Færsluflokkur: Heimspeki

Klisjukennd mynd um undarlegt fólk undir jökli

snaefellsjokullFór að sjá tvær myndir á kvikmyndahátíðinni í Háskólabíói í kvöld. Stuttmyndina Melt (Bráðnun) sem er sannkallað listaverk, myndatakan, tónlistin og hugmyndin. Falleg og sterk upplifun.

Seinni myndin var ekki jafn heilsteypt: Dularmögn Snæfellsjökuls eftir franskan höfund - hvers nafn ég ekki man. 

Myndin er klisjukennt safn af frásögnum fólks um dularreynslu sína í námunda við jökulinn. Hún er tekin í þoku. Jökullinn sjálfur sést aldrei nema sem málverk, teikning eða ljósmynd, og því augljóst að kvikmyndagerðarmennirnir hafa ekki tafið lengi á Snæfellsnesinu - a.m.k. ekki nógu lengi til þess að jökullinn hreinsaði af sér.  Inn á milli frásagna af orku jökulsins og huldum vættum hans voru leikin undarlega uppstillt tónlistaratriði sem áttu að magna upp einhverja tilfinningu fyrir menningarrótum þessarar furðulegu þjóðar sem myndin sýndi - en stungu í stúf við allt annað. 

Útlendingar sem sjá þessa mynd sannfærast um að Íslendingar séu stórundarlegt fólk sem sjái huldar vættir í stokkum og steinum, trúi staðfastlega á geimverur, og syngi framandlega fimmundarsöngva í tíma og ótíma, gjarnan íklætt síðum kuflum með ennisband um höfuð, berjandi skinntrommur í flæðarmáli eða inni í helli, milli þess sem þeir undirbúa heimsóknir geimvera eða knýja á kletta og steina í von um að upp lokið verði fyrir þeim.  

Þið vitið ... klisjan sem Björk blessunin innleiddi hér um árið, án þess að ég vilji nú hnýta í þá ágætu konu ... klisjan sem fer í mínar fínust þjóðfræðitaugar, en ég átta mig líka á að þýðir lítið að rökræða við útlendinga, svo innprentuð er þessi ímynd orðin í hugarþel þeirra sem koma hingað til að leita að séríslenskum einkennum.
Blogga kannski meira um þessa brengluðu þjóðarímynd síðar .... og þá í öðru samhengi.


Nýja Ísland - kemur þú?

world_trade_center_epa Þegar tvítyrni  heimsviðskiptahallarinnar í New York hrundi til grunna þann 11. september 2001 gaus upp  kæfandi mökkur sem varð fjölda manns að fjörtjóni. Björgunarsveitir höfðu sumar hverjar orðið of skjótar á vettvang,  með þeim skelfilegu afleiðingum að fjöldi slökkviliðs- og björgunarmanna lét lífið þegar byggingarnar jöfnuðust við jörðu. Dágóður tími leið áður en rofaði til og menn gátu metið afleiðingar þess sem gerst hafði.

Við hrun íslensku bankanna í október 2008 þyrlaðist líka upp þykkur mökkur. Almenningur hafði enga grein gert sér fyrir því  hve hættulega háir turnar höfðu verið reistir á íslenskum fjármálamarkaði fram að því. En óbærilegur mökkurinn sem fylgdi hruninu segir sína sögu um skefjalausa viðskiptahætti, ábyrgðarleysi og hóflausa græðgi. Og sú saga varðar ekki einungis fjármálafíflin sem steyptu okkur því sem næst í glötun. Nei, hún fjallar líka um öll hin fíflin, sem eltu skinið af glópagullinu eins og vanvita börn. Fjölmiðlana sem góndu hrifnir upp í fjármálaspekúlantana, flöttu myndirnar af þeim á forsíður tímaritanna, kusu þá viðskiptasnillinga og frumkvöðla ársins á meðan þeir frömdu samsæri sitt gegn þjóðinni. Stjórnmálamenn okkar - jafnvel forsetinn - fylgdu þeim eins og skugginn í erlendar viðskipta- og kynningarferðir, studdu við „íslensku útrásina" og fluttu um hana loðmullulegar lofræður við glasaglaum og ljósleiftur á blaðamannafundum. Almenningur horfði á í aðdáun og hrifningu.

Þjóðarskömmin

Nú situr óbragðið eftir - skömmin.  Það er þjóðarskömm. Við finnum öll til hennar ... öll, nema kannski þeir sem enn neita að horfast í augu við ábyrgð sína á því sem gerðist. Það gæti til dæmis átt við um þá þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem flestir sátu hjá við afgreiðslu þingsins á ríkisábyrgð vegna Icesave samninganna. Flokkurinn sem ber höfuð ábyrgð á hugmyndafræði Hrunadansins, flokkurinn sem innleiddi þá taumlausu frjálshyggju sem dansað var eftir, hann „sat hjá" þegar tekist var á við afleiðingarnar. Skilaði auðu. Það var átakanlegt að sjá.

Verður Ísland nokkurn tíma samt aftur?  Vonandi ekki.  Sannleikurinn er sá, að það Ísland sem við kvöddum í október 2008 var ekki gott í gegn. Þó að allt liti vel út á yfirborðinu, hagtölur sýndu almenna velmegun, landið mældist meðal tíu efnuðustu þjóða heims (jafnvel ein hamingjusamasta þjóð í heimi) og ríkissjóður væri orðinn nokkurn veginn skuldlaus, þá voru innviðirnir ekki í lagi.

Fjármálakerfið var ofþanið,  neyslan óhófleg, skuldasöfnunin úr böndum - ekki síst í undirstöðuatvinnuvegi okkar, sjávarútveginum. En verst var þó að siðferðisþrek þjóðarinnar hafði látið undan síga. Um það vitna upplýsingar sem nú eru að koma í ljós um umfang skattsvika og svarta atvinnustarfsemi, hagsmunagæslu og krosseignatengsl í viðskiptalífinu, getuleysi eftirlitsstofnana og gáleysi stjórnvalda.

Já, stjórnvöld brugðust hlutverki sínu. Þau gleymdu sér við hrævareldana og uggðu ekki að sér. Í stað þess að safna í kornhlöðurnar til mögru áranna var slegið slöku við aðdrættina. Á góðæristímanum 1993-2007 var farið í skattalækkanir sem komu sér vel fyrir þá tekjuháu á meðan hlutfallslegar byrðar jukust á þá tekjulágu. Hinu mikilvæga jöfnunarhlutverki skattkerfisins var raskað og tekjulindin rýrð. Lætur nærri að ef skattalækkanir áranna 2003-2007 yrðu framreiknaðar á núvirði, hefðu þær náð langt með að greiða niður halla ríkissjóðs á þessu ári. En því er nú ekki að heilsa. Kornhlöðurnar eru galtómar, og fátt um aðföng.

Í hverju felast átökin?

Af þeirri óvægnu umræðu sem verið hefur í samfélaginu undanfarna mánuði mætti stundum ætla að þau stjórnvöld sem nú sitja hafi hætt sér of snemma inn á björgunarvettvanginn. Að minnsta kosti er enginn hörgull á fúkyrðum og úrtölum þeirra sem telja sig geta verið áhorfendur að björgunarstarfinu og hvorki þora né vilja leggja því lið. En endurreisn samfélags getur ekki orðið nema með þátttöku allra. Þá á ég annars vegar við atvinnuvegina, stéttarfélögin, stjórnvöld og almenning - hins vegar þá sem ráðandi eru í opinberri umræðu, þ.e. fjölmiðlana, fræðasamfélagið og stjórnmálamenn.

Okkar bíður mikið starf. Meinsemdir þær sem ollu bankahruninu eru margar hverjar enn til staðar í íslensku samfélagi, og það mun sjálfsagt taka ár og áratugi að vinna á þeim bug. Við sjáum þær

  • í ósanngjörnu kvótakerfi;
  • í þvermóðsku fjármálastofnana við að veita stjórnvöldum upplýsingar vegna rannsóknar á hruninu;
  • á fáránlegum kröfum stjórnenda fjármálafyrirtækja um svimandi háar bónus greiðslur;
  • í afskriftum hárra skulda gagnvart útvöldum á meðan fjölskyldur eru að bugast og menn að brotna undan skuldabyrði;
  • í upplýsingum um umfang skattsvika og misnotkun opinberra bóta.
  • Síðast en ekki síst sjáum við meinsemdirnar í afneitun og afstöðuleysi þeirra sem stærsta ábyrgð bera á hruninu og hugmyndastefnu þess.

Nei, gleymum ekki á hvaða vettvangi við erum, íslensk þjóð. Við erum stödd í þrotabúi  þeirrar skefjalausu frjálshyggju sem reið hér húsum. Og meinsemdirnar sem ollu hruninu eru flestar enn til staðar.

Átökin í íslenskum stjórnmálum næstu misserin munu m.a. snúast um það hvernig gert verður upp við fortíðina, og þá hugmyndafræði sem leiddi okkur í núverandi stöðu. Þau munu snúast um það

  • hvaða aðferðum verði beitt við uppgjörið vegna bankahrunsins;
  • hvaða aðferðum verði beitt við endurreisn efnahagskerfisins og hvort takast megi að verja grunnþætti velferðarkerfisins, mikilvæga almannahagsmuni, auðlindir o.s. frv.;
  • hvort gerðar verða nauðsynlegar leiðréttingar á óréttlátu kvótakerfi;
  • hvort leikreglur viðskiptalífsins verða endurhannaðar;
  • hvort komið verður hér á nauðsynlegum lýðræðisumbótum;
  • hvort siðbót muni eiga sér stað í íslenskum stjórnmálum og viðskiptalífi;
  • já, hvort spilin verða stokkuð upp og hvernig gefið verður upp á nýtt.

Átök komandi missera í íslenskum stjórnmálum munu snúast um það hvort eitthvert uppgjör muni eiga sér stað yfirleitt.

Gleymum því ekki að það eru sterk öfl að verki í íslensku samfélagi sem vilja ekkert við ábyrgð sína kannast, og vilja því ekkert endurmat og engin skuldaskil.

----------------------

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu í dag.


Laufið titrar, loga strá ...

haustlaufÉg elska haustið - það er minn tími. Þá fyllist ég einhverri þörf fyrir að fylla búrið og frystikistuna, gera sultu og endurskipuleggja híbýlin.

Á haustin færist hitinn úr andrúmsloftinu yfir á litina sem við sjáum í lynginu og á trjánum - síðustu daga hafa fjallshlíðarnar logað í haustlitum umhverfis Ísafjörð.

Þetta er fallegur tími, þó hann sé alltaf blandinn einhverri angurværð. Sumarið liðið, fuglarnir horfnir, og svona. En litadýrðin vegur sannarlega upp á móti.

Einhverntíma gerði ég þessa vísu á fallegu haustkvöldi:

Laufið titrar, loga strá
lyngs á rjóðum armi.
Hneigir sólin höfga brá
að hafsins gyllta barmi.

 


Klisjan um kvendyggðina

Valkyrja_by_perkanÍ Sigurdrífumálum Eddukvæða er sagt frá því þegar Sigurður Fáfnisbani reið á Hindarfjall og vakti upp af dásvefni valkyrjuna Sigurdrífu, sem lá þar í skjaldborg sinni, umlukin vafurloga. Hún hafði hjálm á höfði, íklædd brynju  sem var svo rammgerð að Fáfnisbaninn þurfti að rista hana af með sverði sínu. Við það brá hún sínum langa svefni, reis upp af beði og heilsaði degi:

Heilir æsir.
Heilar ásynjur.
Heil sjá hin fjölnýta fold.
Mál og manvit
gefið okkur mærum tveim
og læknishendur meðan lifum.

Síðan setjast þau tvö, valkyrjan og hetjan. Hún kennir honum rúnir þær sem ráða þarf til sigurs, lækninga, lífsnautna og gæsku. Að lokum biður hann hana um holl ráð sem hún leggur honum í lokaþætti kvæðisins og ráðleggur honum þar að sýna baráttuhug og þegja ekki við mótgerðum.

Sjálf er Sigurdrífa brynjuð herklæðum, varin inni í skjaldborg, umlukin vafurloga. Þær eru því margar hindranirnar sem Fáfnisbaninn þarf að yfirstíga til þess að eiga samneyti við valkyrjuna. Maður hefði haldið að fyrir innan allar þessar varnir myndi hann kannski komast í tæri við hin helgu vé kvenleikans - eitthvað viðkvæmt og mjúkt, huggandi, vaggandi og blítt - það hefði a.m.k. verið í anda klisjunnar um kvenleikann. En hvað finnur Sigurður? Stolta bardagahvöt, hugmóð og vitræn rök.

Það er athyglisvert að sjá þarna, í fornu kvæði, hermannlega hugmyndafræði flutta fram af konu sem leggur hetjunni lífsreglurnar. Hún varar hann beinlínis við þeim konum sem "sitja brautu nær" og "deyfa sverð og sefa." Hetjan á að berjast - hún á ekki að láta bifast af úrtölum og gráti kvenna. Um leið biður hún guðina um "mál og manvit"  handa þeim tveim sem þarna sitja "og læknishendur meðan lifum".

Hver er eiginlega Sigurdrífa? Fyrir hvað stendur hún og hver væri hennar samnefnari í samtímanum?

Sigurdrífa er í senn hermaðurinn og læknirinn, stjórnmálaskörungurinn, stjórnandinn, hugsjónakonan. Henni hugnast illa ákveðnir þættir í fari kvenna, sjálf er hún þó samnefnari fyrir allt sem kvenlegt getur talist í fornum sið. Hún býr yfir þekkingu völvunnar og kynngi valkyrjunnar sem hún helgar lífi og lækningu. Hún er líka kennari, sérfræðingur, ráðgjafi.

Sigurdrífa kemur oft upp í huga minn þegar ég þarf að hlusta á margtuggnar klisjur um konur, eðli þeirra og einkenni. Ætli Sigurdrífa hefði komið sér vel á kvennavinnustað? Hvernig hefði hún rekist í stjórnmálaflokki eða í samstarfi við aðrar konur?

Klisjurnar um kveneðlið er víðar að finna en í hugmyndafræði og orðræðu karla. Þær eru oft rauður þráður í gegnum orðræðu kvenna, ekki síst þeirra sem kenna sig við kvennabaráttu og kvenréttindi. "Konur eiga að standa saman" heyrist oft sagt, "konur með konum" og annað í þeim dúr. Sjálf er ég marg sek um klisjur af þessu tagi. En það er að renna upp fyrir mér að  slíkar tilætlanir eru hreint ekkert skárri heldur en tuggurnar um að "konur séu konum verstar" og að "köld séu kvennaráð".

superwomanEin er sú klisja sem tröllriðið hefur kynjaumræðunni undanfarin ár, og það er klisjan um hina "kvenlegu stjórnunarhætti" -- en það hugtak ber að skilja sem "góða stjórnunarhætti". Í hugtakinu felst krafa um valddreifingu, en ekki endilega um dreifingu ábyrgðar, því stjórnandinn verður jú alltaf að standa klár á ábyrgð sinni og þar með mistökum annarra starfsmanna. Krafan felur það eiginlega í sér að kvenstjórnandi sé vinkona, ráðgjafi, móðir og þjónn, allt í senn og með þessum meðulum er ætlast til þess að hún ái árangri.

Sjálf hef ég aldrei verið aðnjótandi nokkurs sem kalla mætti kvenlega stjórnunarhætti, og hef ég þó oft unnið með og undir forystu kvenna. Ég hef bara kynnst góðum eða lélegum stjórnendum á mínum ferli.

En hví skyldi það eiga að vera dyggð að vera kona? Hvers vegna erum við konur svona kröfuharðar við sjálfar okkur, og hver við aðra að ætlast til þess að við séum alltaf í einhverju alltumlykjandi móður- og systurhlutverki gagnvart öllu og öllum, sérstaklega öðrum konum? Ekki voru þær það fornkonurnar, gyðjurnar, völvurnar, læknarnir og húsfreyjurnar sem við lesum um í fornbókmenntum. Þær sögðu fyrir um veðurfar og forlög, höfðu búsforráð á bæjum, hvöttu eiginmenn, bræður og syni til dáða og læknuðu svo mein þeirra að orrustu lokinni. Það var ekki þeirra hlutverk að "deyfa sverð og sefa" hvorki í vörn né sókn - eða koma sér vel við aðrar konur. Nei, þær áttu ekki að koma sér vel, heldur reynast vel.

Kvenpersónur fornsagnanna voru til á eigin forsendum "máls og manvits", eins og Sigurdrífa er hún heilsaði degi og goðheimi öllum á Hindarfjallinu forðum.


Gleði og stolt

GayPrideRoses "Alltaf grunaði mig þetta!" sagði hann við mig sigri hrósandi gamall samverkamaður sem ég hitti á miðjum Laugaveginum í dag. Ég gekk þar í humátt á eftir Gleðigöngunni og hafði valið að fara á eftir fánanum sem á stóð  "stoltar fjölskyldur".

"Þú ert auðvitað ein af þeim" sagði hann og klappaði á öxl mína skælbrosandi.  

 "Ég er stoltur aðstandandi eins og aðrir hér" svaraði ég umhugsunarlaust og áttaði mig ekki strax á því hvað maðurinn var að fara.

En þegar ég sá brosið hverfa eins og dögg fyrir sólu fyrir örvæntingarfullum vandræðasvip - þá varð ég að stilla mig um að skella ekki upp úr. 

"Takk fyrir komplímentið" sagði ég með blíðu blikki þegar ég sá hvað maðurinn var miður sín. Svo hélt ég mína leið. Hann stóð orðlaus eftir undir ásakandi augnaráði eiginkonunnar sem var við hlið hans. Þessi skondna uppákoma var einhvernvegin eins og atriði úr danska myndaflokknum Klovnen - án þess að ég geti skýrt það nánar (mér er enn skemmt þegar ég hugsa um þetta).

Annars var gríðarleg stemning í bænum og mikill mannfjöldi. Ég hafði mælt mér mót við vini mína á horni Barónstígs þar sem við horfðum á litríka gönguna nálgast og slógumst svo í hópinn þegar vörubílarnir  með skemmtiatriðunum voru farnir framhjá. Hvarvetna var fólk með litríkar blómfestar um háls og marglita fána. Á Arnarhóli var þjóðhátíðarstemning - einhver þægileg blanda af rólegheitum og stuði.

Aðstandendur göngunnar hafa sannarlega ástæðu til að vera bæði  glaðir og stoltir í dag.


mbl.is „Stærsta gangan til þessa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og kannski meira í vændum?

solstafir Ég var víðsfjarri jarðskjálftanum sem reið yfir í gærkvöld, sem betur fer, enda í mér beygur við jarðskjálfta frá barnæsku. Ég gat þó ekki varist því að hugsa til Láru nokkurrar Ólafsdóttur sem spáði jarðskjálfta þann 27. júlí. Hún var auðvitað höfð að háði og spotti strax daginn eftir, þegar enginn kom skjálftinn. Við Íslendingar erum hvatvíst fólk eins og dæmin sanna.

Nú hafa fréttmenn haft samband við Láru á ný, og ekki batnar það: Hún segir enn stærri viðburði í aðsigi.

Ég skal játa, að ég var ekkert sérlega hissa á því að þessi skjálfti skyldi koma svo skömmu eftir spádóm sjáandans. Eins og aðrir Íslendingar er ég höll undir það að fleira sé milli himins og jarðar en augað greinir og vísindind fá skilgreint.

Við Íslendingar erum náttúrutengt og næmt fólk. Berdreymi er til dæmis viðurkenndur hæfileiki og trúlega kannast allir við einhvern í sinni fjölskyldu sem hefur slíkt næmi að geta séð aðeins lengra nefi sínu.

Jamm ... nú sjáum við hvað setur.


mbl.is Snarpur jarðskjálfti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítill fugl í vanda

mariuerla170606_9 Maríuerlan í garðinum mínum komst í hann krappan í morgun. Þegar mér varð litið út um eldhúsgluggann sá ég hvar hún var komin inn fyrir öryggisnetið í trampólíninu í næsta garði. Þarna flögraði hún ráðvillt um fyrir innan netið og lengi vel leit út fyrir að hún fyndi enga leið úr prísundinni. 

Ég fylgdist með henni góða stund og furðaði mig á hátterni hennar, því í rauninni átti hún greiða leið í frelsið.

Hvað eftir annað tókst henni - þó með erfiðismunum væri - að fljúga upp á bandið sem hélt netinu uppi. Þaðan hefði hún auðveldlega getað flogið út í garðinn. En ... nei, hún var svo örvingluð orðin að aftur og aftur hoppaði hún niður röngu megin við netið, föst í sínu sjálfskipaða fangelsi, og þar upphófst sama baksið á ný.

Ég var að því komin að hlaupa út til að blanda mér í þetta þegar hún skyndilega rambaði fram á litla rifu á netinu niðri við dýnuna. Og án þess að hún eiginlega stjórnaði því sjálf, þá stóð hún allt í einu í þessu litla gati, og viti menn ... hún hoppað út í grasið, frjáls úr prísundinni.

Ekki veit ég hvernig á því stóð, en þar sem ég virti fyrir mér atganginn innan við netið, varð mér hugsað til stöðu okkar Íslendinga í samfélagi þjóðanna þessa dagana.

Og nú læt ég lesendum eftir að leggja út af sögunni.


Ekki hitti ég Dalai Lama

dalai_lama1 Mér brá heldur betur í brún þegar ég heyrði í útvarpinu um helgina að enginn alþingismaður hefði "séð ástæðu" til þess að þekkjast boð um að eiga fund með Dalai Lama. Var helst að skilja á fréttinni að okkur hefði öllum verið sent bréf með boði um að hitta trúarleiðtogann að máli.

Og ég sem hafði öfundað þá þingmenn sem sitja í forsætisnefnd og utanríkisnefnd Alþingis af því að fá að hitta Dalai Lama - átti ég þess svo kost eftir alltsaman?

Nei - að sjálfsögðu ekki. Hvorki mér né neinum öðrum óbreyttum alþingismanni var gefinn kostur á að hitta höfðingjann í eigin persónu. Njet. Yfirlýsingar aðstandenda heimsóknarinnar þar að lútandi voru einfaldlega rangar. Við fengum ekkert bréf. Því miður. Ég hefði þegið slíkt boð.

Hvað skipuleggjendum heimsóknarinnar gekk til með því að koma því inn hjá fjölmiðlum að alþingismenn væru að sniðganga Dalai Lama, veit ég ekki. Hvað fjölmiðlum gekk til með því að éta þetta upp bara sísvona - án þess að hringja í svosem eins og einn, til að vita hverju þetta sætti - veit ég ekki heldur.

Hitt veit ég, að trúarleiðtoganum hefur verið sýndur margvíslegur sómi á ferð sinni hér, og aðstandendur heimsóknarinnar geta verið hæstánægðir með þær viðtökur sem hann hefur fengið af hálfu Alþingis, kirkjunnar manna og almennings. 

Enda er Kínverjum ekki skemmt, eins og best sést á því að þeir hafa kallað sendiherra sinn heim frá Íslandi.

Það segir sína sögu.


mbl.is Dalai Lama í Alþingishúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söguleg umskipti

 Í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins tekur félagshyggjuríkisstjórn tveggja flokka til valda með skýrt og óskorað umboð meirihluta þjóðarinnar - og undir forsæti konu, í þokkabót. Þetta er sögulegur viðburður.  Tímamót sem vert er að minnast í framtíðinni.

Velferðarstjórnin er orðin til.

Áratugum saman hafa íslenskir vinstrimenn átt undir högg að sækja andspænis harðneskju og skeytingarleysi hægri aflanna. Þeim hefur kerfisbundið verið haldið frá áhrifum og opinberum ítökum, ekki aðeins á vettvangi stjórnmála heldur á öllum sviðum samfélagsins. Á sama tíma hefur áherslan legið á forréttindi fárra á kostnað velferðar fjöldans. Fyrir þá hugmyndafræði hefur almenningur liðið .... og greitt dýru verði.

En ... (eins og skáldið sagði, og megi það nú rætast) ...

... í kvöld lýkur vetri
sérhvers vinnandi manns,
og á morgun skín maísól,
það er maísólin hans.

Það er maísólin okkar
okkar einingabands.
Fyrir þér dreg ég fána
þessa framtíðarlands!

 Wizard

Megi farsæld fylgja störfum þessarar nýju ríkisstjórnar, landi og þjóð til heilla.


mbl.is Ný ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hveitibrauðsdagar þingmanna

5mai09Við erum brosmildar og vonglaðar á myndinni þessar fimm þingkonur sem röltum yfir Austurvöllinn í vorblíðunni til þess að taka kaffisopa saman á Café Paris eftir fundalotu dagsins.

Eins og alþjóð veit eru stjórnarmyndunarviðræður nú langt komnar. Okkur þingmönnum hefur gefist kostur á því að koma að málefnavinnunni sem hefur gengið hratt fyrir sig í starfshópunum síðustu daga. Ég fór í sjávarútvegsmálin - þóttist vita að í þeim málaflokki yrði lítið framboð á konum, svo ég skellti mér. Cool 

Nú fara hveitibrauðsdagar nýkjörinna þingmanna í hönd. Þetta eru dagarnir sem allt er nýtt og spennandi, allir brosmildir, vingjarnlegir og vongóðir. Skemmtilegir dagar. Vor í lofti - brum á trjám.

Sjálft þingið hefur að vísu ekki verið kallað saman, en engu að síður hefur verið í ýmsu að snúast og margt að setja sig inn í.  

Á náttborðinu mínu liggur til dæmis lítið kver: Þingsköp Alþingis - óbrigðult svefnmeðal. Ég mæli með því. Wink

-----------

Á myndinni eru frá vinstri: Ólína, Sigríður Ingibjörg, Katrín Júl, Þórunn Sveinbjörns og Oddný Harðar - allt Samfylkingarkonur. Myndina tók glaðbeittur ungur maður sem átti leið hjá.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband