Búsáhaldabyltingin var galdur

busahaldabyltingin.jpg Ekki alls fyrir löngu ritað Sigurður Líndal grein í Fréttablaðið um ráðherravaldið í stjórnskipan landsins. Þetta er athyglisverð grein sem full ástæða er til að halda fram. Í niðurlagi kveður hinsvegar við óvæntan tón hjá Sigurði varðandi búsáhaldabyltinguna svokölluðu. Um hana segir Sigurður:

En fátt stendur þó lýðræðinu meira fyrir þrifum en ofurvald afþreyingariðnaðarins. Áhrif hans birtast ekki sízt í firringu þannig að menn losna úr tengslum við umhverfi sitt og berast inn í sýndarveruleika. Nýjustu birtingarmyndir hennar eru pottlokaglamur undir stjórn rokkara og rappara, sem leyst hefur rökræðuna af hólmi og þá er stutt í að bareflin taki við af sleifunum. Með þessu er forsendum lýðræðisstjórnarhátta hafnað. Við þessu má bregðast með almennri upplýsingu sem stuðlað geti að gagnrýnni hugsun. 

Ég get ekki tekið undir það að búsáhaldabyltingin hafi verið sigur afþreyingariðnaðarins yfir rökhyggjunni. Sem sérfræðingur í galdramálum hef ég kynnt mér vel ýmiskonar galdra- og trúarathafnir í gegnum tíðina, form þeirra og inntak. Og satt að segja hef ég fundið samsvörun með búsáhaldabyltingunni og ýmiskonar galdraathöfnum sunnar á hnettinum, t.d. í Afríku. 

Formið er þetta: Meðlimir ættbálksins koma saman við eldinn og stíga dans undir taktfastri hrynjandi og hrópa óskir sínar eða áköll til guðanna.

Nóttina sem búsáhaldabyltingin stóð sem hæst logaði eldur í miðborginni þaðan sem takturinn barst eins og hjartsláttur út í náttmyrkrið. Þarna var sunginn mikill seiður. Þarna sameinaðist hugarorka þúsunda manna í fastri hrynjandi og ákalli um breytingar. Þessi seiður hafði áhrif.

Búsáhaldabyltingin var því engin afþreying - hún var galdur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Já, hún var mögnuð, nú megum við ekki gleyma okkur heldur halda áfram og sinna kalli tímans.

Arinbjörn Kúld, 19.2.2009 kl. 13:04

2 Smámynd: María Richter

Reyndar afneituðu forsprakkar búsáhaldabyltingarinnar, bálum næturinnar við Alþingishúsið.

María Richter, 19.2.2009 kl. 13:11

3 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Það má vera María - en breytir því ekki að það sem þarna gerðist var töfrum líkast. Kannski einmitt vegna þess að það var ekki hannað fyrirfram, það bara gerðist, þegar fólkið var komið saman. Atburðarásin fékk einhvern veginn sjálfstætt líf.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.2.2009 kl. 14:09

4 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Já þú meinar, en hvað sem er að gerast á landinu okkar þá er það stórkostlegt og ég fagna því mjög hvað grasrótin er virk núna. Hún fór aðeins á hold eftir stjórnarskiptin en er aftur komin á play sem er fínt

Allar mínar færslur enda svona nú um stundir !!

Nýtt lýðveldi  - skrifa undir áskorun  HÉR 

Hólmfríður Bjarnadóttir, 19.2.2009 kl. 16:27

5 Smámynd: Villi Asgeirsson

Er það ekki einmitt afþreyingin sem leyfði landinu að sigla í strand. Fólk var of upptekið við það hver yrði næsta stjarna, hver hefði notað botox, hver svæfi hjá hverjum og hver ætti flottasta bílinn? Fólk var svo dáleitt af afþreyingunni að það sá ekki hvað var að gerast í kring um það.

Sem betur fer erum við vöknuð, þótt seint sé.

Villi Asgeirsson, 19.2.2009 kl. 21:02

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mælt þú manna heilust Ólína mín.  Þarna hafa landsvættirnir vaknað og vonandi vaka yfir okkur ennþá, því oft var þörf en nú er nauðsyn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.2.2009 kl. 21:43

7 Smámynd: Hlédís

Sammála um galdurinn, Ólína!   Íhalds-taktar eru þetta hjá kallinum - svona þó skynugum manni!

Gangi þér vel!

Hlédís, 19.2.2009 kl. 23:59

8 Smámynd: Hjalti Tómasson

Mér finnst þessi útlistun Sigurðar einkennileg í ljósi þess sem hann ritar framar í greininni.

Svona bregst lýðræðið nefnilega við þegar búið er að svipta lýðinn nánast öllum möguleikum til að hafa bein áhrif. Hann ætti kannski að benda okkur á hvaða viðbrögð væru eðlilegri.

Ráðamenn víða um heim hafa rekið sig illilega á þegar fólk fær nóg og þau mótmæli hafa ekki alltaf haft á sér þann brag sem hér er nú um mundir. Blóðsúthellingar og stórkostleg skemmdarverk hafa oftar en ekki verið einkenni slíkra mótmæla og þarf ekki nema líta á nýleg dæmi frá Frakklandi því til stuðnings. Að gera mótmælin á Austurvelli tortryggileg með þessum hætti virðist mér sýna að Sigurður Líndal þekkir ekki þjóð sína frekar en margir aðrir mennta og stjórnmálamenn. Mótmæli eru eðlilegur fylgifiskur lýðræðisins og sýnir að lýðræðið er virkt, þrátt fyrir tilraunir valdamanna til að gera það að sinni eign.

Við lifum þó enn við það frelsi að mega mótmæla og þó við gerum það með pottum og pönnum eða trommusettum og gíturum þá sýnir það hreint ekki skort á rökvísi eða gagnrýnni hugsun heldur fremur hugmyndaflug og jákvæða afstöðu sem þrátt fyrir allt er grunnþáttur í íslenskri þjóðarsál.

Hjalti Tómasson, 20.2.2009 kl. 09:04

9 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Sýndarveruleiki Ólína, ja, það er nú það. Á hann ekki upphaf sitt að rekja til þeirrar studnar, þegar veiðimaður skreytti sig fyrst með horni bráðar sinnar. Auðvitað var búaáhaldabyltingin að hluta til sýndarveruleiki; það eru öll stjórnmál. Nú, þegar þú ferð í framboð munu birtast myndir af þér í hinum og þessum auglýsingum. Þú verður púðruð og máluð samkvæmt kúnstarinnar reglum, áður en þær myndir verða teknar. Og vei þeim frambjóðenda, sem lætur sjá sig á almannafæri án „viðeigandi" klæðnaðar. Þetta er hluti af sýndarveruleika stjórnmálanna.

Pjetur Hafstein Lárusson, 20.2.2009 kl. 09:55

10 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Pétur minn - ég er alltaf púðruð og máluð samkvæmt kúnstarinnar reglum.  Hef verið það frá fjórtán ára aldri.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 20.2.2009 kl. 10:03

11 Smámynd: Hlédís

Veruleikinn er skrýtinn skepna sem tekur langan tíma að skilgreina. Efast um að ævin nægi til þess. Búsáhöld eru hluti hversdags-veruleika flestra. Háfleygt !?

Hlédís, 20.2.2009 kl. 10:14

12 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Þú mátt ekki taka þessu persónulega Ólína Mín, en er það nú alveg víst, að langpúðrar nef andi ferskari blæ út í samfélagið en það nef, sem skemmra er á leið komið í púðurlistinni?

Pjetur Hafstein Lárusson, 20.2.2009 kl. 11:16

13 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ekki get ég dæmt um það Pjetur minn - hallast helst að því að hinn ferski samfélagsblær hafi lítið með nefpúður að gera.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 20.2.2009 kl. 11:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband