Færsluflokkur: Heimspeki

Sumrinu fagnað í snjómuggu

faninn Þeir hleyptu í herðarnar, otuðu fánastöngunum fram og héldu af stað með hálfpírð augun mót snjómuggunni - ungskátarnir sem fóru fyrir skrúðgöngunni eftir skátamessuna í morgun. Í humátt á eftir gengum við, nokkrir vetrarbúnir bæjarbúar, og fylgdum trommuslættinum um götur bæjarins.

Sumarið heilsar heldur hryssingslega hér á Ísafirði í ár. Þetta kann þó að vera góðs viti, því sumar og vetur frusu saman í nótt. Það veit á góða tíð samkvæmt þjóðtrúnni.

En þar sem ég þrammaði á eftir skrúðgöngunni í morgun kom mér til hugar þessi vísa:

Okkur lengi í ljóssins yl,
líf og yndi þyrsti,
þá í svölum sortabyl
kom sumardagur fyrsti.

Gleðilegt sumar öllsömul og takk fyrir veturinn sem er að líða. Fari hann vel með öllu því sem honum fylgdi.

Megi Harpan og sumarmánuðirnir boða okkur betri og gjöfulli tíð.


Bæjarstjórar í slorvinnu

fiskveiðarÞrír bæjarstjórar birtu grein í Morgunblaðinu fyrir skömmu. Þar hóta þeir endalokum sjávarútvegsins ef Samfylkingin fær framgengt löngu tímabærri leiðréttingu á óréttlátu kvótakerfi sem mikill meirihluti landsmanna er sammála um að þurfi að breyta.

Þetta er kerfi sem hefur með tímanum þróast yfir í leiguliðakerfi þar sem nýliðun getur ekki átt sér stað nema nýliðarnir gerist leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna. Sjálfir handhafarnir sitja að fiskveiðiheimildum sem voru gefnar útgerðunum í upphafi - sitja einráðir að sjálfri auðlindinni.

Fyrir um tvöhundruð árum lagðist af illræmt leiguliðakerfi meðal íslenskra bænda. Enginn vill taka það upp aftur. Hví ættum við að sætta okkur við ósanngjarnt leiguliðakerfi í sjávarútvegi á 21. öld?

Bæjarstjórarnir þrír, láta sem þeir séu að skrifa fyrir byggðarlögin þrjú þar sem þeir hafa verið ráðnir til starfa. Þeir saka andstæðinga kvótakerfisins um mannfyrirlitningu, gera þeim upp það viðhorf að „sjávarútvegurinn sé ekkert annað en slorvinna" í augum „elítunnar" svo notuð séu þeirra orð.

Hvaðan kemur þetta orðbragð spyr ég? Jú, það kemur frá þremur hálaunamönnum sem eiga það sameiginlegt, auk þess að vera Sjálfstæðismenn, að vinna allir þægilega innivinnu á vel innréttuðum skrifstofum. Þeir eru „elítan og "slorvinnan"  sem þeir tala um er ekki rétt lýsing á störfum fiskvinnslufólks. Það orð mætti mun frekar nota um þeirra eigin vinnuaðferðir nú rétt fyrir kosningar. 
 

Bæjarstjórarnir þrír virðast hafa gleymt hruni byggðanna undanfarna áratugi, eftir að núverandi kvótakerfi var komið á. Þeir gleyma líka úrskurði Mannréttindanefndar SÞ um kerfið brjóti mannréttindi og hindri eðlilega nýliðun.  Þeir horfast heldur ekki í augu við það að í núverandi kerfi er innbyggð sama meinsemd og sú sem olli efnahagshruninu í haust. Þá sátu menn í aftursætinu aðgerðarlausir. Það má ekki gerast aftur.

Ég er frambjóðandi fyrir þessar kosningar og verð vonandi alþingismaður að þeim loknum. Ég get ekki setið þegjandi og horft á kvótakerfið með allri sinni  leiguáþján, veð- og skuldsetningu hrynja yfir þjóðina.

Tillaga Samfylkingarinnar um árlega innköllun 5% aflaheimilda á 20 árum er sanngjörn leiðrétting á þessu óréttláta kerfi.

 

----

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag og er endurbirt hér.


Hreindýrskálfur og hús við Vatnsstíg

hreindyrskalfur_1__large_ Tvær fréttir vöktu athygli mína í sjónvarpinu í kvöld. Annars vegar þessi frétt um bréf Umhverfisstofnunar þar sem hreindýrskálfi er hótað lífláti ef fólkið sem bjargaði lífi hans á sínum tíma og tók hann til sín sækir ekki um leyfi til umhverfisráðuneytisins fyrir því að hafa hann.

Í fréttinni er haft eftir starfsmanni stofnunarinnar að "alls ekki hafi verið ætlunina að valda sárindum með bréfinu þótt skrifað hafi verið að dýrið skyldi aflífað yrði ekki sótt um leyfi fyrir því".

Það er einmitt það. Ég legg til að starfsmenn umhverfisstofnunar fari í svolitla naflaskoðun núna og velti fyrir sér þeim markmiðum stofnunarinnar sem lúta að dýravernd.

VatnsstígurSvo er það þessi frétt um hústökuna á Vatnsstíg þar sem maður horfði á lögregluna eyðileggja hús til þess að "bjarga því" úr klóm hústökufólks. Reyndar hafði hústökufólkið dyttað að húsinu og ætlað að hefja þar einhverja uppbyggilega starfsemi á meðan það væri ónotað - en það mátti alls ekki.  Eignarrétturinn þið skiljið.

Að vísu hafði húsið staðið autt í á annað ár, og verið notað af útigangsfólki án þess að nokkur kallaði til lögreglu. En sumsé - þegar komið var ungt fólk með málningardósir og heita súpu í potti, þá var tilefni til aðgerða. Og þær létu sko ekki á sér standa. Með keðjusögum og kylfum var hluti hússins bútaður í sundur til þess að sýna hústökuliðinu alvöru málsins.

Já, eignarrétturinn .... hann lætur sko ekki að sér hæða.  

Eins og fram kemur í fréttinni þá er eignarrétturinn svo heilagur, að jafnvel ónýt hús sem bíða þess að víkja fyrir nýjum, má ekki nota í uppbyggilegum tilgangi. Frekar skulu þau fá að drabbast niður sem dópgreni. Enda er hið síðarnefnda mun líklegra til þess að flýta fyrir niðurrifinu heldur en ef eitthvað uppbyggilegt á sér stað innandyra. Það er nefnilega þekkt hertækni húsa- og lóðabraskara að kaupa gömul hús á verðmætum lóðum til þess að rífa þau og byggja ný. Í sumum tilvikum er beinlínis ýtt undir það að útigangsfólk taki sér bólfestu í húsnæðinu svo betur gangi að fá samþykki fyrir niðurrifi.

Í ýmsum borgum hafa borgaryfirvöld gripið til þess ráðs að setja búsetuskyldu á hús í námunda við miðborgir, til þess að hindra atburðarás af þessu tagi. Reykjavíkurborg hefur ærna ástæðu til að hugleiða þann möguleika, því þetta er ekki eina húsið sem er að grotna niður í miðborginni.

En sumsé - tvær fréttir um það hvað lífið getur stundum verið öfugsnúið.


mbl.is Hóta að aflífa hreindýrskálf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvær ræður: Önnur með hugmóði, hin með tárum.

 Það var skeleggur stjórnmálamaður sem steig á svið á landsfundi Samfylkingarinnar í dag til þess að kveðja með reisn. Þróttur í röddinni og öryggi í fasi. Henni var fagnað lengi og innilega um leið og hún steig á svið og henni var klappað lof í lófa að lokinni ræðu. Fundargestir risu úr sætum.

Já það var stemning á setningu landsfundarins í dag. Um leið skynjuðum við öll að nú eru að verða þáttaskil. Ingibjörg Sólrún stígur nú út af sviðinu eftir langan og merkan stjórnmálaferil, oft stormasaman, einkum síðustu mánuðina.

Við keflinu tekur Jóhanna Sigurðardóttir sem óumdeildur foringi og fyrsta konan til að gegna starfi forsætisráðherra á Íslandi. Um varaformannsembættið keppa tveir efnilegir stjórnmálamenn, hvor öðrum frambærilegri. Mikið og gott mannval. mannud

Í gær hélt Ingibjörg Sólrún aðra og öðruvísi ræðu. Þá kvaddi hún konurnar í flokknum á ársþingi Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar sem haldið var á Hótel Loftleiðum. Sú ræða var ekki síður sterk en ræðan í dag, en hún sló á allt aðra strengi. Í henni var fjallað um hlutskipti og erindi kvenna í stjórnmálum; komið inn á samkennd og samstöðu - ekki síst mikilvægi þess að við konur hlúum vel hver að annarri - einkum þeim sem við sendum út á vígvöllinn fyrir okkur.

Sterk ræða í meitluðum, vel völdum orðum.

Ræða sem þrýsti fram tárum og kallaði fram faðmlög.

Ræða sem við gleymum aldrei.


mbl.is Siðrof í íslensku samfélagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver ætlar að sjá um fólkið? Endurtekin hugleiðing.

Nú eru horfnir af sjónarsviðinu brautryðjendurnir sem höfðu hugsjón og baráttuþrek til þess að vinna "Íslandi allt" eins og það var stundum orðað í ungmennafélagsræðum. Eldhugarnir fóru til starfa í stórfyrirtækjum og í "útrásir" erlendis. Samtímis fækkaði þeim stöðugt sem horfðu umhyggjuaugum á landið sitt. 

Skeytingarleysið varð að algleymi og svo hrundi bankakerfið - þar með traustið. Þegar ég var lítið barn var mér kennt að setja aurana mína í bauk. Svo fór ég með baukinn í bankann. Honum var treystandi til að geyma þá og ávaxta. Þetta var manni kennt. Það var þá.

Nú er tími landsfeðranna liðinn. Þjóðin þarf ekki áhættufúsa ofurhuga til þess að gefa sér langt nef, raka saman arði til þess að fara með hann úr landi, eða knésetja lítil byggðarlög. Æska landsins þarf ekki meiri neysluhroka eða skeytingarleysi um mannleg gildi, en orðið er. Gamla fólki þarf ekki meiri æskudýrkun eða afskiptaleysi inn í íslenskt þjóðfélag. Arðsemiskrafa og útrásir eru ekki það sem íslenskt samfélag þarf að setja í forgang að þessu sinni, svo þjóðin fái þrifist. Markaðurinn sér um sig - en hver ætlar að sjá um fólkið?

Skáletraða hlutann hér fyrir ofan fann ég á vafri mínu um bloggsíðuna mína. Þetta eru hugleiðingar frá því fyrir tveimur árum. Sannleikshlaðin orð - án þess ég hafi fyllilega gert mér grein fyrir því þegar þau voru skrifuð hversu nöturlega sönn þau voru.

Já - hver ætlar að sjá um fólkið?


Það þarf kjark til að vera jafnaðarmaður

DyrafjordurAgustAtlason Þó að stjórnvöld standi nú frammi fyrir fleiri og brýnni úrlausnarefnum en nokkru sinni fyrr er krafa dagsins einföld. Hún rúmast í einu orði: Siðbót. Þetta hógværa orð  er í reynd lausnarorðið fyrir íslenskt samfélag eins og staðan er í dag. Ef stjórnmálamenn, forsvarsmenn atvinnuveganna, þeir sem stjórna fjármála- og viðskiptalífinu, fjölmiðlamenn og almenningur bæru gæfu til nýrrar siðvæðingar í samfélaginu, þá væri eftirleikur bankahrunsins auðveldur. En siðbót kallar á kjark.

Við jafnaðarmenn eigum það sameiginlegt að vilja mannréttindi, lýðræði og sanngjarnar leikreglur. Þetta eru falleg orð, en þau hafa enga þýðingu nema hugur fylgi máli, og gjörðir orðum. Markmið jafnaðarstefnunnar er að hver maður fái notið grunngæða samfélagsins; að úthlutun gæðanna taki mið af þörfum hvers og eins.

Íslendingar hafa nú fengið óþyrmilega að kynnast því hvað gerist þegar þessi sjónarmið eru virt að vettugi. Þegar ábyrgðarleysið ræður ríkjum. Jöfnuður án ábyrgðar er óhugsandi. Þegar enginn tekur ábyrgð velferð annarra, þá er ekkert sem heitir jöfnuður. Þá ríkir græðgin ein.

Ójafnréttið í samfélaginu hefur birst okkur með ýmsum hætti. Það  birtist okkur sem aðstöðumunur landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Það kristallast í óréttlátu kvótakerfi þar sem braskað er með auðlindir þjóðarinnar. Það blasir við í skefjalausri sérhagsmunagæslu á kostnað almannahagsmuna. Það kemur fram í ójöfnum lífskjörum og misskiptingu gæða, launamun kynjanna og þannig mætti lengi telja. Það speglast í spillingu, hugsanaleti og ákvarðanafælni. Ábyrgðarleysi leiðir af sér ójafnrétti.

Samfylkingin á það erindi við íslenska þjóð að þessu sinni að hefja jafnaðarhugsjónina til vegs og virðingar á ný.  Að standa fyrir endurreisn íslensks samfélags og siðbót í íslenskum stjórnmálum. Til þess þarf kjark.

  • Það þarf kjark til að breyta íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu þannig að af hljótist réttlát skipting þeirra auðæfa sem hafið geymir.
  • Það þarf kjark til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ganga þar með inn á vettvag þjóðanna sem fullvalda, sjálfstætt ríki meðal jafningja.
  • Það þarf kjark til þess að breyta ártatuga gömlu framleiðslustjórnunarkerfi í landbúnaði, færa það til nútímahorfs og gera bændum kleift að njóta sérstöðu og sérhæfingar sem sjálfstæðir matvælaframleiðendur, svo dæmi sé tekið.
  • Það þarf kjark til þess að halda áfram uppbyggingu háskólastarfs og símenntunar; já, að veðja á menntun og mannrækt í þeim mótbyr sem framundan er.
  • Það þarf kjark til að leita sannleikans varðandi efnahagshrunið og kalla til ábyrgðar alla sem að því komu - jafnt stjórnmálamenn sem forsvarsmenn fjármálastofnana.

Síðast en ekki síst þarf kjark til að vera ábyrgur jafnaðarmaður.

 ---------------------

PS: Myndina með þessari færslu tók Ágúst G. Atlason í Önundarfirði


Óbundin til kosninga?

óbundin Gamla viðkvæðið um að flokkar gangi  "að sjálfsögðu óbundnir til kosninga" er farið að heyrast enn á ný. Ég vil taka fram að ég er því algjörlega ósammála og sé ekkert "sjálfsagt" við það að ganga óbundin til kosninga.

Sérstaklega finnst mér að Samfylkingin eigi ekki að veifa þessu viðkvæði núna. Eftir allt sem gerst hefur undanfarna mánuði - og þann mikla trúnaðarbrest sem orðinn er milli þings og þjóðar - er það minnsta sem við frambjóðendur getum gert fyrir kjósendur í landinu að segja þeim hug okkar til stjórnarmynsturs eftir kosningar.

Ég vil meira að segja ganga lengra: Mér finnst að Samfylkingin og VG eigi að lýsa yfir vilja til áframhaldandi samstarfs og birta fyrir kosningar drög að málefnasamningi þessara tveggja flokka sem þau vilja vinna með eftir kosningar. Ég vil með öðrum orðum að fólk fái að vita hvað þessir flokkar hyggjast fyrir. Já, að fólk geti kosið um stjórnarmynstur. 

Venjan hefur verið sú að fólk á þess kost að kjósa flokka, en ekki ríkisstjórnir. Þess vegna veit fólk aldrei hvað það er að kjósa yfir sig. En þessi venja þarf ekki að vera neitt lögmál. Þetta er bara spurning um að vera heiðarlegur og hreinskiptinn gagnvart kjósendum.

Kallið mig barnalega - allt í lagi. En klækjapólitík er ekki það sem fólk hefur áhuga fyrir um þessar mundir. Almenningur vill heiðarleika og hreinar línur. Almenningur á rétt á því að vita hug flokkanna til stjórnarmynsturs eftir kosningar.

 


Ingibjörg Sólrún og hennar framlag

ISGAlþjóðlegur baráttudagur kvenna var í gær. Dagurinn færði íslenskum konum góða uppskeru í prófkjörum helgarinnar. Það skyggði þó á gleðina að þann sama dag ákvað einn atkvæðamesti kvenskörungur í íslenskum stjórnmálum, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, að kveðja þann vettvang um óákveðinn tíma.

Fáir stjórnmálamenn - ef nokkur - hafa lagt meira af mörkum til íslenskrar kvennabaráttu en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Fyrir það verðskuldar hún þakklæti kvenna um land allt. Sem borgarstjóri kom hún miklum umbótum til leiðar í stjórnkerfi borgarinnar. Þær breytingar leiddu til nútímalegri stjórnsýslu með minni launamun milli kynjanna svo dæmi sé tekið. Hún leiddi málefni barnafólks í borginni til mun betri vegar með leikskólabyltingunni sem svo hefur verið nefnd og einsetningu skólanna.

Sem stjórnmálaforingi hefur Ingibjörg Sólrún sýnt fádæma dugnað og fórnfýsi.

Fyrr í dag samþykkti stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar ályktun þar sem Ingibjörgu Sólrúnu er þakkað hennar merka framlag til íslenskra stjórnmála og samfélagsumbóta.

Hún er vel að þeim þökkum komin.

 


Prófkjörið stendur yfir!

Prófkjör Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi hófst með rafrænni kosningu í gær og stendur til kl. 16 á sunnudag. Allar nánari upplýsingar eru á kosningasíðu kjördæmisins http://www.xsnv.blog.is/ eða á heimasíðu Samfylkingarinnar, http://www.samfylking.is/

Ég gef ótrauð kost á mér í annað tveggja forystusæta flokksins.

Mín helstu baráttumál eru þessi:

  • Ég hef ríkan skilning á hlutskipti fjölskyldna og vil beita mér í þeirra þágu.
  • Ég tel brýnt að innleiða lýðræðisumbætur og stjórnlagaþing
  • Ég vil ábyrga stjórnsýslu svo stofnanir fái sinnt lögbundnu hlutverki án inngripa stjórnmála- eða hagsmunaafla.
  • Hlut landsbyggðar gagnvart höfuðborginni þarf að rétta með fjölbreyttum menntunarkostum, bættum samgöngum og fjarskiptatækni
  • Auðlindir lands og sjávar eiga að vera þjóðareign en ekki markaðsvara fyrir útvalda.
  • Íslendingar eiga að hafa samstarf og vera í samfélagi við aðrar þjóðir
  • Íslenskan landbúnað þarf að frelsa undan áratugagömlu miðstýrðu framleiðslustjórnunarkerfi.
  • Auka þarf möguleika bænda til þess að sinna sjálfstæðri matvælaframleiðslu og tengja hana ferðaþjónustu.
  • Brýnast tel ég þó að verja lífskjör almennings á þeim tímum sem við nú lifum. Ég vil að byrðarnar verði lagðar á breiðustu bökin en hinum hlíft.

Velferðarsjónarmið og jafnaðarstefna eru aldrei mikilvægari en á krepputímum.

 


Nú reynir á grunngildin

Skagafjörður Fyrir hálfri annarri öld flykktust Íslendingar hópum saman til Vesturheims undan harðindum og atvinnuleysi. Bændur flosnuðu frá búi og ungu fólki reyndist erfitt að fá jarðnæði. Sú atvinna sem bauðst við sjósókn eða vinnumennsku var árstíðabundin og stopul. Fjölmargir freistuðu því gæfunnar í Vesturheimi þar sem tækifærin biðu í hillingum og og margir náðu sem betur fer að skapa sér nýja fótfestu og framtíð.

Einn þeirra sem steig á skipsfjöl og sigldi mót óráðinni framtíð var skagfirskur, piltur, Stefán Guðmundur Guðmundsson, síðar þekktur sem Stephan G. Stephansson, Klettafjallaskáldið sem síðar orti:

Þitt er menntað afl og önd
eigirðu fram að bjóða
hvassan skilning, haga hönd
og hjartað sanna og góða.

Í þessum fjórum línum birtast þau grunngildi sem kynslóðir Íslendinga hafa tekið sér til fyrirmyndar öld fram af öld, allar götur þar til útrásin hófst og hitasótt frjálshyggjunnar náði að smita og gegnsýra allt okkar litla samfélag. Þegar efnahagur þjóðarinnar hrundi og sápukúlan sprakk í október síðastliðnum rann það upp fyrir okkur að það var ekki aðeins fjárhagur þjóðarinnar sem hafði beðið skipbrot - siðferðisgildin voru líka hrunin.

Um þessar mundir er dauft yfir íslenskum byggðum og ,,hnípin þjóð í vanda" líkt og þegar skagfirskur piltur steig á skipsfjöl og stefndi í vestur fyrir 140 árum. Hann hafði sín grunngildi á hreinu. Þau gildi hafa beðið alvarlega hnekki meðal núlifandi kynslóða.

Það er því núna sem reynir á íslenska jafnaðarmenn.

 

----

Myndin hér fyrir ofan er af sólsetri í Skagafirði - ég fékk hana á heimasíðu Ungmennafélags Skagafjarðar. Höfundar er ekki getið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband