Færsluflokkur: Sjónvarp

Geir. Þú þarft blaðafulltrúa, þó seint sé.

GeirogBlm Ég ætla að taka mér það bessaleyfi að gerast PR-ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í fjarska og beina til forsætisráðherra eindregnum tilmælum: Fáið ykkur upplýsingafulltrúa. Strax.

Þjóðin á ekki að horfa upp á ráðamenn landsins misvel til hafða og þreytulega þar sem þeir ganga inn og út af fundum - eða standa útundir húsveggjum í ýmsum veðrum að verjast frétta og tjá sig í sem óræðustum orðum um stöðu mála. Það er ekki sérlega traustvekjandi þegar forsætisráðherra hrekst hálfpartinn upp að vegg undan hljóðnemaskóginum sem otað er að honum - og á ekki einu sinni fyrsta orðið, loks þegar hann kemur út af fundi til að tala við fréttamenn, eins og í gærkvöldi.

Því meira sem vinnuálagið er og þreytan, því ríkari áhersla er til að skapa vinnufrið og skipulag á upplýsingagjöf.

Upplýsingafulltrúi myndi koma fram til fréttamanna á tveggja tíma fresti - við aðstæður sem þessar - og gefa upplýsingar. Létta á spennunni með því að tala við fréttamenn. Segja frá því  við hverja sé verið að ræða, hverjir séu væntanlegir til fundar næst, hvenær búast megi við yfirlýsingu frá ráðamönnum og hvar sá blaðamannafundur verði haldinn. Forsætisráðherra á síðan að koma með yfirlýsingu þegar hann er tilbúinn - vera öruggur í fasi, skýr í máli OG eiga fyrsta og síðasta orðið. Þess á milli þarf hann að hafa vinnufrið.

Þetta gera menn á betri bæjum erlendis, til dæmis í Hvíta húsinu þangað sem ég hef verið svo fræg að koma og sitja fréttamannafundi um nokkurra daga skeið fyrir margt löngu. Þar eru haldnir reglulegir upplýsingafundir til fréttamanna - síðan koma kanónurnar sjálfar þegar mál liggja ljós fyrir.

Ágæta ríkisstjórn: Fáið einhvern til liðs við ykkur í þetta verkefni. Strax.


mbl.is Alvarlegri en talið var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttir um að ekkert sé að frétta

Það er orðið hvimleitt að hlusta á fréttir dag eftir dag um að ekkert sé að frétta. Fréttamenn hanga eins og hálfgerðir papparazzar framan við stjórnarráð og ráðherrabústað, reka hljóðnemann upp í alla sem ganga þar um dyr, spyrjandi endalaust að sömu hlutum og fá endalaust sömu svör: Að það sé ekkert um málið að segja á þessu stigi - verið sé að vinna að lausnum.

Svo er því lýst í smáatriðum hvernig menn bera sig að við að stökkva út úr bílum, upp tröppur og inn í hús - svipbrigði þeirra .... úff! Tíu sinnum hef ég heyrt nú í vikunni að þessi eða hinn sé alvarlegur á svip.

Það á ekki að leggja fréttatímana undir þetta - hvað þá heldur misvitrar kenningar um það sem kannski gerist, og hvað hugsanlega muni koma fram, þar sem slegið er í og úr. Fréttatímar eiga greina okkur frá því sem gerist - ekki því sem kannski gerist, eða menn halda að muni gerast, eða menn vona að gerist. Í öllum bænum - hlífið okkur við þessu.

Svo finnst mér að fjölmiðlar mættu alveg fara að fækka öllum þessum dósentum, aðjúnktum og lektorum sem þeir eru að ræða við dag eftir dag núna. Það er vandstjórnað þegar raddir stjórnvalda kafna stöðugt í misvísandi upphrópunum misviturra álitsgjafa sem tala þvers og kruss - og á endanum veit almenningur ekki sitt rjúkandi ráð. Ekkert frekar en fjölmiðlarnir sem eru farnir að snúast í hringi með hljóðnema sína og myndavélar, eltandi fólk eins og illa vandir hundar.

Látum vera þó að í fréttatímum sé drepið á ígrundaðar kenningar um stöðu mála - en slíka vangaveltur eiga þó best heima í umræðu- og fréttaskýringaþáttum.

Annars hlustaði ég af athygli á Þorvald Gylfason í Silfri Egils núna áðan. Drakk í mig hvert orð sem hann sagði og er sammála honum að nánast öllu leyti (þó mér finnist hann draga full mikið úr lífeyrissjóðaleiðinni - en látum það vera).

Þorvaldur er hættur frýjunarorðum sínum um að Samfylkingin slíti stjórninni - það er ágætt.

Hinsvegar segir hann að ef ríkisstjórnin hafi ekki döngun í sér til þess að skipta um áhöfn í Seðlabankanum þá sé hún ekki starfi sínu vaxin.

Ég tek undir það.


mbl.is Allir róa í sömu átt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eldhúsdagsumræðurnar, óráðsjal um stjórnarslit og fleira fallegt

skidi-ReykjavikIs Ég er ein af þessum vel menntuðu, dugmiklu Íslendingum sem bý í ægifögru umhverfi - þessi sem þeir voru að tala um í eldhúsdagsumræðunni í kvöld. Mér skilst að ég - og við öll sem þessi lýsing á við um - séum von Íslands um þessar mundir.

Af hverju líður mér þá ekki eins og styrkri stoð? Crying Kannski vegna þess að ég hef ástæðu til að draga í efa að mannauðurinn í landinu fái notið sín við núverandi aðstæður. Það er alvarlegt atvinnuleysi yfirvofandi samhliða öðrum vandamálum. "Heimili landsins loga nú rafta á milli" sagði Guðni Ágústsson - eða heyrði ég það ekki rétt - í heimsósóma prédikuninni sem gekk með eldglæringum af munni hans núna áðan?

Já - staðan er vandasöm. Og ekki bætir úr skák að hlusta á æðrutal af þessu tagi. Það máttu þó aðrir þingmenn eiga, að þeir stilltu sig að mestu um skrum - allir nema Guðni. Hann tvinnaði saman hrakspám og svipuhöggum. Það er ekki góð blanda þegar hvetja þarf til dáða. Nei, Guðni minn.

Annars leið mér undir eldhúsdagsræðunum eins og það væri verið að tala til mín á stríðstímum. Og sú líking er ekki fjarri lagi - Kreppan er að skella á. Það er staðreynd, ekki kenning.

Þess vegna er það ekkert yfirborðstal að biðja menn um samhug og samstillt átak til að takast á við vandann. Oft var þörf, en nú er nauðsyn. Því furða ég mig hálfpartinn á því að  Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor, skuli í alvöru leggja það til að Samfylkingin rjúfi ríkisstjórnina, knýi fram  kosningar eða myndi nýja stjórn strax með núverandi stjórnarandstöðu til þess að hægt verði að setja Davíð af sem Seðlabankastjóra.

Þetta er óráðshjal. Nóg er nú samt þó við bætum ekki stjórnleysi og ringulreið við þann vanda sem fyrir er.

Nei, nú verða menn að halda kúlinu.


Í bróðurfaðmi - eða gini ljónsins?

DavidGeirMbl.is Vafalaust hafa runnið tvær grímur á marga sem horfðu á Kastljósið nú rétt í þessu. Viðtalið við Þorstein Má Baldvinsson stjórnarformann Glitnis fannst mér athyglisvert - einkum frásögn hans af aðdraganda ríkisyfirtökunnar á Glitni. Þorsteinn Már bað hluthafa Glitnis afsökunar á þeim "mistökum" sínum að hafa snúið sér til Seðlabankans með lausafjárvanda Glitnis.

Hluthafar urðu af hundruðum milljarða króna við yfirtökuna en ríkið gerði "dúndurkaup" eins og Pétur Blöndal orðaði það - keypti á genginu 1,80 á mánudagsmorgun. Þegar markaður lokaði í dag var verðið 4,50.

Glitnismenn standa titrandi af vanmáttugri reiði og telja sig hafa gengið í gin ljónsins. Það var jú stór lántaka Seðlabankans í Þýskalandi sem varð til þess að skrúfað var fyrir frekari lántökur þaðan til Glitnis, sem leiddi svo aftur til þess að þeir urðu að snúa sér til Seðlabankans um lánsfjármagn. "Stærstu mistök sem ég hef gert" sagði Þorsteinn Már.

Það snart mig undarlega að sjá manninn sitja i viðtalinu, fölan af stilltri, vanmáttugri bræði. Ég trúði honum - skildi einhvern veginn hvernig honum leið. Ábending hans um hugsanlegt vanhæfi Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra, til að taka ákvarðanir um málefni Glitnis vegna fyrri samskipta hans og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, er líka umhugsunarefni.

Nú velti ég því fyrir mér hvort ríkisstjórnin hafi verið ginnt í málinu - hafi hún á annað borð fjallað um það. Hvenær fjallaði ríkisstjórnin annars um málið - var það aðfararótt mánudags?

 "Davíð var við stýrið - Geir farþegi um borð" segir Valgerður Sverrisdóttir í beittri grein á heimasíðu sinni í dag. Hún er ekki bara að lýsa fréttamyndinni sem birtist af þeim félögum þegar þeir óku saman í einum bíl til fundarins örlagaríka - heldur hugsanlegri merkingu hennar.

Var myndin kannski táknrænni en mann hefði grunað í fyrstu?

Það er ýmsum spurningum ósvarað í þessu máli um aðdraganda kaupanna. Enn hefur ekki verið sýnt fram á að ákvörðun ríksins hafi verið röng - sjálf vil ég trúa því að hún hafi verið rétt. En stundum gerast réttir hlutir á röngum forsendum - og þá er ég að vísa til efasemda manna um hlutleysi Davíðs Oddssonar gagnvart Jóni Ásgeiri. Sú hugsun er óþægileg.

Svo mikið er víst að upplýsingarnar sem nú hafa verið bornar á borð gefa nokkuð aðra mynd en þá sem dregin var upp í fyrstu. Og það truflar mig.

ljónoglamb

mbl.is Sameining Glitnis og Landsbanka ólíkleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sarah Palin - úff!

Palin Jæja, þá er gríman endanlega fallin af Söru Palin. Útslagið gerði þetta viðtal á CBS sjónvarpsstöðinni. Og fyrir vikið fékk hún þessa útreið hjá bandarískum álitsgjafa að nafni Jack Cafferty. Það var verðskulduð útreið.

Sara Palin kom með glæsibrag inn á sviðið á flokksþingi repúblikana fyrir fáeinum vikum - leynivopnið sem McCain skellti fram öllum að óvörum þegar hann tilnefndi hana sem varaforsetaefni sitt. Hún flutti snilldar ræðu, kom vel fyrir og sjarmeraði alla upp úr skónum.

Síðan hefur lítið til hennar heyrst - og sennilega er skýringin hér lifandi komin. Konan veit ekkert um utanríkismál. Hún er óörugg í návígi. Hún er ekki með stefnu sína á hreinu, hvorki í utanríkismálum né velferðarmálum. Skoðanir hennar á lífinu og tilverunni eru undarlega afturhaldssamar og kreddufullar. Þá er ég ekki að tala um trúarlíf hennar, sem hefur verið dregið inn í umræðuna. Auðvitað má konan hafa sína trú. En það er margt í málflutningi hennar sem vekur manni ugg. Jafnvel repúblikönum er nóg boðið, sumum hverjum.

Það er kannski ekki nema von að hún skuli þiggja fyrirbænir og handayfirlagnir úr ýmsum áttum - henni veitir sjálfsagt ekkert af.

Satt að segja leist mér ekkert á blikuna fyrir demókratana fyrst eftir að Palin kom fram, sérstaklega í ljósi þess að Obama hafði ekki vit á að taka Hilary Clinton sem sitt varaforsetaefni. Ég bloggaði meira að segja um það hversu flott og sjarmerandi kona þetta væri - og uppskar ótrúlega sterk og heiftúðug viðbrögð.

Það er augljóst að Palin kallar fram sterkar tilfinningar hjá fólki - og það kemur því miður ekki til af góðu. Ég sé það núna. 

En - svo ég gerist nú sek um svolitla "skadeglæde" - þá er þetta ekki slæmt fyrir demókratana. Devil


Landsföðurlegur Geir - í vandræðum vegna Árna Matt

geir-eyjanIs Athyglisvert var að hlusta á ræður manna í Silfri Egilsí gær. Augljóst er að Sjálfstæðismenn vilja sem minnst gera úr þessu útspili Árna Matthiesen að lögsækja ljósmæður í miðri kjaradeilu. Forsætisráðherra talaði eins og lögsóknin væri "lagatæknilegt" úrskurðaratriðið sem "breytti ekki deilunni um kjörin" eins og þetta væru tvö aðskilin mál algjörlega úr tengslum hvert við annað. GetLost

Jebb ... menn eru í stökustu vandræðum, sem vonlegt er. Því það er auðvitað alveg sama Arni-M-Mathiesen07hvað hver segir, lögsókn fjármálaráðherra á ljósmæður nú þegar verkföll eru hafin, er auðvitað innlegg í sjálfa deiluna og fjarri því að vera óháð henni. Hafi þetta legið fyrir frá því í júlí að efasemdir væru uppi um lögmæti uppsagna ljósmæðra, þá er þetta vægast sagt undarleg tímasetning núna.

Annars var Geir Hilmar bara landsföðurlegur og traustvekjandi í samtalinu við Egil. Það var gott að heyra hann tala af föðurlegri visku eftir hrunadans efnahagsumræðunnar í fyrri hluta þáttarins þar sem allt var á fallanda fæti, ævisparnaður fólks horfinn í kreppuhít og ég veit ekki hvað. Ef Kristinn H hefði ekki verið til staðar að stemma þau ósköp öllsömul af, veit ég ekki nema maður sæti enn stjarfur af skelfingu fyrir framan skjáinn. Undecided

En sumsé - svo kom Geir og sagði mér og fleirum að verðbólgan myndi minnka hratt á næsta ári. Í stjórnarráðinu væru menn að takast á við vandann og finna á honum lausnir af ábyrgð og yfirvegun.  Hann náði mér úr þeim skelfingargreipum sem ég var komin í eftir að hlusta á Andrés Magnússon fyrr í þættinum.  Og maður skyldi ekki vanmeta það hlutverk landsfeðra að tala til fólksins og róa það á viðsjárverðum tímum.

Geir er viðkunnanlegur maður - mildur og rökfimur. Maður hefur tilhneigingu til að trúa honum. Sem er gott eins og á stendur. Woundering


Hvað segja konurnar í ríkisstjórninni?

barn  Formaður samningarnefndar ríkisins hefur haldið því fram að kjaradeila ljósmæðra snúist ekki endilega um menntun ljósmæðra heldur "eðli starfans". Eiginlega veit ég ekki hvort er meiri móðgun við ljósmæður að halda því fram að eðli starfs þeirra eða menntunin sé ekki launahækkunar virði.´

Sem margra barna móðir þekki ég af eigin raun  - líkt og fjölmargar kynsystur mínar - hið djúpa þakklæti sem hver kona finnur í garð sinnar ljósmóður þegar barn er farsællega fætt inn í þennan heim. En kannski verður slík tilfinning aldrei útskýrð fyrir karlmanni í samninganefnd ríkisins eða fjármálaráðuneytinu. Karlmenn þar á bæ hafa kannski engar forsendur til að skilja helgi fæðingarstundarinnar og mikilvægi ljósmóðurinnar í aðdraganda hennar. Að minnsta kosti verður það ekki ráðið af orðum þeirra eða gjörðum.

Í þessu myndbandi sem Lára Hanna Einarsdóttir setti saman má heyra Björgvin G. Sigurðsson  viðskiptaráðhera marglýsa yfir stuðningi við málstað ljósmæðra. Hann talar um að "allir" hafi ríkan skilning á þeirra stöðu enda sé á næsta leyti "myndarlegt" útspil af hálfu ríkisins inn í kjaradeiluna.

Hmm... næstu fréttir eru lögsókn fjármálaráðherra á hendur Ljósmæðrafélaginu. GetLost Sannarlega útspil í lagi.

"Sínum augum lítur hver á silfrið" segir máltækið. Það er augljóst af öllu að hinn "ríki" skilningur stjórnvalda á stöðu ljósmæðra er ekki af einum toga.

Fjármálaráðherra og formanni samninganefndar ætlar að takast það ótrúlega - að skipa allri íslensku þjóðinni í sveit með ljósmæðrum í þessari kjaradeilu. Það er í sjálfu sér þarft verk - en aðferðin óneitinalega óhefðbundin, þ.e. að ganga fram af af fólki með lítilsvirðandi ummælum og óbilgirni.

Skyldu konurnar í ríkisstjórninni engu fá ráðið í þessu máli? Ég trúi því ekki að þeim sé skemmt núna.


Ráðherra hótar ljósmæðrum lögsókn!

nýfædd (Small) Árna Matthiesen væri nær að semja við ljósmæður en lögsækja þær.  Hann hefur nú stefnt þeim fyrir dómstóla fyrir það sem hann kallar "ólöglegar uppsagnir". Ég held barasta að maðurinn sé að missa alla veruleikatengingu. Angry

Þessi stefna fjármálaráðherrans er það eina sem gerst hefur í kjaradeilu ríkisins við ljósmæður frá því þær sigldu í strand. Sumsé: Ef ekki semst við þessar kellingar - lögsækjum þær þá bara. Hræðum þær ærlega - þær hljóta einhverntíma að hætta þessari vitleysu.

 Hvað er maðurinn að hugsa? Heldur hann að þetta sé vænlegt til þess að leysa kjaradeilu sem snýst um margra ára uppsafnaða óánægju yfir augljósu óréttlæti?

Það er staðreynd að ljósmæður fá ekki menntun sína metna til jafns við aðrar stéttir. Um það eru skýr og óhrekjanleg dæmi. Viðsemjandinn er ríkið - og samkvæmt stjórnsýslulögum ber ríkinu að virða jafnræðisreglu stjórnarskrár. Þið fyrirgefið, en ég sé engan grundvallarmun á því hvort fólki er mismunað við stjórnsýsluákvarðanir eða í  kjarasamningum þar sem ríkið er viðsemjandi. Eiginlega finnst mér vel athugandi fyrir ljósmæður að láta reyna á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar vegna þess hvernig komið hefur verið fram við þær í kjarasamningum allar götur frá því að núverandi menntun ljósmæðra varð viðtekin regla. Þær eru ekki að fara fram á neinar hækkanir, heldur hreina og klára leiðréttingu - afnám óréttar og mismununar.

Árni Matthiesen hefur orðið sér til skammar með þessari lögsóknarhótun. Og ef ríkisstjórnin situr þegjandi og horfir upp á þetta, þá er ekki orð að marka það sem stjórnarflokkarnir hafa sett á blað um jafnréttismál.

Svei.


mbl.is Ljósmæður: Uppsagnir löglegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er lag fyrir ríkisstjórnina ...

nýfædd (Small) Gott hjá læknunum að styðja ljósmæðurnar í sinni kjarabaráttu. Fyrir utan okkur sem höfum upplifað barnsfæðingar eru læknar líklega sá hópur fólks sem skilur hvað best mikilvægi ljósmóðurstarfsins. 

Það er ótrúlegt en satt, að laun ljósmæðra eru með því sem lægst gerist innan Bandalags háskólamanna þótt nám þeirra sé eitt það lengsta sem krafist er af ríkisstarfsmönnum. Byrjunarlaun ljósmæðra eru til dæmis mun lægri en byrjunarlaun verkfræðinga með meistaragráðu.

Ég vona líka að fólk hafi tekið eftir frétt sjónvarpsins í kvöld um launamun á ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum. Þar kom fram að hjúkrunarfræðingur sem bætir við sig ljósmæðranámi og fer að starfa sem ljósmóðir getur lækkað við það í launum. Í öðrum tilvikum hækkar hann lítillega, en þó aldrei jafn mikið og ef hann hefði bara unnið áfram sem hjúkrunarfræðingur og sleppt því að fara í ljósmóðurnámið - tveggja ára nám. GetLost

Nei, það er löngu tímabært að störf ljósmæðra verði endurmetin miðað við þá miklu ábyrgð sem þær gegna. 

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa þá stefnu að jafna óútskýrðan kynbundinn launamun hjá hinu opinbera.  Nú er lag fyrir ríkisstjórnina að stíga mikilsvert skref í þá átt og semja um kjör handa ljósmæðrum sem standast samanburð við sambærilegar karlastéttir.

Slíkt framtak gæfi íslenskum konum a.m.k. von um að jafnréttismarkmið ríkisstjórnarinnar næðu einhvern tíma fram að ganga.


mbl.is Læknar lýsa yfir stuðningi við ljósmæður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðernisvitund - íþróttir og tilbeiðsla

hljóðnemi Þetta þrennt er kyrfilega samtvinnað þessa dagana, og var til umræðu í morgunútvarpinu á Rás-1 í morgun. Þar sátum við Árni Indriðason sagnfræðingur og handboltakempa og spjölluðum um samkenndina, tilfinningar og tár þjóðarinnar þessa dagana, og bárum saman við ýmislegt í menningarsögunni. Ef ykkur langar að hlusta þá er tengillinn hér. Þetta tekur 8 mínútur. Smile

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband