Færsluflokkur: Sjónvarp
Hvar var Dorrit?
27.8.2008 | 23:23
Þetta var vel heppnaður fagnaðarfundur - sannkölluð þjóðhátíð. Ekkert út á hana að setja. Að vísu var ég að furða mig á því hversvegna ríkisstjórnin var öll dregin upp á svið og látin standa þar án sýnilegs tilgangs. Og eiginlega hefði mér fundist fara betur á því að forseti ÍSÍ hefði fengið eitthvert hlutverk í athöfninni. Þá voru nú ræðuhöldin sum hver svona og svona - Óli Stef var samt ágætur. Heimspekilegur og einlægur. Auðvitað sat ég límd við sjónvarpsskjáinn. Þjóðremban að sprengja brjóstholið. Augun full af tárum.
En eitt vantaði. Það vantaði Dorrit - aðal stuðningsmann liðsins, höfund hinna ógleymanlegu ummæla um "stórasta land í heiminum" - ummælanna sem snurtu þjóðina beint í hjartastað og gleymast aldrei. Hún hefði átt að vera þarna - og satt að segja beið ég þess að hún birtist. Hélt kannski að hún yrði kynnt sérstaklega til sögunnar. En það gerðist ekki. Það var synd.
Þess í stað stóðu vandræðalegir ráðherrar, borgarstjóri og forseti í einum hnapp og þrengdu hver að öðrum. Hanna Birna og Þorgerður Katrín fremstar þar sem þær kysstu hvern mann frammi fyrir myndavélunum. Hmmm .... sennilega úthugsað. Á svona uppákomum getur komið sér vel að vera inni í myndinni.
En sumsé: Það vantaði Dorrit. Ég saknaði hennar.
Með stöðugan kökk í hálsinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt 28.8.2008 kl. 09:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
Velkominn heim Paul Ramses
26.8.2008 | 14:13
Ánægjulegt var að sjá fjölskyldu Paul Ramses sameinaða á ný eftir erfiðan aðskilnað frá nýfæddu barni og eiginkonu sem var nýrisin af sæng eftir barnsburð þegar fjölskyldufaðirinn var leiddur á brott af lögreglu. Enda leynir sér ekki á þessum myndum hin heita gleði yfir endurfundum við konu og barn.
Vonandi er þetta upphafið að farsæld fjölskyldunnar í nýju landi. Þökk sé þeim sem tóku í taumana og beindu málsmeðferðinni af óheillabraut.
Grátið af gleði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Silfur-skál!
24.8.2008 | 10:17
Allt fór hér í brand og bál
Börðumst við af lífi og sál.
Boltar skullu á Björgvin Pál
í Beijing. Það var silfur - skál!
Íslenskur fáni yfir verðlaunapalli á Ólympíuleikunum - silfur um háls íslenska handboltalandsliðsins - tvímælalaust stoltasta stund okkar Íslendinga! Strákarnir okkar mega vera glaðir af frammistöðu sinni, við erum svo sannarlega glöð hér heima.
Úrslitin í lokaleiknum voru vel viðunandi - sami markamunur og var á okkur og Spánverjum. Röðun þjóða á verðlaunapallinum var því vel makleg miðað við frammistöðuna í þessum leikjum. Frakkarnir eru augljóslega með gríðarlega sterkt lið, og þeir unnu sannarlega fyrir gullinu. Engin skömm að tapa fyrir slíku liði.
Annars mátti sjá ákveðna veikleika í leik íslenska liðsins gegn Spánverjum - þá á ég við hraðasóknirnar sem ekki gengu upp. Ég óttaðist strax að þetta myndi verða okkur dýrkeypt í úrslitaleik gegn sterkara liði, og það kom á daginn. Engu að síður sýndu strákarnir mikinn baráttuvilja og gáfust ekki upp, jafnvel þó markastaðan væri orðin afar óhagstæð um miðbik leiksins.
Til hamingju Ísland: Silfur-skál!
Íslendingar taka við silfrinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laumast út af fyrirlestri á lokamínútum leiksins
22.8.2008 | 18:39
Í miðjum fyrirlestri laumaðist ég út svo lítið bar á til þess að fylgjast með síðasta korterinu af leiknum. Hafði gert samning við staðarhaldarann á Hrafnseyri um að fá að smjúga inn til hans og kíkja á sjónvarpið rétt á meðan leiknum væri að ljúka. Ég var nefnilega stödd á málþingi á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Dr. Einar Sigurbjörnsson var á þeirri stundu með afar fróðlegt erindi um þremenningana Kolbein Tumarson, Guðmund Arason góða og Hrafn Sveinbjarnarson. En ... ég stóðst samt ekki mátið. Og ég sá það á svipnum á Einari þegar ég kom til baka að hann fyrirgaf mér. Sama átti við um nánast alla í salnum sem sneru sér við í sætunum með spurnarsvip og vildu vita hvernig leikurinn fór. Tveir þumlar upp, það fór kliður um salinn, og bros breiddust um andlit.
Áður en ég laumaðist út til að horfa á lokamínúturnar var ég búin að fá regluleg SMS frá syni mínum um stöðuna frá byrjun: 1-0 var fyrsta skeytið, svo 5-0 og svo fóru Spánverjar að skora: 19-17 var staðan á einhverjum tímapunkti. Ég var orðin friðlaus í sætinu.
Það er ótrúlegt að við skulum vera komin í þá stöðu að geta spilað um gull á Ólympíuleikum. Þetta handboltalandslið okkar er samansafn af hetjum.
Ósjálfrátt verður mér líka hugsað til Guðbjargar Guðjónsdóttur, ömmu Guðjóns Vals, þeirrar góðu konu sem er áttræði í dag. Varla hefði hún getað fengið betri afmælisgjöf.
Til hamingju Guðbjörg! Til hamingju strákar! Til hamingju Ísland!
Íslendingar í úrslitaleikinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 18:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Gleðiræða Óla Stef
21.8.2008 | 23:11
Orðtakið að vera "ölvaður af gleði" fékk í fyrsta skipti merkingu í mínum huga þegar ég sá sjónvarpsviðtalið við Ólaf Stefánsson eftir sigur íslenska handboltalandliðsins á Pólverjum í gær. Því miður finn ég ekki tengil á sjálft viðtalið, en á visi.is má sjá þessa uppskrift af því.
Ólafur var í gleðivímu - hann var virkilega hátt uppi þegar fréttamaðurinn greip hann. Endorfínið fossaði um æðarnar á honum og samtalið var eftir því: Torskilin, samhengislaus gleðiræða ... sumpart um heimspeki.
Þegar ég hinsvegar les viðtalið á blaði, skil ég mun betur hvað Ólafur er að fara. Og það gleður mig að einmitt þessar hugsanir skuli hafa verið honum efst í huga á þessari stundu - segi það satt: Þetta er alveg ný hlið á karlmennskuímyndinni sem keppnisíþróttirnar skapa. Jákvæð mynd - að vísu svolítið sundurlaus í framsetningunni á þeirri stundu sem orðin flæddu fram, en engu að síður virðingarverð.
Sömuleiðis er ógleymanleg senan þegar Björgvin markvörður lenti í hrömmunum á Loga að mig minnir (eða var það Sigfús?) sem öskraði upp í eyrað á honum af lífs og sálar kröftum eftir leikinn: "Mikið djöööfull ertu góóóóður!" Það mátti sjá (a.m.k. ímynda sér) augun ranghvolfast í höfðinu á Björgvini sem var þó fljótur að jafna sig enda sjálfur í sæluvímu - og sú víma deyfir nú sjálfsagt nokkur desibil.
Guðmundur, þegar hann hljóp til strákanna eftir leikinn og hendurnar leituðu upp að vörunum.
Osssosssosss! Þetta var ógleymanleg stund.
Vonandi verður önnur eins stund eftir leikinn á morgun.
Sjálf verð ég fjarri sjónvarpstækjum - því miður. Ég verð á málþingi vestur á Hrafnseyri í Arnarfirði um kaþólska Vestfirði í fortíð og nútíð. Svolítið frábrugðið viðfangsefni því sem hér er til umræðu - og viðbúið að ég verði friðlaus í sæti mínu einhvern hluta dagsins.
Sjónvarp | Breytt 22.8.2008 kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sigurvíma morgunsins: Íslensku strákarnir voru frábærir!
20.8.2008 | 10:03
Íslensku strákarnir stóðu sig aldeilis hreint snilldarlega í leiknum gegn Pólverjum í morgun: 32-30. Ekki amalegt!
Og Björgvin Páll Gústavsson! Að verja 21 mark í leiknum - þetta er bara tær snilld. Líka tær snilld að setja þennan töframann ekki inn á fyrr en í þessum leik. Þetta er leikurinn sem skipti máli, þá skellir maður út trompunum.
En samt - alltaf þegar einhver sigrar er einhver annar sem tapar. Og mikið er nú alltaf rörende að horfa á menn fleygja sér örmagna í gólfið, bugaða eftir baráttuna. Ossosssoss. Sem betur fer veit maður að þeir jafna sig fljótt - gera betur næst. Það höfum við Íslendingar oft mátt reyna.
Annars er það Guðjón Valur sem alltaf á aðdáun mína öðrum fremur í íslenska karlalandsliðinu. Ástæðurnar eru nokkrar:
1) Krúttástæðan: Hann er litli frændi bestu vinkonu minnar og ég hef þekkt hann frá því hann var barn. 2) Huglæga ástæðan: Hann er drenglundaður í leikjum, prúður í framgöngu sinni en fastur og baráttuglaður. 3) Leikástæðan: Hann er ótrúlega góður leikmaður og gerir alltaf aðeins betur en getumörk leyfa, heldur uppi móral. 4) Algilda ástæðan: Hann ber fallega persónu.
Jamm ... það verður ekki leiðinlegt að fylgjast með framhaldinu. Ó, nei. Og svo er bara að kyrja einum rómi: Við gerum okkar, gerum okkar ... gerum okkar besta! Og aðeins betur en það er það sem þarf! La la la la la ......
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
RÚV gægist á glugga
15.8.2008 | 11:11
Í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi voru sýndar þessar fréttamyndir sem teknar voru inn um glugga á borgarstjóraskrifstofunni í Ráðhúsinu nóttina áður. Þar sat miðborgarstjóri á einkafundi með fráfarandi borgarstjóra. Örvænting og örmögnun í loftinu. Stór geispi.
Nú þykist ég vita að Jakob Frímann Magnússon myndi ekki standa geispandi og úfinn frammi fyrir myndavélum ef hann vissi af því að þær væru í gangi. Það myndi enginn gera eða vilja - ekki ég að minnsta kosti. En Jakob Frímann vissi ekkert af þessari myndatöku - ekki heldur Ólafur F. Magnússon. Þessir tveir samverkamenn voru á einkafundi - fjarri augliti fjölmiðla að þeir töldu.
Þetta var óviðeigandi myndataka - og mér leið illa að verða vitni að þessu. Ríkisútvarpið á ekki að leyfa sér að liggja á gluggum og taka myndir af fólki því að óvörum, þar sem það telur sig vera óhult bak við lokaðar dyr.
Gægjuhvötin getur vissulega verið rík stundum og fjölmiðlar forvitnir um það sem gerist "bak við tjöldin". En það er ekki sama hvernig forvitninni er svalað. Fjölmiðill sem er vandur að virðingu sinni hagar sér ekki svona - hversu dramatískt sem augnablikið kann að vera. Allir eiga rétt á því að skýla sér fyrir augliti annarra þegar erfiðir atburðir eru að gerast. Það verður ríkisfjölmiðillinn að virða.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Orðabrigð og laumuspil - vond byrjun hjá Hönnu Birnu
14.8.2008 | 15:43
Látum vera þó að meirihlutinn hafi sprungið og nýr myndaður. En framkoma helstu persóna og leikenda í því handriti er í senn yfirgengileg og sorgleg. Það eru ósannindin, hálfsannindin og blekkingar þessa fólks sem valda mér hugarangri og hneykslan.
"Orð skulu standa" er stundum sagt. Við Íslendingar höfum löngum litið svo á að orð og handsöl hafi gildi enda mikilvægt að hægt sé að reiða sig á eitthvað í mannlegum samskiptum. Ekki síst hefði maður nú haldið að stjórnmálamenn þyrftu að kunna þessa kúnst - og einhvern veginn hélt maður að Íslendingar væru enn það siðvæddir að líta á orðheldni sem dyggð. En í Borgarstjórn Reykjavíkur er annað uppi á teningnum. Þar eru orð og yfirlýsingar einskis virði.
Í gær og morgun kepptist Óskar Bergsson við að sannfæra fjölmiðla og borgarfulltrúa minnihlutans um að hann ætti ekki í neinum þreifingum um nýja meirihlutamyndun í borgarstjórn. Hanna Birna hefur margoft lýst því yfir að Sjálfstæðismenn væru heilshugar í samstarfi sínu við Ólaf F. Magnússon. Flóttaleg framkoma hennar og Vilhjálms Þ. síðustu daga þar sem þau hafa laumast út um brunaútganga til að forðast fjölmiðla hefur ekki beinlínis borið vott um góðan málstað. Þau hafa verið á harðahlaupum undan eigin orðum og gjörðum - svo dapurlegt sem það nú er. Jafnvel sjálfur forsætisráðherrann hefur orðið uppvís að ummælum sem ekki fá staðist nánari skoðun - hann hefur ekki viljað kannast við að neitt væri í gangi.
Og nú hefur samstarfinu - þessu sem gengið var til svo "heilshugar" fyrir skömmu - verið slitið. Nýr meirihluti er orðinn að veruleika, Hanna Birna borgarstjóri og Óskar Bergsson formaður borgarráðs. Þetta hefur gerst þrátt fyrir nokkurra klukkustunda gamlar yfirlýsingar í allt aðra veru. Já, án þreifinga - án vitneskju formanns Sjálfstæðisflokksins, ef marka mætti orð þessa fólks - sem er auðvitað ekki hægt. Undangengnir atburðir sanna að ekki er ORÐ að marka sem það segir.
Samt er þetta fólkið sem þiggur umboð sitt frá almenningi og á að starfa í hans þágu. Svona starfar það.
Nei, dyggðir á borð við orðheldni, heilindi, drengskap eru augljóslega hverfandi á þessum leikvangi. Og það er sorglegt að sjá.
Þetta er vond byrjun hjá Hönnu Birnu.
Nýr meirihluti að fæðast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Refir með myllustein um háls
16.7.2008 | 14:54
Refur með senditæki á stærð við lítið útvarp um hálsinn er sannkölluð hryggðarmynd. Þetta hef ég þó séð norður í Hornvík. Mér brá í brún, satt að segja, því á Hornströndum er refurinn friðaður og maður býst ekki við að sjá hann í þessu ástandi.
Í framhaldi af þessu hef ég velt fyrir mér hugtökunum "friðun" og "verndun" dýra. Ná þau einungis til þess að dýr haldi lífi? Skiptir þá engu hvernig dýrið lifir?
Mér rann til rifja þessi sjón. Tækið er svo stórt að það hlýtur að vera kvalræði fyrir refinn að hafa þetta á sér. Sérstaklega þar sem hann þarf að smjúga um gjótur og ofan í greni - það getur ekki annað verið en að þetta sé fyrir honum. Hugsanlega getur hann drepist af þessu ef hann festir sig - hvað veit ég? Mér var sagt að þetta væri vegna rannsókna - einhverjir vísindamenn hefðu fengið leyfi til þess að fylgjast með ferðum refsins og setja á hann þessi senditæki.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér í gær þegar ég hlustaði á viðtal við formann Dýraverndarsamtaka Íslands í Kastljósi. Mér hefur stundum fundist skorta á að dýraverndarsinnar láti til sín taka hér á landi - og satt að segja mátti skilja á viðtalinu að enn værum við eftirbátar annarra þjóða á því sviði. Til dæmis efast ég um að eftirlit með dýrarannsóknum sé nægjanlegt hér á landi - eins og ofangreint dæmi er til vitnis um. Hvað veit ég nema sú rannsókn standi enn, og ennþá séu refir að dragnast um í Hornstrandafriðlandinu með þennan "myllustein" um háls í nafni vísindanna.
Það vill stundum gleymast að dýrarannsóknir og dýravernd þurfa ekki að fara saman. Þvert á móti geta rannsóknir á dýrum verið afar ómannúðlegar.
Að þessu sögðu skal ég viðurkenna að ég skammast mín svolítið, því sjálf hef ég ekki beitt mér mikið í dýraverndarmálum. Refina sá ég í Hornvíkinni fyrir þremur árum - og tilkynnti það ekki. Gleymdi því eiginlega.Vissi ekki heldur hvert ég átti að snúa mér - og gerði því ekkert. Hrædd er ég um að viðlíka aðgerðaleysi eigi við um ýmsa sem verða vitni að illri meðferð dýra - taka það nærri sér, segja frá því við vini og kunningja, en láta þar við sitja.
Svona til umhugsunar.
Sjónvarp | Breytt 17.7.2008 kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
"Agabrot" Guðjóns Þórðarsonar?
26.5.2008 | 20:58
Guðjóni Þórðarsyni finnst lítið koma til líkamlegs ástands ýmissa dómara í karlaknattspyrnunni. Hann telur að lögum KSÍ sé ekki réttilega beitt og að liðum sé mismunað. Guðjón fullyrðir þetta og virðist hvergi banginn. Þetta er hans skoðun.
Viðbrögð framkvæmdastjóra KSÍ eru þau að vísa ummælum Guðjóns til úrskurðar aganefndar.
Aganefndar? Á nú að taka í lurginn á Guðjóni fyrir að segja skoðun sína?
Væri ekki nær að láta rannsaka hvað hæft er í fullyrðingum Guðjóns - því þær eru alvarlegar. Þær eru um að dómarar innan KSÍ hafi haldið sérstakan fund í bakherbergjum til þess að leggja á ráðin um að sýna Skagamönnum, og þá sérstaklega einum leikmanni, í tvo heimana. Þær eru um að alvarlegur misbrestur sé á því að reglum KSÍ sé framfylgt - til dæmis sé vikið frá reglum varðandi þrekmat dómaranna sjálfra.
Þegar stórar fullyrðingar eru settar fram er sjálfsagt að rannsaka hvað hæft er í þeim. Samkvæmt starfsreglum aganefndarinnar á hún fyrst og fremst að fjalla um "brot leikmanna, þjálfara, forystumanna félaga, félaga og áhorfenda" eins og þar segir. Þá fjallar nefndin um "önnur mál, sem berast henni og/eða hún telur ástæðu til að hafa afskipti af vegna leikja, sem fram fara í landinu, enda fjalli ekki aðrir um þau."
Nú er spurningin þessi: Er verið að vísa málinu til aganefndar til þess að fá úr því skorið hvað rétt sé og satt í ásökunum Guðjóns, eða .... sem ég óttast ... er litið á ummæli hans sem agabrot? Stendur kannski til að setja Guðjón í bann eða dæma á hann sektir svo hann þegi framvegis (og halda menn virkilega að Guðjón láti þagga þannig niður í sér) ??
Mér líst ekki á þetta. Því hvað svo sem segja má um Guðjón Þórðarson, þá á hann rétt á því að gagnrýna KSÍ ef honum finnst á sér brotið. Það er grundvallar réttur allra sem eiga að lúta reglum KSÍ. Annað væri óheilbrigt. KSÍ hefur ekkert gott af því að vera undanþegið gagnrýni. Þvert á móti.
Ef alvarlegar ásakanir koma fram um misbeitingu valds og brot á reglum ber að rannsaka sannleiksgildi slíkra ummæla skilyrðislaust. Ef eitthvað er hæft í fullyrðingum Guðjóns, þá er það grafalvarlegt mál fyrir KSÍ. Forsvarsmenn félagsins hljóta að vilja reka af sér slyðruorðið og fá úr því skorið með óyggjandi hætti hvað satt er. Eða hvað?
Komi hins vegar í ljós með óyggjandi hætti að Guðjón hafi rangt fyrir sér - þá er hann ómerkingur orða sinna. Það er ærin refsing fyrir mann sem vill láta taka mark á sér.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)