Færsluflokkur: Lífstíll
Sól á fjörðum sindrar
7.7.2009 | 18:08
Í dag hefur veðurblíðan leikið við okkur Vestfirðinga - það var ekki amalegt að horfa yfir lognkyrran og sólgylltan fjörðinn snemma í morgun. Morgnarnir eru alltaf fallegastir, finnst mér.
Á svona degi er vel við hæfi að taka bloggfrí - verðskuldað bloggsumarfrí.
Ég veit ekkert hvenær ég má vera að því að koma inn aftur - það kemur bara í ljós.
Á meðan læt ég standa ljóðið sem varð til hjá okkur mæðgum - mér og mömmu - þegar við heimsóttum Rauðasandinn í fyrrasumar, sælla minninga. Þá var veðurblíða líkt og nú þegar andinn kom yfir okkur. Þetta var afraksturinn:
Sól á fjörðum sindrar.
Sveipar gullnum ljóma
ljóssins tíbrá, tindrar
tún í fullum blóma.
Að hamraveggnum háa
hneigist fífan ljósa.
Brotnar aldan bláa
brött við sjávarósa.
Strýkur blærinn stráin,
stör á grónum hjalla.
Í fossi fellur áin
fram um hamrastalla.
Yfir landi liggur
ljómi sumardagsins,
hugur enginn hyggur
húmkul sólarlagsins.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Suðurlandsvegur, Vaðlaheiði eða ...
30.6.2009 | 16:17
Nú takast menn á um það hvort samgönguráðherra eigi frekar að leggja áherslu á Sundabraut, breikkun Suðurlandsvegar eða Vaðlaheiðargöng. Já - þeir tala eins og þetta séu valkostirnir.
Nú sýður á mér.
Þeir sem þannig tala vita augljóslega ekki að til eru staðir á landinu þar sem fullnægjandi samgöngum hefur enn ekki verið komið á. Þar sem hið svokallaða "stofnkerfi" er einfaldlega ekki fullfrágengið. Dæmi um það er Vestfjarðavegur sem er eina leiðin út úr fjórðungnum fyrir íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum. Vegurinn um Dynjandisheiði og Hrafneyrarheiði er auk þess eina tengingin milli byggðarlaganna á norðan og sunnanverðum Vestfjörðum (Patreksfjarðar og Ísafjarðar). Sá vegur er ófær 9 mánuði ársins. Ef Patreksfirðingur á erindi til Ísafjarðar um hávetur, þarf hann að leggja á sig 10 klst. ferðalag um 700 km leið fyrir kjálkann - í stað 2 klst ferðalags yfir heiðarnar um sumartímann. Báðir þessir vegir teljast þó til þjóðvega.
Þegar skorið er niður skiptir miklu að forgangsraða verkefnum. Við forgangsröðun vegaframkvæmda er brýnt að gera greinarmun á því hvort um er að ræða
- Samgöngubætur (að bæta og viðhalda samgöngum sem eru þokkalegar fyrir líkt og víðast hvar á Suðvesturlandi) eða:
- Grunnkerfið sjálft (að koma á viðunandi samgöngum sem eru ekki til staðar að heitið geti (líkt og á Vestfjörðum).
Samfélagslegir þættir eiga að skipta máli við forgangsröðun verkefna á borð við vegaframkvæmdir. Ástand vega getur ráðið úrslitum um það hvort atvinnulíf fær þrifist á sumum stöðum, hvort þar er yfirleitt búandi. Samgöngurnar eru æðakerfið í byggðarlögunum. Ástand veganna getur þannig ráðið úrslitum um líf eða dauða byggðanna í landinu.
Þandi mig aðeins um þetta á Rúv í hádeginu (hlusta hér)
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Sjávarplássin lifna við
29.6.2009 | 14:38
Loksins sér maður aftur líf færast yfir bryggjurnar hér fyrir vestan. Bátarnir komu inn í gær eftir fyrsta strandveiðidaginn. Þeir voru kampakátir karlarnir þar sem þeir stumruðu yfir körunum fullum af spriklandi fiski.
Hjá einum var drukkið "strandveiðikaffi" til að halda upp á þessi tímamót.
Já, loksins eftir langa mæðu eru menn aftur frjálsir að því að sigla bátum sínum út á miðin og taka þar á handfærin allt að 800 kg á dag, án þess að kaupa eða leigja til þess sérstakan kvóta.
Loksins skynjar maður eitthvað sem líkist "eðlilegu" ástandi - einhverskonar frelsi eða opnun. Fram til þessa hefur mönnum verið meinaður aðgangur að fiskimiðunum við strendurnar, nema þeir gerðust leiguliðar hjá kvótaeigendunum - eða keyptu sér kvóta dýru verði. Undanfarið hefur lítill sem enginn kvóti verið fáanlegur, svo það hefur ekki verið um marga möguleika að ræða.
Já, nú eru sannarlega tímót. Og ég er glöð yfir því að hafa getað veitt þessu máli lið inni í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þaðan sem frumvarpið var afgreitt fyrir skömmu.
Loks er aftur líf í höfnum,
landa bátar afla úr sjó.
Mergð er nú af mávi og hröfnum
mikil yfir fsikislóg.
Vonandi eru strandveiðarnar komnar til að vera.
22 tonn af þorski á fyrsta degi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Ómetanlegt starf björgunarsveita
28.6.2009 | 17:14
Það er mikið gleðiefni að þessi björgunaraðgerð skyldi takast giftusamlega. Ég veit að björgunarsveitarmenn um land allt gleðjast ævinlega í hjarta sínu þegar vel tekst til eins og í þessu tilviki. Það er nefnilega sama hvar á landinu þeir eru staddir þegar aðgerð er í gangi - þeim verður alltaf hugsað til þeirra sem bíða björgunar, og félaga sinna sem eru á vettvangi. Þannig er það bara.
Atvik sem þetta minna okkur á það hve björgunarsveitir landsins vinna ómetanlegt starf. Björgunarsveitarmaður spyr aldrei hvað klukkan sé, hvernig veðrið sé úti, hvort ekki geti einhver annar farið, þegar þörf er fyrir aðstoð. Hann stekkur af stað, hvernig sem á stendur.
Þarna tókst vel til - og því ástæða til að óska öllum hlutaðeigandi til hamingju með það.
Talandi um björgunarsveitir: Við Skutull brugðum okkur í blíðviðrinu í dag á æfingu með Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitarinnar upp á Seljalandsdal. Það var svo yndislegt veðrið að það var eiginlega full mikið af því góða fyrir hundana. Þeim reynist oft erfitt að vinna í miklum hita. Samt stóðu þeir sig allir vel ... og á öndinni, eins og við mátti búast.
Sjálf er ég orðin sólbrennd og sælleg eftir þennan dásamlega sólardag.
Dreng bjargað úr jökulsprungu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jónsmessunótt
23.6.2009 | 23:45
Nú fer Jónsmessunóttin í hönd - sú dulmagnaða nótt sem þjóðtrúin telur öðrum nóttum máttugri í mörgum skilningi. Þá nótt glitra óskasteinar í tjörnum, jarðargróður er þrunginn vaxtarmagni og lækningarmætti, döggin hreinsunarmætti. Því velta menn sér naktir í Jónsmessudögg enn þann dag í dag. Grasa- og galdrakonur fara á kreik og tína jurtir sínar sem aldrei eru máttugri en þessa nótt. Álfar sjást á ferli og kynjaverur sveima á heiðum og í holtum.
Annars er Jónsmessan kirkjuleg hátíð - og eins og flestar hátíðir kirkjunnar (t.d. jólin) þá var henni ætlað að leysa af heiðna sólstöðuhátíð þ.e. sumarsólstöðurnar sem eru tveim dögum fyrr. En sumarsólstöðurnar eru hinn náttúrulegi hápunktur sumarsins.
Það er dásamlegt að vera utandyra ef veður er gott um sumarsólstöður, t.d. á Jónsmessunótt og skynja kraftinn úr jörðinni - tína þá grös í poka og finna fallega steina. Vera einn með sjálfum sér.
Hér fyrir vestan hafa verið rigningarskúrir í dag. Jörðin er hrein og rök. Full af krafti. Það er svartalogn á firðinum og nýtt tungl á himni.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Dottað undir stýri
21.6.2009 | 21:55
Komin heim frá Gufuskálum af helgaræfingu með Björgunarhundasveitinni. Kúguppgefin.
Ég var svoooo lúin þegar ég ók heim núna seinnipartinn að ég dottaði undir stýri í Eyja- og Miklaholtshreppnum. Um hábjartan dag.
Það var áreiðanlega engill sem hnippti í mig í tæka tíð áður en bíllinn fór út af - en hann var kominn yfir á rangan vegarhelming þegar ég áttaði mig.
Úff! Þarna munaði sannarlega mjóu.
Lifandi fegin að ekki fór verr, sá ég mitt óvænna, lagði bílnum í vegkanti og lagði mig í tíu mínútur. Fór svo út úr honum og fékk mér frískt loft áður en ég hélt ferð minni áfram.
En námskeiðið var í alla staði frábært. Skutull minn stóð sig mjög vel. Á þessu námskeiði náði hann því risastóra skrefi í þjálfuninni að koma til mín þegar hann hefur fundið mann og gelta á mig áður en hann vísar mér til þess týnda. Í síðasta rennslinu "fann" hann þrjá og vísaði mér á þá alla.
Annars stóðu allir hundarnir sig frábærlega og þetta var mjög skemmtilegt námskeið við rætur Snæfellsjökuls.
Á morgun er það svo þingið - þá skipti ég aftur um gír.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sjóbað á sautjándanum
17.6.2009 | 18:26
Brrrrrrrrr - við dembdum okkur í sjóinn framundan lítilli sandfjöru á Seltjarnarnesinu í góða veðrinu í dag. Þetta var svona skyndihugdetta.
Skömmu áður stóðum við nefnilega eins og ratar á tröppunum við Vesturbæjarlaugina - höfðum ekkert hugsað út í það að auðvitað eru sundlaugarnar lokaðar á 17. júní.
Hálf vonsviknar fórum við út á Seltjarnarnes - komum þar við í ísbúð til að bæta okkur upp fýluferðina, og meðan við vorum að sleikja ísinn var tekinn svolítill rúntur um nesið. Þá sáum við mann á sundskýlu sem var að þurrka sér á bílastæðinu við golfvöllinn á Seltjarnarnesi. Við litum hvor á aðra: Hann hlýtur að vera að koma úr sjónum, þessi! Við í sjóbað!
Og það gerðum við. Ekki eins kalt og við héldum - en kalt samt. Og hressandi.
Svona gekk þetta fyrir sig.
Fyrst var tekin upplýst ákvörðun og náð í handklæði og sundföt
Svo var farið á staðinn og fötum fækkað
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Strandveiðar á 17. júní?
16.6.2009 | 17:03
Í morgun var strandveiðifrumvarpið svokallaða tekið út úr sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og ef heppnin er með tekst kannski (vonandi) að afgreiða það úr þinginu í kvöld.
Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu, m.a. við loka umfjöllun þess í nefndinni í morgun. Síðustu breytingarnar bar ég upp við nefndina í morgun. Samþykkt var að ákvæðið um 800 kg af þorski auk meðafla í hverri veiðiferð skyldi hljlóða upp á 800 kg af fiski í kvótabundnum tegundum. Þá var tímaákvæði frumvarpsins breytt úr 12 klst í 14 klst sem hver veiðiferð má taka.
Ýmsar aðrar smálegar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu sem ég hygg að séu allar til bóta, enda hafa fjölmargir umsagnaraðilar komið á fund nefndarinnar og verið inntir álits.
Það væri óskandi ef takast mætti að afgreiða frumvarpið svo breytt úr þinginu í dag. Ef ekki, þá verður það tekið fyrir á fimmtudag.
Það er a.m.k. nokkuð ljóst að menn geta farið að gera sig klára svona hvað úr hverju.
Mottó dagsins: Þeir fiska sem róa
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Allt á öðrum endanum!
14.6.2009 | 12:23
Jæja, þá er húsið mitt á Framnesveginum að komast í samt lag aftur eftir sex vikna umsátursástand hers af iðnaðarmönnum: Smiðum, pípurum, málurum og altmúlígmönnum. Þetta hefur auðvitað verið skelfilegt ástand, eftir að í ljós komu vatns og rakaskemmdir sem gera þurfti við. Svo fór af stað einhverskonar keðjuverkun - því þegar eitt er lagað blasir annað við sem gera má "í leiðinni" (þið þekkið þetta kannski).
Fyrstu þrjár vikurnar reyndi ég að búa í húsinu - svo gafst ég upp og fékk inni hjá systur minni elskulegri. Hún lánaði mér íbúðina sína í Hlíðunum sem var blessunarlega mannlaus um tíma. Það kom sér sannarlega vel að geta flúið í skjól undan hamarshöggum og saggalykt.
Daginn eftir að ég var komin í skjólið hjá systur, hringdi dyrabjallan. Á tröppunum stóðu þrír vörpulegir iðnaðarmenn komnir til að gera við baðherbergið. Mér varð um og ó - en þeir stoppuðu nú stutt við blessaðir.
Meðan á öllu þessu hefur staðið hef ég verið að setja mig inn í allar aðstæður í þinginu - búandi hálfpartinn í ferðatösku. Og nú um helgina náði óreiðan hámarki - því um leið og húsið var að verða tilbúið, tók við hver viðburðurinn á fætur öðrum. Allt hefur það þó verið fagnaðarefni: Pétur sonur minn að útskrifast úr HR, afmæli eiginmannsins og barnabarnsins, stórafmæli hjá góðum vini og ýmislegt annað. Svona er þetta svo oft í lífinu - ef það kemst hreyfing á hlutina á annað borð, þá fer einhvernvegin allt af stað.
En sumsé, nú er ég komin með nýtt hús! Bara frágangsatriðin eftir. Siggi kominn suður og fer nú um húsið vopnaður borvél, hamri og skrúfjárni - bara ansi verklegur.
Ég er auðvitað alsæl í augnablikinu - enda er reikningurinn fyrir herlegheitunum ekki kominn.
En nú má ég ekki vera að því að hangsa hér - er farin að skúra og gera hreint.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sól slær silfri á voga ...
31.5.2009 | 14:27
"... sjáðu jökulinn loga" syngur nú Óðinn Valdimarsson í tölvunni minni. Ég sá nefnilega á símanum mínum að Magga vinkona hafði sent mér SMS þann 28. maí um að lagið væri í útvarpinu, en ég var þá bundin í þingsalnum og slökkt á símanum. Kannski eins gott - því ekki veit ég hvernig þingheimur hefði brugðist við því ef ég hefði farið að syngja hástöfum í símann, eins og við vinkonurnar erum vanar að gera þegar þetta lag kemur í útvarpinu.
(Reyndar hefur mér alltaf tekist að halda kúlinu og syngja bara, hvernig sem á stendur - en nú gæti málið farið að vandast ef þingfundur er yfirstandandi þegar hún hringir)
En semsagt: Til að bæta fyrir þá synd mína að hafa ekki svarað samstundis og sungið þetta með henni - eins og venjan er - þá settist ég nú við tölvuna til að hlusta á þáttinn hennar Lönu Kolbrúnar frá því á fimmtudag. Og hér er sumsé þátturinn sem mér heyrist að hafi verið helgaður Óðni Valdimarssyni og hans samtímamönnum í tónlistinni.
Lagið góða er um miðbik þáttarins - þið færið bara stikuna rétt framan við miðju, og þá ómar þetta dásamlega lag, sem enginn hefur hingað til getað sungið betur.
"Sól slær silfri á voga" hér fyrir vestan í dag - blíðskaparveður og ég er á leið með vinkonu minni vestur á Patreksfjörð í fermingarveislu.
Njótið helgarinnar.
PS: þessa fallegu mynd fékk á á Wikipediu, veit því miður ekki hver tók hana.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)