Umskiptingar umræðunnar

Umræðan um Ice-save samningin er orðin gjörsamlega galin. Aðrar eins yfirlýsingar og sést hafa hér á blogginu í fyrirsögnum, færslum og athugasemdum, eiga sér ekki fordæmi (ekki einu sinni í Lúkasar-málinu víðfræga).

Stjórnarandstæðingar virðast hafa náð þeim merka árangri í þessu máli að trylla almenning úr hræðslu. Ábyrgur málflutningur eða hitt þó heldur. Í því ljósi er athyglisvert að rifja upp málflutning eins þeirra, Bjarna Benediktssonar, fyrir fáeinum mánuðum síðan, þegar hann talaði fyrir samkomulagi af þessu tagi í þinginu, eins og bent hefur verið á (hér). Það er ekki að sjá að hér tali einn og sami maðurinn.

Nú er látið í veðri vaka að stjórnvöld hafi skrifað undir samning sem muni koma þjóðinni á vonarvöl. Kjörin sem okkur bjóðist í þessum samningi séu afleit, og við munum aldrei geta risið undir þessu. Allt er þetta rangt.

Í samningnum felst að við getum hvenær sem er fengið að greiða þetta lán upp - og það getum við ef okkur býðst annað hagstæðara lán.  Auk þess gefst okkur greiðslufrestur fyrstu sjö árin - og það munar um minna í þeim þrengingum sem þjóðin gengur í gegnum nú.

Enginn samningur er undirritaður fyrir hönd þjóðarinnar nema með fyrirvara um samþykki Alþingis.

Það er því mikil rangfærsla að láta eins og hér sé verið að skuldbinda þjóðina án samráðs við þingið. Þetta mál verður að sjálfsögðu til umfjöllunar og endanlegrar staðfestingar þar. Stóð aldrei annað til.

Hins vegar er jafn ljóst að það er hlutverk stjórnvalda að framkvæma stjórnarathafnir og gera samninga í umboði kjósenda. Þau stjórnvöld sem nú sitja hafa fullt umboð til þess sem þau eru að gera. Þau voru til þess kosin. Það er svo Alþingi sem hefur síðasta orðið - í þessu máli sem öðrum.

Hér er farið að landslögum. Hér er unnið í þágu lands og þjóðar. 


Óhemjuskapur og ótímabært upphlaup

Stjórnarandstaðan varð sér til skammar á Alþingi í gær með ótímabæru upphlaupi og ásökunum um landráð. Tilefnið var samkomulag það sem íslensk stjórnvöld hafa nú náð í Ice-save deilunni. Samkomulag sem er liður í því að endurheimta traust Íslands í alþjóðlegum viðskiptum. Samkomulag sem felur í sér lán frá Hollendingum og Bretum til 15 ára með 7 ára greiðslufresti. Lán sem góðar líkur eru á að muni að langmestu leyti greiðast með eignum Landsbankans (75-95%). Samkomulag sem felur í sér að Ísland getur hvenær sem er fengið að greiða upp þetta lán ef svo ólíklega skyldi vilja til að okkur byðist betra lán annarsstaðar á hagstæðari kjörum.

Þetta er besta niðurstaðan sem orðið gat af málinu. Fyrir lá fyrr í vetur að samkomulag af þessu tagi væri forsenda þess að við Íslendingar gætum átt lána von hjá nágrannalönd okkar. Eins og menn muna vafalaust stefndi í að 27 Evrópuþjóðir myndu loka á alla lánafyrirgreiðslu til okkar að öðrum kosti.

Þannig er þetta samkomulag forsenda þess að efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga og að við getum notið lánafyrirgreiðslu nágranna og vinaþjóða til að efla gjaldeyrisforðann.

Fyrstu áhrif þessa samkomulags eru þegar að koma í ljós. Bretar hafa ákveðið að aflétta frystingu á eignum Landsbankans þar í landi 15. júní n.k.

Þetta eru m.ö.o. góðar fréttir  miðað við allar aðstæður.

 

 

 

 


mbl.is 50 milljarðar á reikningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landráð - lét hún það heita

Nú falla þung orð í þinginu - þyngri en efni standa til.

Þingmaðurinn Eygló Harðardóttir sakar ríkisstjórnina um "landráð" og menn tala blygðunarlaust um "lygar", benda með fingri á einstaka þingmenn og þar fram eftir götum.

Eitt er að kalla eftir lýðræðislegri umræðu - sjálfsagt að virða slíkar óskir. En þeir sem hrópa á opna og lýðræðislega umræðu verða líka að vera ábyrgir orða sinna og gæta þeirra. 

Þingmenn geta ekki leyft sér hvað sem er í orðavali þegar þeir standa í ræðustóli Alþingis.

"Landráð" eru stórt orð.

Hér má sjá fyrri athugasemd mina við þetta í umræðum þingsins í dag og hér er sú síðari. Hávær framíköll sem heyrast í annarri athugasemdinni koma frá nokkrum stjórnarandstæðingum, einkum Eygló Harðardóttur og Tryggva Þór Herbertssyni.

 


mbl.is Stór orð á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þó fyrr hefði verið

Jæja, loksins sá efnahagsbrotadeildin ástæðu til að fara ofan í saumana hjá fyrrum forstjóra FL-Group. Þó fyrr hefði verið.

 Maður hefur velt því fyrir sér undanfarna mánuði hvers vegna ekki var gerð húsleit hjá forkólfum útrásarinnar strax í fyrstu vikunni eftir hrun.

Hvers vegna stjórnarformennirnir og forstjórar umdeildustu útrásarfyrirtækjanna hafa allir  fengið svo ríflegt svigrúm?

Hvers vegna þeir sem tengdust bönkunum fengu sumir hverjir að athafna sig á vettvangi - eða því sem næst - sitjandi sem fastast í stjórnunarstöðum og skilanefndum vikum og mánuðum saman.

Já - þeir fengu ríflegt svigrúm. Og mér er stórlega til efs að nokkuð handbært muni finnast í fórum þeirra, hvorki í bókhaldi né á bankareikningum, nú, eftir allt sem á undan er gengið.

En ... ég vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér.


mbl.is Efnahagsbrotadeild með húsleitir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hitti ég Dalai Lama

dalai_lama1 Mér brá heldur betur í brún þegar ég heyrði í útvarpinu um helgina að enginn alþingismaður hefði "séð ástæðu" til þess að þekkjast boð um að eiga fund með Dalai Lama. Var helst að skilja á fréttinni að okkur hefði öllum verið sent bréf með boði um að hitta trúarleiðtogann að máli.

Og ég sem hafði öfundað þá þingmenn sem sitja í forsætisnefnd og utanríkisnefnd Alþingis af því að fá að hitta Dalai Lama - átti ég þess svo kost eftir alltsaman?

Nei - að sjálfsögðu ekki. Hvorki mér né neinum öðrum óbreyttum alþingismanni var gefinn kostur á að hitta höfðingjann í eigin persónu. Njet. Yfirlýsingar aðstandenda heimsóknarinnar þar að lútandi voru einfaldlega rangar. Við fengum ekkert bréf. Því miður. Ég hefði þegið slíkt boð.

Hvað skipuleggjendum heimsóknarinnar gekk til með því að koma því inn hjá fjölmiðlum að alþingismenn væru að sniðganga Dalai Lama, veit ég ekki. Hvað fjölmiðlum gekk til með því að éta þetta upp bara sísvona - án þess að hringja í svosem eins og einn, til að vita hverju þetta sætti - veit ég ekki heldur.

Hitt veit ég, að trúarleiðtoganum hefur verið sýndur margvíslegur sómi á ferð sinni hér, og aðstandendur heimsóknarinnar geta verið hæstánægðir með þær viðtökur sem hann hefur fengið af hálfu Alþingis, kirkjunnar manna og almennings. 

Enda er Kínverjum ekki skemmt, eins og best sést á því að þeir hafa kallað sendiherra sinn heim frá Íslandi.

Það segir sína sögu.


mbl.is Dalai Lama í Alþingishúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sól slær silfri á voga ...

snaefellsjokull "... sjáðu jökulinn loga" syngur nú Óðinn Valdimarsson í tölvunni minni. Ég sá nefnilega á símanum mínum að Magga vinkona hafði sent mér SMS þann 28. maí um að lagið væri í útvarpinu, en ég var þá bundin í þingsalnum og slökkt á símanum. Kannski eins gott - því ekki veit ég hvernig þingheimur hefði brugðist við því ef ég hefði farið að syngja hástöfum í símann, eins og við vinkonurnar erum vanar að gera þegar þetta lag kemur í útvarpinu.  

(Reyndar hefur mér alltaf tekist að halda kúlinu og syngja bara, hvernig sem á stendur - en nú gæti málið farið að vandast ef þingfundur er yfirstandandi þegar hún hringir) Blush

En semsagt: Til að bæta fyrir þá synd mína að hafa ekki svarað samstundis og sungið þetta með henni - eins og venjan er - þá settist ég nú við tölvuna til að hlusta á þáttinn hennar Lönu Kolbrúnar frá því á fimmtudag. Og hér er sumsé þátturinn sem mér heyrist að hafi verið helgaður Óðni Valdimarssyni og hans samtímamönnum í tónlistinni.

Lagið góða er um miðbik þáttarins - þið færið bara stikuna rétt framan við miðju, og þá ómar þetta dásamlega lag, sem enginn hefur hingað til getað sungið betur.

"Sól slær silfri á voga" hér fyrir vestan í dag - blíðskaparveður og ég er á leið með vinkonu minni vestur á Patreksfjörð í fermingarveislu.

Njótið helgarinnar.

 PS: þessa fallegu mynd fékk á á Wikipediu, veit því miður ekki hver tók hana.


Fátt er svo með öllu illt ...

Þær hækkanir sem nú verða á áfengi, tóbaki, bensíni o. fl. eru fáum gleðiefni. Langtímaáhrif þeirra munu þó verða mun jákvæðari en látið er í veðri vaka þessa dagana. Fullyrt hefur verið að með þessu hækki skuldir heimilanna um 8 milljarða. Þá er einungis horft á lítið brot af heildarmyndinni. Ef breytingin færi beint út í verðlagið gæti hún vissulega haft þessi áhrif, en þá gleyma menn því að hækkunin leggst á höfuðstól lána sem greiðast munu löngum tíma, einhverjum áratugum.

bensinÁ hinn bóginn mun þessi breyting skila ríkissjóði  um 17 milljörðum í ríkiskassann út árið 2012.

Hér er verið að bregðast við halla ríkissjóðs. Aðgerðin er liður í því að styrkja gengið, lækka verðbólgu og vexti þar með - sem aftur mun leiða til batnandi stöðu heimilanna langt umfram áhrifin af 0,5% hækkun vísitölunnar sem sumir reikna. 

Þau skref sem nú hafa verið stigin sýna að stjórnvöld stefna að því að ná tökum á ríkisfjármálum og lækka halla ríkissjóðs. Minni halli leiðir til sterkara gengis. Það dregur úr skuldabyrði þeirra sem eru með erlend lán. Ef erlend erlend húsnæðislán eru um 300 milljarðar mun 4% styrking krónunnar lækka skuldir heimilanna um 12 milljarða. Sterkara gengi dregur einnig úr verðbólgu. Sterkara gengi og lægri verðbólga til framtíðar styrkir einnig kaupmátt launa.

Því má skjóta hér inn að á mánudaginn lýsti forsætisráðherra því yfir að framundan væru erfiðustu aðhaldsaðgerðir sem hún hefði nokkurn tíma staðið frammi fyrir á sínum pólitíska ferli. Frá því að forsætisráðherra gaf þessa yfirlýsingu hefur gengið styrkst um ríflega 4%. Ekki er ólíklegt að aukinn trúverðugleiki efnahagsstefnunnar eigi þar hlut að máli.  Jákvæð tilsvör sendinefndar AGS þegar hún fór af landi brott um daginn, hafa varla skaðað heldur. 

En aftur að áhrifum skattahækkunarinnar: Þrátt fyrir neikvæð skammtímaáhrif hennar á verðtrygginguna munu sterkari ríkisfjármál og áræðni í efnahagsstjórnunni vinna það tap upp mjög fljótt.  Þannig munu langtímaáhrifin verða efnahagslífinu til góðs. 


Bensínhækkun og ESB

Mér var bent á það í athugasemd hér á blogginu, að tiltekin bensínstöð hafi verið búin að hækka verð á bensíni kl. 23 í gærkvöldi - hálftíma áður en lögin um hækkun á olíu og bensíni voru samþykkt á Alþingi.

Þetta er ósvífni - svo ekki sé meira sagt.

Hvað um það: Í dag heldur ESB umræðan áfram í þinginu. Málflutningurinn í morgun var málefnalegur og yfirvegaður. Því miður hefur orðið  nokkur breyting á yfirbragði umræðunnar nú eftir hádegið - en við því er ekkert að segja. Menn hafa málfrelsi.

Ég tók til máls fyrr í dag og ræddi málið út frá lýðræðishugtakinu. Þeir sem áhuga hafa geta skoðað innlegg mitt hér.


Erfiður dagur í þinginu

vín Gærdagurinn var býsna viðburðaríkur í þinginu. Fram undir kvöld stóðu linnulausar ræður um þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um að þingið samþykkti aðildarumsókn að ESB sem síðan yrði að loknum aðildarviðræðum borin undir þjóðaratkvæði. Fjölmargir voru á mælendaskrá, og komust færri að en vildu.  Umræðan heldur áfram á morgun svo málið er ekki fjarri því að vera fullrætt.  

Ég komst ekki að með ræðu í dag, en fór upp í einu andsvari (sjá hér).

Um kvöldmat var gert hlé á umræðunni, en að því loknu voru tekin fyrir öllu erfiðari mál. Þar á meðal hækkun á áfengi, tóbaki, olíu og bensín. Um þetta spunnust miklar umræður sem vonlegt er.

Þetta er því miður aðeins byrjunin - því fleira mun á næstunni fylgja í kjölsogið.


Fyrirspurn um meðferð aflaheimilda

Fróðlegt væri að vita hversu mikið magn aflaheimilda hefur verið leigt milli útgerða á liðnum árum. Sömuleiðis hversu mikið af ónýttum aflaheimildum hefur verið fært milli ára og/eða yfirfært í aðrar tegundir. Upplýsingar af þessu tagi varpa ljósi á það hvað um er að ræða þegar talað er um leiguliðakerfi  - þær varpa ljósi á það hvort réttlætanlegt er að tala um  "kvótabrask".

 Þess vegna ég nú lagt fram fyrirspurn í þinginu um þetta efni, og vonast ég til að svör fáist innan skamms.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband