilburðir í garð formanns Samfylkingarinnar skuli vera tilfærð sem gild ástæða og málsrök gegn slíkri stjórnarmyndun er ekki boðlegt.  

Ég segi eins og Nóbelsskáldið forðum: Getum við ekki lyft þessari umræðu upp á aðeins hærra plan?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband