Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009
Gufuskálar!
14.8.2009 | 20:08
Þó að mikil spenna ríki nú í Ice-save málinu og óljóst sé um afdrifin, þá er ég á leið vestur á Gufuskála að æfa hundinn og ætla að vera þar um helgina, enda get ég lítið gagn gert annað en að hugsa hlýtt til fjárlaganefndar.
Ætla að reyna að halda mér vakandi að þessu sinni, á báðum leiðum.
Eigið góða helgi öllsömul.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Barnavernd á erfiðum tímum
13.8.2009 | 23:38
Þegar þrengir að efnahag þjóðarinnar er ástæða til þess að huga betur en nokkru sinni að velferð barna. Opinberar tölur sýna mikla fjölgun barnaverndarmála á fyrstu mánuðum þessa árs, einkanlega í Reykjavík þar sem tilkynningar til barnaverndarstofu borgarinnar voru 40% fleiri en á sama tíma árið áður. Vera kann að þessi aukning beri vott um vaxandi vitund almennings um barnaverndarmál. Engu að síður er full ástæða til að taka þetta alvarlega sem vísbendingu um versnandi hag barna og fjölskyldna þeirra.
Börn eru saklaus og varnarlaus. Þau eru framtíð þjóðarinnar og að þeim verðum við að hlúa, ekki síst þegar illa árar.
Ég tók málið upp við félags- og tryggingamálaráðherra í fyrirspurnartíma í þinginu í morgun. Umræðuna í heild sinni má sjá hér.
-----------
PS: Meðfylgjandi mynd tók ég af vef mbl.is - hún var þar merkt Ásdísi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Strandveiðarnar færa líf í hafnir
11.8.2009 | 20:38
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins gefa lítið, "jafnvel ekkert" (svo ég vitni í þeirra eigin orð) fyrir það líf í höfnum sem strandveiðarnar hafa fært sjávarbyggðunum í sumar. Neibb - þeir finna þessu nýja fyrirkomulag allt til foráttu. Nú síðast það helst hversu óhagkvæmar fiskveiðar þetta séu vegna þess hversu margir hafa stundað þær og fært fisk að landi.
Reynslan í sumar sýnir að 505 bátar hafa farið á sjó og veitt rétt tæplega 4 þúsund tonn af fiski í 4.600 löndunum.
Þetta er gleðiefni fyrir flestalla (nema að sjálfsögðu varðhunda stórútgerðarinnar sem vill ekkert af þessum veiðum vita).
Reynslan af þessu kerfi verður metin í lok veiðitímabilsins nú í haust. Nú þegar hefur komið í ljós að huga þarf betur að svæðaskiptingunni, því nú eru menn búnir að veiða allt sem þeir mega á svæði A (norðvesturmiðin) en á öðrum svæðum (B, C og D) hafa þeir veitt 30-50% af því sem leyfilegt er. Þetta kallar á sérstaka skoðun.
EN ... það er ólíku saman að jafna yfirbragði íslenskra hafna nú en áður þegar deyfðin var allt að drepa og sjávarútvegurinn beindist aðallega að þörfum stórútgerðarinnar og verksmiðjuskipanna sem landa á örfáum stöðum og eiga fátt sameiginlegt með smábátum á strandveiðum í hinum smærri byggðum.
Málið kom til umræðu í þinginu í dag þar sem ég svaraði fyrirspurn Illuga Gunnarssonar (hér) sem fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins blönduðu sér í og nokkrar umræður spunnust í framhaldinu (t.d. hér). Þetta er ekki langt.
Jebb, það getur verið líf víðar en í höfnum landsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.8.2009 kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Klækjastjórnmál og ráðaleysi - slæmur kokteill
10.8.2009 | 22:22
Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur hefur vakið athygli á því að ef Icesave samningurinn verður felldur í þinginu þá sé skollin á alvarleg stjórnarkreppa í landinu. Þar með sé ljóst að forysta landsins geti í raun og veru ekki komið sér saman um það hvernig bregðast skuli við brýnasta lífshagsmunamáli þjóðarinnar eins og hann orðar það svo réttilega.
Á sama tíma hefur Guðbjartur Hannesson formaður fjárlaganefndar látið í ljósi efasemdir um að þingmönnum í fjárlaganefnd sé raunverulega alvara í málinu, enda hefur nefndin nú haft það til meðferðar í 8 vikur án þess að lyktir hafi ráðist.
Já, það er þyngra en tárum taki að fylgjast með atburðarásinni í þinginu þessa dagana.
Og ekki er bætir fjölmiðlaumfjöllunin úr skák þar sem sérfræðingarnir eru eltir hver af öðrum í misvísandi fullyrðingum um túlkun og afleiðingar alls þessa fyrir land og þjóð. Sjálfstæð vinnubrögð fyrirfinnast varla, bara brugðist við yfirlýsingum þess sem hæst hefur hverju sinni.
Undir öllu þessu situr þjóðin, ráðvillt, agndofa og veit vart sitt rjúkandi ráð.
Klækjastjórnmál í bland við ráðaleysi - það er ekki kokteillinn sem þjóðin þarf á að halda um þessar mundir.
Við verðum að afgreiða þetta mál frá okkur eins og manneskjur.
Það er núna sem reynir á þingið, hvort það yfirleitt stendur undir nafni sem þjóðþing.
Það er núna sem reynir á ríkisstjórnina hvort hún er yfirleitt til staðar.
Og það er núna sem reynir á fjölmiðlana - hvort þeir rísa undir nafni sem "fjórða valdið".
------------------
PS: Ég mun hiklaust fjarlægja allar athugasemdir sem fela í sér ókurteisi , meiðandi ummæli, uppnefni eða órökstuddar ásakanir í garð nafngreindra manna eða fylgjenda tiltekinnna stjórnmálaflokka.
Ef ykkur leikur forvitni á að vita mína nálgun og afstöðu til þessa máls, þá getið þið kynnt ykkur það hér, hér, hér, hér og hér . Ég mun ekki svara spurningum að þessu sinni um efnisatriði sem hafa komið fram í mínum skrifum áður.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
Gleði og stolt
8.8.2009 | 18:44
"Alltaf grunaði mig þetta!" sagði hann við mig sigri hrósandi gamall samverkamaður sem ég hitti á miðjum Laugaveginum í dag. Ég gekk þar í humátt á eftir Gleðigöngunni og hafði valið að fara á eftir fánanum sem á stóð "stoltar fjölskyldur".
"Þú ert auðvitað ein af þeim" sagði hann og klappaði á öxl mína skælbrosandi.
"Ég er stoltur aðstandandi eins og aðrir hér" svaraði ég umhugsunarlaust og áttaði mig ekki strax á því hvað maðurinn var að fara.
En þegar ég sá brosið hverfa eins og dögg fyrir sólu fyrir örvæntingarfullum vandræðasvip - þá varð ég að stilla mig um að skella ekki upp úr.
"Takk fyrir komplímentið" sagði ég með blíðu blikki þegar ég sá hvað maðurinn var miður sín. Svo hélt ég mína leið. Hann stóð orðlaus eftir undir ásakandi augnaráði eiginkonunnar sem var við hlið hans. Þessi skondna uppákoma var einhvernvegin eins og atriði úr danska myndaflokknum Klovnen - án þess að ég geti skýrt það nánar (mér er enn skemmt þegar ég hugsa um þetta).
Annars var gríðarleg stemning í bænum og mikill mannfjöldi. Ég hafði mælt mér mót við vini mína á horni Barónstígs þar sem við horfðum á litríka gönguna nálgast og slógumst svo í hópinn þegar vörubílarnir með skemmtiatriðunum voru farnir framhjá. Hvarvetna var fólk með litríkar blómfestar um háls og marglita fána. Á Arnarhóli var þjóðhátíðarstemning - einhver þægileg blanda af rólegheitum og stuði.
Aðstandendur göngunnar hafa sannarlega ástæðu til að vera bæði glaðir og stoltir í dag.
Stærsta gangan til þessa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hughrif af Grænlandi
7.8.2009 | 23:21
Hér koma nokkrar myndir sem ég tók í ferð minni til Grænlands. Þar varð ég fyrir sterkum hughrifum af ýmsu sem fyrir augu bar og gæti skrifað langt mál um það allt - ef ég væri ekki svona illa haldin af sjóriðu eftir siglinguna með herskipi hennar hátignar, sem nefnt er eftir Einari Mikjálssyni landkönnuði. Nánari frásögn bíður betri tíma, en myndir segja meira en mörg orð.
Hér sjáið þið hvernig sólin sest á bak við Grænlensku fjöllin - sem eru helmingi hærri en þau Íslensku, firðirnir margfalt lengri og dýpri ...
Grænland næst á dagskrá
3.8.2009 | 23:21
Á morgun held ég af stað til Grænlands til að sitja þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin verður í Grønnedal á suðvesturströndinni og stendur í fjóra daga. Fyrst verður flogið til Narsarsuaq og þaðan siglt með dönsku herskipi til Gr ønnedal. Ráðstefnan er undirbúningur fyrir ársfund ráðsins í lok ágúst.
Það eru Ísland, Færeyjar og Grænland sem mynda vestnorræna ráðið (sjá www.vestnordisk.is). Löndin þrjú eru ekki aðeins tengd vináttuböndum, heldur eiga þjóðirnar margt sameiginlegt í samfélagslegum, pólitískum og sögulegum skilningi. Allar hafa þær lotið yfirráðum Dana til dæmis, og Grænland gerir að það ákveðnu leyti enn, þó landið hafi nú stigið mikilvæg skref í sjálfstæðisátt. Allt eru þetta strjálbýl lönd og tiltölulega fámenn þar sem sjávarútvegur í einni eða annarri mynd er drýgstur hluti atvinnulífs ásamt þjónustu og vaxandi ferðamannaiðnaði. Öll gætu löndin talist jaðarsvæði í einhverjum skilningi.
Vestnorræna ráðið beitir sér fyrir samstarfi milli landanna þriggja á þeim sviðum þar sem hagsmunir fara saman. Ráðið hefur t.d. ályktað um og hvatt til skipulegs samstarfs varðandi björgunar- og öryggismál á norðurslóð - nokkuð sem hefði þurft að vera komið á fyrir löngu, en hefur vaxandi þýðingu með aukinni umferð skipa og ferðafólks á þessu svæði.
Á þessari þemaráðstefnu verða menntamálin í brennidepli, líkt og oft áður, enda hefur ráðið beitt sér fyrir samstarfi milli landanna í þeim efnum - jafnt varðandi menntunarkosti sem og rannsóknir.
Ég fer í þessa ferð í embættiserindum, sem formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins. Hef ekki komið á þessar slóðir áður, og hlakka til ferðarinnar.
PS: Við undirbúning minn rakst ég á ágæta bloggfærslu Sivjar Friðleifsdóttur frá því í fyrra þar sem hún tínir saman nokkrar tölulegar staðreyndir um lífs- og samfélagshætti á Grænlandi (sjá hér).
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Orð Evu Joly
2.8.2009 | 13:12
Ég er undrandi á þeim orðum Hrannars B. Arnarsonar, aðstoðarmanns forsætisráðherra, að Eva Joly eigi að halda sig við sín ráðgjafastörf fyrir sérstakan saksóknara en láta öðrum eftir efnahagsmálin. Þessi orð mætti allt eins heimfæra upp á Hrannar sjálfan - þ.e. að hann ætti að láta pólitíkusunum eftir að vinna sitt starf og sinna sjálfur þeim viðfangsefnum sem honum er trúað fyrir.
En við búum nú einu sinni í lýðfrjálsu landi þar sem málfrelsi ríkir. Fyrir það má þakka, að fleiri skuli almennt taka til máls um þjóðfélagsmál, en þeir einir sem til þess eru kjörnir eða ráðnir.
Eva Joly er kona með mikla yfirsýn og reynslu. Hún er vissulega stjórnmálamaður - nýkjörin sem þingmaður á Evrópuþinginu - og virðist eiga ýmislegt ósagt við ýmsa þar innan dyra, eins og grein hennar ber með sér. En skrif hennar eru umhugsunarefni, því "glöggt er gests augað" eins og þar stendur.
Ég tel mikils um vert að kynnst sjónarmiðum Evu Joly til bankahrunsins og stöðu okkar á alþjóðavettvangi. Ég verð að viðurkenna að ég er þungt hugsi yfir ákveðnum atriðum sem fram koma í grein hennar.
En hvort sem ég er sammála mati hennar á stöðunni eða ekki - og þó mér hafi áður fundist hún mætti bera sig öðruvísi að við að koma inn í umræðuna - þá er eitt alveg ljóst: Þessi kona stendur með okkur Íslendingum og vill vekja athygli á málstað okkar. Það gerir hún af einurð og ekki síður af hlýhug í garð þeirrar "grandvöru og elskulegu þjóðar" sem hún segir okkur vera.
Mér þótti vænt um að finna hugarþel hennar í okkar garð, og ég er sannfærð um að orð hennar eru betur sögð en ósögð.
-----------
PS: Loks langar mig að benda á ágæta greiningu Marðar Árnasonar á skrifum Joly.
Hrannar sendir Joly tóninn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (43)
Ekki erindi til almennings?
1.8.2009 | 19:52
"Nýja Kaupþing og skilanefnd Kaupþings telja að upplýsingar um viðskiptavini Kaupþings eigi ekki erindi til almennings og sé brot á þeirri vernd sem bankaleynd á að veita viðskiptamönnum. Mikilvægt er að traust og trúnaður ríki milli fjármálastofnana og viðskiptavina" segir í yfirlýsingu þessara sömu aðila til fjölmiðla.
Það er einmitt það "vernd" til viðskiptamanna, "traust og trúnaður"
Það vantar eitt inn í þessa jöfnu - það vantar traust og trúnað almennings gagnvart umræddum fjármálastofnunum.
Þær upplýsingar sem nú hafa verið lögbannaðar varða ekki eingöngu "viðskiptavini Kaupþings" heldur viðskiptaaðferðir bankans og þær eiga fullt erindi til almennings, að mínu viti.
Kaupþing fékk lögbann á RÚV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Og kannski meira í vændum?
1.8.2009 | 15:04
Ég var víðsfjarri jarðskjálftanum sem reið yfir í gærkvöld, sem betur fer, enda í mér beygur við jarðskjálfta frá barnæsku. Ég gat þó ekki varist því að hugsa til Láru nokkurrar Ólafsdóttur sem spáði jarðskjálfta þann 27. júlí. Hún var auðvitað höfð að háði og spotti strax daginn eftir, þegar enginn kom skjálftinn. Við Íslendingar erum hvatvíst fólk eins og dæmin sanna.
Nú hafa fréttmenn haft samband við Láru á ný, og ekki batnar það: Hún segir enn stærri viðburði í aðsigi.
Ég skal játa, að ég var ekkert sérlega hissa á því að þessi skjálfti skyldi koma svo skömmu eftir spádóm sjáandans. Eins og aðrir Íslendingar er ég höll undir það að fleira sé milli himins og jarðar en augað greinir og vísindind fá skilgreint.
Við Íslendingar erum náttúrutengt og næmt fólk. Berdreymi er til dæmis viðurkenndur hæfileiki og trúlega kannast allir við einhvern í sinni fjölskyldu sem hefur slíkt næmi að geta séð aðeins lengra nefi sínu.
Jamm ... nú sjáum við hvað setur.
Snarpur jarðskjálfti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)