Færsluflokkur: Dægurmál
... þá voru flestir hvergi!
2.10.2008 | 11:28
Nú þarf að bjarga heimilunum, og það strax - segir Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasmtakanna í grein sem hann skrifar á heimasíðu samtakanna. En mér kemur í hug vísan góða (og napra) eftir Friðrik Jónsson:
Heimsins brestur hjálparlið,
hugur skerst af ergi.
Þegar mest ég þurfti við
þá voru flestir hvergi.
Annars kann ég ekki glögg deili á höfundi vísunnar - held þó að hann að þetta sé Friðrik Jónsson frá Halldórsstöðum í Reykjadal. Gaman væri að fá athugasemd frá einhverjum sem veit þetta.
Nú þarf að bjarga heimilunum og það strax | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Vond minning um eldsvoða
30.9.2008 | 11:39
Stórbruninn í Vestra-Fíflholti í Landeyjum vekur upp hjá mér vonda minningu frá þeim tíma þegar ég var ungur fréttamaður á Sjónvarpinu send austur að Ketilstöðum á Völlum þar sem hafði orðið eldsvoði í fjósi nóttina áður. Á þriðja tug stórgripa drápust í þessum bruna. Ég var sett um borð í flugvél þarna um morguninn og beint á vettvang, eiginlega áður en ábúendur höfðu sjálfir náð að átta sig á aðstæðum.
Aðkoman var svo hræðileg að því lýsa engin orð, enda skelfileg fjörbrot sem brjótast út þegar stórgripir brenna inni. Þegar okkur bar að garði var allt yfirstaðið, en ummerkin óhögguð. Lyktinni gleymi ég aldrei.
Ég finn til með öllum þeim sem hafa þurft að koma að þessu í morgun. Ábúendur í Vestra-Fíflholti eiga samúð mína alla - eignatjónið er augljóslega mikið, en trúlega er tilfinningaskaðinn ekki minni.
Missti 120-130 nautgripi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sarah Palin - úff!
29.9.2008 | 23:45
Jæja, þá er gríman endanlega fallin af Söru Palin. Útslagið gerði þetta viðtal á CBS sjónvarpsstöðinni. Og fyrir vikið fékk hún þessa útreið hjá bandarískum álitsgjafa að nafni Jack Cafferty. Það var verðskulduð útreið.
Sara Palin kom með glæsibrag inn á sviðið á flokksþingi repúblikana fyrir fáeinum vikum - leynivopnið sem McCain skellti fram öllum að óvörum þegar hann tilnefndi hana sem varaforsetaefni sitt. Hún flutti snilldar ræðu, kom vel fyrir og sjarmeraði alla upp úr skónum.
Síðan hefur lítið til hennar heyrst - og sennilega er skýringin hér lifandi komin. Konan veit ekkert um utanríkismál. Hún er óörugg í návígi. Hún er ekki með stefnu sína á hreinu, hvorki í utanríkismálum né velferðarmálum. Skoðanir hennar á lífinu og tilverunni eru undarlega afturhaldssamar og kreddufullar. Þá er ég ekki að tala um trúarlíf hennar, sem hefur verið dregið inn í umræðuna. Auðvitað má konan hafa sína trú. En það er margt í málflutningi hennar sem vekur manni ugg. Jafnvel repúblikönum er nóg boðið, sumum hverjum.
Það er kannski ekki nema von að hún skuli þiggja fyrirbænir og handayfirlagnir úr ýmsum áttum - henni veitir sjálfsagt ekkert af.
Satt að segja leist mér ekkert á blikuna fyrir demókratana fyrst eftir að Palin kom fram, sérstaklega í ljósi þess að Obama hafði ekki vit á að taka Hilary Clinton sem sitt varaforsetaefni. Ég bloggaði meira að segja um það hversu flott og sjarmerandi kona þetta væri - og uppskar ótrúlega sterk og heiftúðug viðbrögð.
Það er augljóst að Palin kallar fram sterkar tilfinningar hjá fólki - og það kemur því miður ekki til af góðu. Ég sé það núna.
En - svo ég gerist nú sek um svolitla "skadeglæde" - þá er þetta ekki slæmt fyrir demókratana.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Systkinafundur Skutuls og Kötlu
28.9.2008 | 19:26
Þetta eru systkinin Skutull og Katla. Þau eru fimm mánaða Border-Collie hvolpar frá Hanhóli í Bolungarvík. Við erum tvær bloggvinkonur sem eigum þessa hvolpa. Á laugardaginn fengu systkinin að hittast eftir þriggja mánaða aðskilnað - og það urðu fagnaðarfundir sem gaman var að fylgjast með. Þau þekktust strax.
Leiðir skildi með hvolpunum tveimur í sumar þegar ég ég tók Skutul til mín, þá tíu vikna gamlan. Ég átti svolítið erfitt með að velja á milli tveggja hvolpa - það voru einmitt þessir tveir - því lítil tík í hvolpahópnum var svo einstaklega vinaleg og hænd að mér, að mér var skapi næst að taka hana. Skutull hafði vinninginn, en sú stutta var mér svo hugleikin að ég auglýsti hana á bloggsíðunni minni í von um að hún fengi gott heimili. Ég vissi sem var, að hennar biði annars eilífðin.
Og viti menn - var þá ekki Lára Hanna bloggvinkona mín einmitt að hugsa um að fá sér hund. Niðurstaðan varð sú að ég sótti litlu tíkina - sem seinna fékk nafnið Katla - gaf henni ormalyf, baðaði hana og hafði hjá mér einn dag, Skutli til mikillar ánægju. En svo kom að því að hún var sett um borð í flugvél sem sveif með hana til fundar við framtíðareigendurna. Síðan hefur Katla búið við gott atlæti á Vesturgötunni í Reykjavík.
Endurfundir systkinanna urðu við Gróttu, í tilefni af því að við Skutull vorum bæði stödd í höfuðborginni í síðustu viku - í næsta nágrenni við Vesturgötuna - og nú þótti upplagt að leyfa þeim að hittast. Er skemmst frá því að segja að þau þekktust strax og hófust nú miklir leikar, hlaup og stökk.
Lára Hanna tók fjöldann allan af myndum sem hún var svo elskuleg að senda mér - og hér sjáið þið nokkrar þeirra. Eins og gefur að skilja var ekki einfalt mál að ná fókusnum enda mikið fjör og gaman.
Hispurslaus eineltisumræða
28.9.2008 | 11:23
Margir eiga sárar minningar um einelti frá barnæsku. Í Morgunblaðinu hefur ungur maður nú ákveðið að deila með lesendum vanlíðan sinni og erfiðum tilfinningum sem hann mátti kljást við vegna eineltis í skóla. Hann segir hispurslaust frá því hvernig honum leið - hafi hann þökk fyrir.
Þessi ungi maður segir frá því hvernig hugsanir hans á þeim tímasem eineltið gekk næst honum koma heim og saman við það sem lesa má úr játningum og skilaboðum þeirra sem framið hafa ódæðisverk á skólafélögum sínum á borð við fjöldamorðið sem framið var nú síðast í finnskum framhaldsskóla.
Ég bendi líka á bloggsíðu Róberts Björnssonar sem varð fyrir einelti í æsku, og fjallar hreinskilnislega um þá reynslu sína. Róbert segir einnig frá því hvernig umfjöllun hans varð í reynd til þess að opna augu eins af fyrrum skólafélaga hans sem tók þátt í eineltinu gegn honum. Það er líka athyglisvert að lesa viðbrögð Jens Guðmundssonar á sömu síðu, þar sem hann segir heiðarlega frá því hvernig hann lagði félaga sinn í einelti sem barn fyrir það að sá síðarnefndi skaraði fram úr honum í gítarleik. Viðbrögð Jens stöfuðu af því að hann kunni ekki að bregðast við eigin vanmætti gagnvart öðrum.
Einelti er alvarlegt mál - sama hvernig að því er staðið eða á hvaða aldursskeiði það á sér stað. Þess vegna er heldur ekki sama hvernig menn nota hugtakið "einelti". Það er með þetta hugtak eins og önnur ofbeldishugtök, til dæmi "nauðgun", "pynting", "kúgun" , "kvalari", o.fl. að í ýtrustu merkingu sinni eru þau svo grafalvarleg að það er ekki sama hvernig með þau er farið.
Eitt af því sem gerir einelti flókið er að þeir sem taka þátt í því gera sér oft ekki grein fyrir því sjálfir. Þeir taka óbeinan þátt með þögninni, með því að fylgja kvalaranum að málum og láta sér líðan og afdrif fórnarlambsins í léttu rúmi liggja. Þetta er jafnvel gert í nafni einhvers málstaðar - því vitanlega þarf réttlætingar fyrir illverkum. Það þekkjum við frá tímum Gyðingaofsóknanna, McCarty-ismans í Bandaríkjunum, galdraofsóknanna á 17. öld, og þannig mætti lengi telja. Einelti getur að sjálfsögðu beinst gegn hópi fólks og er oft hagsmunadrifið.
Þess vegna viðgengst einelti víða í samfélaginu - víðar en margan grunar. Við sjáum stjórnmálamenn sem lagðir eru í einelti af flokksfélögum og fjölmiðlum ár eftir ár. Sömuleiðis opinbera embættismenn og poppstjörnur. Einelti á sér oft flóknar félagslegar orsakir sem full ástæða er til að taka alvarlega og reyna að átta sig á. Það getur verið vafið inn í einhverskonar "ágreining" eða "skoðanamun" sem er oft ekkert annað en fyrirsláttur til þess að geta sótt að einstaklingum.
Sérstaklega er mikilvægt að kennarar og uppalendur séu á varðbergi gagnvart einelti í skólum og grípi inn í það umsvifalaust. Dæmin sanna að ef einelti er látið óátalið nærir það heift og haturstilfinningar í brjósti þolenda um leið og það ýtir undir yfirgang og skeytingarleysi gagnvart mannlegum tilfinningum hjá þeim sem komast upp með það.
Þetta er þörf umræða.
Ætlaði að pynta þau og drepa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ruslið í Reykjavík
26.9.2008 | 14:42
Síðustu daga hef ég verið að sinna vinnu og ýmsum erindum í Reykjavík. Þetta eru auðvitað blautir og vindasamir haustdagar þegar lauf fýkur af greinum og svosem ekki við því að búast að götur borgarinnar skarti sínu fegursta. Enda gera þær það ekki.
Hvert sem litið er blasir við pappírsrusl, matarleifar, blautir vettlingar, dósir. Sérstaklega er ástandið ömurlegt í kringum JL-húsið og Ánanaustin í Vesturbæ. Á Holtsgötunni eru pizzukassar, smokkar og skítugar nærbuxur að velkjast um á götunni. Á göngustígnum sem liggur meðfram sjónum í átt að Seltjarnarnesi hef ég gengið fram hjá gegnblautri sæng ásamt matarleifum og ýmsu ógeðfelldu rusli síðustu daga. Enginn þrífur þetta. Það fýkur bara um og treðst undir fótum manna innanum fölnuð haustlauf sem fylla allar göturennur og liggja meðfram húsum. Því miður hef ég ekki verið með myndavélina meðferðis, en þessi mynd sem ég tók af veraldarvefnum er engu að síður lýsandi fyrir það sem ég er að tala um.
Hvar er hreinsunardeild borgarinnar?
Já, vel á minnst: Í erlendum borgum sér maður yfirleitt götusópara að störfum við fjölfarna staði. Ég hef aldrei séð götusópara á Íslandi. Kannski er tími til kominn að ráða eins og eina herdeild af götusópurum til þess að þrífa til á götum borgarinnar - gera það að átaksverkefni í nokkra mánuði að taka til og þrífa.
Íslendingar virðast vera sóðar - og ekki kennum við uppvaxandi kynslóð að ganga vel um borgina ef við göngum ekki betur um hana sjálf en raun ber vitni. Hér þarf átak.
Já, það þarf allsherjar hreingerningu í Reykjavík.
Rán en ekki lán?
25.9.2008 | 10:42
Haustið 2005 keypti ég hús hér vestur á Ísafirði og tók af því tilefni 12 mkr lán á föstum 4,15% vöxtum út lánstímann. Greiðslubyrði lánsins var á þeim tíma 50 þús kr á mánuði.
Nú - þremur árum síðar - hef ég greitt um 1,8 mkr af þessu láni - en það hefur á sama tíma hækkað úr 12 mkr. í 14,5 mkr. Það er þriðjungi hærri upphæð en nemur afborgunum.
Mánaðarleg afborgun hefur hækkað úr 50 þús í 64 þúsund kr.
Ég þori ekki að hugsa þá hugsun til enda, hvernig staðan verður eftir önnur tvö ár - ég tali nú ekki um tíu ár - ef áfram heldur sem horfir.
Þessi saga er sambærileg fjölmargra annarra sem hafa þurft að taka lán til að fjármagna fasteignakaup að undanförnu. Einn þeirra kemur fram í meðfylgjandi frétt í 24 stundum sem mbl gerir að umtalsefni í dag. Það hljóta allir að sjá hvílík hít blasir við þeim sem skulda hærri upphæðir - ég tala nú ekki um ef fólk hefur tekið lán með breytilegum vöxtum.
Mér er skapi næst að kalla þetta rán - en ekki lán.
"Sem betur fer fór maður ekki til bankanna" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 26.9.2008 kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Við erum of feit!
23.9.2008 | 17:53
Við Íslendingar verðum feitari og feitari með ári hverju. Sérstaklega á þetta við um börn og ungt fólk. Já, já - ég veit. Maður má ekki ýta undir anorexíu hjá ungum stúlkum með því að tala of mikið um líkamsvöxt og útlit. En ég bara get ekki orða bundist lengur. Ungt fólk í dag er of feitt. Og hana nú!
Á meðan ég var skólameistari - á árabilinu 2001-2006 - sá ég þetta óvenju glöggt. Ég sá mun á útskriftarhópunum ár frá ári. Fyrsta útskriftarárið lætur nærri að um fjórðungur útskriftarnemenda hafi verið það sem kalla mætti feitlaginn. Fimm árum síðar var um það bil helmingurinn í því holdarfari, og innan við fjórðungur það sem við köllum grannvaxið fólk.
Þetta kemur heim og saman við rannsóknir sem sýna að íslensk börn hafa á undanförnum áratugum þyngst mikið, líkt og til dæmis í Bandaríkjunum og á meginlandi Evrópu. Hins vegar hafa meðferðarúrræði fyrir of feit börn verið fá og sundurleit. Þó er mér kunnugt um að undanfarin þrjú ár hefur Heilsuskólinn á Barnaspítala Hringsins verið að þróa og rannsaka meðferð fyrir of feit börn og fjölskyldur þeirra. En meðferð er ekki nóg - hér þarf að stemma á að ósi - það þarf forvarnir.
Þessi þróun er trúlega menningarvandi - skortur á manneldisstefnu í þjóðaruppeldinu. Við sjáum matvælaframleiðendur auglýsa fitandi sykurvörur sem hollustu - og enginn gerir athugasemd. Skyrdrykkir og dísætar jógúrtvörur eru auglýstir með tilhöfðun til barna og unglinga sem hollustuvara. Sykurmagnið í sumum þessara drykkja er á við tvö glös af dísætum gosdrykk.
Kornflögurnar eiga að sjá manni fyrir öllum nauðsynlegum vítamínum dag hvern og lífshamingja og úthald velta á maltöli, pulsum og 1944 réttum, ef marka má auglýsingar.
Aldrei sé ég þó auglýsingar sem ganga gegn þessu skrumi - væri þó full ástæða til að verja einhverju af opinberu fé til þess að hafa áhrif á móti. Lýðheilsustöð mætti vel ráðast í auglýsingaherferð um hollt matarræði. Það er bara ekki nógu gott að matvælaframleiðendur sitji einir að auglýsingamarkaðnum með öllu því skrumi sem fylgir söluauglýsingum. Þetta er áróðursstríð.
Samhliða þarf að fara í fræðsluátak - ekki bara til barna og unglinga heldur líka til heimilanna í landinu. Því það er jú þar sem matarmenningin verður til.
Á tímum mikillar atvinnuþátttöku foreldra af báðum kynjum er enn ríkari ástæða til þess að standa vaktina. Og ef almenn umhyggja fyrir velferð barna og ungmenna nægir ekki til að ýta við yfirvöldum, þá hlýtur að vera hægt að sýna fram á það með útreikningum hversu íþyngjandi þetta mun verða fyrir heilbrigðiskerfið í framtíðinni, ef ekkert verður að gert.
Nú vandast málið: Hverjir eiga landið?
22.9.2008 | 09:42
Landeigandi í Mývatnssveit hefur sótt um rannsóknarleyfi og forgang að nýtingu jarðvarmaorku á eignarlandi sínu. Hann vill reisa 50 megawatta virkjun. Nú vandast málið - jarðvarmaorkan er nefnilega ekki til skiptanna. Það er búið að taka hana frá handa Landsvirkjun. Og eins og iðnaðarráðherra bendir á þá er "ekki hægt að fara með neinni rányrkju gagnvart jarðhitanum" því það verða "ekki meira en 90 megavött miðað við þær rannsóknir sem liggja fyrir teknar upp úr þessum sama geymi".
Þetta er athyglisvert mál. Það virðist aldrei hafa hvarflað að mönnum að landeigendur sjálfir hefðu bolmagn til þess að nýta landgæði af þessu tagi. En hvers vegna ætti Landsvirkjun að eiga meiri rétt en sjálfur landeigandinn til þess? Af hverju ætti hann ekki að mega rannsaka sjálfur og virkja á sínu landi? Hann gæti þá selt virkjun sína til Landsvirkjunar í stað þess að selja henni aðganginn að jarðvarmanum. Báðir gætu hugsanlega haft hag af þeim skiptum.
Já, nú vakna nokkrar áleitnar grundvallarspurningar: Hverjir eiga landið? Hvernig skal farið með auðlindir þess?
Nærtækt dæmi er fiskurinn í sjónum. Í sjávarútveginum ganga leyfi til nýtingar kaupum og sölum milli útgerða. Þar er engin formleg "landsútgerð" (þó að LÍÚ sé það kannski í raun) sem á forgangsrétt að þeirri takmörkuðu auðlind.
Kannski gætu menn lært eitthvað af því að skoða gæði lands og sjávar í einu samhengi til þess að átta sig á því hvernig réttast sé að fara með auðlindirnar og nýta þær.
Í því samhengi mættu menn líka líta á vítin sem varast ber.
Umsókn landeigenda í Reykjahlíð vekur furðu ráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Nei, hættið nú!
20.9.2008 | 21:45
Þegar ég var lítil stelpa skrifaði ég oft í minningabækur hjá vinkonum mínum. Þá setti ég gjarnan inn vísur sem ég kunni, teiknaði fugla og blóm í kringum þær og ... kvittaði svo undir alltsaman. Sama gerðu skólafélagar mínir, stelpurnar teiknuðu fiðrildi, hjörtu og blóm, strákarnir fjöll, sólskin og báta - en allir settu inn vísur eða kviðlinga ásamt "ég man þig - þú manst mig" og einhverju fleiru. Gott ef ég á ekki eina svona dagbók í fórum mínum frá gamalli tíð - og ef mér skjöplast ekki þá eiga dætur mínar svona bækur.
Nú hafa fundist tvær vísur sem Halldór Laxness skrifaði 12 ára gamall í minningabók hjá vinkonu sinni. Og menn eru farnir að fabúlera um að "hér sé kominn elsti varðveitti kveðskapur Halldórs Laxness". Það tók örfáar sekúndur að finna aðra vísuna með gúggli - eins og Guðmundur Magnússon sannreyndi og bloggaði um fyrr í dag. Hann fann vísuna á hinum frábæra vef Skjalasafns Skagafjarðar þar sem finna má fjölmargar lausavísur eftir ýmsa höfunda. Ekki er að orðlengja það, að önnur vísan er þar kennd Þorleifi Jónssyni á Hjallalandi í Vatnsdal. Hún er svona:
Haltu þinni beinu braut
berstu því með snilli
gæfan svo þér gefi í skaut
guðs og manna hylli.
Í ljósi þessa er heldur ólíklegt að 12 ára gamall drengur hafi ort hina vísuna, svo spök sem hún er - jafnvel þó við séum að tala um Nóbelskáldið. En sú vísa er svona:
Vart hins rétta verður gáð
villir mannlegt sinni,
fái æsing æðstu ráð
yfir skynseminni.
Ég held hann hafi bara verið að skrifa vísu í dagbók - eins og þúsundir Íslendinga hafa gert á unga aldri, og gera enn.
Elsti varðveitti kveðskapur Halldórs Laxness í póesíbók á Vegamótastíg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)