Lítill fugl í vanda

mariuerla170606_9 Maríuerlan í garðinum mínum komst í hann krappan í morgun. Þegar mér varð litið út um eldhúsgluggann sá ég hvar hún var komin inn fyrir öryggisnetið í trampólíninu í næsta garði. Þarna flögraði hún ráðvillt um fyrir innan netið og lengi vel leit út fyrir að hún fyndi enga leið úr prísundinni. 

Ég fylgdist með henni góða stund og furðaði mig á hátterni hennar, því í rauninni átti hún greiða leið í frelsið.

Hvað eftir annað tókst henni - þó með erfiðismunum væri - að fljúga upp á bandið sem hélt netinu uppi. Þaðan hefði hún auðveldlega getað flogið út í garðinn. En ... nei, hún var svo örvingluð orðin að aftur og aftur hoppaði hún niður röngu megin við netið, föst í sínu sjálfskipaða fangelsi, og þar upphófst sama baksið á ný.

Ég var að því komin að hlaupa út til að blanda mér í þetta þegar hún skyndilega rambaði fram á litla rifu á netinu niðri við dýnuna. Og án þess að hún eiginlega stjórnaði því sjálf, þá stóð hún allt í einu í þessu litla gati, og viti menn ... hún hoppað út í grasið, frjáls úr prísundinni.

Ekki veit ég hvernig á því stóð, en þar sem ég virti fyrir mér atganginn innan við netið, varð mér hugsað til stöðu okkar Íslendinga í samfélagi þjóðanna þessa dagana.

Og nú læt ég lesendum eftir að leggja út af sögunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það eru alltaf leiðir til ef að vel er að gáð og skynsemin  látin ráða.Góða helgi til þín og fjölskyldu þinnar Ólína mín.

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 29.7.2009 kl. 19:46

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Skemmtileg saga og samlíkingin við þjóð okkar ekki fjarri lagi.

Ásdís Sigurðardóttir, 29.7.2009 kl. 20:50

3 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Þjóð sem losar sig úr fjötrum á endanum.  Tekur bara dálítinn tíma.

Ía Jóhannsdóttir, 30.7.2009 kl. 00:23

4 Smámynd: Byltingarforinginn

Hlóstu ekki bara að henni?

Byltingarforinginn, 30.7.2009 kl. 00:31

5 Smámynd: Páll Blöndal

Ágætis innlegg hjá þér Ólína,
en eru alþingismenn bara dúlla sér úti í móum á meðan AGS
er í þann mund að drekkja okkur?

Páll Blöndal, 30.7.2009 kl. 17:53

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

If you only knew ...

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 30.7.2009 kl. 19:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband