Færsluflokkur: Lífstíll

Krafan um nýtt lýðveldi er ennþá brýn!

logo Ég verð þess vör, nú þegar stjórnarmyndunarviðræður eru hafnar, að það er eins og spennufall hafi orðið meðal almennings. Samfélagið heldur niðri í sér andanum og bíður þess sem verða vill. Ég sé þetta m.a. á því að nú hefur hægt á hraða undirskriftanna á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is

Ekki veit ég hvort fólk heldur að krafan um boðun stjórnlagaþings og nýja stjórnarskrá standi og falli með nýrri ríkisstjórn. Sannleikurinn er sá að svo er ekki. Áskorun okkar á alþingi og forseta að boða til stjórnlagaþings er jafn brýn eftir sem áður - án tillits til þess hvaða stjórnarmynstur verður ofan á. Hinsvegar virðist sem óskin um utanþingsstjórn sé ósk gærdagsins, ef svo fer sem horfir að ný ríkisstjórn verði mynduð í dag. Gott og vel, þá leggjum við þann lið áskorunarinnar til hliðar verði það niðurstaðan.

En krafan um Nýtt lýðveldi er enn brýnni en nokkru sinni - og betur má ef duga skal við að koma þeirri kröfu almennilega til skila.  Hér er vefsíðan.

 


Í dag tók ég þátt í Íslandsmeti, mótmælti, æfði hundinn og ... var sumsé veðurteppt

yoga_2 Ég er veðurteppt á Ísafirði og hef verið föst í þrjá daga. Hér er brjálað veður dag eftir dag og ekki flogið. Ég hef því verið fjarri góðum mannfagnaði á Austurvelli, en það var gaman að sjá fréttamyndirnar þaðan í kvöld. Stemninguna, taktinn, stuðið.

Í staðinn brá ég mér ásamt fjölmörgum Ísfirðingum í íþróttahúsið á Torfnesi til að setja Íslandsmet í jóga. Þangað mættu hátt á annað hundrað manns sem sameinuðust í einbeittu jóga í eina klukkustund. Það var endurnærandi stund.

Svo skellti ég mér ásamt fleiri mótmælendum á Silfurtorgið á Ísafirði þar sem haldnar voru fjórar ræður. Samkomunni lauk með því að allir sungu einum rómi Öxar við ána.

Síðdegis dreif ég mig svo með félaga mínum upp á Seljalandsdal að æfa hundana í snjóflóðaleit. Það var varla stætt fyrir vindi og grimmdarhagléli, en við paufuðumst þetta og kláruðum æfinguna. Annars er stórmerkilegt hvað hundarnir láta veðrið lítið á sig fá. Alltaf jafn glaðir og áhugasamir (maður gæti ýmislegt lært af þeim).

En á morgun er nýr dagur - og veðurspáin afleit fyrir Vestfirði. Woundering


Hvítir borðar - nýtt upphaf, friðsamleg breyting

White_ribbon Í morgun þegar íbúar borgarinnar vöknuðu og fóru á stjá tóku þeir sem áttu leið um Ártúnsbrekku og Miklubraut eftir hvítum borðum á ljósastaurum meðfram stofnbrautinni. Þeir láta ekki mikið yfir sér þessir hvítu borðar - en hafa strax valdið heilbrotum. Hvaðan koma þeir? Hvað boða þeir?

Böndin tóku fljótlega að beinast að átakinu Nýtt lýðveldi - og það með réttu. Við sem stöndum að áskoruninni um utanþingsstjórn og boðun stjórnlagaþings á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is göngumst fúslega við þessu. Vorum þó að velta fyrir okkur hversu langur tími liði þar til fólk áttaði sig á því hvað um væri að vera. En nú þegar blaðamaður morgunblaðsins er búinn að hafa samband og fá réttar upplýsingar, skal upplýst hér hvað er á seyði. Við vonum að fleiri fari að dæmi okkar.

Hvítur er litur friðar. Sumstaðar í Austurálfu þýðir hvítt sorg. Og svo sannarlega hefur margt farið úrskeiðis sem valdið hefur sorg í okkar samfélagi.  En hvítt merkir líka nýtt upphaf. Hvítt er litur hins óskrifaða blaðs.

Við eigum draum um nýtt lýðveldi á Íslandi. Lýðveldi markað sanngjörnum leikreglum, virðingu fyrir lýðræði og grónum gildum á borð við samhjálp, heiðarleika, samvinnu, jöfnuð og ábyrgð. Þessi gildi hafa verið fótum troðin undanfarin misseri - við viljum endurreisa þau og treysta í sessi.

Við vonum að fleiri fari að dæmi okkar og prýði ljósastaurana í götunni sinni með hvítum borðum. Það má rífa niður gömul lök eða klippa plastræmur. Sömuleiðis veit ég að það fást svona borðar í fyrirtækinu Hringrás sem er fyrir neðan Byko í Kópavogi. Wink

En þessi hljóðlátu skilaboð geta orðið mjög öflug ef þau ná að breiðast vel út. Þögul en sterk áminning til stjórnvalda og stjórnmálamanna.

Gerum bæinn hvítan.


mbl.is Hvítir borðar í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hörður á að viðurkenna mistök og biðjast afsökunar

HörðurTorfa Ég held að Hörður Torfason hljóti að vera orðinn eitthvað þreyttur. Hann hefur staðið sig mjög vel fram að þessu - en nú varð honum á í messunni. Þeir sem ganga hart fram í gagnrýni á aðra verða að geta horfst í augu við eigin mistök. Hörður á að biðjast afsökunar á ummælum sínum um veikindi Geirs H. Haarde.

Raunar finnst mér að það mætti að ósekju fara að sýna fleiri andlit og tala við fleiri málsvara þessara mótmæla heldur en Hörð Torfason. Með fullri virðingu fyrir honum. Mótmælin hafa verið persónugerð full mikið í honum einum, þó hann eigi að sjálfsögðu að njóta þess hróss sem hann á skilið. En hann er ekki undanþegin gagnrýni heldur.

Ég vona að fólk haldi áfram að mæta á Austurvöll og berja búsáhöld. Hugmyndin með appelsínugulu borðana finnst mér góð, þ.e. að auðkenna þannig þá sem fara með friði.

Það kæmi mér ekki á óvart þó að hvítir borðar sæjust líka á stöku stað í borginni á morgun. Wink Hvítt er litur friðarins.

 

2.319 undirskriftir komnar við áskorunina um stjórnlagaþing og utanþingsstjórn á www.nyttlydveldi.is


mbl.is Hænuskref í rétta átt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirskriftarsöfnun um nýtt lýðveldi byrjar vel. Verra með heilsufar forystumanna.

skjaldamerki Vefsíðan www.nyttlydveldi.is fer vel af stað - og þó með brösum. Umferðin á síðunni var svo mikil í gær að hún lagðist hvað eftir annað á hliðina, og aftur fram eftir degi í dag. En nú er búið að koma þessu í lag, vonandi. Og rétt áðan voru komnar ríflega 1800 undirskriftir frá því kl. 15:00 í gær. 

Það er afar leitt að heyra um heilsubrest Geirs H. Haarde. Ég vona innilega að hann nái sér af þessum veikindum og óska honum langra lífdaga.

Sjálf er ég þeirrar skoðunar að andlegt álag og mikil, langvarandi neikvæðni í umhverfinu, skili sér á endanum inn í líkama okkar með tilheyrandi heilsukvillum. Ég er því ekki beint hissa á þessum fréttum. Satt að segja hefði ég eiginlega orðið meira hissa ef ekkert hefði látið undan.

Nú er svo komið að báðir forystumenn ríkisstjórnarinnar glíma við alvarlegan heilsubrest. Það segir sitt um það hversu mikil áraunin hefur verið. Hún hefur verið ómennskt á köflum. Og varla er það tilviljun að tveir fyrrverandi forystumenn í íslenskum stjórnmálum, þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, hafa einnig mátt kljást við illkynja mein. Ekki eru mörg ár síðan Ingibjörg Pálmadóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra hneig niður í beinni útsendingu þegar allt ætlaði um koll að keyra í samfélaginu vegna ákvarðana í heilbrigðismálum, ef ég man rétt.

Það er augljóslega ekki tekið út með sældinni að komast til áhrifa í íslenskum stjórnmálum.


Eins og nýhreinsaður hundur

yoga_2 Jæja, ég er eins og nýhreinsaður hundur eftir jóganámskeið helgarinnar. Mér skilst að nýhreinsuðum hundum líði ekkert sérlega vel . Mér er hálf ómótt eftir alla sálarhreinsunina, svo hún hlýtur að hafa verið rækileg. Wink

Annars var þetta mjög jákvæð og endurnærandi upplifun. Fimmtán klukkustundir á þremur dögum, þar af fimm jógatímar. Ég er búin að fara í gegnum sólarhyllinguna, kóbruna, ungbarnið, fiskinn og hvað þetta heitir alltsaman - að ekki sé minnst á slökunina. Er orðin svo slök að ég hangi varla uppi.

En ég finn líka að þetta hefur gert mér mjög gott. Og nú er ætlunin að halda ótrauð áfram á sömu braut.

Friður. Smile


Aftakaárið 2008

solstafir Jæja, þá er nýtt ár gengið í garð. Ekki fékk það að koma óflekkað til okkar frekar en fyrri árin. Heimsfréttirnar segja frá stríðsátökum og manntjóni. Innlendu fréttirnar greina frá vaxandi vanlíðan og spennu meðal almennings, gríðarlegum hækkunum á heilbrigðisþjónustu og helstu nauðsynjum, uppsögnum á vinnumarkaði og gjaldþroti fyrirtækja. Nú er kreppan að koma í ljós. Áfallið er að baki, samdrátturinn er framundan. Hann á eftir að harðna enn, er ég hrædd um.

Samt kveð ég þetta undarlega nýliðna ár með þakklæti. Það færði mér persónulega margar gleðistundir, jafnt í einkalífi sem á samfélagssviðinu. Sem samfélagsþegn kastaðist ég öfganna á milli eins og þjóðin í heild sinni - milli spennu, gleði og áfalla. Borgarpólitíkin sá um spennuna. Þar nötraði allt og skalf fram eftir ári. Á íþróttasviðinu fengum við fleiri og stærri sælustundir en nokkru sinni svo þjóðarstoltið náði áður óþekktum hæðum þegar strákarnir tóku silfrið í Peking. Á Mikjálsmessu 29. september rann víman svo af okkur og við skullum til jarðar. *

Já, þetta var undarlegt ár. Í veðurlýsingum er talað um aftakaveður þegar miklar sviptingar eiga sér stað í veðrinu. Það má því segja að árið 2008 hafi verið "aftakaár" í sama skilning - en tjónið hefur ekki verið metið til fulls.

 Halo

 *PS: Þess má geta til fróðleiks að Mikjáll erkiengill, sem dagurinn er tileinkaður, hafði það hlutverk að kollvarpa illum öflum og vernda kristnar sálir. Sérstök Mikjálsbæn var beðin í kaþóskum messum til ársins 1964 en Mikjálsmessa var tekin út úr helgidagatalinu árið 1770.


Það er nóg komið

gaza3 Hafi einhvern tíma verið í hugskoti mínu snefill af samstöðu með Ísraelsmönnum - einhver  minnsti vottur af skilningi á aðgerðum þeirra og afstöðu gagnvart Palestínumönnum - þá er hann nú fokinn út í veður og vind eftir síðustu atburði á Gaza. Árásir Ísraelsmanna á Palestínumenn um þessi jól eru yfirgengilegt grimmdarverk og ekkert annað.

Það er nóg komið af þögn og meðvirkni heimsins gagnvart yfirgangi Ísraelsmanna og grimmd þeirra í garð Palestínumanna. Það er óþolandi að horfa upp á annað eins og þegja.Palestina

Nokkrir þjóðhöfðingjar hafa nú þegar harmað atburðina á Gaza og sent yfirlýsingar þess efnis til heimspressunnar. En það er bara ekki nóg. Það á að sýna Ísraelsmönnum vanþóknun í verki - slíta öllu sambandi við þá og viðskiptum. Það eigum við Íslendingar líka að gera, þó við séum lítil þjóð og fámenn.

Ég veit vel að það breytir sjálfsagt engu fyrir gang mála hvað okkur finnst. En samvisku okkar og sjálfsvirðingar vegna megum við ekki sitja þegjandi og aðgerðalaus. Það minnsta sem við getum gert er að fordæma þessa framgöngu Ísraelsmanna afdráttarlaust og láta sjást að við viljum engin samskipti við þá sem haga sér svona. 

 

gaza


mbl.is Yfir 1.700 særðir á Gaza
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söknuður

P1000281 (Small) Það var undarlega hljótt í húsinu þegar dyrabjallan glumdi við nú síðdegis. Ég fór til dyra og tengdamóðir mín stóð á tröppunum. Hún var líka hálf undrandi á svip. Ekkert gelt. Bara ómur af þagnaðri dyrabjöllu - við heyrðum hver í annarri.

Blíða mín er farin af heimilinu og það munar um minna. Við Siggi ókum með hana norður á Hólmavík í dag, til móts við nýja eigendur sem búa á Sauðárkróki. Þar fær hún nýtt heimili hjá þessum góðu hjónum sem mér líst afar vel á. Þau eiga fjögur börn á unglingsaldri og annan hund að auki. Þau hafa áður átt Dalmatíuhund sem þau misstu í slysi fyrir nokkru - raunar var það bróðir Blíðu. Þannig að þetta fólk þekkir tegundina og veit að hverju það gengur varðandi hana. Ég held því að Blíða blessunin sé heppin að fá þetta heimili, úr því hún þurfti að hafa vistaskipti á annað borð.

Hún var svolítið feimin við nýju húsbændurna og hálf umkomulaus auðvitaðBlidaogHjorvar (Medium) þegar hún var komin inn í nýtt búr sem hún þekkti ekki. Ég kvaddi hana ekki - hefði bara beygt af ef ég hefði farið að faðma hana á þessari kveðjustund. Nei, ég harkaði af mér og skipaði henni upp í búrið, beygði mig niður að henni og bað hana vera rólega og stillta hjá nýju húsmóðurinni, lokaði svo skottinu og tók í hönd á fólkinu, með sviðasting fyrir brjóstinu.

Það féllu auðvitað nokkur tár á heimleiðinni - eins og við var að búast. En svona er lífið. Öllu er afmörkuð stund.

Heima beið mín hinn hundurinn minn hann Skutull sem er 8 mánaða. Ég  tók hann í langan göngutúr í náttmyrkrinu og gaf honum svo vænt bein þegar heim var komið. Hann var alsæll - svo sæll að hann bar ekki við að gelta þegar dyrabjallan hrindi.

Öðruvísi mér áður brá ... Frown

Blida07P1000530 (Medium)Bilferd (Medium)blida3 (Medium)


Ferðahrakningar um jól

hridarvedurNepalIs Það hefur ekki verið flogið hingað á Ísafjörð síðan 21. desember. Hvassviðri og éljagangur dag eftir dag, og varla hægt að segja að birti á daginn.

Fólkið mitt kom með seinna fluginu á sunnudag þannig að ég get ekki kvartað. En mér verður óneitanlega hugsað til þeirra fjölmörgu sem hafa ekki komist heim um þessi jól eða lent í hrakningum við það. Sjálf þekki ég mætavel slík vandræði af jólaferðalögum vestur á firði - þetta er jú sá tími sem veður gerast vályndust.

Minnisstæðust er mér ferðin sem við Siggi maðurinn minn, Doddi sonur minn og heimilistíkin Snotra, fórum með varðskipinu Tý árið 1980 vestur á Ísafjörð. Við Siggi vorum þá ungir námsmenn í Reykjavík með fimm ára gamalt barn og stefndum vestur til fjölskyldunnar um hátíðarnar. Ekki hafði verið flogið vestur í fjóra daga, komin Þorláksmessa, og búið að aflýsa flugi þann daginn. Í þá daga sat maður einfaldlega á flugstöðinni meðan verið var að athuga flug því ekki var komið textavarp og því síður farsímar. Á flugvellinum myndaðist oft heilmikil stemning, fólk kynntist og tók tal saman um veðurútlit og færðina m.m., en þetta voru þreytandi setur í reykfylltri flugstöðinni innanum óróleg börn, kvíðið fólk og farangur.

Jæja, en þar sem búið var að aflýsa flugi þennan Þorláksmessudag tyr-a-fullu (Medium)brugðum við á það ráð, sem stundum dugði í þá daga, að athuga með ferðir varðskipa. Og viti menn, einhverjir þingmenn þurftu að komast vestur og (þeirra vegna) hafði verið ákveðið að senda skip. Það var pláss fyrir okkur um borð, svo við rukum út í leigubíl og báðum hann að aka í loftköstum niður á höfn. En öldungurinn sem tinaði undir stýrinu taldi nú ýmis tormerki á því, og sennilega hefur engin ökuferð tekið lengri tíma frá Miklubraut að Reykjavíkurhöfn. Þegar þangað var komið var verið að leysa landfestarnar, og við bókstaflega stukkum yfir borðstokkinn úr öðru skipi sem lá við hliðina.

Þetta var skelfileg sjóferð - hún tók 26 tíma. Þegar Siggi og Doddi voru búnir að kasta upp öllu því sem þeir höfðu innbyrt, og lágu hálf meðvitundarlausir í koju sá ég mitt óvænna og fór upp í brú. Þar eyddi ég nóttinni að mestu milli þess sem ég gáði að þeim - og fyrir vikið varð ég ekki sjóveik. Annars urðu nánast allir sjóveikir í þessari ferð. Fólk lá hvert um annað þvert, magnvana af uppköstum og ógleði.  Meira að segja hundurinn ældi. Messadrengurinn, kokkurinn, já allir nema fjórar manneskjur: Skipstjórinn, 1. stýrimaður, þingmaður einn sem þarna var farþegi og ég - MOI! 

En þegar skipið lagði að bryggju á Ísafirði um hádegisbil á aðfangadag var skollið á blíðalogn. Og þar sem við stóðum á riðandi fótum og  horfðum yfir fjörðinn, sáum við hvar flugvélin renndi sér tígullega niður á flugvöllinn hinumegin fjarðarins ... FootinMouth

 

KubburOddurJonsson

Þessa fögru mynd tók Oddur Jónsson af Kubbanum í Skutulsfirði á lognkyrrum vetrardegi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband