Færsluflokkur: Sjónvarp

En útrásarvíkingarnir?

Af hverju ekki að bjóða útrásarbarónunum að sitja fyrir svörum á næsta borgarafundi, eins og Friðrik Þór Guðmundsson bendir réttilega á í sínu bloggi? Er ekki tími til kominn að þeir fái sín sérmerktu sæti í Háskólabíói og horfist þar í augu við almenning?

Eru mótmælin að þróast í múgæsingu?

motmælendurEru mótmæli Íslendinga að breytast í múgæsingu? Ég velti því fyrir mér eftir atburðina við lögreglustöðina á Hverfisgötu. Fréttamyndir af vettvangi skjóta manni skelk í bringu.

Hugsanlega hefði lögreglan getað leyst þetta mál betur - til dæmis með því að láta einhvern koma út og tala við fólkið. Þó er ég ekki viss, svona eftir á að hyggja. Enda verð ég að segja að þeir sem brjóta rúður og ráðast til inngöngu með steinhellur á lofti geta nú varla búist við því að þeim sé boðið í kaffi þegar inn er komið. Hvað hélt fólk að lögreglan myndi gera? Auðvitað máttu menn vita að hún myndi verja húsið.

Svo kom drengurinn út - eins og skæruliðaforingi með klút fyrir andlitinu. Lítið bara á þessa fréttamynd hér fyrir ofan. Það mætti halda að hún væri tekin í Palestínu.

piparudiNei, atburðarásin er að verða einhvernvegin hálf óraunveruleg. Það er átakanlegt að sjá nú myndir af fólki sem ber menjar eftir piparúða lögreglunnar.  Við Íslendingar eigum ekki að venjast átökum sem þessum, enda siðmenntuð þjóð að því talið er.  

Hitt er svo annað mál að ég gef lítið fyrir skýringar lögreglu á handtöku piltsins. Þeir voru greinilega að ögra mótmælendum með þessu. En þeir gera það vonandi ekki aftur.

 


Kastljósið

Í kvöld sat ég fyrir svörum hjá Helga Seljan í Kastljósinu ásamt Berki Gunnarssyni friðargæsluliða og starfsmann hjá NATO. Umræðuefnið var efnahagsástandið, eftirlaunafrumvarpið, ræða Davíðs o. s. frv.  Ég hefði auðvitað viljað fá helmingi lengri tíma til að segja allt sem mér liggur á hjarta, en .... maður getur ekki alltaf fengið allt sem maður vill. Wink

Þið sem áhuga hafið á þessari umræðu, getið séð þáttinn hér.


Bjarna-greiði við Valgerði. Burt með spillingarliðið.

BjarniHarðar Þegar ég var ungur blaðamaður á NT vann ég með skemmtilegum og sérstæðum jafnaldra, Bjarna Harðarsyni að nafni - Sunnlendingi og sveitastrák að upplagi. Okkur varð vel til vina og brölluðum ýmislegt á þessum fyrstu blaðamennskuárum sem voru skemmtilegur tími. Bjarni var og er góðhjartaður maður, svolítið glíminn og fljótfær, en ég hef aldrei efast um góðvild hans og samstöðu með lítilmagnanum.

Í ljósi þessara kynna, kemur mér ekki á óvart að Bjarni skuli nú hafa sagt af sér þingmennsku og axlað þar með ábyrgð á misgjörðum sínum. Honum varð á í hita leiksins. Hann braut á öðrum leikmanni og fer nú af vellinum. Það er honum líkt að taka eigin mistökum eins og maður.

Nú, þegar Bjarni er vikinn úr vegi - er kannski hægt að fara að líta á efni þessa bréfs til Valgerðar Sverrisdóttur, sem hratt atburðarásinni af stað. Sannleikurinn er sá að sú gagnrýni sem þar kemur fram á fullan rétt á sér, og er allrar athygli verð.

Bjarna óska ég velfarnaðar í framtíðinni - ég yrði ekki hissa þótt hann léti að sér kveða á opinberum vettvangi síðar. 


Ný von fyrir heiminn og: Burt með spillingarliðið!

obama8.jpg Kjör Baracks Obama í embætti forseta Bandaríkjanna gefur heiminum von um nýja tíma - nýjar áherslur og gildi. Ekki veitir af í harðindum heimsbyggðarinnar þessar vikur og mánuði. Með þessu kjöri hafa Bandaríkjamenn gert upp við stríðshörku, óheftan kapítalisma, kynþáttamisrétti og annan yfirgang. Þetta er þeirra leið til þess að leiðrétta kúrsinn. Og trúlega eru þetta meiri tíðindi fyrir Bandaríkin og heimsbyggðina alla en maður meðtekur í fljótu bragði.

Karl Th. Birgisson orðaði það afar vel í sjónvarpsumræðum í gær þegar hann dró upp tvær einfaldar myndir með orðum til að lýsa þessum tíðindum, og sagði eitthvað á þessa leið: Þegar bandaríska þjóðin fær að sjá Barack Obama sverja forsetaeiðinn - og verða vitni að því þegar þessar fallegu þeldökkur telpur hans hlaupa um ganga Hvíta hússins, af því þær eiga heima þar - þá hafa orðið mikil tíðindi hjá þessari þjóð.

Skyldum við Íslendingar bera gæfu til þess að gera viðlíka breytingar á okkar gildum? Eins og nú horfir virðast litlar líkur til þess. Því miður.

Ég ætla því að enda þetta spjall með sömu áskorun og síðustu tvo daga, um leið og ég skora á alla bloggara landsins að setja sambærilegt ákall inn á síður sínar, án tillits til umræðuefnisins, og láta ekki af áskorun sinni fyrr en eitthvert jákvætt skref verður tekið af ráðamönnum til að uppræta spillingu og endurvinna traust landsmanna:

Burt með stjórn Seðlabankans og bankastjórana þrjá. Burt með Fjármálaeftirlitið, stjórn þess og starfslið. Burt með alla þá starfsmenn bankanna sem þáðu eða ákváðu skuldahreinsun eða undanfæri fyrir útvalda. Burt með þá ráðamenn sem samþykktu ósómann með beinum eða óbeinum hætti, þögn eða aðgerðaleysi.

Burt með spillingarliðið, hvar í flokki sem það stendur!

 


mbl.is Obama kjörinn forseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju þarf Davíð að víkja?

DavidGeirMbl.is Ja, það er nú það. Eru vinstri menn að ná sér niðri á þessum gamla erkióvini með því að krefjast nú afsagnar hans? Er verið að persónugera í Davíð Oddssyni vonbrigði og reiði þeirra sem sjá nú á bak hlutabréfum, lífeyrissparnaði, atvinnu og ýmsum lífsgæðum með vaxandi skuldabyrði? Er verið að leggja Davíð Oddsson í einelti?

Frá mínum bæjardyrum séð snýst málið ekki um Davíð Oddsson nema að hluta til. Málið snýst um þá reginfirru að hafa gamlan pólitíkus í starfi Seðlabankastjóra. Og ekki bara einhvern pólitíkus, heldur þann þaulsætnasta í stóli forsætisráðherra sem sögur fara af. Mann sem aukinheldur ber ríka ábyrgð vegna sinna fyrr starfa sem forsætisráðherra í ríkisstjórnum sem skópu þau skilyrði sem nú hafa valdið ofsaakstri og útafkeyrslu fjármálamarkaðarins með tilheyrandi hruni og eftirköstum.

Málið snýst um trúverðugleika Seðlabankans jafnt innanlands sem utan - trúverðugleika okkar Íslendinga gagnvart öðrum þjóðum. Það sér hver heilvita maður að yfirlýsingar og ummæli Davíðs að undanförnu hafa stórskaðað efnahag þjóðarinnar. Yfirlýsingar hans hafs vakið athygli langt út fyrir landsteina - eins og t.d. má lesa í harðorðri gagnrýni eins stærsta dagblaðs í Þýskalandi sem fjallað er um í Morgunblaðinu um helgina.

Já, við erum dregin sundur og saman í erlendum fjölmiðlum fyrir það háttarlag við stjórnun efnahagsmála að hafa fyrrverandi forsætisráðherra við stjórnvölinn sem Seðlabankastjóra.

Reiðiákall almennings um afsögn Davíðs Oddssonar er ákall til stjórnvalda um að þau gangist við mistökum sínum og hreinsi til í Seðlabankanum, og sýni þar með vilja og viðleitni til þess að gera upp við bæði mistök og ranga hugmyndafræði.

Sú hreingerning getur ekki einskorðast við Davíð einan og sér. Stjórn Seðlabankans og bankastjórarnir þrír hljóta allir að þurfa að víkja. Og hafi þeir ekki sómatilfinningu til þess að segja af sér sjálfir, þá verður ríkisstjórnin að víkja þeim frá.

Fólkið krefst þess. Fólkið á rétt á því. Þetta er ekki flóknara en það.

 

 


Mikið déskoti var Sigmar góður!

Takið nú eftir - þið áhugamenn um fjölmiðla og viðtalstækni - hvernig Sigmar bar sig að í viðtali sínu við Geir Haarde í gær, samanborið við Egil í viðtali við Jón Ásgeir um daginn. Sigmar vissi upp á hár hvað hann ætlaði að fá út úr forsætisráðherranum. Hann virkjaði reiðina - sleppti henni aldrei lausri, heldur baunaði spurningunum (stundum á mörkum þess að missa það, en fór samt aldrei yfir strikið) hverri af annarri, í  rökréttri röð. Og þegar forsætisráðherranum var orðið nóg um, og taldi að spyrillinn væri farinn að fullyrða meira en spyrja - þá rökstuddi spyrillinn ástæður sínar fyrir framsetningunni og hélt sínu striki.

Þetta var beinskeytt viðtal - hugsað. Ákveðinn spyrill. Reiður undir niðri - en umfram allt vel undirbúinn. Það gerði gæfumuninn.

Annars er líka fróðlegt fyrir fjölmiðlafíkla að spá í muninn á viðtali Sigmars frá því um daginn við Davíð annarsvegar, og viðtali Egils við Jón Ásgeir hinsvegar. Í fyrra tilvikinu (viðtalinu við Davíð) hélt spyrillinn sig svo vel á mottunni að hann bókstaflega skrúfaði frá talandanum á seðlabankastjóra (með hrikalegum afleiðingum fyrir land og þjóð reyndar, en samt ...).

Í síðara tilvikinu (viðtali Egils við Jón Ásgeir) sleppti spyrillinn sér svo gjörsamlega að hann skrúfaði fyrir viðmælandann og fékk ekkert út úr honum eftir það.

Sumsé - eins og kría á steini, tylli ég mér niður á Frón, rétt nýkomin frá Póllandi á leið til Danmerkur í nótt. Verð ekki í bloggsambandi fyrr en eftir helgi.

En ... ég náði að kíkja á Kastljós gærkvöldsins og get ekki orða bundist: Mikið déskoti var Sigmar góður!


Stóð Egill sig vel?

Egill "Ég reiddist bara fyrir hönd þjóðarinnar" segir Egill Helgason aðspurður um reiðikastið sem hann tók gegn Jóni Ásgeiri í Silfrinu á sunnudag. "Þetta var flottur þáttur" bætir hann svo við.

Þarna finnst mér Egill mætti lækka seglin aðeins. Í fyrsta lagi var þessi hluti þáttarins fjarri því að vera "flottur". Egill virtist ekkert sérlega vel að sér í umræðu efninu - hann var hinsvegar fullur heiftar í garð viðmælanda síns.  Hann fór með dylgjur og skæting, sem er ekki rismikil framkoma þáttarstjórnanda í ríkissjónvarpi.

Í öðru lagi má draga í efa að ríkissjónvarpið eigi að vera aftökutorg til að skemmta lýðnum þegar höggnir eru "skúrkar".

Í þriðja lagi er umræðuþáttur um þjóðfélagsmál ekki réttur vettvangur fyrir umsjónarmann að sleppa tilfinningum sínum lausum og svala þeim á viðmælendum sínum. Af ummælum Egils hér ofar má ráða að hann hafi talið sér þetta óhætt í ljósi þess að hann deildi tilfinningum með meginþorra þjóðarinnar. En það réttlætir ekki þessa framkomu - þetta veiklyndi liggur mér við að segja. Þjóðin er fullfær um að finna sínar eigin tilfinningar - hún þarf enga sýnikennslu í því. Það sem þjóðin þarf núna eru upplýsingar og svör. Ekki tilfinnignaútrás sjónvarpsmanna í beinni útsendingu.

Hlutverk þáttastjórnanda er að greina samfélag sitt, taka á þeim málum sem hæst ber hverju sinni, kalla eftir sjónarmiðum, skoða mál í nýju samhengi og varpa ljósi á þróun viðburða.

Enginn er ég málsvari útrásarliðsins um þessar mundir - eins og lesendur þessarar síðu vita vel. En Jón Ásgeir sýndi þó þann manndóm að mæta í viðtalið og standa þar fyrir máli sínu. Hann var miður sín af bræði, en stillti sig vel. Betur en Egill. Þegar upp var staðið var Jón Ásgeir sterkari aðilinn í viðtalinu.

Hafi Egill talið málstað Jóns Ásgeirs svo slæman að það gæfi honum sjálfum þetta skotleyfi sem hann tók sér - þá má draga í efa að rétt hafi verið af honum að fá hann til viðtals. Sé það fyrirfram gefin ákvörðun þáttarstjórnanda að hlusta ekki á rök viðmælanda síns, og gefa sér fyrirfram að hann fari með ósannindi og fleipur - þá má spyrja um tilganginn með viðtali sem þessu.

Hingað til hefur það verið óskráð siðaregla upplýstrar umræðu að gefa andstæðingnum kost á að tala sínu máli með eigin orðum - og svara því svo með rökum. Agli varð hált á röksemdasvellinu - hann lét offorsið bera sig ofurliði. Það var ekki "flott".


Þreytumerki á forsætisráðherra

geirhaarde.jpg Þegar forsætisráðherra missir það út úr sér - þó út um annað munnvikið sé - að fréttamaður sé fífl og dóni ... tja ... þá er hann orðinn þreyttur, svo ekki sé meira sagt.

Ég ætla ekki að afsaka orð forsætisráðherra, en ég þykist sjá að álag undanfarinna daga sé farið að koma fram. Taugakerfið í Geir Haarde er auðvitað ekkert öðruvísi af Guði gert en taugakerfi annarra dauðlegra manna.  Álagið sem sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru undir núna er hins vegar ómælanlegt - það á sérstaklega við um forsætisráðherrann.

Ráðamenn okkar hafa ekki heyrt mörg hvatningarorð í yfirstandandi orrahríð. Menn hafa verið fundvísir á mistökin, en minna hefur verið um uppörvun. Það er svosem skiljanlegt líka, við erum öll í áfalli meira eða minna.

En við megum þó ekki gleyma því ráðherrarnir eru framvarðasveitin sem á að bjarga því sem bjargað verður. Þeir þurfa að halda hretið út. Kallinn í brúnni má ekki bila. Áhöfnin má ekki tapa áttum.

Reiði er eðlilegt viðbragð við áföllum - og hún leitar alltaf útrásar. Það er ekkert óeðlilegt við það. Þessa dagana beinist reiði margra að nafngreindum mönnum, að útrásarliðinu, ríkisstjórninni, Seðlabankastjóra, Bretum, fjármálaráðherra ...

Ráðamenn eru auðvitað líka reiðir, og eitthvert hlýtur þeirra reiði að beinast. Meðal annars að fjölmiðlafólki sem spyr óþægilegra spurninga og er kannski dónalegt í þokkabót. 

Reynum að hemja bræðina - reynum a.m.k. að beina henni í einhvern farsælan farveg. Hvetjum okkar framvarðasveit til dáða í erfiðum aðstæðum. Við höfum ekki öðru liði á að skipa - stöndum með okkar liði núna.

Að þessu sögðu vil ég þakka Geir Haarde og Björgvin G. Sigurðssyni fyrir þá yfirvegun og umhyggju sem þeir hafa sýnt þjóðinni síðustu daga.

Áfram svo - þetta kemur! 


Ávarp forsætisráðherra - álagsprófið

 strand-jon_bald Það er ekki fyrr en gefur á bátinn sem í ljós kemur úr hverju skipstjórinn er gerður - hvort hann hefur styrk og æðruleysi til þess að hvetja áhöfnina til dáða, halda henni að verki og stýra þar með fleyinu heilu í gegnum brimgarðinn.

Undanfarna daga höfum við mátt sjá forsætisráðherrann á hrakningum undan fréttamönnum, við erfiðar aðstæður - vafalítið vansvefta og kúguppgefinn, þótt ekki hafi hann látið á því bera. Enda fara erfiðir tímar í hönd - og í mörg horn að líta hjá ráðamönnum.

Á slíkum tímum skiptir máli hvernig talað er til þjóðarinnar. Þá ríður á að skipstjórinn í brúnni haldi ró og yfirvegun - að áhöfnin treysti því að hún sé í öruggum höndum, hvernig svo sem sjólagið muni leika bátinn. 

Í dag talaði Geir Haarde til þjóðar sinnar. Þetta var álagsprófið. Augnablikið sem öllu skipti. Þetta var mikilvægasta augnablikið á stjórnmálaferli Geirs H. Haarde.

Um leið var þetta þýðingarmikið augnablik í samtímastjórnmálasögu okkar Íslendinga. Á þessum andartökum réðist það hvort landinu yrði stjórnað við núverandi aðstæður. Hvort íslenskur almenningur myndi finna það traust í fasi forsætisráðherrans að fela honum með þegjandi samþykki að leiða sig í gegnum boðaföllin. 

Þetta var trúnaðaraugnablikið.

Geir Haarde stóðst prófið - með láði.

 


mbl.is Forsætisráðherra flytur ávarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband