Bloggfærslur mánaðarins, október 2007
Meiri lætin
31.10.2007 | 16:38
Þvílík læti í kringum mig þessa dagana - segi ekki annað. Utan vinnutíma - og milli verka - er allt á fullu við fréttavefinn okkar hugsjónafólksins skutull.is. Hann virðist bara ætla að fara vel af stað.
Auðvitað er viðbúið að þetta verði svolítið stúss svona fyrstu vikuna sem vefurinn er í loftinu - og svolítið vesen auðvitað að hafa ekki allan sólarhringinn til umráða (a.m.k. ekki vinnutímann og svefntímann). En það lagast.
Var að kenna í eftirmiðdaginn. Fór yfir handrit með nemendunum sem eru að vinna útvarpsþættina sína í námskeiðinu sem ég er að kenna á meistarastigi við sagnfræðiskor HÍ. "Menning og fræði í útvarpi" heitir það og er fámennt en góðmennt. Algjör lúxus. Þegar fámennt er á námskeiðum verður vinnan svo mikið auðveldari.
Svo er það kóræfing núna klukkan sex, og hlýðniþjálfun fyrir hundinn (ekki mig ) með Björgunarhundasveitinni klukkan hálfníu. Varla að maður sjái bóndann og barnið fyrir háttatíma.
Jæja, en það er líka gaman þegar nóg er að gera. Endilega kíkið á nýja vefinn - skutull.is og látið mig vita hvað ykkur finnst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Illa launuð háskólakennsla
31.10.2007 | 10:55
Við hverju er að búast þegar laun stundakennara eru svo lág að menn veigra sér við því að segja frá því hvað þeir fá greitt fyrir framlag sitt. Sjálf var ég stundakennari við Háskóla Íslands árum saman. Framlag mitt og annarra stundakennara var ekki meira metið en svo á þeim tíma að ég fyrirvarð mig fyrir að taka við því - hvað þá að segja frá því. Ég huggaði mig við það að þetta væri þegnskylda mín gagnvart fræðasviðinu sjálfu - og á þeirri forsendu innti ég kennsluna af hendi. Gerði það eins samviskusamlega og mér var unnt. Ég er þó ekki viss um að hver einasti fræðimaður sem til er leitað líti þannig á - get a.m.k. vel skilið ef þeir gera það ekki.
Eins og aðrir stundakennarar varð ég að sinna kennslunni með öðrum störfum. Þannig varð það nú bara - og er trúlega enn, án þess ég hafi beinlínis spurt um það nýlega.
Þetta er hárrétt ábending hjá Hákoni Hrafni Sigurðssyni. Þegar stór hluti háskólakennslu er komin í hendur undirborgaðra stundakennara, hlýtur það að hafa afleiðingar fyrir gæðastaðalinn í kennslunni. Það hlýtur hver maður að sjá.
Of margir án fullnægjandi menntunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hengilssvæðið er verðmæti
30.10.2007 | 14:55
Ég tek heilshugar undir þau mótmæli sem sett hafa verið fram gegn þessum virkjunarframkvæmdum. Á vefsíðunni hengill.nu má finna bréf til skipulagsyfirvalda sem fólk getur prentað út, undirritað og sent. Efni þessa bréfs er skýrt og skilmerkilegt. Ég lét ekki á mér standa að prenta út, undirrita og setja í póst mín mótmæli, svohljóðandi:
Ég undirrituð mótmæli fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum Orkuveitu Reykjavíkur
á svokölluðu Hengilssvæði með eftirfarandi atriði í huga:
Hengilssvæðið og dalirnir austan, vestan og sunnan þess hafa lengi verið ein helsta útivistarparadís íbúa höfuðborgarsvæðisins og er skilgreint sem útivistarsvæði, staðfest af umhverfisráðherra í janúar 2005. Nú, þegar verið er að þétta byggð á höfuðborgarsvæðinu svo gríðarlega sem raun ber vitni, byggja á öllum auðum blettum og fækka útivistarsvæðum í þéttbýli, er brýnna en nokkru sinni að íbúar höfuðborgarsvæðisins eigi kost á að njóta óspilltrar náttúru í hæfilegri dagsferðarfjarlægð frá heimilum sínum. Þetta svæði er eitt örfárra í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem hægt er að ganga um í friði og ró, njóta ótrúlega fjölbreyttrar náttúrufegurðar fjarri amstri dagsins og síaukinni bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu.
Ég mótmæli því harðlega að stórfyrirtæki verði heimilað að svipta íbúa hhöfuðborgarsvæðisins og afkomendur þeirra þessum lífsgæðum til þess eins að þjóna hagsmunum erlendra auðhringa í áliðnaði eða annarri stóriðju. Þar af leiðandi mótmæli ég einnig að hluta svæðisins verði breytt í iðnaðarsvæði skv. fyrirhugaðri breytingu á aðalskipulagi Ölfuss.
Ein helsta tekjulind íslensku þjóðarinnar nú er ferðaþjónusta. Erlendir ferðamenn koma fyrst og fremst til Íslands til að njóta þeirrar náttúrufegurðar sem landið hefur upp á að bjóða. Við auglýsum landið sem óspillta náttúruperlu og á þeim svæðum sem það loforð stenst standa ferðamenn á öndinni yfir þeirri fegurð sem við þeim blasir. Hengilssvæðið er einn þessara staða og vinsælt að fara þangað í dagsferðir með erlenda ferðamenn, ýmist gangandi eða á hestbaki. Margir ferðamenn gera stuttan stans á landinu og þá er nauðsynlegt að geta sýnt þeim óspillta náttúru sem næst höfuðborgarsvæðinu.
Ég mótmæli því harðlega að stórfyrirtæki verði heimilað að svipta ferðaþjónustuna tækifæri til að sýna erlendum ferðamönnum óspillta náttúru í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og legg til að svæðið verði friðað til frambúðar.
Framkvæmdaraðili virkjana á Hengilssvæðinu er Orkuveita Reykjavíkur, en hún er einnig sá aðili sem lét gera umhverfismat og ber kostnað af því. Þetta eru ámælisverð vinnubrögð þar sem stór hagsmunaaðili erí raun dómari í eigin máli. Ég mótmæli slíkum vinnubrögðum harðlega og geri þá kröfu að óvilhallir aðilar sjái alfarið um mat á umhverfisáhrifum og íslenska ríkið beri kostnaðinn. Umhverfismat sem framkvæmt er og kostað af hagsmunaaðila framkvæmdar getur aldrei verið marktækt.Einnig geri ég alvarlega athugasemd við kynningu og tímalengd hennar þegar svo stórar framkvæmdir eru annars vegar sem snerta nánasta umhverfi og lífsgæði ríflega helmings íslensku þjóðarinnar.
Sex vikna frestur til athugasemda er allt of skammur og allt kynningarferlið til þess gert að sem fæstir veiti málinu athygli og hafi skoðanir á því.
Telja að virkjun muni spilla ómetanlegri náttúruperlu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Nýr landsmálavefur skutull.is
28.10.2007 | 12:50
Nýr landsmálavefurm skutull.is, hefur nú litið dagsins ljós. Hann var opnaður með pompi og prakt í hádeginu í gær.
Þetta er fréttavefur tileinkaður Vestfjörðum og þjóðmálaumræðunni, ekki síst þeirri sem tengist svæðinu. Að vefnum stendur hópur áhugafólks um framsækna fjölmiðlun. Allt er það fólk sem vill veg og vanda Vestfjarða sem mestan og vill glæða skilning og áhuga á málefnum svæðisins.
Sjálf er ég í þessum hópi, titluð fréttastjóri - en vart þarf að taka fram að öll fréttavinnsla og efnisöflun er á þessu stigi málsins unnin í sjálfboðavinnu og bætist að sjálfsögðu við önnur störf sem fólk hefur með höndum. Í framtíðinni tekst okkur vonandi að afla auglýsingatekna og nýsköpunarstyrkja til þess að standa undir einhverjum lágmarksrekstri, og greiða fólki laun.
Skutull var nafn á blaði jafnaðarmanna í Ísafjarðarbæ. Af stakri velvild hefur Samfylkingarfélagið í Ísafjarðarbæ nú eftirlátið vefsíðunni þetta táknræna nafn með velfarnaðaróskum - þar með má segja að þau hafi ýtt fleytunni úr vör. Þeim er ljóst að fréttastefna vefsíðunnar er á faglegum nótum, ekki pólitískum. Þau segjast treysta okkur - eru áhugasöm eins og við um að fjölga valkostum í fréttamiðlun á Vestfjörðum.
Svo sjáum við hvað setur.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Vestanvindur úr prentun
25.10.2007 | 16:39
Ég er að handleika fyrstu ljóðabókina mína - hún var að koma úr prentun. Lítil og nett - ósköp hógvær. Það er undarleg tilfinning að handleika þessa litlu bók - allt öðruvísi en aðrar bækur sem ég hef gefið út. Þær hafa verið stórar og fyrirferðarmiklar - fjallað um fræði og fólk. Þessi bók er allt öðru vísi. Hún er svolítill sálarspegill - nokkurskonar fordyri að sjálfri mér - eða þeirri konu sem ég hef verið fram til þessa.
Mig langar að segja ykkur svolítið frá myndinni á kápunni - hvernig hún varð kveikja að titilljóði bókarinnar.
Þannig var að myndlistarmennirnir Ómar Smári Kristinsson og Nína Ivanova, kona hans voru beðin að hanna myndina. Þau fengu nokkur ljóð til að vinna út frá - og sýndu mér svo fyrstu drög. Ein mynd varð mér svo hugstæð að hún fylgdi mér allan daginn og inn í nóttina. Ég var lögst til svefns og eiginlega í svefnrofunum þegar orðin tóku að streyma til mín. Loks varð ég að fara á fætur, ná mér í blað og penna. Titilljóð bókarinnar var komið - næstum því fullskapað. Ég get ekki skýrt það nánar en morguninn eftir varð það orðið eins og það er í bókinni.
Hallgrímur Sveinsson, útgefandi minn, var þolinmæðin uppmáluð þegar ég hringdi til hans um morguninn til að vita hvort ljóðið kæmist inn í bókina. Þá var komin þriðja próförk, og ekki sjálfgefið að verða við þessari bón. En Hallgrímur er ljúfmenni - og í samvinnu við prentsmiðjuna varð þessu bjargað.
Nú er bókin komin í verslanir - og svo er að sjá hvernig hún fellur lesendum og gagnrýnendum í geð. Ég krosslegg fingur og vona það besta.
Bækur | Breytt 26.3.2009 kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Að kvöldi "kvennafrídags" ...
24.10.2007 | 23:34
... er ég uppgefin eftir annasaman, en skemmtilegan dag (vinnan, fjarkennsla í 3 klst., tveir fundir, kóræfing og hundaþjálfun með björgunarhundasveitinni). Er tiltölulega nýkomin heim og klukkan orðin ellefu.
Efst er mér þó í huga hvernig ég varði þessum degi - eða aðfararnótt hans - fyrir tuttugu og fjórum árum. Þá vann ég það lífsins afrek að fæða 15 marka son - 50 sentímetrar var hann fæddur, helblár í framan fyrstu sekúndurnar, en undurfallegur frá fyrstu stundu.
Hann kom með hvelli. Ég man hvað ég skalf eftir að vatnið skyndilega fór klukkan tvö um nóttina. Þetta var þriðja fæðing - og líkaminn kveið því augljóslega meir en sálin að takast á við það sem framundan var. En mér gafst lítið ráðrúm til að velta því fyrir mér - hríðarnar hvolfdust yfir mig eins og brimskaflar, og tveim tímum síðar var hann bara fæddur. Hann Pétur minn, sem er tuttugu og fjögurra ára í dag. Elsku drengurinn
Hann hefur stundum verið baldinn við mig. Já, beinlínis erfiður á köflum. En hann er að mannast - og mér finnst hann yndislegur með kostum sínum og göllum. Þessi misserin stundar hann nám við Háskólann í Reykjavík og stendur sig vel. Með náminu vinnur hann hjá tölvufyrirtæki í bænum.
Ég er stolt af honum eins og öllum mínum börnum - enda þekki ég það úr hestamennskunni að óstýrlátu tryppin eru yfirleitt gæðingsefni.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Tekur einhver mark á nafnlausu bréfi?
24.10.2007 | 11:01
Nafnlaus bréf er ekki hægt að taka alvarlega. Ég er undrandi á því að þetta bréf sem sent var forstjóra Landspítalans vegna Jens Kjartanssonar yfirlæknis lýtalækingadeildar skuli yfirleitt vera í umræðunni. Það getur hver sem er sent nafnlaust bréf og haldið því fram að hann tali fyrir fjölda manns. Og svo getur hann "lekið" því í fjölmiðla til þess að koma innihaldinu á framfæri.
Fjölmiðlar eiga ekki að láta nota sig svona.
Fyrr á þessu ári komst annað nafnlaust bréf í hámæli - það tengdist Baugsmálinu svokallaða. Það bréf virtist um tíma tekið alvarlega vegnað þess að það leit út fyrir að vera skrifað af "lögfróðum manni". Auðvitað geta menn vakið athygli á sjónarmiðum í nafnlausum bréfum. En það liggur í hlutarins eðli að slík bréf geta aldrei orðið raunverulegt gagn í máli. Þau mega aldrei verða það. Þau eru í eðli sínu rógur vegna þess að höfundur/höfundar slíkra bréfa geta ekki staðið fyrir máli sínu.
Læknamistök eru auðvitað alvarlegt mál - en þessi aðferð við að losna við lækni úr starfi sem gert hefur mistök er ekki boðleg. Hún er siðlaus.
Staða læknisins óbreytt á LSP | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Rigningarnótt í tunglskini
23.10.2007 | 23:53
Tunglið er nærri fullt. Það veður í svörtum skýjum og varpar draugalegri birtu á úfinn sjóinn. Í bjarmanum frá því hrekjast trén í rokinu og regnið bylur á rúðunni.
Best að fara að skríða undir nýju gæsadúnsængina og láta sig dreyma eitthvað fallegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Vinir heimtir úr helju.
23.10.2007 | 12:26
Á föstudaginn fékk ég símtal frá vinkonu minni. Hún og maðurinn hennar voru á leiðinni með vinafólki í helgarferð inn í Mjóafjörð. Hún hlakkaði til og við töluðum um hvað þetta væri skemmtilegur hópur sem hún þekkti. Hvað þessar ferðir þeirra í sumarbústaðinn væru vel heppnaðar - hvað þau myndu nú hafa það gott um helgina.
Á meðan við töluðum saman ók hún framhjá húsinu mínu og veifaði upp í gluggann í kveðjuskyni.
Það var undarlegt að minnast þessa atviks einum og hálfum sólarhring seinna, þegar hún og vinir hennar voru naumlega heimt úr helju, eftir að bátnum þeirra hvolfdi á Selvatni. Að heyra hana segja frá helkuldanum sem gagntók þau, krampanum sem hindraði öndun, uppköstunum sem fylgdu volkinu þar sem þau börðust fyrir lífi sínu í vatninu. Hvernig hún reyndi að nota talstöðina sína þegar hún var komin í land, en gat ekki ýtt á takkana vegna kulda.Hvað tíminn var lengi að líða - og hvernig það var að vita ekki um afdrif eins úr hópnum sem enn var úti í vatninu þegar hún skreið eftir hjálp.
Ég gat ekki varist þeirri hugsun að kveðjan okkar, þar sem hún veifaði mér upp í gluggann, hefði getað verið sú síðasta. Úff!
Svona atburður er harkaleg áminning um hverfulleikann. Hvað það skiptir miklu máli að eiga góð samskipti við fólk - leita þess jákvæða og meta það. Það er aldrei að vita hverjir fá að hittast aftur.
Svo þakka ég guði fyrir þá lífgjöf sem þarna átti sér stað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Einelti gegn íþróttamanni
22.10.2007 | 00:20
Sorglegt var að lesa um samsæri knattspyrnukvennanna í Landsbankadeildinni sem vísvitandi sniðgengu Margréti Láru Viðarsdóttur, við kosningu á leikmanni ársins. Með fullri virðingu fyrir Hólmfríði Magnúsdóttur, sem þær ákváðu að velja leikmann ársins - þá er frammistaða þessara tveggja kvenna ekki sambærileg.
Fólk á að njóta árangurs af vel unnum verkum. En því miður er það stundum svo, í okkar litla samfélagi, að fólk sem skarar fram úr þarf að gjalda fyrir það með einelti og meinbægni. Það virðist sérstaklega eiga við um konur - svo sorglegt sem það er.
Þetta mál varpar ekki aðeins skugga á íþróttahreyfinguna. Það varpar skugga á konur sem samfélagshóp.