Færsluflokkur: Dægurmál
Aðalþing Neytendasamtakanna - hvar voru fjölmiðlar?
20.9.2008 | 00:29
Í dag hófst aðalþing Neytendasamtakanna sem stendur þar til síðdegis á morgun. Ég var í hlutverki þingforseta og gat því fylgst vel með umræðum dagsins, sem voru áhugaverðar. Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra var með fróðlegt erindi í upphafi þings, byggt á tölulegum upplýsingum, um stöðu neytendamála í Evrópu. Í kjölfarið var svo fjallað um hagsmuni heimilanna gagnvart hugsanlegri Evrópusambandsaðild. Jón Sigurðsson fv. ráðherra (og fv Framsóknarformaður) og Ragnar Árnason hagfræðingur fluttu framsögur um það efni. Hvorugur er raunar hlynntur aðild - en báðir voru með athyglisverðar ábendingar og upplýsingar sem vöktu mann til umhugsunar um ýmislegt varðandi bæði kost og löst á Evrópusambandsaðild.
Þá var einnig fjallað um tryggingamarkaðinn á Íslandi og nýlega rannsókn sem gerð hefur verið á starfsemi og umsvifum tryggingafélaganna hér á landi í samanburði við tryggingamarkaðinn í nágrannalöndum.
Eins og gefur að skilja var staða neytenda í landinu í brennidepli og möguleikar þeirra til þess að fá leiðréttingu sinna mála sem og upplýsingar um vörur og þjónustu, m.a. erfðabreytt matvæli, upprunaland framleiðsluvöru og fleira. Satt að segja hefur ekki gengið allt of vel að fá íslensk stjórnvöld til að móta reglur um rétt neytenda til vitneskju um erfðabreytt matvæli, svo dæmi sé tekið.
Fjarvera fjölmiðla vakti athygli mína. Enginn fulltrúi útvarps- eða sjónvarpsstöðva var þarna sjáanlegur. Öðruvísi mér áður brá, þegar aðalþing neytenda í landinu þótti sjálfsagt fréttaefni ásamt viðtölum og ítarlegum umfjöllunum um það sem heitast brynni á neytendum. Hvað veldur? Hafa fjölmiðlar misst áhugann? Skortir eitthvað á upplýsingagjöfina til þeirra?
Ég veit ekki - segi bara það eitt, að mér hefði fundist vel við hæfi að sjá þarna eins og einn eða tvo fréttmenn að fylgjast með þinginu og þeim umræðum sem þar fóru fram í dag.
En kannski segir það allt sem segja þarf um stöðu íslenskra neytenda, að fjölmiðlar skuli ekki sjá ástæðu til að sinna því þegar Neytendasamtökin þinga.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hver orti?
18.9.2008 | 10:01
Gráttu ei þótt svíði sár.
Sinntu ráði mínu.
Heimur öll þín hæðir tár
og hlær að böli þínu.
Þennan beiska húsgang lærði ég fyrir margt löngu - ekki fylgdi þó sögunni eftir hvern hann er. Hljómar svolítið eins og Bólu-Hjálmar, en ég veit þó ekki til þess að hann hafi ort þetta.
Og fyrst ég er byrjuð - þá væri fróðlegt að vita höfund að tveimur vísum í viðbót, ef einhver getur hjálpað mér:
Lastaranum líkar ei neitt,
lætur hann ganga róginn.
Finni hann laufblað fölnað eitt
hann fordæmir allan skóginn.
Taktu'ekki níðróginn nærri þér
það næsta gömul er saga.
Sjaldan lakasta eikin það er
sem ormarnir helst vilja naga.
Er einhver þarna úti sem getur frætt mig um þetta?
Fylleríinu lokið - vondir timburmenn yfirvofandi
17.9.2008 | 10:35
Undanfarinn áratug hafa íslensku útrásarfyrirtækin siglt seglum þöndum við fagnaðarlæti og hvatningaróp hérlendra ráðamanna og fjölmiðla sem kepptust við að dilla og hossa íslensku strákunum í viðskiptalífinu. Þeir voru jú að meika það drengirnir með tugmilljónir króna í mánaðarlaun og kaupréttarsamninga á fáheyrðum kjörum.
Þetta myndband á síðunni hennar Láru Hönnu segir ákveðna sögu um það sem að baki lá.
En nú er fylleríinu líklega lokið og óhjákvæmilegir timburmenn framundan. Íslensku útrásarjöfrarnir eru í svipuðum sporum og bóndinn sem fór í kaupstaðarferð og fékk sér of mikið neðan í því hjá kaupmanninum lyktandi af ævintýrum gærdagsins og líður ekkert allt of vel undir augnaráði heimilisfólksins.
Nýsir á barmi gjaldþrots | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Á vængjum söngsins á Tónlistardaginn mikla!
16.9.2008 | 10:27
Í dag ætla ég ekki að hugsa um pólitík. Ég ætla bara að svífa "Á vængjum söngsins" í tilefni af því að nú er Tónlistardagurinn mikli framundan hér á Ísafirði næstkomandi laugardag. Þessi tónlistarveisla er haldin í tengslum við 60 ára afmæli Tónlistarskólans hér - og nú verður mikið um að vera. Allir kórarnir á svæðinu hafa verið virkjaðir í tónlistarflutning og íbúarnir sjálfir, því fólk mun geta komið inn á heimili bæjarbúa og hlýtt þar á tónlistarflutning heimafólks (sniðugt minnir svolítið á fiskidaginn).
Nú vill svo skemmtilega til að einkennislag Tónlistardagsins mikla er ABBA lagið "Thank you for the music" í íslenskri þýðingu. Lagið var valið í vor, áður en myndin Mama mia sló hér í gegn, áður en ABBA æðið gekk yfir landið. En nú fellur þetta alltsaman eins og flís við rass.
Ég fékk þann heiður að þýða textann og hann útleggst hjá mér "Á vængjum söngsins " . Þessari þýðingu hefur nú verið dreift í hús á Ísafirði, skilst mér, því það er ætlunin að allir taki undir með kórunum á Silfurtorginu á Ísafirði á laugardaginn. Ég verð sjálf fjarri góðu gamni, upptekin við að stjórna aðalþingi Neytendasamtakanna með meiru. En ég verð með í anda.
Fyrir þá sem vilja æfa sig, þá fer textinn hér á eftir. Og HÉR getið þið séð lagið sungið af ABBA.
En þýddi textinn er svona:
Látlaus ég virðist, ég verð sjaldan æst eða reið.
Ef ég segi sögu - þá syfjar þig trúlega um leið.
En leynivopn á ég - eitt dásemdarþing,
því kliðurinn þagnar þegar ég syng.
Það er hamingjugjöf
og mig langar að hrópa yfir höf.
Á vængjum söngsins hef ég svifið
í sorg og gleði,
sungið dátt með glöðu geði.
Án þess væri lífið svo laust við lit og róm.
Innihaldstóm
væri þá ævitilveran öll.
Á vængjum söngsins hef ég svifið
um lífsins tónahöll.
Dálítil hnáta ég dansaði af lífi og sál.
Ég dreymandi söng, því söngur var mitt eina mál.
Og oft hef ég hugsað hvers virði það er
að heyra og finna í brjóstinu á sér
þessa hljómkviðu slá,
hjartastrengina samhljómi ná.
Á vængjum söngsins hef ég svifið ....
Þakklæti finn ég - þegar ég syng af hjartans lyst.
Rödd mína þen ég hátt svo allir heyri:
Þennan róm, þennan tón, þennan hljóm.
Söngs á vængjum svíf ég - í sorg og gleði.
Syng ég dátt með glöðu geði ,
án þess væri lífið - svo laust við lit og róm.
Innihaldstóm
væri þá ævitilveran öll.
Á vængjum söngsins hef ég svifið
um lífsins tónahöll.
-----
PS: Í dag (18. sept) leiðrétti ég textann sem var settur hér inn í fyrstu - ég hafði í ógáti tekið eldri drög að textanum. Þetta hefur nú verið lagað - þetta er endanlegi textinn hér fyrir ofan.
Dægurmál | Breytt 22.9.2008 kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Landsföðurlegur Geir - í vandræðum vegna Árna Matt
15.9.2008 | 10:43
Athyglisvert var að hlusta á ræður manna í Silfri Egilsí gær. Augljóst er að Sjálfstæðismenn vilja sem minnst gera úr þessu útspili Árna Matthiesen að lögsækja ljósmæður í miðri kjaradeilu. Forsætisráðherra talaði eins og lögsóknin væri "lagatæknilegt" úrskurðaratriðið sem "breytti ekki deilunni um kjörin" eins og þetta væru tvö aðskilin mál algjörlega úr tengslum hvert við annað.
Jebb ... menn eru í stökustu vandræðum, sem vonlegt er. Því það er auðvitað alveg sama hvað hver segir, lögsókn fjármálaráðherra á ljósmæður nú þegar verkföll eru hafin, er auðvitað innlegg í sjálfa deiluna og fjarri því að vera óháð henni. Hafi þetta legið fyrir frá því í júlí að efasemdir væru uppi um lögmæti uppsagna ljósmæðra, þá er þetta vægast sagt undarleg tímasetning núna.
Annars var Geir Hilmar bara landsföðurlegur og traustvekjandi í samtalinu við Egil. Það var gott að heyra hann tala af föðurlegri visku eftir hrunadans efnahagsumræðunnar í fyrri hluta þáttarins þar sem allt var á fallanda fæti, ævisparnaður fólks horfinn í kreppuhít og ég veit ekki hvað. Ef Kristinn H hefði ekki verið til staðar að stemma þau ósköp öllsömul af, veit ég ekki nema maður sæti enn stjarfur af skelfingu fyrir framan skjáinn.
En sumsé - svo kom Geir og sagði mér og fleirum að verðbólgan myndi minnka hratt á næsta ári. Í stjórnarráðinu væru menn að takast á við vandann og finna á honum lausnir af ábyrgð og yfirvegun. Hann náði mér úr þeim skelfingargreipum sem ég var komin í eftir að hlusta á Andrés Magnússon fyrr í þættinum. Og maður skyldi ekki vanmeta það hlutverk landsfeðra að tala til fólksins og róa það á viðsjárverðum tímum.
Geir er viðkunnanlegur maður - mildur og rökfimur. Maður hefur tilhneigingu til að trúa honum. Sem er gott eins og á stendur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ráðherra hótar ljósmæðrum lögsókn!
11.9.2008 | 22:33
Árna Matthiesen væri nær að semja við ljósmæður en lögsækja þær. Hann hefur nú stefnt þeim fyrir dómstóla fyrir það sem hann kallar "ólöglegar uppsagnir". Ég held barasta að maðurinn sé að missa alla veruleikatengingu.
Þessi stefna fjármálaráðherrans er það eina sem gerst hefur í kjaradeilu ríkisins við ljósmæður frá því þær sigldu í strand. Sumsé: Ef ekki semst við þessar kellingar - lögsækjum þær þá bara. Hræðum þær ærlega - þær hljóta einhverntíma að hætta þessari vitleysu.
Hvað er maðurinn að hugsa? Heldur hann að þetta sé vænlegt til þess að leysa kjaradeilu sem snýst um margra ára uppsafnaða óánægju yfir augljósu óréttlæti?
Það er staðreynd að ljósmæður fá ekki menntun sína metna til jafns við aðrar stéttir. Um það eru skýr og óhrekjanleg dæmi. Viðsemjandinn er ríkið - og samkvæmt stjórnsýslulögum ber ríkinu að virða jafnræðisreglu stjórnarskrár. Þið fyrirgefið, en ég sé engan grundvallarmun á því hvort fólki er mismunað við stjórnsýsluákvarðanir eða í kjarasamningum þar sem ríkið er viðsemjandi. Eiginlega finnst mér vel athugandi fyrir ljósmæður að láta reyna á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar vegna þess hvernig komið hefur verið fram við þær í kjarasamningum allar götur frá því að núverandi menntun ljósmæðra varð viðtekin regla. Þær eru ekki að fara fram á neinar hækkanir, heldur hreina og klára leiðréttingu - afnám óréttar og mismununar.
Árni Matthiesen hefur orðið sér til skammar með þessari lögsóknarhótun. Og ef ríkisstjórnin situr þegjandi og horfir upp á þetta, þá er ekki orð að marka það sem stjórnarflokkarnir hafa sett á blað um jafnréttismál.
Svei.
Ljósmæður: Uppsagnir löglegar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 12.9.2008 kl. 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
Litla hetjan Ella Dís ...
11.9.2008 | 14:55
... er haldin afar sjaldgæfum hrörnunarsjúkdómi sem læknar standa ráðþrota gagnvart. Hún er aðeins 2ja ára gömul. Móðir hennar hefur undanfarin misseri háð harða baráttu með dóttur sinni og leitað henni lækninga eftir megni - en átt mjög á brattann að sækja.
Fátt er þungbærara foreldrum en að horfa upp á alvarleg veikindi barna sinna. Í tilviki sem þessu gefur einnig auga leið að baráttan er kostnaðarsöm og ströng. Móðirin getur ekki vikið frá barninu.
Nú er hafin söfnun fyrir Ellu Dís og fjölskyldu. Á bloggsíðu Rauða ljónsins má finna nánari upplýsingar um aðdraganda og málsatvik. En reikningsnúmerið er 0525-15-020106 Kennitala: 020106-3870.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hvert örstutt skref - getur verið býsna þungt fyrir suma
10.9.2008 | 22:15
Það kom mér á óvart er ég las á heimasíðu Mænuskaðastofnunar Íslands að rannsóknir á mænuskaða eru enn af skornum skammti þó svo að mænuskaði hafi gríðarlega alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir þá sem fyrir honum verða. Fólk sem verður fyrir mænuskaða á m.ö.o. litla von um bata og að meðhöndlun þeirra byggir fyrst og fremst á því að læra að lifa með skaðanum.
Um þessar mundir er að hefjast fjáröflunarátak Mænuskaðasamtaka Íslands sem lýkur með viðamikilli söfnunardagskrá á Stöð tvö föstudaginn 19. september. Margir munu þar leggja hönd á plóg og ýmsir hafa hvatt til stuðnings við þetta mikilvæga átak.
Hér á Íslandi hafa málefni mænuskaddaðra átt sér ötulan baráttumann í Auði Guðjónsdóttur sem beitti sér fyrir stofnun Mænuskaðastofnunar Íslands í desember fyrir ári. Auður er móðir Hrafnhildar Thoroddsen sem slasaðist alvarlega í bílslysi fyrir 20 árum og hefur síðan lifað við mænuskaða. Þær mæðgur hafa árum saman barist fyrir úrbótum í málefnum mænuskaddaðra, og meðal annars komið því til leiðar að sett var á stofn Mænuskaðastofnun Íslands. Er fróðlegt að fara inn á heimasíðu stofnunarinnar www.isci.is og kynna sér markmið hennar og áætlanir.
Markmið stofnunarinnar er að vera leiðandi afl á sviði úrræða fyrir mænuskaddaða og vinna að því með öllum tiltækum ráðum að lækning á mænuskaða verði að veruleika. Í þeim tilgangi leitast stofnunin við að vekja athygli á málefninu á alþjóðavettvangi og safna fé til handa læknum, vísindamönnum og öðrum sem vinna að framförum til heilla mænusködduðum.
Að ýmsu má ráða að mörg verkefni eru óunnin enn í málefnum mænuskaddaðra og því fyllsta ástæða til þess að leggja þessu átaki lið.
Dægurmál | Breytt 11.9.2008 kl. 14:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Nú er lag fyrir ríkisstjórnina ...
3.9.2008 | 21:50
Gott hjá læknunum að styðja ljósmæðurnar í sinni kjarabaráttu. Fyrir utan okkur sem höfum upplifað barnsfæðingar eru læknar líklega sá hópur fólks sem skilur hvað best mikilvægi ljósmóðurstarfsins.
Það er ótrúlegt en satt, að laun ljósmæðra eru með því sem lægst gerist innan Bandalags háskólamanna þótt nám þeirra sé eitt það lengsta sem krafist er af ríkisstarfsmönnum. Byrjunarlaun ljósmæðra eru til dæmis mun lægri en byrjunarlaun verkfræðinga með meistaragráðu.
Ég vona líka að fólk hafi tekið eftir frétt sjónvarpsins í kvöld um launamun á ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum. Þar kom fram að hjúkrunarfræðingur sem bætir við sig ljósmæðranámi og fer að starfa sem ljósmóðir getur lækkað við það í launum. Í öðrum tilvikum hækkar hann lítillega, en þó aldrei jafn mikið og ef hann hefði bara unnið áfram sem hjúkrunarfræðingur og sleppt því að fara í ljósmóðurnámið - tveggja ára nám.
Nei, það er löngu tímabært að störf ljósmæðra verði endurmetin miðað við þá miklu ábyrgð sem þær gegna.
Ríkisstjórnarflokkarnir hafa þá stefnu að jafna óútskýrðan kynbundinn launamun hjá hinu opinbera. Nú er lag fyrir ríkisstjórnina að stíga mikilsvert skref í þá átt og semja um kjör handa ljósmæðrum sem standast samanburð við sambærilegar karlastéttir.
Slíkt framtak gæfi íslenskum konum a.m.k. von um að jafnréttismarkmið ríkisstjórnarinnar næðu einhvern tíma fram að ganga.
Læknar lýsa yfir stuðningi við ljósmæður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Semjið við ljósmæður
2.9.2008 | 11:52
Íslenskar ljósmæður eru trúlega friðsamasta starfsstétt landsins og langlundargeði þeirra við brugðið. Árum saman hafa þær með friðsemd reynt að fá menntun sína og störf metin að verðleikum í samræmi við aðrar stéttir í þjónustu hins opinbera með svipaða menntun. Viðsemjendur hafa skellt við skollaeyrum.
Menntuð ljósmóðir þarf að ljúka fullgildu hjúkrunarnámi og bæta síðan við sig ljósmóðurfræðum. Þetta er tvöfalt háskólanám - álíka langt og læknisnám. Engu að síður eru hjúkrunarfræðingar í mörgum tilvikum (ef ekki öllum) með hærri laun en ljósmæður. Fyrir því eru engin rök - bara gamall arfur frá því að ljósmóðurmenntun var með öðrum hætti. Það er langt síðan.
Nú er þolinmæði ljósmæðra á þrotum og þær hafa boðað til tímabundinna verkfalla sem hefjast á fimmtudag hafi samningar ekki tekist. Þær eru þó ekki bjartsýnar - viðsemjendurnir eru stífir og enn strandar á kröfunni um að menntun þeirra sé metin til launa.
Auðvitað er óverjandi að landa ekki viðunandi samningi um kaup og kjör þessarar mikilvægu kvennastéttar áður en kemur til verkfalls. Og það er ólíðandi að menntun kvenna skuli ekki metin til jafns við það sem gerist annarsstaðar á vinnumarkaði. Ég tala nú ekki um þegar um er að ræða konur í jafn mikilvægum störfum og ljósmóðurstörf eru.
Það er heldur ekki ásættanlegt að konur komnar að fæðingu skuli þurfa að vera í óvissu um aðbúnað sinn og aðstæður þegar kemur að fæðingu. Kvíði og óöryggi eru óholl barnshafandi konum, og ef eitthvað er líklegt til að valda þungaðri konu kvíða, þá hlýtur það að vera yfirvofandi verkfall ljósmæðra.
Ég skora á ríkisstjórnina - að minnsta kosti Samfylkinguna - að beita sér fyrir því að samningar náist við ljósmæður.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)