Á ferð og flugi - það er komið sumar!

bardastrond  Það er margt spennandi framundan næstu daga.

Um helgina er förinni heitið austur að Leirubakka í Landssveit á ráðstefnuna "Hálendi hugans" sem þjóðfræðingar og sagnfræðingar standa fyrir í Heklusetrinu.  Þar verður fjallað um hálendi Íslands frá ýmsum sjónarhornum. Sjálf verð ég með erindi sem nefnist "Óttinn við hið óþekkta - hálendið í íslenskum þjóðsögum". Ég ætla að fjalla um hlutverk hálendisins í íslenskum þjósögum; ótta og átök sem menn upplifðu utan marka mannfélagsins, í hólum, hömrum og á heiðum uppi í viðureign við vættir landsins. Ég greini frá sögum um samskipti mennskra manna við álfkonur, tröllskessur og drauga. Spennandi Wink

Áður en að þessu kemur verð ég þó á fundi í Háskóla Íslands - stofnfundi nýs Rannsókna og fræðaseturs HÍ á Vestfjörðum. Það er mikilsverður áfangi fyrir okkur Vestfirðinga að fá nýtt fræðasetur, og mun vafalaust hafa þýðingu fyrir þekkingarsamfélagið hér vestra.

Annars verð ég á ferð og flugi mestallan júnímánuð. Um miðjan mánuðinn er fyrirhuguð tónleikaferð með Sunnukórnum til Eistlands, Finnlands og Svíþjóðar.

Undir lok mánaðarins mun ég svo mæta með stóran hluta fjölskyldunnar (eiginmann, tvo syni, tengdadóttur, ömmustrák og tvo hunda) norður í Vaglaskóg þar sem við verðum ásamt fleiri félögum í Björgunarhundasveit Íslands í tjaldbúðum við leitarþjálfun o.fl. Það er svo sannarlega tilhlökkunarefni að fá litla ömmustrákinn með, hann Daða Hrafn. Hann er svo voðalega langt frá mér svona dags daglega.

Sumsé - mikið um að vera og viðbúið að lítið verði bloggað á næstunni. Læt þessu lokið í bili með mynd af fallegum ömmudreng í heimaprjónaða vestinu sem amma sendi honum um jólin.

DadiHrafn

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert sómi Íslands Ólína, Valkyrja og ekkert annað, gangi þér vel.

Birgir Ingvarsson (IP-tala skráð) 3.6.2007 kl. 10:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband