Færsluflokkur: Heimspeki

Búsáhaldabyltingin var galdur

busahaldabyltingin.jpg Ekki alls fyrir löngu ritað Sigurður Líndal grein í Fréttablaðið um ráðherravaldið í stjórnskipan landsins. Þetta er athyglisverð grein sem full ástæða er til að halda fram. Í niðurlagi kveður hinsvegar við óvæntan tón hjá Sigurði varðandi búsáhaldabyltinguna svokölluðu. Um hana segir Sigurður:

En fátt stendur þó lýðræðinu meira fyrir þrifum en ofurvald afþreyingariðnaðarins. Áhrif hans birtast ekki sízt í firringu þannig að menn losna úr tengslum við umhverfi sitt og berast inn í sýndarveruleika. Nýjustu birtingarmyndir hennar eru pottlokaglamur undir stjórn rokkara og rappara, sem leyst hefur rökræðuna af hólmi og þá er stutt í að bareflin taki við af sleifunum. Með þessu er forsendum lýðræðisstjórnarhátta hafnað. Við þessu má bregðast með almennri upplýsingu sem stuðlað geti að gagnrýnni hugsun. 

Ég get ekki tekið undir það að búsáhaldabyltingin hafi verið sigur afþreyingariðnaðarins yfir rökhyggjunni. Sem sérfræðingur í galdramálum hef ég kynnt mér vel ýmiskonar galdra- og trúarathafnir í gegnum tíðina, form þeirra og inntak. Og satt að segja hef ég fundið samsvörun með búsáhaldabyltingunni og ýmiskonar galdraathöfnum sunnar á hnettinum, t.d. í Afríku. 

Formið er þetta: Meðlimir ættbálksins koma saman við eldinn og stíga dans undir taktfastri hrynjandi og hrópa óskir sínar eða áköll til guðanna.

Nóttina sem búsáhaldabyltingin stóð sem hæst logaði eldur í miðborginni þaðan sem takturinn barst eins og hjartsláttur út í náttmyrkrið. Þarna var sunginn mikill seiður. Þarna sameinaðist hugarorka þúsunda manna í fastri hrynjandi og ákalli um breytingar. Þessi seiður hafði áhrif.

Búsáhaldabyltingin var því engin afþreying - hún var galdur.


Kynjahlutföllin og landsbyggðin

yinogyanÞegar Samfylkingin var stofnuð árið 2000 voru kynjahlutföll jöfn í hópi þingmanna. Ég man ekki betur en að Samfylkingin hafi verið eini flokkurinn sem  þá gat státað af jöfnu kynjahlutfalli í þingliði sínu. Nú, áratug síðar, hefur sigið á verri veg. Einungis þriðjungur þingmanna flokksins nú eru konur - þær eru sex, karlarnir tólf. 

Það er þó ekki bara kynjamunurinn einn og sér sem veldur áhyggjum - heldur hitt hvernig og hvar hann kemur helst niður. Það vill nefnilega þannig til að í landsbyggðakjördæmunum þremur er engin kona í hópi þingmanna  Samfylkingarinnar.

Nú hefur stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar skorað á kjördæmisráð flokksins um land allt að tryggja jafnræði kynja í forystusætum framboðslistanna fyrir þessar alþingiskosningar. Í því sambandi er minnt á jafnréttismarkið sem ítrekað hafa verið sett á landsfundum flokksins.

Hugmyndin um fléttulista þar sem konum og körlum er raðað á víxl, jafnvel þó að atkvæðamagn segi til um annað hefur mætt ákveðinni mótspyrnu hjá þeim sem telja slíkt stríða gegn lýðræðislegu vali. Og vissulega er það skiljanlegt sjónarmið. Þeir sem tala fyrir fléttulistum benda hinsvegar á að enginn framboðslisti geti talist boðlegur nema þar sé að finna bæði karla og konur í jöfnum hlutföllum.

Sjálf hallast ég að því að finna leið sem tekur tillit til beggja sjónarmiða. Þá á ég við fléttulista þar sem sett er atkvæðalágmark. Þannig ætti kona t.d. ekki möguleika á að fara í annað sæti á eftir karlmanni nema hún hafi a.m.k. 2/3 hluta þess atkvæðamagns sem tryggði honum efra sætið. Með því móti væri jafnréttissjónarmiðum fylgt, en þó tekið tillit til atkvæðamagns. Engin(n) sem hlyti þannig sæti á fléttulista þyrfti að sitja undir því að vera þar einungis vegna kynferðis.

Þetta er nú svona til umhugsunar. 

Eitthvað þarf að gera til þess að tryggja jafnari kynjahlutföll á listum flokksins án þess að það komi niður á lýðræðislegu vali.

Gleymum því ekki að baráttan fyrir jafnrétti og kvenfrelsi er órjúfanlegur hluti jafnaðarstefnunnar.

 


Við þurfum nýja leiðarstjörnu

stjarna_ris Síðustu daga höfum við orði vitni að ómálefnalegum illdeilum og rifrildi þingmanna um fánýta hluti í sölum Alþingis þar sem meiru virðist skipta að koma höggi á pólitíska andstæðinga en bjarga landinu. Þær uppákomur eru sorglegt dæmi um það hversu lítið menn hafa lært af atburðum undangenginna mánaða, þrátt fyrir allt.

Hafi einhverntíma verið ástæða til þess að veita okkar litlu þjóð lausn frá hryllingi gærdagsins með nýrri leiðarstjörnu - þá er það nú.

Við, sem stöndum að áskoruninni um stjórnlagaþing á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is höfum af því vissar áhyggjur að bakslag sé komið í áform stjórnvalda um að verða við þessu ákalli. Í erindisbréfi því sem ráðgjafahópur ríkisstjórnarinnar fékk fyrir nokkrum dögum er lítil áhersla á stjórnlagaþing. Sömuleiðis hafa heyrst úrtöluraddir innan úr flokkunum - þar á meðal ríkisstjórnarflokkunum.

Þeir sem styðja kröfuna um stjórnlagaþing en hafa beðið átekta með að rita nafn sitt á undirskriftalistann ættu ekki að bíða lengur. 

Stefnt er að því að afhenda undirskriftirnar 6. eða 7. mars og þá skiptir máli að þær séu sannfærandi margar. Stjórnvöld verða að skilja að þjóðinni sé alvara. Krafan um boðun stjórnlagaþings er brýnni nú en nokkru sinni.

 -----------------------

  PS: Þessa fallegu mynd fann ég á síðunni www.glymur.blog.is og tók mér það bessaleyfi að birta hana hér.


Í dag tók ég þátt í Íslandsmeti, mótmælti, æfði hundinn og ... var sumsé veðurteppt

yoga_2 Ég er veðurteppt á Ísafirði og hef verið föst í þrjá daga. Hér er brjálað veður dag eftir dag og ekki flogið. Ég hef því verið fjarri góðum mannfagnaði á Austurvelli, en það var gaman að sjá fréttamyndirnar þaðan í kvöld. Stemninguna, taktinn, stuðið.

Í staðinn brá ég mér ásamt fjölmörgum Ísfirðingum í íþróttahúsið á Torfnesi til að setja Íslandsmet í jóga. Þangað mættu hátt á annað hundrað manns sem sameinuðust í einbeittu jóga í eina klukkustund. Það var endurnærandi stund.

Svo skellti ég mér ásamt fleiri mótmælendum á Silfurtorgið á Ísafirði þar sem haldnar voru fjórar ræður. Samkomunni lauk með því að allir sungu einum rómi Öxar við ána.

Síðdegis dreif ég mig svo með félaga mínum upp á Seljalandsdal að æfa hundana í snjóflóðaleit. Það var varla stætt fyrir vindi og grimmdarhagléli, en við paufuðumst þetta og kláruðum æfinguna. Annars er stórmerkilegt hvað hundarnir láta veðrið lítið á sig fá. Alltaf jafn glaðir og áhugasamir (maður gæti ýmislegt lært af þeim).

En á morgun er nýr dagur - og veðurspáin afleit fyrir Vestfirði. Woundering


Eins og nýhreinsaður hundur

yoga_2 Jæja, ég er eins og nýhreinsaður hundur eftir jóganámskeið helgarinnar. Mér skilst að nýhreinsuðum hundum líði ekkert sérlega vel . Mér er hálf ómótt eftir alla sálarhreinsunina, svo hún hlýtur að hafa verið rækileg. Wink

Annars var þetta mjög jákvæð og endurnærandi upplifun. Fimmtán klukkustundir á þremur dögum, þar af fimm jógatímar. Ég er búin að fara í gegnum sólarhyllinguna, kóbruna, ungbarnið, fiskinn og hvað þetta heitir alltsaman - að ekki sé minnst á slökunina. Er orðin svo slök að ég hangi varla uppi.

En ég finn líka að þetta hefur gert mér mjög gott. Og nú er ætlunin að halda ótrauð áfram á sömu braut.

Friður. Smile


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband