Færsluflokkur: Lífstíll
Fátt er svo með öllu illt ...
30.5.2009 | 12:57
Þær hækkanir sem nú verða á áfengi, tóbaki, bensíni o. fl. eru fáum gleðiefni. Langtímaáhrif þeirra munu þó verða mun jákvæðari en látið er í veðri vaka þessa dagana. Fullyrt hefur verið að með þessu hækki skuldir heimilanna um 8 milljarða. Þá er einungis horft á lítið brot af heildarmyndinni. Ef breytingin færi beint út í verðlagið gæti hún vissulega haft þessi áhrif, en þá gleyma menn því að hækkunin leggst á höfuðstól lána sem greiðast munu löngum tíma, einhverjum áratugum.
Á hinn bóginn mun þessi breyting skila ríkissjóði um 17 milljörðum í ríkiskassann út árið 2012.
Hér er verið að bregðast við halla ríkissjóðs. Aðgerðin er liður í því að styrkja gengið, lækka verðbólgu og vexti þar með - sem aftur mun leiða til batnandi stöðu heimilanna langt umfram áhrifin af 0,5% hækkun vísitölunnar sem sumir reikna.
Þau skref sem nú hafa verið stigin sýna að stjórnvöld stefna að því að ná tökum á ríkisfjármálum og lækka halla ríkissjóðs. Minni halli leiðir til sterkara gengis. Það dregur úr skuldabyrði þeirra sem eru með erlend lán. Ef erlend erlend húsnæðislán eru um 300 milljarðar mun 4% styrking krónunnar lækka skuldir heimilanna um 12 milljarða. Sterkara gengi dregur einnig úr verðbólgu. Sterkara gengi og lægri verðbólga til framtíðar styrkir einnig kaupmátt launa.
Því má skjóta hér inn að á mánudaginn lýsti forsætisráðherra því yfir að framundan væru erfiðustu aðhaldsaðgerðir sem hún hefði nokkurn tíma staðið frammi fyrir á sínum pólitíska ferli. Frá því að forsætisráðherra gaf þessa yfirlýsingu hefur gengið styrkst um ríflega 4%. Ekki er ólíklegt að aukinn trúverðugleiki efnahagsstefnunnar eigi þar hlut að máli. Jákvæð tilsvör sendinefndar AGS þegar hún fór af landi brott um daginn, hafa varla skaðað heldur.
En aftur að áhrifum skattahækkunarinnar: Þrátt fyrir neikvæð skammtímaáhrif hennar á verðtrygginguna munu sterkari ríkisfjármál og áræðni í efnahagsstjórnunni vinna það tap upp mjög fljótt. Þannig munu langtímaáhrifin verða efnahagslífinu til góðs.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 13:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Bensínhækkun og ESB
29.5.2009 | 14:33
Mér var bent á það í athugasemd hér á blogginu, að tiltekin bensínstöð hafi verið búin að hækka verð á bensíni kl. 23 í gærkvöldi - hálftíma áður en lögin um hækkun á olíu og bensíni voru samþykkt á Alþingi.
Þetta er ósvífni - svo ekki sé meira sagt.
Hvað um það: Í dag heldur ESB umræðan áfram í þinginu. Málflutningurinn í morgun var málefnalegur og yfirvegaður. Því miður hefur orðið nokkur breyting á yfirbragði umræðunnar nú eftir hádegið - en við því er ekkert að segja. Menn hafa málfrelsi.
Ég tók til máls fyrr í dag og ræddi málið út frá lýðræðishugtakinu. Þeir sem áhuga hafa geta skoðað innlegg mitt hér.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hrun eða heilbrigð leiðrétting?
27.5.2009 | 23:14
Útvegsmenn heyja nú hart áróðursstríð gegn breytingum á núverandi kvótakerfi, eins og sjá má á síðum Morgunblaðsins þessa dagana, þar sem hver opnan af annarri er lögð undir málflutning þeirra. Þar er hrópað hrun" yfir sjávarútveginn í landinu verði fyrningarleiðin farin, og gefin 6,5 ár - nákvæmt skal það vera. Þar með muni fiskveiðar leggjast af við Íslands strendur. Þeir tala eins og verið sé að hramsa frá þeim þeirra lögmætu eign" og þjóðnýta" hana eins og það er orðað.
Þannig hafa viðbrögðin við fyrirhugðum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu verið líkari ofsafengnu ofnæmislosti en eðlilegum varnarviðbrögðum. Enda fær fátt staðist í þessum málflutningi útvegsmanna, sé nánar að gætt.
Förum nú yfir nokkur atriði í rólegheitum. Í 1. gr. Fiskveiðistjórnunarlaga segir:
Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar ... Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.
Það er m.ö.o. þjóðin sem á fiskinn í sjónum. Útgerðin hefur nýtingarrétt á þessari auðlind, en vilji löggjafans varðandi eignarhaldið er alveg skýr.
Fiskveiðar munu að sjálfsögðu ekki leggjast af þó að ríkið gefi útgerðinni kost á að afskrifa árlega tiltekið hlutfall aflaheimilda - þó að stofnaður verði auðlindasjóður þaðan sem veiðiheimildum verður ráðstafað til framtíðarnota fyrir útgerðina í landinu.
Innköllun aflaheimilda í áföngum á 20 árum í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta er ekki umbylting" á þessu kerfi og mun ekki leiða hrun" yfir sjávarútveginn. Þvert á móti er hún sanngjörn, hófsöm og löngu tímabær leiðrétting á þessu óréttláta kerfi, sem hefur í sér innbyggða meinsemd og mismunun.
Gleymum ekki úrskurði Mannréttindanefndar SÞ um að núverandi kvótakerfi sé brot á mannréttindum og hindri eðlilega nýliðun.
Gleymum því ekki að í þessu kerfi eru menn tilneyddir að gerast leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna.
Þetta er kerfi þar sem aflaheimildirnar voru upphaflega færðar útgerðunum endurgjaldslaust í hendur, en hafa síðan verið meðhöndlaðar sem hvert annað erfða- og skiptagóss. Ef útgerðarmaður deyr eða ákveður að selja og flytja, situr byggðarlag eftir í sárum. Fiskveiðiheimildirnar horfar úr þorpinu, og lífsafkoma fiskvinnslufólksins þar með. Þetta eru raunveruleg dæmi sem komið hafa upp.
Kvótakerfið er bara eins og hver önnur mannasetning - enda ekki nema um tveggja áratuga gamalt. Þetta kerfi var illa ígrundað í upphafi. Það leiddi af sér alvarlega röskun og atvinnubrest í heilum byggðarlögum. Sá atvinnubrestur risti á sínum tíma mun dýpra en það atvinnuleysi sem nú ógnar almenningi á suðvesturhorninu.
Síðast en ekki síst, felur þetta rangláta kerfi í sér samskonar meinsemd skuldasöfnunar og yfirveðsetningar og þá sem olli efnahagshruninu í haust. Sjávarútvegurinn skuldar 400-500 milljarða króna - verulegur hluti skuldanna liggur hjá erlendum kröfuhöfum. Í talnabálkum sem birtir voru í kveri sem LÍÚ sendi út fyrir síðustu kosningar má sjá að atvinnugreinin mun aldrei geta staðið undir þessum skuldum.
Nærtækt er að álykta sem svo að þarna liggi raunveruleg ástæða þess hversu tíðrætt útgerðarmönnum hefur orðið um hrun" og yfirvofandi gjaldþrot" í greininni. Ástæðan er nefnilega ekki fyrirhuguð fyrningarleið. Ástæðan er geigvænleg offjárfesting á umliðnum árum, þar með ofurskuldsetning, þar með ofurveðsetning. Þetta er hin napra staðreynd.
Ákefðin í umræðunni um fyrningarleið kann hinsvegar að vera ákjósanlegt skálkaskjól til þess að fela óþægilegar staðreyndir um stöðu sjávarútvegsins - stöðu sem útvegsmenn hafa sjálfir komið sér í án íhlutunar stjórnvalda.
Nú loksins, stendur til að leiðrétta hið rangláta kvótakerfi. Það er vel.
Það er hinsvegar sorglegt að íslensk þjóð skuli á erfiðum tímum þurfa að verja eign sína og forræði yfir fiskimiðunum fyrir ásælni útgerðarinnar. Að hún skuli þurfa að verja sig fyrir þeim aðilum sem áratugum saman hafa notið gæðanna af þjóðarauðlindinni og gengið um hana eins og þeir ættu hana, þvert á anda og fyrirmæli laga.
Fyrirhugaðar breytingar á kvótakerfinu eru eitt mesta réttlætismál í íslensku samfélagi um þessar mundir.
------------
Grein um sama efni birtist eftir mig í Mbl í morgun, undir fyrirsögninni Fyrningarleið: Hrun eða heilbrigð leiðrétting.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Afnám bindisskyldunnar, herbergjaskipan o.fl.
26.5.2009 | 09:28
Umtalsverð umræða hefur að undanförnu orðið um klæðaburð þingmanna og herbergjaskipan í þinghúsinu. Um leið hefur borið á hneykslun meðal almennings yfir því að þetta skuli yfirleitt vera umræðuefni - löggjafarsamkundan ætti að hafa annað og þarfara að sýsla en pexa um þessa hluti.
Ég er sammála því, enda hefur þetta mál ekki verið til umræðu í þingsölum, svo það sé alveg skýrt. Bæði þessi mál hafa komið upp sem hvert annað úrlausnarefni fyrir skrifstofu og forsætisnefnd þingsins, og þau væru hreint ekki í umræðunni nema vegna þess hve fjölmiðlar og bloggarar sýna þeim mikinn áhuga. Sem er umhugsunarefni.
Herbergjaskipan í þinghúsinu er praktíst mál sem á ekkert erindi í fjölmiðla. Ákvörðun um klæðaburð þingmanna skiptir engu máli, nema hvað það er auðvitað sjálfsögð krafa að þeir sýni þessu elsta þjóðþingi veraldar tilhlýðilega virðingu með því að vera snyrtilega klæddir.
Þar með hef ég lagt mitt lóð á vogarskál þessarar fánýtu umræðu ... og get þá snúið mér að öðrum og merkari viðfangsefnum.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Eins og steiktur tómatur
22.5.2009 | 23:06
Ég er sólbrennd eins og steiktur tómatur eftir daginn. Það er ekki sjón að sjá mig.
En þessi fyrsti dagur björgunarhunda-námskeiðsins gekk vel. Skutull stóð undir nafni. Hann þeyttist um móana á ógnarhraða, svo mér komu í hug orð Gríms Thomsen í Skúlaskeiði:
Rann hann yfir urðir eins og örin
eða skjótur hvirfilbylur þjóti ...
Hann var léttur á sér og leysti sín verkefni vel; gelti eins og herforingi úti hjá þeim týnda (fígúrantinum) og þurfti ekki hvatningu til. Ég er ekki enn farin að taka hann til mín í vísun - en mig grunar að þess verði ekki langt að bíða.
En ... á morgun ætla ég að muna eftir sólarvörninni - þó hann rigni.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Farin í hundana
22.5.2009 | 08:21
Nú er ég á leiðinni austur á Úlfljótsvatni með Skutul minn. Björgunarhundasveit Íslands verður þar með æfinganámskeið um helgina eins og oft áður um þetta leyti árs. Ég mun því taka frí frá bloggi og pólitík meðan á þessu stendur og einbeita mér að þjálfun hundsins.
Hann stendur sig annars vel litla skinnið - er vinnusamur, áhugasamur og hlýðinn eins og hann á kyn til. Border-Collie er alveg einstök hundategund, og hann sver sig vel í ættina, blessaður.
Góða helgi öllsömul.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jómfrúarræðan framundan
20.5.2009 | 08:42
Í dag kl. 14 verða utandagskrárumræður um fyrirhugaða innköllun veiðiheimilda. Ég hef mun taka til máls í þessari umræðu - svo jómfrúarræðan mun fjalla um sjávarðútvegsmál. Það fer vel á því fyrir þingmann sem kemur úr Norðvesturkjördæmi.
Málshefjandi í þessari umræðu er Einar K. Guðfinnsson og til svara verður að sjálfsögðu sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason.
Við Róbert Marshall munum taka til máls af hálfu Samfylkingarinnar, ég sem varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.
Jebb ... nú er það byrjað ...
Hverjir eru þjóðin?
19.5.2009 | 16:53
Nú sit ég hér á skrifstofu minni - er þó eiginlega stödd á þingfundi, því umræðan þar stendur yfir og ég er með kveikt á sjónvarpinu. Ég á þess þó ekki kost að vera í þingsalnum lengur þar sem ég verð að undirbúa ræðu fyrir utandagskrárumræðu á morgun.
Nú geri ég hlé á vinnu minni til að nefna þetta - vegna þess að rétt í þessu var Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, að hneykslast á því að ekki skuli fleiri sitja í þingsalnum að hlusta á umræðurnar sem hófust kl. 13.30. Hann talaði eins og allir væru farnir heim.
Það er eins og hann viti ekki að líkamleg viðvera er ekki skilyrði þess að vera viðstaddur umræðurnar. Þingmenn eru að störfum um allt þinghúsið og á skrifstofum sínum. Allstaðar eru sjónvörp og hátalarakerfi þannig að menn heyra umræðurnar, hvar sem þeir eru staddir. Satt að segja hefði ég haldið að Þór Saari væri farinn að kynnast því sjálfur hversu mikið annríki fylgir þingmennskunni - en hann virðist standa í þeirri trú að mannskapurinn sé farinn heim.
Og úr því ég er farin að hnýta í þetta, þá vil ég nefna annað.
Það stakk mig svolítið við eldhúsdagsumræðuna í gærkvöldi að heyra talsmenn Borgarahreyfingarinnar tala um sjálfa sig sem sérlega fulltrúa þjóðarinnar.
En sjáið nú til: Ég lít ekki svo á að ég sé þjóðkjörin á Alþingi Íslendinga - tilheyri ég þó flokki sem er stærsti stjórnmálaflokkur á Íslandi með um 56 þús atkvæði, eða 30% fylgi. Borgarhreyfinguna kusu ríflega 13 þúsund manns eða 7,2% kjósenda. Vissulega tilheyra þessir kjósendur þjóðinni - það gera líka, og ekki síður, hin 92,8% sem kusu eitthvað annað.
En ... nú er ég búin að semja ræðuna fyrir morgundaginn og ætla að trítla aftur út í þinghús þar sem ég mun sitja þar til þingfundi lýkur.
----
PS: Ekki var ég fyrr sest í mitt sæti en Saari og félagar yfirgáfu salinn undir ræðu fjármálaráðherra og sást ekkert þeirra meir á þeim fundi (sem var reyndar langt kominn, svo þau misstu ekki af miklu). Svolítið fyndið samt.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Blíðan á Austurvelli - þingsetningin - morgundagurinn
17.5.2009 | 15:40
Í svona veðri er ekki annað hægt en að lita björtum augum á lífið og tilveruna. Stemningin í miðbænum hefur verið frábær í allan dag. Prúðbúnir Norðmenn spígspora um í þjóðbúningum sínum með fána í hönd. Hjá þeim sameinast nú þjóðhátíðardagur Norðmanna og sigurvíman yfir sigri gærkvöldsins í söngvakeppninni.
Og ekki er minna þjóðarstoltið í fasi Íslendinganna í dag. Á Austurvelli flatmagar fólk í sólinni og bíður þess að bjóða Jóhönnu Guðrúnu velkomna með silfrið úr Júróvisjón seinna í dag. Allir skælbrosandi.
Já þetta er nú meiri rjómablíðan sem hefur gælt við okkur þessa helgi. Og ekki spillti veðrið við þingsetninguna á föstudag.
Ég skal að vísu viðurkenna að mér varð um og ó þegar við gengum út úr þinghúsinu framhjá hópi af hrópandi fólki sem hafði raðað sér meðfram heiðursverðinum til þess að kalla að okkur ókvæðisorðum, skipa okkur til andsk.... og ota að okkur löngutönginni. En það þýðir ekkert að armæðast yfir því - svona er bara mórallinn í samfélaginu um þessar mundir og þá verður bara að hafa það.
En semsagt - á dögum eins og þessum er gaman að vera til.
Á morgun hefst svo sjálf alvaran með nefndafundum fyrir hádegi og eldhúsdagsumræðum annað kvöld. Eftir það taka sjálf þingstörfin við.
Ætli hveitibrauðsdagarnir í pólitíkinni séu ekki þar með taldir. Trúað gæti ég því.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Komin með skrifstofu
14.5.2009 | 16:33
Fyrsti vinnudagurinn á skrifstofunni. Þessari líka fínu skrifstofu þaðan sem ég sé út á Austurstrætið, skuggamegin að vísu, en fyrir vikið laus við kæfandi sólarhita yfir sumartímann.
Ég hef verið að flokka skjöl og koma þeim í möppur; fylla út allskyns upplýsingar um sjálfa mig til birtingar á vef Alþingis - fjármál mín, ættir og fyrri störf með meiru.
Svo hef ég haldið áfram að lesa allt námsefnið sem sett var á okkur í gær. Það er ekkert smáræði, og mun taka tímann sinn.
Við erum hér saman nokkrir nýir þingmann á 2. hæð Austurstrætis 14. Við höfum sameiginlegan ritara, hana Ólafíu sem er kölluð Ollý eins og ég. Hún hefur verið að aðstoða mig í dag við ýmislegt - að komast inn í tölvukerfið, finna eyðublöð til útfyllingar, útvega ritföng o.þ.h.
Mjamm ... þingsetningin er á morgun. Hefst í Dómkirkjunni kll 13.30.